Færsluflokkur: Bloggar

Annað "gengistryggingaræði"?

Á árunum fyrir Hrun rann eins konar "gengistryggingaræði" á landsmenn.

 Síhækkandi gengi krónunnar, sem var uppblásin sápukúla þenslu af völdum stóriðju- og virkjanaframkvæmda, húsnæðis- og neyslulánasprengingar og framkvæmdaæðis, olli því að tugþúsundum saman tók fólk gengistryggð lán í trú á "íslenska efnahagsundrið" þar sem 30-40% prósent hærra gengi krónunnar umfram raungengi skapaði möguleika til stórgróða í fjárhættuspili, sem allir máttu sjá að gat ekki endað öðruvísi en að krónan félli á ný. 

Sápukúlan sprakk og síðan hafa ríkt hér gjaldeyrishöft.  

Nú má lesa um að rafræni gjaldmiðillinn bitcoin hafi þrefaldast í verði í tengslum við efnahagshrunið á Kýpur og að þetta sýni að stórfelldir gróðamöguleikar felist í því að veðja á þennan nýja hest nýrrar græðgisvæðingar.

Já, já, burt með gjaldeyrishöftin eins og ekkert sé eða hvað? Þetta hljómar grunsamlega líkt gylliboðunum 2003-2004 og árin þar á eftir og nú aftur 2013 varðandi 300 milljarða, sem bíði þess á næstu mánuðum að byrja að streyma í veskin hjá þeim sem skulda húsnæðislán.  

 


mbl.is Vill að Ísland taki upp bitcoin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Helgar fjölskylduhátíðanna.

Líklega byrja fjölskylduhátíðir sumarsins fyrst fyrir alvöru fyrstu helgina í júlí.

IMG_9702

Ættarmót og fjölskylduhátíðir vilja oft falla í skuggann í samanburði við aðrar hátíðir eins og bæjarhátíðir, sem mun stærri aðilar standa að og reyna að auglýsa sem mest þeir mega til að fá aðsókn og peninga til að borga kostnað og kannski svolítið meira. 

IMG_9687

Kannski eru þó fjölskylduhátíðir með útilegum og tilheyrandi mikilvægustu samkomur sumarsins, einkum þegar samheldnin og þátttakan eru mikil.

Þannig hefur fjölskylduhátíð afkomenda Jóhanns Jónssonar vélstjóra og Láru Sigfúsdóttur verið haldin árlega í 39 ár og eiga þessar fjölskylduútilegur því 40 ára afmæli á næsta ári.

Eins og nærri má geta hefur veðrið verið misjafnt þessi ár, en aldrei hefur aðsóknin brugðist og stemningin alltaf einstök.

Hátíðin hefur þann stóra kost að ævinlega hefur dagskráin verið algerlega sjálfsprottin sem og öll "skemmtiatriðin" og hafa mótast af sjálfu sér í þessa bráðum fjóra áratugi, allir lagt sitt af mörkum í afslöppun og ánægju. 

IMG_9732

Eitt fast atriði hefur að sjálfsögðu verið knattspyrnuleikur þar sem mörg mögnuð tilþrif hafa litið dagsins ljós.

Hér sést boltinn fara framhjá markinu eftir harða sókn.  

Í minnum eru til dæmis höfð tilþrif Óskars Olgeirssonar tengdasonar míns, þegar hann tók boltann á lofti með bakfallsspyrnu á eigin vallarhelmingi og senti hann í háum boga yfir í bláhorn marksins hinum megin á vellinum.

Því miður er ekki til mynd af því einstæða atviki en þessi sjón lifir í minningu þeirra, sem á horfðu. 

IMG_9738

 

Vegna þess hvernig jafnan hefur verið spilað af fingrum fram, eins og til dæmis þegar Sigfús mágur minn þenur nikkuna, og þrjár til fjórar kynslóðir taka þátt í söng og leikjum, myndast alltaf sérstaklega skemmtilegt áhyggjuleysi og jákvæðni sem gefið hefur hátíðinni sinn sinn ljúfa og ánægjulega blæ ár eftir ár og áratug eftir áratug.

IMG_9734

Það sýndist ekki árennilegt að halda fjöskylduútilegu í þetta sinn vegna arfa slæmrar veðurspár, en samt voru furðu margir komnir á vettvang á föstudag og það var svo sannarlega líf og fjör um þessa helgi eins og ævinlega.  

Það er sama hvernig veðrið er og skiptir engu þótt aldur þátttakenda sé allt frá tveggja ára til áttræðs, - stemningin bregst aldrei og allir eru samtaka um að gera þessa samveru sem innihaldsríikasta og skemmtilegasta.

Þess má geta að vegna bilunar í tölvunni minni verð ég að nota gömlu tölvuna hennar Helgu minnar yfir þessa helgi og kann ekki að tengja þetta blogg við facebook síðu mína, heldur fæ kannski í þessu undantekningartilfelli að tengja í yfir á hennar facebook síðu.  

 

 


mbl.is Skemmtanahald fór „óvenju vel“ fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hertar öryggiskröfur hluti af skýringunni?

Það eru góð tíðindi að umferðarslysum fækki en ekki auðvelt að staðhæfa, hvað valdi því. 

Ástæðan er sú að öryggi bifreiða hefur fleygt fram og eiga svonefndar NCAP-prófanir og stjörnugjöf upp í fimm stjörnur drjúgan þátt í því.

Þetta liggur í augum uppi varðandi það að sjálfir bílarnir hafa verið hannaðir þannig að þeir hlífi farþegunum sem best og auk þess hefur loftpúðum í þeim fjölgað jafnt og þétt, þannig að jafnvel næstminnsti bíllinn á markaðnum, Toyota IQ er með alls níu púða.

Hitt er kannski ekki eins augljóst, að NCAP-prófunin getur haft áhrif á slys á gangandi vegfarendum.

Ástæðan er sú að eitt atriði þessarar prófundar, er það hve illa fótgangandi vegfarendur farí út úr árekstri við viðkomandi bíl og eru gefnar stjörnur fyrir það allt upp í fimm stjörnur.

Ekki þarf annað en að líta á útlit nýjustu bílanna til að sjá að mjúkar og bogadregnar línur hafa rutt sér til rúms og raunin er sú að með því að hanna lag bílanna þannig að þeir meiði vegfarendur sem minnst ef þeir lenda á þeim, hefur öryggi hinna gangandi verið bætt mikið.

Árekstur á litlum hraða, sem áður olli einhverjum meiðslum, getur nú með breyttu lagi bílsins orðið til þess að hin gangandi manneskja slasist ekkert.

Og einnig getur þetta atriði líka átt þátt í því að slysin verði ekki eins alvarlega og áður.

Erfitt er að gera sér grein fyrir því hve stóran þátt tæknilegar endurbætur á bílum eiga í fækkandi slysum, en líklegt er að hlutur þeirra sé það drjúgur að þar liggi jafnvel eina skýringin á færri slysum og banaslysum.   

 


mbl.is Aldrei hafa færri fótgangandi slasast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfalt mál: Fara inn á vedur.is.

Ár á hálendisvegum á sunnanverðu landinu eru afar misjafnlega vatnsmiklar og fer það að sjálfsögðu mikið eftir því hve úrkoman er mikil.

Auðvelt er fyrir þá, sem ætla yfir þessar ár, að sjá það fyrir hve mikið verður í þeim með því að fara inn á vedur.is og skoða veðurathuganir á fjölmörgum athugunarstöðum og skoða einnig áætlanir um úrkomuk á þessum athugunarstöðum, sem birtar eru á sama vef.

Fyrir nokkrum dögum ók ég yfir Hellisá, sem var þá vel fær. En í úrhelli gerbreytist áin til hins verra.

Ég minnist þess úr rallkeppni síðsumars 1983 hvernig Gilsá innst í Fljótshlíð varð að skaðræðisfljóti í líkingu við það sem Hannes Hafstein lýsti í ljóði sínu um Valagilsá.  

Hannes gat ekki farið inn á vedur.is.  Það getum við á netöldinni miklu.


mbl.is Búið að bjarga ferðamönnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljós í myrkrinu, - veikindi verða til gagns.

Hún er átakanleg og mögnuð, sagan af ungu móðurinni sem dó skyndilega úr hjartaáfalli, en hægt var að bjarga barninu, sem hún gekk með með bráðakeisararskurði.

Tvö ljós voru þó í myrkrinu, björgun barnsins og það, að þetta tilfelli var hægt að nota til lærdóms fyrir lækna og hjúkrunarlið.

Þriggja mánaða tímabil vorið 2008 gekk ég í gegnum minnisstæð veikindi þar sem ljósið í myrkrinu var það, að þegar ég var beðinn um að vera verklegt "prófverkefni" vegna þess hve notadrjúgt tilfelli mitt gæti orðið, sló ég til og sá ekki eftir því.

Þessi sjúkdómsraun gæti þá orðið til góðs eftir allt.

Ég þurfti lítið að gera, aðeins liggja í rúmi uppi á Borgarspítala, láta skoða mig og svara einföldum spurningum, en auðvitað þannig að það væri eins og ég vissi ekki sjálfur af hverju veikindin stöfuðu.

Læknanemarnir sáu strax að ég var með svo mikla gulu, að augun voru dökkgul. En það reyndist ekki auðvelt fyrir þá að finna út, af hverju gulan stafaði, og misjafnt var hve lengi þeir voru að komast á slóðina, fóru jafnvel út af henni.

Þótt ég væri með ofsakláða, búinn að missa 16 kíló og 40% af blóðinu eftir næstum þrjá mánuði án þess að geta sofið, linaði það líðan mína að vera kominn í hlutverk í nokkurs konar spennandi vísbendingaspurningaþætti, þar sem léleg frammistaða þátttakenda gæti orðið þeim dýrkeypt eða dýrmæt eftir atvikum.

Flestir nemarnir komust á rétta leið í spurningunum með því að nota ályktunarhæfni og spyrja réttu spurninganna í sem réttastri röð.

Athyglisverðast var það hve ályktunarhæfni reyndist mikilvægari en mikil utanbókarþekking og að mikilvægt var var að ofmeta ekki mikla þekkingu.

Einn neminn óð strax af stað í því að þylja upp úr sér langar romsur af því sem hann kunni og var fullur af einstaklega miklu sjálftrausti, en fór fyrir bragðið út af réttri leið og leiddi sig sjálfur í ögöngur.

Alger andstæða hans var annar nemi, kona, sem var ekkert að flýta sér, heldur gaf sér góðan tíma til að íhuga hvert svar mitt, áður en næsta spurning var valin.

Þessi nemi virtist ekki hafa nærri eins mikil býsn af utanbókarlærdómi á hraðbergi og "besservisserinn" á undan, en komst þó best allra að réttri niðurstöðu um orsakir gulunnar og sjúkdómgreining hennar ver þessi:

Sjúklingurinn hafði þurft að taka inn mikið magn af sýklalyfinu Augmentin til að drepa illvíga sýkingu í risastóru graftarkýli í baki.

Lifrin þoldi ekki svona mikið magn af þessu ofursterka sýklalyfi og hætti að virka, upp kom svonefndur lifrarbrestur og afleiðingin af því var svonefnd stíflugula.

Vegna þess að lifrin virkaði ekki lengur vann hún ekki úr fitu og ýmsum öðrum efnum, sem fóru út í blóðið sem varð "aurugt" ef svo má segja.

Afleiðingin varð ofsakláði sem kom í veg fyrir svefn.

Engin svefnlyf eða deyfilyft var hægt að gefa til að lina kláðann og vanlíðanina, af því að lifrin réði ekki heldur við þau.

Ef þetta ástand hélt áfram nógu lengi var hætta á að sjúklingurinn gengi af göflunum og yrði "Kleppsmatur".

Það sem ruglaði suma nemana í ríminu, einkum þann sem fannst hann kunna mest, var það að gula getur stafað af ýmsum orsökum.

Konan, sem sýndi mesta yfirvegun og ályktunarhæfni brilleraði á prófinu, sýndi, að minnst hætta yrði á því í starfi framtíðarinnar að hún myndi gera læknamistök, heldur ætti í vændum farsælan og árangursríkan starfsferil. 


mbl.is „Lítið líf sem mátti bjarga“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næst mesta "rokrassgat" heims.

Á tímabilinu desember-mars er mesti meðal þrýstingsmunur á jörðinni suðvestan við Ísland. Norður af þessu svæði er næst hæsta hæð jarðar, Grænlandshæðin, - aðeins Síberíuhæðin er hærri.

Fyrir sunnan þetta svæði er lægsti meðal loftþrýstingur jarðarinnar, hvorki meira né minna.

Afleiðingin er augljós: Hvergi á jörðinni eru átökin meiri á milli kaldrar hæðar og rakrar og lágrar lægðar en við Ísland en um og eftir áramótin en þar sem lægsta lægð jarðar og næst hæsta hæð jarðar takast á og eru svona nálægt hvor annarri.

Átökin minnka þegar kemur fram á vorið og meðal loftþrýstingur hækkar á svæði "Íslandslægðanna", en yfir árið er Ísland næst mesta rokrassgat jarðar, næst á eftir suðurodda Suður-Ameríku.

Undanfarin sumur hafa verið afbrigðileg hér á landi hvað snertir stillur, blíðviðri og hlýindi og hafa að því leyti verið fréttaefni.

Þess vegna ættu svalviðrin og stormarnir í sumar ekki að koma neinum á óvart, ekki einu sinni að vera fréttaefni.

Og þá vaknar óttinn um það að vegna þess hve erlendir ferðamenn létu vel af Íslandsferðum undanfarin sumur, muni þetta allt hrynja með umhleypingum þessa sumars þegar fréttamennirnir í sumar koma heim til síns heimalands og segja sínar farir ekki sléttar.

Í slíku tali felst landlægur misskilningur okkar varðandi það að erlendir ferðamenn séu komnir hingað til að vera í logni, heiðríkju og yfir 20 stiga hita.

Hjá stórum hluta þeirra, einkum þeim sem búa í sunnanverðri Evrópu, eru þeir þvert á móti komnir hingað á flótta undan þessu veðri, sem við aftur á móti þráum.  

Gagnstætt því sem við höldum  hafa þeir ekkert á móti ævintýrum varðandi sviptingarnar á veðrinu og til dæmis heyrðust engir útlendingar hafa hærra um "ógleymanlega lífsreynslu" og kynnum af íslenskri náttúru og veðurfari í fyra en þeir, sem lentu í mestu hrakningunum í septemberhvellinum mikla.   


mbl.is Þrjár lægðir á matseðlinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stríðsárin fá smám saman uppreisn, - og þótt fyrr hefði verið.

Það er vel að loksins nú fái merkir atburðir og minjar um stríðsárin þá virðingu sem þeim ber. En því miður hafa glatast mikil verðmæti þá áratugi sem bagalegt sinnuleysi hefur ríkt um þau. 

Til dæmis er mikið verk óunnið hér í Reykjavík, til dæmis á flugvallarsvæðinu, í þessu efni.

Í samkeppni um skipulag Öskjuhlíðarinnar í fyrra fengu hugmyndir um varðveislu og notkun minja um stríðsárin brautargengi en eftir er að hrinda þeim í framkvæmd.

Ýmsar merkilegar flugvélar stríðsáranna fóru forgörðum á sínum tíma og litlu munaði að gamli flugturninn yrði rifinn.

Því miður var vatnsturninn á Kaldaðarnesflugvelli felldur fyrir rúmum áratug, en Kaldaðarnesflugvöllur gegndi mjög mikilvægu hlutverki áður en Keflavíkurflugvöllur var kominn í gagnið.

Til dæmis var það flugvél frá Kaldaðarnesflugvelli sem áorkaði því að færa fyrsta þýska kafbátinn til hafnar hjá bandamönnum.   

Ég kom við að Hnjóti í Patreksfirði í fyrradag og það er skömm fyrir Reykvíkinga að þar, langt fjarri höfuðborginni, verið viðhaldið merkum munum frá Reykjavíkurflugvelli á stríðsárunum, svo sem gasknúnum brautarljósum og ýmsum munum úr flugturninum gamla auk flugskýlisins, sem stóð í Vatnagörðum þar sem nú er Sundahöfn, en var á fjórða áratugnum stærsta bygging á Íslandi.

Því merkara var starf Egils Ólafssonar á sinni tíð við að bjarga verðmætum, sem annars hefðu farið í súginn.

Hermálið var heitasta langtímadeilumálið á Íslandi frá 1940 til 2006 og þjóðin skiptist í tvær fylkingar.

Kannski var það ein af ástæðunum fyrir fálætinu um herminjar hér á landi, - málið var svo viðkvæmt.

Nú ætti það að vera liðin tíð, enda fálætið búið að valda nógu tjóni.  


mbl.is Stórviðburðar minnst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðbrigði frá fundum stjórnlagaráðs.

Það er ekki nema von að Freyja Haraldsdóttir undrist það að vera í nánast tómum þingsal þegar rædd eru mikilsverð málefni. Á fundum stjórnlagaráðs var yfirleitt hvert sæti skipað á sambærilegum fundum og þó voru þar engir varamenn og því eru viðbrigðin mikil fyrir hana.

Starfið var skipulagt þannig í stjórnlagaráði að á meðan á fundum ráðsins stóð voru ekki nefndarfundir á sama tíma.

Nú kann það að vera að málafjöldinn hjá Alþingi sé slíkur, að Alþingismenn verði að velja á milli nefndafunda og sameiginlegra funda, sem haldnir séu á sama tíma. En á móti kemur að Alþingi fær hverju sinni fjögur ár til umráða til þess að framkvæma helstu stefnumál sín og starfar mestallt árið, en stjórnlagaráð hafði aðeins fjóra mánuði til umráða.

Og ákvæði stjórnarskrárinnar snerta öll svið þjóðlífsins og íslenskra laga.

Freyja er að byrja að upplifa átakapólitíkina og skotgrafahernaðinn, sem blasaða hefur við landsmönnum á þingi. Þar hefur því miður verið of mikið um það að stríðandi fylkingar reyni að rífa niður fyrir andstæðingunum í stað þess að stunda samvinnu sem laði fram lausnir, þar sem nýtt er það besta sem hver hefur fram að færa og samkomulag næst um.

Sumir gera lítið og slíku og tala um að fundinn sé "lægsti samnefnari" með slíkri aðferð. Í einstaka tilfellum kann það að henda en yfirleitt skilar uppbyggilegt og heiðarlegt samstarf betri árangri en kraftapólitík.


mbl.is Freyja undrast tóman þingsal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengur hægt víða á landsbyggðinni.

Það er vafalaust rétt og satt að bætt fjarskipti, tilkoma netsins og allur sá pakki hafi jafnað aðstöðu landsbyggðar og þéttbýlisins á suðvesturhorninu. En á ferðalögum um landið kemur þó enn talsverður munur í ljós. 

Einkum er áberandi hve margfalt hægar öll vinnslan gengur á stórum svæðum á landsbyggðinni þótt í orði kveðnu eigi að vera jafngóð aðstaða til allrar vinnslu.

Þetta á sérstaklega við þegar unnið er í 3G sambandi.  

Ekki veit ég hvað veldur þessu, en þetta er afar bagalegt, því að afköstin á netinu við facebook, tölvupósta og blogg, eru grálega langdregin.

Ég hefði haldið að hægt væri í þessari mikilvægu tækni að jafna aðstöðuna og vona að það verði gert.  


mbl.is Öll sveitin sambandslaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólga og flækja, sem erfitt er að sjá fyrir endann á.

Átökin og ólgan, sem ríkir í mörgum löndum í Austurlöndum nær, sýnast líkleg til að setja mark sitt á stjórnmál þessara landa á næstu árum. Þótt á yfirborðinu kunni að sýnast, að meginstraumarnir séu annars vegar vestrænir lýðræðis- og mannréttindastraumar og hins vegar sterkir múslimskir straumar, kemur  víða í ljós að ástandið er mun flóknara.

Ástandið í Sýrlandi er gott dæmi um þetta. Þar sýndist í fyrstu um að ræða tvö heildstæð öfl, sem tókust á, annars vegar alræðisstjórn Assads og hins vegar uppreisnarmenn gegn valdum hans.

En síðan hefur komið í ljós að staðan er mun flóknari og sama gæti verið að gerast í Egyptalandi.

Veldur þar einkum sundurþykkja í andstæðum fylkingum.

Allt frá tímum Rómarkeisara hefur Egyptaland verið lykilríki á þessum slóðum vegna staðsetningar sinnar á mótum Afríku og Asíu og nálægðar við Vesturlönd og Ísrael og þannig mun það verða áfram í fyrirsjáanlegri framtíð.  


mbl.is Mansour nýr leiðtogi Egypta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband