Færsluflokkur: Bloggar

Heitir landið ekki Ísland ?

Samkvæmt veðurspá mun veðrið um næstu helgi verða eitthvað aðeins hlýrra en í meðalári. En við erum orðin svon góðu vön það sem af er árs að smá norðanhvellur, sem verður næstu daga, virkar á okkur sem hálfgerð svik og "algjör umskipti". 

Á sunnanverðu landinu er ekki spáð snjókomu nema afar takmarkaðan tíma þessara daga, sem framundan eru.

Hálfur bílaflotinn á höfuðborgarsvæðinu, ca 60 þúsund bílar, eru búnir að lemja lélegt slitlag gatnakerfisins með óþörfum nöglum í mestallan vetur og slíta honum upp svo nemur hundraða milljóna kostnaði.

Á Sauðárflugvelli í 660 metra hæð inni á miðju austurhálendinu hefur verið allt upp í sex stiga hiti alla daga nema einn í meira en hálfan mánuð.  

Landið heitir jú Ísland, er það ekki?  Við erum með mesta ísskjöld á norðuhveli jarðar í aðeins 285 kílómetra fjarlægð frá Hornströndum og það er hindrunarlaus leið fyrir íslkald loftið á norðurpólnum, þar sem enn er nótt allan sólaringiinn til að blása sér yfir ís og sjó alla leið frá þaðan til okkar.

 


mbl.is Algjör umskipti í veðrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabært.

Í áttblöðungnum "Íslands þúsund ár" sem ég gaf út í september 2006 færði ég að því rök að Torfajökulssvæðið eitt og sér væri miklu merkilegra en Yellowstone, hvað þá svæðið milli Tindfjallajökuls, Mýrdalsjökuls og Vatnajökuls. 

IMG_0364

Rökin voru þau, að ef ég færi í tvær hliðstæðar ferðir á þyrlu með ferðamenn og lenti á 10 bestu útsýnisstöðunum á íslenska svæðinu og síðan á 10 bestu útsýnisstöðunum í Yellowstone myndu menn á öllum stöðunum hér heima hrópa upp yfir sig: Vaááá! en kannski á 2-3 stöðum í Yellowstone.

Eina hverasvæðið í Yellowstone, sem á ekki jafningja hér á landi er Mammoth Hot Springs,  og Old Faithful er magnaðri en Strokkur, en Strokkur samt iðnaðri.

En þar með er það upp talið.

Í Yellowstone er lítið hrafntinnusvæði sem þeir halda varla vatni yfir þarna vestra en er brotabrot af Hrafntinnuhrauninu við Hrafntinnusker.

IMG_0414

Yellowstone á enga hliðstæðu við Jökulgil, Mógillshöfða, Loðmund, Ljótapoll, Frostastaðavatn, Námshraun, Landmannalaugar, Kýlinga, Brandsgil, Blámannshatt eða Vatnaöldur.

Og enga gönguleið sem kemst í hálfkvisti við Laugaveginn.  

Og með því að taka inn í svæðið beint framhald þess til austurs og norðaustur bætast við fyrirbæri eins og Veiðivötn, Hraunvötn, Langisjór, Sveintindur, Uxatindur, Eldgjá og Lakagígar.

Sú mun koma tíð sem menn munu undrast allar þær virkjanaframkvæmdir á þessu svæði sem þrýst hefur verið á að framkvæma, þegar ljóst er hve yndisarðurinn af verndarnýtingu svæðisins er miklu meiri en hugsanlegur orkuarður vegna orkunýtingar.  

En það er sú niðurstaða sem Bandaríkjamenn hafa fyrir löngu komist að varðandi Yellowstone.  

 Torfajökulsaskjan er stærsta eldfjallaaskja á Íslandi, og þar eru mesta líparítssvæði Íslands og stærsta hrafntinnusvæðið.  Löngu tímabært að hún fái þá viðurkenningu sem hún á skilið að fá.  

  


mbl.is Torfajökulsaskja á lista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullfoss og Geysir skapa yndisarð.

Í frábærri blaðagrein sl. mánudag benti Guðmundur Andri Thorsson á það að sá mikli nýyrðasnillingur, Jónas Hallgrímsson, hefði notað orðið "yndisarð" um það að njóta náttúrunnar.

Orðið arður er oftast notað um peninga og gróða en orðið má nota, hvort sem arðurinn er huglægur/ andlegur, eða peningalegur þegar Gullfoss og Geysir eru annars vegar.

Sama má segja um fjölda náttúrugersema Íslands.  

Um 1920 stóð til að skapa orkuarð úr Gullfossi með því að virkja hann til rafmagnsframleiðslu.

Í orðanotkun okkar eru slíkt kallað nýting og látið í það skína, að aðeins þannig fáist arður eða peningar, en ef ekki er virkjað, er það kallað verndun sem gefur ekki krónu.

Í rammaáætlun er þessi gildishlaðna orðanotkun notuð og teflt á móti hvort öðru nýtingu og verndun.

Þar með er strax búið að láta í það skína að nýting sé góð en verndun vond.

Bæði Gullfoss og Geysir búa yfir mikilli orku og eru enn á blaði yfir virkjanakosti þar sem nýting er teflt á móti verndun.

Réttara væri að tala um orkunýtingu og verndarnýtingu, því að hvort tveggja getur skapað arð í peningum talið og það er einmitt verndarnýting Geysis og Gullfoss sem skapar yndisarð, unaðsstundir í stað teravattstunda. 

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur kallaði á það að mat væri lagt á unaðsstundir ekki síður en kílóvattstundir.

Enn er þessu hafnað hér á landi og hvað Kárahjúkavirkjun snerti var yndisarður náttúru svæðisins ekki metin á eina einustu krónu.

Það var heldur ekki gert á dögum Sigríðar í Brattholti og hefði verið valtað yfir baráttu hennar gegn virkjun Gullfoss, ef ekki hefði viljað svo til að virkjun fossins dagaði uppi.  

 


mbl.is Metin slegin á Gullna hringnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun vantraustsumræða gefa afsökun fyrir uppgjöf?

Það er rætt um að engan tíma megi missa til að klára stjórnarskrármálið á þessu þingi. 

Ljóst er að ef þingið þarf að fara eyða tíma í umræðu um vantrauststillögu verður hann ekki notaður í annað á meðan.

Þess vegna er ástæða til að óttast það að vantrauststillaga, hvort sem hún verði samþykkt eða ekki, muni gefa þinginu afsökun fyrir að klára málið ekki á þeim forsendum að með umræðunni um hana hafi farið dýrmætur tími í súginn.

Þar með yrði það aldrei sannað af eða á, hvort málið hefði hvort eð er fallið á tíma eða ekki.

Ég held að með vantraustsumræðu og atkvæðagreiðslu um hana sé allt of mikil áhætta tekin, þó ekki sé nema varðandi þann tíma sem í hana myndi fara.  

Eina leiðin til að finna út hvort þingmeirihlutinn muni afgreiða stjórnarskrármálið er að gefa honum eins mikinn tíma og frið til þess og unnt er.

Kannski eru vangaveltur Árna Páls Árnasonar liður í því að undirbúa jarðveg eftir kosningar með einhvers konar millilendingu eða meðalvegi, því það þing, sem þá verður kosið, mun hvort eð er verða að taka málið til afgreiðslu. Með því að taka nokkra kafla út úr og samþykkja þá nú, verði hægt að afgreiða þá stjórnarskrárbreytingu endanlega eftir kosningar. 

Þetta er sjónarmið og matsatriði út af fyrir sig en ég held hins vegar að ástæða sé til að efast um að það geri málinu meira gagn en að fara að vilja yfirgnæfandi meirihlluta í þjóðaratkvæðagreiðslu í haust og samþykkja það frumvarp að nýrri stjórnarskrá, sem nú er búið að ganga frá. Það hlýtur að vera augljós skylda þess þingmeirihluta sem stóð að þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. 

Ef meirihluti komandi þings verður á þeirri skoðun að nokkrir kaflar sem fengu afgerandi meirihluta í sérstökum spurningum um þá í þjóðaratkvæðagreiðslunni, þ. e. mannréttinda- og auðlindakaflinn, beint lýðræði, kaflinn um alþingiskosningar og í viðbót ákvæðið um sómstóla og afsal ríkisvalds, ætti þessi komandi meirihluti að geta samþykkt þá kafla, hvort sem þeir hafa verið samþykktir sér fyrir kosningar eða ekki.

Þá myndi málið allt vera tekið upp að nýju, en afgreiðsla þess að vísu dragast um eitt stykki Alþingiskosningar.    

  


mbl.is Vaxandi líkur á vantrausti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins verðskuldaður stórsigur.

Í mörg ár hefur Hera Björk Þórhallsdóttir búið yfir hæfileikum sem hefðu átt að skila henni efst upp á stjörnuhimin íslenskra söngkvenna. Bubbi Morthens vissi hvað hann söng og hvað hún söng þegar hann hvatti hana til dáða og kom henni rækilega á framfæri á sínum tíma. 

En verðskuldaður frami hefur látið á sér standa, sá frami að standa á sviði sem sigurvegari í stórri söngvakeppni.

Hera var skammt frá því þegar hún komst í annað sæti hjá Dönum fyrir Evróvisíon með lag sem hefði átt að skila henni sigri þar og jafnvel sigri í keppninni í heild.

Hún gafst ekki upp heldur hélt áfram þótt svo virtist sem lengra myndi hún ekki komast.

Nú hefur hún loks brotist í gegn um alla múra og er kominn á þann stall og tind sem hún á skilið að standa á.  

Við Íslendingar höfum áður átt söngkonu, sem söng Latin-tónlist snilldarlega og elskaði það.

Það var Ellý Vilhjálms sem aldrei fékk tækifæri til að fara á fullu inn á þá braut, enda aðrir tímar en nú.

Að heyra Ellý syngja Heyr mína bæn og hlusta síðan á söngkonuna sem söng sama lag til sigurs í Evróvision er eins og hlusta lævirkja á móti músartísti.

Nú hefur Hera brillerað í þeim víkingi sem Ellý hefði getað farið í og það er með mikilli gleði sem ég óska henni, móður hennar og öðrum aðstandendum til hamingju með þetta mikla afrek.  


mbl.is Mikil læti í stuðningsmönnum Heru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einmitt það sem er byrjað að gera.

Væntanleg bíódísilframleiðsla á Blönduósi, framtak, sem er fagnaðarefni er aðeins eitt dæmið um þau margvíslegu not sem hægt er að hafa af fitu. 

Þannig kom fram í  fróðleik, sem Olís veitti blaðamönnum og fleirum í sambandi við nýja íblöndunareldsneytið sitt, sem getur dregið úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda dísilolíu, að fita af ýmsu tagi er kjörin undirstaða fyrir gerð eldsneytis.  


mbl.is Fitan auðlind en ekki vandamál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjötugur líkist hann Jarpi í gömlu vísunni.

Til að verða sterkur og stór  / 
 
og stinnur mjög til ferðalags   /
 
suður um lönd hann frakkur fór  / 
 
að fá sér lyf til yndishags  / 
  
í sælli  svannakynningu  /

og sókn hjá hverri bjartri hrund, - /
 
stórgræða af stinningu, /  
 
stöndugur á alla lund.  
 
 

mbl.is Sjötugur með stera og stinningarlyf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sterkasti þingmeirihluti Sjalla og Framsóknar í 30 ár.

Sjallar og Framsókn myndu fá 40 þingmenn væri kosið nú. Sterkari hugsanlegan þingmeirihluta þessarra tveggja flokka hefur ekki verið að finna síðan 1979, ekki einu sinni á tólf ára valdatíma þessarra tveggja flokka frá 1995-2007. 

Í næstu skoðanakönnun á undan þessari voru þingmennirnir 37 þannig að um þessar mundir virðist æ stærri hluti kjósenda telja það vænlegast fyrir stjórn landsins að taka upp þráðinn frá 2007 með þessum tveimur flokkum. 

Kannski fer þetta að slaga upp í þingmeirihluta þessara flokka um miðja síðustu öld.  

Maður sér líka hér og þar ýmsar setningar sem lýsa þessari þrá eftir 2007-ástandinu.

Til dæmis þá að ef Framsókn hefði verið áfram í stjórn 2007 hefði aldrei orðið neitt hrun. Þegar litið sé á tölur um efnhagslífið sjáist glögglega að við komu Samfylkingarinnar í ríkisstjórn hafi allt flljótlega farið að síga á ógæfuhlið og því sé hrunið henni að kenna.

Líka eru notuð orðin "svonefnt" hrun og "meint hrun."

Og oft af sömu mönnum og tala um "meinta hlýnun"loftslags.  

Í fyrra var það upplýst að aðeins hefði munað nokkrum klukkstundum síðla árs 2006 að bankakerfið hryndi þá og að einstakt snarræði hefði komið í veg fyrir það.

Bankakerfið hefði í raun verið hrunið strax þá en í stað þess að draga úr látunum, hefði verið bætt í undir kjörorðum Framsóknarflokksins "Áfram! Ekkert stopp!"

Setjum svo að þráðurinn frá tólf ára valdasetu Sjalla og Framsóknar yrði tekinn upp og annað hrun yrði eftir þrjú ár. Þá myndi ekki taka nema fjögur ár eftir það að sannfæra drjúgan meirihluta þjóðarinnar á ný um það að það hefði í raun ekki orðið hrun, heldur í mesta lagi "svonefnt" hrun og alls ekki neitt upp á hina nýju ríkisstjórn Sjalla og Framsóknar að klaga.   Áfram! Ekkert stopp! 


mbl.is Fylgi Sjálfstæðisflokksins minnkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju sleppa sumir við að gefa upplýsingar?

Hrossakjötshneysklið í Evrópu sýnir, að full þörf er á að efla eftirlit með því að vörur, sem seldar eru, séu ekki sviknar, ekki aðeins þar, heldur líka hér á Íslandi. 

Þrátt fyrir að sagt sé að á umbúðum um vörur eigi að vera upplýsingar yfir efnin, sem í þeim eru, og magn hvers þeirra, virðast sumar söluvörur, til dæmis sælgætisvörur, vera undanþegnar þessu, jafnvel þótt aðrir framleiðendur selji mjög líkar vörur með merkingum þar sem fullnaðarupplýsingar er að sjá.

Það er ekki nóg að maður eigi að geta giskað á hve mikið er af efnum í því sem maður kaupir. Annað hvort birta allir framleiðendur sambærilegrar matvöru upplýsingar um innihaldið eða ekki.   


mbl.is „Vörusvik og ekkert annað“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Líklega rétt hjá Haraldi.

Það er líklega rétt hjá Haraldi Sigurðssyni að rétt sé að færa Markarfljót vestur fyrir Landeyjahöfn í stað þess að færa það lengra til austurs. 

Algengasta straumátt og vindátt á þessum stað er suðaustanátt sem ber aurburðinn til vesturs.

Líklegast er að mun meira muni um samanlagðan drifkraft þessara afla en það sem suðvestanvindáttin getur unnið á móti.

En líklegt er að mun dýrara verði að færa fljótið vestur fyrir og að menn muni ekki leggja í það, þess vegna.  


mbl.is Vill færa Markarfljót til vesturs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband