Færsluflokkur: Bloggar

Íslenskur Peugeot 505 pallbíll.

Á svipuðum tíma og Mercedes Benz 300TD bíllinn var framleiddur, sem breytt var í pallbíl erlendis, átti Guðmundur Sigurbergsson flugvirki frá Svínafelli í Nesjum í Hornafirði þreyttan Peugeot fólksbíl, sem hann fékk næstum gefins. 

Guðmundur er völundarsmiður eins og margir voru í einangruðum sveitum í Austur-Skaftafellssýslu og gat smíðað hvað sem var. Ef hann vantaði verkfæri smíðaði hann þau sjálfur og sama var að segja um ófáanlega varahluti.

Guðmundur reif efri hluta Peugeotsins ofan af honum, lokaði framhlutanum líkt og um væri að ræða tveggja manna sendibíl, og setti pall með pallhúsi ofan á afturendann.

Pallhúsið var gluggalaust, en það koms sér vel fyrir Guðmund þegar hann notaði það sem svefnstað ef svo bar undir.   


mbl.is Langar þig í Benz pallbíl?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Máninn fylgist með umferðinni.

Russell Crow sagði Jay Leno víst frá íslenska rokinu á mánudagskvöld.

IMG_6651IMG_6653

Hann sagði honum líka frá fegurð landsins. 

Ekki sagði hann frá fegurð himinhnattanna á hvelfingunni og hefur kannski aldrei verið svo heppinn í ferðinni að upplifa þegar himinhvelfingin er stráð óteljandi himinhnöttum, enda ekki kominn vetrartíminn með sínum löngu nóttum og norðurljósum. 

Hann á vonandi eftir að koma aftur og upplifa slíkar nætur þegar máninn hátt á himni skín.

Það gerir hann reyndar ekki alltaf, að minnsta kosti ekki í kvöld þegar hann á ólíklegasta stað.

Þegar beðið var á rauðu ljósi á gatnamótum Hringbrautar og Snorrabrautar gægðist sá gamli lágt undan dökkri skýjahulu til að fylgjast með umferðinni á Miklubrautinni eins og sést á þessari mynd sem ég smellti af honum. 


mbl.is Sagði Leno frá íslenska rokinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skil milli tækjanna verða æ óskýrari.

Einkenni nútíma tækni er að þurrka smám saman út mun á tækjakosti. Einu sinni voru jeppar jeppar og fólksbílar fólksbílar. Á árunum 1976-1980 komu fram fjöldaframleiddir bílar í Japan (Subaru), Sovétríkjunum (Lada Niva) og Bandaríkjunum (AMC Eagle) sem voru blendingar af jeppum og fólksbílum tæknilega séð. 

Núna nægir ekki einu sinni orðið jepplingur eða enska orðið (crossover) til að marka skilin.

Fyrstu farsímarnir voru níðþungir og stórir hlunkar. Tölvur voru líka stórar og miklar. Nú er þetta allt að renna saman, ekki bara tölvurnar, heldur líka kvikmyndatöku- og ljósmyndavélar.

Ljósmyndavélar eru núna sumar hverjar orðnar hágæða kvikmyndatökuvélar og enginn vafi á að það á eftir að koma fram tæki, sem er allt í senn, tölva, sími, nettenging, leiðsögutæki, stjórntæki bíls, kvikmyndatökuvél, ljósmyndavél o. s. frv.

Og allt saman í hæstu mögulegu gæðum.  


mbl.is Er þetta snjallsími eða spjaldtölva?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en 80 ára sjúkleiki íslensks hagkerfis?

Allt frá því er við Íslendingar kipptum íslensku krónunni úr  sambandi við þá dönsku höfum við ekki ráðið við efnahagsmálin, enda hefur verðgildi hennar hrapað svo þúsundum prósenta skiptir. 

Í byrjun fundust ótal skýringar á þessu. Þegar kreppan dundi yfir, var hún orsökin, þegar borgarastyrjöldin á Spáni kippti burtu fiskflutningum þangað, var hún orsökin.

1939 var svo komið að fella varð gengið. Síðan kom stríðið með meiri uppgripum en dæmi höfðu verið um í sögu þjóðarinnar, en þrátt fyrir þau, óð verðbólgan langtum meira upp árið 1942 en nokkurn tíma fyrr.

Nú var uppgripunum kennt um verðbólguna, sem hélt áfram að vaxa.

Í stríðslok skall á samdráttur og meiri höft og skömmtun en jafnvel þegar kreppan hafði skollið á 1930, en gengið var orðið svo skakkt skráð að það varð að fella það í lok áratugarins.

Nú var samdrættinum kennt um verðbólguna en líka því að fluttir höfðu verið inn togarar og gjaldeyrisforðanum eytt á metttíma!

Og alltaf var kennt um atriðum í hagsveiflum sem líka höfðu dunið á erlendum þjóðum án þess að þær hefðu tekið upp svona óstjórn.  

Nú tók við margfalt gengi og haftaspilling sem Viðreisnarstjórnin réðst gegn og enn var gengið fellt.

Þegar verkföll leiddu af sér 13% launahækkun 1961 var gengið fellt um 13% í kjölfarið og 1967 var gengið fellt tvívegis. Hannibal Valdimarsson sagði þá að skást gæti verið að fella gengið "hreint og heiðarlega".

Þá var Mary Poppins vinsæl og í tilefni af ummælum Hannibals söng ég á skemmtunum þekkt lag úr söngleiknum: 

       Fella gengið hrika-ganta-gríðar-yndislega

       getur kannski sumum fundist hljóma undarlega.

       En Hannibal vill gera þetta "hreint og drengilega": 

       Fella gengið hrika-ganta-gríðar-yndislega.

                             :,: Jammdíri-ríri-riri, jammdíri-jamm :,:

  Og svo lét ég Bjarna Ben syngja þetta, löturhægt og af þunga: 

                             Jammdíri...ríri...ríri...jamm...díri.....jamm! 

 Og nú, meira en 80 árum eftir að svonefnd "víxlverkun kaupgjalds og verðlags" fór af stað, er enn í gangi sama óáran eftir óteljandi gengisfellingar, og textinn úr Mary Poppins fyrir 45 árum er enn í fullu gildi og ekki að sjá annað en að sama ástand ríki áfram næstu ár.  


mbl.is Verðlag hækkar mikið milli mánaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu dagana gefðu mér...!

Ef kosið væri nú myndu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur fá 37 þingmenn en stjórnarandstaðan 26.

Þetta er þremur þingmönnum fleiri en Sjallar og Framsókn fengu 2003 og aðeins einum þingmanni minna en þessir tveir flokkar fengu 1999.

Það er því ljóst að Framsókn getur sent Sjálfstæðisflokknum eftirfarandi óskalag um þessar mundir:

Gömlu dagana gefðu mér!

Þá gat ég verið einn með þér.

Nú fylgið geggjað orðið er.

Gömlu dagana gefðu mér!  

Já, dýrðardagar Davíðs og Halldórs virðist vera það sem þjóðin þráir nú, nema að eini munurinn er sá að nú yrðu það Bjarni og Sigmundur Davíð.

2003 náði Framsóknarflokkurinn góðum úrsitum með loforðum um að fólk gæti fengið húsnæði án þess að borga nema en innan við 10% og lifað í sælli skuld upp frá því.

Nú lofar flokkurinn því að skuldin, sem hrunið í lok 17 ára slímsetu Sjallanna blés upp úr öllu valdi, verði borguð að stórum hluta.

Og hver á að borga? Það er aukaatriði og kemur málinu ekki við.  

Og því er að sjálfsögðu tekið jafn fagnandi nú og skuldarklafanum, sem var tekið fagnandi 2003.

Að ekki sé nú talað um að stóriðjuhraðlestin verði sett aftur af stað í samræmi við kosningaloforðin og aftur sent betliskjalið til stóriðjufyrirtækja heimsins frá 1995: "Lægsta orkuverð í heimi!"

Því að öðruvísi munu erlendir fjárfestar ekki fást til að koma hér inn frekar en 1995.  

Skítt með afleiðingarnar, óarðbæran rekstur eða náttúrufórnirnar. Aðilar vinnumarkaðarins munu fagna því að loforðin um að "koma hjólum aftvinnulífsins af stað" verði efnd.  

Svo er að sjá sem meirihluti þjóðarinnar þrái heitt að vegferðin frá 2003 til 2007 og áfram til 2008 verði endurtekin.

Gef oss 2007 aftur!  Það virðist krafan.  Gömlu dagana gefðu mér!  

 


mbl.is Framsókn bætir enn við sig fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kannski var leitað á netinu að heppilegustu veðurspánni?

Það fór ekkert á milli mála í veðurspánni fyrir gærdaginn að spáð var úrhellisrigningu og miklum hlýindum alls staðar á landinu, eins og verið hafa í meira en viku. 

Á netinu mátti sjá spá um 30 til 40 millimetra úrkomu og hita allt að 10 stigum.  

Til dæmis um hlýindin hefur´í meira en viku verið allt að fimm stiga hiti og stanslaus hlýindi á Sauðárflugvelli á Brúaröræfum, sem er í 660 metra hæð yfir sjó.

Mér dettur helst í hug að í þessari ferð hafi svipað gerst og áður hefur gerst í óhappaferðum um hálendið, að leitað hafi verið á netinu að einhverrri veðurspá erlendis, sem væri hagstæðari en sú íslenska og hún notuð með þeim rökum að oft hafi erlendar spár verið réttari en hin íslenska. 

Ég get varla látið mér detta aðra skýringu á þessu atviki.  

 


mbl.is Ekki í háskaför í fyrsta sinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var Jónas virkjana- og stóriðjusinni?

Grátbroslegar umræður hafa orðið vegna tilvitnunar og ummæla formanns Sjálfstæðisflokksins um Jónas Hallgrímsson. 

Sumir virðast líta svo á og segja fullum fetumn að ljóðlína Jónasar, "..en í fossum afl.." sýni og sanni að hann hafi verið virkjanasinni og skynjað megavöttin, sem hægt væri að fá út úr fossunum til þess að knýja stóriðju á borð við risaálver. 

Þetta er skrýtin og grátbrosleg umræða. Jónas vissi ekki að virkjanir og því síður álver væru til, því að hann var búinn að vera dauður í meira en hálfa öld þegar farið var að virkja fallvötnin og dauður í meira en 110 ár áður en það kæmi upp á Íslandi að virkja fyrir stór álver.

Þetta er svona álíka eins og að deila um hvort Jónas hefði verið með eða á móti staðgöngumæðrun eða Reykjavíkurflugvelli. 

 


Hæfileikarnir flæða um skólana.

Hæfileikar ungu kynslóðarinnar flæða um íslenska skóla.

IMG_6649

Einn þessara skóla er Fjölbrautarskólinn í Ármúla sem er steinsnar frá blokkinni sem ég bý í, eins og sést hér á mynd. 

Margt gott hefur verið gert í þessum skóla eins og sést á tengdri frétt á mbl.is. um skynörvunarbúnað handa fjölfötluðum nemendum í skólanum.  

Vegna nálægðar við skólann fer það ekki alveg framhjá nágrönnunum, sem þar er að gerast.

IMG_6638

Skólinn stendur þar sem fyrrum var mikil grjótnáma en nú grasi þakin brekka sem hefur verið mikill yndisstaður sem leiksvæði á veturnar, bæði fyrir börn okkar og barnabörn.

Frábært að renna sér á snjóþotum þegar vel viðrar til slíks á veturna. 

Á sínum tíma varð Iðunn dóttir okkar stúdent við skólann og nú er Helga Rut Hauksdóttir dótturdóttir okkar nemandi þar.

Ég átti þess kost að sjá og heyra hæfileikaríka nemendur láta ljós sitt skína á föstudagskvöld í söngkeppni skólans og keppnin var hörð.

IMG_6623

Helga Rut stóð sig með bestu prýði og þær mægðurnar, hún og Lára, brostu breitt á eftir eins og sést á mynd hér fyrir neðan.

Í dómnefndinni voru meðal annarra  þau Eyþór Ingi og Ragnhildur Gísladóttir og bæði þau og áheyrendur voru næsta sammála um það að hinn stórefnilegi Lúkas hefðu sigrað.

Hann flutti frumsamið lag og texta eins og fleiri keppendur.

IMG_6628

Hann skilaði afbragðsvel afar erfiðum flutningi á flóknum og miklum texta.

En ekki síst heillaði hann áhorfendur með nýtingu þeirrar tækni að búa til allan undirleik sinn sjálfur með nýjustu tækni, sem fólst í því að leika undir á gítar og slá á hann og taka það upp jafnóðum og blanda síðan við "læf" spil og söng á meðan á flutningum stóð.

IMG_6624

Lúkas er nafn sem ég held að rétt sé að leggja á minnið, gott dæmi um hæfileikana sem flæða fram í íslenskum skólum.   

  


mbl.is Ármúlaskóli fær tæki til örvunar og hæfingar fjölfatlaðra nemenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Býður einhver betur? Fyrsta, annað og..!

Nú er byrjað gamalkunnugt uppboð, sem haldið er í kjörklefum landsins á nokkurra ára fresti. 

Fyrir tæpum áratug var haldið uppboð:

Við bjóðum þenslu bankabólu, stóriðju, sterka krónu og háa vexti sem laða erlenda fjárfesta til að leggja inn peninga hjá okkur! Býður einhver betur! Fyrsta, annað og ...!

Nú býður sami aðili eftir að fyrra uppboðið leiddi af sér hrun: Við bjóðum afnám gjaldeyrishaftanna, sem hafa komið í veg fyrir fjárfestarnir fari með peningana úr landinu! Býður einhver betur? Fyrsta, annað og...! 

Skemmtileg mótsögn. Að gera landið að bankalandi sem laðar að sér fjármagn, en á þeim forsendum að innistæðueigendurnir fái aldrei að taka peningana út aftur.  

Og annað tilboð frá sama uppboðshaldara.

Gjaldeyrishöftin, sem eru til þess að halda uppi gengi krónunnar, koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu. Það er auðleyst mál. Við bjóðum afnám gjaldeyrishaftanna og að nota krónuna áfram! Býður einhver betur, fyrsta, annað og ...!

Þriðja tilboðið.

Við bjóðum að lækka skatta til þess að ríkissjóður geti borgað skuldir sínar! Býður einhver betur? Fyrsta, annað og...! 

Fyrir tæpum áratug hélt annar flokkur uppboð:

Við bjóðum fólki að geta eignast húsnæði með því að skulda allt kaupverðið! Býður einhver betur? Fyrsta, annað og...! 

Nú býður sami flokkur í kapp við alla hina: 

Við bjóðum fólki að sleppa við að borga skuldirnar, sem við börðumst fyrir og lofuðum fyrir áratug að það gæti tekið á sig! Býður einhver betur? Fyrsta, annað og...!

Svona mætti halda áfram. Byrjað er að afnema kynbundinn launamun hjá einni stétt á einum vinnustað en aðrir eru komnir af stað í sama leiðangur. Það mun koma af stað víxlverkun kaupgjalds og verðlags, verðbólgu, sem rýrir gildi krónunnar svo að það verði jafnvel að herða gjaldeyrishöftin sem keppst er við að lofa að afnema !

Í aðdraganda kosninganna er lofað á báða bóga. Það á að redda öllu strax og helst í gær.

Í fyrradag var frétt um að líklega yrði ekkert af byggingu hótels við Hörpuna vegna þess að erlendir fjárfestar sjá ástandið hérna og óttast það, einkum gjaldeyrishöftin.

Á sama tíma er lofað "aukinni verðmætasköpun", les virkjana- og stóriðjuframkvæmdir til að skapa "mannaflsfrekar framkvæmdir", sem þó gera jafnmarga atvinnulausa þegar þeim lýkur.

Forstjóri Landsvirkjunar upplýsir að útlendir fjárfestar muni halda að sér höndum "þar til sést til sólar" vegna kreppunnar.

Ekki er að sjá að það sjáist til sólar þar.

Í blaði í dag er greint frá hundruðum fyrirtækja sem spretta upp vegna aukins straums erlendra ferðamanna sem vilja upplifa einstæða náttúru landsins. Það er hins vegar ekki efni í uppboð, því að það er "eitthvað annað" en virkjana- og stóriðjuframkvæmdir.  

Þrátt fyrir það og"sólarleysið" vegna kreppunnar er lofað virkjana- og stóriðjuframkvæmdum. Býður einhver betur? Fyrsta, annað og...! 

 


mbl.is Fyrirheit „í þágu heimilanna“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hinir fáu".

Ein frægasta ræða Winston Churchills þegar orrustan um Bretland stóð sem hæst fjallaði um "hina fáu", "the few"

"Aldrei í átakasögu mannkyns hafa svo margir átt svo fáum mikið að þakka" sagði Churchill og átti þá við það hve fáir þeir ungu flugmenn voru sem höfðu mannað bresku orrustuflugvélarnar.  

Þjóðverjar áttu nóg af flugmönnum, því að í sex ár höfðu þeir ræktað "grasrótina", svifflug og flug á litlum flugvélum.

Þegar íslensk flugstarfsemi margfaldaðist eftir stríðið með land- og loftvinningum íslensku flugfélaganna var öflugt grasrótarflug með sífjölgandi litlum flugvélum forsenda þess að hægt væri að manna hraðstækkandi flugflotann og tryggja að við Íslendingar hefðum hina vaxandi atvinnugrein með gjaldeyristekjum sínum að fullu á okkar hendi.

Flugliðar eru hátekjufólk, sem byggir færni sína á góðri menntun og gefur þjóðarbúinu drjúgar tekjur meðan það hefur lögheimili sín hér á landi.

Það eru því vond tíðindi hvernig íslenska grasrótarflugið hefur dregist stórlega saman á síðustu misserum.

Litlum flugvélum í umferð hefur fækkað um helming, mest vegna stóraukins skrifræðis, og gæti jafnvel haldið áfram að fækka enn frekar.

Við þessu þarf að bregðast og ætti að vera auðveldara fyrir okkur hér úti á eyju langt norður í höfum heldur en þjóðir í hinni þéttbýlu Evrópu, þar sem ein lítil einkaflugvél getur á dagstund flogið yfir milljónaborgir fimm til sex löndum.

Skrifræðið, sem sýnist kannski nauðsynlegt á þeim slóðum, þar sem hægt er að fljúga á smáflugvél frá Dover yfir sundið til Frakklands, Belgíu, Hollands, Þýskalands og Lúxemborg og til baka á milli morgunverðar og hádegisverðar, á ekki við hér á landi, þar sem flugleiðir liggja yfir óbyggðir eða dreifbýli og vélunum er aldrei flogið yfir neitt annað land.

Í krafti landfræðilegrar sérstöðu verður að vinna að því að fá sanngjarnar undanþágur.    

  

 


mbl.is Aukin eftirspurn eftir flugmönnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband