Færsluflokkur: Bloggar
9.8.2009 | 22:05
Skildi varla helminginn á fyrsta fundinum.
Davíð Oddsson hefur sjálfur sagt frá því að hann hafi varla skilið vel nema helminginn af þeim hugtökum, sem notuð voru á fyrsta fundinum sem hann sat með undirmönnum sínum þegar hann tók við embætti Seðlabankastjóra.
Davíð er að vísu skarpgreindur og snjall maður, afburðamaður á marga lund og manna fljótastur að setja sig inn í hluti og greina aðalatriðin frá aukaatriðunum. Hann hafði auk þess mikla pólitíska reynslu sem tengdist efnahagsmálum.
En engin von var til þess að hann gæti bætt sér það upp að hafa ekki að baki margra ára sérfræðinám í háskóla auk viðamikillar beinnar reynslu af því að beita hinni áunnu þekkingu.
Mér dettur í hug hliðstæða af sviði sem ég þekki nokkuð vel.
Setjum sem svo að maður, sem hefði rekið flugfélag um árabil yrði skipaður yfirflugstjóri félagsins, án þess að hafa að baki það sérhæfða nám og reynslu sem til þess þarf að stjórna flugvél.
Þótt reynsla hans af rekstri mismunandi félaga og allmikil þekking á flugvélum, eiginleikum þeirra og getu, hefði fylgt starfi hans hjá flugfélaginu, myndi engum detta í hug að setja hann í flugstjórasæti til að fljúga flugvél.
Gallinn við Seðlabankastjórnina hefur verið sá í mörg ár að stjórnmálamenn hafa verið settir þar í æðstu stjórnunarstöður og var komin á það hefð.
Nú er það svo að fyrirrennarar Davíðs svo sem Birgir Ísleifur Gunnarsson og Steingrímur Hermannsson voru skynsamir menn og varkárir og fóru því gætilega í hvívetna í beitingu valds síns.
Þeir gættu sín á því að fara ekki út fyrir takmörk sín heldur treystu góðum sérfræðingum og ráðgjöfum og forðuðust þannig mistök sem skortur á þekkingu gæti skapað.
Davíð hefur hins vegar aldrei verið þeirrar gerðar. Hann er þekktur fyrir að ganga þannig að öllum störfum sínum að sinna þeim af alefli, ráða sem mestu og fara fremstur í flokki.
Smám saman myndast í kringum slíka menn hirð undirmanna sem gefast upp á að andmæla foringjanum.
Við þekkjum hliðstæður úr hernaðarsögunni þótt persónurnar úr henni séu að öðru leyti ósambærilegir við Davíð.
Þeir stjórnmálaforingjar liðinnar aldar sem töldu sig fædda hernaðarsnillinga gerðu oft hin verstu mistök sem æðstu yfirnenn herafla landa sinna, þótt stundum hefði þeim gengið svo vel á köflum, að þeir töldu það til merkis um snilligáfu sína á hernaðarsviðinu.
Þeir völtuðu ítrekað yfir undirmenn sína, sem vissu betur og reyndu að koma í veg fyrir mistökin sem urðu bæði stór og mikil og eyðilögðu það sem vel gekk.
![]() |
Segir Davíð hafa skort sérfræðiþekkingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.8.2009 | 11:50
Að standa á réttinum en vægja fyrir valdinu.
Ofangreind orð hafa verið notuð um afstöðu Íslendinga til Dana í sjálfstæðisbaráttunni. Jón Sigurðsson og fleiri sem stóðu fyrir þessari baráttu gerðu sér grein fyrir því að leiðin til hins endanlega takmarks yrði löng og ströng.
Um þessar mundir eru liðin rétt 200 ár frá valdatíma Jörundar Hundadagakonungs, en það er eina tímabilið í sögu landsins frá 1262-1944 þegar þjóðin var algerlega frjáls að nafninu til.
Þegar Jörundi var steypt sýndi það þá staðreynd að Danir og Bretar réðu því sem þeir vildu.
Kjörorð Jóns Sigurðssonar, "eigi víkja!", átti við um það að missa aldrei marks á takmarkinu, fullu sjálfstæði, hversu fjarlægt sem það sýndist og þótt við ofurefli væri að etja sem vægja yrði fyrir á hverjum tíma eftir því sem aðstæður krefðust.
Sjálfur hafði Jón þá fáheyrðu stöðu á þeim tíma, að vera á launum hjá þeirri þjóð sem hann taldi beita Íslendinga órétti og ofríki. Án þess að hafa þessa aðstöðu gat hann ekki beitt sér eins og hann gerði. Hann var raunsæismaður og tók jafnvel svari Dana í fjárkláðamálinu svonefnda og fékk bágt fyrir.
Jóni og öðrum sjálfstæðishetjum tókst að heyja þessa baráttu án þess að nokkru mannslífi væri fórnað og án þess að nokkru sinni væri gengið svo langt að það skaðaði langtímahagsmuni okkar.
Slíkt er fágætt í átökum af þessu tagi meðal þjóða heims.
Þrotlaus barátta hans fyrir málstað þjóðar sinnar með því að finna sem best rök og halda fram sanngirnissjónarmiðum á erlendri grundu var lykillinn að því að ná takmarkinu um síðir, jafnvel þótt það yrði eftir hans dag.
Sjálfstæðisbarátta þjóðar endar í raun aldrei því engin þjóð getur verið fullkomlega óháð öðrum þjóðum, allra síst í alþjóðasamfélagi okkar tíma. Þessa staðreynd þurftu Íslendinga þegar að glíma við við inngöngu í SÞ og NATÓ eftir að fullveldið var fengið.
Aðeins ári eftir fullveldisdaginn 17. júní 1944 þrýstu Bandaríkjamenn á að fá hér herstöðvar í 99 ár.
Framundan er barátta í anda Jóns Sigurðssonar sem heyja verður í margvíslegum samskiptum við aðrar þjóðir og á sviði öflugrar upplýsingar og kynningar í fjölmiðlaumhverfi okkar tíma.
Við stöndum á réttinum og sanngirninni þótt við neyðumst til að vægja fyrir valdinu, en þó ekki hænufeti lengra en brýnasta nauðsyn krefst. Viðfangsefni okkar felst í því, rétt eins og í sjálfstæðisbaráttunni forðum, að finna hina vandrötuðu leið milli takmarks og aðstæðna og fá um það sem breiðasta samstöðu.
![]() |
Ræða breytingar á Icesave í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.8.2009 | 22:45
Sýnir hvað hægt væri að gera 17. júní.
Enn og aftur sýna samkynhneigðir okkur hvað hægt er að gera með samtakamætti og lífsgleði.
Ég hef árum saman verið þeirrar skoðunar að í Reykjavík væri hægt að koma á fót stórkostlegri skrúðgöngu 17. júní þar sem allar stofnanir, fyrirtæki og hópar á hinum ýmsu sviðum gætu verið með sinn vagn og myndað stærstu og lengstu skrúðgönguna hvert ár.
Þetta gera þeir í Ameríku og kunna betur en nokkrir aðrir, þeirra á meðal Íslendingarnir í Gimli, eins og ég hef nýlega lýst hér á blogginu.
Dugnaður, áhugi og lífsgleði þeirra sem standa að Gleðigöngunni og Hinsegin dögum er aðdáunarverður og kannski er það þrátt ekkert verra að fram til þessa hafi ekki verið staðið að skrúðgöngu á þjóðhátíðardaginn sem stendur undir nafni.
Fyrir bragðið hafa samkynhneigðir öðlast aðdáun okkar allra og geta borið höfuðið hátt.
Það er gefandi að geta verið þátttakandi í svona ánægjulegum og mannbætandi viðburði.
![]() |
Stærsta gangan til þessa |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.8.2009 | 11:49
Aftur Rauðavatn?
Af fáum atburðum á Íslandi voru teknar ítarlegri myndir en af átökum lögreglu og mótmælenda við Rauðavatn í fyrra.
Þar bar vitnisburðum ekki saman en í stað þess að nota þessi frábæru gögn, var látið við það sitja að nota 19. aldar aðferðir í yfirheyrslu þingnefndar yfir málsaðilum sem skilaði engu.
Að sparka í höfuð er svipað og nauðgun, refsivert og forkastanlegt athæfi. Að sama skapi er ásökun um að slíkt hafi verið gert mjög alvarlegt mál.
Lögreglan vinnur eftir því fororði að rannsaka mál til hlítar og að hver sá sem ákærður er, sé álitinn sýkn saka nema sekt hans sé sönnuð.
Hver var það sem sagt er að hafi sparkað í höfuð lögreglumanns? Hvern var sparkað í ? Hvaða gögn eru fyrir hendi í þessu máli ? Hver eða hverjir eru það sem segjast hafa séð þennan verknað ? Ef sparkað var í lögreglumann, hverjir voru áverkarnir ? Eða var um tilraun til sparks að ræða ?
Spurningarnar eru ævinlega þessar: Hvar ? Hvenær ? Hverjir ? Hvernig ? Af hverju ? Hvað svo ?
Öllum þessum spurningum hefði verið hægt að svara eftir Rauðavatn með almennilegri rannsókn í ljósi frábærra gagna en það var ekki gert.
Ef sparkað var í höfuð lögreglumanns, hvers vegna var málinu ekki fylgt eftir ? Af hverju var meintum árásarmanni sleppt ?
Fer þetta eins og gerðist eftir Rauðavatnsátökin að enginn verði neinu nær ?
![]() |
Saving Iceland: Rógburður lögreglu og lygar fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.8.2009 | 20:32
Eitthvert hættulegasta athæfi sem til er.
Að sparka í höfuð einhvers er einhvert hættulegasta athæfi sem hugsast getur, því að fæturnir eru miklu öflugri en handleggirnir og auk þess oft um harða skó að ræða sem lenda í höfði þess sem sparkað er í.
Ef það er rétt að maður hafi sparkað í höfuð lögreglumanns er það forkastanlegt og gildir einu hvað manninum gengur til.
Ég frábið mér að að vera spyrtur við slíkt athæfi eins og nú er gert á blogginu, en þar er meðal annars sagt að þetta sé "týpiskt fyrir málstað grænna."
![]() |
Sparkað í höfuð lögreglumanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
7.8.2009 | 20:23
Hrakspár afsannaðar.
Á opnum fundi um strandveiðihugmyndir Íslandshreyfingarinnar fyrir kosningarnar 2007 kvaðst Friðrik Arngrímsson, talsmaður LÍÚ áætla að þessar hugmyndir myndu leiða til þess að veidd yrðu um 20 þúsund tonn ef þetta yrði leyft.
Friðrik benti þá á reynsluna af handfærabátaveiðunum fyrir um áratug og áleit að sú sprenging í afla smábátanna, sem þá varð, myndi endurtaka sig.
Á fundum um þetta efni lögðum við hjá Íslandshreyfingunni áherslu á að búa svo um hnúta að farið væri varlega af stað við að opna með þessu gluggarifu á kvótakerfinu til þess að byrja að vinda ofan af því án þess að fara kollsteypur í því efni.
Aðalatriðið væri að hafa reglurnar þannig að á þessu væri full stjórn og hægt að grípa í taumana hvenær sem þess væri talin þörf.
Ég fæ ekki betur séð en að þessar hrakspár frá 2007 hafi verið afsannaðar og að ferskt loft blási nú inn um gluggarifuna, sjávarbyggðunum til heilla.
![]() |
Þorskafli strandveiðibáta rúm 2000 tonn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
6.8.2009 | 22:40
Hvað um yfirbyggða kafla?
Þeir sem fljúga yfir Dynjandisheiði oft að vetrarlagi sjá vel að hún verður ævinlega ófær á ákveðnum köflum en vegurinn stendur að mestu upp úr snjónum að öðru leyti.
Ef ekki verða gerð göng milli Arnarfjarðar og dalsins inn af Vatnsfirði (þau yrðu álíka löng og Héðinsfjarðargöng) er næstbesti kosturinn að gera þá kafla á Dynjandisheiði, sem alltaf verða ófærir, þannig úr garði að úr geti orðið heilsársvegur.
Reyndar átti að vera búið að koma á heilsárssambandi milli Ísfjarðar, Patreksfjarðar, Barðastrandar og Reykjavíkur fyrir löngu en það er önnur saga af röngum ákvorðunum allt frá því fyrir 40 árum.
Ég flutti frétt í Sjónvarpinu fyrir um áratug af yfirbyggðum vegum erlendis, sem voru þá mun ódýrari á kílómetra en jarðgöng og minntist sérstaklega á Dynjandisheiði í því sambandi. Með það var ekkert gert en slíkan möguleika álít ég að þurfi að athuga ekki síður en breytingar á veginum.
![]() |
Starfshópur skipaður um nýjan veg um Dynjandisheiði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.8.2009 | 19:31
Góðan flugrekstur og hreinsað borð, takk !
Hannes Smárason sagði frá því í viðtali við tímaritið Króniku einu og hálfu ári fyrir hrun að hann hefði ekkert vit og engan áhuga á flugi, flugvélum né flugrekstri enda hafi það ekki skipt máli þegar hann tók flugrekstur upp á arma sína, sem hafði barist í bökkum í áratugi, stundum á barmi gjaldþrots.
Aðalatriðið væri, sagði Hannes, að breyta félaginu í fjárfestingarfélag. Hannes sagði að hann og félagar hans keyptu helst fyrirtæki, sem væru "hæfilega skuldsett." Síðan færi hann og fengi nóg mikil lán hjá bönkunum til þess að borga skuldirnar upp og eiga drjúgan afgang eftir.
Hann kvaðst jafnvel kaupa fyrirtæki og skuldsetja þau áður en hann léki þessar kúnstir.
Fyrirtækið væri síðan selt með miklum hagnaði eða sameinað öðrum og úr yrði hringekja kaupa fyrirtækja á hlutafé hvert í öðru þar sem svonefnd "viðskiptavild" upp á tugi milljarða yrði til við þessa gerninga.
Auðvitað voru þeir peningar aldrei til og hafi þessi ósköp verið lögleg, þá voru þau siðlaus og brýnt að koma í veg fyrir að svona lagað geti gerst aftur.
Hannse kvaðst hafa séð til þess að rúmlega 44 milljarða gróði yrði á rekstri fyrirtækisins á árinu 2006, - fyrirtækis sem áður hafði árum saman sýnt rauðar tölur.
Aðspurður um tekjuskatt af þessu hlutafjárbraski kvaðst hann geta haldið þessum leik áfram út í hið óendanlega án þess að borga krónu. Orðrétt sagði hann: "Þannig get ég haldið áfram út í hið óendanlega og þarf aldrei að borga skatt".
Ég hef heimildir fyrir því sem hafa gengið fjöllunum hærra að í upphafi hafi Sigurður Helgason ásamt öðrum fengið því framgengt að tíu milljarðar yrðu lagðir til hliðar sem varasjóður sem aðeins mætti snerta í neyð.
Í fyllingu tímans rak síðan einhver augun í það að þessir peningar voru horfnir. Í ljós kom, eftir því sem mér hefur verið sagt, að Hannes hafði tekið þetta fé traustataki án þess að spyrja neinn og notað til að kaupa Sterling flugfélagið sem hann setti síðan á hausinn.
Sigurður og fleiri hafi þá sagt sig úr stjórninni, en á þeim tíma var aldrei gefið upp af hverju.
Ég tel að þessi mál þurfi að hreinsa og að Sigurður eigi að gangast fyrir því að gera það. Allt upp á borðið.
Það er kominn tími til að upplýsa allt um ástæður þess að hann og aðrir gengu úr stjórninni að mínu mati.
Það þarf að sjá til þess að aftur verði tekinn upp eðlilegur og siðlegur rekstur í stað þeirrar sápukúlu blekkinga og sjónhverfinga sem Hannes Smárason og félagar hans blésu upp og sprakk síðan framan í okkur öll.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
6.8.2009 | 15:11
Gæti lækkað aftur nema krónan...
Fregnir berast af lækkandi heimsmarkaðsverði á olíu vegna minni eftirspurnar. Vonandi skilar það sér til Íslands. Hins vegar verður það til lítils ef krónuvesalingurinn okkar lækkar.
Einhverjir myndu orða það svo að við verðum hvað bensínverðið varðar að biðja til Guðs og krónunnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.8.2009 | 21:53
Af hverju er "anddyrið" ekki í anddyrinu?
Hvað vegakerfið snertir er anddyri norðausturhálendisins í byggð á vegamótunum þar sem farið er upp sneiðinga utan í Fljótsdalsheiði áleiðis upp að Snæfelli.
Þar hefði ég talið eðlilegt að risi gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs úr því að sagt er í frétt um hana að hún eigi að vera "anddyri og kennileiti þjóðgarðsins".
Ég veit að Völundur Jóhannesson, sem er sá maður er lengst hefur dvalið á þessu hálendi, er þessarar skoðunar hefur látið hana í ljós við mig.
Hann hefur verið nokkurs konar hálendisbóndi á sumrin í Grágæsadal um áratugaskeið og farið um þetta svæði í hálfa öld.
Sjálfan tel ég mig vera að verða nokkurs konar flugvallarbónda á Sauðárflugvelli í næsta nágrenni við Völund í Grágæsadal.
Ef gestastofan á að vera anddyri tel ég eðlilegasta staðinn vera þar sem eru vegamót vegarins í byggðinni inn með Fljótsdalsheiði og vegarins upp á heiðina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)