Færsluflokkur: Bloggar

Standa allir jeppar og jepplingar undir nafni?

Í ferðalagi í dag með útlendingum um slóðir norðan Mývatns hefur svarið við ofangreindri spurningu verið nei. Þeir standa ekki nema takmarkað undir nafni. 

Skilgreiningin á torfærugetu þessara bíla er mjög ónákvæm og meira að segja ágætustu bílablaðamenn hjá erlendum bílablöðum hafa flaskað á þessu.

Ástæðan er sú að framleiðendur þessara bíla auglýsa ákveðna veghæð þeirra sem miðast við tóman bíl. Oft er um að ræða tölu í kringum 20 sentimetra, en á venjulegum fólksbílum er sama hæð í kringum 15 sentimetra.

En þessi veghæð miðast ekki við bílana hlaðna.

Í gamla daga var hægt að treysta því að jeppi, sem var auglýstur með 20 sm veghæð væri ekki með minni veghæð en það.

Volkswagen Bjallan var auglýst með 15 sm veghæð hlaðin.

Þá voru heilir öxlar á milli hjóla og lægsti punktur bílanna voru drifkúlurnar sem ævinlega héldu sinni hæð yfir veginum af því að öxlarnir og þær fjöðruðu sjálfur ekkert upp og niður miðað við veginn undir þeim.

 Hæð undir kvið þessara bíla var yfirleitt ekki lægri en 25 sm, (Rússajeppinn og Broncoinn með 37 sm hæð undir kvið) og þó að þeir væru hlaðnir sigu þeir aldrei meira niður en svo að lægsti punktur hélt áfram að vera meira 20 sm.

Öðru máli gegnir um jeppana og jepplingana nú. Þeir eru yfirleitt með sjálfstæða fjöðrun að framan og oft einnig að aftan.

Þegar þeir eru hlaðnir síga þeir svo niður að veghæðin getur verið allt niður í 13-14 sentimetrar og þá eru þeir orðnir lægri á veginum en óhlaðinn venjulegur fólksbíll.

Á elsta Ford Explorer, þá vinsælasta jeppa Bandaríkjanna, voru aðeins 18 sm undir bensíngeyminn, og þegar bíllinn var hlaðinn var geymirinn orðinn lægsti punktur bílsins, aðeins 13 sm yfir veginum.

Ég hef lesið um það í bandarísku jeppablaði að nýjasta gerðin af Suzuki Grand Vitara hafi góða utanvega- og torfærueiginleika. Ein ástæða þessa dóms er að hann er bæði með hátt og lágt drif og að sjálfsögðu er það mikill kostur.  

Viðkomandi bílablaðamaður hefur vafalaust prófað bílinn óhlaðinn. En bíll af þessari gerð sem var á ferðalagi í fylgd með mér í dag var með fjóra innanborðs og talsverðan farangur.

Ég ók á eftir honum frá Akureyri til Lauga og þegar hann fór yfir ójöfnur á veginum og fjaðraði upp og niður voru stundum varla nema 10 sm undir hann!

Ferðamenn sem eru margir í bíl eru oft með mikinn farangur á löngum ferðum. Í slíkum tilfellum eru svonefndir jepplingar á borð við RAV4, Hyondai Tucson og Honda CRV í raun ónothæfir til ferða á grófum hálendisvegum og jeppaslóðum.

Fólk tekur þessa bíla á leigu í góðri trú og lendir síðan í vandræðum.

Vegna þess að Suzuki Grand Vitara af nýjustu gerðinni er með hátt og lágt drif vilja sumir skilgreina hann sem "alvöru jeppa."

Í dag varð fólkið sem ég var samferða, að skilja bílinn fljótlega eftir og verða mér samferða á 43 ára gömlum rússajeppa.

Rétt er að geta þess að Suzuki umboðið býður upp á hækkun á bílnum upp á nokkra sentimetra með því að lyfta fjöðruninni og setja á stærri dekk og er það til fyrirmyndar.  

Þá er þetta strax orðinn miklu betri torfæru- og jeppaslóðabíll.

En langflestir bílarnir sem eru í umferð virðast vera óbreyttir, svo sem bílaleigubílarnir.


Vanmat á almenningi.

Yfirleitt eru Íslendingar seinþreyttir til vandræða. Við erum stundum eins og samansafn af ættingjum Ragnars Reykáss, - nöldrum og höfum allt á hornum okkar, en gerum svo lítið eða ekkert í málunum og lendum í mótsögn við okkur sjálf.

Hvað eftir annað kemur þó í ljós vanmat á því sem við eigum þó til.

Fáa grunaði þegar birt var uppkast að sambandssamningi Danmerkur og Íslands fyrir rúmum 100 árum að andstaða eins nefndarmanna myndi breytast í þjóðarsamstöðu um að fella þingmennina sem samþykktu uppkastið í næstu kosningum.

Fáa grunaði 1970 að friðsamleg mótmæli þingeyskra bænda, sem óku á dráttarvélum sínum í mótmælaakstri gegn drekkingu Laxárdals myndu enda með því að þeir sprengdu upp stíflu við upptök Laxár.

Fáa grunaði að 13-15 þúsund manns myndu fara í mótmælagöngu í Reykjavík gegn Kárahnjúkavirkjun í september 2006.

Fáa hefði grunað að litlir mótmælafundir á Austurvelli ættu eftir að fara sístækkandi uns Búsáhaldabyltingin velti stjórn Fjármálaeftirlits, Seðlabanka og ríkisstjórninni.

Forsvarsmenn Kaupþings vanmátu réttláta kröfu almennings um upplýsingar sem vörðuðu hagsmuni hans.

Nú hafa þeir látið undan og sjá vafalaust eftir því að hafa stofnað til hinna brjóstumkennanlegu lögbannskröfu, sem misbauð réttlætiskennd fjöldans.

Allt of oft er skákað í því skjóli að hægt sé að treysta á andvaraleysi og sinnuleysi almennings.

"Fólk er fífl" voru ummæli á einum funda olíufélaganna um samráð sem urðu fleyg. Þau áttu eftir að koma þeim í koll sem þau sögðu.

Það kann að vera að Ragnar Reykás sé eins og vindhani sem snýst í hringi.

En það er þó einn kosturinn við vinhanann, sem hann hefur fram yfir þann sem stendur staðfastlega kyrr.

Einu sinni í hverjum hring snýr vindhaninn þó í rétta átt. Það skyldi enginn vanmeta.

 


mbl.is Falla frá lögbanni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju virðist "tannhjólsaðferð" bannorð á Íslandi.

Alla vikuna dynur í eyrum í umferðarpistlum útvarps beiðni til ökumanna á tveggja akreina vegi að halda sig á hægri akrein til þess að hraðari umferð komist fram úr á vinstri akrein, sem er ætluð til slíks.

Síðan kemur síðdegi föstudags, sunnudags eða í þessu tilfelli mánudags, frídags verslunarmanna, og þá heyrist sú útgáfa af þessu að ökumenn á tveggja akreina 2 plús 1 vegum eru beðnir um að halda sig á hægri akrein til þess að ekki myndist umferðarteppa þar sem vegurinn breytist í einnar akreinar veg.

Ef allt væri eðlilegt í umferðarmálum hér á landi þyrfti hvoruga brýninguna og ég efast um að í nokkru öðru landi þurfi á svona að halda. 

Fyrri beiðnin, um akstur á vinstri akrein, stafar af landlægu hugsunarleysi og tillitsleysi landans.

Síðari beiðnin stafar af því að hér á landi er aldrei talað um svonefnda "tannhjólsaðferð" þar sem vegur þrengist.

Slíkt virðist algerlega fjarlægt Íslendingum, heldur telja þeir sem eru á beinu akreininni sig hafa forgang yfir hina sem eru á akreininni, sem endar.

Á þeirri akrein eru þó örvar, sem vísa ökumönnum veginn á ská inn á beinu akreinina.

Ef hér væri ekið eins og í öðrum löndum myndi "tannhjólsaðferðin" koma af sjálfu sér, þ. e. bílarnir á enduðu akreininni renna inn í röð bílana á beinu akreininni þannig að hver bíll á beinu akreininni hleypir einum bíl af hægri akreininni inn í röðina.

Hér á landi ríkir algert öngþveiti og skipulagsleysi sem veldur slysahættu. Einstaka ökumaður á vinstri akrein stöðvar og hleypir jafnvel mörgum bílum inn á í einu en síðan eru flestir sem engum hleypa inn á.  

Ef við nefnum bílana hægra megin h-bíla og hina v-bíla, verður nýja röðin v-h-v-h-v-h...líkt og þegar tennur í tveimur tannhjólum grípa hver í aðra þar sem tannhjólin koma saman.

Alls staðar sem ég þekki til erlendis kemur þetta af sjálfu sér en hér myndast hins vegar umferðarteppa og í eyrum dynja beiðnir um að allir séu á hægri akrein og enginn á vinstri.

Ein röksemd fyrir því að biðja um þetta er sú að þá verði auðveldara fyrir neyðarumferð að komast áfram.

En þetta hrekkur skammt því að þar sem vegurinn þrengist verður hvort eð er ekkert skárra fyrir neyðarumferðina að komast áfram, enda eru vegaxlirnar, til dæmis á Suðurlandsvegi, stórlega vanræktar af vegagerðinni. 

Hvernir væri nú að hætta þessum ruglingi og tilkynna einfaldlega: "Ökumenn, myndið tannhjól í umferðinni þar sem vegur þrengist úr tveimur akreinum í eina."

Gegn þessu eru kannski þau mótrök að enginn viti hvað "tannhjólsaðferðin" sé.

En hvernig væri þá að byrja að kenna landanum hvað "tannhjól í umferðinni" táknar er og láta fólk spyrja hvað hún tákni þegar það heyrir tilkynningarnar um hana.

Eða á Ísland að halda áfram að vera eina landið í okkar heimshluta þar sem enginn veit hvað "tannhjól" í umferð táknar og aldrei er minnst á þessa aðferð? 


mbl.is Rólegt í umdæmi lögreglu Selfoss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna að fara í skrúðgöngu.

Gimli er smábær í Manitoba, íbúarnir tæp sex þúsund. Það er upplifun fyrir Íslending að vera þar á Íslendingadaginn. Hvílík skrúðganga í ekki stærri bæ!

Gleðigangan í Reykjavík er fyrsta íslenska skrúðgangan sem minnir á skrúðgönguna í Gimli, nema að skrúðgangan í Gimli er miklu fjölbreyttari þótt fólkið sé skiljanlega fleira hér heima.

Hér heima eru þeir sem horfa á í miklum meirihluta en í Gimli eru þeir sem sjá um skrúðgönguna jafnvel fleiri en áhorfendur.

Bókstaflega allar stofnanir, fyrirtæki, félög og áhugamannahópar um tónlist og leiklist taka þátt í þessari skrúðgöngu. Meira að segja bændurnir í nágrenninu koma á skreyttum dráttarvélum dragandi litskrúðuga heyvagna.

Hver einasta hljómsveit kemur með dynjandi tónlist á vögnum og leikhópar í viðeigandi búningum flytja dagskrár á vögnum sínum eða gangandi í kringum þá. 

Ég lýsi eftir hliðstæðri skrúðgöngu hér heima 17. júní þar sem allir leggja sitt af mörkum! Ekki veitir af í kreppunni ! 


mbl.is Íslenskt veður á Íslendingadeginum í Gimli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kenna tit Hermann?..."

Rétt rúmlega 50 ár eru síðan lagið um Rasmus í Görðum var vinsælasta lagið á Íslandi og sló við lögum Presleys og rokkstjarna þess tíma.

Fyrir aldarfjórðungi keypti ég plötur með Fats Domino og rakst á einni þeirra á lag með viðlagi sem er á smá kafla næstum hið sama og seinni hluti lagsins um Rasmus. Sjálfsagt einber tilviljun en skondin engu að síður.

Nú er ég staddur á Akureyri, en þegar ég skemmti hér fyrst fyrir réttum 50 árum hafði vinstri stjórn Hermanns Jónassonar hrökklast frá völdum þá um veturinn og Heramann var ekki lengur ráðherra, heldur óbreyttur alþingismaður Strandamanna.  

Gat þó gamnað sér við veiðar hjá sumarbústað sínum við Grímsá, ræktað samband sitt við Sambandið og hugsað til fornrar tíðar þegar hann var glímukappi Íslands.  

Hermann hafði biðlað til Hannibals Valdimarssonar, samráðherra og forseta ASÍ á þingi ASÍ, en tilmælum forsætisráðherrans hafði verið hafnað. Í hönd fóru átök um kjördæmamálið þar sem Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag stukku í bandalag við Sjálfstæðiflokknum um breytingar sem Framsóknarm voru mjög andvígir. 

Hermann dó ekki ráðalaus en gróf upp Gunnar Dal, skáld, til að beita sér gegn eyðingu sveitanna sem boðuð kjördæmabreytingu myndi hafa í för með sér. 

Hér kemur textinn sem var frumfluttur á Akureyri fyrir hálfri öld á blöndu af færeysku, íslensku og prentsmiðjudönsku: 

 

HERMANN AF STRÖNDUM.

 

Kjenna tit Hermann, Hermann af Ströndum? 

Hann eigur sér bæði hestar og neyt.

Svo hefur hann Sambandið sínum í höndum

og svaka miklar fiskeríasprænar úti í sveit.

 

Men Hermann, ja, Hermann, hann föler sig svo eina. 

Hann hugsar um Hannibal som situr heilt aleina.

Tí Hermann, ja, Hermann, hann er gamal drongur

menn Hannibal gongur og tímir ekki longur.

 

 

En kratar og komarnar gera rellu slæma.

Teir kela við íhaldið grúulega skart

og vilja úr sveitunum fólkin burt flæma.

Tað finns Hermann glímara vera onkja smart.

 

Tí Hermann, ja, Hermann, hann er gamal drongur

men Hannibal gongur og tímir ikki longur.

Hann dreymir um Hannibal bæði daga og natur.

Vinirnir arga hann, svo hann er ofta nokk svo flatur.

 

En Hermann, ja, Hermann, hann fór sér einn daginn

og draujaði sér heim til Gunnars í Dal.

Að rembast hann ætlaði, reyjur og spræðin 

Í  ræðunum þeirra svo lauk nú þeirra tal: 

 

 "Ó, Gunnar Dal mína, mín fitta rúsína.

Vil tú om mig fjálga, mín lífsins kamína?! 

Ja, elskaði Hermann, nú kunni ég skríggjað.

Í tríatí ár har jeg endnu ventad tig að fríggjað."  

 

 

  


mbl.is Rasmus hljómaði á Stokkseyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vera "þægur".

Hve margir hafa verið þaggaðir niður með því að segja við þá: "Ég held þú ættir að halda þig við..." og síðan er tiltekinn sá afmarkaði bás sem viðkomandi er ætlað að halda sig á?

Það er rétt að sum embætti fela það í sér að takmörk eru fyrir því sem þeir, sem þeim gegna, geta sagt opinberlega.

Hins vegar ríkja tjáningar- og málfrelsi í þessu landi og ég fæ ekki séð hvers vegna Eva Joly má ekki verja málstað okkar Íslendinga erlendis á þann hátt sem hún sjálf telur réttastan.

Kann að vera að einhverjir vildu að hún hefði gert það öðruvísi í einstökum atriðum en þá er það þeirra að fara í rökræðu um það mál.

Á árunum upp úr aldamótunum ríkti vaxandi og skaðleg þöggun hér á landi.

Ein helsta undirstaða þöggunar er að sem flestir séu í þeirri stöðu að þeir vogi sér ekki að taka opinberlega afstöðu í umdeildum málum.

Sjálfur kannast ég við slíkt frá fyrri tíð þegar maður gekk undir manns hönd við að hræða mig frá því að gera og segja það sem ég taldi réttast.

Einn ráðherranna fyrir áratug var óánægður með það sem ég var að gera, kvaddi mig með þessum orðum eftir rökræðu okkar um þetta með því að segja við mig í lokin: "Vertu nú þægur."

Eva Joly hefur aldrei verið "þæg". Það kann að geta komið sér illa við hana á stundum en hún hefur náð þeim frábæra árangri í störfum sínum sem hefur skapað orðstír hennar að hafa aldrei verið "þæg", - aldrei verið hrædd við að gera það sem hún taldi sjálf réttast.

Íslendingum veitir ekki af stuðningi á alþjóðavettvangi og atbeina velunnara okkar.

Einu sinni var sagt: "Ber er hver að baki nema sér bróður eigi." Nú geta Íslendingar sagt við Evu Jolly: "Ber er hver að baki nema sér systur eigi."


mbl.is Hrannar sendir Joly tóninn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Furðulegt veðurfar á austurhálendinu.

Að meðaltali er minnst úrkoma á Íslandi í "skugganum" norðan Vatnajökuls. Áberandi er hve lítil úrkoma er í Krepputungu suðaustur af Herðubreiðarlindum og í Kringilsárrana, um 15 km fyrir sunnan Kárahnjúka.

Á útmánuðum var óvenju mikil snjókoma á austanverðu hálendinu, en þó var umhverfi Herðubreiðar undantekning. Flugvöllurinn við Herðubreiðarlindir var auður í allt vor.

Gríðarlega mikið snjóaði í Snæfell og umhverfis það og í því eru enn miklar fannir þrátt fyrir hlýjan júní.

Frá miðjum júní og fram í júlí var einstaklega lítið um vind á svæðinu, en síðustur vikur hefur brugðið svo við að mjög votviðrasamt hefur verið, einkum í kringum Snæfell.

Norðaustanáttin hefur breyst frá því sem áður var. Nú er hún oft bæði hlý og úrkomumikil.

Steininn tók þó úr í gær en þá var ausandi rigning á þessu svæði og ár, lækir og tjarnir bólgnuðu út.

Áin Hrafnkela í Hrafnkelsdal var eins og jökulfljót og kolófær. Ég var í basli í hinni sakleysislegu Hölkná seint í gærkvöldi sem bólgnaði upp og varð nógu öflug til að drepa á bílnum.

Mér tókst þó að snúa mig út úr þessum vandræðum og komast yfir án hjálpar.  

Veðurfræðingur tjáði mér í gær að yfir suðausturhorni landsins væri rigningar"klessa" sem ylli þessu.

Að undanförnu hefur þetta fyrirbæri, rigningarklessa í norðaustanátt sést hvað eftir annað á suðausturhorninu og hún virðist vera það öflug að hún nái vestur fyrir Snæfell.

Í Noregi hefur hlýnun veðurfars valdið aukinni úrkomu bæði á veturna og sumrin. Snjóalög hafa verið meir en fyrr, en hlýnun og auknar rigningar á sumrin hafa samt valdið því að jöklar dragast saman.

Svipað virðist vera að gerast á svæðinu umhverfis Snæfell. Þrátt fyrir mikinn snjó hopar jökullinn og nú virðist stefna í það að svipað gerist um Kelduá og Sauðá vestari, að jökullliturinn hverfi úr Kelduá.

Sauðá var illúðleg jökulá fram yfir 1940 en varð næsta sakleysisleg bergvatnsá eftir að Brúarjökull hopaði. Svipað fyrirbæri og nú hefur tekið Skeiðará í burtu.

Það eru umbrotatímar í loftslaginu eins og efnahagsmálunum. Við lifum á mögnuðum tímum.  


mbl.is Sést til sólar á Siglufirði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meiri hagsmunir fyrir minni.

Fyrir nokkrum árum var fjallað um það fyrir dómstólum hvort fjölmiðill hefði brotið gegn friðhelgi einkalífs að mig minnir með því að birta tölvupósta.

Niðurstaðan var sú að svo ríkir almanna hagsmunir væru fyrir hendi að birtingin hefði verið réttmæt.

Almannahagsmunirnir núna eru margfalt meiri, - hinar ýmsu hliðar bankahrunsins og hvernig úr því er unnið skipta alla Íslendinga gríðarlega miklu máli.

Ef lög um  bankaleynd eru svo heilög  að þau séu rétthærri en nánast hvaða almannahagsmunir sem hugsast getur, verður að breyta þessum lögum.

Auðvitað er vandaverk að draga línuna, en í málum eins og því sem nú endar með lögbannsúrskurði gegn birtingu bráðnauðsynlegra gagna, verður að draga þessa línu á annan hátt en gert hefur verið.

Vonandi hefur Sigurður Líndal rétt fyrir sér að lögbannsúrskurðinum verði hnekkt.


mbl.is Lögbanni mögulega hnekkt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjárhættuspil útihátíðanna.

Á Suðurlandi rignir í meira en 60% daga að jafnaði. Þeir sem halda útihátíðir þar taka því fyrirfram áhættu sem er að jafnaði um 1 á móti 2.

Áhættan er mun minni á Norðurlandi. Þetta fjárhættuspil elska Íslendingar og nærast á fréttum af því í heila viku á hverju sumri.

Nú, þegar fjárhættuspilið mikla með eignir þjóðarinnar er tapað er dýrmætt að eiga þetta verslunarmannahelgarspil.

Í þetta sinn hirðir Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum mestallan pottinn. Reyndar er hún komin á þann stall að veðrið skiptir ekki lengur neinu máli.

Sveitaböllin í gamla daga byggðust á því að fólkið fór þangað sem það hélt að allir myndu vera.

Einu sinni voru ég, Guðrún Á. Símonar og fleir auglýst á sveitaballi sem fyrirsjáanlega yrði hrikalegt skrall.

Ég spurði skemmtanahaldarann hvort nokkurt vit væri í því að láta okkur Guðrúnu koma þarna fram.

Hún myndi verða fyrir sjokki þegar ekki myndi heyrast í hennar miklu rödd fyrir hávaðanum í ölvuðum samkomugestunum.

"Það skiptir engu máli", svaraði skemmtanastjórinn, "þótt ekkert eigi eftir að heyrast í ykkur fyrir hávaðanum." Aðalatriðið er að geta auglýst fyrirfram nógu marga og fræga skemmtikrafta til þess að allir dragi þá ályktun að allir fari á þetta ball. Allir vilja nefnilega vera þar sem allir eru."

Þetta gekk eftir. Húsið var smekkfullt. Það heyrðist ekki mannsins mál fyrir látum þegar Guðrún söng og hún fékk sjokk. En hún fékk líka pening fyrir en sagðist þó aldrei gera þetta aftur.  

 


Verslunarmannahelgin fer í yfirsetu.

Frá því síðastliðinn mánudag hef ég verið yfirsetumaður hjá Folavatni á hverjum degi. Þessi verslunarmannahelgi verður ólík öllum fyrri slíkum helgum hjá mér. Það hækkar hægt í Folavatni, sem ég hafði reyndar talið eftir þeim gögnum, sem ég hef, að væri um 2 ferkílómetrar.

Fyrir bragðið verður dauðastríð hinna grónu hólma langdregið. Fyrst sökkva tveir tangar á Miðhólmanum, en einhvern næstu daga sekkur risavaxið álftahreiður á Álftahólma,  sem gæti verið margra alda gamalt. 

Síðast sekkur lítill melkollur á Miðhólmanum. 

Ég vísa til fyrra bloggs um þetta með myndum af þessu, og hægt er að leita aftur í tímann með því að smella inn á "færslulisti". 

Kærar kveðjur til allra af hálendinu og skemmtið þið ykkur vel um þessa met-verslunarmannahelgi kreppunnar. 

 


mbl.is Kelduárlón flæðir í Folavatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband