Færsluflokkur: Bloggar
17.6.2009 | 22:30
"Gegnsæi" og "allt uppi á borðinu" ?
Sú frétt á sjálfan þjóðhátíðardaginn að í nauðasamningunum um Icesave láti Íslendingar dómsvald af hendi til viðsemjenda sinna í einu og öllu varðandi ágreining um samningana er sláandi af mörgum ástæðum.
Núverandi ríkisstjórn komst til valda á þeim forsendum að gera stjórnarbót, víkja burtu laumuspili og feluleik, "fá allt upp á borðið" og hafa "gegnsæi" að leiðarljósi.
Þar af leiðandi verður að skírskota til þessara loforða stjórnarinnar og að hún standi við þessi fyrirheit en láti ekki dragast að veita upplýsingar í stað þess að mikilsverð atriði "leki" út eins og nú hefur gerst og halda áfram öðrum atriðum leyndum.
Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að sá kostur að Íslendingar geri sig að eins konar Norður-Kóreu á Vesturlöndum sé verri en sá að leita skástu lausnar á deilumálum og vandamálum varðandi uppgjör við hrunið í samvinnu við nágrannalöndin og alþjóðastofnanir.
Allar lýðræðisþjóðirnar sem við erum nú í samskiptum við ættu samt að skilja þessa einu setningu: Í engu lýðræðislandi er hægt að ætlast til þess að þjóðþing samþykki samninga nema öll atriði þeirra liggi fyrir.
Ef lýðræðisþjóðirnar sem við eigum í samskiptum við skilja þetta ekki vaknar spurningin um það hve mikils virði grundavallarreglur lýðræðisins séu í raun hjá þeim.
Við höfum ekki verið nógu dugleg við að draga fram einföld og sterk atriði varðandi málstað okkar og koma honum rækilega á framfæri. Stærsta verkefnið nú og framvegis verður að gera þetta. En þá verður allt að vera "gegnsætt" og "uppi á borðinu."
![]() |
Enskir dómstólar skera úr Icesave-deilum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.6.2009 | 10:27
"Rignir oftar en 17. júní."
Jónas Guðmundsson stýrimaður skrifaði skemmtilegan pistil eitt sinn um þá áráttu Íslendinga að sækjast eftir útihátíðum í því landi Evrópu þar sem sumarið er langkaldast og þar að auki vætusamt.
Þetta þótti Jónasi vitna um fádæma bjartsýni þjóðarinnar. "Það er eins og menn haldi að það rigni aldrei nema 17. júní."
Dagurinn hefur oft verið annasamur hjá mér síðustu hálfa öld. Síðan 2002 hefur það bæst við hjá mér að taka þátt í skrúðakstri Fornbílaklúbbsins í viðbót við skemmtidagskrá einhvers staðar. Meðal þess sem ég hyggst gera á Arnarhóli í dag er að frumflytja lag sem heitir "Þjóðhátíðardagur" þar sem allir geta tekið undir viðlagið á auðlærðan hátt.
Textinn er svona í augnablikinu:
ÞJÓÐHÁTÍÐARDAGUR.
Blöðrur og fánar. "Öxar við ána" /
allir syngja hátt. /
Á götunum í kvöld er dansað dátt. /
Fólkið safnast saman. Grínarar með gaman. /
Gítarspil og dans, /
rellur, kandífloss og milljón manns. /
Því nú er þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíð og allir skemmta sér. /
Því nú er þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur /
þjóðhátíð og stuð hjá mér og þér. /
Blómsveigur að stalli. Þá brosir styttukallinn /
og blikkar auganu /
og Fjallkonan er fín í tauinu. /
Nú mun aukast spikið því að mjög svo mikið /
er magn munaðarins: /
nammi, kökur, pylsa, kók og Prins. /
Því nú er þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur. /
Jonni Sig. á afmæli í dag. /
ÞJóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur, /
þjóðhátíðardagur, þjóðhátíðardagur /
Þess vegna við syngjum þetta lag. /
Já, er til nokkuð sérstakara og þjóðlegara á Íslandi síðustu hálfa öld en "kók og Prins"?
Gleðilega hátíð !
![]() |
Rigningu eða skúrum spáð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.6.2009 | 23:13
Kanarnir klikka ekki.
Roosevelt, Eisenhover og Kennedy voru Bandaríkjaforsetar sem voru ótrúir konum sínum. Ef það hefði verið á almanna vitorði meðan á því stóð hefði allt orðið vitlaust vestra. En þetta komst ekki upp fyrr en eftir á og að sjálfsögðu hefur þetta ekki haft nein áhrif á mat fólks á þessum forsetum.
En kanarnir klikka ekki í skinhelginni eins og sést af máli öldungardeildarþingmannsins í Nevada. Sams konar mál myndu ekki valda miklu fjaðrafoki í Evrópulöndum þar sem beðmálum er ekki blandað saman við störf manna.
Ég hef áður minnst á blaðamannafund Mitterands forseta Frakklands þar sem nýliði í blaðamannastétt hélt að hann væri með þrumuspurningu þegar hann spurði forsetann: "Er það rétt að þú eigir hjákonu? " "Já," svaraði forsetinn, leit yfir salinn og sagði: "næsta spurning."
Annar blaðamaður kom með næstu spurningu og málið var dautt.
![]() |
Bandarískur þingmaður viðurkennir framhjáhald |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.6.2009 | 21:40
Búa til útskrift af því sem máli skiptir.
Snerran milli þingforseta og þingmanns í dag er áhugaverð. En spurningunni um það hvort þingmaðurinn fór út fyrir umræðuefnið eða ekki og hvort þingforseti fór út fyrir valdsvið sitt eða ekki er erfitt að svara nema að hafa bæði tölu hans fyrir sér á blaði og nógu mikið af ræðum annarra þingmanna til þess að átta sig á þessu.
Kannski fer einhver blaðamaður ofan í saumana á þessu. Það væri fróðlegt að geta fengið nógu miklar upplýsingar til þess að geta myndað sér skoðun um þetta.
![]() |
Einleikur forseta á bjöllu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.6.2009 | 09:01
Þingviljinn og þjóðarviljinn ráði.
Í áraraðir hefur myndast slík hefð fyrir því að stjórn og stjórnaranstaða skipi sér í tvær órofa fylkingar á Alþingi að mörgum finnst eins og ógnvænlegt og hættulegt upplausnarástand myndist ef línur í málum liggja ekki nákvæmlega eftir flokkslínum.
Slíkt bendi til veikrar ríkisstjórnar sem jafnvel eigi að segja af sér vegna þess arna.
Lenska hefur verið að framkvæmdavaldið hefur barið niður allan mótþróa í meirihlutaliði sínu á þingi og það hefur leitt til þeirrar hefðar að ofríki framkvæmdavaldsins hefur farið sívaxandi.
Fyrir löngu er ljóst að afstaða gagnvart ESB gengur ekki eftir flokkslínum og sama er vafalaust hægt að segja um Icesavesamningana. Það er því af hinu góða að á þingi verði þingmenn aðeins bundnir af samvisku sinni og sannfæringu þegar málið verður afgreitt.
Þannig háttar oft til um mál á Bandaríkjaþingi að meirihluti flokks og forseta riðlast á þingi. Oft riðlast bæði fylkingar meirihluta og minnihluta og þykir ekki tiltökumál heldur eðlilegt að menn brreyti samkvæmt sannfæringu sinni en ekki eftir skipunum frá öðrum.
Raunar er Icesavemálið svo stórt og þannig vaxið að réttast væri að það væri afgreitt í þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að vilji þjóðarinnar komi beint fram.
![]() |
Sjálfstæðismenn ráða úrslitum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.6.2009 | 00:01
Þarf ekki að finna upp hjólið.
Þegar ferðast er um þjóðgarða og ferðamannaslóðir í öðrum löndum sést strax hve langt við Íslendingar höfum verið á eftir öðrum í að læra það, hvernig best er að standa að þjónustu við ferðamenn og umgengni við náttúruna.
Þegar komið er í inngangshliðin að amerískum þjóðgörðum kaupir maður sig inn en fær í staðinn góðan fræðslubækling um það helsta sem er að sjá og þarf að gæta að í þjóðgarðinum.
Í þjóðgarðinum er þess vandlega gætt að ferðamenn geti séð allt það helsta sem er að sjá, án þess að skemma nokkuð.
Víða ganga ferðamenn um mjög viðkvæm svæði en fara þá eftir sérstökum göngupöllum svipuðum þeim sem eru á Þingvöllum. Pallarnir hvíla á mjóum hælum þannig að hvaða kynslóð framtíðarinnar sem er getur fjarlægt þá ef hún vill án þess að þeir skilji eftir sig rask.
Ferðamenn eru vanir því að borga fyrir sig á svona stöðum og því algerlega ástæðulaust að halda að aðgangseyrir á vissum stöðum hér á landi muni fæla frá. Þar með er ekki sagt að ástæða sé til gjaldtöku alls staðar, - það fer eftir aðstæðum.
Að baki fyrikomulagi á ferðamannaslóðum erlendis liggur mikil og löng reynsla og vinna kunnáttufólks.
Þar sést að jafnvel á viðkvæmum svæðum er hægt að haga málum þannig með stýringu að milljónir ferðamanna valdi ekki átroðningi eða skemmdum.
Sums staðar er aðsókn svo mikil að göngu- og siglingaleiðum að ferðamenn eru rændir þeirri upplifun sem þeir sækjast eftir, kyrrð og friði úti í náttúrunni. Á slíkum er einfaldlega ítala og kvóti á fjöldanum, sem fær að ganga eða sigla um þessar slóðir.
Banff-þjóðgarðinum í Kanada er til dæmis skipt niður í fimm tegundir af svæðum eftir því hve ósnortin náttúran er og hve mikið næði og kyrrð ferðamenn geta fengið. Í hæsta flokki þar eru svæði þar sem örfáir koma á ári hverju, þrátt fyrir milljónirnar sem fara um þjónustusvæðin og útivistarsvæðin nálægt leiðinni inn í þjóðgarðinn.
Í stað þess að Íslendingar séu að rembast við að finna upp hljólið þarf að gera gangskör að því að besta þekking og reynsla erlendis nýtist okkur við að skipuleggja og stýra ferðamennskunni hér á landi.
![]() |
Vilja gera landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.6.2009 | 08:14
"Tær viðskiptasnilld": Gróðavænleg vandræði.
Icesave-sjóðirnir voru "tær viðskiptasnilld" að sögn Sigurjóns Þ. Árnasonar í sjónvarpsviðtali. Orð sem munu lifa og fá nýtt líf aftur og aftur.
Svipað má líklegast segja um lán hans hjá séreignalífeyrissjóðnum.
Þegar Kárahnjúkavirkjun stóð tæpt vegna þess að óvíst var hvort og hvernig yrði hægt að bora í gegnum mikið misgengissvæði sem menn höfðu leynt fram að því lýstu tveir snjallir bankamenn því fyrir mér hve þessir erfiðleikar gætu orðið hagstæðir fyrir þann banka sem Landsvirkjun skipti við.
Annar þeirra sagði við mig þessa dásamlegu setningu: Því verr sem virkjunin gengur, því meira græðir sá banki sem fjármagnar hana."
Það væri vegna þess að virkjunin væri ríkistryggð og því tæki bankinn enga áhættu, gæti ekkert annað en grætt, hvernig sem allt færi.
Bankinn myndi græða mest á því að standa að því að redda Landsvirkjun um neyðarlán á háum vöxtum þegar í harðbakkan slægi.
Ég hef traustar heimildir fyrir einu dæmi um þetta. Það var neyðarfundur sem haldinn var að morgni dags þar sem bjarga þurfti sjö milljörðum króna innan klukkstundar.
Þetta var um svipað leyti og illa gekk fyrir austan.
Já, þau eru mörg dæmin um "tæra viðskiptasnilld" sem nú eru að koma í ljós. Eitt besta dæmið finnst mér það sem felst í þessu: Því verr sem lántakanum gengur, því meira græðir bankinn sem lánar honum. "Tær viðskiptasnilld."
![]() |
Fékk 70 milljóna lán |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
14.6.2009 | 22:58
Nokkuð um vatnsaflsvirkjanir?
Hversu hátt og vítt hugsa menn þegar mótuð er sameiginleg umhverfis- og orkustefna?
Líklega fara menn eins stutt og þeir komast af með.
Ef sameiginleg yfirstjórn væri yfir virkjanamálum á Norðurlöndum myndu menn líta yfir sviðið og sjá að á tveimur Norðurlandanna, Íslandi og Noregi, er álíka mikil vatnsorka óvirkjuð að magni til og að þetta eru einu löndin í Evrópu þar sem svo háttar til.
Íslendingar réttlæta sínar fyrirhuguðu virkjanir með því að hlutfallslega eigi þeir þrefalt meira óvirkjað en Norðmenn.En Noregur er þrefalt stærra land en Ísland og þegar staðið er álengdar og málið skoðað er rangt að nota prósenttölur af misstórum heildum heldur á magnið í sjálfu sér að vera lagt til grundvallar.
Ef virkja ætti vatnsafl og taka tillit til náttúruverðmæta sem fórna þyrfti vegna virkjananna sæist fljótt að umhverfisspjöllin á Íslandi yrðu í flestum tilfellum margfalt meiri en í Noregi.
Í öllum hugsanlegum viðbótarvirkjunum Noregs er um að ræða hreint vatnsafl, sem ekki myndar set í miðlunarlónum heldur er ígildi eilífðarvélar líkt og Sogsvirkjanirnar á Íslandi.
Í aurugum jökulám Íslands fyllast hins vegar miðlunarlón af seti eins og þegar má sjá í Sultartangalóni og Hálslóni.
Sultartangalón verður á nokkrum áratugum ónýtt til miðlunar vegna þessa.
Set hér með tvær myndir af slíkri uppfyllingu Kringilsár í Hálslóni eftir aðeins tvo vetur, en þar sem myndin sýnir flatar jökulleirur núna, var djúpt gil fyrir tveimur árum.
(Hægt að skoða þær betur með því að smella á þær í tveimur áföngum og láta þær fylla út í skjáinn)


Það að auki eru margar fyrirhugaðar vatnsaflsvirkjanir á Íslandi á því svæði, sem skilgreint er sem eitt af helstu náttúruundrum heims, þ. e. hinn eldvirki hluti Íslands.
Norska hálendið, þar sem hætt hefur verið við stórvirkjun í svipuðum stíl og Kárahnjúkavirkjun er, er ekki slíkt undur.
Á hinum Norðurlöndunum, þeirra á meðal í Noregi, er tími nýrra vatnsaflsvirkjana liðinn. Hins vegar ekki hér.
Þetta er á skjön við samræmda heildarstefnu og því þurfa virkjanafíklar ekki að óttast að sameiginleg stefna á þessu sviði líti dagsins ljós að þessu sinni. Íslendingar munu að sjálfsögðu ekki ýja einu orði að sameiginlegri stefnu Norðurlanda á þessu sviði, því miður að mínu mati.
![]() |
Norræn stefna í umhverfismálum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.6.2009 | 02:45
Endurreist eins Þjóðleikhús á nýjum stað.
Þjóðleikhúsið, það er að hrynja. /
Þar molnar steypan og listvinir stynja. /
En það er ein leið út úr þessari ósvinnu /
og það er að reisa það aftur - úr tinnu.
Þessi vísa varð til þegar þetta mál kom fyrst upp og þegar farið er með hana heyrist ekki hvort síðasta orðið i henni er ritað með litlum eða stórum upphafsstaf.
Ég hef áður bloggað um það að einn helsti kunnáttumaður okkar um viðhald og endurbyggingu húsa telur að það borgi sig ekki að púkka upp á Þjóðleikhúsið á þeim stað þar sem það stendur ónýtt núna, heldur eigi að endurreisa það á nýjum og betri stað þar sem þetta mesta stolt Guðjóns Samúelssonar fær loks að njóta sín.
Vegna þess að húsið stóð lokað en óupphitað í tólf ár fór það svo illa að því verður ekki bjargað.
Húsinu var holað niður í þrengslum á milli annarra húsa í stað þess að velja því stað þar sem það nýtur sín jafnvel og til dæmis Hallgrímskirkja, Perlan eða komandi tónlistarhús.
Meðan nýja Þjóðleikhúsið rís má halda áfram starfsemi í því gamla eins og unnt er til að stytta þann tíma sem leihúsið er ekki starfandi.
Þegar hið endurreista hús er síðan fullgert, ætti að rífa núverendi hús og nota lóðina á skynsamlegan hátt.
Þessa leið hefði átt að fara strax í upphafi þegar þetta vandamál kom upp og enn er ekki of seint að hafa þennan hátt á og horfa langt fram í stað skammtímalausna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.6.2009 | 02:28
Góð stund í Friðlandi að Fjallabaki.
Það var ánægjulegt að vera viðstaddur hugljúfa athöfn í Friðlandi að Fjallabaki í dag þegar afhjúpaður var minnisvarði um það þegar Guðmundur Jónasson fann bílfært vað á Tungnaá árið 1950 og opnaði þar með leið fyrir almenning frá sunnanverðu landinu inn á miðhálendi landsins.

Minnisvarðinn var gerður í tilefni af aldarafmæli Guðmundar.
Hann stendur skammt frá vegamótum leiðarinnar frá Sigöldu suður í Landmannalaugar og slóða sem liggur að vaðinu, sem nefnt var Hófsvað og um Svartakrók að Ljótapolli.
Allt þar til virkjanir komu í Tungnaá var þetta vað sú leið sem menn fóru inn á hálendið.
Þessi skipan mála varði í hartnær aldarfjórðung.
Í heimildamyndinni "Ísland - eyjan sjóðandi" sem Svisslendingurinn Hans Nick tók 1965 er frábær mynd af vaðinu.

Í myndinni sést hvernig jeppi Svisslendingsins er settur upp pall stórs trukks af Studebaker-Reo gerð og selfluttur yfir ána.
Guðmundur Jónasson var þekktastur svonefndra fjallabílstjóra á sinni tíð og afkomendur hans reka öflugt rútufyrirtæki sem sinnir ferðum af fjölbreyttu tagi.

Við athöfnina í dag mátti sjá fjórar kynslóðir aðstandenda Guðmundar og velunnarra og hjálparmanna hans.
Flestir brautryðjendanna eru horfnir til feðra sinna.
Þó er rétt að nefna að enn er á lífi í hárri elli Páll Arason, sem var einn af þeim þekktustu og stóð meðal annars fyrir því að fara á fjallabíl sínum, "Pálínu", alla leið til Rómar auk þess að nota hann til hálendisferða hér heima.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)