Færsluflokkur: Bloggar

Óbeinn kostnaður af gervigrasinu.

Ég var að koma frá sérfræðingi í fótaaðgerðum. Við ræddum um afleiðingar slæmrar meðferðar á fótum vegna ofreynslu á hné, ökkla og mjaðmir, einkum hné.

Hann sagði mér að með tilkomu gervigrasvallanna hefði tíðni meiðsla og slits í þessum liðum farið mjög vaxandi og greinilegt væri að þarna væri samband á milli.

Fróðlegt væri ef úttekt yrði gerð á þessu. Fyrir utan þjáningar og vinnutap væri hugsanlega hægt að slá á það hvað óhæfileg notkun þessara valla kostaði þjóðfélagið í beinhörðum peningum sem fara forgörðum í heilbrigðis- og tryggingarkerfinu.

Hreyfing og íþróttir eru bráðnauðsynlegar og mikils virði fyrir líkamlegt og andlegt heilbrigði. En það er líklega ekki sama hvernig þær eru stundaðar. Það er mikilvægt að allar hliðar þess máls séu skoðaðar vel.


Varðar mestu að klekkja á keppinautunum?

Vegna þess að ég var og verð fréttamaður til æviloka er ég með tvo farsíma til þess að ég geti helst alltaf svarað tafarlaust í annan þeirra og að ég verði aldrei sambandslaus.

Einnig til að finna týndan síma með því að hringja í hann úr hinum símanum. Hefur komið sér vel ótal sinnum. 

Ég nota 699-1414 til að svara og 892-1414 til að hringja og senda sms-skilaboð.

Að undanförnu hefur verið hringt þrisvar í mig frá öðru símafyrirtækinu til þess að bjóða mér gull og græna skóga, frábær tilboð og hvaðeina, ef ég hætti við að skipta við hitt símafyrirtækið.

Þegar ég hef spurt hvort ekki væri nær að bjóða mér þessi vildarkjör á símanum, sem ég hef hjá fyrirtækinu, sem hringt er fyrir, verður fátt um svör. Nei, það er ekki í boði. Þetta snýst bara um að klekkja á keppinautnum. 

Greinilegt er að þeir / þær sem hringdu vissu það ekki að ég væri með síma hjá báðum fyrirtækjunum og þegar ég svaraði þeim svona virðist áhuginn enginn á að bjóða mér þessi vildarkjör nema ég færði hitt símanúmerið yfir.

Mitt lokasvar í öll skiptin hefur verið það að ég hafi ekki í hyggju að breyta neinu úr því að það er boðið með því skilyrði að ég klekki á samkeppnisaðilanum, sem ég á ekkert sökótt við.

Ég spyr um viðskiptasiðferðið sem liggur að baki ofangreindu. Lærðu menn ekkert af síðustu árum og afleiðingum þess sem þá var spólað upp í hæstu hæðir?

Telst ofangreint vera "tær viðskiptasnilld"?

Við síðasta sölufulltrúann hefði ég kannski átt að segja að fyrirtæki hans ætti skilið að ég segði upp viðskiptum við það. Hefði það ekki bara verið mátulegt á það?   


Smá forsmekkur af framtíð Hálslóns.

Var að koma úr fyrstu ferð yfir Hálslón eftir að snjóa og ísa leysti.

P1010198

Lenti á tveimur stöðum, á Hálsinum og Sauðárflugvelli.

Þótt enn sé ófært bílum um allt nágrenni flugvallarins kemur hann sjálfur frábærlega vel undan vetri, harður og þurr.

Einstætt flugvallarstæði þetta.  

Breytingarnar á lónstæði Hálslóns frá því í fyrra eru miklar og gefa smá forsmekk af því sem er í vændum næstu ár.

Þetta er í fyrsta sinn sem hleypt er úr lóninu um 45 lóðrétta metra.

Ef það yrði gert við Hvalfjörð yrði hann allur á þurru nema einn hylur yst í firðinum.

P1010144

Ég veit ekki um neitt miðlunarlón í Evrópu eða Ameríku sem er neitt líkt þessu lóni.

Hækkun og lækkun eru tíu sinnum hraðari en það hraðasta sem finnst í Ameríku.

Yfir 30 ferkílómetrar eru nú á þurru, þaktir þykku leirlagi sem verður eins og hveiti þegar það þornar.

Athugið að hægt er að skoða þetta betur með því að smella í tveimur áföngum á myndirnar og láta þær fylla út í skjáinn.

Á mynd númer 2 að ofan sjást stíflurnar og Kárahnjúkur á milli þeirra.

P1010148

Vinstra megin við veginn sem sést er lónstæðið á þurru, þakið þykku leirlagi sem er að byrja að þorna.

Á mynd númer 3 sést Sandfell næst okkur, en það verður að eyju síðar í sumar þegar lónið á eftir að hafa náð upp í sárið, sem það sargar hratt inn í fellið.

Þetta fell kallaði einn bloggarinn "eyju" um daginn og dásamaði það hve Kárahnjúkavirkjun myndi gera hana að dásamlegu varpstæði fugla og mikils lífríkis.

Ekki er stingandi strá á "eyjunni" einsg og sjá má og ekki einn einasti fugl. 

P1010109

Lónið var leyft vegna þess að úrskurðað var að enginn vandi væri að stöðva leirfok með því að vökva þessa 30 ferkílómetra og dreifa yfir þá rykbindiefnum.

Á mynd númer 4 er horft yfir hluta foksvæðisins við innanvert lónið þar sem ekki er fært nokkru farartæki.

Leyfið fyrir lóninu byggðist á því að nota flugvélar til að dreifa rykbindiefnum yfir þessar leirur.

Hugsið ykkur að yfir alla byggðina frá Grafarholti út á Seltjarnarnes yrði dreift þykku lagi af fínu hveiti og síðan kæmi sterkur vindur.

Samkvæmt úrskurðinum yrði leikur einn að stöðva leirfokið.

P1010103

Leikur einn að vökva þetta allt eða dreifa yfir það rykbindiefnum þannig að ekkert leirfok yrði.

Á mynd númer 5 er horft til norðurs og er Kringilsárrani, sem áður var friðaður, vinstra megin en grillir í Hálsinn hægra megin.

Skilin á milli þykkrar gróðurþekjunnar í Rananum og sandsins og leirsins í þurru lónstæðinu sjást vel.

Á mynd nr. 6 er horft á þetta nær.

Á miklum meirihluta hinna nýju uppfokssvæða verður engu farartæki við komið á landi.

Það verða engir tankbílar í Kringilsárrana. 

P1010102

 

Í fyrradag voru þegar komnir leirstormar þótt leirinn sé rétt að byrja að þorna.

Ég lenti 16 kílómetra fyrir sunnan Kárahnjúka við enda svokallaðs varnargarðs.

Þaðan sá ég hvorki Kárahnjúk við norðurenda lónstæðisins né Brúarjökul við suðurenda lónstæðisins vegna leir- og sandfoks sem var á svæðum á milli þessara punkta sem eru 25 kílómetra frá hvor öðrum.

Skrifa seinna sérstakan pistil um Kringilsá og eyðingarafl hennar eftir að lónið kom til sögunnar.

P1010133

Frá enda varnargarðsins og suður í jökul eru hátt í tíu kilómetrar og á því vegalausa svæði væri gaman að sjá tankbíla sem gætu dreift vatni yfir víðáttumikla fláka leirs sem þar munu verða æ þurrari næstu vikur.

Á mynd númer 7 hér við hliðina er horft í suður yfir Hálsinn.

Þarna var áður þykkur grænn gróður, en nú breytist þetta æ meira í rjúkandi eyðimörk.

Svonefndur varnargarður sést vinstra megin á myndinni.

Á mynd númer 8 sést að vindur hefur aukist og svæðið að hverfa í leirstorm.  

P1010134

Vestan lónsins eru tuga ferkílómetra svæði þar sem engum farartækjum er fært.

Þar ætla menn líklega að dreifa rykbindiefnum yfir úr flugvélum. Hvaða flugvélum?

Á næstu dögum er von á sveit manna frá Landgræðslunni austur til þess að stöðva sandrokið.

Hálsinn, sem sökkt var, var 16 kílómetra löng bogadregin græn hlíð með nokkurra metra þykkum gróðri.

Í fyrra hafði leirnum ekki tekist að kaffæra gróðurinn að fullu en nú sjást stórir flákar þar sem leirinn hefur kaffært hann og byrjað er að rjúka úr.

P1010119

Þegar myndir birtust af fyrsta sandfokinu þarna í fyrra var hringt í RUV og kvartað yfir lygum fréttarinnar því að rykmekkirnir væru ekki úr lónstæðinu heldur frá bílum ferðamannanna sem brunuðu þarna um til að njóta hins dásamlega útivistarsvæðis sem Landsvirkjun hefði opnað.

Það væri orðið vinsælasta ferðamannasvæði Austurlands og það allt virkjuninni að þakka. 

Ég sá einn bíl á varnargarðinum í fyrradag. Fyrir vestan lónið hefur engum bíl verið fært vegna aurbleytu.

P1010112

Ástandið þarna á ekki eftir að gera neitt nema versna ár frá ári í 10-15 ár sem það tekur fyrir dauðasveitir leirsins að drapa allt líf úr tugmilljónum tonna af jarðvegi og breyta í svipaðar leiru og við Hagavatn sem ekkert þrífst í og engin leið er að stöðva fok úr.  


"Það er gott að..." - 3ja vísa.

Nýjar fréttir berast jafnvel með nokkurra mínútna millibili frá Kópavogi. Orðið dótturfyrirtæki hefur nú öðlast nýja merkingu í íslensku máli.

Hér kemur þriðja vísan í fréttasagnabálkinum, í viðbót við þær tvær sem komu fyrr í dag og voru bloggaðar í hádeginu.

Þessi vísa varð til þegar margumrædd viðskipti bæjarins komust í hámæli og sem fyrr skal lesa síðustu hendinguna með djúpri röddu í gegnum rör: 

 

Út af dótturmálum hópar heyja

hörkuslag, - það er sem bærinn logi. 

Gunnar nú um það vill þetta segja: 

"Það er gott að eiga pabba´í Kópavogi. 


mbl.is Framsókn leggst undir feld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er verra að búa í Kópavogi.

Stundum er ekki einleikið hvernig fréttir byrja að hrúgast upp á einhverjum afmörkuðum stað eða sviði. Þetta á við um Kópavog þessa dagana þegar fréttirnar taka við hver af annarri.

Ég sé fram á að þurfa að bæta vísu við þær tvær sem ég hef notað um málefni bæjarstjórans. Sú fyrri var gerð í tilefni af því að það var borið út að bæjarstjórinn hefði sést á ferli á eða við súlustað Geira Goldfingers.

Þá varð til þessi vísa og skal tekið fram að síðustu hendinguna verður fyltjandinn að lesa í gegnum rör með eins djúpri röddu og honum er unnt:

Á súlustaðnum Gunnar allvel undi. /

Úr augum hans skein bjartur frygðarlogi  /

þegar að hann þreifaði´um og stundi: /

"Það er gott að búa í Kópavogi."

 

Seinni vísan varð til þegar Gunnar hafði komið í viðtal í sjónvarpi nær gráti nær yfir því hve mörgum milljörðum bærinn hefði tapað á því að fólk skilaði lóðum sínum og að nú yrði að draga saman í rekstri hins góða bæjarfélags. Sú vísa er svona og skal síðasta hendingin lesin djúpri röddu í gegnum rör:

Heimurinn er allur orðinn breyttur.  /

Allt of hátt var spenntur okkar bogi.  /

Gunnar Birgisson nú þusar þreyttur:

"Það er verra að búa í Kópavogi."

Er á leið frá Akureyri til Reykjavíkur og bíð spenntur eftir nýjustu fréttum úr Kópavogi og hugsanlegu tilefni til þriðju vísunnar um málefni þess góða bæjarfélags.


mbl.is Sakar Gunnar um blekkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leysa nýja krafta úr læðingi.

Ég er á Akureyri og við hjónin vorum á flugsýningu hér. Við höfum farið á allmargar flugsýningar erlendis en sáum þó atriði á þessari sem sýndu bæði hugkvæmni og opinn hug. Ég tilgreini það ekki nánar nú.

Þarna mátti líka sjá annað dæmi um hugkvæmni og dug sem sýnir að í dreifbýli á Íslandi leynast meiri möguleikar en menn átta sig á.

Þetta dæmi heitir Mýflug. Fyrir 25 árum seldi ég Leifi Hallgrímssyni litla fjögurra sæta eins hreyfils flugvél sem hann notaði í útsýnisflug sem hann bryddaði upp á í sveitinni fyrir ferðamenn.

Á sýningunnni í dag var til sýnis skrúfuþota félagsins af gerðinni Beechcraft King Air með jafnþrýstiklefa og tilheyrandi.

Þetta er ekki eina tveggja hreyfla flugvél félagsins og þar að auki á það þrjár eins hreyfils vélar og geta tvær þeirra tekið fimm farþega í einu í útsýnisferð um hið óviðjafnanleg hálendi norðan Vatnajökuls sem teygir sig alla leið til sjávar.

Þetta magnaðasta, stærsta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði í heiminum.

Það var samdráttur í íslensku þjóðfélagi 1984 þótt hann væri ekki eins mikill og nú. Árið áður var gripið til harkalegra aðgerða sem minnkuðu kaupmátt verulega.

Á slíkum tímum kvikna oft hugmyndir sem annars fengju aldrei vængi. Hugmynd Leifs fékk vængi.

Íslendingar þurfa á slíkum mönnum og slíkum hugmyndum að halda til að leysa nýja krafta úr læðingi á þeim tíma sem þeirra er mest þörf.


mbl.is Staðan skýrist í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það sem er gott er óhollt..."?

Það hefur verið sagt að það, sem sé gott, sé annað hvort syndsamlegt eða óhollt.

Ég bloggaði eitt sinn um það guðdómlega góðgæti súkkulaði og það, hve mikinn þátt það á vafalaust í því að vestrænar þjóðir eiga við offituvandamál að stríða.

Ég áttaði mig ekki sjálfur á því hve mikil áhrif þessi freistandi matvara hefði á holdafarið fyrr en ég þurfti um þriggja mánaða skeið að vera í fitubindindi vegna lifrarbilunar af völdum sterkra sýklalyfja sem olli ofsakláða og tilheyrandi svefnleysi.

Nú þurfti að lesa utan á öllum umbúðum um fituinnihald alls sem neytt var og leita upplýsinga um annað. Þá kom í ljós að tæpur þriðjungur af einu mínu mesta yndi, Prins póló, var hrein fita.

Á þessum þremur mánuðum missti ég 16 kíló og auðvitað var svona svakalegt fitubindindi óhollt í sjálfu sér, því að fita í hófi er nauðsynleg fyrir líkamlegan þrótt.

Þegar bindindinu lauk var það unaðsleg stund að veita sér fyrsta daginn þann munað að éta hálft stykki af Prins Póló.

Fyrstu vikurnar eftir að lifrin varð alheil sveif maður næstum á skýi, - gat étið það sem manni sýndist í fyrsta sinn í 40 ár !

Sumt súkkulaði, einkum ljóst súkkulaði, inniheldur flest það sem veldur offitu og sjúkdómum og tengdum vandræðum sem aftur veldur tjóni á ýmsa lund og kostnaði í heilbrigðis- og tryggingakerfinu.

Fer þar stundum saman hin óhollari tegund fitu og mikill hvítasykur sem er eitt kostnaðarsamasta og lúmskasta fíkniefni nútímans.

Hjá sumum flugfélögum er meira að segja í ráði að leggja sérstakt gjald á umframkíló farþeganna. Það kostar eldsneyti og peninga að lyfta nokkrum tonnum af aukakílóum frá jörðu í hverri flugferð upp í 40 þúsund feta hæð og geta ekki flutt eins margt fólk og ella.

Skattur á vörur sem innihalda mikinn hvítasykur og fitu er því réttmætur. Maður á að borga fyrir að neyta.

Vegna hnémeiðsla get ég í bili ekki stundað eins mikla hreyfingu og jafnan áður og verð því að grípa til þeirrar reynslu sem ég fékk í fyrra til að fara ekki aftur upp í þá þyngd sem ég var kominn í þegar ég veiktist. Það þýðir breytingu á mataræði hvað snertir fitandi matvöru.

Verðhækkun á fitandi vörum virkar sem hvati fyrir mig og vonandi fyrir fleiri. Nú um stundir spara ég líklega 7 -10 þúsund krónur á mánuði vegna samdráttar í neyslu á súkkulaði.

Af því að sumt kex er ekki fitandi er aukaskattur á það þó ósanngjarn að mínu mati. Ef hrökkbrauð telst kex er aukaskattur á það fráleitur að mínum dómi.

 

P. S. Í gær birti ég mynd í bloggpistli með spurningunni: Hvorum megin við máluðu steinana er flugbrautin?

P1010171

Lofaði að birta svar í dag og hér fylgir það fyrir neðan myndina frá í gær.

Á þeirri mynd sést hinn jaðar flugbrautarinnar, sem er ein af þremur brautum valllarins, 30 metra breið og 1400 metra löng, nothæf fyrir Fokker og farþegaþotur af millistærð.

P1010173
mbl.is Skattur á kex og gos í 24,5%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki sá fyrsti sem íhugar svipaða aðgerð.

Þegar mér varð ljóst að svo væri málum komið við Kárahnjúka að ég yrði að taka afstöðu gegn því sem átti að gera þar íhugaði ég síðasta árið fyrir drekkingu Hjalladals ýmsa möguleika á því sem hægt yrði að gera við að vekja athygli á þessu máli. Einn var sá að skilja flugvélina TF-FRÚ eftir á lendingarbrautinni, sem ég notaði á botni dalsins, og taka myndir af því þegar hún sykki. Hér eru tvær myndir af flugvélinni á þessum stað. Á neðri myndinni stendur hún uppi á lendingarstaðnum hægra megin á myndinni. 

DSCF0219

Þetta yrði táknrænn gerningur um hið ofboðslega mikla tjón sem menn ætluðu að valda á ómetanlegri náttúru Íslands og sýndi hve mikil alvara mér væri með því að fórna í þágu málstaðarins grip, sem ég var bundinn miklum tilfinningaböndum við.

Raunar var flugvélin sáralítils virði, orðin gömul, þreytt og lúin, nær verðlaus, en það var ekki aðalatriðið heldur tilfinningaratriðið, og það að kallmerkinu TF-FRÚ yrði fórnað í eitt skipti fyrir öll.

Mér varð hins vegar ljóst að þessi gerningur yrði lagður út á versta veg, - ég sakaður um að menga umhverfið og standa að eyðileggingu þess.

DSCF0212

Allir myndu skilja það en færri átta sig á milljón sinnum stærra tjóni þegar hafið væri það verk að fylla upp með auri 25 kílómetra langan dal með mögnuðum náttúruverðmætum.

Ég hætti því við þennan gerning þegar Paul Cox skaut þeirri hugmynd að mér að sigla um lónið á báti með nafninu "Örkin", bjarga lífi og steinum af botninum og taka myndir af eyðileggingunni.

Þetta reyndist rétt ákvörðun því að ég var kærður fyrir umhverfisspjöll sem gætu varðað tveggja ára fangelsi með því að tylla þessari sömu TF-FRÚ niður lendingarstaðinn í lónstæðinu, og hafði ég þó fengið leyfi Náttúruverndarráðs til þess á meðan ekki var búið að aflétta friðun af hluta dalsins.

Í hönd fór hálfs árs málarekstur, rannsókn og yfirheyrlsum hjá rannsóknarlögreglu og fleiri aðilum sem endaði með því að ekki fannst að neitt saknæmt hefði verið aðhafst.

P1010171

Með þessum pistli fylgir ljósmynd, sem ég tók í fyrradag af jaðri flugbrautar Sauðárflugvallar.

Þessi lendingarstaður er einn af meira en 20 slíkum, sem hafa verið á hálendinu, allt frá því að Agnar Koefoed-Hansen fann Sauðárflugvöll árið 1939.

Spurningin er: Hvorum megin við máluðu steinaröðina er flugbrautin sem átti að fela í sér svo mikil náttúruspjöll? Svar birtist síðan væntanlega á morgun.


mbl.is Biður nágranna afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmælastaða 17. júní í Dómkirkjunni.

Í trúarjátningunni segja menn: "Ég trúi á.....heilaga almenna kirkju." Sá andi sveif ekki yfir vötnunum í Dómkirkju Íslendinga í gær á sjálfan þjóðhátíðardaginn. Mikilúðlegur maður með stór, svört gleraugu og fjarskiptabúnað í eyrum tók völdin af kirkjuverðinum að prestum og biskupi forspurðum og varnaði almenning aðgangi að helgidóminum, nema hann færi upp á loft.

Niðri var kirkjan hálftóm, en þeir sem ekki komu snemma og reyndu að fara upp á loft urðu að standa þar í kös og hrökkluðust margir niður og út úr kirkjunni fyrir bragðið.

Heimildarmaður minn er kirkjurækin íslensk kona sem hefur talið það ómissandi hluta af hátíðarhaldinu 17. júní að taka auglýstu boði í fjölmiðlum um að koma og vera viðstödd hátíðarguðsþjónustuna. Hún trúði á þessa auglýsingu en komst að raun um annað.

Þessi kona hefur aldrei tekið þátt í mótmælum af neinu tagi og friðsamari og yndislegri manneskju er varla hægt að hugsa sér.

Kirkjuvörðurinn sagðist aldrei hafa upplifað annað eins. Sá sem beitti hann valdi í fordyri Guðshússins kvaðst vera sendur af til þess bærum yfirvöldum að framkvæma þessa frávísun frá hinni "almennu kirkju."

Konan, sem er heimildarmaður minn, kvaðst ekki geta unað þessu ofríki og móðgun og harðneitaði að fara upp á loft og slást þar við niðurlægða kirkjugesti, sem stóðu þar á meðan bekkirnir voru að hálfu auðir niðri í kirkjunni.

Hún kvaðst ætla að standa þar sem hún væri niðurkomin og hreyfa sig hvergi. Þetta gerði hún og þar með afrekaði snillingurinn sem að ofríkinu stóð það að gera stöðu hennar að nokkurs konar mótmælastöðu.

Ef hún hefði verið hugsanlegur hryðjuverkamaður, eins og gefið var í skyn, hefði hún svo sem getað sprengt sprengju þar sem hún var niður komin. Almenningurinn sem var uppi á loftinu hefði líka getað stundað háreysti og kastað einhverju niður á fína fólkið sem fékk að fara inn um gullna hliðið.  

Raunar afrekuðu snillingarnir sem að þessari lokun stóðu það að benda óeirðamönnum, ólátabelgjum og hryðjuverkamönnum á að Dómkirkjan í Reykjavík væri komin á lista með vænlegum stöðum til slíkra athafna.

Ég er ekkert feiminn við að nota orðið hryðjuverkamaður í þessu sambandi. Við eigum það sameiginlegt, Ólafur F. Magnússon og ég að menn hafa notað þetta orð yfir okkur.

Ég hélt ég ætti heima á Íslandi en ekki í Írak þar sem menn sprengja sig í loft upp í og við trúarathafnir. Kannski var það misskilningur hjá mér. 

 


Ef þetta hefði verið nauðsynlegt atriði í kvikmynd ?

Ef atvikið á Álftanesinu hefði verið atriði í kvikmynd og kostað tugi milljóna hefði það verið metið hvort rétt hefði verið að verja þessu fé með tilliti til þess gildis sem það hefði fyrir kvikmyndina og áhrif hennar. Þetta verða kvikmyndagerðarmenn oft að meta og vega saman kostnað við atriðið og gildi áhrifa þess.

Ef áhrifin eru nógu mikilsverð og verðmæt er hægt að réttlæta kostnaðinn. Verknaðurinn á Álftanesi var í sjálfu sér refsiverður og talsverð verðmæti voru eyðilögð, verðmæti, sem maðurinn átti ekki lengur á pappírnum, þótt kannski hafi verið um afrakstur ævistarfs hans að ræða.

Um slíkt gilda lög og við þessu liggja viðurlög.

Það blasir líka við að fari allir þeir, sem eru í sömu sporum og húseigandinn örvæntingarfulli á Álftanesi, að standa fyrir samskonar eyðileggingu, verður það tjón ekki réttlætanlegt.

Ég held samt, að þegar fram líða stundir, verði myndir og umfjöllunun um þennan einstæða atburð mögnuð heimild um þessa tíma eyðileggingarinnar og tjónsins sem við lifum, - eyðileggingar og tjóns þar sem talað er um upphæðir sem eru mörg þúsund sinnum stærri en verðmæti íbúðarhúss á Álftanesi.

Mig grunar raunar, að þegar tímar líði fram verði þessi heimild margfalt verðmætari en sem nam peningalegu tjóni af verknaðinum.


mbl.is Bankinn fékk ekki lyklana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband