Færsluflokkur: Bloggar

Hvað hefur páfinn marga hermenn?

Þessarar spurningar spurði Stalín þegar menn sögðust hafa áhyggjur af viðbrögðum páfans við því sem Stalín var að gera.

Hvað hefur Dalai Lama marga hermenn spyrja íslenskir ráðamenn. Þetta heyrir maður í fréttunum uppi í Grímsvötnum og undrast.

Hér er tæplega þrjátíu manna leiðangur, tíu bílar, níu vélsleðar og stór snjóbíll. Grímsvötn hafa verið útnefnd sem eitt að sex merkilegustu eldfjöllum heims. Ekki á blaði þar eru: Vesuvius, Etna, Fujiama, Kilimanjaro og Hekla. Það er því þess virði að vera í rannsóknarleiðangri á þessum merkilega stað. Er að vinna í þætti um það. Meðfylgjandi er mynd úr síðustu ferð minni í Grímsvötn.

Grímsvötn


Fólk "kemur að" öllum fjandanum.

Málfarspistlar Eiðs Guðnasonar eiga mikinn rétt á sér enda virðist málkennd fjölmiðlamanna og annarra, sem setja fram mál sitt, hraka svo mjög að áhyggjuefni er.

Eitt einkenni þessa er orðfæð og eltingarleikur við tískuorð eða orðatiltæki sem fara langt með að útrýma öðrum og betri orðum.

Eitt hvimleiðasta orðatiltækið er "að koma að" einhverju.

Það byrjaði einhver á því fyrir rúmum áratug að nota þetta orðalag sem enginn hafði notað áður og allt í einu var eins og mönnum fyndist það mjög fínt að taka svona til orða. 

Nú er svo komið að fólk er hætt að taka þátt í neinu, vinna við eitthvað, fást við eitthvað eða gera eitthvað heldur kemur það að þessu öllu.

Það nýjasta heyrði ég í útvarpsfrétt einni þar sem upplýst var hverjir hefðu sótt fund nokkurn. Í stað þess að segja einfaldlega að þessir menn hefðu verið á fundinum var sagt: "Þeir komu að fundinum."

Leyfist mér að spyrja hve nálægt fundinum þeir komust úr því að þeir komu að honum án þess að komast á hann.

Það er verið að festa það í sessi að orðatiltækið "að koma að einhverju" þýði ekki aðeins þátttöku heldur líka hvar fólk er statt og hvað það gerði. 

Það er kannski stutt í eftirfarandi:

GAMLA ORÐALAGIÐ:                                                   NÝJA ORÐALAGIÐ:

Hann hélt afmælisveislu í dag.                                     Hann kom að afmælisveislu í dag.

Hann syngur í karlakór.                                               Hann kemur að söng í karlakór.

Hann er giftur maður.                                                 Hann kemur að hjónabandi.

Hann keppti í 100 metra hlaupi.                                  Hann kom að keppni í 100 metra hlaupi.    

 

Bráðum verður það hugsanlega hallærislegt að segja að maður sé að blogga, heldur verði að troða inn orðunum "að koma að" um þessa iðju, til dæmis svona:   

Lýk ég hér með þessum pistli sem ég kom að og vona að Eiður haldi áfram að koma að blogginu.  


"Glöð við förum á fjöll öll."

Í tilefni af skemmtilegu bloggi um eitt vinsælasta ástralska lag allra tíma, "Tie Me Kanguruu Down, Sport" kemur mér í hug sú stemning sem ríkir í fjalla- og jöklaferðum á Íslandi og Magnús Eiríksson og KK túlka svo vel í laginu "Óbyggðirnar kalla".

Þetta ástralska lag hefur kveikt í mér til að gera texta og lag um dæmigerða jeppaferð á fjöll undir heitinu "Glöð við förum á fjöll öll." Ég er einmitt nú að leggja af stað með skemmtilegu fólki í árlega rannsóknarferð Jöklarannsóknafélags Íslands upp á Vatnajökul.

Grímsvötn eru ævintýraland og Íslendingar hafa ekki enn áttað sig á hve einstakt það er. Ég ætla að gera tilraun í þessari ferð til að blogga ofan af jöklinum en veit ekki hvernig það muni takast.

Í skálanum verður kannski rennt í gegnum lagið "Glöð við förum á fjöll öll" og hver veit nema ég birti textann síðar.


Ekkert nema óvinsælt...

Strax eftir hrunið síðastliðið haust var það ljóst að hvaða ríkisstjórn, sem hér myndi sitja, gæti ekkert annað gert í málum þjóðarinnar en að standa að óvinsælum aðgerðum, fleiri, harðari og óvinsælli en nokkur önnur ríkisstjórn hefur þurft að standa fyrir.

Þá þegar hefði átt að vera ljóst að aðeins utanþingsstjórn eða þjóðstjórn gætu staðið að hinum óhjákvæmilegu og sársaukafullu aðgerðum sem einar kæmu til greina eins og í pottinn var búið.

Davíð Oddsson fékk bágt fyrir að orða hugmyndina um þjóðstjórn. Utanþingsstjórn hefði þó verið enn eðlilegri kostur, sá eini sem ekki hafði tengsl við hrunið.

Hún hefði getað komið í veg fyrir þá töf og þann óróa sem var til óþurftar. Stefnt hefði mátt að kosningum, sem hefði þá átt að halda næstkomandi haust eftir vandaðan undirbúning að stjórnlagabreytingum og lúkningu aðgerða í samstarfi við AGS.

Hvað um það, kosningar voru haldnar, meirihlutastjórn með nýtt umboð þjóðarinnar er við völd og loks eftir nær aldar bið hefur það fengist fram sú löngu tímabæra nauðsyn, að Íhald og Framsókn séu ekki með þann þingmeirihluta sem geri það óhjákvæmilegt að annar hvor þessara tveggja flokka hafi úrslitavald um stjórnarmyndun.

En ríkisstjórnin á ekki sjö dagana sæla í vændum. Þær líta ekki vel út, þessar ráðstafanir hennar, og enn verra er framundan þegar í kjölfarið koma sársaukafullar skerðingaraðgerðir í ríkisþjónustunni.

Hvað sem því líður má ekki gleymast hvað það var sem stefndi þjóðarbúi okkar í hrun síðastliðið haust og olli því að við eigum enga góða kosti í stöðunni, aðeins mismunandi slæma.


mbl.is Áfengi og eldsneyti hækka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...a seda tsjallends á..."

Ofangreint var tvítekið í auglýsingu um útvarpsþátt sem ég heyrði á ferð í bílnum. Ég skrifa þetta beint eftir framburðinum í auglýsingunni en ef þetta er skrifað upp á íslensku og ensku með réttri stafsetningu er setningin svona: "...að setja challenge á..."

Í auglýsingunni voru teknar setningar úr þættinum sem áttu að sýna hve góður hann væri og urðu fyrir valinu orðaskipti hlustanda, sem kvaðst ætla að "setja challenge á"  stjórnandann og stjórnandinn svaraði: Þú setur ekkert challenge á mig!" 

Nú er það svo að í frjálsum samtölum milli hlustenda og stjórnenda ráða hlustendur að sjálfsögðu orðavali sínu. Ef hlustandinn vill frekar nota enska orðið challenge en íslenska orðið áskorun er það að sjálfsögðu hans mál. 

Hitt vekur mér furðu að þegar hægt er að moða úr tugum og hundruðum klukkustunda af þessum þætti skuli þessi orðaskipti vera talin besta sýnishornið af honum og sýna best hve frábær hann sé. 

Nema að baki liggi sú hugsun að þegar fólk heyrir þessi orðaskipti fái það á tilfinninguna hve þetta sé nú flott orðað og gefa það til kynna sem Björgvin Halldórsson myndi orða svona: "Mikið rosalega er þessi þáttur mikið erlendis." 

 


Læra þarf af reynslunni 1908 og 1918.

Tvívegis áður hafa Íslendingar sent samninganefndir til útlanda til að semja um mál, sem varða fullveldi Íslands.

Þegar rennt er yfir málavexti og málatilbúnað má sjá, að í bæði skiptin tókst nokkuð vel til um það að senda nefndir sem gengu þannig til verka að hafa ákveðin samningsmarkmið í huga en gæta þess þó að geirnegla hvaðeina fyrirfram á þann hátt að í raun væri ekki verið að ganga til samninga heldur til þess að mótaðilinn samþykkti samning sem annar aðilinn hafði ákveðið fyrirfram.

1908 klofnaði íslenska samninganefndin um málið eftir að samningar höfðu tekist, en það var ekki fyrr en niðurstaðan lá fyrir. Skúli Thoroddsen lagðist einn nefndarmanna gegn samningnum en hafði þó áður farið með nefndarmönnum á fund samningamanna Dana og unnið að samningsgerðinni með félögum sínum sem best hann gat.

Skúli var aldrei vændur um það að hafa fyrirfram viljað fórna málstað Íslands þótt hann færi þessa för til að láta reyna á hve langt væri hægt að komast.

Hann taldi eftirá að Íslendingar hefðu ekki komist nógu langt og lagðist þá fyrst gegn samningnum og hafði sitt fram.

1918 setti samninganefnd Íslendinga fyrirfram það höfuðsamningsmarkmið að Ísland yrði lýst frjálst og fullvalda ríki en ekki í ríkjasambandi við Danmörku og "del i det samlede danske rige" eins og kveðið hafði verið á um í samningsuppkastinu 1908.

Íslendingar gáfu það eftir í samningunum 1918 að verða í konungssambandi við Danmörku, samþykkja gagnkvæman ríkisborgararétt og atvinnurétt og bíða með að fá allt dómsvald inn í landið semn og meðferð utanríkismála og landhelgisgæslu.

Margir höfðu áhyggjur af hinum mikla rétti sem samningurinn veitti Dönum á íslandi en þær reyndust ástæðulausar.

Við höfum reynt það undanfarin ár að Íslendingar hafa reynst fullfærir um það að þjóna um of hagsmunum erlendra stórfyrirtækja þótt við séum frjáls og fullvalda þjóð og þurfum að standa þá vakt betur, hvort sem við erum í ESB eða utan þess.

Mikilvægasta ákvæði samningsins 1918 var um það að Íslendingar gætu, ef þeir vildu, slitið sambandinu við Dani eftir 26 ár.

Þótt í þetta sinn sé um að ræða hluta af fullveldi Íslands er óumdeilanlegt að Ísland verði ekki hluti af sameinuðu evrópsku ríki. Öll ríki ESB teljast sjálfstæð og fullvalda og með eigin þjóðhöfðingja, gagnstætt því sem er um ríki Bandaríkjanna.

Menn tala um að nú eigi að gera hið sama og gert var í Gamla sáttmála 1262. Skoðum það.

Þá gengust Íslendingar beint undir norskt konungsvald og konungur skipaði sjálfur æðstu embættis- og valdamenn Íslands. Þetta var algert afsal sjálfstæðis en það varð okkur þó til happs í samningum okkar við Dani síðar meir og í öllum málatilbúnaði Jóns Sigurðssonar að samningurinn var við norska konunginn einan í upphafi og erfðahyllingin í Kópavogi varðaði aðeins hinn danska konung.

1908 og 1918 var ákveðið að ganga til samninga við Dani til þess að láta á það reyna hvað fengist fram. Í fyrra skiptið var uppkastið fellt en samþykkt í síðara skiptið.

Nú, eins og í þessi hin fyrri skipti, þarf að fá botn í það mál sem nú er til umræðu og það er ekki hægt nema að ganga til samninga og leggja niðurstöðuna síðan fyrir þjóðina.

Ég tel að hróp um það að menn séu landráðamenn fyrir það eitt að vilja þessa leið eigi ekki frekar eiga við nú en um samningamenn 1908 og 1918.

Erlendir kunnáttumenn hafa talið mikilvægt að samningamenn verði klókir og agaðir og vel vopnaðir rökum og sannfæringarkrafti og er vonandi að svo geti orðið nú. Alþingi þarf að sjá til þess að svo verði og láta ekki sundrungu spilla fyrir.

Síðan ætla ég mér eins og aðrir landsmenn, taka afstöðu til hugsanlegrar niðurstöðu þegar hún liggur fyrir. En ekki fyrr.


mbl.is Hægt að ná samstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn má við margnum.

Ronaldo var sá leikmaður Manchester United í úrslitaleiknum í gær sem helst stóð undir væntinum hvað snerpu, hraða, ákveðni og baráttuanda snerti. En miðjumenn og varnarmenn Barcelona sáu til þess að lið Manchester United náði aldrei almennilega saman ef undan eru skildir nokkrir stuttir kaflar í leiknum.

Leikmönnum Barcelona tókst að lesa leik Manchester United eftir fyrstu átta mínúturnar, uppskera mark í fyrsta skoti sínu að marki í kjölfar frábærs einkaframtaks og síðan annað mark í þann mund sem MU virtist vera að ná vopnum sínum aftur.

Ronaldo og Rooney skorti stuðning samherja sinna á mikilvægum augnablikum og þegar þannig er í pottinn búið í íþrótt þar sem liðsheildin er aðalatriðið er alveg sama hvað einstakir leikmenne eru góðir, enginn má við margnum.

Maður velti vöngum yfir því í leiknum í gær hvernig Ronaldo hefði vegnað í framlínu andstæðinganna þar sem eru snillingar sem hver um sig eða saman geta ógnað hvaða vörn sem er.


mbl.is Framtíð Ronaldo hjá United enn og aftur í óvissu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið dæmi um snilld.

Snilld Lionel Messi sást oft vel í þessum leik en ég nefni lítið dæmi. Það var þegar hann prónaði sig áfram aðþrengdur af þremur andstæðingum, sem felldu hann svo að hann kútveltist en komst samt á fætur og tók boltann og hélt áfram með hann.

Messi og Maradona eru dæmi um argentínska knattspyrnsnillinga sem nýta sér helsta kost þess að vera lágvaxnir, en það er hve þyngdarpunkturinn liggur lágt. Þeir hafa gott jafnvægi og eru liprir í þröngum stöðum auk þess sem boltameðferðin er einstök. Það sást vel í atvikinu sem ég var að lýsa.

Ef maður skoðar líkamsbyggingu Eiðs Smára Guðjohnsen sést, að neðri hluti líkamans er hlutfallslega styttri en efri hlutinn. Það gefur honum gott jafnvægi og lágan þyngdarpunkt miðað við hæð. Veit ekki hvort margir hafa veitt þessu athygli.

Hæðin getur hins vegar verið notadrjúg fyrir Eið í skallaeinvígi.


Spurt að leikslokum.

Gaman að geta bloggað með tveggja daga millibili með sömu fyrirsögninni hvað snertir Barcelona. Tvö töp í röð í spænsku deildinni gufuðu upp með frábæru sigri liðsins og þrennu á leiktíðinni.

Það var skrýtið að sjá eins frábært lið og Manchester United skorta það sem maður getur séð lið uppi á Íslandi hafa: Karakter. Lið var með skrautsýningu fyrstu mínúturnar en skorti karakter til að taka á atburðarás sem var því í óhag.

Hvað kalla menn svona sigur Barcelona? Meistaraheppni. Hún fylgdi þeim allan leikinn. Til hamingju, Eiður Smári, að hafa verið skráður í þetta lið, þótt þú sætir á bekknum allan tímann. Hvort er það sætara eða að vera besti maðurinn í liði sem er einhvers staðar í miðri deild?


mbl.is Barcelona Evrópumeistari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hágengið átti stóran þátt í hruninu.

Gylfi Zoega hagfræðiprófessor er áreiðanalega ekki einn um það að sjá vandkvæði á því að hækka nú gengi krónunnar um allt að fjórðung og ætla að láta það halda. Gylfi bendir á að ofurskuldsetningar fyrirtækja séu aðal vandamálið og við því má bæta að þessi hrikalega skuldasöfnun var möguleg vegna þess hve krónan var skakkt skráð.

Þörfin fyrir skuldsetninguna jókst þar að auki mjög hjá sjávarútvegi og öðrum útflutningsgreinum, einmitt vegna of hás gengis krónunnar. Vísa að öðru leyti til bloggs míns næst á undan þessu.


mbl.is Ekki raunhæft að festa gengið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband