Færsluflokkur: Bloggar

Bara að það haldi !

Það hefur gefist misjafnlega að festa hlutina í efnahagsmálum. Sæmilega tókst um stutt skeið árið 1959 að færa verðlag niður með valdboði. Verr gekk um 1970 þegar fundið var upp það snjallræði sem kallað var verðstöðvun.

Hún hélt raunverulega aldrei.

Fastgengisstefna fyrri tíma hélt aldrei nema í takmarkaðan tíma. Gengi krónunnar var þá yfirleitt skráð hærra en svo að það héldist til lengdar og hágengið skapaði útflutningsatvinnuvegunum vanda.

Sé gengi krónunnar skráð of hátt skekkist allt og ætti reynslan frá hágengistímabilinu í "gróðærinu" og á öðrum svipuðum tímum eins og 1942-1949, síðari hluta sjötta áratugarins og fleiri sambærilegum tímabilum að vera til lærdóms.

Hins vegar eru nú óvenjulegir tímar sem hugsanlega kalla á óvenjulegar lausnir sem þó virðast kallast á við misheppnaðar aðgerðir fyrri tíma.


mbl.is Festa gengið í 160 - 170
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fréttir gerast þegar þeim sýnist.

Á næsta ári eru rétt 50 ár síðan ég vann í fyrsta sinn við blaðamennsku. Það var á dagblaðinu Vísi. Ýmislegt hefur maður lært á þessari tæpu hálfri öld í bransanum.

Nefna má fjögur atriði:

1. Nú, rétt eins og þá, vekja fréttir af ofbeldi og kynlífi áhuga. Einhver stærsta fréttin að vetrarlagi um 1950 var um að prestur einn utan af landi hefði guðað á glugga að næturþeli hjá konu einni í Þingholtunum og var ekki að því að spyrja að lögregluþjónn, sem var í tygjum við konuna að mig minnir og þótti málið vera sér skylt, réðst þegar til atlögu við prestinn með félögum sínum í löggunni og færði hann til yfirheyrslu niður á lögreglustöð.

Presturinn var síðan látinn laus og málið féll niður, en fólk deildi um það hvort meint brot hans hefði réttlætt það að grípa til svona harkalegra aðgerða gegn honum. Þar með var komin formúla að dúndurfrétt með hæfilegu ívafi af ofbeldi og kynlífi. Og ekki dró það úr að um meintan gerning prestsins er notað máltækið "að guða á glugga."

Í revíu Bláu stjörninnar söng Soffía Karlsdóttir í kjölfar þessa:

"En sértu ennþá ung og dreymin /
er enginn vandi´að fleka heiminn. /
Ef freistingarnar guða á gluggann þinn /
þá gættu þess að hleypa þeim inn.

Hér á mbl.is má sjá að tvær fréttir af kjallaraslysum karlmanna hafa fengið mikla lesningu.

Heyrt hef ég talað um það, bæði almennt og í bloggheimum, að býsna sé skrýtin árátta hjá mbl.is að velta sér upp úr slíkum fréttum og spurt er hvort sams konar fréttir af kvenfólki komi í næstu viku.

Og þá kem ég að atriði númer tvö:

2. Fréttir gerast þegar þeim sýnist. Þetta getur verið hábölvað fyrir fjölmiðlafólk en blaða- eða fréttamaður sem sættir sig ekki við þetta, þyrfti helst að finna sér annað starf því að þetta eðli fréttanna getur verið mjög ergilegt ef menn láta það fara í taugarnar á sér.

Báðar karlmannakjallarafréttirnar á mbl.is eru þess eðlis að þær eru afar fátíðar. Þess vegna eru þær fréttnæmar.

Báðar fréttirnar gerðust þegar þeim sýndist, - ekki eftir beiðini mbl. is. Hvenær sem er hefði hvor þeirra um sig átt rétt á sér að því gefnu að ekki væri mikið annað og merkilegra að gerast á þeim tíma.

Ef maður hefði bitið hest, svo að stórséð hefði á og annar maður bitið hund til bana sama dag, hefði verið út í hött að fara að færa þær til eða sleppa þeim bara vegna þess að þær gerðust á sama tíma. Þaðan af síður að fara að leita uppi einhverjar fréttir af hestum og hundum sem bitu menn í næstu viku.

Þá kem ég að því þriðja sem margir eiga erfitt með að sætta sig við:

3. Mikilvægi frétta fer eingöngu eftir því hvaða fréttir aðrar eru að gerast á sama tíma. Um þetta má nefna ótal dæmi.

Í "gúrkutíð" getur mjög lítil frétt orðið fyrsta frétt. Þegar margir stóratburðir eru að gerast samtímis getur einhver þeirra fallið alveg útbyrðis.

Þetta er auðvitað augljóst en á löngum ferli voru það ekki svo fáar stundirnar sem fóru í það að útskýra fyrir óánægðum aðstandendum jákvæðra og góðra frétta, að því miður hefðu aðrar og stærri fréttir orðið að hafa forgang.

Tímaritið Time ætlaði að hafa forsíðu og aðalpistil blaðsins um Heimaeyjargosið 1973. En Lyndon B. Johnson fyrrverandi Bandaríkjaforseti tók upp á því að deyja síðar sama dag og blaðið hætti við gospistilinn.

20. ágúst 1980 átti stórsýning dansks sirkus að verða fyrsta frétt sjónvarps. Hekla byrjaði að gjósa þennan dag og aldrei var sagt frá sirkusnum.

Daginn sem Hekla byrjaði að gjósa 1991 varð það ekki aðalfréttin þann dag, því að sama dag hófst Flóastríðið.

Þá er það fjórða atriðið:

4. Eðli frétta er betur útskýrt í erlendum heitum um fyrirbærið heldur en í íslenska orðinu frétt. Á ensku "News".
Á dönsku "nyheder." Sem sagt: Eitthvað nýtt, eitthvað sem er sérstakt, óvenjulegt.

Það er ekki frétt ef hundur bítur mann en hins vegar frétt ef maður bítur hund.


mbl.is Skaut sig óvart í kynfærin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf á yfirsýn.

Stærsti gallinn við rekstur ríkissjóðs og margra annarra sjóða og stofnana er sá að einblínt er á kostnað innan þröngs ramma en ekki hugað að áhrifum á aðra þætti eða heildaráhrifum á þjóðfélagið allt. Stundum er dregið úr útgjöldum í einni stofnun eða deild með þeim eina árangri að útgjöld annarrar stofnunar eða deildar eykst.

Þannig væri hægt að leggja niður starfsemi Hjartaverndar eða skerða hana um helming, en ef dæmið yrði reiknað til enda sæist að tjónið af völdum vaxandi hjartasjúkdóma og fjölgandi hjartaáfalla fyrir heilbrigðiskerfið og þjóðfélagið yrði margfalt meiri en nemur ímynduðum sparnaði.

Reiknað hefur verið út að hvert dauðaslys kosti þjóðfélagið ekki minna en 200 milljónir króna og er þá ekkert tillit tekið til andlegra þjáninga. Beint peningalegt tjón af völdum umferðaslysa er talið í tugum milljarða árlega og það þarf því að huga að því hve langt megi ganga í að skerða forvarnir og varúðarráðstafanir án þess að tjónið verði miklu meira fyrir samfélagið allt.

Ekki fer á milli mála að harkalegan og róttækan niðurskurð þarf í opinberum útgjöldum. Þá verður að huga að því hve varasamur flatur niðurskurður getur verið og að því hvaða áhrif á annan rekstur sparnaður á hverju sviði hefur.


mbl.is Umferðarráð varar við niðurskurði fjármagns til umferðarmála
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Allir vita það en enginn sér það."

Fyrir hálfri öld fór Brynjólfur Jóhannesson með gamanbrag þar sem hvert erindi endaði á setningunni: "Svona gengur það, svona er það, allir vita það en enginn sér það."

Ég man ekkert af þessum vísum en gerði fyrir mörgum árum texta og lag undir heitinu: "Svona gengur það."
Þetta er fjöldasöngur og ég hef fengið fólk til að syngja þessar tvær línur með mér. Birti hann kannski seinna hér á blogginu.

En þessi setning leiðir hugann að því að ýmislegt viðgengst í þjóðfélaginu án þess fólki finnist taka því að gera neitt í málinu.

Dæmið með ritstjóra og blaðamann New York Times sem vissu um Watergate-málið á undan Washington Post en gerðu ekkert í því er ekkert einsdæmi.

Þetta er nefnilega oft spurningin um það hvað fólk vill raunverulega vita.

Í virkjanamálunum hef ég allan tímann upplifað það að fólk vill helst ekki vita um eðli framkvæmdanna. Og jafnvel þótt sama staðreyndin sé endurtekin gerir fólk ekkert með það. Það er svo miklu þægilegra.

Fyrir nokkrum árum greindi ég frá því hér á blogginu hvernig ég hefði fengið svör frá sérfræðingum í símamálum, sem voru undir rós, rétt eins og svipur heimildarmannsins í Watergate-málinu.

Um leið og síðasti sérfræðingurinn sagði mér að það tilfelli, sem ég hafði borið undir nokkrar sérfræðinga, væri þess eðlis að ekki þyrfti að hafa áhyggjur af því að þar væri um að ræða símahleranir, sagði hann: "Þú getur verið alveg rólegur yfir því að þetta er ekki símahlerun, því að til þess að þetta geti verið símahlerun þarf aðstöðu, peninga og mannskap."

Einmitt það, já. Og síðan ekki söguna meir.

Það hefur greinilega enginn áhuga á því að gera neitt í þessum málum. Allir vita það en enginn vill sjá það.


mbl.is Vissu af Watergatehneykslinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt stefna á röngum tíma?

Það kostar annaðhvort peninga eða útsjónarsemi að koma stefnumálum stjórnmálaflokka á framfæri. Nema hvort tveggja sé.

Þetta kemur mér í hug þegar sagðar eru fréttir af því að rætt hafi verið um fjármuni á fundi Borgarahreyfingarinnar, vegna þess að um síðustu helgi sá ég stóra Morgunblaðsauglýsingu í kaffiteríu Flugfélags Íslands.

Hún sést á mynd hér á síðunni. 

Athygli mína vakti forsíðufyrirsögn með stærsta letri um það að stefna þyrfti að auknu lýðræði til að fjalla"" "allt sem þjóðina varðar".

DSCF5184

Einnig, að undirbúa skyldi aðild að ESB.

DSCF5132

Ég hugsaði með mér: Ansi er Borgarahreyfingin lunkin að fá svona risafyrirsögn í sjálfum Mogganum um mál sín, peningalaus flokkurinn. Hvernig í fjandanum fóru þau að þessu?

Þegar ég gætti betur að var þarna verið að fjalla um þörfina á auknu og beinna lýðræði, meðal annars með þjóðaratkvæðagreiðslum og um það að undirbúningur aðildar að ESB ætti að felast í því að vera með samningsmarkmiðin klár og frágengin ef að því kæmi að talið væri rétt að sækja um aðild.

 

En dagsetning blaðsins vakti undrun mína: 15. apríl 2007. Og nú rifjaðist upp við mig viðtal í viðtalaröð við talsmenn þáverandi framboða sem blaðamaður Morgunblaðsins átti við mig í aðdraganda kosninganna 2007 þar sem ég reifaði fyrir honum stefnumál Íslandshreyfingarinnar um breytingar á stjórnarskránni, stóraukið vægi þjóðaratkvæðagreiðslna, jöfnun atkvæðavægis, nýja kjördæmaskipan, auknu valdi þingnefnda, - að ráðherrar mættu ekki vera þingmenn o. s. frv.

Það rifjaðist líka upp fyrir mér að blaðamaðurinn hafði greinilega tekið þann pól í hæðina að gera þetta að fyrirsögnum sínum vegna þess að engin önnur framboð höfðu þessi mál á oddinum og allir vissu hvaða stefnu Íslandshreyfingin hafðí í umhverfismálum.

Fréttamaðurinn var að leita að einhverju nýju og öðruvísi og fann það og birti. Kannski sést þetta betur með því að smella einu sinni á myndina og síðan aftur. 

Skemmst er frá því að segja að enginn áhugi var hjá almenningi né öðrum stjórnmálaflokkum á þessum málum vorið 2007. Aðeins einu sinni tókst mér í ljósvakaumræðum þessarar kosningabaráttu að fá að minnast á þau.

Á borgarafundi í vor sagði Birgir Ármannsson og trúði því sjálfur að ég hefði aldrei haft neinn áhuga á stjórnarfarsbreytingum fyrr en nú í vor.  

Auðvitað fóru þessi mál fyrir ofan garð og neðan fyrir tveimur árum. Allir voru með hugann við peninga og efnahagsmál og bæði Samfylking og VG minntust ekki á umhverfismál í heilsíðuauglýsingum sínum síðustu vikurnar fyrir kosningar.


mbl.is Lítið um völd og ekkert af peningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Röng hönnun girðinga.

IMGP0017Í blogginu í gær var fjallað um tvær blindar beygjur í gatnakerfi Reykjavíkur. Annars vegar á gatnamótum Birkimels og Hringbrautar og hins vegar á mótum Bolholts og Laugavegar.

Á báðum stöðum snýst vandinn um skerðingu á útsýni ökumanna, sem eru á vesturleið og þurfa að beygja til vinstri eins og sést á myndinni hér við hliðina, sem er tekin frá sjónarhorni bílstjóra sem þarf að beygja upp í Bolholt. 

Þarna sést greinilega að grindverk, sem reist hefur verið á miðri steinsteyptri eyju milli akbrauta byrgir fyrir útsýni til vesturs.

Ökumaðurinn, sem horfir úr bíl sínum til vesturs á erfitt með að fara lengra til að gægjast til vesturs því að þá skagar bíll hans út í götuna og skapar hættu. 

Eins og sést er sérstök gangbraut með gangbrautaljósum þarna rétt fyrir vestan og er með ólíkindum að fólk skuli hafa verið að flækjast þarna yfir götuna.

Hvað um það, hér set ég fram tvennar tillögur til úrbóta og þarf ekki endilega að framkvæma þær báðar.

1. Gera girðinguna betur gegnsæja séð frá þessum stað. Styrkja láréttu teinana og fækka þeim lóðréttu það mikið að það sjáist betur í gegn. Gallin við þetta er samt sá að eftir því sem girðingin horfir beinna við verður erfiðara að sjá í gegnum hana. 

2. Hnika girðingunni til hægri og stytta hana jafnframt eitthvað. Enginn á hvort eð er að vera gangandi á steinsteyptu eyjunni en það myndi muna talsverðu um þessa færslu girðingarinnar eins og vel sést af þessari mynd.

Aðgerð númer 2 er virðist árangursríkari, sýnist mér.  


Stærstu tímamót Sjálfstæðisflokksins.

Á 80 ára afmæli sínu stendur Sjálfstæðisflokkurinn á stærstu tímamótum sögu sinnar.

Hann hóf feril sinn glæsilega og náði í Alþingiskosningum 1933 48% fylgi. Á þeim tíma var flokkurinn í stjórn með Framsóknarflokknum og alla tíð síðan hefur ekki verið hægt að mynda ríkisstjórn á Íslandi nema annar hvor eða báðir þessara flokka ættu hlut að máli.

Ef miðað er við fyrirrennara Sjálfstæðisflokksins hefur þetta ekki verið hægt allar götur frá upphafi núverandi flokkaskipunar 1916.

HIð ægisterka vald, sem flokkurinn hafði áratugum saman varð til þess að á tímabili var til dæmis varla hægt að segja að til væri sá sýslumaður á Íslandi sem hefði komið nálægt vinstri pólitík en langflestir þeirra hins vegar innvígðir hægra megin í litrófinu.

Á þessum 80 árum hefur flokkurinn aðeins verið utan þingræðisstjórnar í 13,5 ár. Í krafti þess tókst flokknum að hreiðra býsna vel um sig í embættismannakerfinu.

Hannes Hólmsteinn Gissurarson hefur lýst Sjálfstæðismönnum þannig að þeir vildu "græða á daginn og grilla á kvöldin." Af því hefur leitt þörf þeirra fyrir sterka foringja sem þeir gætu treyst fyrir því að stjórna landinu.

Matthildingar með Davíð Oddsson innanborðs kölluðu hann "Sjálfgræðisflokkinn."

En það getur líka reynst hættulegt virku lýðræði þegar kjósendur nenna ekki að taka þátt í því.

Flokkurinn átti lengst af glæsilega foringja. Þótt þeir þjónuðu fyrst og fremst markaðsöflunum höfðu þeir lag á því í því umhverfi samsteypustjórna sem hér var að sinna velferðarkerfinu nægilega mikið til að höfða til kjósenda langt inn á miðjuna.

Ólafur Thors stýrði sjálfstæðimálum vel 1945 og stóð að fyrstu útfærslu landhelginnar 1952. Viðreisnarstjórnin 1959-1971 var einhver besta ríkisstjórn sem hér hefur setið að mínu mati og hefði hugsanlega getað haldið velli 1971 ef ekki hefði komið til fráfall Bjarna Benediktssonar og mistök í landhelgisstefnu stjórnarinnar.

Flokkurinn hafði meirihluta í Reykjavík í 68 ár af þessum 80 og til að halda honum gætti hann þess að reka jafnan nokkuð öflugt félagsmálakerfi í borginni.

Tvö kjörorð flokksins frá fyrri tíð, "gjör rétt - þol ei órétt" og "stétt með stétt" heyrðust hins vegar ekki hina síðustu áratugi.

Á árunum 1982-1999 var Davíð Oddsson glæsilegur foringi flokksins, fyrst í borgarstjórn og síðan í ríkisstjórn.

En 17 ára samfelld sigurganga í æðstu valdastólum er nokkuð sem til dæmis Bandaríkjamenn hafa fundið út að sé engum holl, hversu frábær sem hann er.

Síðustu ofríkisvaldaár Davíðs og slímseta flokksins í ríkisstjórn í 18 ár voru hvorki flokknum né þjóðinni holl og hrunið mikla verður að skrifast mest á það. Nú er fylgi flokksins aðeins helmingur þess sem það var 1933 og flokkurinn hefur fengið verðskuldað frí til að endurhæfa sig, læra af fortíðinni og gera upp við hana til geta orðið að nýju boðlegur valkostur í íslenskum stjórnmálum.

Það er nauðsynlegt fyrir kjósendur að í boði séu flokkar jafnt til hægri sem vinstri sem hægt sé að velja á milli.

Foreldrar mínir voru Sjálfstæðisfólk, móðir mín formaður Hvatar og kona mín gekk 14 ára í flokkinn og var varaborgarfulltrúi hans um langt árabil. Ég steig mín fyrstu spor sem skemmtikraftur úti á landi á héraðsmótum flokksins og skemmti árum saman fyrir hann á þeim og á landsfundum hans í 40 ár.

Ég hef því sterkar taugar til hans þótt ég hafi aldrei kosið hann í alþingiskosningum, - kaus hann þó oftast í borgarstjórnarkosningum. Hef reyndar um dagana kosið fleiri en tvo og fleiri en þrjá flokka í alþingiskosningum.

Ég fékk fjölbreytt pólitískt uppeldi því afi Þorfinnur var mikill verkalýðssinni og Héðinsmaður og afi Ebbi var hægfara krati. Ég vildi kynnst öllu í foreldrahúsum og gerðist því áskrifandi að Þjóðviljanum til mótvægis við Moggann þeirra. Aðhylltist þó ekki utanríkisstefnu kommanna og Sovétþjónkun.

Ég lít á Sjálstæðisflokkinn sem vin minn sem hefur átt við veikinda að stríða og ég óska honum góðs bata og til hamingju með afmælið.

Megi hann verða á ný hlutgengur og öflugur flokkur í íslenskum stjórnmálum, hvort sem er í stjórn eða stjórnarandstöðu.


mbl.is Sjálfstæðisflokkurinn áttatíu ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færa girðinguna og burt með runnann.

Hvarvetna í borginni má sjá viðleitni umferðaryfirvalda til að halda í hemilinn á óstýrilátum vegfarendum, þessum íslensku vegfarendum, sem fara oftlega aðeins að eigin geðþótta, hvað sem reglum líður. 

Á Laugavegi, Hringbraut og fleiri tvískiptum götum hefur orðið að reisa víggirðingar á miðjum götum til að koma í veg fyrir gangandi fólk hætti lífi sínu með því að fara yfir götuna hvar sem er í stað þess að nenna að ganga 50-100 metrum lengri vegalengd og fara yfir á gangbraut.

IMGP0012

Víggirðingar þessar hindra útsýni þeirra, sem beygja þurfa til vinstri eins og út af Hringbraut inn á Birkimel og út af Laugavegi upp í Bolholt.

Tvær meðfylgjandi myndir sýna útsýni bílstjóra, sem er á leið vestur Hringbraut og ætlar að beygja til vinstri inn á Birkimel.

Umferðararkitektar eða yfirvöld láta þessar girðingar fylgja miðju grasreinar til að þjóna fagurkerasjónarmiðum.

Við Birkimel hefur líka verið komið upp stórum runna vegfarendum til yndisauka.

IMGP0014

Bæði girðingin og runninn góði trufla útsýni þeirra sem þurfa að beygja til vinstri og vélhjól getur auðveldlega falist á bak við hið blinda horn eins og sést af meðfylgjandi myndum, einkum þeirri efri. 

Þegar fagurkerasjónarmið útlitshönnuða stangast á við öryggi vegfarenda hefði ég haldið að öryggið ætti að vera sett í fyrirrúm, mannslífið að vera dýrmætara en mannvirkið, í þesstu tilfelli girðingin og runninn.

Þetta er hægt að gera á slysstaðnum við Birkimel með því að hnika girðingunni til hliðar til hægri, séð frá bílstjórum sem beygja þurfa, og láta hana vera við brún graseyjunnar en ekki inni á henni miðri.

Þótt engin graseyja liggi meðfram girðingunni í átt að næstu ljósum, sem eru þarna skammt frá, skiptir það ekki máli. Á graseyjunni eiga hvort eð er engir að vera á gangi.   

Sömuleiðis gerir græni runninn ekkert gagn nema vera augnayndi.

Bílstjóri, sem þarf að haga akstri sínum þannig að ekki skapist lífshætta, hefur enga þörf fyrir það að dást að runna þessum eða láta hann trufla útsýni sitt.

Hann hefur mesta þörf fyrir að sjá sem best umferðina sem kemur á móti honum.

Það skal tekið fram að í ofangreindum pistli enginn dómur lagður á nýlegt slys þarna sem kann að hafa orðið af allt öðrum orsökum.


Þekkt trix sem svínvirkar.

Það er þekkt trix að framkvæma fyrst og sjá síðan til hvort nokkru verði um þokað. Símastaurinn, sem settur var upp í mynni Ásbyrgis án þess að leyfi hefði fengist fyrir því, er mjög lítið og léttvægt dæmi um slíkt. Enginn vandi að fjarlægja hann án spjalla. 

Margfalt stærra dæmi er í gangi í Helguvík. Þar eru framkvæmdir á fullu við gerð kerskála þótt ekki hafi enn fengist leyfi fyrir háspennulínum sem flytja eiga orku til fyrirhugaðs álvers í gegnum mörg sveitarfélög.

Þaðan af síður liggur fyrir hvaðan orku verður á endanum hægt að fá fyrir þetta álver plús stækkun álversins í Straumsvík, en þessa orku verður að fá í mörgum sveitarfélögum og jafnvel með því að virkja Neðri-Þjórsá.

DSCF0542

Fyrir norðan er búið að eyða milljarði í trausti þess að bygging álvers á Bakka verði ekki stöðvuð.

Alcoa hefur gefið út að álverið verði að verða minnst 340 þúsund tonn, og engan veginn er víst hvort og hvaðan orka eigi eftir að fást til þess.

En í trausti þess að búið sé að eyða þetta miklum peningum og að Orkuveitan nyrðra er tæknilega gjaldþrota verður málið keyrt áfram eins og kostur er.

Búið er að bora þrjár borholur við Leirhnjúk með því að segja að þær séu við Kröflu en ekki Leirhnjúk.

Einnig hafin tilraunaborun í Gjástykki þótt engin leyfi liggi þar fyrir til borana.

IMG_0426DSCF0606

Myndirnar hér við hliðina eru teknar í Gjástykki í fyrra.

Á myndum þar fyrir neðan má sjá veg, sem ruddur var með jarðýtu á sínum tíma þvert í gegnum nýrunnið hraun í stað þess að leggja veginn utan við hið nýja hraun eða aka ofaníburði í vegarstæðið í stað þess að valda óafturkræfum spjöllum. 

DSC00230

 

Alcoa lofaði í upphafi að álver á Bakka þyrfti ekki að verða nema 240 þúsund tonn.

Þegar ég dró það fastlega í efa og taldi þetta aðeins sama bragðið og beitt hafði verið út af álveri á Reyðarfirði, sem fyrst átti bara að verða 120 þúsund tonn, átaldi blaðafulltrúi félagsins mig harðlega fyrir það.

Bragð Alcoa hreif bæði fyrir norðan og austan og nú getur fjölmiðlafulltrúi Alcoa annað en viðurkennt að ég hafði rétt fyrir mér allan tímann.

Við Trölladyngju hafa verið framkvæmd mikil umhverfisspjöll á sérstæðum ferðamannastað án þess að Skipulagsstofnun, hvað þá Umhverfisstofnun eða Umhverfisráðuneytið hafi fengið neitt um það að segja.

Spjöllin eru slík að það tæki því varla að láta virkjun þarna fara í mat á umhverfisáhrifum.

Múlavirkjun á Snæfellsnesi varð miklu stærri en leyft hafði verið. Sömuleiðis Fjarðarárvirkjun eystra.

Með hverju máli styrkist hefðin fyrir því að skjóta fyrst og spyrja svo, framkvæma fyrst og halda síðan áfram, vegna þess að hvort eð er verði ekki aftur snúið.

Þetta trix hefur svínvirkað og einn ræfils símastaur, sem hægt er að fjarlægja fyrir norðan, er hlægilegt smámál miðað við umfang hliðstæðra mála sem hafa verið í gangi og verða áfram í gangi.


mbl.is Verða að fjarlægja símastaur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurt er að leikslokum...

Að fornu var sagt að spurt væri að leikslokum, - ekki vopnaviðskiptum. Þetta sannast æ og aftur á mörgum sviðum enn í dag.

Í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum 1948 fór Harry S. Truman forseti halloka fyrir Thomas Dewey.

Dewey hafði slíka yfirburði yfir Truman að til voru blöð sem kepptust um að vera fyrst til að segja frá sigri Deweys áður en talningu var lokið. Varð frægt hvernig Truman gat látið taka mynd af sér þegar úrslit lágu fyrir þar sem hann veifaði blaði, sem tilkynnti ósigur hans.

Fyrir bardaga Mike Tysons og Buster Douglas í Tokyo 1989 stóðu veðmálin 42:1 Tyson í vil. "Big Bus" Douglas stóð samt uppi sem sigurvegari.

Veturinn 2006-7 var Samfylkingin lengi vel með innan við 20% fylgi í skoðanakönnunum en VG með allt að 25%.

Þetta snerist við í kosningunum.

Borgarahreyfingin náði ekki 5% markinu í skoðanakönnunum til að koma inn mönnum fyrr en rétt fyrir síðustu kosningar, toppaði á síðustu stundu.

Eftir miðvikudaginn næstkomandi verður ekki spurt að úrslitum einstakra leikja í spönsku deildinni sem skipta ekki máli, heldur að því hvort Barcelona vinni þá einstæðu þrennu að verða Spánarmeistarar, bikarmeistarar og sigurvegari í meistarakeppni Evrópu.

Það er hins vegar slæmt fyrir Eið Smára að fá aðeins tækifæri til að leika með hálfgerðu varaliði Barcelona. Það eru ellefu menn í hverju knattspyrnuliði og liðsheildin skapar úrslitin. Engar fréttir berast af frammistöðu einstakra leikmanna, aðeins af tapinu.

Og það er alltaf slæmt að vera í tapliðinu, jafnvel þótt viðkomandi einstaklingur standi sig vel.

Ég minnist liðs Víkings á bernskuárum mínum. Það náði sjaldan flugi og er ekki skráð í bækur fyrir snilli.

Flestir dómarnir um leiki liðsins voru svona: "Lið Víkings var lélegt, - nema Bjarni og Reynir." Ef Bjarni Guðnason og Reynir Ólafsson hefðu verið í liði Skagamanna eða KR á þessum tíma eins og þeir höfðu burði til hefði þetta verið öðruvísi fyrir þá.

Reynir gekk að vísu til liðs við KR en hitti ekki á árin sem liðið varð meistari.


mbl.is Annar tapleikur Barcelona í röð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband