Færsluflokkur: Bloggar

Flugvélarlagaða bensínstöðin.

Ég man vel eftir því hvað bensínstöðin að Laugavegi 180 var allt öðruvísi og nýtískulegri en aðrar bensínstöðvar þegar hún var reist. Á þeim tíma voru hönnuðir mjög hrifnir af flugvélum og sást það til dæmis vel á bílum fram til 1960.

Þegar horft var á bensínstöðina úr vestri leit hún út eins framendi á flugvél þar sem stöðin sjálf var framendi flugvélarskrokksins með tvo vængi, sem bílunum var ekið undir.

Bensínstöð með þessu lagi hef ég hvergi séð í öðrum löndum.

Illu heilli var þessu gjörbreytt í það horf að gera bensínstöðina sem líkasta öðrum bensínstöðvum í stað þess að endurbæta upprunalegt lag hennar og viðhalda sérstæðu lagi hennar. Þetta hefði aldrei fengið að gerast ef þetta hefði verið kirkja eða opinber bygging og sýnir hvernig menn hafa litið niður á mannvirki á borð við bensínstöðvar sem skjól fyrir óæðri starfsemi.

Hér á landi virðist unnið að því hörðum höndum að gera allar bensínstöðvar og áningarstaði við þjóðvegina eins og gengur og gerist í öðrum löndum. Þetta er orðið þannig að þegar komið er í Staðarskála og helstu bensínstöðvar á Íslandi gæti maður verið í bensínstöð í hvaða landi sem er.

Aðeins einstaka staðir eins og Litla kaffistofan halda velli en hið staðlaða og tilbreytingarsnauða form ryður sér til rúms.

Einhvern tíma rennur upp sá tími að endurnýja þurfi hið 60 ára afmælisbarn dagsins og mig dreymir um að hún verði þá færð í sem líkast form og hún var í upphafi.


mbl.is Fagna 60 ára afmæli bensínstöðvar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glöggt er gests augað.

Robert Wade hefur nú kveðið upp úr með það sem öllum mátti ljóst vera, að samhliða glýjunni um "Íslenska efnahagsundrið" var jafnve enn meiri blekking og glýja í gangi varðandi það að á Íslandi væri minnsta spilling á byggðu bóli í heiminum.

Wade spyr hvernig í ósköpunum hefði verið hægt að komast að jafn fráleitri niðurstöðu um land þar sem allt væri morandi í spilltum hagsmunatengslum og vinatengslum sem sköpuðu sjálfttöku- og oftökustjórnmál, sjálfa kveikju spilltrar einkavinavæðingu bankanna með tilheyrandi afleiðingum.

Ekki bætti úr skák slímseta tveggja stjórnmálaflokka í ríkisstjórn í áraraðir.

Wade leggur til að færir erlendir vísindamenn rannsaki það hvernig þetta gat orðið. Hann hefur þá væntanlega í huga að hægt verði að koma í veg fyrir að einstakar þjóðir komist framvegis upp með það að gefa öðrum þjóðum alranga mynd af raunverulegu ástandi mála hjá sér.

Ég skal nefna eitt lítið dæmi. Fyrir nokkrum árum var gerð alþjóðleg úttekt á því hvernig umhverfismálum væri háttað í löndum heims.

Ísland komst hátt á blað í þessari könnun og það beint í kjölfar mestu umhverfisspjalla sögunnar við Kárahnjúka. Ísland komst hátt á blað þrátt fyrir hina hrikalegu jarðvegseyðingu sem hér hefur viðgengist og stafar á sumum afréttum landsins af því að þeir eru beittir með sauðfé þótt þeir séu ekki beitarhæfir.

Ég bað um skýrsluna hjá Umhverfisráðuneytinu og þegar ég fór að glugga í hana sá ég að í reitnum "ástand jarðvegs" skiluðu Íslendingar skammstöfuninni "NA", sem sé "not awailable."

Íslendingar sögðu blákalt við alþjóðasamfélagið að ekki lægju fyrir gögn um þetta atriði þótt Ólafur Arnalds hefði nokkrum árum áður fengið Umhverfisverðlaun Norðurlanda fyrir rannsóknir sínar á þessu sviði.

Þegar ég gluggaði betur í skýrsluna sá ég að nokkrar aðrar þjóðir, svo sem Króatía og Ukraina höfðu gert það sama og Íslendingar varðandi upplýsingar um ástand jarðvegs. Sameiginlegt var þessum löndun að vera með allt niður um sig í þessum málum.

Í Ukrainu höfðu til dæmis orðið stórfelld spjöll vegna Chernobyl-slyssins og voru Íslendingar þarna í hinum versta selskap.

Þöggunin á Íslandi um raunverulegt ástand og einstök málefni á sér slæmar hliðstæður erlendis. Nú eru 20 ár frá atburðunum á Torgi hins himneska friðar. Í Kína hefur ríkt þöggun um þennan atburð og allt er gert sem unnt er til þess að viðhalda þeirri þöggun.


Allt gengur of hægt.

Göran Persson sem var forsætisráðherra Svía í kreppunni þar snemma á tíunda áratugnum brýndi íslenska ráðamenn síðastliðið haust til að taka slaginn alvarlega og strax og grípa hið snarasta til ítrustu ráðstafana gegn kreppunni.

Nú kemur æ betur í ljós hve það háir okkur að hafa til dæmis ekki tekið strax til hendi í ríkisfjármálunum af fullum þunga. Það er liðið það langt á árið að æ erfiðara verður að ná því markmiði sem nauðsynlegt er í samdrætti ríkisútgjalda á þessu ári, því að 3ja til 6 mánaða tregða er til dæmis innifalin í því að fækka ríkisstarfsmönnum eða breyta kjörum þeirra.

Það eru ekki allir á sömu buxunum og Ögmundur Jónasson að afsala sér sjálfviljugir því sem þeir eiga lagalegan rétt á.

Gjáin er enn opin á milli krafna aðila vinnumarkaðarins og aðgerða Seðlabankans og því allt í uppnámi í kjaramálum.

Róðurinn þyngist og þær óhjákvæmilega óvinsælu og hörðu aðgerðir sem nauðsynlegar eru verða bara enn sársaukafyllri fyrir bragðið.


mbl.is Vextir lækkaðir í 12%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorferð á Vatnajökul - 1.

Undanfarnir fimm dagar hafa farið í það hjá mér að taka þátt í árlegri vorferð Jöklarannsóknarfélags Íslands á Vatnajökul og taka kvikmyndir. Efsta myndin á síðunni er tekin út um hliðarglugga á leiðinni inn í Jökulheima síðastliðið föstudagskvöld en þangað var farið það kvöld og gist þar.

Eyðilegt en heillandi landslag svartra sanda, hrauna, vatna og fjalla í dulúðugu hálfrökkri kvöldsins. Bendi á að hægt að láta myndir í síðunni fylla upp í skjáinn og njóta sín betur með því að smella á þær í tveimur áföngum. 

DSCF5254

Næstu myndir fyrir neðan eru teknar í Jökulheimum og síðan koma myndir af leiðangrinum á jökulsporði og af hluta leiðangursmanna, sem voru 25 og verða alls 29 þótt ekki verði allir alla vikuna sem ferðin stendur. Nokkrir koma inn í leiðangurinn og aðrir fara úr honum áður en honum lýkur.  

Ég hef farið eina svona vorferð áður, vorið 2005 í kjölfarið á gosinu í Grímsvötnum 2004. Ég fór eina ferð á eigin vegum í kjölfar gossins 1998 til myndatöku.

Breytingarnar í vötnunum eru svo hraðar og miklar að hver vorferð færir leiðangursmönnum nýja upplifun.

Farið var á níu bílum, einum snjóbíl og níu vélsleðum.  

DSCF5259

Ferð mín nú var í tilefni af því að í vísindalegri úttekt á Discovery channel voru valin tíu merkilegustu eldfjöll heims og þeim raðað í mikilvægisröð.

Tvö af efstu átta eldfjöllunum á listanum eru ekki eldfjöll sem sjást svo greiðlega. Önnur þeirra er eldstöð í Síberíu sem hafði gríðarleg áhrif á allt líf á jörðinni fyrir milljónum ára, en hitt er neðansjávareldfjall.

Grímsvötn er hið sjötta í röð hinna sjáanlegu eldfjalla og þess má geta að á þennan lista komast ekki eldfjöll á borð við Vesúvísus, Etnu, Fuji, Kilimanjaro, Heklu eða Snæfellsjökull. Kem nánar að því síðar af hverju Grímsvötn eru svona merkileg. 

Sjónvarpið hefur falið mér að gera nýja útgáfu af þætti um Gjálpargosið og Skeiðarárhlaupið 1996 þar sem sagan af umbrotum í Vatnajökli verður rakin til dagsins í dag. Þess vegna var þessi för nauðsynleg til að klára það dæmi, - öllu öðru hef ég fylgst með og tekið myndir af og gert fréttir og þætti um þessi ár.

DSCF5264

Á leiðinni upp eftir tafði krapi för og þurftu menn þá þegar að byrja að basla og aðstoða hverjir aðra.

Ég var á minnsta jöklajeppa landsins, Suzuki Fox árgerð 1986, en krap af þessu tagi á illa við hann og þurfti að grípa til dráttartaugar honum til hjálpar versta kaflann.

Þegar ofar kom var dimmt og blint á köflum og eftir því sem kólnaði á leið úr 700 metra hæð upp í 1700 metra hæð fór snjórinn að henta Súkkunni æ betur þannig að tvívegis var hún notuð til að draga stóran jeppa úr festu.

Á mynd sést dráttur tveggja samferðamanna minna. 

Það er höfuðatriði að vera helst ekki einn á ferð í óbyggðum og í svona leiðangri hjálpast allir að.  

DSCF5272

Við sjáum hér um helming leiðangursmanna á mynd, sem tekin er á jökulsporðinum. 

Leiðangursstjórinn, Magnús Tumi Guðmundsson, jarðfræðingur, er fimmti í röðinni talið frá hægri.

Í lokin komust allir í skálann á Grímsfjalli.

Þar var allt á kafi í snjó og þurfti að byrja að moka snjó og gera það fyrstu dagana í áföngum.

Nóg að gera við að koma öllu fyrir og gera klárt fyrir morgundaginn.  

 

DSCF5274DSCF5276Einstaka sinnum birti örlítið upp og efri hluti Grímsvatna, sem blasa við í vestri frá skálunum, sáust að hluta til eins og nokkurs konar "teaser" á það sem koma skyldi.

Um kvöldið fundu flestir sem voru í skálanum skjálftann, sem ég er búinn að blogga um áður.

Áttu nú við síðustu erindin úr laginu "Glöð við förum á fjöll öll" sem kyrjað var í þessari ferð með viðlaginu:

 

Glöð við förum á fjöll öll. 

Glöð við förum á fjöll.

Á fjöllum erum við snjöll öll.

Glöð við förum á fjöll.  

 

Kræktu tógi í krók, blók !

Kræktu tógi í krók !

Vertu´ekki´að fá þér smók, blók !

Kræktu tógi í krók !  

 

Öll saman nú: ! 

Glöð við förum á fjöll öll...o. s. frv. 

 

Þreytt í skálann fólk dró þó.

Þreytt í skálann fólk dró.

Hver sveinn um elskuna bjó þó.

Þreytt í skálann fólk dró.  

 

 Öll saman nú: !  

Glöð við förum á fjöll öll .... o. s. frv. 

DSCF5277
DSCF5278
 
Dreginn margur og ýtt frítt,
dreginn margur og ýtt.
Dráttaraflið vel nýtt frítt.
Dreginn margur og ýtt.
 
 
Öll saman nú! :  
 
Glöð við förum á fjöll öll...o. s. frv. 
 
 
Dreymir alla nú drátt brátt.
Dreymir alla nú drátt.
Í drætti nýja fá mátt brátt.
Dreymir alla nú drátt.
 
 
Öll saman nú !: 
 
Glöð við förum á fjöll öll,
glöð við förum á fjöll.
Á fjöllum erum við snjöll öll.
Glöð við förum á fjöll.  

Ósammála hjól.

Hjól bíla eiga það til að taka upp á furðulegustu uppátækjum eins og sagan af hjólunum sem duttu öll af bílnum í einu í Sviss. Nýjasta sagan sem ég hef heyrt af því sagði mér einn snjallasti bílamaður landsins um fjórhjóladrifinn bíl, þar sem framhjólin og afturhjólin voru ekki sammála um það í hvaða átt skyldi aka.

Á fyrstu árum hans í bílamixinu setti hann drif úr annarri bílgerð undir bílinn sem hann var að endurbæta. Hann settist síðan upp í bílinn, setti í framdrifið og gaf vel inn.

Þá bar svo við að bíllinn hreyfðist ekki tommu heldur spólaði og nötraði og jós mölinni bæði aftur fyrir sig og fram fyrir sig. Kom í ljós að drifið að framaverðu sneri hjólunum í öfuga átt miðað við afturhjólin.

Hann leysti málið á þann hátt að taka framöxulinn undan bílnum og snúa honum á hvolf samfara nauðsynlegum breytingum vegna fjöðrunar og annarra tenginga.


mbl.is Ekkert hjól undir bílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Airbus og Piper Cub.

Fyrir mörgum árum var góð úttekt á áhrifum ísingar á flugvélar í tímaritinu Flying og meðal annars rætt við þann flugmann bandarískan sem mest vissi um það atriði.

Megin niðurstaða hans var athyglisverð. Ef flugvél er flogið inn í mestu ísingarskilyrði, sem möguleg eru, skiptir ekki máli hvort flogið á Boeing 747 eða Piper Cub, sem er einhver einfaldasta smáflugvél sem hugsast getur. Báðar mega sín einskis. 

300px-PiperJ-3Cub02-1

Flugmaður þessi hafði öðlast frægð fyrir færni sína og kunnáttu í glímu við ísingarskilyrði. Hann endaði líf sitt þegar hann ætlaði að nota þessa þekkingu sína til að fljúga áríðandi flug við erfið ísingarskilyrði en varð að lúta í lægra haldi fyrir ógninni sem enginn þekkti betur en hann.

Airbusvélarnar voru þær fyrstu sem voru búnar svonefndu Fly-by-wire stjórnunarkerfi og hafa talist afar fullkomnar flugvélar. En ekkert mannanna verk né starfsemi eru fullkomin né fá staðist hvaða aðstæður sem vera skal.


mbl.is Brakið án efa úr týndu vélinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki í mannlegu valdi.

Óendanleikinn og eilfífðin, sem er hluti af honum, eru að minu mati mikilvægustu atriðin í minni trú og heimsmynd.

En vegna þess að okkkur er tamt í jarðvist okkar að skynja alla hluti sem afmarkaða og endanlega í tíma og rúmi, er okkur ómögulegt að skynja óendanleikann til fulls.

Óendanleikinn þýðir að skynjun okkar á hugtakinu "allt" er röng, því að það er alltaf eitthvað til sem er stærra en "allt".

Nú eru vísindimenn til dæmis farnir að gæla við hugmyndir um fleiri "alheima" en okkar.

Sömuleiðis er skynjun okkar á hugtakinu "minnst" röng, því að það er alltaf til eitthvað sem er minna en það minnsta sem við þekkjum.

Óendanleikinn þýðir óendanlega mikla möguleika, það eru til óendanlega margar vetrarbrautir, sólir og reikistjörnur og óendanlega margar þeirra hafa líf. Af því leiðir að tvíburajarðir jarðarinnar eru óendanlega margar og tvífarar okkar sömuleiðis.

Ef hugsað er á þessum nótum er endurholdgun vel líkleg þótt hún sé ekki endilega fólgin í því að hún gerist hér á jörðinni á þann hátt sem Dalai Lama heldur fram.

Kristur talaði oft um eilfðina og Guð, sem einnig má kalla almætti. Þetta er svo stórt að örsmáir menn á jörðinni hafa ekkert leyfi til að reyna að taka sér það vald almættisins og sköpunarverksins sem endurholdgun er. Það er einfaldlega ekki í mannlegu valdi. Í þá gryfju hafa ótal margir trúarpostular fallið og valdið með því tjóni í stað þess að vinna með því gagn.

Læt fylgja þessum pistli fyrstu ljósmyndina af mörgum sem ég ætla að birta úr mögnuðu ferðalagi um víðáttur Vatnajökuls, sem ég kom úr í nótt.

DSCF5278

Sú ferð endaði síðdegis í gær á því að standa uppi á Bárðarbungu, næst hæsta fjalli Íslands og reyna að skynja hina stórbrotnu víðáttu sem bankar í eilfífðina.

Myndin hér við hliðina er hins vegar af því þegar komið var eftir akstur lungann úr deginum upp á Grímsfjall og horft inn í hluta Grímsvatna, staðar þar sem maðurinn skynjar smæð sína andspænis þeim hrikalegu náttúröflum, sem skilað hafa Grímsvötnum í hóp sex merkilegustu eldfjalla heims, þeirra er mannleg augu fá greint.

Þarna er mynd Grímsvatna að byrja brjótast út úr hríðarsortanum framundan, en síðan fara í hönd þrír dagar þegar myndin birtist endanlega.  

(Hægt er stækka myndir hér á síðunni og láta þær fylla út í allan skjáinn með því að smella á þær í tveimur áföngum.  


mbl.is „Lifði í lygi" í klaustri Dalai Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gos í þetta sinn

Í dag var farið í Grímsvötn, Skaftárkatla og Gjálp til mælinga. Magnús Tumi Guðmundsson, leiðangursstjóri. kvaðst alls óhræddur við að fara niður í Grímsvötn þótt þar hefði orðið jarðskjálfti sem venjulega er fyrirboði goss sem kemur eftir nokkrar klukkustundir. Jafnstórir skjálftar og komu í fyrradag eru nefnilega mjög sjaldgæfir í Grímsvötnum og yfirleitt undanfari goss. Nú er bara að koma sér niður af jöklinum og vinna úr því efni sem hér hefur verið tekið, við frábærar aðstæður.

Drottningarnar þrjár

Sólbrenndur, skeggjaður í Grímsvötnum. Líka í Kverkfjöllum. Kverkfjöll og Grímsvötn eru frábærar systur og ekki skemmir í Kverkfjöllum að Herðubreið, þriðja drottningin, blasir við í heiðskíru veðri hér í dag. Eitt af sex frægustu eldfjöllum heimsins, Grímsvötn, urðu að sjálfsögðu að hrista okkur með jarðskjálfta. Hlakka til að blogga meira um þetta ferðalag.GrímsvötnGrímsvötn

Löngu tímabært.

Hin dauða hönd, sem lagst hefur yfir sjávarþorpin í landinu með brotthvarfi heimilda til veiða, hefur verið skaðleg á marga lund. Það er ekki aðeins peningalega slæmt fyrir þorpin og byggðirnar að veiðar hafi stórminnkað eða lagst af.

Ég nefni þrennt annað:

1. Sálfræðilegt tjón. Dauði og doði eru ævinlega sálfræðilegt áfall, dregur úr lífshamingju, bjartsýni og ánægju. Þetta skapar fjárhagslegt tjón á fleiri sviðum en sem nemur veiðunum sjálfum. Fólkið hrekst í burtu og önnur starfsemi líður fyrir.

2. Ímyndarlegt tjón. Þetta sést vel í Noregi, til dæmis í fjörðunum á vesturströndinni. Þar er skylt að viðhalda búskap og frumstarfsemi allt árið vegna þess, að það er hluti af þjóðarímynd Norðmanna, eflir ánægju þeirra og samheldni og færir þeim peningalegan ávinning af ferðaþjónustu sem byggir á því að laða þangað ferðafólk, sem vill kynnast þjóðlegri menningu sem umvafin er af stórbrotnu umhverfi.

3. Menningarlegt tjón. Í Noregi er það stór þáttur í þjóðarvitundinni að þjóðin hefur átt stórskáld á borð við Björnson, Hamsun, Grieg og Ole Böll, og list þeirra er samofin þjóðlífi og náttúru landsins. Fjölbreytni í þjóðlífi er mikilvæg.

Það er ekki eftirsóknarvert að menningarlíf Íslendinga verði einsleit borgarmenning nauðalík samskonar menningu í öðrum löndum.

Það er heldur ekki eftirsóknarvert að tvískipta þjóðinni þannig að það verði hlutverk landsbyggðarinnar að lifa á nokkrum risastórum verksmiðjum. Á ferðum mínum um Norðurlönd og dreifbýl svæði í Ameríku hafa blasað við þau viðurkenndu sannindi að þau þjóðfélög þrífast best þar sem fjölbreytnin er mest í mannlífi og menningu, en þær byggðir eiga erfitt þar sem einsleitnin er mest.

Íslandshreyfingin gerði það mál að sínu í kosningunum 2007 að hleypa lífi í strandbyggðir landsins, en lagði á það mikla áherslu, að forðast yrði að úr yrði svipuð sprenging og varð fyrir rúmum tíu árum.

Því væri betra að fara rólega af stað og láta reynsluna ráða. Vonandi tekst vel til í þetta sinn.


mbl.is Lengi barist fyrir frelsi til að veiða á handfæri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband