Færsluflokkur: Bloggar

"Bardagi aldarinnar," - a.m.k. þeirra 15 ára sem liðin eru af henni.

Árið 1910 fór fram fyrsti "bardagi aldarinnar" í hnefaleikum, það er, bardagi þeirra tíu ára, sem liðnar var þeirri öld. Árin reyndust fleiri, því að það liðu 26 ár þar til svipaður bardagi fór aftur fram. 

Þetta var bardagi þáverandi heimsmeistara í þungavigt, Jack Johnson, og fyrrverandi heimsmeistara, Jim Jeffries, sem hafði orðið að draga sig í hlé 1905 vegna þess að enginn andstæðingur fannst, sem gæti átt roð í hann. 

Bardaginn í Reno 1910 var ekki bara svona stór, af því að þetta voru langbestu hnefaleikararnir í sögu íþróttarinnar fram að því, heldur ekki síður vegna þess að Johnson var fyrsti svarti heimsmeistarinn en Jeffries var hvítur. 

Jeffries þurfi að létta sig úr 150 kílóum niður í 100 fyrir bardagann eftir sex ára hlé frá hringnum, og það varð honum um megn, - eftir 4. lotu fór hinn yngri maður, Johnson, að ná yfirhöndinni og vann í 15. lotu. 

Jeffries var rosalegur íþróttamaður á hátindi getu sinnar um 1900, - þessi vöðvastælti og 95 kílóa þungi maður gat hlaupið 100 metrana á innan við 11 sekúndum og vippað sér á þess tíma ófullkomna hástökkstíl yfir 1,80 metra. 

Hann bjó yfir einstakri blöndu af snerpu, hraða, höggþunga og þoli, en sex ára hvíld og þynging um 50 kíló auk vöðvarýrnunar af hóglífinu, var þessum 35 ára gamla manni ómögulegt að yfirvinna.

Eftir 4. lotu sást hvert stefndi. Hinn yngri Johnson, sem var á hátindi getu sinnar og bjó yfir bestu varnartækni þess tíma, tók smám saman völdin og gekk frá Jeffries í 15. lotu.

Margir voru drepnir í kynþáttaóeirðum um öll Bandaríkin í kjölfar þessa bardaga.  

Eftir 1910 voru nokkrir bardagar sem voru líka auglýstir sem bardagar síðustu aldar, t. d. Joe Louis - Max Scmeling 1938, Joe Frazier - Muhammad Ali 1970 og George Foreman - Muhammad Ali 1974. 

Það hefur verið beðið eftir uppgjöri Mayweathers og Pacquiao í mörg ár, og nú loksins verður af því. 

Maywether virðist hætta meiru fyrir bardagann, hann er ósigraður fram að þessu en "Packman" ekki. En ég tel að Mayweater muni græða meira á seinkuninni. 

Það hefur stundum verið sagt að uppgjör tveggja afburðamanna í hringnum verði magnaðra ef báðir eru ekki lengur upp á sitt besta, heldur á örlítillin niðurleið. 

Þess vegna hafi bardaginn "Thrilla in Manila" verið mesti bardagi allra tíma. 

Mayweather er stærri frá náttúnnar hendi en Manny Paquiao og þess vegna má búast við því að Manny tapi meira á því að hraðinn hefur minnkað hjá honum.

Auk þess býr Mayweather yfir bestu varnartækni, sem sést hefur í hringnum.

En þetta segir ekki allt. Dagsformið og heppnin geta eins og svo oft áður ráðið úrslitum.  


mbl.is Borgar 140.000 krónur fyrir hverja máltíð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

20 megavatta virkjun "brýn nauðsyn" til að "bjarga þjóðinni"?

Formaður atvinnuveganefndar segir að það sé "brýn nauðsyn" að vaða nú þegar í fimm nýjar virkjanir til að bjarga þjóðinni úr vanda raforkuskorts.

Svipað neyðaróp heyrist varðandi það að "bjarga heimilunum" og "tryggja afhendingaröryggi á rafmagni til heimilanna" með því að leggja risaháspennulínur hið snarasta þvers og kruss um landið, þar á meðal yfir hálendið.

Og auðvitað að vaða líka inn á miðhálendið með eina af þessum virkjunum. 

Ein hinna fimm fyrrnefndu virkjana, Hagavatnsvirkjun, á að framleiða 20 megavött, sem er 0,07% af núverandi raforkuframleiðslu. "Brýn nauðsyn" það? "Bjargar þjóðinni?"

Heimili landsins nota nú 5% af raforkunni, sem framleidd er í landinu.

Stóriðjan notar 80%.

Og samt er alltaf hrópað: "Við verðum að hafa rafmagn fyrir okkur!"

 

Neyðarópin "raforkuskortur!" og "afhendingaröryggi fyrir almenning!" eru hluti af blekkjandi áróðri manna, sem trúa einungins á stóriðju en ekki "eitthvað annað",en þetta "eitthvað annað gefur nú samt minnst 97% vinnuaflsins atvinnu.

Og vinnubrögðin við það að sækja sem hraðast inn á þau fáu svæði, sem voru í verndarflokki, sýna, að stefnan er að eira engu fyrr en allt hefur verið virkjað.    

 


mbl.is Samþykktu fjölgun virkjanakosta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérstaða Vitara er horfin, en nýr og spennandi bíll kominn.

Þegar Suzuki Vitara kom fram 1988 markaði sá bíll ákveðin tímamót í framleiðslu aldrifsbíla. 

11 árum fyrr hafði Lada Niva (Sport á Íslandi) verið tímamótabíll í hönnun jeppa, léttur og nettur, með góða veghæð, mikla torfærueiginleika, hátt og lágt drif, en jafnfram heilsoðna byggingu án grindar, sjálfstæða fjöðrun að framan og gormafjöðrun allan hringinn.Suzuki Fox jöklajeppi

Fram til 1988 var Suzuki Fox eini jeppi verksmiðjanna, frábærlega vel hannaður smájeppi, samanber ferðir ferðir Fox jöklajeppa um Vatnajökul. Á mynd sést hann við hlið venjulegt jöklajeppa, en flotmagnið á Foxinum er meira, 94% á móti 70% á stærri jeppanum á myndinni.

Vitara var nokkurn veginn jafn stór og Ladan, meira að segja með nákvæmlega sama hjólhaf upp á millimetra, 2,20 m, sams konar fjöðrun, hátt og lágt drif og ótrúlegan léttleika, þyngdin aðeins um 1100 kíló.

Samt var bíllinn á sjálfstæðri grind og var ævintýri líkast að kynna sér hvernig hönnuðir Suzuki fór að því að gera bílinn svona léttan. 

Miðað við Fox, litla Suzuki jeppann, mátti þó sjá örlítil merki um upphaf þess flótta frá torfærueiginleikum, flótta, sem nú hefur endanlega gengið frá Vitara sem jepplingi með sérstöðu á því sviði.

Veghæð Vitara 1988 var í tæpasta lagi og hljóðkúturinn skagaði niður fyrir hásinguna og varð ansi neðarlega ef bíllinn var hlaðinn.

En sjálstæða grindin gaf hins vegar möguleika á upphækkun og stærri dekk.

Hægt var að koma 31 tonnum dekkjum undir óbreyttan Vitara, og það þýddi eitt og sér hækkun á veghæð úr 20 sm í 24 sm.

Síðan kom lengri gerð á markaðinn og hér á landi má sjá Vitara af árgerðunum 1988-98 á allt upp í 35-36 tommu hjólbörðum.

Eins og er, hef ég undir höndum Vitara 1998 með frábærlega sparneytinni dísilvél á 36 tommu börðum. Hann er aðeins 1500 kíló og því með svipað flotmagn á jöklum og gamall Hilux á 38 tommu dekkjum.Grand Vitara dísil -97

Flotmagnið er samkvæmt formúlu minni 88%. Og 2012 fór ég í myndatökuferð á stuttum Vitara á 33ja tommu dekkjum upp í Grímsvötn og þar áður í ferð um Mýrdalsjökul. og hann stóð sig fyllilega í þessum ferðum, þótt hann væri meira en helmingi léttari en hinir jepparnir. Þessi stutta Vitara er aðeins 1220 kíló og með flotmagnið 86%.  

1999 kom ný gerð af Vitara, þar sem enn var hörfað lítillega varðandi torfærugetu. Á þessum Vitara var ekki hægt að koma nema 29 tommu dekkjum undir bílinn í stað 31ja áður og veghæðin aukin úr 20 sm upp í 22.

En ennþá var Vitara með hátt og lágt drif og á sjálfstæðri grind og sjá má bíla í umferð með upphækkaða byggingu og á stærri dekkjum.

2005 kom síðan sá bíll fram sem hefur verið fram að þessu.

Enn minnkuðu torfærueiginleikarnir frá því sem áður var, því að þessi bíll er með heilsoðna byggingu og því ekki hægt að hækka boddíið á grindinni.

En þetta var ekki algerlega hönnun Suzuki eins og áðir, heldur var þetta sama bygging og á Chevrolet Equinox og Pontic Torrent, en þeir bílar voru ekki með hátt og lágt drif.  

Háa og lága drifið hélst sem sé á Vitara, en hlaðinn hefur þessi bíll verið eins og hver annar af svonefndum jepplingum, sem verða þegar þeir eru hlaðnir, að ígildi venjulegra aldrifinna fólksbíla.

Umboðið, sem ævinlega hefur verið með mikla þjónustulund og stóð af sér Hrunið án þess að farið væri í sjóði skattborgaranna upp á milljarða til að bjarga því, bauð upp á hækkun á fjöðrun fyrir aðeins 70 þúsund krónur. Ég hef hins vegar fáa slíka bíla séð.  

Og nú er sem sagt búið að ljúka sögu torfærubílsins Vitara með hinni nýju Vitöru, sem er af sömu megingerð og aðrir svonefndir jepplingar, ekki lengur hátt og lágt drif, enn minni veghæð en áður og skögun að framan lítt til torfæruferða fallin.Suzuki Vitara 2015

En þetta er hins vegar alveg nýr og spennandi bíll í vinsælum flokki bíla. 

Vitara 1988 var með nær engu farangursrými en sú nýja með dágóðu rými. Og þetta er "heitasti" flokkurinn í bílasölunni og því gæti ný Vitara orðið smellur.

Nú er bara spurningin um eina alvöru torfærubílinn eða jeppann í þessum stærðar- og verðflokki, sem er á boðstólum, Suzuki Jimny.

Ég hef séð myndir af hugsanlegum arftaka hans og sýnist í fljótu bragði að Suzuki ætli að reyna að viðhalda jeppaeiginleikum, þótt engu sé hægt að slá föstu enn um það.Suzuki Jimny PM 481

P. S. Konan mín ákvað að fá sér bíl af minnstu og ódýrustu gerð, Suzuki Alto, og er því með Suzuki Jimny 2006 PM 481 til sölu á J.R.bílasölunni við Bíldshöfða. (Sjá mynd) Jimnyinn er ekinn 169 þúsund, upphækkaður um 4 sm, á 215/75-15 dekkjum, með nýjan gírkassa, kúplingu, púst og bremsuklossa. Hiti í sætum, ljúfur bíll og afar sparneytinn, ( 7,2 í blönduðum akstri), enda ekki nema 1110 kíló og með 1325 cc 85 hestafla vél. Þetta er alvöru jeppi með hátt og lágt drif en samt afar nettur borgarbíll, með nákvæmlega sömu utanmál og Kia Picanto, 3,60 x 1,60m. Allt að 100% visa/euro í boði.   


mbl.is Meiri bíll í minni pakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hræðsluáróðurinn gegn þjóðaratkvæðagreiðslum stenst ekki.

Allt frá lýðveldisstofnun fyrir tæpu 71 ári hafa íslenskir valdamenn ávallt heykst á því að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um pólitísk málefni á þeim forsendum sem nú er haldið á lofti eina ferðina enn: "Þjóðaratkvæðagreiðsla myndi ógilda alþingiskosningar".

Reynslan hér hefur þó sýnt allt annað, því í þau þrjú skipti sem forsetinn hefur vísað málum til þjóðarinnar, fjölmiðlafrumvarpinu og tveimur Icesavemálum, sátu báðar ríkisstjórninar, sem í hlut áttu, áfram, og næstu alþingiskosningar fóru síðan fram eins og ekkert hefði í skorist. 

Norðmenn felldu ESB samninga tvívegis en ríkisstjórnirnar, sem stóðu að samningunum sátu þó áfram. 

Núverandi valdhafar lofuðu þjóðaratkvæðagreiðslu um samningaviðræður við ESB en svíkja það síðan á þeim forsendum, að í því máli ríki "ómöguleiki".

En í þessu máli þarf ekki að ríkja neinn "ómöguleiki."  

Einkennilegt er að deiluaðilar nú skuli ekki sættast á það að láta málið malla fram að næstu kosningum - ef þjóðaratkvæðagreiðsla fæst ekki fram, - úr því að það er búið að malla þegar í tvö ár. 

Besta hliðstæða, sem manni kemur í hug, er sú þegar manni er haldið sofandi í öndunarvél.

Það er ekkert auðveldara en að hætta þessum deilum og lofa málinu bara að sofa fram að næstu kosningum þegar þjóðin ákveður framhaldið.

Málinu hefur verið haldið pólitískt sofandi í öndunarvél í tvö ár og ef ríkisstjórnin núverandi treystir sér ekki til þess að láta kunnáttumenn vinna áfram að málinu í rólegheitum, er einfaldlega hægt að láta málið kyrrt liggja fram að næstu kosningum.  

Á sínum tíma var Þjóðleikhúsið steypt upp og fokhelt, þegar stríðið skall á, og þá hertóku Bretar það og húsið stóð óhreyft öll stríðsárin. 

Setjum sem svo að eftir stríð hefðu orðið deilur um hvort eða hvenær af fjárhagsástæðum ætti að klára málið, - hefði þá ekki verið eðlilegra að lofa því að standa um sinn heldur að brjóta það niður?


mbl.is Dauðadæmt án pólitísks vilja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur lengi endurspeglast í áreiðanleikakönnunum.

Gæði bíla Lexusdeildar Toyota og Mazda hafa birst í ýmsum könnunum í furðu langan tíma, miðað við hina hörðu samkeppni sem ævinlega ríkir í bílaframleiðslu. 

Þetta hefur til dæmis komið fram í árlegu yfirliti þýska bílatímaritsins Auto motor und sport, sem hefur birst í árlegri sérútgáfu með niðurstöðum um viðhald og bilanatíðni bíla undir yfirskriftinni "Gebrauchtwagen" eða "Notaðir bílar."

Ferill Toyota og Mazda á toppnum í þessu ársriti allt frá fyrstu árum 9. áratugarins og fram á okkar daga hefur verið mjög góður.

Ég sagði oft á þessum árum að Mazda væri vanmetnasta bílategundin hér á landi, svo lítið sem seldist af þeirri gerð á Íslandi þá. 

Í ritinu er birt gróft yfirlit yfir bilanatíðni bíla, og er bilanatíðni einstakra hluta bílanna táknaður með súlum,  rauðum súlum ef viðkomandi bíll sé bilanagjarnari, en grænum, ef bilanatíðnin er minni en meðaltalið.

Árum saman voru Toyota og Mazda með flestu grænu súlurnar, og athyglisvert var að sjá  á sínum tíma þegar einstaka gerðir Benz, BMW og Audi fóru að hiksta í þessum efnum, þessir viðurkenndu eðalbílar.

Aðeins ein bílgerð var með allar súlurnar rauðar og stórar fram til síðasta framleiðsluársins 2000, en það var upphaflega gerðin af Mini!

Margt fleira en bilanatíðni og áreiðanleiki hefur áhrif á það hvaða bílar seljast best, en bílasagan geymir mörg dæmi um það, hve vöruvöndun skiptir miklu máli á þessum markaði eins og öðrum.   


mbl.is Lexus og Mazda bestu bílsmiðirnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímanna tákn.

Það hlýtur að teljast tímanna tákn og tákn um mikinn ólgusjó í tæknimálum og hraða á tækniþróun á menningarsviðinu að Skífan, sem var stórveldi á sviði tónlistarmenningar á Íslandi í áratugi, skuli nú hafa lagt upp laupana.

Það myndi verða talin saga til næsta bæjar ef helstu bókabúðir í Reykjavík yrðu lagðar niður. 

Eins og er virðist staða bókarinnar og lesturs furðu góð þótt erfitt sé að segja hvort einhver tæknibylting geti lagt hana á hliðina eins og geisladiskinn.

Geisladiskurinn er ekki eins handhægur og bókin. Munurinn er sá að það er auðvelt víðast hvar að grípa til nettrar bókar og glugga í hana en þarf hins vegar að vera tæki við hendina til að spila disk.

Undantekningar eru frá þessu, svo sem hjá ökumönnum bíla, sem að sjálfsögðu geta ekki verið að lesa bækur undir stýri.  

Ýmsar spurningar vakna, svo sem hvernig hægt sé að nálgast það mikla tónlistarefni, sem hingað til hefur verið á boðstólum í plötuverslunum. 

 

 

 


mbl.is Skífunni lokað eftir 40 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sér náttúran sjálf um jafnvægið?

Athyglisverðar umræður og deilur hafa verið um íslenska refinn um margra ára skeið, einkum um friðun hans í Hornstrandafriðlandi,sem ýmsir hafa gagnrýnt harðlega.

Hefur gagnrýnin beinst að því að með því að skjóta ekki refinn í friðlandinun sé verið að ógna öllu lífríki á svæðinu, einkum hinu öfluga fuglalífi, sem refurinn muni útrýma, auk þess sem refir frá friðlandinu muni streyma úr þeirri útungarstöð, sem friðlandið sé, og eyða lífi um allt land, eða minnsta kosti alla Vestfirði.

Einni spurningu hefur þó aldrei fengist svarað: Úr því að refurinn hafði, áður en Ísland var numið, haft heil 10 þúsund ár frá lokum ísaldar til þess að eyða fuglalífinu, hvers vegna hafði honum ekki tekist það á svo drjúgum tíma?

Svipuð spurning og á Alþingi árið 1000 þegar spurt var: Hverju reiddust goðin þegar hraunið brann er nú stöndum vér á?

Nú hrynur refastofninn á Hornströndum að því er virðist án þess að nokkra skýringu sé að finna á því, og hrynur meira að segja þegar hann hefur alveg frítt spil af mannanna hálfu til þess að halda áfram að eyða lífi í fuglabjörgunum eins og sagt er að hann hafi fengið að gera óáreittur.

Eitthvað virðist vera að gerast í náttúru svæðisins sem erfitt er að útskýra öðruvísi en með því, að náttúran sjálf sjái um það, eins og hún gerði að mestu í 10 þúsund ár fyrir landnám, að jafnvægi náist í lífríkinu.  

 


mbl.is Refastofninn á Hornströndum hrundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

GAGA, Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra.

GAGA, eða Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra er tilraun til að snara yfir á íslensku hugtakinu MAD, sem er skammstöfun yfir Mutual Assured Destruction.

Þegar árið 1948 áttu Bandaríkin um 50 kjarnorkusprengjur og hótuðu Stalín að ráðast á jafnmargar borgir í Sovétríkjunu ef þörf yrði á því.

Bandaríkjamenn létu líka vita af kjarnavopnum sínum í Kóreustyrjöldinni og Víetnam styrjöldinni, þótt Sovétmenn gætu líka hótað á móti.

Út úr því kom GAGA kenningin sem er auðvitað mesta vitfirringabrjálæði, sem hinum viti borna manni og færustu og snjöllustu snillingum hefur dottið í hug frá upphafi mannkynssögunar, því að lykilorðið er orðið "altryggð", þ. e. að hvor aðilinn um sig verði að treysta því að hinn sé reiðubúinn og hafi getu og vilja til að hefja gereyðingu mannkyns ef svo ber undir.

Nú er þessi hættulegasta af öllum ógnum við mannkynið og lífið á jörðinni að stinga upp kollinum að nýju, líkt og þegar miltisbrandur, sem verið hefur í dái, fer að nýju á kreik.

Enginn þarf að halda að Ísraelsmenn hafi átt kjarnorkuvopn í áratugi nema vegna þess að þeir séu reiðubúnir að beita þeim, ef þeim sýnist það sjálfum óhjákvæmilegt.

Tilvist tveggja fyrirbæra, kjarnorkuvopna og mannanna, sem geta beitt þeim, hefur verið og er langstærsta ógnin, sem steðjar að mannkyninu og lífinu á jörðinni.    


mbl.is Var tilbúinn að brúka kjarnorkuvopn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eilífðin og óendanleikinn líklegust?

Svar við ofangreindri spurningu er auðvitað ekki á færi nokkurs manns að gefa, en þó hlýtur jákvætt svar að vera afar líklegt. 

Þessu með óendanleikann og eilífðina í tíma og rúmi hef ég haldið fram um áratuga skeið og er með bók í smíðum, sem byggir á þessari hugsun og ég byrjað á fyrir aldarfjórðungi. 

Óendanleikinn og eilífðin þýða svo margt, að þeir möguleikar eru líka óendanlega margir. 

Tíminn hófst aldrei og hann endar aldrei. 

Alheimurinn á sér heldur hvorki upphaf né endi.

Alheimurinn eins og við könnumst við hann var aldrei og verður aldrei annað en hluti af enn stærri alheimi. 

Og ekkert er minnst í heimi og ekkert er stærst í heimi, - það er alltaf til eitthvað minna og eitthvað stærra.

Og líkurnar á tvíburajörðum jarðarinnar eru óendanlega margir og þar með líkurnar á tvíförum okkar.

 

Ætli ég láti þetta ekki nægja í bili, því að ég get ekki haldið áfram út hið óendanlega.  


mbl.is Alheimur án upphafs og enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Feisbúkk-mótmæli" "kverúlanta"?

Ekki vantar lýsingar í fyrirlitningartóni um það andóf sem haft hefur verið í frammi nú og áður gegn ýmsum stjórnarháttum.Mótmæli. 15.3.2015 

"Feisbúkk-mótmæli" er þetta andóf kallað, líklega til að sýna fram á að ekkert sé að marka þetta, - það sé svo auðvelt að sitja við feisbúkk og slá einhverju inn, að það þeir, sem fari út úr húsi, hljóti að vera viljalaus verkfæri eða "kverúlantar", orð sem vinsælt er að nota.

Gert eins lítið úr þessu fólki og mögulegt er og sem oftast talað um "örfáar hræður".  

Ekki kannast ég við að hafa séð nein tilmæli eða skipanir á feisbúkk um það að fara niður á Austurvöll.Mótmæli 201515..3.

Sumum virðist ómögulegt að skilja það að einhverjir nenni að hafa fyrir því að hafa skoðanir, sem ekki falla að öllu leyti að vilja valdhafanna, og fara út úr húsi og það jafnvel talsverða vegalengd til að standa úti að vetri til að tjá hug sinn í stað þess að sitja inni, hafa það náðugt og segja já og amen við öllu því sem valdhafarnir gera.

 

Það á auðvitað ekki að taka mark á neinum öðrum en þeim, sem samþykkja "sterka leiðtoga" sem tryggi aðstæður til að "græða á daginn og grilla á kvöldin."  

Á myndunum má sjá hluta af þeim "örfáu hræðum" sem stunduðu "feisbúkk-mótmæli" í dag. 


mbl.is Um sjö þúsund manns á Austurvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband