Færsluflokkur: Bloggar

Verður þetta jafnlengi að velkjast og byssurnar?

Enn er í minni þegar það tók næstum tvær vikur að toga upp úr íslenskum ráðamönnum öll atriði byssumálsins svonefnda á sama tíma og auðvelt hefði verið að hreinsa málið á einum degi. 

Í fyrradag, fimmtudag, birtist fréttin um að Gunnar Bragi SVeinsson hefði tilkynnt ESB bréflega að umsóknarferli Íslands væri lokið, landið ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki (candidat state) og þar með búið að skella því endanlega í lás. 

Mikill hvellur varð út af þessu og Bjarni Benediktsson staðfesti þessi endalok samningaferlisins í rifrildi við Árna Pál Árnason í Kastljósi.

En þó voru þeir til á föstudagsmorgni, sem sáu, að hvergi í bréfinu var það orðað beint að umsóknarferlinu eða samningaferlinu væri slitið, og þótti það skrýtið. 

Í hádegisfréttum á föstudag sagði síðan Birgir Ármannsson, formaður utanríkisnefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, að vegna þess að bréfið innihéldi ekki neitt um slit viðræðna, táknaði bréfið enga stefnubreytingu og þess vegna hefði ekki þurft að bera það undir utanríkisnefnd.

Talsmaður stækkunarstjóra ESB tók í svipaðan streng og Birgir. 

Eiríkur Bergmann Eiríksson og fleiri lásu svipað út úr bréfinu og nú urðu margir andstæðingar aðildarumsóknar óánægðir með það að í raun væri þingsályktunin frá 2009 í gildi og að ríkisstjórnin hefði hörfað í málinu.

Í forsíðufrétt í Morgunblaðinu á laugardagsmorgni er því slegið upp að víst sé Ísland ennþá umsóknarríki. 

Loks á sunnudagskvöldi eftir nær þriggja daga þögn, kveður síðan utanríkisráðherra upp úr með það að umsóknarferlinu sé víst lokið og að ekki verði hægt að taka upp viðræður á ný nema fara með allt á algeran byrjunarreit. Hins vegar hefði ekki verið notað orðalag um slit viðræðna af því að það hefði verið túlkað sem offors! 

Það er að koma sunnudagur og á fjórða degi þessa máls heyrist væntanlega ekki múkk frá formanni utanríkisnefndar né talsmanni stækkunarstjóra ESBB um það hvort eitthvað hafi misskilist í málinu í fyrradag.

Þetta fer óneitanlega að minna á upphaf byssumálsins á sínum tíma.  


mbl.is „Ferlinu er lokið af okkar hálfu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt hefur sinn tíma.

Réttur maður á réttum stað á réttum tíma. Þessi setning hefur margsannast í mannkynssögunni. 

Stundum hafa slíkir menn unnið stórvirki en í önnur skipti gert hinn mesta óskunda, þegar tímabundið tækifæri gaf þeim færi á að brjótast til valda. 

Björk kom fram á hárréttum tíma þegar yfirpródúseruðu stórstjörnurnar Micheal Jackson og Madonna höfðu ríkt það lengi, að það var farin að myndast þreyta og þörf fyrir eitthvað allt annað, einfalt, persónulegt, ósvikið og einstakt. Inn í það tómarúm stökk Björk 

Adolf Hitler var á niðurleið þegar heimskreppan mikla kom eins og hvalreki upp í hendurnar á honum. Þjóðverjum sýndist hann því miður vera réttur maður á réttum stað og réttum tíma þegar þá þyrsti í sterkan leiðtoga, sem rifi þá út úr niðurlægingu Versalasamninganna og færði þeim árangur, virðingu og áhrif meðal þjóðanna. Í staðinn leiddi Hitler yfir þá villimennsku með hroðalegum afleiðingum.

Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir komu fram á hárréttum tíma hvort um sig þegar aðstæður voru mjög sérstakar í þjóðlífinu og kölluðu á breytingar. 

Þegar íslenskur almenningur hafði fengið upp í kok af íslenskum stjórnmálamönnum, stökk Jón Gnarr inn í kolsvart tómarúmið á hárréttum tíma og gegndi mikilvægu hlutverki á meðan verið var að reyna að komast út úr Hruninu.

Jón er mjög óvenjulegur maður meðal stjórnmálamanna og nú hefur hann kynnst heimi stjórnmálanna nokkuð vel. 

"Kalinn á hjarta þaðan slapp ég" kvað Grímur Thomsen og Jóni líst, hvað sig varðar, ekki á nógu vel á það pólitíska umhverfi sem forseti landsins hefur starfað í. 

Hann er enn ungur, getur tekið sér margt gott og nytsamlegt fyrir hendur, þar sem hæfileikar hans geta notið sín, og á skilið góðar óskir um velfarnað í hverju því sem hann ákveður að gera.  

  


mbl.is Jón Gnarr ekki í forsetann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvítur með tónlist svartra.

Þegar Elvis Presley og rokkið ruddu sér til rúms með ógnarhraða og afli á miðjum sjötta áratug síðustu aldar var það álíka mikil bylting í alþýðutónlist eða popptónlist og þegar djassinn ruddist fram fyrr á öldinni. 

Rokkbyltingin var hins vegar á miklu víðara sviði, því að unga kynslóðin, sem dreif hana áfram í Bandaríkjunum og þar með á Vesturlöndum, var sú fyrsta í mannkynssögunni, sem hafði rúm fjárráð og gat meira að segja eignast bíla í Bandaríkjunum og áratug síðar í löndum Vestur-Evrópu og það færði unglingunum áður óþekkt áhrif á efnahagslíf, þjóðlíf og menningu sem síðar lituðu "eftirskjálfta" í formi Bítlabyltingar, hippabyltingar / þjóðlagatónlistar og síðar diskó- og pönkbyltingar.

Rythm and blues var tónlist blökkumanna og á þessum árum þurfti hvíta menn til þess að brjótast í gegnum íhaldsmúrinn í léttri tónlist. Sumir þessara hvítu tónlistarmanna fannst mér aldrei vera sannir eða ekta, til dæmis Bill Haley eða Pat Boone. Á þessum tíma voru mínir menn blökkumenn á borð við Chuck Berry og Little Richard.

En einn skar sig úr hópnum og hafði algera sérstöðu: Elvis Presley. Þar var á ferðinni hvítur maður sem elskaði og nærði tónlist blökkumannanna, söng með þeirra tilfinningu og kom sér á stall, sem honum verður aldrei hrint af, þótt hann ætti dálítið erfitt uppdráttar á Bítlatímanum.

Elvis féll inn í hóp hinna svörtu tónlistarmanna á þann hátt að hann gat allt eins verið blökkumaður sjálfur.   

Það var bara til einn Elvis, réttur maður á réttum stað á réttum tíma.

Tveir af frægustu stjörnum síðustu aldar, Elvis og Tyson, áttu það sameiginlegt að þeir misstu fótfestuna við fráfall nánasta ástvinar á slæmum tíma.

Elvis varð aldrei samur eftir að missa móður sína og Tyson við það að missa fósturföður sinn, þjálfara, umboðsmann og kjölfestu, Cus D´Amato.  


mbl.is Herma ekki eftir Elvis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einu sinni "vantar ákvæði í stjórnarskrá."

Í dag hefur komið fram í umræðum og ummælum kunnáttufólks um bréf ársins ef ekki aldarinnar fram að þessu, að það "vanti ákvæði í stjórnarskrá um meðferð utanríkismála, sem séu í stjórnarskrám annarra ríkja".

Enda ekki furða. Stjórnarskráin var í grunninn samin fyrir Dani og Danakóng 1849.

Aftur og aftur kemur það upp í mikilvægum málum, að það "vantar ákvæði í stjórnarskrá."

Í þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2011 kom fram yfirgnæfandi vilji kjósenda um það að setja landinu nýja stjórnarskrá, byggða á frumvarpi stjórnlagaráðs.

Meðal ákvæða í því frumvarpi eru ákvæði hliðstæð þeim, sem eru í stjórnarskrám nágrannalandanna en vantar hjá okkur.

En hver er ástæðan fyrir því að Alþingi ætlar að hafa af þjóðinni að fá uppfyllta ósk hennar í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2011.

Bréfið umdeilda sýnir einn angann af því. Með því að koma í veg fyrir lagfæringar, réttarbætur og stjórnarbætur stuðla valdaöflin að því að þau geti beitt valdi sínu af hreinum geðþótta þegar þau telja sig þurfa á því að halda.   


mbl.is Ekki til ávinnings fyrir flokkinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ekki afturköllun umsóknar" segir formaður utanríkisnefndar.

Birgir Ármannsson formaður utanríkisnefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir að bréf utanríkisráðherra til ESB jafngildi ekki afturköllun umsóknar. Þess vegna þurfi málið ekki að koma inn á borð utanríkisnefndar eða Alþingis.

Sé þetta rétt, virðist fögnuður margra andstæðinga ESB-umsóknarinnar yfir bréfinu vera byggður á misskilningi. 

Það, að slegið er svona úr og í, svo að enginn viti sitt rjúkandi ráð, er síst til þess fallið að styrkja traust á meðferð utanríkisráðherra á málinu og því engin furða þótt Styrmir Gunnarsson, Jón Magnússon og fleiri andófsmenn gegn inngöngutilburða í ESB, séu óánægðir og telji um að ræða fordæmalaust klúður.  

 


mbl.is Fordæmalaust klúður í ESB-máli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð sýn Styrmis og Jóns á málið.

Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins hefur verið framarlega í flokki þeirra sem eru andvígir öllum hugmyndum um inngöngu í ESB eða aðildarumsókn. 

En hann segir samt þetta í upphafi og niðurlagi bloggpistils síns í dag hér á blog.is um nýjasta útspil ríkisstjórnarinnar í málinu:

"Erfitt er að finna nokkurt dæmi fyrir því að jafn illa hafi verið haldið á svo stóru máli."

Á hann þá bæði við loðna og mótsagnakennda meðferð málsins, en þó einkum við það að fara ekki þá eðlilegu þingræðislegu leið að láta Alþingi fjalla um málið og samþykkja nýja þingsályktun í stað þeirrar sem enn er formlega í gildi um umsókn að ESB.  

Styrmir útskýrir þessa skoðun sína nánar í pistlinum og nægir að vísa í hann.

Í pistli í dag setur Jón Magnússson, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, fram svipaða skoðun undir fyrirsögninni "tuddameldað í Brussel" og gagnrýnir ríkisstjórnina harðlega fyrir að gefa reglum þingræðisins langt nef.   


mbl.is Kann engin orð yfir vonbrigðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fuglarnir þögnuðu fyrir 60 árum. En varla nú.

Sólmyrkvinn 1954 varð um hásumar. Það er ekki komið hásumar nú og verður ekki liðið 61 ár frá myrkvanum 1954 fyrr en í sumar, eftir fjóra mánuði. 

Sólmyrkvinn þá var að sjálfsögðu afar eftirminnilegur af því að hann varð um hábjartan sumardag. 

Myrkvunin sjálf situr þó ekki efst í minni, heldur það hvernig fuglarnir þögnuðu í dalnum.

Ég ráðlegg fólki eindregið að reyna að finna sér stað, þar sem slíka reynslu er hægt að upplifa, þótt það verði miklu erfiðara en 1954 og jafnvel ómögulegt. 

Fyrir 60 árum var þetta auðvelt en er ekki nú. Það uppgötvaði ég þegar deildarmyrkvi varð síðast hér á landi og ég ætlaði að upplifa hann á sama stað og 1954.

Ástæðan var þríþætt:

1. Mófuglarnir og vaðfuglarnir eru farnir eftir að mýrlendið var ræst, þurrkað upp og gert að túni.

2. Það er svo mikill hávaðinn af umferðinni núna hvar sem þjóðvegur er í nánd, að hann yfirgnæfir allt. 1954 lá mjór og krókóttur malarvegur um svæðið þar sem fuglarnir þögnuðu. Bílar voru á mjóum hjólbörðum og var ekið á innan við 60 kílómetra hraða. Umferðin var strjál og það heyrðist lítið í hverjum bíl. 

Nú eru jepparnir á stórum og grófum hjólbörðum og er ekið á 90 kílómetra hraða eða meira og hávaðinn frá dekkjunum er mun meiri en við gerum okkur grein fyrir af því að við erum orðin svo vön honum. Auk þess hefur umferðin margfaldast. 

3. Núna verða farfuglarnir ekki komnir þegar myrkvinn verður, þannig að ég býst ekki við því að auðvelt verði að upplifa það sama og 1954.

Nú er að leggja hausinn í bleyti og finna út, hvort það verður hægt að finna eitthvert aðgengilegt svæði þar sem fuglar kvaka og þagna 20.mars.   

 


mbl.is Sá mesti í 61 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sama og hjá Davíð og Halldóri 2003.

Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson ákváðu bara rétt si einn dag í mars 2003 að Ísland skyldi opinberlega láta setja sig á lista yfir hóp "viljugra þjóða" til innrásar í Írak.

Þetta var ekki borið undir Alþingi og gert í trássi við lög um samráð við utanríkisnefnd þess.

Nú er ákveðið yfir kaffibolla hjá ríkisstjórninni að Ísland telji aðildarumsókn, sem Alþingi samþykkti með þingsályktun 2009 og legið hefur í salti í tvö ár, ekki lengur gilda, og ESB skipað að fella nafn Íslands út af lista um þær þjóðir sem hafa sótt um aðild að ESB þótt þingsályktunin frá 2009 sé í gildi á meðan önnur kemur ekki fram.

Davíð og Halldór settu okkur inn á lista ákveðins hóps þjóða 2003 en Gunnar Bragi (með samþykki ríkisstjórnarinnar að því er sagt er), tekur okkur út af lista ákveðins hóps þjóða 2015 og í bæði skiptin er Alþingi sniðgengið.

Eini munurinn virðist vera sá að Davíð og Halldór ákváðu þetta á tveggja manna ráðherrafundi en nú er ákvörðunin tekin að viðstöddum öllum ráðherrunum.

Hvað Alþingi snertir skiptir ráðherrafjöldin svo sem ekki máli, því að í bæði skiptin er farið fram hjá þinginu.   


mbl.is Ísland ekki lengur umsóknarríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listinn er orðinn of langur.

Það hefur verið nefnt að stjórnarandstæðingar sjálfir hafi staðið fyrir morðinu á Boris Nemtsov til þess að skapa óróa og veikja stöðu Pútíns.

En listinn yfir þá andstæðinga hans, sem búið er að útrýma eða fjarlægja er einfaldlega orðinn of langur til þess það gangi upp að sjálfseyðingarhvöt stjórnarandstöðunnar geti verið um það allt að kenna.

Rússneski listinn er meira en tvöfalt lengri en listinn yfir hina myrtu í Bandaríkjunum varð á andófsárunum þar, þ.e. John F. Kennedy, Lee Harvey Oswald, Robert Kennedy, Martin Luther King, Malcolm X og John Lennon.

Í heimildamynd í sjónvarpi um John Lennon kom fram, að hann óttaðist það mikið um líf sitt, að hann þorði ekki að fara til Flórída á stóran andófsfund gegn Nixon. 

Banatilræðið við George Wallace var undantekning hvað varðaði stöðu þeirra sem ráðist var á. 

 

Lee Harvey Oswald á heima á þessum lista sem einn hinna "óþægilegu"í Bandaríkjunum, vegna þess að með morðinu á honum var kippt í burtu mikilvægu vitni að morðinu á Kennedy.

Aðeins tveir dagar eru síðan Pútín játaði að hafa logið á sínum tíma varðandi aðdragandann að töku Krímskagans.

Það vekur spurningar um sannsögli hans og heiðarleika yfirleitt eða hvort honum sé að verða erfitt að skynja muninn á réttu og röngu, sönnu og lognu.  


mbl.is Segir Pútín bera ábyrgð á morðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldatilfærsla, munurinn á okkur og Þjóðverjum.

Á síðasta ári voru gerðar miklar ráðstafanir til skuldaniðurfellinga, sem hlotið hafa misjafna dóma eins og gengur varðandi það hvort þær muni skila tilætluðum og sanngjörnum árangri. 

Eitt afbrigði aðgerða í skattamálum fól í sér nauðalitla lækkun á verði bíla. En samt nægði hún til að skapa hér stóraukna sölu á nýjum bílum á undanförnum vikum, enda buðu umboðið 10% útborgun og afganginn sem lán til sjö ára. 

Sjálfsagt hafa margir notað skuldaniðurfellinguna til þess að réttlæta kaup á nýjum bíl með hámarksláni, þannig að skuldaniðurfellingin breyttist í skuldatilfærslu í raun. 

Af afspurn af hliðstæðum málefnum fólks í Þýskalandi má ráða, að svona lagað gæti trauðlega gerst þar. Þar er reglan sú að áður en fólk fær lánað, verður það að hafa safnað sparifé í það miklum mæli, að það geti sýnt fram á það svart á hvítu á bankareikningum, að það hafi greiðslugetu ef það fær lán. 

Í aðdraganda Hrunsins fjórfölduðust hér á landi hinar svokölluðu skuldir heimilanna á sama tíma og aldrei í sögu þjóðarinnar höfðu verið jafn miklir möguleikar á að fólk gæti greitt niður skuldir sínar. 

"Við áttum í raun aldrei þessa peninga" segir fjármálaráðherrann nú og ratast satt á munn. 


mbl.is Þarf átök til að komast á núllið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband