Færsluflokkur: Bloggar

Skelfur aftur eftir átta klukkustunda hlé. Er ekki logi þarna?

Þegar þetta er ritað, klukkan hálf sjö, eru þrjár stundir síðan það byrjaði að skjálfa aftur á Bárðarbungusvæðinu eftir átta klukkustunda algert hlé á skjálftum.

Skjálftarnir eru annars vegar í Bárðarbungu sjálfri og hins vegar undir norðurjaðri Dyngjujökuls, suður af Holuhrauni.  

Þetta algera hlé var mjög athyglisvert miðað við það sem gengið hefur á síðasta hálfa árið, og ekki síður er athyglisvert upphaf og staðsetning nýrra skjálfta, þótt smáir séu og fáir.

Á sama tíma og engir skjálftar voru í nótt, vildi svo skemmtilega til fyrir tilviljun, að ritaður var pistill um árshátíð 365 miðla undir heitinu "Er Logi ekki þarna?" - "Logi" með stórum staf, -  en fyrirsögnin á þessum pistli getur vel verið: "Er ekki logi þarna?" - "logi" með litlum staf.   


mbl.is Líkur á fleiri gosum í kjölfarið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Logi ekki þarna?

Ég sakna þess að sjá ekki Loga Bergmann Eiðsson á mynd af þeim fallegustu á árshátíð 365 miðla. 

Alltaf þegar ég hitti þennan vin minn, heilsa ég honum með orðunum: "Loginnnn! Öflugurrr"

Báðir hófum við feril okkar í sjónvarpi sem íþróttafréttamenn, en ég fullyrði að í engri fréttamennsku er mönnum hent eins rösklega fyrir ljónin og þar, - það er harðasta próf í því að bjarga sér í fjölmiðlun á methraða og hugsanlega er íþróttafréttamennska besti skólinn í faginu.  

Sú var tíð að Logi var ítrekað kosinn kynþokkafyllsti karlmaður landsins en virðist vera orðinn full hlédrægur í seinni tíð. 

Er það alger óþarfi, svo fjallmyndarlegur sem maðurinn er og þar að auki orðinn einskonar táknmynd um vaxandi gróður í kjölfar loftslagsbreytinga.

Logi hampaði fyrrnefndum titli meðan hann var á RUV og á einni árshátíðinni þar sagði Gísli Einarsson, að hann skildi ekkert í því hve mikinn þokka Logi væri talinn gæddur, - í besta falli væri hægt að líkja honum við viðhafnarútgáfu af Frankenstein.

Þetta sagði Gísli vafalaust og uppskar góð viðbrögð hjá öðrum karlpeningi á árshátíðinni vegna þess að við hinir skörtuðum ekki þeim maskúlín línum, skörpum, hornréttum og beinum, sem prýða kynþokkafullan karlmann þar sem einhverjir venusarbogalínur eru víðsfjarri. 

Þess vegna sakna ég þess að sjá ekki Loga á mynd yfir þá fallegustu. Sá myndi hrauna yfir alla!  

 


mbl.is Fallegastur á árshátíð 365
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hamborgari útilokar hungur.

Þrátt fyrir alla menntunina og gráðurnar, þrátt fyrir vegtyllur á borð við þá að vera formaður umhverfisnefndar í bandaríska þinginu og virðulegur öldungardeildarþingmaður, virðist það ekki hagga vitund við gáfnafari sumra manna. 

Þingmaðurinn telur snjó til merkis um að það sé mjög, mjög kalt, þótt vitað sé að snjór geti myndast við frostmark og sé út af fyrir sig ekkert merki um miklar frosthörkur.

Snjór í Washington í febrúar er heldur ekkert "mjög óvenjulegt miðað við árstíma".

Samþingmaður nefndarformannins benti á að beita mætti hliðstæðri röksemdafærslu með því að fullyrða að ekkert hungur væri í heiminum, af því að það væri hægt að fá sér snarl að borða í þinghúsinu. 

Já, það væri vel hægt að kasta hamborga í þingforsetann til að sanna það. 


Er krafan sú að sem flestir sleppi?

Ríkissaksóknari og Sérstakur saksóknari fara mikið í taugarnar á sumu fólki, sem kvartar hástöfum undan "bruðli á almannafé" hjá þessum embættum og vill láta draga sem mest úr fjárveitingum til þeirra. 

Sama fólkið heimtar samt aukna löggæslu, vopnaðar öryggissveitir og persónunjósnir í stíl alræðisríkjanna í Austur-Evrópu á Sovéttímanum. 

Þessir andstæðingar saksóknaranna virðist ekki gera sér grein fyrir því að með aukinni löggæslu fjölgar þeim málum sem koma upp á yfirborðið, þannig að krafan um að að draga stórlega úr fjárveitingum til saksóknaranna er krafa um að sem flestir sleppi við ákæru og þá helst þeir, sem eru ákærðir fyrir brot í opinberum störfum, en það að ákæra fyrir slík brot eru taldar pólitískar ofsóknir eða "ljótur pólitískur leikur". 

Það er sérkennilegt að sjá svona viðhorf viðruð, en um það gildir að svo liggur hver sem hann hefur lund til. 


mbl.is Nær ekki í skottið á málahalanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Áunnin fáfræði".

Árið 2006 rann upp fyrir mér nokkuð, sem ég í barnaskap mínum hafði ekki hugleitt fram að því, fyrirbæri sem má kalla heitinu áunnin fráfræði. 

Hún felst í því að enda þótt mikið sé gert til þess að miðla nauðsynlegum og réttum upplýsingum og staðreyndum, veldur krafan um það að miðla jafnframt mismunandi skoðunum því, að þeir, sem upplýsa á um hlutina, velja ósjálfrátt það sem hentar best stundarhagsmunum þeirra sjálfra og gleyma öðru.

Áunnin sykursýki er til komin vegna neysluhátta sjúklingsins, en samt hefur hann látið orsök sjúkdómsins óáreitta.

Áunnin fáfræði felst í því að fólk gleymir ósjálfrátt því sem er óþægilegt fyrir það að vita, að það hefur sjálft átt þátt í að láta viðgangast.

Það vakti til dæmis athygli mína, að svo seint sem árið 2012 játaði einn alþingismanna, sem hefur verið hliðhollur náttúruverndarbaráttunni, að hann hefði ekki vitað að jarðvarmaorkuverin austur af Reykjavík ættu ekki að endast í nema nokkra áratugi, því að þá sé gert ráð fyrir að orkan sé uppurin. 

"Nei, er það?" sagði alþingismaðurinn. "Ekki vissi ég það." Samt hafði þessi staðreynd legið fyrir sem forsenda gufuaflsvirkjana allt frá árinu 1978, en verið keyrð í kaf áratugum saman og er enn keyrð í kaf með stanslausri síbylju um það þetta sé "hrein og endurnýjanleg orkuöflun."

Nú heyrir maður hlakka í þeim sem ég kalla kuldatrúarmenn yfir því að janúar og febrúar hafi verið aðeins kaldari en í meðalári hér á landi. Þeir hlökkuðu líka yfir slæmum vetrarveðrum í desember, en samt var hiti þess mánaðar fyrir ofan meðallag um mestallt land.

Með því að beita svona þröngsýni er hægt að sanna hvað sem er, því að ef skyggnst er aðeins lengra má sjá að hitinn í Austur-Erópu allt austur til Úralfjalla er mun hærri þessa mánuði en venja er og að sjálfsögðu er það meðalhitinn á jörðinni sem skiptir máli, en ekki hitasveiflur á einstökum veðurstöðvum. 

 


mbl.is Reykurinn mengar enn loftið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar Rússarnir mældu brúna fyrir innrásina.

"Það er lítið sem hundstungan finnur ekki", segir máltækið, og afar lítið þarf oft til að ala á ótta. 

Í Kalda stríðinu ríkti mikil tortryggni, og ekki minnkaði hún við það þegar einstakir atburðir gerðust, svo sem fundur njósnatækja í Kleifarvatni.

Mér er í minni að upp úr 1950 birtist frétt í Tímanum um njósnara á vegum Rússa sem hefðu sést verið að mæla brú í Leirársveit. Var þessi slegið upp í blaðinu. 

Þá voru flestar brýr landsins afar mjóar og höfðu lítið breyst frá hestvagnatímabilinu.

Var því líklegt að Rússar vildu vita hvort og hvernig þeir kæmu hergögnum sínum yfir brýrnar þegar þeir hertækju landið.  

Jafn stór uppsláttur var þó ekki í blaðinu þegar kom í ljós síðar við það að lítill bústaður eða kofi var fluttur yfir hina þröngu brú, að mælingarnar hefðu verið á vegum eiganda kofans.

Jónas Ragnarsson sendi mér nýlega frétt úr Alþýðublaðinu í júlí 1940 þar sem orðalag allt var til þess fallið að vekja ótta um yfirvofandi innrás Þjóðverja.

Til dæmis sagði í fréttinni að "svonefndir vísindamenn" þýskir hefðu skilið eftir sig mjög dularfullar merkingar á nokkrum stöðum á norðurhálendinu.

Er orðið "svonefndir" endurtekið í fréttinni til að leggja áherslu á það hvers eðlis málið gæti verið.

Gilti þá einu að þessir "svonefndu" vísindamenn væru sjálfur Alfred Wegener og kollegar hans, meðal annars Fedtmann, sem var í Öskju 1907 og síðar, og Emmy Todtmann, sem fór í fimm Íslandsferðir, tvær fyrir stríð og þrjár á sjöunda áratugnum, og skrifaði merkar vísindaritgerðir um Vatnajökul eftir þær ferðir.  


mbl.is Lítið þarf til að ala á ótta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spá Haraldar Sigurðssonar var ótrúlega rétt!

Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur spáði alveg ótrúlega rétt fyrir um goslokin í Holuhrauni. 

Ef ég man rétt giskaði hann á goslokadaginn 3. mars, svo að það skakkar ekki nema rúmum þremur dögum! 

En eins og rakið er í öðrum bloggpistli hér á undan er þar með ekki sagt að við eigum ekki eftir að sjá jarðeld þarna á ný, hvort sem það verður á næstunni eða á þessu ári eða þeim allra næstu. 

Spennan kann að vera vaxandi frekar en hitt! 


mbl.is Kvikuflæði mögulega lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fór sömu leið og Anna Politkovskaya og fleiri.

Rússland Pútíns hét merkileg bók, sem Anna Politkovskaya skrifaði um spillinguna í Rússlandi. 

Hún galt fyrir það með lífi sínu árið 2006 þegar byssumenn myrtu hana.  

En bókin lifir og veitir einstaka innsýn í það völundarhús spillingarinnar sem Rússland hefur verið frá því að Sovétríkin féllu. 

Þegar hin einstaka frásögn Ingimars Ingimarssonar kom út um kynni hans af ástandinu í Rússlandi Pútíns rímaði það afar vel við bók Önnu. Ljóst var af lestri þeirrar bókar að sá sigraði í valda- og peningatafli þar í landi sem kunni best til verka inni í þessari spilltu veröld.

Pútín var yfirmaður KGB á sínum tíma og þekkir því vel til í njósnunum, klækjunum og brögðunum í hinum hörðu undirheimum stjórnmála og peningaafla sem gegnsýra rússneskt samfélag.

"Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp" segir rússneskt máltæki. Þegar Sovétríkin féllu innan frá voru ólígarkar kommúnismans fljótir að gerast einhverjir hinir ósvífnustu fjárplógsmenn sem miskunnarlaus kapítalismi getur alið af sér. 

Undir óstjórn fylliraftsins Jeltsíns blómstruðu þeir og hafa ekki sleppt takinu síðan. 

Eins og fleiri valdaþyrstir einvaldar hefur Pútín lag á að fylkja þjóð sinni að baki sér með því að koma því þannig fyrir að hægt sé að benda á ógnandi utanaðkomandi öfl, NATO og ESB.

Hann er slægur sem höggormur og gætir þess að spila alveg að mörkum þess sem mögulegt er án þess að hleypa öllu í bál og brand.

Honum sveið niðurlæging Jeltsínstímans og á auðvelt með að láta líta svo út, sem hann sé fyrsti alvöru "leiðtoginn" sem Rússar hafi átt í áratugi og geti sefað sært stolt stórveldisins.  


mbl.is Boris Nemtsov skotinn til bana
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útkall: Flugvél hrapar í Jökulsá á Brú.

Stysta útkallsbókin en jafnfram sú eina sem lýsa mætti sem skemmtilegri bók, ef nota má slíkt orð um útkall, gæti fjallað um það þegar kölluð voru út björgunarsveit, lögregla og sjúkalið til að fara að leita að flugvél, sem vitni sáu hrapa niður í Jökulsá á Brú innan við Kárahnjúka, á meðan Kárahnjúkastífla var í smíðum áður en Hálslón var myndað.

Ég tók þátt í þessu útkalli, af því að skömmu áður hafði ég flogið á TF-FRÚ frá Akureyri til Egilsstaða og frétti af útkallinu á leið upp brekkuna á Fljótsdalsheiði á gömlum Suzuki Samurai jeppa.

Komu þá björgunarsveitarbílar, lögreglubíll og sjúkrabíll á eftir mér með miklum látum og fóru fram úr mér, enda gamli jeppinn minn afllítill.

Ég hringdi í RUVAK og spurði hvað væri að gerast og var sagt að flugvél hefði sést hrapa niður í Jökulsá nokkru áður.

Mér brá óneitanlega en huggaði mig við þá von að flugmaðurinn hefði sloppið lifandi og að ég væri þó, þrátt fyrir allt, eini fjölmiðillinn á svæðinu með allar tökugræjur og búnað og gæti því orðið fyrstur með fréttina og jafnvel fyrstur til að finna flugmanninn.

Gaf ég nú allt í botn á eftir útkallsliðinu, en var þó mjög órótt yfir þeirri tilhugsun hver flugvina minna hefði kannski farist þarna og kveið mjög fyrir því að koma á staðinn.

Þegar ég hafði ekið nokkra stund inn eftir Fljótsdalsheiði í loftköstum á eftir útkallsliðinu, var hringt í mig frá flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík og mér sagt, að við könnun á hugsanlegum vitnum að flugi vélarinnar, hefði komið í ljós, að ég hefði verið á flugi milli Akureyrar og Egilsstaða fyrr um daginn, að vísu miklu norðar, og var ég spurður, hvort ég hefði orðið var við einhverja aðra flugvél á flugleið minni.

Ég sagði svo ekki vera, enda hefði verið svo erfitt sjónflugsveður, að ég teldi útilokað að neinn annar flugmaður hefði getað fundið leið í þarna í gegn, svo hundkunnugur þyrfti sá flugmaður að vera.

Ég sagðist giska á að ef einhver hefði verið að fljúga á þessu svæði, eins og lýst var, hlyti hann að hafa hrapað niður úr skýjum úr blindflugi með dauðan hreyfil.

Spurði ég hvort hægt væri að lýsa því nánar, sem vitnin sögðu.

Flugstjórnarmenn segðu mér að vitnin hefðu séð einshreyfils flugvél koma lágt úr norðri upp með Hafrahvammagljúfrum, fljúga yfir stífluna og skamma stund inn eftir Hjalladal, en síðan hefði hún steypst niður handan við hæð og ekki sést aftur.

Búið væri að senda leitarflokk frá Kárahnjúkum inn eftir, en ekkert hefði fundist enn, og væri því óttast að vélin hefði lent í Jöklu.

Ég spurði, hvort vitnin hefðu lýst vélinni.

Þeir sögðu, að sagt hefði verið að vélin hefði verið háþekja og blá og hvít að lit.

Nú rann upp fyrir mér ljós og ég svaraði því strax til, að þetta hlyti að hafa verið ég sjálfur á leiðinni til Egilsstaða hálfri annarri klukkustund fyrr. Væri því alveg óhætt að hætta leitinni, enda kæmist enginn sá lifandi úr Jöklu, sem í henni lenti.

Flugstjórnarmenn voru hissa og spurðu hvers vegna ég hefði flogið svona langt af leið á leiðinni til Egilsstaða.

Ég sagði þeim að leiðin út Jökuldal hefði verið ófær vegna þoku, en ég vissi af reynslu, að í vindátt sem þarna var, væri stundum hægt að fljúga inn með Jöklu, fara inn Hjalladal og læðast vestur um Vestur-Öræfi í skjóli við Snæfell og komast meðfram því niður í Fljótsdal.

Þetta hefði ég gert, en skammt fyrir innan Kárahnjúkastíflu væri hæð, sem nefndist Horn og hefði ég orðið að lækka flugið handan við það til að komast innar í dalnum og síðan upp úr honum.

Við það hefði ég vafalaust horfið verkamönnum við stífluna sjónum.

Útkallið var nú afturkallað, en til varð þessi vísa um þá stöðu, sem ég hafði verið í:

 

Á ofsahraða´um illan veg

ók ég fréttaþyrstur.

Í eigið flugslys æddi ég

og ætlaði´að verða fyrstur.  

 


mbl.is Leituðu að flugvél við Þingvallavatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröflueldar stóðu í 9 ár, "Öskjueldar" í 3-9 ár.

Eftir langvarandi kyrrstöðu í eldvirkni hófst nýtt tímabil virkni norðan Vatnajökuls árið 2007 þegar gliðnun varð á mjög miklu dýpi við fjallið Upptyppinga með áætluðu kvikufærslu, sem stöðvaðist rúmlega ári seinna. 

En á næstu árum var róleg en samfelld fjölgun jarðskjálfta við Bárðarbungu, og í byrjun ágúst var svo komið, að ég fór tvívegis í sérstök myndaflug yfir bunguna og kringum hana til þess að eiga myndir af þessu svæði ef eitthvað gerðist. 

Framhaldið þekkja allir og það sem hefur verið í gangi þarna í um það bil hálft ár. 

Og reynslan sýnir, að oft er mjög erfitt að spá fyrir um endalok svona umbrota- og eldgosatímabila. 

Þannig komu 14 umbrotahrinur við Kröflu á árunum 1975-84 og það gaus 9 sinnum. 

En svo vikið sé að svæðinu norður af Bárðarbungu má minnast þess að í og við Öskju og norður af henni urðu fimm gos á þriggja ára tímabili frá 1873 til 1876, og það stærsta varð ekki fyrst, heldur númer fjögur í röðinni.

Á tímabilinu 1921-29 urðu fimm lítil gos í Öskju.  

Þá, hvað þá á 19. öld, voru engar mælingar á borð við þær sem nú eru nýtanlegar og því ekki hægt að bera þessar hrinur saman við atburðina nú þótt ljóst sé að mjög margar "sviðsmyndir" séu mögulegar. 


mbl.is Hægar færslur í átt að Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband