Færsluflokkur: Bloggar

Erfitt verkefni fyrir Kínverja.

Þegar langfjölmennustu mótmælin fór fram í Austur-Þýskalandi með meira en 100 þúsund manns, sagði Eric Honnecker forsætisráðherra hin fleygu orð: "Þið eruð ekki þjóðin". 

Það sýndi vel firringu valdhafans, sem þó var aðeins brot af núvverandi firringu valdhafanna í Norður-Kóreu. 

Skömmu síðar létu stjórnvöldin undan þrýstingi um að rjúfa Berlínarmúrinn, enda var það gert með samþykki Gorbatsjovs, sem Ronald Reagan hafði beðið um að "rífa þennan múr" í ræðu sinni við Brandenborgarhliðið. 

Í fyrstu var Gorbatsjov tregur til að láta Austur-Þýskaland af hendi yfir í sameinað Þýskaland og að það gengi þar með úr Varsjárbandalaginu beint yfir í NATO. 

Hann taldi sig hafa loforð leiðtoga Vesturveldanna á fundum með þeim fyrir því að lengra myndu þau ekki ganga í útþenslu NATO í austurátt en annað átti eftir að koma í ljós, enda þessi loforð aðeins munnleg.  

Kínverjar eru áreiðanlega vel meðvitaðir um það að þeir megi ekki detta í sama pyttinn og Sovétmenn við að snúa baki við kommúnistastjórn í landi, sem á landamæri að Kína. 

Þeir munu telja sig verða að hafa skriflega og bindandi samninga í hendi, ef þeir steypa Kim Jong-Un, að minnsta kosti leynilega samninga líkt og Hitler og Stalín og síðar Churchill og Stalín gerðu í Evrópu 1939 og 1945, en þeir samningar héldu. 


mbl.is Breytt viðhorf í Kína til N-Kóreu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smáspenna að byrja eftir 2ja mánaða kyrrstöðu.

Fyrir tveimur mánuðum náði Holuhraunið hið nýja, sem sumir vilja kalla Nornahraun, langleiðina að ármótum Svartár og Jökulsár á Fjöllum. Um það bil einn og hálfan kílómetra vantaði þá á að hrauntungan næði ármótunum, en skammt norðan við þau er fallegur foss í Svartá sem eftirsjá yrði af ef hyrfi. Holhraun, endi 30.10.14

Fossinn sést neðst á mynd, sem er tekin í hina áttina yfir ármótin, Svartá til vinstri og Jökulsá til hægri.Svartá, ármót

Hraunið stoppaði þarna og hefur þessi álma þess verið kyrrstæð síðan að mestu, enda kælingin drjúg frá Jökulsá. 

Á myndinni, sem tekin var 30. október, sjást ármót Jökulsár og Svartár allra neðst.

Enn er mikið sléttlendi til boða fyrir nýja hraunið að flæða yfir,hægra megin á þessari mynd, svo að í bili er ólíklegt að Svartá og Jökulsá stíflist þarna algerlega. 

En það er smáspenna að byrja á ný og verður fróðlegt að fylgjas með framvindu mála á nýju ári.Svartá. Foss.

Set hér neðst mynd, sem er tekin nær fossinum góða.  


mbl.is Hraunáin rennur 15 kílómetra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta reddast"- hugarfarið.

Ég dvaldi í Helsinki í viku í desember 1966. Þá vakti það athygli mína að enda þótt handmoka þyrfti snjóinn, voru allar götur og gangstéttir hreinsaðar jafnharðan og snjórinn féll. 

Var Finnland þó fjarri því að vera jafn ríkt þjóðfélag og Ísland hvað snerti þjóðartekjur á mann.

Þess vegna tróðst snjórinn ekki niður og harðnaði og varð síðan að klakabunkum eins og gerist hér á landi. 

Hér virðist ríkja sá hugsunarháttur að það hljóti að koma hláka sem taki ómakið af snjóruðningsmönnum. 

Undanfarna vetur hafa hins vegar komið það langir snjóakaflar að biðin hefur tekið allt að tvo mánuði.

Og afleiðingarnar eru dýrar í formi ótal beinbrota og hnjasks á fólki og farartækjum.

Nú er meðalhitinn í Helsinki að vísu heldur lægri yfir háveturinn en hér á landi og hlákurnar því færri en hér. En eina lausnin til að losna við hvimleiðan klakann er að koma í veg fyrir að hann myndist. Og finnska dæmið sýnir að þetta er vel hægt.   

 


mbl.is Skelfilegt ástand í hliðargötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Birtublessun snjóþekjunnar.

"Hvít jól" var vinsælasta jólaplata sinnar tíðar þegar Bing Crosby söng um það hve heitt hann dreymdi um hvít jól.

Og mikið er látið af fegurð snjókomunnar og snjóþekjunnar á þessum árstíma í ræðu, riti og tónlist, þótt snjórinn út af fyrir sig sé tákn kulda og vetrar og að því leyti óæskilegur. 

Alveg er óhætt að meta birtuna sem snjórinn gefur til nokkurra auka klukkustunda dagsbirtunnar þá daga sem jörð er hvít því það er nú einu sinni birtan sem fólki finnst dýrmætust í skammdeginu.

Þegar snjór er á jörðu virðist sólin koma upp mun fyrr en ella, dagurinn vera bjartari og sól setjast seinna.

Þessi desember ætlar að verða heldur kaldari en í meðalári og gleður það kuldatrúarmenn mjög, sem fagna því að árið í heild verði ekki það hlýjasta í manna minnum.  


mbl.is Útlit fyrir hvít jól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hve oft hafa verið gerðar kvikmyndir um tilræði við Bandaríkjaforseta?

Hvað skyldu hafa verið gerðar margar kvikmyndir um tilræði við Bandaríkjaforseta eða valdarán í BNA? Jú, ansi margar. 

Þess vegna kemur viðkvæmni valdamanna Norður-Kóreu gagnvart mynd á svipuðum nótum varðandi einræðisherrann þar spánskt fyrir sjónir.

En það er erfitt að átta sig á því hvort þessi viðkvæmni stafar eingöngu af einræðis- og kúgunarviðleitni valdhafanna þar eða hvort þetta liggur eitthvað dýpra í siðum og viðhorfum þjóðarinnar.

1945 beygðu Bandamenn sig fyrir því að japanska þjóðin leit á keisarann sem guðlega veru og það hefði verið hræðilegt glapræði á þeim tíma að handtaka hann og jafnvel ákæra fyrir stríðsglæpi. Því var fallið frá því að hrófla við keisaranum. 

 

Nú vantar einhvern sem getur útskýrt nánar, hvort eitthvað dýpra sé að baki hótunum Norður-Kóreskra yfirvalda en hreinn ofstopi valdasjúkra manna.  

 


mbl.is Sony hyggst gefa myndina út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Krímskaganum verður aldrei "skilað".

Sú hugmynd, að Rússa muni bara rétt si svona "skila" Krímskaganum til Úkraínumanna, er fráleit. Krímskaginn var hluti af Rússlandi frá 1783 til 1954 eða í 171 ár, og þegar Rússar "gáfu" svæðið yfir til Úkraínu var Úkraína hluti af Sovétríkjunum sem var með Rússland sem svo yfirþyrmandi ráðandi afl í sambandinu, að staðsetning Krímskagans innan þeirra breytti nánast engu um stöðu skagans.

Þar að auki er yfirgnæfandi meirihluti íbúa skagans hlynntur því að tilheyra Rússlandi á ný, enda hefðu Rússar aldrei getað náð völdum jafn auðveldlega og raun var á, ef bitastæð andstæða gegn því hefði verið þar af hendi íbúanna.

Eftir fall Berlínarmúrsins lofaði Bush eldri forseti Bandaríkjanna Gorbatsjov því að NATÓ myndi ekki seilast til útþenslu í Austur-Evrópu. 

Síðan hafa bandalagið og ESB þanist út til austurs í átt til Rússlands og það skapar óþægilegar minningar hjá Rússum frá þeim tíma þegar Hitler gerði nágrannaríkin við vesturlandamæri Sovétríkjanna að bandalagsríkjum sínum 1939-41 og rauf síðan griðasamninginn við Stalín og réðist inn í Sovétríkin með þeim  afleiðingum að um 20 milljón Sovétmanna féllu.

Þegar deila er í gangi er mikilvægt að báðir aðilar sýni viðhorfum hins skilning.

Burtséð frá gölluðu stjórnarfari í Rússlandi Pútíns þurfa Vesturlönd að meta stöðuna á þann hátt.

Litlu munaði 1945 að Bandaríkjamenn gerðu þau arfamistök að varpa kjarnorkusprengju á Kyoto og steypa keisaranum af stóli og fangelsa hann. Sem betur fór tóku vitrir menn þá í taumana.

Hér á síðunni voru strax síðastliðið vor sett spurningarmerki við sum atriði stefnu Vesturveldanna gagnvart Rússum og það hvort þar sé í öllu haldið skynsamlega á spilum. 

Síðan þá hefur Henry Kissinger, fyrrum mótandi utanríkisstefnu Bandaríkjamanna, komið fram með svipaða gagnrýni. 

Það þarf ekki annað en að líta á landakort og skoða söguna til að sjá, að landamæri og nábýli Rússlands og Úkraínu eru afar hliðstæð landamærum og nábýli Bandaríkjannan og Kanada.

Sagt er að meirihluti Úkraínumanna vilji ganga í ESB og jafnvel NATO.  

En Úkraína horfir svipað við Rússum og Kanada við Bandaríkjamönnum og hætt er við að Bandaríkjamönnum hnykkti við ef Kanadamenn vildu til dæmis ganga í efnahagsbandalag og jafnvel hernaðarbandalag með Rússum og vilja skila Rússum aftur Alaska, sem Rússar seldu Bandaríkjamönnum fyrir gjafverð og afhentu í raun á silfurfati árið 1867. 

Nafnið Alaska er meira að segja rússneskt. 


mbl.is Herða refsiaðgerðir gegn Rússum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjördæmapot sem endaði vel.

Hornfirðingar fengu að ráða því 1999 að þeir yrðu hluti af Suðurkjördæmi en ekki Norðausturkjördæmi. Áður höfðu þeir verið hluti af Austurlandskjördæmi. 

Nú vildu þeir á sama hátt frekar heyra undir umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi heldur umdæmi lögreglustjórans á Austurlandi.

Ákvörðun SDG að sniðganga vilja Hornfirðinga lyktaði langar leiðir af hinu tíða kjördæmapoti sem komin er aldagömul reynsla á bæði hér á landi og erlendis.

Ef lekamálið hefði ekki komið til er óvíst að nokkuð hringl hefði verið með þetta mál, því að bæði Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ólöf Nordal eiga sitt bakland í Reykjavík.

Svona getur einn ógætilegur tölvupóstur í Reykjavík orðið til þess að skapa hræringar og skæklatog hinum megin á landinu. En allt er gott sem endar vel.  


mbl.is Hornafjörður fór austur - og til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta bakslagið í gullgrafaraæði nútímans.

Gullgrafaraæði fyrri tíma blikna við hliðina á bergbroti (fracking) sem nú hefur vaðið upp úr öllu valdi í Norður-Ameríku svo að fáu er eirt. 

Þetta nýja æði er skiljanlegt í ljósi örvæntingarfullrar ásóknar núlifandi kynslóða á jðrðinni í að viðhalda minnst tífalt meiri neyslu og nýtingu á takmörkuðum auðlindum en jörðin stendur undir til frambúðar. 

Stórlækkun olíuverð um þessar mundir er eitt besta dæmið um það sem ég vil kalla "skómigustefnuna" þ.a. að ylja sér við skammgóðan vermi og verða síðan síðan í staðinn miklu verr settur á eftir. 

Afleiðingin er líka vel séð á Vesturlöndum varðandi stórfelld vandræði Rússa sem seljendur orku úr jarðefnaeldsneyti. 

Slíkt ber vitni um mikla skammsýni og þrönga hugsun á þeim tímum sem lífnauðsyn er fyrir mannkyn að líta til framtíðar í stað þess að horfa niður á tærnar á sér.

Bergbrotið minnir um sumt á Hellisheiðarvirkjun varðandi það að hvergi nærri er búið að rannsaka umhverfisáhrif þess.

Bann við bergbroti í New York ríki í Bandaríkjunum er fyrsta bakslagið varðandi þetta gullgrafaraæði en ekki það síðasta.   


mbl.is Bergbrot bannað í New York
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búið að gleyma því af hverju?

Um þessar mundir heyrast margir bölva því í sand og ösku hvernig ríkisstjórnin 2009-2013 skar niður ríkisframlög til flestra málaflokka á könnu ríkissjóðs og segja að höfuðverkefni núverandi stjórnarflokka sé að bæta fyrir þessi hervirki fyrri ríkisstjórnar.

Nú eigi að reka ríkissjóð án halla en það sé nú heldur betur munur eða hjá fyrri ríkisstjórn með allan sinn fjárlagahalla.  

Án þess að nokkur dómur sé lagður á það hvernig fyrri ríkisstjórn vann úr sínum vanda í einstökum atriðum, -  og gekk misvel eins og gengur, -  en ætla mætti á þessum umræðum að hefði ekki verið til neinn vandi veturinn 2008-2009, má spyrja hvort allir séu nú búnir að gleyma því af hverju verið er að borga niður lán frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum?

Hvort allir séu búnir að gleyma Hruninu og kalli það nú orðið "svokallað hrun"? 

Hvort allir séu búnir að gleyma því að í ársbyrjun 2009 stóðu Íslendingar og nágrannaþjóðir okkar frammi fyrir alls 5000 milljarða króna tapi vegna sprunginnar íslenskrar bankabólu? 

Hvort allir séu búnir að gleyma því að Hrunið þýddi 200 milljarða króna árlegan halla á rekstri ríkissjóðs vegna Hrunsins og hefði þýtt 800 milljarða halla næstu fjögue árin ef ekkert yrði að gert? 

Hvort allir séu búnir að gleyma að búið var að minnka fjárlagahallann niður í nær hallalaus fjárlög? 

Hvort allir séu búnir að gleyma því að frá árunum 1991 til 2009 var Sjálfstæðisflokkurinn búinn að vera samfleytt í ríkisstjórn, ásamt Framsóknarflokknum 1995-2007 og Samfó í rúmt ár? 

Hvort allir séu búnir að gleyma því að hér var haldið uppi dæmalausri þenslu með skefjalausum lántökum ríkisins, fyritækja og einstaklinga og meðvitað var haldið uppi allt að 40% hærra gengi krónunnar en innistæða var fyrir með tilheyrandi neysluæði og innflutningi? 

Að hér var haldið uppi vaxtamun sem sópaði inn þeim innistæðum úlendinga sem hlutu heitið snjóhengjan og valda því að nú ríkja hér stórskaðleg gjaldeyrishöft? 

 

 

 

 


mbl.is Hafa endurgreitt 83% af láni AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er þetta á mörgum sviðum. Þjóðin vill það. Eða hvað?

Morgunljóst er, eins og áður hefur verið rakið hér í pistli, að það er löngu liðin tíð að hægt sé að segja að farið hafi verið inn á opinberlega lokaðan fjallveg í vonskuveðri án þess að hafa vitað um lokunina. 

En það virðist svo sem ekki skipta máli. Engin sekt er við þessu. 

Svipað er uppi á teningnum á ýmsum sviðum. 

Fyrir meira en 20 árum fjallaði ég um hræðilega ofbeit í landi Laxness í Mosfellsbæ og sýndi myndir af henni. 

Sömuleiðis myndir af mörgum svipuðum svæðum. 

Meira en 20 árum síðar hefur ekkert gerst í þessum málum. Landgræðslu Íslands skortir lagaheimildir fyrir því að grípa i taumana eða að beita viðurlögum. 

Sjö sinnum hafa verið Alþingiskosningar á þessum tíma og nýir þingmenn kosnir. Þjóðin hefur átt næg tækifæri til þess að breyta þessu skammarlega ástandi.

Breyta því að áfram er ljót jarðvegs- og gróðureyðing á þúsunda ferkílómetra svæði á afréttum landins vegna beitar sauðfjár og hesta á landi, sem er ekki beitarhæft.   

En það gerist ekki neitt. Þjóðin vill hafa þetta svona. Eða hvað?

Kannski ekki ef miðað er við drjúgan meirihluta í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2011 fyrir nýrri stjórnarskrá þar sem hægt er nota beint lýðræði um einstök mál í þjóðaratkvæðagreiðslum og setningar í kaflanum um náttúru Íslands varðand sjálfbæra þróun. 

En þjóðin kaus síðan á þing fólk, sem greinilega stefnir að því að drepa þetta mál. 

Þjóðin vill það. Eða hvað? 


mbl.is Íslendingarnir verða ekki sektaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband