Færsluflokkur: Bloggar

Komið mál til hjá 11. forsetanum í tíð Kastrós.

Síðan Fidel Castro og menn hans steyptu Batista einræðisherra á Kúbu af stóli á gamlársdag 1959 hafa ellefu menn verið við völd í Bandaríkjunum. 

Ekki verður tölu komið á þau morðtilræði, sem Leyniþjónusta Bandaríkjanna hefur reynt til að drepa karlinn og hann tórir þó enn, en sex af ellefu forsetum Kananna á þessum tíma eru látnir. 

Ekki er aðeins fullreynt að þessi óskaplegi fjandskapur við Kúbverja hefur ekki gert neitt gagn fyrir Bandaríkjamenn og því síður Kúbverja, heldur var hann fyrir löngu búinn að ganga sér til húðar.

Því harðar sem Kanar gengu fram, þvi auðveldara var fyrir ráðamenn á Kúbu til að benda á sameiginlegan erlendan óvin þjóðarinnar.  

Eftir því sem styttist í því að Fidel haldi á vit feðra sinna aukast líkurnar á því smám saman sé hægt að losa um ýmis þau heljartök, sem yfirvöld í landinu hafa haft á þjóðlífinu. 

Þíða í frostinu á milli Bandaríkjanna og Kúbu mun einungis geta flýtt fyrir því, en áframhaldandi frost hefði bara haldið áfram að gera illt verra eins og hingað til. 


mbl.is „Ég held að allt muni breytast“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fráleitt á farsímaöld.

Það, að ferðafólk sjái ekki lokunarskilti við fjallvegi, gefur ekki minnstu afsökun fyrir því að æða inn á heiði, sem er lokuð vegna ófærðar.

Á farsímaöld eru auðvelt að fá upplýsingar um færð á vegum  og lokanir þeirra, bæði með því að hringja í sjálfvirka símsvara eða fara inn á netið og sjá upplýsingarnar þar á kortum. 

Undanfarna daga hefur hver lægðin eftir aðra riðið yfir landið og stundum verið margar tegundir óveðurs sama daginn. 

Í lögum eru ákvæði um ábyrgð bílstjóra á ökutækinu og akstri þess sem gera það alveg kristaltært, að engar afsakanir á að taka gildar í eins afgerandi aðstæðum og tengd frétt fjallar um. 


mbl.is Segjast ekki hafa séð lokunina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi ófærð í lokin?

Nú berast fréttir af erfiðleikum við að komast til grafar í kirkjugörðunum fyrir þá sem hafa fengið lokaútkallið. Um það mætti segja þetta: 

 

Sem til grafar sækjast fer 

seint að vilja himnasmiðsins 

fyrir marga alveg er

ófært upp til Gullna hliðsins.


mbl.is Ófærð í kirkjugörðunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Vertu þægur."

Ofangreind orð sagði einn af ráðamönnum þjóðarinnar við mig eftir að ég hafði tekið við hann eitt af nokkrum viðtölum mínum við þennan ráðamann um málefni, sem undir hann heyrðu. 

Hann var með þessu að láta mig vita af óánægju þáverandi ráðamanna með það að ég væri ekki nógu leiðitamur heldur dirfðist til dæmis að sýna þau svæði, þar sem komandi virkjanir ættu að rísa. 

Söngurinn um vonda og óþæga fjölmiðla hefur verið kunnuglegur undanfarin misseri.

Sáran var kvartað yfir því að upplýst væri um "lekamálið" svonefnda og talað um að þar væri "leikinn ljótur pólitískur leikur" og að málið væri allt "blásið upp" af vinstri sinnuðu fjölmiðlafólki. 

Beitt var þrýstingi til að láta reka blaðamennina sem hreyfðu málinu fyrst.

Eðlilegar fyrirspurnir fjölmiðlamanna varðandi byssumálið svonefnda voru túlkaðar sem ofsóknir á hendur ráðamönnum. Áberandi var að greið svör fengust strax hjá upplýsingafulltrúa norska hersins á sama tíma að það tók hálfan mánuð að toga endanleg svör upp úr íslenskum ráðamönnnum. 

Enn er í minni þegar allt fór á annan endann út af sjónavarpsviðtali við forsætisráðherra en í því tilfelli var þó ekki auðvelt að núa fjölmiðlamanninum því um nasir að vera vinstrisinnaður, því að hann hafði verið borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í áraraðir.

Ég var að horfa á sjónvarpsþáttinn 60 mínútur þar sem Lesley Stahl tók fyrir framferði kolafyrirtækis í Suður-Karólínuríki sem á 14 kolaver og hefur árum saman látið kolasalla menga jarðveg og vatn á stórum svæðum.

Hún átti viðtal við forsvarskonu fyrirtæksins sem var alveg sérstaklega sleip og erfið við að eiga. Hún mærði einstkalega þroskaða umhverfisvitund fyrirtækisins og fyrirmyndar rekstur þess, - tvöfeldnin og flærðin svo uppmáluð að hrollur fór um mann.

En Stahl lét hana ekki komast upp með neitt múður og rak lygina og undanfærslurnar jafnharðan ofan í hana. Hún var heldur ekkert feimin við að upplýsa um það hvernig fyrirtækið hefur árum saman borið fé í þingmenn og ráðamenn, sem hafa sofið á verðinum.

 Hér á landi myndi svona blaðamennska verið talin pólitísk "herför" gegn ráðamönnum. 

Svör kolaorkuverskonunnar um að allt væri í fína lagi og að fyrirtækið væri í þann veginn að ljúka við að leysa málin með hjálp vísindamanna í árangursríkum rannsóknum hljómuðu kunnuglega, því að svipað hefur verið sagt hér á landi í meira en áratug varðandi jarðvarmavirkjanir.

 

    

 


mbl.is Sagði fjölmiðlamenn „hundelta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerist vindmegin við glóandi jarðeld í 12 stiga frosti?

Þegar verið er nálægt jarðeldi, glóðandi hrauni eða eldgosi, og stífur frostkaldur vindur stendur af manni í átt að jarðeldinum gerist dálítið sérstakt, sem er svolítið ruglingslegt. 

Þetta var til dæmis hægt að upplifa í Kröflugosi í janúar 1981 þegar tólf stiga frost var á gosstöðvunum og stífur norðvestanvindurinn var þetta kaldur.

Svipað gerðist í tökum á loftmyndum nýlega af gígnum Baugi í Holuhrauni. IMG_3834

Loftið, sem skall á manni var sannanlega frostkalt og tryggði að hægt væri að fara miklu nær jarðeldinum en ella í þessum kalda loftmassa. 

Ef gluggi var opnaður fannst hins vegar heit geislun koma inn um hann. 

Enn magnaðra var þetta fyrirbæri í Kröflugosinu fyrrnefnda. 

Þar var á einum stað hægt að standa á þverhníptum gjábakka og horfa ofan í glóandi hraunelfuna beint fyrir neðan sig og hafa glóandi eldtungur gígsins á bak við sig, en samt að njóta þess að mínus tólf stiga heitur loftstraumur norðvestanvindsins skall á manni.

En þrátt fyrir þetta fannst vel fyrir heitri geislun frá eldvegg gígsins og hraunsins enda þótt sú geislun þyrfti að fara í gegnum hinn frostkalda loftstraum.

Ég hugðist taka uppistand á þessum stað og var í kolsvörtum leðurjakka utan yfir ullarfatnaði. Þarna var heldur hlýrra en fjær gosinu. 

Sneri baki í eldinn og stóð þar kyrr nokkra stund. En þá hrópaði Haraldur Friðriksson kvikmyndatökumaður til mín: "Það er að kvikna í jakkanum!" 

Mikið rétt. Reyk lagði upp frá bakinu vegna þess hve vel kolsvartur jakkinn dró í sig geislun eldsins. Samt var frost í vindinum sem stóð framan á mig. Ég flýtti mér að snúa mér við og færa mig fjær. Og það mátti sjá minna: Ysta byrði jakkans var sviðnað!

Lára Ómarsdóttir fréttamaður lýsti þessu fyrirbæri stuttlega þar sem hún stóð við Holuhraun um daginn og svo sannarlega er þetta ótrúlega fyrirbæri fyrir hendi. 


mbl.is Þetta gerist þegar gengið er á hrauni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mesta ólíkindatól íslenskra eldstöðva.

Bárðarbunga er ein af þeim höfuðeldstöðvum landsins sem liggur lengst frá byggð. Kverkfjöll sjást í nágrenni Möðrudals en Bárðarbunga sést hvergi úr byggð.Bárðarbunga 3.8.14 nærm

Á myndinni sést hluti hennar við norðvestrurbrún öskjunnar, en þessi mynd var tekin aðeins tveimur vikum fyrir upphaf skjálftahrinunnar, sem stendur enn, og flaug þess vegna um fjölmiðla hér og erlendis.

Vísa einnig í stutt myndskeið á facebook síðu minni.  

Afleiðingin af því hve afskekkt Bárðarbunga er, er sú að ákaflega lítið er vitað um það sem gerst hefur í þessari mögnuðu eldstöð á sögulegum tíma og því ekki vitað um hvort nokkrar beinar hliðstæður eru um það, hvort áður hefur verið í gangi svipað fyrirbæri og nú virðist blasa við með nýrri mælitækni og gosið í Holuhrauni.

Spurningin er hvort hið eldra Holuhraun, sem myndaðist í gosi 1797, hafi komið úr Bárðarbungu, en allt fram undir nýja gosið höfðu vísindamenn hallast að því að tveir gjallgígar við jaðar Dyngjujökuls og gígaröð Holuhrauns og hraunið tengdust eldstöðvakerfi Öskju.Holuhraun, syðsti gígur, hrauntrðð, besta mynd, Dyngjujökull

Þremur dögum áður en að athygli fjölmiðla barst að Holuhrauni ákvað ég að taka sérstakar myndir af fyrrnefndum gígum vegna gruns míns um að Holuhraun tengdist Bárðarbungu og að þar gæti gosið.

Um þetta bloggaði ég undir rós á meðan beðið var umsagnar eins af okkar fremstu jarðvísindamönnum.

Hafi hið eldra Holuhraun myndast á svipaðan hátt og nýja hraunið, hafa þeir eldar verið eitthvað minni en hinir nýju.Holuhraun. gígaröð. norðurendi, Dyngjujökull

Ég hafði áður séð Holuhraun alloft en ekki gert mér til fulls grein fyrir umfangi þessarar eldstöðvar fyrr en í fyrrnefndri myndatökuferð, bæði hvað snerti gígaröðina og ekki síður hinn myndarlega gíg og hrauntröðina úr honum, sem sjá má á myndum hér á síðunni.  

Vegna þess hve langt Bárðarbunga er frá byggð hafa menn ekki orðið varir við skjálftahrinu í bungunni á þeim tíma, enda verða menn lítið varir við hana nú nema á skjálftamælum.Holuhraun, gígur.

Og fróðlegt hefði verið að sjá hvernig Bárðarbunga bar ábyrgð á tveimur stórgosum um 871 og 1480 í suðvesturhluta eldstöðvakerfis hennar, sem náði allt suður í Friðland að Fjallabaki. Holuhraun, gígaröð, Kverkfjöll, Dyngjujökull.  


mbl.is Varpa ljósi á myndun kvikugangsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að flytja sig að heiman er alþjóðlegt fyrirbæri í íþróttum.

Nær allir þeir, sem vilja komast eins langt í bardagaíþróttum og hugsanlegt er, flytja sig og starfsemi sína til þeirra landa þar sem allt umhverfið er þeim hagstæðast. 

Dæmin eru óteljandi. Tveir bestu þungavigtarmenn í hnefaleikun síðasta áratug, yfirburðamennirnir Klitscko-bræður, fluttust ungir frá Úkraínu til Þýskalands vegna þess að allt umhverfið fyrir feril þeirra var vonlaust í heimalandinu með alla sína spillingu og höft. 

Mexíkóskir hnefaleikarar, sem hafa átt fjölmarga í fremstu röð, flytjast langflestir til Bandaríkjanna til að ná eins langt í íþrótt sinni og mögulegt er, því að aðstaða öll og skattaumhverfi eru svo margfalt betri en í heimalandinu. 

Svipað er að segja um íþróttamenn frá öðrum ríkjum Ameríku og Afríku. 

Íbúar Mexíkó, Puerto Rico og Ukrainu fyrirgefa þessum afreksmönnum, því að þeir halda á lofti uppruna sínum og eru stoltir af honum og landar þeirra heima vita vel um spillingu, höft og ósamkeppnisfært umhverfi, sem þeir geta kennt sjálfum sér um. 

Þeir vita að ef þessi afreksmenn hefðu reynt að halda áfram að gera út heiman frá hefðu þeir aldrei náð eins langt, orðið eins frægir og varpað jafnmiklum ljóma á upprunalegt þjóðerni sitt. 

Við þurfum að sýna Gunnari Nelson og öðrum skilning þótt auðvitað hafi það verið sætt að eiga besta leikmanninn í þýsku Bundesligunni eins og Ásgeir Sigurvinsson var án þess að hann skipti um ríkisfang. 

Þýskir sögðu að hann hefði orðið fyrirliði þýska landsliðsins ef hann hefði skipt um ríkisfang.

Þetta er rétt að hafa í huga þegar hér rísa bylgjur vandlætingar á borð við þá sem reis þegar landi okkar tók þátttöku sína á HM í knattspyrnu í sumar og fá að vera þar spilandi inni á vellinum fyrir Bandaríkin fram yfir það að sitja áfram á varamannabekk í landsleikjum hjá íslenska landsliðinu, sem ekki komst á HM.  


mbl.is Gunnari Nelson ráðlagt að flytja út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki enn hægt að "hala niður" húsgögnum.

Lög um einkarétt á uppfinningum urðu til á 19. öld og hafa þróast síðan yfir í hvers kyns höfundarrétt á hugverkum, þar sem neytendur borga höfundum, hugvitsmönnum og framleiðendum beint fyrir afnotin. 

Það er ekki mikilli munur á því að horfa á kvikmynd, sem kostað hefur milljóna tugi og allt upp í milljarða, hlusta á tónlist, sem sömuleiðis hefur kostað mikla vinnu, hugvit og framleiðslukostnað, eða að sitja í góðum stólum og njóta útlits þeirra. 

Samt er það svo að kvikmyndirnar og tónlistin hafa orðið fyrir barðinu á fyrirbæri, sem heitir niðurhal á netinu og það er látið viðgangast og því meira að segja mælt bót, að sjóræningjafyrirtæki geti stórgrætt á því að dreifa slíku framhjá framleiðendunum og eigendum hugverkanna, sem sitja eftir með sárt ennið og stórtap.

Slíkt afgreiða sumir þannig í ummælum á netinu að þær afætur og ónytjungar sem "lattalepjandi" listafólk sé, eigi engan rétt á að krefjast þess að fá eitthvað fyrir sinn snúð. 

"Það getur hver sem er, glamrað á gítar inni í bílskúr og tekið það upp" skrifaði einn um þetta ´mál. 

Hins vegar sýnir stólamál Reykjavíkurborgar að enn er hægt að verja höfundarrétt á því sviði.

Og ekkert listform er í eins traustum og góðum höndum og bókaútgáfa.

Það er ekki, enn sem komið er, hægt að stunda ókeypis niðurhal á húsgögnum og bókum.

Samt getur "hver sem er pikkað á tölvur og prentað út að vild" eða "klambrað saman stól inni í bílskúr", svo að notuð sé svipað orðalag og notað er um tónlist.  


mbl.is Borgin fargar húsgögnunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skásta læknaviðtalið hingað til ?

Á Eyjunni í dag held ég að Björn Ingi Hrafnsson hafi átt skásta fjölmiðlaviðtalið sem hingað til hefur verið tekið vegna læknadeilunnar. Þar hjálpaði til ssú ákvörðun BInga að fara út fyrir þá sem eru inniá átakasviðinu núna og ræða við Björn Zoega.

Það var ekki aðeins að Björn Zoega gæti talað meira opinskátt og frjálsar um deilunar en þeir sem eru í forsvari fyrir deiluaðilum, og hefði góða sýn og þekkingu á umræðuefninui í ljósi fyrri yfirmannsstarfa á Landsspítalanum, heldur lagði BIngi réttar spurningar fyrir hann, svo sem þá grundvallarspurningu hver munurinn væri á hálaunuðum læknum og öðrum langskólagengnum mönnum sem líka væru með há laun. 

Svar Björns staðfesti það sem haldið hefur verið fram hér á bloggsíðunni, að á sérsviðu sínum hafa læknarnir sem hæst hafa launin starfað það lengi erlendis, bæði í sérfræðinámi og starfi, og eru það eftirsóttir á alþjóðlegum vinnumarkaði, svo sem í löndum innan EES, að þeir eiga auðvelt með að fá störf og vera hnútum næstum jafn kunnugir ytra og hér heima. 

Sé munur á aðstöðu og launum of mikill á milli Íslands og annarra landa, fara þeir einfaldlega úr landi á vit miklu betri kjara en hér og eiga auðveldara með það en flestir aðir. Ég hef nefnt dæmi um þetta, sem eru sláandi. 

Þess vegna verður að nást fram almennur skilningur á þessari sérstöðu, sem felur í sér helsta grundvallaratriði vandamálsins.

Sé þessi skilningur fyrir hendi og skynsamleg sáttaviðleitni, ætti að vera að ná sátt um lausn, sem þrátt fyrir meiri kjarabætur til lækna en samrýmast kjarakröfum annarra stétta, verður ekki látið gefa tilefni til það mikilla allsherja launahækkana annarra stétta og hópa, að verðbólgan fari úr böndum með þeim afleiðingum að enginn verður bættari og allir sitja eftir með sárt ennið, líka læknarnir.  


mbl.is Vilja sáttanefnd í læknadeiluna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endurnýjun lífdaga merkilegs húss og samkomuhalds.

Sú var tíðin að milli jóla og nýjárs voru haldnir tugir vandaðra og fjölmennra jólatrésskemmtana um allt land, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu, þar sem helstu félög og stofnanir héldu þau fjölmennustu.

Ég kynntist þessum samkomum vel í tengslum við Gáttaþef, en þetta voru það stórar samkomur að það voru efni til að búa til nýja hálftíma dagskrá fyrir Gáttaþef á hverjum vetri, nokkurs konar söngleik í hvert sinn með þáttöku barnanna. 

Sumt af því skilaði sér á þrjár stórar Gáttaþefsplötur þessa tíma. 

Smám saman fór að draga mátt úr þessum samkomum, og má segja að á aldar afmæli jólaskemmtunar Verslunarmannafélags Reykjavíkur, þegar sú samkoma söng sitt síðasta, hafi það verið tákn um það að stórar og vandaðar skemmtanir af þessu tagi heyrðu sögunni til.Frá Gamla bíói í dag. 57575

Það var eftisjá að þessu fyrirbæri og því er vel að nýir eigendur Gamla bíós brydda upp á því að halda svona skemmtun, þótt ekki sé nema í reynsluskyni og til þess að geta sagt að slíkt hafi verið á boðstólum.

Undanfarna rúma hálfa öld hef ég flutt atriði á litlu jólunum á Sólheimum, fyrstu tvo áratugina fyrir hönd Gáttaþefs en síðan í eigin nafni. Þannig hef ég haldið mér við þótt jól tuga jólaballa Gáttaþefs séu að baki og flutningurinn verið framkvæmdur í borgaralegum klæðnaði síðustu áratugina.

Þessi árlega Sólheimaferð hefur verið ómissandi hluti af jólahaldinu hjá mér.

Í tengslum við flutnings slíks atriðis á tveimur jólaböllum í Gamla bíói í dag var fróðlegt að sjá hvernig nýir eigendur ætla að sér stóra hluti í þessu húsi merks hluta af menningarsögu Reykjavíkur.

Meginatriði hússins að innan verður látið halda sér, en bryddað upp á mörgum nýjungum til að auka fjölbreytni og sveigjanleika í notkun hússins, jafnt innan dyra sem utanhúss ofan á vestasta hluta þess, þar sem verður hægt að una og njóta útsýnis yfir miðborgina.

Það verður spennandi að sjá hvernig til tekst.

 

P.S. Vegna tæknilegra mistaka varð neðri myndin hér á síðunni frá annarri af tveimur jólaskemmtunum í dag of stór til að verða skýr og er beðist velvirðingar á því.  


mbl.is Gengu í kringum tréð í Gamla bíói
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband