Færsluflokkur: Bloggar
4.10.2014 | 14:39
Nýtt, þetta með alkóhólistana ?
Það er ekkert nýtt varðandi álfatrú Íslendinga og meira að segja David Lettrman finnst ekkert óeðlilegt við það. Hitt er nýtt þegar fullyrt er að Íslendingar séu mestu alkóhólistar í heimi, því að Rússar og Frakkar hafa lengi verið taldir vera þar fremstir í flokki eða öllu heldur aftastir á merinni. tEn það er svo sem ekkert nýtt að drykkjuvenjur Íslendingar rugli útlendinga í ríminu.
Á allra fyrstu árum Sjónvarpsins vann þar danskur maður að nafni Finn. Margt skemmilegt datt út úr honum. Honum undraðist drykkjuvenjur Íslendingar og þótti þær tröllslegar þegar þeir "duttu í það" heldur hressilega um hverja helgi og urðu svo oft blindfullir.
Enn meira hissa var hann á því þegar hann las í blaði einn daginn að væri hér drukkið minna áfengismagn á hvern mann en í öðrum löndum.
Þá varð honum að orði:
"Íslendingar eru skrýtin þjóð. Íslendingar drekka lítið, - en oft, og þá mikið."
![]() |
Íslendingar trúa á álfa og eru alkóhólistar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
4.10.2014 | 01:05
Spólur og snuningsdiskar á undanhaldi?
Spurningin um að spólur og diskar, sem snúast, séu á undanhaldi fyrir "föstum" kortum og minniskubbum, virðist svarað jákvætt um þessar mundir.
Mjög hratt undanhald hefur verið varðandi kvikmundatökuvélar með spólum, jafnvel þótt gæðin eigi að hafa verið góð og HDV stimpill á vörunnni.
Í staðinn eru komnar vélar með hörðum diskum og kortum.
Enginn endir virðist sjáanlegur í framþróuninni og það sem áður þótti best og flottas er orðið úrelt og stenst ekki síauknar gæðakröfur.
Gallinn við diska og spólur sem snúast eins og til dæmis DVD, DV, HDV, DVCAM og DVCPRO felst í ýmsum erfiðleikum við afspilun og yfirfærslur auk þess sem lítið má út af bregða hvað nákvæmni snertir í flóknum búnaði með legjum og hjólum, þar sem millimetrar eða brot úr millimetrum geta ráðið úrslitum.
Tækniþróunin hefur verið og er enn svo hröð að milljarðar fara i súginn vegna þess hve ört verður að henda tækjum og endurnýja þau.
Ævinlega þegar menn halda að komið sé á endastöð kemu eitthvað nýtt til sögunnar.
Eða muna menn kannski eftir DAT hljóðspólunum á sínum tíma sem áttu að verða framtíðin en urðu úreltar á undra skömmum tíma?
![]() |
DVD sömu leið og VHS? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.10.2014 | 17:45
Síðbúin endurbót.
Þegar Smart ForTwo kom á markað 1997 hafði honum verið breytt vegna þess að hann valt í prófun, sem kölluð var Elgsprófið, þ. e. að víkja snögglega til hliðar ef dýr hlypi inn á veginn og beygja afnharðan hratt til baka til að lenda ekki útaf.
Bíllinn var upphaflega 2,50 m langur til þess að hægt væri að leggja honum löglega í stæði þversum, og 1,45 m breiður til þess að smjúga sem best í umferðinni.
Hann var frábær hugmynd um borgarbíl sem minnkaði það pláss, sem óþarflega stórir bílar taka á götum borga.
Vegna veltunnar var neðsti hluti bílsins breikkaður um 10 sentimetra svo að hjólin stæðu utar, en ekkert breiðara var innandyra fyrir þá sem voru í bílnum.
Samt sem áður er hönnunin þannig, að manni finnst maður sitja í miklu stærri bíl og áttar sig ekki á því hve stuttur hann er fyrr en litið er aftur og séð, að það er næstum ekki neitt fyrir aftan framsætin tvö.
Jafnframt breikkun á milli hjóla var fjöðrunin illu heilli gerð styttri og hastari svo að bíllinn ylti síður, en það bitnaði hastarlega á þægindum í akstri.
Nú, 16 árum síðar, er loks búið að leiðrétta almennilega gallann á bílnum svo að hann er 21 sentimetra breiðari en hann var upphaflega.
Það þýðir að þeir, sem sitja í honum, hafa á tilfinningunni að vera í meðalstórum fólksbíl.
Vonandi hefur fjöðrunin verið mýkt og lengd ljósi þessarar miklu breikkunar og nú ætti Smart FourTwo að vera orðinn fínn ferðabíll.
Ég hefði reyndar viljað breikka bílinn minna og viðhalda betri eiginleikum til að smjúga um þrengsli í borgarumferðinni.
Smart FourTwo er 20 sentimetrum styttri en Toyota iQ, en það er fjögurra sæta bíll.
Þar fyrir ofan er Toyota Aygo stysti bíllinn á markaðnum, 66 sentimetrum lengri en Smart FourTwo.
Bæði Smart FourTwo og Toyota iQ hafa komið ótrúlega vel út úr árekstursprófunum.
![]() |
Smart ForTwo og ForFour frumsýndir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.10.2014 | 11:53
Grimmur veruleiki: "Peningana eða lífið!"?
Allir heilbrigðisráðherrar og fjármálaráðherrar, sem hafa verið við völd á Íslandi síðustu árin, sama hvar þeir hafa staðið í flokki, og sama hvaða skoðun þeir hafa haft á launajafnrétti, hafa staðið frammi fyrir grimmum veruleika:
Frjálst flæði vinnuafls í Evrópu og raunar í heiminum hefur rofið einangrun landsins og þjóðarinnar, - við erum ekki lengur eyland heldur hluti af alþjóðlegu launaumhverfi í stað þess að geta mótað það algerlega að eigin vild hér á Fróni.
Það þýðir, að vel menntað og fært fólk getur fengið sér vinnu á bestu fáanlegu kjörum að vild í mörgum löndum og þar með eru það launastefnan og umhverfið í þeim löndum sem ráða að miklu leyti ferð en ekki launastefnan hér.
Gamla hindrunin að það sé of mikil röskun og óhagræði í því að flytja búferlum til útlanda vegna vinnunnar er ekki lengur fyrir hendi.
Ég þekki mörg dæmi um Íslendinga sem búa yfir dýrmætri menntun, reynslu og færni í sínni atvinnu, sem eiga heima áfram hér á landi þótt þeir vinni erlendis, til dæmis á Norðurlöndunum.
Þeir vinna í ákveðinn tíma, til dæmis í tvær vikur erlendis, en fá siðan frítt far fram og til baka til á víxl til þess að koma hingað heim eiga frí í eina viku eða jafnvel lengur og fara aftur utan til vinnu. Eru samt á mun hærri launum erlendis en hér.
Ég þekki meira að segja færan íslenskan lækni, sem er kominn á eftirlaun, en býðst vinna erlendis, þar sem hann getur verið til skiptis þar við vinnu og hér heima í fríi, fær tvöfalt hærri laun þar en hann fengi hér og fríar ferðir á milli.
Mörgum kann eðlilega að líka þetta stórilla og finnst vera í gildi hjá heilbrigðisstéttunum gamla upphrópunin og hótunin "peningana eða lífið!"
En þá væri gagnrýnendum hollt að líta í eigin barm og skoða, hvort þeir sjálfir myndu vilja afsala sér frelsi til þess að sækja vinnu hjá þeim sem býður best.
Þegar okkur blöskrar þetta og vildum breyta því er ekki hægt um vik. Í Hruninu bjargaði það þúsundum Íslendinga frá atvinnuleysi að geta fengið vinnu erlendis og þúsundir þessara Íslendinga vinna enn erlendis.
Það er því holur hljómur í því þegar gumað er af litlu atvinnuleysi hér. Sá vandi hefur bara verið færður til og við höfum misst dýrmæta starfskrafta úr landinu.
Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að höfða til samkenndar og samvisku okkar allra en það verður líka að hafa raunsæjan skilning á eðli málsins og vikja sér ekki undan að horfast í augu við það eins og það er.
![]() |
Alvarlegur læknaskortur blasir við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
2.10.2014 | 19:04
Fáránleg margföldun skulda oft á tíðum.
Nú munu vera á vel annað þúsund manns við lögfræðinám á Íslandi og það bendir til þess að ungt fólk telji að eftir miklu sé að slægjast á þeim vettvangi.
Kannski er það vegna þess að í Hruninu sköpuðust ótal ný viðfangsefni við að sinna öllum þeim málaflækjum og málaferlum, sem því fylgdu.
Eitthvað verða þeir að hafa uppur krafsinu, sem farið hafa í langskólanám eins og laganám er, og þess vegna er viðbúið að kostnaðurinn við málarekstur verði mikill.
Þegar um er að ræða smávægileg mál eins og tiltölulega litlar skuldir, verður hlutur lögfræðskrifstofa og innheimtufyrirtækja hlutfallslega mikill, oft himinhár í samanburði við það sem verið er að innheimta.
Ég veit um nýlegt dæmi þar sem skuld upp á rúmlega tíu þúsund krónur var komin upp í 85 þúsund krónur nokkrum mánuðum eftir að hún var komið á borð innheimtufyrirtækis.
Það er að sjálfsögðu fáránleg margföldun skuldar, en skuldarinn er varnarlaus ef engu verður þokað gagnvart innheimtufyrirtækinu.
![]() |
Sat eftir með aðeins 72 krónur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2.10.2014 | 14:46
Endilega 14 atkvæði í stað 10.
Eitt einkenni svonefnds kannsellístíls í ræðu og riti á dögum konungsveldis Dana hér á landi var meðal annars það, að flækja og lengja textann, helst með hrúgu af nafnorðum.
Þessi árátta gengur nú í endurnýjun lífdaga með miklum orðalengingum og sókn í það að hlaða upp nafnorðum.
Lítið dæmi er tengd frétt á mbl.is um fjölgun nýrra fólksbíla.
Raunar er fyrirbærið ekki orðað með þremur stuttum orðum heldur notuð löng orðaruna:
"aukning í nýskráningum fólksbíla."
10 atkvæði.
í stað þess að segja einfaldlega
"nýjum fólksbílum fjölgar."
7 atkvæði.
Þegar komið er lengra inn í fréttina elnar sóttin, til dæmis í þessari setningu:
"Fjöldi bílaleigubíla af heildar nýskráningu er..."
- 16 atkvæði -
í stað þess að segja einfaldlega
"nýskráðir bílaleigubílar eru".
- 11 atkvæði -
Og áfram elnar sóttin:
"Aukning hefur verið í nýskráningum fólksbíla."
- 14 atkvæði - tyrfinn og stirður texti - .
Í stað þess að segja:
"Nýskráðum fólksbílum hefur fjölgað."
- 10 atkvæði.
![]() |
58% aukning í nýskráningum fólksbíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.10.2014 | 23:33
Erfiðast: Lítið þjóðfélag og stutt síðan.
Síðbúin ákvörðun ríkissaksóknara um að lýsa yfir vanhæfni til að að veita endurupptökunefnd umsögn um viðhorf sitt til Guðmundar- og Geirfinnsmála lýsir í hnotskurn því sem er einna erfiðast við þetta mál, sem enn er eins og fleinn í samvisku þjóðarinnar: - Þjóðfélag okkar er svo lítið, - það eru svo margir tengdir málinu á einn eða annan hátt og það virðist ekki vera nógu langt um liðið til þess að menn fái sig til þess að afgreiða það á þann eina hátt sem getur orðið lokalausnin.
Það verður að líta á það að stór hluti þjóðarinnar, jafnvel meirihluti hennar, hrópaði á það og heimtaði á sínum tíma að einhverjir yrðu sakfelldir fyrir hvarf tveggja manna, jafnvel þótt engin vissi hvað af þeim hefði orðið og að það vantaði bæði lík, morðvopn, tengngu óskyldra mannshvarfa og ástæður til meintra morða á þeim, sem hurfu.
Þetta voru nornaveiðar, og nornaveiðar eru miskunnarlausar og eira engu, heimta dómsmorð ef svo ber undir.
Málaferlin smugu inn í heiftarlega pólitíska baráttu þessara ára og drógu æðstu ráðamenn þjóðarinnar og sóma- og heiðurmenn inn i þau, sem gerði þau enn verri viðfangs og viðkvæmari enn ella hefði orðið fyrir fáránlega marga.
Það verða 40 ár á næsta ári frá mannshvörfunum, sem þyrluðu moldviðrinu, stærstu sakamálum okkar tíma, upp, og það kann að sýnast langur tími en er virðist þó í raun of stuttur tími til þess að menn megni að gera málin almennilega upp, því miður.
![]() |
Réttast að víkja sæti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.10.2014 | 15:46
Ekki einfalt mál.
Þegar Akureyri og Hafnarfjörður eru borin saman og útkoman verður sú að í öllum fimm höfuðatriðum varðandi atvinnuástand standi Hafnarfjörður hallari fæti en Akureyri, virðast svonefnd byggðasjónarmið ekki gild varðandi flutning Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar.
Öðru máli kann hins vegar að gegna í einhverjum af þessu atriðum ef sami flutningur er skoðaður sem flutningur frá höfuðborgarsvæðinu til landsbyggðarinnar og heildartölurnar á þessum svæðum skoðaðar.
Enn eitt spilar hér inn í, en það er hvort rétt sé að flokka Akureyri undir dreifbýli eða sem borgarsamfélag.
Í nútíma fræðum er FUA (Functional Urban Area) eða VBS ( Virkt BorgarSamfélag) skilgreint sem þéttbýli, þar sem íbúar eru minnst 15 þúsund og ferð frá jaðri inn til miðju taki minna en 45 mínútur.
Samkvæmt því er Eyjafjarðarsvæðið frá Öxnadalsheiði í vestri til Skjálfandafljóts í austri VBS, rétt eins og höfðuborgarsvæðið.
Þegar þar á ofan er athugað, að það tekur 45 mínútur að fljúga milli Akureyrar og Reykjavíkur er spurning hvort Akureyri og Reykjavík séu ekki innan sama borgarsamfélagsins.
Á móti því vegur það, að það er auðvitað svo miklu dýrara að fara 45 mínútna ferð landveg á höfuðborgarsvæðinu en að fljúga í 45 mínútur milli Reykjavíkur og Akureyrar.
Munurinn er samt ekki eins gríðarlegur og virðist í fljótu bragði, því að 45 mínútna akstur fram og til baka á einkabíl kostar samkvæmt útreikningum FÍB og taxta fyrir bílanotkun í þágu hins opinbera 14 þúsund krónur.
Viðfangsefnið varðandi svonefnd byggðasjónarmið í þessu máli er því ekki eins einfalt og margir vilja vera láta.
![]() |
Byggðasjónarmið ráðherra standast ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.10.2014 | 09:44
Svipaðar áherslur fyrir 60 árum í BNA.
Á árunum 1954 til 1958 ollu breyttar áherslur í útliti bíla gagngerri umbyltingu í bandarískum bílaiðnaði.
Fram að því hafði Chrysler verið næst stærsti bílaframleiðandinn þar í landi og lagt áherslu á vöruvöndun, traustan vélbúnað og drifbúnað og gott rými í háum og frekar kubbslegum bílum.
Gegn þessu réðust Ford-verksmiðjurnar með dirfskufullri verðlækkun og aukinni áherslu á hressandi útlit og skemmtilegri aksturseiginleika og afl.
1955 árgerðirnar hjá GM og Ford voru boðnar í djörfum tvílitum með margs konar ívafi og miklu meira lagt upp úr frísklegu útliti og lægri og rennilegum bílum en áður hafði þekkst, auk þess sem í boði voru spánýjar aflmiklar átta strokka vélar fyrir alla stærðarflokka sem ollu byltingu í aksturgetu bílanna.
Chryslerbílarnir virkuðu gamaldags og úreltir og framleiðslan árið 1954 hrundi þar á bæ.
Mikið verðstríð GM og Ford rústaði að miklu leyti tilveru smærri framleiðanda, svo sem Nash, Kaiser, Hudson, Packard og Studebaker, sem allar fóru á hausinn þótt þær reyndu að sameinast til að eiga einhverja möguleika gegn hinum stóru um hríð.
1957 og 56 var þannig komið að útlit og skemmtilegir eiginleikar og glannalegir litir og línur voru aðalatriðið hjá öllum framleiðendum og bílarnir höfðu lækkað svo mikið að í mörgum þeirra skorti mjög á þægilega setstellingu í hinum mjög svo lágu aftursætum.
Mesta breytingin var hjá Chrysler sem hafði gersamlega umpólað útilit bíla sinna til þess að endurheimta stöðu sína, sem þó varð aldrei hin sama og fyrr.
Nýtilkomin litagleði, tvílitir og sportlegt útlit á ýmsum nýjum bílum núna minnir á síðari hluta sjötta áratugarsins í Bandaríkjunum, þegar rokkið og unga fólkið skópu byltingu í lífsstíl og tónlist þar.
Mercedes Benz A var í hitteðfyrra breytt úr háum og kubbslegum brúkshesti i langan og rennilegan bíl með sportlegum eiginleikum og útliti á kostnað útsýnis og innanrýmis og þæginda í aftursæti.
Opel Adam og Toyta Aygo eru enn betra dæmi með djörfum litasamsetningum, þröngu rými í aftursæti og tiltölulega litlu farangursrými. Aðaláherslan er lögð á þægindi og ánægju í framsætum og það að bílarnir séu sem allra skemmtilegastir í útliti og akstri.
Salan á Benz A snarjókst með breyttum áherslum í þessa átt og þetta er greinilega eitthvað sem gengur í stóran og jafnvel stækkandi markhóp.
Að sumu leyti minnir þetta líka á Mustang-bylgjuna 1964 sem skóp alveg nýja tegund vinsælla bíla í Bandaríkjunum.
Ástæðan er einföld: Fólk eyðir svo löngum tíma í bílum að margir gefa mest fyrir það að skemmta sér sem best í þeim og hamla gegn gráum hversdagsleikanum. Að meðaltali er aðeins rúmlega einn maður um borð í hverjum bíl og viðburður er ef fleiri fullorðnir en tveir eru um borð.
Þess vegna láta svo margir sér nægja að aftursætin séu nógu stór fyrir börn eða fullorðna farþega á stuttum innanbæjarleiðum.
P. S. Ég var að skoða "nýja kynslóð" Toyta Aygo áðan og í ljós kom að ef meðalmaður situr í framsætinu er nóg pláss fyrir meðalmann í aftursætinu, bæði fyrir höfuð, hné og stuðning við læri.
Það er meira en sagt verður um Opel Adam og Mercedes-Benz A, en Benzinn er líkast til meira en tvöfalt dýrari en Aygo og samt mun erfiðara að komast inn um afturdyrnar á honum en á þeim litla.
![]() |
Nýr Aygo kynntur hjá Toyota |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.10.2014 | 00:16
Grátlegt vanmat.
Sú saga er sífellt að endurtaka sig í veraldarsögunni að þjóðarleiðtogar hafa ekki skilið aðra þjóðarleiðtoga eða aðrar þjóðir og afleiðingarnar orðið dýrkeyptar fyrir alla.
Verst hefur þó verið þegar þeir hafa alls ekki viljað leita eftir nauðsynlegum skilningi.
Sem dæmi má nefna að skilningsleysi Bandaríkjamanna á eðli þjóðfrelsisbaráttu Vietnama kostaði óþarft, langvinnt, skelfilegt og mannskætt stríð sem endaði með ósigri sterkasta herveldis heims.
Kanarnir gáfu sér að Vietnamar væru í einu og öllu leppar og útsendarar Rússa og Kinverja í heimsyfirráðaherferð kommúnista.
Auðvitað voru þeir, sem réðu í Norður-Vietnam, kommúnistar, en það var ekki aðalatriðið heldur hitt að barátta þeirra var ekki einasta þjóðfrelsisbarátta gegn nýlenduveldunum heldur barátta gegn ofurvaldi erlendra stórvelda almennt svo sem Kínverja og Japana.
Enda brutust út átök milli Víetnama og Kínverja þegar stríðið við Bandaríkjamenn var ekki lengur aðalatriðið. Og vinslit urðu á milli Rússa og Kínverja.
Því meira sem gluggað er í aðdraganda stríðs Bandaríkjamanna og Japana á árunum 1940 til 1941, því betur kemur í ljós að gagnstætt því sem haldið hefur verið fram, að ósveigjanleiki Japana í samningaviðræðum um deilumál þjóðanna hafi einn orðið til þess að stríðið braust á, blasir það við að úrslitakostir Bandaríkjamanna í nóvember 1941 voru gersamlega óaðgengilegir fyrir Japani.
Þess var meðal annars krafist að Japanir hættu hernaði sínum í Kína og drægju her sinn þaðan.
Að sjálfsögðu var hernaður Japana í Kína líklegast hroðalegasta og grimmansta herför síðustu aldar og árásar- og útþenslustefna þeirra sömuleiðis. En harðlínumönnum í Japan tókst að halda þessari stefnu fram í krafti þess að Japanir bæru óþarflega mikinn skarðan hlut frá borði í kapphlaupi nýlenduveldanna um lönd í Afríku og Asíu.
Í nóvember 1941 blasti það við, að Japanski herinn yrði olíulaus innan tveggja mánaða ef ekki linnti viðskiptaþvingunum og öðrum aðgerðum Bandaríkjamanna til að "svelta" japanska herinn til hlýðni og upphgafar.
Að vera auðmýktur með því að beygja sig í duftið var miklu meira mál fyrir Samuraiana japönsku en fyrir vestræna ráðamenn. Auðmýking eftirgjafarinnar jafngilti algerum ærumissi, sem var miklu alvarlegra mál hjá japönskum herforingjum en samsvarandi eftirgjöf hjá vestrænum valdamönnum.
Í slíku tilfelli var aðeins um tvo kosti að ræða fyrir japönsku herforingjana , að ganga til orrustu eða að fremja kviðristu, harakiri.
Þýskaland var niðurlægt og sært stórveldi í upphafi kreppunnar 1930. Búið var að hluta ríkið í sundur í tvennt þannig að Þjóðverjar urðu að fara í gegnum "óvinaland" á milli Þýskalands og Austur-Prússlands.
Skaðabótakröfur Versalasamninganna voru ósanngjarnar og niðurlægjandi, að ekki sé talað um það að ALLRI skuldinni af Fyrri heimsstyrjöldinni var skellt á Þjóðverja.
Í fróðlegum breskum þáttum, sem nú eru sýndir í Sjónvarpinu um upphaf Fyrri heimsstyrjaldarinnar, koma vel fram brestir í hinum gömlu kenningum um aðdraganda stríðsins, meðal annars um það hve herská þýska þjóðin sjálf hefði verið. Þvert á móti áttu friðarhreyfingar og friðarpólitík meira fylgi þar en í flestum öðrum löndum, þótt keisarinn og ýmsir ráðamenn í hernum aðhylltust vígbúnað.
Það verður að "skilja óvininn" til að átta sig á gjörðum hans, jafnvel það að ein helsta menningarþjóð Evrópu, sem ól af sér Beethoven og Göthe, skyldi ganga mestu villimennsku síðustu aldar á hönd í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar.
Öfgasamtök á vorð við ISIS sem nú láta að sér kveða, blása í glæður andúðar meðal þjóða þriðja heimsins á langvarandi arðráni og ofurvaldi vestrænna stórvelda víða um heim, sem eigi þátt í hungri og dauða milljóna fátæklinga á svæðum örbirgðar og skorts.
Trúarbrögð eru misnotuð til þess að magna hefndarhug með tilheyrandi illvirkjum.
Pútín Rússlandsforseti, sem svo sannarlega stundar lítt geðslega stjórnarhætti, nýtir sér sært stolt fyrrverandi stórveldis og landlæga og aldagamla tortryggni Rússa í garð þeirra sem seilast til aukinna áhrifa í nágrannalöndum Rússlands og fyrrverandi Sovétlýðveldum og virka ógnandi í augum rússneskra valdhafa, sem minnugir eru þess þegar Þjóðverjar seildust til aukinna áhrifa í Austur-Evrópu í aðdraganda innrásar Hitlers í Sovétríkin 1941.
Nauðsynlegt er fyrir Vesturveldin að skilja þetta og haga pólitík sinni í samræmi við það.
![]() |
Nauðsynlegt að skilja óvininn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 00:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)