Færsluflokkur: Bloggar

Ekkert að sjá úr lofti klukkan sjö í kvöld

Á flugi yfir óróasvæðið í Vatnajökli um sjö leytið í kvöld var ekki að sjá nein ummerki á yfirborði jökulsins sem óvenjuleg væru.  

Við slíku er raunar ekki að búast vegna þess að jökulísinn er mörghundruð metra þykkur.  Skyggni var mjög gott á leiðinni til Sauðárflugvallar þar sem ég hyggst dvelja um sinn.

Góð skilyrði voru til að taka myndir en af tæknilegum ástæðum er ekki hægt að koma þeim á facebook að sinni.

Það hefur gengið eftir sem vísindamenn spáðu að með minnkun jökulsins og léttingu hans myndi eldvirkni aukast undir honum.

Síðan 1996 hafa orðið fjögur eldgos á Vatnajökulssvæðinu og hið fimmta hugsanlega í uppsiglingu en áratugina á undan varð ekkert gos.

Eftir að ísaldarjökullinn hvarf snögglega varð 30 sinnum meiri eldvirkni á svæðinu norðan Vatnajökuls en dæmi eru til um annars staðar.  Þess vegna er þetta svæði magnaðasta og fjölbreyttasta eldfjallasvæði heims. 


mbl.is Engin ummerki á yfirborðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færsla í austur. Hekla og Krafla líka óútreiknanlegar.

Í fljótu bragði sýnast skjálftarnir síðan í gærkvöldi vera minni að meðaltali en þeir voru fram að því, en þeir hafa færst austar og koma meira að segja fram í Kverkhnjúkum, norðaustur af Kverkfjöllum, en þeir eru meðal gamalla gígaraða sem ganga í norðaustur frá Kverkfjöllum. 

Er virknin þá komin í 20 kílómetra fjarlægð frá Sauðárflugvelli, sem gæti orðið mikilvægur ef eldgos yrði á þessu svæði, sjá mynd á facebook af útsýni frá flugvellinum til Kverkfjalla. 

Óvissan um eldgos núna minnir svolítið á óvissuna um eldgos úr Heklu og við Kröflu 1975-84.

Fjórtán skjálftahrinur urðu á Kröflusvæðinu á árum Kröflueldanna en í fimm skipti varð ekki gos.

Hallamælir í Stöðvarhúsinu sýndi, að land reis ævinlega hærra í hverri hrinu en það hafði komist hæst áður.

Svipað er að gerast nú við Heklu. Land hefur risið hærra við hana en fyrir síðasta gos en samt bólar ekki á gosi. Enda er fyrirvarinn víst ekki nema um klukkustund.  

 


mbl.is „Þetta er óútreiknanlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margar hálendisleiðir í skotlínum hamfarahlaupa.

Hamfarahlaup undan Dyngjujökli í kjölfar goss vestan við hann geta orðið gríðarstór og flæmst víða. 

Svonefndar Jökulsárflæður liggja alveg opin fyrir þeim og allt flatlendið sunnan við Öskju.  

Hlaup gæti meira að segja flætt yfir Herðubreiðarlindir og um Krepputungu. 

Engin reynsla er frá sögulegum tíma af því hvernig stórhlaup undan Dyngjujökli hegða sér, og lítil eldgos á þessu svæði gætu ýmist hafa farið alveg framhjá fólki fyrr á öldum vegna þess hve afskekkt það er, eða þá að ekki hefur þótt ástæða til að færa neitt um þau í annála.

Miðað við það að tugir eldgosa verða á hverri öld á Íslandi er merkilegt hve lítið hefur verið skráð um þau.

Ætla að setja inn tvær myndir á facebook siðu mína í tengslum við þennan pistil.  

 


mbl.is Leiðum lokað vegna skjálftaóróa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aukinn órói á þessu svæði. Misvísandi myndir.

Margar eldstöðvar eru á svæðinu norðaustur af Bárðarbungu, sem hafa mótað allt landslag þar. Í norðvesturjaðri Dyngjujökuls er Kistufell, Trölladyngja þar norður af auk nokkurra gígaraða, sem hafa gosið eftir síðustu ísöld. 

Urðarháls er magnaður gígur á Dyngjuhálsi og Kverkfjöll nokkru fyrir austan hann eru ekki þriðja hæsta fjall Íslands fyrir ekki neitt. Stefni að því að skulta inn spánnýrri mynd af þeim á facebook síðu minni nú á eftir.  

Við Öskju hafa verið viðvarandi skjálftar af og til síðustu árin og mikil skjálftahrina var við Upptyppinga, Krepputungu og Álftadalsdyngju á árunum 2007 og 2008. Kannski hafa menn orðið betur varir við þessa skjálfta en á árum áður vegna fjölgunar nákvæmra mæla, en fjölgun skjálftanna 2007 var hins vegar afar áberandi. 

Auk þess skelfur reglulega við Herðubreiðartögl og Herðubreið.

Gos á þessu svæði geta orðið mjög mismunandi, stórgos með gríðar öskufalli eins og í Öskju 1875, hraungos eins og varð þar 1961, gos sem veldur stórkostlegu hamfarahlaupi, - gos í gígaröð, - eða dyngjugos.

Skást yrði, ef um dyngjugos yrði að ræða, svo sem í Álftanesdyngju, því að það eru hæg og langvarandi gos, afar "ferðamannavæn", sem geta staðið í nokkur ár ef svo ber undir.

Það er frekar ónákvæm blaðamennska að birta myndir af öðru en því sem fjallað er um.

Mynd á mbl.is sem sögð er af norðvesturhorni Vatnajökuls, sýnir aðeins lítið brot af vesturjaðri jökulsins við fjallið Hamarinn, sem er allt annað fjall en Bárðarbunga.

Bárðarbunga er 30 kílómetrum norðar og því langt fyrir utan það svæði sem myndin sýnir og því misvísandi að segja "...af norðvesturhorni jökulsins þar sem Bárðarbunga er". 

Enn ónákvæmara er að sýna mynd af skriðjökli í sunnanverðum Vatnajökli.  

 


mbl.is Ekki hægt að útiloka eldgos
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur valdið hamfaraflóðum á fjórum vatnasviðum.

Undir öxlinum Bárðarbunga-Grímsvötn er miðja annars af stærstu möttulstrókum jarðar, en hinn er undir Hawai. 

Það er ekki aðeins að Bárðarbunga sé næst hæsta fjall landsins vegna þess hve mikil eldvirkni er þar, heldur tekur hún oft þátt í eldgosum sunnan og norðaustan við sig, ef svo má að orði komast, á þann hátt að mikil skjálftahrina er oft aðdragandi að þessum gosum.

Á undan Gjálpargosinu 30. september 1996 kom mikil hrina í Bárðarbungu.

Þetta minnir á miðjuhlutverk Leirhnjúks norðan Mývatns í Kröflueldum, en all urðu níu eldgos á línu, sem liggur í gegnum hnjúkinn, en aðeins eitt þeirra varð í hnjúknum sjálfum.

Hættan vegna eldgoss í og við Bárðarbungu er sú, að gjósi undir hinni þykku íshellu, getur það valdið stærstu hamfaraflóðum, sem verða á Íslandi.

1996 fór flóðið í skástu áttina, inn í Grímsvötn. Þar var fyrirstaða sem olli því að það tók nokkrar vikur að byggja upp nægilega mikið samansafnað bræðsluvatn til að það ryddist að lokum niður á Skeiðarársand.

Það var stærsta hamfararflóð hér á landi síðan í Kötlugosinu 1918.

Hamfaraflóðin af Bárðarbungu svæðinu geta farið niður í þrjú vatnasvið:

1. Undir Köldukvíslarjökul niður í vatnasvið Köldukvíslar, Tungaár og Þjórsár. Sjá mynd af Köldukvíslarjökli og Bárðabungu á facebook síðu minni. 

2. Niður í Skjálfandafljót.

3. Niður op Bárðarbunguöskjunnar og undir Dyngjujökul niður í Jökulsá á Fjöllum, en þar hafa orðið stærstu hamfaraflóð hér á landi, þó ekki eftir að land byggðist.

4. Niður í Grímsvötn og þaðan niður á Skeiðarársand.

Þrjú fyrstnefndu hamfaraflóðin eru lang varasömust og hættulegust, einkum niður um vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.

Það er erfitt að ná góðum myndum af Bárðarbungu því að hún er svo umfangsmikil. Ég notaði því tækifærið í flugferð frá Hvolsvelli norður á Sauðárflugvöll hinn 3. ágúst síðastliðinn, eða fyrir 13 dögum, til þess að ná góðum myndum af henni.  Sennilega nýjustu myndirnar af henni. 

Er búinn að setja þrjár þeirra inn á fasbókarsíðu mína.  


mbl.is „Eitt hættulegasta eldfjall Íslands“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumt má gera betur, en sumt er ekki hægt.

Áður en Rás 2 kom til sögunnar var Rás 1 eina útvarpsrásin á Íslandi og varð því að sinna því sem er sameiginlegt hlutverk beggja rása nú. 

Ég er nógu gamall til að muna eftir því þegar beinar útsendingar voru frá Hótel Borg þar sem danshljómsveitir spiluðu, en það var popptónlist þeirra tíma.

Upp úr 1950 naut blandaður þáttur Péturs Péturssonar, "Sitt af hverju tagi" mikilla vinsælda.

Eftirminnilegast var þegar Sigfús Halldórsson frumflutti þar "smell aldarinnar", Litlu fluguna.  

Kanaútvarpið og Radíó Caroline voru fyrstu samkeppnisaðilarnir í poppinu og enda þótt Ríkisútvarpið reyndi að svara með "Þætti unga fólksins" byrjaði RÚV að dragast aftur úr á þessu sviði.

Mörg af vinsælustu lögunum í Kananum heyrðust aldrei á Gufunni og á þessum árum pikkaði maður upp mörg af þeim lögum, sem síðar rötuðu með íslenskum textum inn á Gufuna eftir að hafa farið í hring. 

Allt frá þessum tíima gildir það um Gufuna að þrátt fyrir ómetanlegt menningarlegt uppeldishlutverk hennar má ævinlega gera betur. Og það má hún eiga að þar er stunduð mjög vönduð dagskrárgerð þar sem fólk gefur sér tíma til að tvinna saman fróðleik og tónlist, sem annars væri ekki sinnt og myndi ella falla niður til mikils tjóns fyrir íslenska menningu.  

En sumt er ekki hægt að breyta: Hin hliðin að RUV snýr að tæknimálum og útsendingarbúnaði. Um það fimbulfamba margir stanslaust á vefsíðum og skamma Ríkisútvarpið blóðugum skömmum fyrir að sinna dreifingunni illa.

En RUV getur í engu haft áhrif á það lengur, því að dreifikerfið var selt á sínum tíma einkaaðilum að kröfu sömu manna og nú bölsótast mest og kenna RUV um lélegt ástand þess og klykkja út með að segja það sé dæmi um vangetu ríkisreksturs.  

Fjargviðrast er yfir því að sendingar RUV náist ekki um mestallt land og leggja eigi RUV niður vegna þess að með þessu ófremdarástandi vanræki það öryggishlutverk sitt.

Ég hef hins vegar sannreynt á ferðum mínum um landið þvert og endilang, frá útnesjum til miðhálendisins, að útsending þess á langbylgju næst um allt land.

Og til þess að ná henni þarf ekki dýran né flókinn búnað. Ég næ útsendingunni á lítið útvarpstæki, sem fellur inn í lófa manns og er aðeins 14 x 8 x 2,5 sentimetrar að stærð.  


mbl.is Rás 1 þarf að vera ákafari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hestar eru helmingi of margir.

Mig minnir að Sigurbjörn Bárðarson hafi einhvern tíma sagt að hestar væru helmingi of margir á Íslandi. 

Helmingurinn mætti alveg verða sleginn af.

Á ferðum mínum í sumar um allt land hef ég séð slæm dæmi um gróðurspjöll vegna of margra hesta og of mikillar umferðar hesta sums staðar.

Á einum stað í nágrenni höfuðborgarinnar er afar illa farið land vegna langvarandi ofbeitar hesta.

Ég fjallaði um það í sjónvarðinu fyrir 20 árum en ástand landsins hefur bara versnað síðan þá.

Égveit um hliðstæð dæmi annars staðar, en Landgræðslan, sveitarfélög og nágrannar fá ekkert að gert vegna þess að í áratugi hefur enginn vilji verið á Alþingi til að setja lög, sem stöðva þetta landníð.

Þetta ástand er enn dapurlegra fyrir þá sök að íslenski hesturinn er eitt af því dýrmætasta sem land og þjóð á og ræktun hans og meðferð þorra hestaeigenda er til mikils sóma.

En einmitt þess vegna er meiri þörf á að þvo þennan blett af hestahaldi á Íslandi.  


mbl.is Umferð hesta takmörkuð í Reykjadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Litli bróðir, - úti í Atlantshafinu."

Þulir norska sjónvarpsins voru búnir að vera rosalega hlutdrægir í lýsingu sinni hér um árið á leik Íslendinga og Norðmanna, sem skar úr um það hvor þjóðin héldi áfram á handboltastórmóti. 

Þeir kölluðu Robert Duranona til dæmis aldrei neitt annað en Kúbverjann, - "Kubaneren" gerði þetta og gerði hitt, þar til fjórar mínútur voru eftir af leiknum og orðið ljóst að Norðmenn voru búnir að skíttapa honum.

Þá breyttist hljóðið allt í einu í þeim. Þeir fóru að kalla Duranona nafni sínu og hæla Íslendingum fyrir góðan leik.

Hámarki náðu þessi umskipti þegar þeir sögðu það vera mikinn heiður fyrir norræna menn að "litli bróðir úti í Atlantshafinu" færi áfram og varpaði ljóma á Skandinava.

Á ferðum um þveran og endilangan Noreg finnur maður vel hug Norðmanna til okkar og sér mörg dæmi þess hve líkir þeir eru okkur í mörgu. 

Helsti munurrinn er kannski sá að þeir eru mun reglufastari en við.  

Það hefur verið orðað þannig að í Noregi sé allt bannað, nema það sé leyft, en á Íslandi sé allt leyft, nema það sé bannað.  


mbl.is Íslendingar í Noregi eru vinsælir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skella landinu í lás !

Þessa dagana les maður á fasbók og í bloggpistlum geigvænlegar upplýsingar frá mjög vel menntuðu og skynugu íslensku fólki. 

Það er víst veira út um allt sem getur breytt hegðunarmynstri fólks og jafnvel heilla þjóða. Milljón ferðamenn streyma til landsins árlega og fer fjölgandi. Þetta er svakalegt. 

Koma þarf málum þannig fyrir að hvítir menn þurfi ekki að setjast við hliðina á svörum mönnum í flugvélum, af því að þeir svörtu gætu verið með ebóluveiruna.

Þó er það svo að ekki er vitað um aðra ebólusmitaða farþega í flugvélum en hvíta.

Auk þess er stór hluti þjóðanna í kringum okkur svart fólk svo að það þarf heldur betur að vara sig.

Upplýst er að 99% kjöts í Ameríku sé fullt af sterum og aukaefnum.  

Þótt reynt sé að koma því á framfæri að þessi prósentutala sé aðeins brot af því sem haldið er fram er það eins og að stökkva vatni á gæs.  Erlenda kjötið er stórhættulegt.

Margfalt meiri tíma tekur útlenda lækna og hámenntað fólk að fá að flytja til landsins en fyrir okkur að flytja til landa þeirra.

Þetta virðist talið sjálfsagt mál, jafnvel þótt það hamli því að við fáum hingað nauðsynlegt fólk í til að sinna aðkallandi verkefnum í staðinn fyrir þá Íslendinga sem flytja úr landi vegna lélegra kjara.

Þannig mætti lengi telja varðandi þær ógnir sem steðja að okkur frá útlöndum.

Smám saman er það að renna upp fyrir okkur að það kunni að vera eina ráðið við þessari margslungnu vá að skella landinu í lás eftir því sem það er mögulegt.  

Verst væri þó ef það kæmi í ljós að farfuglarnir bæru til okkar allskyns veirur og annað skaðræði.

Þú myndi ekki duga upphrópunin fræga hins skotglaða norðlenska veiðimanns, sem Laddi gerði ódauðlegan: "Skjóta helvítin!"  

 

 


mbl.is Breytir ekki hegðun manna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geysi skemmtileg íþrótt fyrir áhorfendur.

Sé veður heppilegt er afar skemmtilegt að horfa á torfærukeppni. Þetta fékk ég að reyna fyrir nokkrum vikum þegar keppt var fyrir utan Egilsstaði í móti, sem var hluti af mótaröð, sem gefur stig til Íslandsmeistaratitils. 

Hér á landi hefur myndast harðsnúinn hópur manna sem kann vel til verka við að halda svona mót, en það er mjög flókið og vandasamt starf, og er aðdáunarvert hve langt menn hafa komist í því.

Lagning keppnisbrautanna er orðin háþróuð og býður upp á dramatíska og æsilega tilburði í akstrinum.  

Ekki þarf að fjölyrða um færni keppendanna og snilld í smíði keppnisbíla því að þar erum við Íslendingar búnir að vera í forystu um árabil, eða allt frá því er Árni Kópsson umbylti gerð bílanna með Heimasætu sinni.

Það sýnir, hve langt sá bíll var á undan samtíð sinni, að hann er enn gjaldgengur í keppni, þótt nú megi sjá merki þess að önnur bylting sé að verða í smiðinni.

Ýmis atriði má nefna, en liklega eru þrjú mikilvægust.

1.  Stórfelld létting bestu bílanna.

2. Sjálfberandi heilsoðin bygging.

3. Tilkoma nýrrar meginhönnunar, þar sem vélin er færð aftur fyrir ökumanninn inn að miðju bílsins.

Þetta síðastnefnda er svipuð hugsun og í gerð bestu formúlu kappakstursbíla, en með því að hafa vélina þétt við bakið á ökumanninum, eru þyngdarpunktar tveggja þyngsu hluta bílsins, ökumannsins og vélarinnar, færðir eins nálægt hvor öðrum og miðju bílsins og unnt er.

Í síðustu tveimur mótum hefur einn bílanna verið með þessu byggingarlagi og sannað gildi þess, bæði hvað varðar getu bílsins og það hve miklu léttari og samþjappaðri hann getur verið fyrir bragðið.

Nokkrir höfðu á orði þegar bíllinn birtist fyrst að það væri nánast móðgandi að koma með keppnisbíl með helmingi minni fjögurra strokka vél en er í hinum bílunum, en þær raddir hljóta nú að þagna, því að litlu munaði að sigur ynnist á þessum bíl.

Nú er spurningin um hvort fjórða byltingaratriðið, sjálfstæð fjöðrun, kemur til skjalanna.

En þar þarf að leysa afar erfið tæknileg vandamál, sem sennilega verður erfitt að fást við.

Sumir átelja keppni í bílasporti á þeim forsendum að þar sé bruðlað með orku i orkuþyrstum heimi.

En ef tölurnar eru skoðaðar sést að yfir 99% af eldsneytiseyðslu bílaflota heimsins felst í almennri umferð og snatti.

Bílasport felst í því að kunna að gera sér dagamun, líkt og felst í því að borða kræsingar á stórhátíðum, þótt sultur sé í heimininum.  

Árangur í orkusparnaði og nýtingu matvæla byggist á því að taka á þessum atriðum í daglega lífinu þar sem 99% af möguleikunum er að finna.   


mbl.is Stærsta torfærumót Íslandssögunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband