Færsluflokkur: Bloggar
24.8.2014 | 19:59
Fór þytur um loftið -umpólun ástandsins?
Þegar stóri skjálftinn reið yfir í nótt upp á 5,7 stig var ég staddur á Sauðárflugvelli ásamt Láru dóttur minni og Vilhjálmi Guðmundssyni kvikmyndatökumanni Sjónvarpsins. Þótt aðeins kortérs flug sé héðan að óróasvæðinu varð aðeins Vihjálmur var við skjálftann og fannst honum sem þytur eða létt þruma færi um loftið.
Margar hafa nú umbrotahrinurnar orðið á Íslandi en atburðarrásin í allar áttir í þessari hefur verið ævintýranlega hröð.
Þannig veit maður ekki hvar maður verður næstu 20 mínúturnar þegar maður er svona nálægt vettvangnum.
Þessi hraða atburðarrás hefur seinkað fyrri frétt sem líklega kemur í kvöld í Sjónvarpinu og ég var búinn að ýja að fyrir tveimur dögum.
Og nú er sjá hvort eitthvað gerist þangað til sem seinkar fréttinni enn frekar.
P.s. Loksins í kvöld kom sú frétt að hugsanlega tengdist eldstöðvakerfi Bárðarbungu Öskju og að Holuhraun fyrir norðan Dyngjujökul sem mér var svo starsýnt á fyrir tveimur dögum yrði kannski einmitt sá staður sem eldgos kæmi upp.
Eldgos þar myndi umpóla stöðunni í einni svipan. Í stað hamfarahlaups og þess að reka fólk burt af stórum svæðum kæmi hugsanlega gos í gígaröð sem yrði aðdráttarafl fyrir ferðamenn. Það var það stóra sem laust niður í hugann við að horfa yfir svæðið fyrir tveimur dögum.
![]() |
Tveir stórir skjálftar í nótt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
23.8.2014 | 18:06
Ekki gos og ekki Bárðarbunga.
Að gjósa eða ekki gjósa. Það væri spurning íslensks Hamlets í dag. Sömuleiðis spurningin: Að þetta sé Bárðarbunga eða ekki Bárðarbunga hvað varðar myndina sem fylgir myndin af tengdri frétt á mbl.is.
En þeirri spurningu er fljótsvarað: Þetta er í Kverkfjöllum en ekki á Bárðarbungu og myndin er tekin af þeim stað þar sem settur var upp mælir fyrir nokkrum dögum í Kverkfjöllum.
Í Guðanna bænum sendið þið ekki þessa mynd af Bárðarbungu til erlendra fjömiðla.
Eins og mig grunaði í gær er dagurinn búinn að vera með atburðarás á útopnu og enn er svo mikið að gerast að ég verð að geyma einn dag enn eða fleiri að útlista hvað það var í gær, sem fékk mig til að fara í sérstakt kvikmyndatökuflug í sambandi við það að finna hugsanlega nýja sýn og nýtt mat á óróasvæðið og næsta nágrenni þess.
![]() |
Telja gos hafið undir Dyngjujökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
23.8.2014 | 13:02
Mig grunaði þetta í gær
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.8.2014 | 22:10
Mat og þekking í spennandi mótun
Líkt og í Kröflueldunum 1975-84 valda mælingar og atburðir því að mat og þekking vísindamanna á því sem er að gerast tekur breytingum og er í mótun.
Á flugi yfir óróasvæði Bárðarbungu í dag tók ég eftir atriði sem kunnáttumaður á þessu sviði ætlar að athuga til morguns og kann að gefa dálitla breytta mynd af því sem þarna gæti gerst.
Læt þetta nægja að sinni en bíð spenntur eftir því hvað kemur út úr því.
![]() |
Stóri skjálftinn vegna sigs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.8.2014 | 06:33
Nýtt fjall í framtíðinni?
Í Gjálpargosinu 1996 myndaðist nýtt og snoturt eldfjall undir mörg hundruð metra þykku íslagi jökulsins.
Í Kröflueldum urðu til nokkrir nýir gígar á svæðinu.
Nyrst í Gjástykki er sprunga eða berggangur sem nær upp á yfirborð þar sem upp kom hraun sem breiddi úr sér og er einstakur staður á heimsvísu, vegna þess að myndir náðust af þessu fyrirbæri á sínum tíma, einu myndirnar sem til eru af slíku.
Hraunið rann síðan sums staðar niður í sprunguna á ný á minnsta kosti einum stað.
Í skipulagi miðhálendisins er gert ráð fyrir að þetta verði að virkjana- og iðnaðarsvæði.
Spurningin er hvort undir miðjum Dyngjujökli eða jafnvel á Jökulsárflæðum muni myndast nýtt fjall eða gígaröð sem bætist við Bárðarbungu og Kverkfjöll sem útverðir Vatnajökuls í norðri.
Víst er skðpun Íslands og jarðarinnar einstakt sjónarspil, hugsanlerga "the greatest show on earth."
![]() |
Sá stærsti hingað til |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 06:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
22.8.2014 | 06:22
Verður askan eins og reykur?
Askan úr Eyjafjallajökli 2010 var líparítaska og svo fíngerð, að hún var líkari reyk en ösku. Hún smaug inn í tæki, sem áttu að vera vatnsheld.
Eil dæmis eyðilagði tölvuna mína.
Þegar ég barði létt á mælaborðið í FRÚnni eftir að askan hafði dunið á henni þar sem hún stóð við Hvolsvöll, gaus upp reykur, eins eldur kraumaði undir því, en það var hins vegar bara askan úr jöklinum.
Vegna þessa léttleika hennar barst hún svo víða sem raun bar vitni.
Askan úr Grímsvötnum 2011 var hins vegar basaltaska og mun grófari. En flugmálayfirvöld brugðust við henni að það var langt umfram þörf eins og ég hef nokkrum sinnum rakið hér á síðunni.
Ekki er vitað hvers konar aska myndi koma upp í öskugosi af völdum Bárðarbungu. Ef það gýs þar á annað borð.
Af veru minni á Brúaröræfum síðustu áratugi hef ég séð, að framburður Jöklu, sem nú hefur verið drekkt í Hálslón, og framburður Kringilsár, sem er þverá hennar, er gerólíkur, því að framburður Kringilsár er svartur og mun grófgerðari.
Samt koma báðar árnar undan sama skriðjöklinum, Brúarjökli.
![]() |
Hættustigið gæti varað vikum saman |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.8.2014 | 19:43
Eyjafjallajökull tók sér 11 ár. Hvað gerir Bárðarbunga?
1999 komu skjálftahringur í Eyjafjallajökli og í gang fór svipað atferli og núna, undirbúningur fyrir að gos yrði í jöklinum.
Nokkrum sinnum eftir þetta endurtók þetta sig og ýmsum fannst viðbrögðin við þessu mjðg ýkt, líkt og að jarðvisindamenn og aðrir væru að finna sér vinnu.
Svo kom innskotið inn í Fimmvörðuháls með ferðamannagosi og í kjölfarið gosið í Eyjafjallajökli sem truflaði samgöngur um allan heim.
Enginn veit hvort Bárðarlbunga er að gera eitthvað svipað nú. En í ljósi reynslunnar eru aðgerðirnar núna réttmætar og ætti ekki að þurfa að deila um þær.
Grímsvatnagosið ári seinna vakti meiri athygli en ella vegna þess sem gerst hafði árið áður.
Nú þarf fjölmiðlafólk víða að úr heiminum að læra enn eitt nýtt orð: Bárðarbunga.
Á Sauðárflugvelli í dag varð ég að stunda framburðarkennslu til að nýsjálensk fréttakona Al-Jazeera gæti borið nafnið rétt fram, og í ljós kom, að nafnið Kverkfjöll var enn erfiðara fyrir hana en nafn Bárðarbbugu, en óhjákvæmilegt að nefna Kverkfjöllin líka, enda blöstu þau við frá flugvellium og rétt suðaustan við hann þar sem hún stillti sér upp til að segja frá því að bak við hana væri norðurjaðar Vatnajökuls, stór eldfjöll í honum og sjá mætti öflugar jökulsár renna frá jökulsporðinum á bak við hana.
![]() |
Berggangur að myndast undir jökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.8.2014 | 17:04
Afrek Bárðarbungu allt frá suðurströndinni til norðurstrandarinnar
Nú sést að hinar sjóðandi heitu herdeildir Bárðarbungu sækja fram einn km á dag. Ef Það stæðu yfir réttarhöld yfir íslenskum eldstöðvum kæmi fljótlega í ljós að Bárðarbunga væri öflugasti mafíuforinginn.
Hún hefur í gegnum aldirnar byrjað að skjálfa og síðan hafa kvikustraumarnir streymt út frá henni til beggja átta og komið upp í eldstöðvum býsna langt frá upphafinu.
Þannig ollu eldstöðvar í kerfi Bárðarbungu sem ná allt suður undir friðland að Fjallabaki stórgosum árin 870 og 1480.
En magnaðasta gosið hefur sennilga verið það sem sendi hraun alla leið niður í Flóann. Þegar menn aka um Suðurlandsveg átta þeir sig ekki á því að þessi blómlega sveit stendur á hrauni sem Bárðarbunga ber ábyrgð á.
Hinum megin við Öxarfjörð er sandströnd sem að stórum hluta er mynduð af hamfaraflóðum vegna eldgosa undir jökli sem Bárðarbunga ber líka ábyrgð á.
Jarðfræðilegir leynilögreglumenn hafa nú afhjúpað þetta og það er ekki lítill ,,afrekalisti" sem Bárðarbunga er á.
![]() |
Kvikan færist um einn kílómetra á dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (35)
19.8.2014 | 23:11
Bárðarbunga og Leirhnúkur: suður eða norður?
Leirhnjúkur við Kröflu minnir um margt á Bárðarbungu. Hann er í miðju kerfis sem liggur í gegnum hann og er mikill sprungusveimur og röð eldgíga.
Í fjórtán umbrotahrinum 1975-84 var stóra spurningin ævinlega hvort kvikan, sem var að þrýstast upp á yfirborðið, kæmi beint upp við Leirkhnjúk eða hlypi annað hvort í suður eða norður.
Einkum óttuðust menn hlaup í suður um svæði, sem í eru Bjarnarflag, Kverkfjall og gígaröðin Lútentsborgir.
Níu sinnum kom kvika upp og sem betur fór kom aðeins einu sinni kvika í suður. Það var líkast til minnsta eldgos í heimi því að glóandi hraunmylsnan kom upp um rör í Bjarnarflagi og dreifðist um hundrað metra svæði.
Við Bárðarbungu er sama spurningin, kvikan getur sýnst vera að fara í aðra áttina en fer svo allt í einu í hina.
Nú hrúgast inn erlendir fjölmiðlar á höttunum eftir myndum af Báraðarbungu og umhverfi hennar og hef ég orðið var við það.
Erlendu fjölmiðlarnir vita svo lítið um málið allt að það væri algerlega fráleitt að einhverjum þeirra dytti í hug að spyrja hvort kvikan fari í suður eða norður.
![]() |
Fjallað um Bárðarbungu erlendis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
19.8.2014 | 17:18
Yfireldstöð Íslands.
Ef eitthvert íslenskt eldfjall ætti að fá "starfsheitið" yfireldstöð Íslands er það Bárðarbunga. Það er ekki vegna þess hve eldfjallið er umfangsmikið og um leið annað hæsta eldfjall landsins, heldur fyrst og fremst fyrir það hvernig hún virðist stjórna fjölda eldstöðva í kringum sig á um 200 kílómetra löngu svæði og láta þær framkvæma hið ógnvekjandi vald sitt.
Hún minnir á býflugnadrottningu í búi sínu eða bara einhverja af frægum drottningum í mannkynssögunni eins og Kleópötru, Elísabetu 1 eða Katrínu miklu, - allt snýst í kringum hana og allir fara eftir því sem hún skipar fyrir.
Hún er eldstöðvahershöfðinginn sem skipar kvikubrynsveitum sínum fyrir og sendir þær í mkla leiðangra.
1996 sendi hún eimyrjukvikuinnskot í suður í átt til Grímsvatna og úr varð Gjálpargosið með sínu mikla hamfaraflóði sem fór í gegnum Grímsvötn.
Nú sendir eldstöðvadrottningin eldspúandi herdeildir sínar neðanjarðar í tvær áttir, í átt til Dyngjuháls og í átt til Kverkfjalla í stað þess að spúa eimyrjunni sjálf þar sem hún kemur upp.
Og allir bíða með öndina í hálsinum. Því að Bárðarbunga ætlar að gera 21. öldina að sinni öld með því að nýta sér þá léttingu og eins konar tómarúm sem hnignun Vatnajökuls skapar.
Það er búið að vera stórkostlegt undanfarna daga og vikur að sveima í kringum drottninguna, sem vekur svona óttablandna virðingu með því að deila og drottna meðal eldstöðvanna í kringum sig án þess að hafa sig sjálf í frammi nema með því að láta alla skjálfa á beinunum.
![]() |
Sjáðu Bárðarbungu í beinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 11.10.2014 kl. 17:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)