Færsluflokkur: Bloggar

Bara eitt dæmi af mörgum.

Ósjálfbærar veiðar á hrynjandi lundastofni eru fjarri því að vera einsdæmi hér á landi. Á harðindaöldum Íslandssögunnar átti fólk ekki annars kost en að stunda rányrkju á ýmsum sviðum þegar lífsbaráttan snerist um það að lifa af næstu daga eða vikur. ´

Sá tími er hins vegar löngu liðinn, sem betur fer, en því miður lifir rányrkjuhugarfarið enn góðu lífi.

Fyrir 20 árum fjallaði ég í fréttum og sýndi myndir af stórri bújörð í útjaðri höfuðborgarsvæðisins þar sem stunduð var skefjalaus ofbeit hrossa.

Í vor kom ég aftur á þetta svæði og sá, að það er enn verr útleikið nú en það var fyrir 20 árum.

Rányrkja á borð við þessa hroðalegu meðferð á landi er ekki aðeins siðlaus og oft á kostnað komandi kynslóða, heldur er hún beinlínis skaðleg og heimskuleg fyrir núlifandi fólk, því að nauðbeitt land, sem er orðið flakandi sár, gefur aðeins brot af sér miðað við land, sem vel er farið með.

Fyrir 20 árum var það afsökun að Landgræðslan hefði engin úrræði lögum samkvæmt til að grípa í taumana, ólíkt við Hafrannsóknarstofnun, sem getur gripið í taumana vegna brota á fiskveiðilöggjöfinni.

Á þessum 20 árum hafa sjö sinnum verið kjörnir þingmenn án þess að Alþingi hreyfi hönd né fót til umbóta á ónýtri löggjöf.  


mbl.is Siðlausar og ósjálfbærar veiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófið þið að aka Votmúlaveg.

Í fréttum gærdagsins mátti heyra formann fjárlaganefndar Alþingis fagna lækkun skatta og hallalausum fjárlögum. Fréttir eru fluttar af betri afkomu sveitarsjóða viða um landið. Góðar fréttir en samt ekki algóðar. 

Hið síðarnefnda, minni útgjöld, getur gefið tekjur af sér ef það getur lækkað skuldir ríkissjóðs og sveitarstjóða þar með vaxtabyrði opinberra sjóða.

Hann það þarf þá líka að geta þess, hvað skattalækkun og samdráttur í útgjöldum ríkissjóðs og sveitarsjóða getur leitt af sér.

Ágætis myndrænt dæmi má sjá á myndum af þjóðvegum landsins, ekki bara í dreifbýli heldur jafnvel líka í þéttbýli.

Ég hef aldrei í meira en sextíu ár séð verra ástand malarvega en nú. Enda mun það stafa af því að þriðjung vantar upp á að vilhaldsfé veganna nægi til þess að anna því verkefni.

Ég ók til dæmis nýlega Votmúlaveg, sem liggur meðfram Selfossbæ, og get ekki ímyndað mér að sparnaður felist í því að etja bílum á það dæmalausa stórþvottabretti af samfelldum kröppum og djúpum holum.

Það er að vísu mjög gott bílaverkstæði við veginn á Ljónsstöðum, en bræðurnir þar hafa alveg nóg af verkefnum án þess að unnið sé að því að láta bílal lemjast í sundur á vegunum í Flóanum og á Selfossi.

Ég tek þetta bara sem nærtækt dæmi en þetta er svona úti um allt land.   


mbl.is „Þetta er ekki fólki bjóðandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hundar Pavlovs og besta stemningin.

Á þessari bloggsíðu hafa hundar Pavlovs stundum verið nefndir sem samlíking við það hvernig stundum verður tll þensla hér á landi bara við það eitt að skrifað er undir samninga um stóriðju- og virkjanaframkvæmdir, þótt framkvæmdirnar byrju kannski ekki fyrr en ári síðar. 

Þetta byggisgt á því að hundarnir fengu nógu oft gott að éta jafnframt því sem eitthvað annað, orð eða gerningur fylgdi með, tengdu þeir smám saman þetta tvennt saman, þannig að þeir fóru að slefa við það eitt að heyra orðið, þótt enginn kjötbiti fylgdi með.

Þegar ég var í menntaskóla þurftum við nemendurnir ekki mikið til þess að fara að hlæja og fyndni og grín var sjálfsprottið. 

Síðan liðu árin og þegar við hittumst á fimm ára fresti varð maður var við það að gamla sjálfsprottna grínið, glensið og hláturinn hurfu smám saman.

Maður fór að efast um það að við hefðum verið eins skemmtileg og hláturinn eins mikill og hann virtist hafa verið í minningunni.  

Síðan gerðist það í lautarferð á 45 ára afmælinu að hópur af körlunum settist sér niður í laut og teknar voru upp pyttlur og dreypt hressilega á, svo að menn urðu flestir vel hreyfir.

Brá þá svo við að menn urðu þetta litla skemmtilegir, spaugsyrðin og fyndnin leiftruðu sem og tilheyrandi hlátrasköll.

Já, við höfðum þá greinilega verið svona fjörug, fyndin og skemmtileg á menntaskólaárunum.

Það sem hafði breyst var að með árunum vöndust flestir þeirra, sem tóku sig saman um að setjast niður út af fyrir sig til að dreypa á víni og verða vel hreifir, á það að það væri ekki fyrr en búið var að komast á ákveðið vímustig að skemmtilegheitin fóru að lifna og dafna. 

Áfengið var hliðstæða orðanna, sem fengu hunda Pavlovs til að slefa áður en nokkur kjöt sást.  

Hjá áfengissjúklingum er þetta komið lengst og þeim finnstl að þeir verði helst að lenda á hressilegu fylleríí og æ meira fylleríi eftir því sem árin líða, til þess að verða nógu skemmtilegir, fyndnir og "hátt uppi".

Margir alkanna hafa lýst því hvernig svona ölvun var með árunum orðin að leiðinlegri kvöð og drykkjan orðin hundfúl þegar þeir voru orðnir langt leiddir af áfengisfíkninnni, auk þess sem þeir mundu ekkert eftir því þegar rann af þeim, hvað hafði verið svona skemmtilegt.

Þessu lýsti Flosi Ólafsson óborganlega í ræðu eftir að hann gerðist "þorstaheftur" og mín reynsla í 56 ár er sú, að það er auðveldara að skemmta edrú fólki en því sem ekki verður almennilega móttækilegt fyrr en á 3ja - 5. glasi.

Á hefðbundnum kvöldsamkomum Íslendinga er það stundum ekki nema innan við klukkustund um kvöldið sem bestur hljómgrunnur næst. Ef skemmtiatriðið er fyrr, er fólkið ekki komið í stuð, og ef það er á eftir þessari gullnu klukkustund, sem þarf að ná til fólksins með skemmtiatriði, er að það komið yfir strikið og farið að verða leiðinlegt.

Þetta hefur verið eitt helsta viðfangsefnið við að hitta á réttu stundina í 56 ár, en hefur raunar skánað aðeins hin síðari ár eftir að neysla sterkra vína hefur minnkað.  

Edrúfólkið er hins vegar jafn móttækilegt allt kvöldið.

Þegar ég hef þurft að raða niður á kvöldið stöðum, sem ég kem fram á, hafa "fylleríssamkomurnar" því oftast notið forgangs varðandi það að hitta á bestu stundina, en samkomur sem hafa verið meira edrú teknar annað hvort fyrr um kvöldið eða síðar um kvöldið.  

 


mbl.is Miklu skemmtilegra án áfengis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Svo mikið erlendis."

Eitt af orðtökum Björgvins Halldórssonar varðandi það sem er á heimsmælikvarða á Íslandi er að lýsa því þannig, að það "sé svo mikið erlendis". Merking setningar Björgvins hefur reyndar orðið víðari með árunum. 

Ég ók í gegnum gamla miðbæinn í gær og fannst það "svo mikið erlendis", þekkti ekki kjaft, því að ég sá ekkert nema útlendinga.

Stundum gerast svona breytingar svo hratt að maður áttar sig ekki á þeim fyrr en í einu vetfangi einn daginn.

Ég áttaði mig til dæmis ekki á hlut útlendinga og þá einkum Póverja í þjóðlífi okkar og efnahagslífi fyrr en dag einn fyrir mörgum árum, þegar ég kom niður að Patreksfjarðarhöfn eftir að langur tími hafði liðið síða ég kom þangað síðast.

Mig rak í rogastans þegar ég áttaði mig á því að ég hitti engan innfæddan Íslending við höfnina í þetta sinn. Og þá skildi ég gamansöguna af því þegar kennari einn fyrir vestan spurði nemendur í einum af efri bekkjum grunnskólans þessarar spurningar: "Hver eru mest verðmæti Íslands".

Eftir alllanga þögn lyfti stúlka aftarlega í bekknum upp hönd.

"Já, hver eru mestu verðmæti landsins okkar?" endurtók kennarinn. 

"Pólverjarnir" svaraði stúlkan.  


mbl.is Breytt ásýnd miðborgar Reykjavíkur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað þarf margar kynslóðir til að breyta?

Um daginn sá ég að karl einn kvartaði yfir því í netmiðli að vegna þess hve konum hefði fjölgað í háskólanámi og vegna þess að meirihluti þeirra, sem lyki háskólaprófi, væru konur, væru konur með þessu framferði sínu að "verðfella háskólanám". 

Rétt eins og að konur hefðu "verðfellt" kennarastörf, gjaldkerastörf og fleiri störf með því að flykkjast í þau, drægju þær nú niður heilu langskólagengnu stéttirnar með því að hasla sér þar völl og ná góðum árangri! 

Heyrið þið nú aðeins!  Á maður að trúa því að tæpri öld eftir að konur fengu kosningarétt og tæpum 40 árum eftir kvennafrídaginn sé enn í fullu fjöri svona hugsanagangur?

Meðan hann viðgengst mun ekkert þokast í átt til þess að réttlæti og jafnræði fái að ríkja kjaramálum og hvers kyns mannréttindamálum. Áfram verði aðeins spurt um kyn, uppruna, þjóðerni, litarhátt og trúarbrögð en ekki um mannkosti, menntun eða framlegð þegar ákveðið verði um kjör, aðstöðu, reisn og virðingu. 

Þar skuli áfram tróna sem eins konar forréttindahópur hvítir íslenskir kristnir miðaldra karlmenn komnir með smá ístru og búnir að koma sér í aðstöðu til að græða á daginn og grilla á kvöldin og hafa völd og áhrif.   

Það hefur stundum verið sagt að það þurfi nýja kynslóð eða jafnvel tvær til að breyta rótgrónum fordómum. En hvað þarf margar kynslóðir til að breyta því hugarfari sem tekur því sem lögmáli að hvar sem konur hasla sér völl "verðfelli" þær viðkomandi starfsgrein eða vettvang? 

Fyrir 22 árum setti ég í söngtexta þessa hendingu um íslensku konuna: "Hún enn í dag fórna sér endalaust má".

Sú hending var sett inn til umhugsunar um hlutskipti margra kvenna og von um að einhver breyting þar á. Því miður miðar grátlega seint í því efni.   


mbl.is Karlaklúbburinn í tekjublaðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleiki tilgangslausra styrjalda.

Heimsstyrjöldin fyrri sem hófst fyrir réttum 100 árum var ekki aðeins einhver tilgangslausasta styrjöld sögunnar heldur voru mannfórnir hennar oft á tíðum fáránlegar. 

Þannig gerðist það oft þegar fótgönguliðum tókst að komast einhverjar vegalengdir í stórárásum stríðins eins og við Somme og Verdun, án þess að óvirnirnir gætu sallað þá alla niður með vélbyssum sínum og rifflum nægilega fljótt, að framsókn þessara hermanna kom þeim sjálfum í koll þegar þeir hlupu inn í stórskotahríð eigin stórskotaliðs að baki þeim og voru stráfelldir af landsmönnum sínum.

Hersveitirnar, sem byrjuðu að marséra þennan dag fyrir öld í þáttökulöndum stríðsins voru kvaddar með gleðisöngvum og uppörvandi hrópum þjóða, sem hver um sig hélt að sigurför sinna manna yrði lokið með glæstum sigri fyrir jól. 

Það er ógleymanlegt hverjum, sem það hefur fengið að upplifa, að ganga um grafreitina endalausu við Verdun og gera sér í hugarlund líf og sögu allra þeirra milljóna ungra hermanna, sem voru murkaðir niður í stríði, sem gerði ekkert annað en að kveikja neista og eldsmat fyrir enn verra framhaldsstríð tuttugu árum eftir lok stríðsins, sem átti að binda enda á allar styrjaldir.

Millistríðsárin voru aðeins ígildi leikhlés í knattspyrnuleik eftir fyrri hálfleikinn, og síðari heimsstyrjöldin ígildi seinni hálfleiks, sem leysti raunar ekki úr vandamálunum, sem skópu þennan mikla ófrið, heldur tók Kalda stríðið við eins og framlenging og árin eftir það eins og vítaspyrnukeppni. 

Kalda stríðið kostaði tugi milljóna manna lífið, ekki aðeins í Kóreustríðinu, Vietnamstríðinu og fleiri styrjöldum um allan heim, heldur einnig í ofbeldi Maós, Rauðu Kmeranna og ýmissa harðstjóra og einræðisherra, sem stóðu fyrir fjöldamorðum og "hreinsunum".   


mbl.is 8 börn meðal látinna á Gaza
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hlýnunin sem hvarf." "Loftlagsbreytingar eru blekking."

Í hvert skipti sem það kemur fram í fréttum að hver mánuðurinn af öðrum sé hlýrri en í meðalári, að hiti sjávar fyrir norðan land sé með því hæsta sem sést hefur, að íslenskir jöklar minnki jafnt og þétt, að Kínverjar og Rússar séu að seilast hér til áhrifa og valda vegna minnkandi íss og þar með aukinna umsvifa á heimsskautssvæðinu, og að hlýrra veðurfar hafi stórfelld áhrif á gróður á landinu og lífríki sjávarins, rekur hópur manna upp ramakvein og afneitar þessu öllu. 

Ég hef kosið að kalla þessa menn "kuldatrúarmenn". Þeir trúa því að síðustu 14 ár hafi ekki verið hlý heldur köld. "Hlýnunin sem hvarf" er yfirskrift pistils eins þeirra. Og annar skrifar: "Loftslagsbreytingar eru blekking."

Þessir menn virðast trúa því statt og stöðugt að breytingar á hafís og jökulís á Grænlandi séu lygar einar. Að makríllinn hafi sótt hingað norður Íslands fyrir misskilning.

Þeir virðast trúa því að gróður landsins þjóti nú upp í skjóli blekkingar, - gróður, fiskistofnar og íslenskir jöklar láti vonda vísindamenn plata sig, því að í gangi séu hagsmunapot og gróðasjónarmið þeirra, sem hafa með rannsóknum sýnt fram á hlýnunina og afleiðingar hennar og lifi á þessu starfi og því að halda fyrirlestra um niðurstöðurnar.

Í fyrra sögðu þeir að það ár hefði verið kuldaár hér á landi því að ef hlýindin í janúar og febrúar hefðu verið dregin frá í útreikningi meðaltalsins, hefði árið ekki orðið hlýrra en í meðalári. Sem sagt: Kalt ár. 

Samkvæmt þessu stöndum við frammi fyrir því að draga að minnsta kosti allan fyrri hluta ársins í ár frá í útreikningunum til þess að eiga von um að árið 2014 verði kuldaár.

Tengdadóttir mín segir frá því í afmælisboðum að undanfarnar vikur hafi verið eindæma hlýindi í Nuuk, þar sem hún hefur dvalið. 20 stig dag eftir dag. Ekki orð að marka hana né það að hitinn hefur verið um 30 stig í gervallri Skandinavíu að undanförnu. 

Þegar dregin er heil lína í gegnum meðalhitatölur hér á landi síðan um 1850 koma fram sveiflur, sem sumar hafa staðið í allt að aldarfjórðung, en heila línan í gegnum meðaltalssveiflurnar hefur samt hækkað allan tímann, botnanir á niðursveiflunum orðið sífellt hærri og sömuleiðis topparnir á uppsveiflunum.

Aumingja Trausti Jónsson veðurfræðingur hefur glapist til að birta þessar tölur og línur unnar úr þeim og verður fyrir bragðið að teljast ómarktækur, vegna þess að hann hefur atvinnu af því að vinna úr veðurfarstölum og gögnum á Veðurstofunni.

Ekkert fær haggað kuldatrúnni og trúnni á dýrð þess að breyta helst engu í bruðlinu með olíu, gas og kol, stórfelldustu rányrkju í sögu mannkynsins. Enda gríðarlegir hagsmunir bruðlaranna og stórfyrirtækjanna í húfi.  

 


mbl.is Byggir verk á loftslagsbreytingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Var ekki erfitt að finna vesalings manninn?

Í frétt frá Landhelgisgæslunni, sem allar fjölmiðlar lepja upp án þess að kanna málið, er sagt að þyrla landhelgisgæslunnar hafi sótt veikan mann "í rútu við Dyngjuháls norðvestan við Kárahnúka."

Í fréttinni kemur fram að einnig var farið á þyrlunni að skálanum við Drekagil hjá Öskju og veiki maðurinn í sömu ferð sóttur í rútuna á Dyngjuhálsi. 

Þetta er stutt flugleið en fráleitt að fara að blanda Kárahnjúkum í málið, því að þessi staður er á Kverkfjallaleið rúma 20 kílómetra fyrir sunnan Möðrudal, en stystu aksturleiðir til Kárahnjúka er miklu lengri og torfærari, sú syðri um Álftadal er um 45 kílómetrar en hin nyrðri um Þríhyrningsdal enn lengri.

Auk þess er Kverkfjallaleið afar greiðfær á þessum kafla og varla meira en 20 mínútna akstur til Möðrudals og umferð um hana margfalt meiri en leiðirnar vestan við Kárahnjúka.

Annar Dyngjuháls er á Gæsavatnaleið milli Kistufells og Trölladyngju, en frá Kárahnjúkum að honum eru um 75 kílómetrar í loftlínu og 130 kílómetrar á landi, og því er hann varla inni í því púsluspili að skilja þessa frétt og það ruglaði mig meira að segja þegar ég fór að kafa ofan í hana fyrst, svo að ég hef orðið að kanna málið betur og skrifa þennan pistil upp að nýju að hluta. 

Bið ég þá sem sáu þessa fyrstu færslu velvirðingar á því.  

Þegar sagðar eru fréttir af slysum, virðast þeir sem senda þær frá sér oft líta snöggt á kort og velja af handahófi örnefni nálægt slysstaðnum, en fyrir bragði oft velja afar misvísandi stað.

Þannig var í fyrstu sagt um dauðaslys í Eldhrauni að það hefði orðið við Hrífunes. Það var fráleitt, því að næsti bær við slysstaðinn var Ásar, en Hrífunes er hinum megin við þriðja vatnsmesta fljót landsins, Kúðafljót, miklu lengri akstursleið og kemur slysstaðnum því ekkert við.    

Sá, sem segði frá slysi á Krýsuvíkurleið fyrir sunnan Hafnarfjörð myndi varla detta í hug að segja að það hefði orðið fyrir norðvestan Þorlákshöfn. 

Sagt var 2010 að fólk hefði týnst í bíl við Fimmvörðuháls þótt hið rétta væri að fólkið týndist á Fjallabaksleið syðri hinum megin við Goðaland, Þórsmörk, Almenninga og meginfljótið Markafljót. 


mbl.is Þyrlan sótti tvo veika menn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafnið og bílgerðin fara ekki alltaf saman.

Í byrjun þetta: Það er villandi þegar sagt er að Ford Fiesta sé mest seldi breski bíllinn með rúmar fjögur milljón eintök. Mini var seldur í 5,5 milljón eintökum. En ef til vill hefur Fiesta komist fram úr Mini hvað snertir seld eintök þar í landi, því Mini var fluttur út til margra landa. 

En Mini var óbreyttur alla sína framleiðslutíð en Fiesta var fljót að breytast svo mjög með árunum að að hugsanlega er ekki einn einasti hlutur í bílnum nú hinn sami sem var í fyrsta bílnum, sem var miklu minni og hálfu tonni léttari.

Þetta rugl stafar af því að af og til skjóta upp kollinum fréttir um sölutölur bílgerða og samanburður á þeim sem geta oft ruglað lesendur mjög í ríminu vegna þess að bílgerðirnar eru oft skilgreindar á mismunandi hátt.

Síðustu árin hefur svona ruglingur færst í aukana. Best er að nefna dæmi, sem útskýra málið.

Það er almennt viðurkennt að engin bílgerð í sögunni hafi verið framleidd í fleiri eintökum en Volkswagen Bjallan, eða alls rúmlega 21 milljón.

Í öðru sæti hefur verið Ford T í rúmlega 15 milljón eintökum og Renault 4 í þriðja sæti með rúmlega 8 milljón selda bíla.

En síðan hafa komið fréttir um að ýmsar gerðir bíla hafi jafnvel selst meira. Meðal þeirra eru Toyota Corolla sem hefur verið framleidd í bráðum 40 ár og sagt er að hafi selst í 40 milljón eintökum.

En Corolla er dæmi um bíl sem er alls ekki sambærilegur við þá þrjá bíla, sem voru nefndir hér að ofan.

Bjallan, Ford T og Fjarkinn voru allir sömu gerðar frá upphafi til enda hvað snerti helstu tæknileg atriði.

Bjallan var með sams konar loftkældar boxaravélar að aftan alla tíð, með snerilstangir að framan og aftan nema mjög lítill hluti, sem hafði gorma að framan (gerðir 1301 og 1302 sem var 3 sentimetrum lengri). Fjölmargar smáar endurbætur eins og stækkaðir gluggar og farangursgeymsla og hækkuð þjappa og aukin borvídd vélar breyttu engu um það að þetta var ótrírætt sami bíllinn frá 1948 þar til síðasti bíllinn rann af færibandinu í Mexíkó árið 2000 með sömu boxaravélina, snerilfjaðrirnar og hjólhafið.

Sporvídd var aukin í áranna rás án þess að breikka bílinn.  

Svipað var að segja um Ford T, -  vél, driflína og fjöðrun, hjólhaf og sporvídd ávallt sú sama, en fiktað við yfirbyggingu, glugga og hurðir og vélarhús. Hestöflin voru meira að segja alltaf hin sömu, 20, og hámarkshraðinn 72 km/klst. 

Renault 4 var minnst breytt af þessum þremur, framhjóladrif, girkassi og drif fremst í bílnum en vélin þar fyrir aftan og ávallt af sömu gerð og hafði verið frá árinu 1946, fyrst í Renault 4CV.

Og útlitslega hvað snerti glugga og yfirbyggingu var Fjarkinn algerlega óbreyttur frá upphafi og einnig bæði hjólhaf og sporvídd.

Fyrsta Corollan árið 1966 og 11. kynslóðin 2013 eiga ekkert sameiginlegt nema nafnið. Fyrsta Corollan og næstu kynslóðir þar á eftir voru með vél langsum frammi í og afturdrif, en síðari kynslóðir eru með Mini-uppsetningu, vél, gírkassi og drif frammi í og þversum, og bíllinn er orðinn miklu stærri á alla kanta og allt að 60% þyngri. 

Það er alveg háð duttlungum framleiðenda hve lengi þeir hanga á sama nafninu á söluvöru sinni, þótt búið sé að gerbreyta henni eða hvort þeir breyta jafnvel nafninu á bílgerð, sem er samt í grunninn sú sama og í upphafi. 

Tvö dæmi: 1972 var byrjað að framleiða Fiat 500 með breyttri yfirbyggingu ofan á óbreyttum botni, vél og driflínu. Nýja gerðin hlaut nafnið Fiat 126. Samanlagt voru framleiddir rúmlega átta milljón bílar með þessari grunngerð.

Annað dæmi er enn stærra: 1966 kom Fiat 124 fram á Ítalíu og á árunum á eftir var þróaður upp úr honum Fiat 125, sem var í grunninn alveg sami bíll en með 10 sentimetrum lengra hjólhaf og stærri vél. Upp úr þessum bílum voru síðan þróaðir bílar sömu gerðar í mörgum löndum, til dæmis Fiat 125 í Póllandi og Lada Nova í Rússlandi, sem var bara rússneskur Fiat 124.

Þegar framleiðslutölur þessara bíla allra eru lagðar saman fer þessi bílgerð fram úr Ford T.  

 

 

 


mbl.is Fiesta mest seldi bíll allra tíma í Bretlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Koma varnarliðsins hingað 1951: Hér var garðurinn lægstur.

Ein helsta röksemd íslenskra ráðamanna 1951 fyrir því að fá varnarlið til Keflavíkurflugvallar var sú að hugsanlegur árásaraðili myndi frekar ráðasta á garðinn hjá NATO-þjóðum þar sem hann væri lægstur en þar sem hann væri hæstur. 

Og garðurinn væri lægstur á Íslandi.

Ein algeng röksemd fyrir því að við Íslendingar eigum alls ekki að skipta okkur á neinn hátt af deilunum í Miðausturlöndum er sú að með því séum við að hætta á að vera látnir gjalda fyrir það á einn eða annan hátt sem þátttakendur í deilunum.

Sumir þeirra, sem halda þessu fram, töldu hins vegar sjálfsagt vorið 2003 að við skipuðum okkur í hóp hinna viljugu þjóða til að gera innrás í Írak á forsendum, sem reyndust rangar.

Þegar Thor Thors var valinn til að mæla fyrir tillögu hjá Sameinuðu þjóðunum um skiptingu Palestínu í tvö ríki, urðum við frá upphafi tengdir því máli og getum ekki þvegið það af okkur.

Fyllilega rökrétt var því að vera í forgöngu í okkar heimshluta um það árið 2011 að það sé ekki aðeins annað þessara ríkja, heldur bæði, sem séu sjálfstæð og jafn rétthá og fylgja því eftir, sem við lögðum til 1948, að bæði Ísrael og Palestína njóti sjálfstæðis.

En því fer fjarri að þannig sé það nú.  


mbl.is Hvers vegna Noregur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband