Færsluflokkur: Bloggar

Baráttan er töpuð. Tvö ráðuneyti geirnegla orðalagið "bílvelta varð."

Fjölnismenn og fleiri börðust við svonefndan "kannsellístíl" í málfari sem danska stjórnsýslan innleiddi svo rækilega á fyrri hluta 19. aldar, að við glímum enn við þennnan draug sem nú er orðinn íslenskur. 

Eitt af einkennum þessa stíls er að flækja orðalag sem mest og lengja textanna sem mest með því að hlaða upp sem flestum löngum og flóknum nafnorðum og heitum en útrýma sagnorðum.

Það þykir fínt, er "in" og sýnir menntun og miklar gáfur í stað þess að orða hlutina á mannamáli.  

"Það hefur orðið neikvæð fólksfjöldaþróun á Vestfjörðum" sagði þingmaður einn og notaði 16 atkvæði í stað þess að orða þetta í 10 atkvæðum: "Fólki hefur fækkað á Vestfjörðum". 

Lítið dæmi um þetta mátti heyra undir lok frétta á Ríkisútvarpinu nú í hádeginu. "Bilvelta varð" sagði fréttamaðurinn. 

Um  leið og fréttunum lauk kom pistill frá Samgöngustofu sem hófst á því að sagt var strax í fyrstu setningunni "það varð bílvelta."

Svo mikið virtist liggja við á vegum menntamálaráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins, að sama örfréttin var sögð með stuttu millibil með því að nota fjögur atkvæði í stað tveggja og segja einfaldlega: "Bíll valt."

Baráttan í þessu máli gegn nafnorðasýkinni er augljóslega töpuð. Gegn yfirþyrmandi valdi tveggja ráðuneyta, arftaka danska kansellísins, auk kranablaðamennsku frjálsra fjölmiðla dugar engin vörn.

Næst fáum við að heyra: "Fíkniefnafundur varð", "hnífsstunga varð","nauðgun varð" og "rigning varð", sannið þið til.  

 


mbl.is Fimmtán fíkniefnamál í Eyjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugsanleg síðdegisskúr = Morgunskýfall.

"Er ekki bíllinn opinn hjá þér?" spurði Helga mig á sjöunda tímanum í morgun. 

"Jú, og hvað með það? spurði ég á móti og sneri mér á hina hliðina, svekktur yfir því að vera vakinn úr fastasvefni upp úr þurru. 

"Það rignir" svaraði hún.

"Getur ekki verið", umlaði ég í svefnrofunum. "Ég var að gá út fyrir korteri og það er þurrt og spáð þurru næstu daga".

"Hlustaðu" sagði hún.

Ég hlustaði. Hvert þó í þreifandi!  Það buldi regn á rúðunum! Billinn galopinn! Að sjálsögðu. Spáin hafði verið "fínasta veður um helgina." 

Ég hentist í buxur og yfirhöfn utan yfir náttfötin á mettímaog þau út í skýfallið fyrir utan. Rigningin dansaði á malbikinu svo að stórir droparnir hentust upp í loftið eins og bílaplanið væri sjóðandi hverasvæði.  

Sjá myndir á facebook síðu minni.  

Ég varð gegnvotur við að setja seglið yfir bílinn og vatt margar tuskur af vatni af sætunum í bílnum til að reyna að þurrka þau. 

Veðurfræðingar eiga bágt þegar loftið er svalt um hásumar eins og nú.

Líka þeir sem treysta á þurrviðri og halda að það rigni bara 17. júní.  

En móðureyra konunnar bregst aldrei þótt börnin séu farin að heiman fyrir 30 árum, ekki einu sinni í fastasvefni.  


mbl.is Fínasta veður um helgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því minna "gistirými", því betra?

Það getur verið vandasamt að fá góðan svefn í tjaldi, hjólhýsi eða bíl, þar sem ekki er um að ræða neinn hita frá gististaðnum sjálfum. Mestu skiptir að vera í ullarfatnaði næst sér, jafnvel tvöföldum, og vefja sig inn í sem flest lög af fatnaði og ábreiðum.

Einföld húfa sem er hægt er að binda vel eða festa eða jafnvel lambhúshetta er mjög stórt atriði, því að halda þarf kulda frá höfðinu öllu og þó sérstaklega hnakkagrófinni.  

Þegar maður sofnar fast, eins og nauðsynlegt er ef halda á fullu þreki alla útileguna, hægir á líkamsstarfseminni og þá getur manni orðið það kalt, að maður vakni upp hríðskjálfandi um miðja nótt.

Fyrr á árum gat ég alls ekki sofið nema láréttur og engan veginn sofið í bílsæti. Síðan fékk ég bakflæði og samfall í neðstu hryggjarliðum og þá er stellingin í afturhallandi bílsæti sú besta fyrir mig að ráði læknanna, þannig að með árunum sef ég ekki vel nema þannig.

Í áranna rás hefur safnast reynsla af því að sofa í bílum, og næsta óvænt niðurstaða hennar er sú, að því minni sem bíllinn er, því betur sefur maður.

Ég hef sofið best í allra minnstu bílunum, sem eru í umferð hér á landi.

Ástæðan er sú, að þegar rýmið er orðið svona lítið, helst hiti manns sjálfs betur inni í svo litlu rými en í stóru. Maður er jafnvel farinn að hita þetta litla innanrými upp og níðþröngur bíll að nálgast ígildi svefnpoka !  

Í björtu veðri er hitasveiflan milli dags og nætur mikil og það þarf að hafa í huga.

Að svo mæltu býð ég góða nótt.  


mbl.is Gæti orðið kalt að gista í tjaldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhjákvæmilegur fylgifiskur mannkynsins.

Svonefndar drepsóttir hafa verið förunautar eða fylgifiskar mannkynsins frá upphafi. Um miðja síðustu öld greip mikil bjartsýni um sig varðandi það að fyrir atbeina læknavísindanna myndi mannkynið geta losað sig að mestu við þetta böl. 

Súlfalyf og penesillín gerðu kraftaverk og þegar bólusetningar bættust við virtust berklar, mænusótt, mislingar, syfilis og margir fleiri sjúkdómar vera úr sögunni.

En undir lok aldainnar byrjaði þessi tálsýn að molna og þeir sem höfðu verið ungir og áhyggjulitlir á sjötta og sjöunda áratugnum, gátu tekið undir lýsingu Sæma rokks á þessum dýrðartímum, þegar hann var spurður, hvers vegna allt hefði verið svona frjálst, fjörugt og dýrlega á bestu árum hans:

"Þetta var eftir syfilis og fyrir AIDS", svaraði Sæmi.

Nú stendur yfir mikið kapphlaup ónæmra sýkla við ný sýklalyf, sem stefna í það að þurfa að vera svo öflug til að ráða við skæðustu veirurnar og sýklana, að þau sjálf hálfdrepa sjúklingana.

Sjálfur lenti ég í slíku fyrir sex árum.

Öll náttúra jarðar er undirorpin því lögmáli að hver lífvera lifir á öðrum lífverum, ýmist smáum eða stórum.

Svonefnd sníkjudýr eða hýslar lifa á stærri lífverum en þau sjálf, en þau skæðustu ganga oft svo hart fram að hýsillinn sjálfur drepst og þar með sníkjudýrið.

Og hugsanlega er maðurinn sjálfur að verða afkastamesta sníkjudýr jarðarinnar með því að ógna lífiinu á jörðinni með svo mikilli aðgangshörku, að hætta er á að hýsillinn, sjálft lífríki jarðar, líði undir lok eða stórskaðist.

Allt fellur þetta undir lögmál samkeppninnar í náttúrunnni, sem oft er háð upp á líf og dauða.

Í hugann kemur staka eftir Bjarna Ásgeirsson, sem hann orti á skömmtunarárunum eftir stríðið, þegar matvara á uppsprengdu verði var seld svörtum markaði á skömmtuðum vörum:

"Þar sem einn á öðrum lifir

efnihyggja verður rík.

Þess vegna kemst enginn yfir

ódýrt læri´í Reykjavík." 


mbl.is Krefst þess að konan fái lyfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er fyrir löngu búið að jafnast út.

Áratugum saman var klifað á því að verslunarmannahelgin væri langmesta ferðahelgi sumarsins og ekki bara það, heldur alveg sér á parti. 

Eina helgin, sem einstaka sinnum átti möguleika á að nálgast þessa helgi allra helga var hvítasunnuhelgin, en þá var stundum reynt að halda útisamkomur.

Síðan fór fyrsta helgin í júlí að komast á koppinn sem mikil ferðahelgi, og þá sem fyrsta stóra ferðahelgi sumarsins.

En smám saman hefur allt þjóðlífið breyst og má nefna margt í því sambandi.

Fólk fer meira til útlanda en áður var.

Bílaeign hefur stóraukist. Það er hægt að fara inn á bland og kaupa bíl fyrir 100 til 200 þúsund krónur og það á greiðslukorti.  

Sífellt fleiri eiga tjaldvagna, fellihýsi, hjólhýsi og húsbíla.

Æ fleiri eiga sumarbústaði.

Bæja- og byggðahátíðir eru um allt land allt sumarið og tugir þúsunda koma á sumar þeirra.  

Allt þetta og ýmislegt fleira hefur dreift umferðinni yfir allt sumarið.

Þess vegna liggur við að fjölmiðlarnir þurfi að kreista upp einhverja örtraðarumferð á vegunum þegar umferðin er jafnvel ekkert meiri en aðra daga sumarsins.

Æsingurinn er svo mikill í hástemmdum auglýsingarunum ljósvakamiðlanna að maður verður hreinlega þreyttur við að hlusta á það, einkum um þessa helgi allra helga.  

Það fer að koma tími til að hætta því að blása verslunarmannahelgina upp í þeim mæli sem enn er tíðkað.  

 


mbl.is „Það er bara engin umferð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvænt frétt: Ekið ofaníburð í veg og heflað.

Þegar ég þurfti um daginn að færa bíl frá Selfossflugvelli á verkstæðið Jeppasmiðju Ljónsstaðabræðra kom það mér á óvart að í stað þess að fara stystu leið um Eyrarbakkaveg og Votmúlaveg, hefðu verið mun skynsamlegra að fara hringleið um Selfossbæ og Vorsabæjarveg og koma að Ljónsstöðum austan frá. 

Ástæðan var sú að malarvegarkafli við Votmúla var ekki bílum bjóðandi.

Nú þekki ég vel Votmúlaveg frá fornu fari og hef fylgst með ástandai hans í áratugi. Smám saman hefur myndast stórt hvarf austan við bæinn Votmúla og á árunum eftir Hrun hefur ástand þess og malarvegarkaflans í heild farið hriðversnandi. 

Mér skilst að ekki hafi verið borið ofan í veginn í áratug og því orðið ómögulegt að halda honum við. Borið var við gömlum mælingum á umferð. 

Þegar ég kom að Ljónsstöðum í gær brá svo við að á þeim tíu dögum, sem liðnir voru síðan ég fór síðast um veginn, hafði verið borið ofan í hann, þar á meðal hvarfið "góða" og vegurinn heflaður.

Sem sagt: Gerbreyttur vegur. Ein af ástæðunum mun vera sú að fyrir mikinn þrýsting heimamanna hafi umferðin verið mæld, og þrátt fyrir arfa slæmt ástand vegarins kom í ljós að gömlu tölurnar voru rammskakkar og úreltar enda vegurinn inni í bæjarfélagi sem hefur vaxið ört með árunum.

Þetta er í fyrsta skipti á ferðum mínum um malarvegi landsins, allt frá ysta hluta Snæfellsness í vestri til Austurlands, sem ég verð vitni að svona aðgerðum og hvað það snertir, má segja að það sé frétt, ekki hitt hve illa malarvegirnir eru leiknir.

Sem sagt: Við Votmúla blasti það við að "hvarfið hvarf".

Sumir kunna að draga í efa fullyrðinguna um kynni af malarvegum landsins í meira en 60 ár. En ég fór á hverju sumri í sveit norður í landi allt frá árinu 1950 og frá árinu 1959 lágu tugþúsundir kílómetra á malarvegunum að baki á hverju sumri.

Vegirnir þá voru að vísu mjóir og krókóttir, en þeir voru aldrei eins holóttir og þeir hafa verið í sumar.

Það stoðar lítt að vegur sé beinn og breiður ef ökuhraðinn á góðri rútu er dottinn niður í 20 km/klst vegna ástands yfirborðs vegarins.

Og þess má geta að tölvustýrð fjöðrun á nýjustu rútunum ræður ekki við íslensku þvottabrettin, fjöðrunin stífnar upp og það verður stundum að fara með rútuna niður á gönguhraða.  


mbl.is Malarvegirnir hafa orðið útundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bráðum "kominn tími á" svæðið?

1480 urðu feiknarleg eldsumbrot á Landmannaafrétti og gaus á tuga kílómetra langri sprungu. Síðasta stórhrina af þessu tagi varð um 550 árum fyrr. 

Komi svona stórhamfarir með um það bil hálfs árþúsunds millibili þarna gæti verið "kominn tími á" þetta stórbrotna eldvirka svæði.

Það er svo margt sem er mest og stærst á þessum slóðum. Þar er stærsta askja landsins og mesta líparítsvæði landins, þar er stærsta hrafntinnuhraun landsins og þar er mestu jarðvarmaorkuna að finna.

Sé allt svæðið að Fjallabaki tekið með í reikninginn hafa orðið þar tvö stærstu hraungos á sögulegum tíma á jörðinni, Eldgjárgosið um 930 og Skaftáreldarnir 1783, Eldgjárgosið öllu stærra.

Frá þessu magnaða svæði hafa runnið hraun allt í sjó fram í Flóanum og niður í Meðalland.

Fjölbreytni eldstöðva og sköpunarverka eldvirkninnar er slík, að sjálfur Yellowstone þjóðgarðurinn bliknar í samanburðinum.

Hann er heilög jörð í augum Bandaríkjamanna og verður því aldrei snertur, en erfiðlega gengur að fá Íslendinga til að hugsa um svæðið að Fjallabaki öðru vísi en sem vettvang tuga virkjana.    


mbl.is Skjálftahrina í Torfajökli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórfréttirnar byrjaðar að streyma.

Á erlendu máli bera fréttir heitin news, nyheder o. s. frv, eitthvað sem er alveg nýtt, kemur á óvart eða breytir miklu. 

Fyrir "gúrkutíðina" hjá okkur kemur það sér oft vel að slík merking skuli ekki felast beint í orðinu "frétt".

Þar með eru árleg fyrirbæri eins og verslulanarmannahelgi, páskarnir eða jólin orðin að fréttum og allt sem þeim tilheyrir, Þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum, Ein með öllu og hvað þær nú heita allar samkomurnar og sami straumur fólks út frá höfuðborgarsvæðinu og verið hefur á sama tíma í áratugi.

En allt þetta verður að stórfréttum næstu daga. Það er frétt að umferð vaxi jafnt og þétt út úr þéttbýlinu fyrir þessa helgi, þótt hún vaxi raunar líka fyrir allar aðrar helgar í sumar en þyki ekki frétt þá. 

Lágmark að vera með beinar útsendingar og uppistönd við straum fólks og bíla.  

Veðurútlitið fyrir verslunarmannahelgina er svo fyrirferðarmikið í fréttum, að maður verður að hafa sig allan við til að finna út hvernig veðrið verður eftir helgina ef það eru einmitt dagarnir sem skipta mann máli.

Síðan verður það svipuð stórfrétt í lok þessara frídaga þegar straumurinn byrjar í átt til borgarinnar.

Á sínum tíma hafði maður ekki svo lítið fyrir því að taka þátt í þessu á fullu, fylgjast með því úr lofti og af landi sem fréttamaður og standa sig sem allra best, svo að það líður um mann vellíðan að vita að þessar sömu fréttir standa enn fyrir sínu, þótt ekkert nýtt sé í þeim, enda sem betur fer fyrir fjölmiðlana ekki þörf á því af því að íslenska heitið gerir kröfu til þess.    


mbl.is Umferðin farin að aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tregða til að sýna þjónustulund og öðlast viðskiptavild.

Hér í gamla daga þegar stór hluti vega- og gatnakerfisins, jafnvel stærstur hlutinn, var malargötur og malarvegir, þótti það sjálfsagt mál hjá olíufélögunum að bjóða viðskiptavinum sínum upp á aðstöðu til að þvo bíla sína. 

Á allra síðustu árum hefur hins vegar komið fram mikil tregða varðandi þetta og þarf sums staðar að leita og fara víða til að finna slíka aðstöðu.

Þótt augljóst sé að slík ókeypis aðstaða færi viðkomandi bensínstöð ekki peninga beint, af því að aðgangur hefur aldrei verið seldur að henni, hlýtur hitt að eiga að vega eitthvað, að það tákn um þjónustulund og jákvætt viðhorf gagnvart viðskiptavinum, sem aðstaða til bílþvottar er, skapar óbeinar tekjur þeirra, sem vilja skipta við fyrirtæki sem býður slíka aðstöðu.

Í allri samkeppni í verslun og þjónustu á að meta viðskiptavild til peninga, þótt það þurfi kannski ekki að vera hluti af stórfelldum blekkingum eins og slíkt mat var orðið í aðdraganda Hrunsins.  

Með hreinum ólíkindum má telja að á fjölförnum stað eins og Borgarnesi í héraði, þar sem enn eru margir malarvegir og þar sem tjara sest á bíla að vetrarlagi, skuli það teljast til tíðinda að opnuð sé bílþvottaaðstaða. Gott er að Olís ríður þar á vaðið öðrum til eftirbreytni. 

Það getur verið tafsamt fyrir bíleigendur að þurfa að aka fram og til baka um heilu borgarhlutana í Reykjavík til að finna, hvar sé boðið upp á bílþvott, loftdælu, ryksugu eða kaup á olíuvörum.  

Síðan er það efni í annan pistil að fjalla um skort á kurteisi og þjónustulund hjá allt of mörgu afgreiðslufólki í verslunum og fyrirtækjum á Íslandi, sem virðist telja það sjálfsagt að það komi fram hve illa það sé launað og hve lítilsvert starf þeirra sé með því að vanrækja höfuðatriði slíkra starfa, atriði sem maður sér svo vel, til dæmis í Bandaríkjunum, að er almennt metið mikils.  


mbl.is Geta nú þvegið bílinn í Borgarnesi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálft svar.

Stefán Eiríksson segir að hann hafi ekki sótt um og fengið annað starf en lögreglustjórastarfið vegna þrýstings frá inanríkisráðherra. 

Gott og vel, þetta svar má alveg taka trúanlegt.  

En þetta er ekki nema hálft svar, því að Stefán vill ekki ræða um það né svara því beint, hver samskipti hans og ráðherrans hafi verið, og ekki hvort hann hafði hvort eð er ákveðið að skipta um starf.

Þar með er því ósvarað hvort ráðherrann beitti hann þrýstingu á einhvern hátt, þótt úr svari Stefáns megi lesa að jafnvel þótt svo væri, hefði það engu ráðið um að hann sótti um annað starf.

Það er því eðlilegt að spurt sé um það og billegt að afgreiða málið allt sem "slúður". Eða var tölupósturinn frægi, sem kom þessu öllu af stað, ekki raunverulegur?


mbl.is Tryggvi krefur Hönnu Birnu um svör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband