Færsluflokkur: Bloggar

Hrun-hugsunarhátturinn sækir á.

Öll umræða um kjör og aðstæður í íslenskum þjóðarbúskap hefur tekið mið af hinum óeðlilegum kjörum sem þjóðin kom sér í áður en allt hrundi til grunna.

Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að græðgi og stundarhagsmunir sækja nú á og virðist engu skipta þótt bent sé á veilur í forsendunum, eins og þeim að framboð á gistirými vaxi miklu hraðar en straumur ferðamanna til landsins og að erlendis hafi menn farið flatt á þessu.

Í hádeginu heyrðist viðtal í útvarpi um bráða nauðsyn þess að sjöfalda laxeldi á Íslandi sem allra hraðast. Sagt var að þessi margföldun og ofsahraði vaxtarins væri "nauðsynlegur til þess að treysta innviðina" !

Og væntanlega til þess að tryggja að umhverfisáhrifin verði sem viðráðanlegust? 

Þessa speki heyrði maður líka á bankabóluárunum þegar Hannes Hólmsteinn og fleiri töldu nauðsynlegt að stækka bankakerfið þrefalt hraðar en gert var. Væntanlega til að treysta innviðina betur.  

Þegar búið er að spenna bogann allt of hátt verður fallið þeim mun meira sem gassagangurinn var meiri.

En á hrunmáli heitir það að treysta innviðina. 

 


mbl.is Geri ekki sömu mistök og Tékkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þröngsýni eða víðsýni, minjar eða smekkleysa?

Ævinlega þegar valdaskipti verða koma upp raddir um að afmá sem mest af því sem fyrri valdhafar hafa komið í verk og fellur ekki í kramið hjá þeim, sem náð hafa völdum í það og það sinn. 

Við sjáum fullt af þessu í nútíð og fortíð.

Af og til kemur upp umræða um það að taka danska konungsmerkið niður af Alþingishúsinu og setja upp eitthvað íslenskara í staðinn.

Hér á landi hafa sumir viljað afmá minjar um Kalda stríðið og jafnvel Heimsstyrjöldina síðari á borð við rústir ratsjárstöðva, vatnsturn í Kaldaðarnesi eða gamla flugturninn í Reykjavík.  

Kommúnistar í Rússlandi létu breyta nafni St. Pétursborgar í Leningrad þegar þeir náðu völdum og þegar þeir misstu völdin var því breytt til baka og nafni Stalingrad var breytt í Volgograd.

Sem betur fer lenti nafn Leningradsinfóníunnar ekki í þessari hakkavél.  

Kommúnistar létu gera sovéskan þjóðsöng sem átti að afnema þegar þeir misstu völd og gera nýjan í staðinn.

Sem betur fór misheppnaðist þessi aðför að einum flottasta þjóðsöng heims og hann lifir góðu lífi.    

Mörgum var og er í nöp við þýska þjóðsönginnn af því að nasistar notuðu hann eins og allir Þjóðverjar frá tímum sameiningar þýsku ríkjanna á 19. öld. En "Þýskaland ofar öllu" var upphaflega ákall um að sameina öll hin mörgu þýsku ríki í eitt og af sama meiði og sameining Ítalíu. 

Skoða ber hin umdeilanlegu orð í söngnum í því sögulega samhengi að mínum dómi.  

Þegar kommúnistar náðu völdum í Eþíópíu vildu sumir þeirra ráðast gegn helgistöðum kristnu koptanna.

Kirkjuleg djásn í Kreml voru sumum bolsévikanna þyrnir í augum við valdatökuna í rússnesku byltingunni.

Sem betur fór fengu þessir harðlínumenn ekki sitt fram.

Á langri valdatíð sinni í Reykjavík fengu Sjálfstæðismenn því ráðið að umdeilanlegt málverk af Bjarna Benediktssyni væri sett upp í fundarherberginu fræga í Höfða.

Svo féll meirihlutinn 1994 og upphófst barnaleg togstreita um þetta málverk, sem ýmist var tekið niður eða sett upp aftur.

Ég segi "barnaleg togstreita", því að í öllum fyrrnefndum efnum tel ég að menn hefðu átt að láta það kyrrt að fara að hringla í hlutunum, heldur hefja sig upp fyrir dægurþras og gera sér grein fyrir því hvað eru sögulegar minjar og hvað ekki.

Með því að taka þessa afstöðu er ég ekki að taka afstöðu með eða á móti Pétri mikla, Stalín eða Jeltsín, með eða á móti harðsvíruðustu kommunum í Eþíópíu, með eða á móti Danakonungum eða með eða á móti hinum þaulsætna borgarstjórameirihluta Sjallanna í Reykjavík á sinni tíð.

Pétur mikli og verk á hans vegum, verk Sovéttímans, verk kennd við Danakonunga, svo sem Skansinn í Vestmannaeyjum og merkið á Alþingihúsinu, rústir frá stríðsárunum og árum Kalda stríðsins og verk gengins borgarstjórnarmeirihluta í Reykjavík eru sögulegar minjar, sem ekki er hægt að afneita og ekki á að afneita.

Eftir að leiðtogafundurinn frægi var haldinn í Höfða er málverkið af Bjarna Ben, hversu smekklegt eða ósmekklegt sem mönnum kanna að finnast það, hluti af minjum í heimssögunni, hvort sem okkur líkar það betur eða ver.   


mbl.is Málverk á vegg í Höfða á ný?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þegi þú! Þú veist ekki hvað samkeppnin er hörð!"

"Þessi orð hrópaði bálreiður verkstjórinn við viðgerð á Háaleitisbraut fyrir nokkrum árum þegar ég kvartaði um það við hann að allt að 700 manns væru lokaðir með farartæki sín við norðanverða götuna, vegna þess að henni hafði verið lokað fyrirvaralaust um morguninn. 

"Þú ættir að haf vit á að þegja um það sem þú hefur ekki hundsvit á!", hrópaði hann. "Þú veist ekki hvað samkeppnin er hörð í þessum bransa og við höfum ekki efni á því að vera að eltast við einhverjar merkingar með ærnum kostnaði!"

Ég hringdi á þá skrifstofu Reykjavíkurborgar sem svona mál heyra undir, og fékk þau svör að verktakinn væri að brjóta útboðsskilmála með þessu framferði.

"Og ætlið þið ekkert að gera í því?" spurði ég.

"Nei, enda er það of seint, þegar heitt malbikið er komið á götuna" var svarið.

"En þið hafið eftirlitsskyldu, er það ekki?" spurði ég.

Svarið kom um hæl: "Við höfum hvorki peninga né mannskap til að standa í slíku." 

Hringnum lokað. Svo virðist sem það sé háð geðþótta hvort vegfarendur fái upplýsingar um framkvæmdir og viðgerðir á gatnakerfinu.

Erlendis sér maður ekki svona. Vegfarendur fá að vita af því nógu langt frá viðgerðarstaðnu til að þeir geti valið sér aðra og betri leið í tíma.

Hér getur maður hins vegar átt von á því að vera kominn í alger vandræði þegar komið er að viðgerðarstaðnum.

Í tilfellinu, sem þessi frétt er tengd við, og margar svipaðar framkvæmdir, hefði að sjálfsögðu átt að setja upp upplýsingaskilti nógu langt frá viðgerðarstaðnum til þess að ökumenn gætu valið sér heppilegustu hjáleiðina í tíma.   

 


mbl.is Umferðarteppa við Vesturlandsveg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er óöruggt að fljúga eftir atburði síðustu vikna?

Svarið er nei vegna þess hve mörg ár hafa liðið með langtum minni slysatíðni en dæmi  eru áður um í flugsögunni.  

Þótt tvöfalt fleiri hafi farist i flugslysum síðustu sjö daga en allt síðasta ár, verður að draga frá það voðaverk að stór þota var skotin niður yfir Úkraínu.

Það slys flokkast á svipaðan hátt og eldsvoðar, sem kveiktir eru í húsum með vopnum og sprengjum og snerta ekkert almennt öryggi í húsum á friðartímum.  


mbl.is Segir samt öruggt að fljúga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alltof snemmt að láta hugfallast.

Á ungum aldri finnst mörgum mistök vera stærri en þeim finnst sams konar mistök vera síðar. Ástæðan er sú að  viðmiðunin við liðna tíð er allt önnur en síðar, - ófarir taka svo miklu meira pláss miðað við heildarferilinn en síðar verður. 

Í stað þess að hugfallast og láta bugast er betra að taka því á jákvæðan hátt að hafa fengið dýrmæta reynslu í þann reynslubanka sem allir þurfa að byggja á sínum ferli.

Hún er svo ung og á svo mikið eftir.  

Án þess að ætla sér það hljóp Aníta ekki sitt hlaup heldur hlaup hinna stúlknanna.

Í millivegalengdahlaupum fórnar stundum einn keppandinn sér viljandi fyrir hina og heldur uppi hraða inn í hlaupið, og er þetta hlutverk hans kallað að vera "héri".

Fyrir hina keppendurna eru viss þægindi í því að láta teyma sig frekar að halda uppi forystu.

Hérinn víkur svo til hliðar og hættir þegar hlutverki hans er lokið, og það var því miður einmitt það, sem Aníta lenti í og gerði þannig hlaupið að hlaupi keppendanna en ekki sínu.  

Kannski var hún of upptekin af því að ætla sér annað hvort allt eða ekkert.

Kannski "toppaði hún" nokkrum dögum of snemma. Slíkt getur hent. Kannski var "dagsformið" ekki nógu gott.

Í öllum hlaupum sem eru lengri en 200 metrar neyðast hlauparar til að spara krafta á beinu brautinni með því að nota hlaupalag, sem er kallað "coasting" á erlendu máli, eða að láta sig "fljóta" eða "rúlla."

Það er reynt að slaka á og stefna að sem mestum hraða með sem minnstri áreynslu.

Aníta "flaut" eða "rúllaði" ekki nógu vel og orkuna þraut þegar fjórðungur hlaupsins var eftir.

Nú er að vinna úr þessari reynslu og halda áfram.  Áfram Aníta! 

 


mbl.is „Hljóp fyrri hringinn of hratt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlýjasti tími ársins er í kringum 20. júlí.

Fyrir mánuði var sól hæst á lofti á Íslandi og lengstur sólargangur. En vegna tregðulögmálsins tekur það um það bil einn mánuð fyrir veðurfarið og meðaltalshitann að ná hámarki hvers sumars. 

Hlýjasti tími hvers árs að meðaltali eru síðustu 10 dagar júlí.

Skekkjan á milli hámarks sólargangs og hámarkshitans sést vel á því að í Reykjavík er meðalhiti í maí, mánuði fyrir sólstöður, um 7 stig en er hins vegar í hámarki eða yfir 11 gráður mánuði eftir sólstöður.

Meðalhitinn í september, þremur mánuðum eftir sólstöður, er svipaður og mánuði fyrir sólstöður. 

Þessa dagana er varla hægt að sjá votta fyrir bláma á veðurkortunum í sjónvarpinu, allt er gulbrúnt eða rautt.  12 stiga hiti syðst á Grænlandi og 30 stiga hiti í Stokkhólmi.

Já, nú er sumar, gleðjist gumar.  


mbl.is Hlýtt þrátt fyrir sólarleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styður kenningu Jóns Jónssonar um afdrif Knebels og Rudloffs 1907.

Jón Jónsson jarðfræðingur setti fram í hárri elli kenningu um hið dularfulla hvarf Þjóðverjanna vísindamannanna Walters von Knebels og Max Rudloffs sumarið 1907.

Þeir voru í vísindaleiðangri, sem kenndur var við Knebel þegar þeir og bátur þeirra hurfu sporlaust, en af þeim fannst aldrei tangur né tetur, þrátt fyrir leit, bæði 1907 og í leitarleiðangri árið eftir. 

Jón taldi að flóðbylgja frá hruni niður í vatnið hefði hvolft veigalitlum báti þeirra og þeir drukknað.

Vatnið var kalt og likin hafa sokkið til botns.

Jón taldi mögulegt að sjá, hvar jarðfall hefði orðið, og taldi að ekki hefði þurft stórt hrun til að granda bátnum, sem var úr segli og lekur.  

Minnisvarði um Knebel og Rudloff er í Öskju og þykir hafa verið reimt af þeirra völdum á þessum slóðum æ síðan.

Líkt og varðandi hvarf Reynistaðabræðra og fund vettlings Jóns Austmanns fóru strax af stað miklar sögur og kenningar um hvarfið, meðal annars þess efnis að hinir horfnu hefðu verið á lífi hálfum mánuði eftir að talið var í upphafi að þeir hafi horfið.  

í Öskju þykir mörgum sem þeir séu komnir í návígi við frumsköpun jarðarinnar og þangað var farið með bandarísku tunglfarana til æfinga áður en þeir fóru í fyrstu ferðina til tunglsins.

Ég reyndi að orða þetta í einu erindanna í ljóðinu "Kóróna landins" á þennan hátt:

 

Beygðir í duftið dauðlegir menn

dómsorði skaparans hlíta.

Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn

sig ekki frá gröf sinni slíta.

Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn;

eldstöð og skaflana hvíta.

Alvaldsins sköpun og eyðingu´í senn

í Öskju þeir gerst mega líta.

 

Höll íss og eims,

upphaf vors heims,

djúp dularmögn,

dauði og þögn.  


mbl.is 50 milljóna rúmmetra skriða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingur mælti fyrir tveimur frjálsum ríkjum í Palestínu.

Vinátta Íslendinga og Ísraelsmanna átti upphaf sitt í því að Thor Thors hjá Sameinuðu þjóðunum bar þar fram tillögu um stofnun tveggja jafn rétthárra ríkja í Palestínu, ríki Gyðinga og ríki Palestínumanna.

Þetta er staðreynd sem ekki má gleymast, þótt liðinn sé hálfur sjöundi áratugur síðan.  

Það var því fyllilega rökrétt þegar Íslendingar voru í fararbroddi þjóða sem viðurkenndu sjálfstæði og tilvist Palestínu í hitteðfyrra.

Þess vegna er núverandi ástand óviðunandi að aðeins annað ríkið njóti raunverulegs sjálfstæðis og sé með hitt hernumið og/eða í herkví og haldi því í heljargreipum kúgunar fádæma hernaðarlegra yfirburða.  

Það var ekki sú skipan mála sem Thor Thors mælti fyrir á sínum tíma.  

 


mbl.is „Krefjumst frjálsrar Palestínu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Því skítugra og óhagkvæmara, því betra.

Fróðlegur pistill Haraldar Sigurðssonar um fyrirhugaða sólarselluverksmiðju á Íslandi og viðbrögðin í athugasemdum við honum ættu ekki að koma neinum á óvart. 

Í fimmtíu ár hafa verið predikuð nokkurs konar trúarbrögð hér á landi gagnvart hinum ginnheilaga "orkufreka iðnaði".

Með aðferð Orwells í bókinni 1984 er búið að breyta raunverulegri merkingu orðsins, sem þýðir að sjálfsögðu iðnað með eins miklu orkubruðli og mögulegt er, í svo jákvætt hugtak, að Íslendingar bjuggu til efahagsþenslu með kreditkortum sínum 2002 og stórir ameríski pallbílar streymdu til landsins við undirskrift samninga við Alcoa, þótt ár væri þangað til framkvæmdir hæfust við Kárahnjúkavirkjun.

Um leið og útlendingur birtist með hugmynd um að reisa hér skítuga og orkubruðlandi verksmiðju slefum við eins og hundar Pavlovs, sem sýndu slík viðbrögð bara við það að nafnið kjöt væri nefnt.

Sólarselluverksmiðjan er alls ekki fyrsta slíka hugmyndin sem við viljum stökkva samstundis á.

Fyrir sex árum hófst mikil gyllingarherferð fyrir því að reisa tvær risaolíuhreinsistöðvar á Vestfjörðum sem myndu "bjarga Vestfjörðum."

Ég fór til Noregs til að kynna mér málið og kvikmynda dýrðina og þar kom í ljós að í 20 ár hafði engin vestræn þjóð vilja reisa slíka verksmiðju. Það vildi enginn hafa slíkt skrímsli nálægt sér.

Um svipað leyti slefuðu menn yfir hugmyndum um súrálsverksmiðjur hér á landi. Þær eru að vísu botninn á sóðaskap í iðnaði, sem enginn vill reisa hjá sér í nágrannalöndunum. 

1995 sendu íslensk stjórnvöld bænaskjal til helstu stóriðjufyrirtækja heims þar sem grátbeðið var um að selja þeim orku "á lægsta orkuverði heims með sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum".

Þokkalegur bísness það.

Í athugasemd við pistil Haraldar er þrætt hressilega fyrir eðli sólarsellufyrirtækisins og skuggalegan feril þess. og fullyrt að sólarselluverksmiðja þess hér á landi myndi ekki menga meira en meðal kúabú og nota sáralitla orku.

Slíkt kemur heldur ekki á óvart.

Fyrir rúmum áratug var fullyrt að búið væri að ganga tryggilega frá því að Hellisheiðarvirkjun myndi ekki menga neitt, og starfsemin felast í "hagkvæmr nýtingu hreinnar og endurnýjanlegrar orku."

Í dag er virkjunin mest mengandi fyrirtæki Íslands með meiri mengun en álverin, aðeins 15% orkunnar nýtist en 85% fer ónýtt út í loftið, og aflið er þegar byrjað að dvína, enda aldrei gert ráð fyrir meiri endingu þess en í nokkra áratugi.  


Við veljum okkur ekki náttúruhamfarir og vá.

Síðan í Kröflueldum 1975-1984 hefur verið fremur rólegt á eldvirka svæðinu fyrir norðan Vatnajökul. Það hafa að vísu komið hlaup í Jökulsá á Fjöllum, - eitt þeirra tók af brú niður í Öxarfirði, og alvarlegt hópslys varð í Hólsselskíl norðan við Grímsstöðum á Fjöllum fyrir um 17 árum, en að öðru leyti hefur ekkert gerst þar í líkingu við Öskjugosið 1875.

Flugbraut við Grímsstaði á Fjöllum sannaði gildi sitt í hópslysinu þegar ekki var hægt að fá þyrlu til björgunarstarfa, og Twin Otter flugvél frá Akureyri flaug með slasaða frá Grímsstöðum til Akureyrar.

Að öðru leyti hefur engin sérstök náttúruvá verið eða stórslys orðið á svæðinu og því allt með kyrrum kjörum þar árum og áratugum saman. Þó kom löng djúpskjálftahrina 20 kílómetra frá vellinm 2007-2008 og síðan hafa verið viðvarandi skjálftar á því svæði fjölmargra og fjölbreytilegra eldstöðva. 

En skriðan mikla í Öskju sýnir að á Íslandi er ekki hægt að velja sér náttúruvá eða hamfarir.

Hekla getur hvenær sem er gosið með aðeins klukkustundar fyrirvara og umferð ferðamanna er orðin það mikil um allt land, að huga þarf að öryggi þeirra hvar sem er.

Flugbraut er í Herðubreiðarlindum en þegar vindur stendur af fjallinu getur hún verið hættuleg eða ófært til lendingar þar. Brautin er þar að auki á flötum bakka Jökulsár á Fjöllum  sem flóð getur farið um.

Hvorugt, sviptivindar né flóð ógna hins vegar eina skráða og viðurkennda flugvellinum á svæðinu, Sauðárflugvelli, og fimm flugbrautir hans, alls 4,7 kílómetra langar þar af tvær nógu langar fyrir Fokker F50, Lockheed Hercules og Boeing C-17 Globemaster, tryggja að hliðarvindur geti ekki orðið til trafala. 

Allt í kringum völlinn móta eldvirkni og hamfarir landið og stórir atburðir geta orðið hvenær sem er.  

Enginn opinber aðili telur sér skylt að viðhalda þessum flugvelli í sem bestu standi og uppfylla ströngustu kröfur um svo stóran flugvöll.

Ég veit ekki hve lengi einn aldraður einstaklingur getur það, svo langt frá Reykjavík sem völlurinn er og kostnaðarsamt að vera bæði ábyrgðarmaður og umsjónarmaður hans.

Völlurinn er í kjördæmi forsætisráðherrans en það hefði líkast til verið flokkað undir spillingu ef leitað hefði verið til ráðuneytis hans um styrk, hvað þá ef svar hefði fengist með sms-skilaboðum.  

 

 

 

  

 


mbl.is Vígalegur mökkur steig til himins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband