Færsluflokkur: Bloggar
19.7.2014 | 13:12
Friðarspillar, frekjulið, fífl og glæpahyski.
Þessa dagana hringir síminn hjá okkur snemma að morgni og rífur mann á lappir fyrir allar aldir.
Ísmeygileg en jafnfram ýtin og uppáþrengjandi rödd í símanum kveðst hringja frá besta fyrirtæki á sínu sviði í Flórída og vera umhugað um að afstýra því að skæður tölvuvírusl, sem kominn sé í tölvuna mína, eyðileggi hana. Í fyrirtækinu sé einstæð sérþekking sem geti komið til bjargar, annars tapi ég mikilvægustu gögnum mínum og verði á vonarvöl.
Maður á sem sagt að trúa því að það sé verið að vinna í fyrirtæki á Flórída klukkan fjögur að nóttu að þarlendum tíma við að vaka yfir tölvunni minni.
Úthringingum þessara fífla, friðarspilla og frekjuliðs, sem rífur mann upp dag eftir dag og stundar skipulega glæpastarfsemi, á að svara á þann eina hátt að binda enda á samtalið sem allra fyrst.
Allir sem ég hef rætt við um þetta hafa svipaða sögu að segja af kunningjum sínum eða jafnvel þeim sjálfim þannig að hér er um mjög miklar hringingar að ræða til þúsunda fólks.
Þess vegna er því miður er hætta á því að vegna þess hve úthringingarnar eru yfirgripsmiklar og ná til margra, takist tölvuhökkurunum að veiða einhvern grandalausan í net sitt.
Eina ráðið gegn því er almenn umræða og þekking á eðli þessarar glæpastarfsemi.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.7.2014 | 22:44
Aðeins 6% lægri hæð, - og ofar en lágmarkshæðin.
Nú er allt mögulegt skoðað til að varpa ljósi á það þegar MH17 var skotin niður, meira að segja flughæðin. Flugmennirnir óskuðu eftir 35 þúsund feta hæð en var skipað að fara niður í 33 þúsund.
33 þúsund fet er ekki nema 6% lægri flughæð en 35 þúsund og þar að auki þúsund fetum yfir þeirri lágmarkshæð sem leyfð var, 32 þúsund fetum.
Þess vegna var ekkert óeðlilgt við það að úthluta MH17 33 þúsund feta flughæð, enda daglegt brauð að þotur fái ekki alveg þá flughæð sem beðið er um.
Ef komast á að þeirri niðurstöðu að lækkunin hafi verið of mikil er augljóst að 32 þúsund fet voru ekki nógu lág flughæð til að flugvélar gætu verið öruggar gegn flugskeytaárás og að hugsanlega skipti ekki máli hvort flogið var í 33ja þúsund eða 35 þúsund feta hæð eða jafnvel talsvert hærri hæð.
Fyrir 63 árum skutu Sovétmenn niður U-2 njósnaflugvél Bandaríkjamanna sem flogið var í 70 þúsund feta hæð með S-75 Dvina flugskeyti en fram að því höfðu Rússar ekki getað smíðað flugskeyti sem drógu svo hátt.
Sovétmenn náðu Gary Powers flugmanni lifandi og flakinu heillegu og atvikið varð til að fyrirhuguðum fundi æðstu manna ríkjanna var aflýst vegna reiði Rússa, einkum vegna þess að Eisenhower þrætti fyrir að þetta hefði verið njósnaflugvél.
Síðan eru liðin 63 ár, eins og áður sagði, og einhverjar framfarir orðið í flugskeytagerð.
Þótt S-25 hafi verið ofurflugskeyti 1960 ætti það að vera ljóst í ljósi framfara síðan og , að 33 þúsund feta flughæð er hvergi nærri nóg til að komast upp fyrir hættusvæði hernaðarátaka og fljúga í öryggi ef annar hvor stríðsaðilinn eða báðir ráða yfir öflugum flugskeytum.
Og mörg svipuð atvik á fyrri áratugum sýna, að enn hafa aðstæður á átakasvæðum ekki verið teknar nægilega föstum tökum til að komast hjá því að svona endurtaki sig.
![]() |
Fyrirskipað að lækka flugið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 19.7.2014 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
18.7.2014 | 16:21
Bara af því að þetta voru útlendingar?
Á hverju ári verða hér banaslys eða örkumlaslys vegna þess að bílbelti voru ekki notuð. Höggvarnarpúðar og önnur öryggisatriði í bílum eru að mestu gagnslaus ef ekki eru notuð belti, því að staðsetning upp uppsetning allra annarra öryggisatriða en beltanna miðast við að þau séu notuð.
Viðburður má teljast ef sagt er frá því skýrt og skorinort í fréttum að meginorsök þessara mörgu slysa sé sú að beltin voru ekki notuð. Stundum er hægt að lesa á milli línanna þegar sagt er að viðkomandi hafi kastast út úr bílnum.
Nú bregður hins vegar svo við að það er ekkert verið að skafa utan af þessu. Var það bara af því að þetta voru útlendingar?
Við lifum í heimi þar sem öll fjölmiðlun er komin inn á netið og aðstandendur þeirra sem fórust í bílslysinu í Eldhrauni sjá fréttir um það jafnskjótt og allir aðrir.
![]() |
Stúlkurnar voru ekki í bílbeltum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.7.2014 | 12:30
Nýtt stig hryðjuverkaógnunar ?
Hafi malasíska farþegaþotan verið skotin niður með flugskeyti af jörðu niðri, markar það nýtt stig hryðjuverkaógnunar í heiminum.
Strax eftir árásina á Bandaríkin 11. september 2001 var fjallað talsvert um þá möguleika sem glæpamenn eða hryðjuverkamenn ættu til að skjóta niður farþegaþotur, og þá einkum þegar þær væru í í lágri hæð yfir jörðu í aðflugi eða fráflugi við flugvelli.
Ekki er þess að minnast að rætt hafi verið um möguleika á að skjóta niður farþegaþotur í mikilli hæð, en nú virðist komið á daginn að slíkt sé mögulegt ef hryðjuverkamann hafi áþróuð flugskeyti undir höndum.
En nú virðist það vera breytt, að minnsta kosti á þeim landsvæðum sem eru í höndum manna, sem virðist ekkert heilagt, heldur helgi tilganguinn alltaf meðalið, hversu glæpsamlegt sem það er.
![]() |
Við skutum niður flugvél |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
17.7.2014 | 23:35
Það þarf talsvert til.
Í tvígang hafa Íslandsvinir frá Lichtenstein flogið þaðan til Íslands á lítilli fjögurra sæta þyrlu. Hvor flugferð um sig var krefjandi viðfangsefni, einkum áfanginn milli Færeyja og Hornafjarðar.
Það þarf talsvert til til að fara í svona ferð og það meira að segja í tvígang.
Allt er þetta vegna þess hve landið heillaði þá, og lýsa þeir því best sjálfir í viðtali á mbl.is.
Ljósmyndaviðfangsefnin eru óþrjótandi og hrifningin stanslaus, ekki bara hjá þeim, heldur fjölmörgum öðrum útlendingum sem ég hef hitt eða átt samvinnu við undanfarin fjögur ár.
Margir þeir, sem komu hingað vegna Eyjafjallajökulsgossins 201, komu aftur til landsins árin á eftir vegna þess að þeim fannst þeim aðeins hafa smakkað á smá mola af þeirri stóru landslagstertu, sem í boði var.
Margt af þessu fólki er sjónvarpsfólk í dagskrárgerð hér eða kvikmyndagerðarmenn og ljósmyndarar í fremstu röð.
Þetta fólk er besta landkynningin sem land okkar og þjóð geta notið.
![]() |
Það er þyrla í kartöflugarðinum! |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.7.2014 | 10:20
Var Lóa litla á Brú öll þar sem hún var séð ?
56 ár eru síðan Lóa litla á Brú varð öllum Íslendingum kunn. Þetta var upphaflega "feimin og rjóð og undirleit" sveitastelpa eins og segir í textanum.
Hún gerir ekki miklar kröfur um hamingjuna í lífinu:
"Vildi fá sér vænan mann
og vera alltaf svo blíð og góð við hann."
Í Ferðastikluferð okkar Láru varpaði hún fram áleitnum spurningum við morgunverðarborðið áðan um það hvernig bæri að skilja textann um Lóu og fyrr en varði vorum við komin á kaf í rannsóknarblaðamennsku, sem leiðir til þess að hugsanlega er hægt að upplýsa leyndarmál, sem hefur legið órannsakað í öll þessi ár.
Því að þegar saga Lóu er rakin frekar í textanum við lagið, vakna áleitnar spurningar, og satt að segja skildi ég aldrei þennan texta almennilega á sínum tíma.
Í textanum segir:
"Og síðan saga þeirra varð sögum margra lík.
Þau áttu börn og buru og þau búa´í Reykjavík. "
Gott og vel. Þau urðu barnmörg og búa í Reykjavík þar sem lífsgæða- og peningakapphlaupið er einna mest á Íslandi. Og þá kemur allt í einu þessi makalausa lýsing á því hvernig þau gátu tekið þátt í þessu kapphlaupi; lýsing á því hvernig þau gátu unnið fyrir nógum tekjum til að lifa flott:
"Hann vinnur eins og hestur og hún hefur sjaldan frí,
því Lóa þarf að fá sér fötin ný."
Í fyrri línunni er puði hans lýst: "Hann vinnur eins og hestur..."
Þarf ekki að lýsa því frekar, vinnur mikla yfirvinnu. jafnvel á kvöldin og um helgar.
En hvað er Lóa að puða, hvað er hún að gera á meðan, um helgar og á kvöldin, þegar maðurinn er ekki heima.
Og í hverju er það fólgið hjá Lóu, að hún hafi "sjaldan frí?"
Jú, hún þarf að "...fá sér fötin ný."
Halló. Hvers vegna?
Svarið kemur í framhaldinu í nokkrum samliggjandi ljóðlínum:
"Lóa litla´á Brú er lagleg enn,
og hýr á brá og heillar menn.
Ergir oft sinn eiginmann,
því hún er alltaf svo blíð við aðra´en hann."
Og þessi síðasta ljóðlína er sú síðasta í kvæðinu um þau hjón, Lóu og Svein og meira að segja endurtekin til þess að leggja sérstaka áherslu á þetta.
Bandaríska varnarliðið kom árið 1951 til Íslands. Sjö árum síðar er Lóa litla "..lagleg enn og hýr á brá og heillar menn,....og "alltaf svo blíð við aðra en hann." þ. e. eiginmann sinn.
Ég ólst upp við götu í Reykjavík á þessum árum og einn íbúi götunnar komst í Bíódaga, kvikmynd Friðriks Þórs Friðrikssonar og um einn íbúa götunnar gilti þetta: "...hýr á brá og heillar" erlenda "menn."
Þess vegna finnst mér tilgátan um það hvernig Lóa lagði sitt af mörkum til heimilisins vel geta rímað við veruleika þessa tíma og gefa textanum dýpri merkingu, umhugsunarverða merkingu.
Samkvæmt þessum skilningi á textanum lýsir hann því hvernig þau hjónin Lóa og Sveinn gátu unað því ástandi að hún væri að ergja hann með því að vera blíð við aðra en hann.
Eina ástæðan til þess að Sveinn gæti unað þessu ástandi hlaut að vera hvað hún þénaði mikið og skaffaði vel; hafði meira að segja margfalt tímakaup á við hann, - þetta virðist hafa verið svona ákveðið samkomulag um tekjuöflun fyrir stóra fjölskyldu, sem þurfti að hafa það flott í samræmi við lífsgæðakröfur þjóðfélagsins.
Textinn lýstir því hvernig saklaus sveitastelpa, sem gerir litlar og einfaldar kröfur, breytist í fatafrík við það að koma í ys, hraða og streitu borgarlífisins og gengur tekjufíkninni á hönd, jafnvel þótt miklu þurfi að fórna fyrir það, bæði átök og erfiðleika í hjónabandinu.
Og um leið er fólgin viss ádeila í textanum sem kallar á texta um framhaldið, hvort þetta gat gengið svona áfram, - hvernig þetta fór allt saman. Maður ætti kannski að prófa að gera slíkan texta?
![]() |
Er Ted í raun stolinn Charlie? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
16.7.2014 | 21:19
"Hann rignir alltaf..."
Það hefur ekki bara húðrignt á Sunnlendinga og mun halda áfram að rigna á þá, heldur hefur verið og er mígandi rigning á Norðvesturlandi þar sem ég er staddur núna.
Spá um minni rigningu og smáskúrir í staðinn fyrir daginn í dag stóðst ekki, nema á afmörkuðum svæðum fram að kaffi.
Þar með var sú von úti.
Í fyrra söng ég inn að gamni mínu lag, sem heitir "Hann rignir alltaf", en það var eins og við manninn mælt, að það stytti upp.
Nú er spáin hins vegar þannig, að ekki er von á uppstyttu og kannski rétt að draga lagið fram aftur eða annað í svipuðum dúr.
Textinn við lagið er eftir sjálfan William Shakerspeare í þýðingu Helga Hálfdanarsonar, en það er sungið sem lokalag í leikriti meistarans, Þrettándakvöldi.
Í sýningu Herranætur 1959 gerði Halldór Haraldsson píanóleikari þá nemandi við skólann lag við textann, en þegar ég spurði hann út í það í fyrra mundi hann ekkert eftir því.
Ég mundi hins vegar eðlilega eftir laginu, því að ég söng þetta á sínum tíma í lok hverrar sýningar.
Ég gerði nýja útsetingu við lagið og bætti við það og lét Halldór heyra.
Niðurstaðan er sú að við Halldór erum báðir skráðir höfundar.
Svona er textinn:
Rignir, rignir, rignir, rignir.
Ég var lítill angi með ærsl og fjör,
hæ, hopp, út í veður og vind,
og stundaði glens og strákapör
og hann rignir alltaf dag eftir dag.
Rignir, rignir, rignir, rignir.
Ég óx úr grasi ef einhver spyr,
hæ, hopp, út í veður og vind.
En klækjarefum er kastað á dyr
og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag.
Rignir, rignir, rignir, rignir.
Mér varð til gamans að gifta mig,
hæ, hopp, út í veður og vind.
Nú dugar lítið að derra sig
og hann rignir alltaf rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag.
Rignir, rignir, rignir, rignir.
Ég hátta prúður í hjónasæng,
hæ, hopp, út í veður og vind,
og brennivínsnefi bregð í væng,
og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag.
Rignir, rignir, rignir, rignir.
Sem veröldin forðum fór á kreik,
hæ, hopp, út í veður og vind,
enn vöðum við reyk, senn er lokið leik
og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag,
og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf -
dag eftir dag!
![]() |
Enn meiri rigning sunnanlands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.7.2014 | 12:48
Úrelt tæki Sovétmanna voru ógn á tímabili.
Þegar Kalda stríðið stóð sem hæst og Bandaríkjamenn voru búnir að tölvuvæða vopnabúnað sinn hrukku þeir við þegar þeim barst njósn af því hjá Sovétmönnum væri enn notuð úrelt lampatækni.
Ástæða ótta Kananna var sú, að segulhögg af kjarnorkusprengjum Sovétmanna gæti slegið út öllum tæknibúnaði sem væri í nágrenni við þær ef þær spryngju, en lampatæki og annað úrelt hjá Sovétmönnum myndi hins vegar þola "magnetic pulse" eins og það heitir á erlendu máli.
Allt þjóðlíf okkar eru orðið svo háð tölvutækni og stafrænni tækni, að hættan á að eitthvað fari illa úrskeiðis vex í stað þess að minnka.
Afturhvarf frá þessari tækni í öryggisskyni kann því að vera réttlætanleg, eins og að hætta að nota tölvupóst og taka upp notkun gömlu góðu handvirku ritvélanna.
![]() |
Taka ritvélar aftur í notkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
16.7.2014 | 09:00
Tvöfalt fleiri Renault 4 seldust en samt er Bragginn tákn Frakklands.
Tveir álíka stórir, einfaldir og ódýrir bílar voru framleiddir í Frakklandi fram að 1990, Citroen 2CV og Renault 4, "Fjarkinn".
Framleiðsla Braggans hófst 1948 en Fjarkans 1961, þannig að Bragginn fékk 13 ára forskot. Samt voru framleiddir tvöfalt fleiri Fjarkar en Braggar, nánar tiltekið 8 milljónir.
Frá 1946 til 1961 var Renault 4CV mest seldi bíll Frakklands og fyrsti franski bíllinn sem framleiddur var í meira en milljón eintökum.
Einkenni Braggans og Fjarkans var það að leitun var að bílum, sem útlitinu var minna breytt á margra áratuga ramleiðsluferli, gagnstætt Volkswagen Bjöllunni sem fór í margar gluggastækkanir og andlitslyftingar á sínum ferli og fékk meira að segja alveg nýja gerð framfjöðrunar á síðustu árum sínum.
Báðir frönsku bílarnir voru það sem kallað var "sætljótir."
En hvers vegna er Bragginn svo samofin ímynd frönsku þjóðarinnar en Fjarkinn ekki?
Tvær ástæður má nefna:
1. Bragginn átti sér lengri forsögu og fékk 13 ára forskot til þess að verða öllum kunnur.
2. Hönnun hans og smíði var sérstaklega óvenjuleg, frumleg og hámark naumhyggjunnar.
Ég átti Fjarka í nokkur ár og naut hans í botn. Myndi gjarna vilja eiga slíkan aftur og Bragga með honum.
![]() |
Fagna Bastilludegi með Citroën-bröggum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2014 | 22:44
Óvenjulegt úrfelli og veðurfar norðanlands.
Veðrið er svo sannarlega skrýtið á norðvestanverðu landinu þessa dagana. Nú er kvöld í Langadalnum þar sem ég er lentur við bæinn Hvamm í 13 stiga hita og logni. Hér í gamla daga hefði þokan verið komin hingað frameftir utan af Húnaflóa í svona skilyrðum.
En sjórinn fyrir norðan land er víst óvenju hlýr svo munar nokkrum stigum.
Þess vegna var hún fjarverandi, hin hefðbundna hafgola með kaldri þoku bæði í Hrútafirði og Miðfirði á leiðinni hingað en það húðrigndi.
Hjónin í Hvammi segjast ekki muna eftir öðru eins úrfelli og varð hér í dag og svona rigningatíð án norðan nepju er eitthvað alveg nýtt.
Sólarlagið á eftir að verða fallegt og það hefur stytt upp. Sjá mynd sem ég ætla að setja inn á fésbókarsíðu mína.
![]() |
Þær bara drukkna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)