Færsluflokkur: Bloggar
22.7.2014 | 18:54
Hvers vegna endalaust þetta langa og leiðinlega orð, "áhafnarmeðlimir"?
Íslenska á gott heiti yfir hermenn á herskipi. Þeir eru sjóliðar. Sams konar heiti yfir þá, sem starfa um borð í flugvélum, er flugliðar.
Um borð í bátum og skipum starfa skipverjar.
Öll þessi orð eru stutt og hnitmiðuð, aðeins þrjú atkvæði.
Nei, það virðist í gangi herferð til að útrýma þeim og troða inn í staðinn hinu langa, leiðinlega og ónákvæma orði áhafnarmeðlimir, sem er sex atkvæða orð, tvofalt lengra en ofangreindu heitin.
Og orðið áhafnarmeðlimur segir út af fyrir sig ekkert um það á hvers konar samgöngutæki þessir áhafnarmeðlimir vinna.
Hve oft skyldi ekki hafa verið reynt að hamla gegn þessari hrörnun og geldingu málsins?
Á að trúa því að orðskrípið áhafnarmeðlimir muni drepa af sér góðu, stuttu heitin, sem bæði eru helmingi styttri og hnitmiðuð að öllu leyti?
![]() |
99 ölvaðir flugmenn stöðvaðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
22.7.2014 | 15:29
Síðan hvenær varð þetta líka leyndarmál ?
Frá upphafi stóriðju á Íslandi hefur orkuverðið til hennar verið leyndarmál, sem ekki mátti segja þjóðinni, eigendum Landsvirkjunar, frá.
En ævinlega hefur það verið tilgreint að orkuverðið hafi verið tengt við markaðsverð á áli hjá álverunum.
Nú bregður svo við að ekki fást svör við því hvort í samningum við kísilver verði tenging við heimsmarkaðsverð á kísil eða annarri hrávöru.
Í loðnu svari er þess getið að hugsanlega muni þurfa kísilverðtengingu til þess að "fá fyrirtækin til landsins."
Sama var sagt um tenginguna við álverðið á sínum tíma, sem núverandi forstjóri gagnrýndi.
Þetta hringir gömlu bjöllum um að ekki sé allt sem sýnist. Af hverju er ekki svarað af eða á?
![]() |
Tjá sig ekki um kísilverðstengingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
22.7.2014 | 08:53
Þjóðarskömm, hvert sem litið er.
Fyrir 15 árum sagði Ulrich Munzer, þýskur prófessor og Íslandsvinur, sem kemur með nokkra tugi nemenda sinna árlega til Íslands, að þá væri ástandið við Geysi þjóðarskömm. Já, það eru 15 ár síðan.
Á umbrotasvæði Kröfluelda blasir við vaxandi þjóðarskömm. Þótt lagðir hafi verið göngupallar á Leirhnjúkssvæðinu eru bílastæði við sprengigíginn Víti orðin allt of lítil. Fyrir rúmum áratug lofaði Landsvirkjun því að skemma ekki þennan annan af tveimur slíkum gígum landsins, - hinn er í Öskju.
Ný bortækni með skáborunum myndi tryggja það.
Loforðið var rækilega svikið, sargað mörg þúsund fermetra borplan og viðkvæmt gróið land fjarlægt við efri brún þessa náttúruundurs og skellt þar niður borholu með tilheyrandi gufuleiðslum. Bílar, sem lagt er á grasflöt fyrir neðan gíginn, eru slæmir, en smámunir miðað við vítavert framferði fyrirtækis í eigu allra landsmanna.
Landeigendur hafa sett keðju fyrir vegarslóðann frá Víti norður í Gjástykki, að sögn til að verja það svæði fyrir átroðningi.
Annað býr þó líka að baki, einbeittur brotavilji gegn náttúruverðmætinu Leirhnjúkur-Gjástykki, sem á enga hliðstæðu á Íslandi eða í heiminum, eina staðnum þar sem sjást ummerki um og til eru samtíma myndir af sköpun Íslands, þar sem Ameríka og Evrópa aðskildust og nýtt hraun, nýtt Ísland, kom upp í gegnum gjárnar. Þar að auki valið æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.
Nefnd um skipulag miðhálendisins hefur einróma ákveðið að þetta svæði verði sem líkast svæði Hellisheiðarvirkjunar, skilgreint iðnaðarsvæði með tilheyrandi stöðvarhúsi, skiljuhúsi, vegum, borholum, gufuleiðslum og háspennumöstrum og línum.
Það líkar meirihluta landeigendafélags Reykjahlíðar vel. Það fær góða borgun í hendurnar daginn sem skrifað er undir virkjunarsamninga og því hentar það afar vel. til að geta ráðist á Gjástykki í sem mestri leynd, að brjóta lög um óhefta ferð almennings með því að loka aðgengi að því með keðju svo að hægt sé að viðhalda áunnri fáfræði fólks um það.
Formanni félagsins þykir liggja svo mikið við að hann skrifaði þrjár blaðagreinar um nauðsyn virkjunar hér um árið.
Á meðan Róm brann spilaði keisarinn á fiðlu. Á meðan stundaður er fjölbreytilegur hernaður gegn íslenskum náttúruverðmætum ríkir algert viljaleysi, getuleysi og ringulreið gagnvart vörslu þeirra náttúrugersema um allt land, sem milljón ferðamenn eru komnir til að sjá og leggja með því stærstan skerf allra atvinnugreina í íslenskt þjóðarbú.
Það eru allir svo uppteknir við að græða í gullæði ferðaþjónustunnar. Byggingarkranar þjóta nú upp eins í gróðærinu fyrir 2008, í þetta sinn vegna hótelbygginga.
Einhverjir smáaurar eru látnir hrjóta af ríkisfé til nýrra verndaraðgerða, innan við þúsundasti hluti af gjaldeyristekjunum af ferðamönnum, innan við 0,001% !
Í þjóðgörðum erlendis er fyrst varið fé í aðgerðir, sem ferðafólkið sér, og það síðan rukkað.
Hér á að rukka strax, án þess að ferðafólkið sjái að neitt hafi verið gert. Slíkt hugarfar heitir á erlendu máli "take the money and run" og þykir skömm að. Þegar heil þjóð er haldin slíku hugarfari á kostnað komandi kynslóða er það þjóðarskömm.
![]() |
Bílahjörðinni beitt á gróið land við Víti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2014 | 21:25
Vildu ekki göng yfir í Fljótin.
Þegar fjallað var um vegabætur á utanverðum Tröllaskaga hér um árið komu tveir möguleikar til umræðu: Héðinsfjarðarleið og Fljótaleið.
Fljótaleiðin hefði legið þannig að frá Siglufirði væri ekið um göng yfir í Fljótin utanverð og innar úr Fljótunum um göng yfir í Ólafsfjörð.
Fljótaleiðin hafði að vísu þann ókost að leiðin milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar varð 17 kílómetrum lengri en um Héðinsfjarðargöng, 34 í stað 17. 34 kílómetrar þykja ekki mikið á höfuðborgarsvæðinu og eru vel innan þeirra marka, sem eitt atvinnusvæði spannar.
En að öllu öðru leyti hafði Fljótaleiðin kosti umfram Héðinsfjarðarleiðina.
Fljótagöngin styttu leiðina frá Siglufirði til Skagafjarðar og suður um til Reykjavíkur um átta kílómetra.
Þau tryggðu heilsárssamgöngur vestur og suður um og afnámu hinn hættulega og vonda veg um Almenninga.
Þeir skópu líka heilsársleið milli Ólafsfjarðar og Skagafjarðar, mun styttri en leiðin er um Héðinsfjarðargöng og hina slæmu Almenninga.
Þau styttu heilsárs hringleið um Tröllaskaga um ca 20 kílómetra og afnámu leiðina um Almenninga.
Þau viðhéldu töfrum Héðinsfjarðar og ævintýralegu aðdráttarafli hans sem eina óbyggða fjarðarins á svæðinu frá Ingólfsfirði á Ströndum til Loðmundarfjarðar á Austfjörðum.
Pólítískir kjördæmahagsmunir og flutningur Siglufjarðar úr Norðurlandskjördæmi vestra yfir í Norðausturkjördæmi réðu miklu um að Héðinsfjarðargöng voru valin.
Til að aðstoða þingmennina til að tala niður Fljótaleiðina niður var Vegagerðin fengin til að gera að skilyrði að gangamunnarnir Fljótamegin lægju mun lægra en aðrir gangamunnar á landinu.
Það lengdi göngin verulega og gerði þau dýrari.
Meðmælendur Héðinsfjarðarleiðarinnar höfðu yfirburði í aðstöðu til að reka áróður fyrir henni.
Nú þrýsta Siglfirðingar á að fá nyrðri helming Fljótaleiðarinnar frá Siglufirði til Fljóta í viðbót við Héðinsfjarðargöngin.
Á sama tíma er æpandi þörf fyrir göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og vegabætur við norðanverðan Breiðafjörð fyrir landshluta, sem enn er á svipuðu samgöngustigi á landi og í lofti og v var fyrir hálfri öld.
Því var aldrei lofað á sínum tíma að grafin yrðu jarðgöng þvers og kruss um allan norðanverðan Tröllaskaga.
Valið stóð á milli tveggja leiða og hvor kosturinn, sem í boði var, var mjög dýr og á kostnað annarra landshluta.
Úr því að menn vildu ekki göng milli Siglufjarðar og Fljóta þegar þeir gátu fengið þau, er ólíklegt að þeir geti fengið þau í viðbót við Héðinsfjarðargöng.
Því að það er oft þannig, að sá sem vill ekki þegar hann fær, fær ekki það sem hann vill.
![]() |
Vegurinn illkeyranlegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.7.2014 | 12:45
Lidice.
Lidice er lítið þorp nálægt Prag í Tékklandi. Í dag stendur það nálægt þeim stað sem það stóð á vorið 1942, en gamla þorpstæðið er autt, af því að það var jafnað við jörðu.
Þegar Reinhard Heydrich, landsstjóri nasista, einn af háttsettustu valdamönnum þeirra og stjórnandi útrýmingar Gyðinga, var drepinn í maí 1942 töldu nasistar rökstuddan grun um að þáttakendur og vitorðsmenn um árásina á Heydrich væru í þorpinu.
Þeir réðust því á þorpið, lögðu það i rúst, drápu alla karlmenn yfir 15 ára, alls 184, og fluttu og fluttu á álíka margar konu og börn í útrýmingarbúðir, auk þess sem líklegir vitorðsmenn voru eltir uppi víðar og þeim eytt.
Nasistar sögðust gera þetta til að hefna fyrir árásina á Heydrich og koma í veg fyrir að svipuð atvik endurtækju sig.
Í gær var ég að rifja upp hetjuskap Stauffenbergs og vina hans þegar þeir reyndu að ryðja Hitler úr vegi fyrir réttum 70 árum.
Í dag sækir Lidice á hugann. Heimsstyrjöldin síðari býr yfir mörgum umhugsunarverðum atburðum.
![]() |
Fylgjast með árásunum af Sderot-hæð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.7.2014 | 12:01
15 borplön í stað 5 ?
Túrbínutrix og áunnin fáfræði virka til þess að Þeystareykjavirkjun renni ljúflega í gegn. Túrbínutrixið fólst í því að þegar í upphafi var valdið svo miklum umhverfisspjöllum þar að ekki yrði aftur snúið.
Síbylja er í umræðunni og fólk heldur það, að virkjunin sé bara ein enn virkjuniun á hálendi Íslands þar sem ekkert sé að sjá nema urð, grjót og sand.
Hið rétta er að þarna var bújörð, og að Þeystareykir og Bjarnarflag hafa sérstöðu sem háhitasvæði varðandi það að þar eru tún og mikill gróður, fallegt bæjarstæði með fjöll á báðar hendur.
Náttúruunnendur fóru fram á það að borsvæðin yrðu höfð sem fæst og að háspennulínan yrði ekki lögð beint yfir merkilegt hraun, sem er vestan við virkjunina og hefur svipaðar gjár og í Gjástykki.
Hvorugt var tekið í mál.
Línan verður lögð beint yfir hraunstrauminn og gert er ráð fyrir að borsvæðin verði 15 í stað 5.
Ég efast um að Skipulagsstofnun hafi komist upp með það að laga þetta til. Ef farið er fram á slíkt er það flokkað undir öfgar og það "að vera móti öllu og á móti atvinnuuppbyggingu."
Ástæðan fyrir þessari svartsýni um úrbætur er sú, að Landsvirkjun sveik loforð um að skáboranir við Víti í Kröflu yrðu þannig að sprengigígnum yrði þyrmt.
Í staðinn var borað við efri brún hans og rutt burtu viðkvæmum gróðri þar fyrir fyrir mörg þúsund fermetra borplan.
Sú tilhögun var Landsvirkjun til skammar, sem ekki verður afmáð. Túrbínutrixið svínvirkaði og afleiðingar þess munu blasa við ókomnum kynslóðum.
Það var ekki eitt heldur allt varðandi Þeystareykjavírkjun, því að til þess að hægt yrði að selja orkuna frá Þeystareykjum svo að virkjuninn rynni ljúflega í gegn voru veittar meiri ívilnanir varðandi kísilver á Bakka en nokkur stjórn Sjalla og Framsóknar veitti á sínum tíma.
![]() |
Framkvæmdir í fullum gangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.7.2014 | 20:32
"Alternate history": Hitler drepinn fyrir 70 árum.
"Alternate history", "hvað ef?"sagnfræði, er ein grein sagnfræði, sem gengur út frá einni sennilegri breytu í atburðarás sögunnar og finnur líklegustu atburðarásina, sem hefði getað orðið í framhaldi af því.
Margir hafa lagt fyrir sig "hvað ef?" sagnfræði varðandi Heimsstyrjöldina síðari.
Hvað, ef Þjóðverjar hefðu tekið olíulindirnar í Bakú og unnið sigur í styrjöldinni? Á því byggir fræg bók, "Vaterland".
Ég tel reyndar þessa breytu ósennilega. Rússar tefldu fram gríðarmiklu liði á óvæntan hátt til að umkringja her Paulusar í Stalíngrad og hefði Hitler látið nægja að sækja til Bakú og sleppt Stalingrad hefðu Rússar bara króað það lið inni í staðinn og eytt því.
Eina leiðin, sem Þjóðverjar hefðu átt til að vinna sigur í stríðinu, hefði falist í því að ráðast inn í Sovétríkin í ágúst 1940 meðan Rauði herinn var í lamasessi og upplausn og helstu og bestu vopn Rússa ekki komin í gagnið.
Forsenda þess hefði verið að hafa innrásaráætlunina "Rauðskegg" tilbúna vorið 1940 sem plan B, ef skjótur sigur ynnist á Vesturvígstöðvunum, þykjast ætla að ráðst inn í Bretland en fara í staðinn í hernað í austurveg.
En jafnvel Hitler í allri sinni bjarsýni óraði ekki fyrir því hve undraskjótt Frakkar voru lagðir að velli og hann og Von Rundstedt klúðruðu gullnu tækifæri til að eyða að mestu her Breta við Dunkirk.
"Hvað ef" von Stauffenberg hefði tekist að drepa Hitler? Hvað ef það hefði tekist að drepa hann strax í upphafi stríðsins í bjórkjallaranum í Munchen? Eða í einverju af ótal skiptum, sem slíkt var reynt?
Meginþunginn í stefnu Hitlers frá fyrsta upphafi ferils hans var ófrávíkanleg og einbeitt þráhyggja hans, sem hann orðaði einfalt: Aldrei aftur 1918!
Aldrei aftur myndu Þjóðverjar semja frið og gefast upp á meðan herir þeirra væru enn utan landamæra þýska ríkisins.
20. júlí 1940 brunuðu brynsveitir Pattons að vísu hraðfari til austur yfir Frakkland, en það var ekki fyrr en tveimur mánuðum seinna sem borgin Trier varð fyrsta þýska borgin, sem komst í hendur Bandamanna.
Samsærirmennirnir þýsku vonuðu margir hverjir að hægt yrði að ná samingum við Bandamenn án þess að beygja sig undir kröfuna um skilyrðislausa uppgjöf.
Þessir bjartsýnismenn áttuðu sig ekki á því að Bandamenn stóðu allir sem einn gallharðir á þessu skilyrði, enda erfitt að uppræta nasismann með rótum á annan hátt.
Japönum voru settir svipaðir skilmálar, meðal annars þeir að keisarinn yrði sviptur völdum.
Raunsæir menn innan Bandaríkjahers lögðust hins vegar gegn því og líka hugmyndinni um að varpa kjarnorkusprengju á Kyoto.
Trúarleg þýðing keisarans og Kyoto var þess eðlis að afleiðingarnar hefðu orðið óheyrilega slæmar.
Því var fallið frá skilyrðinu um afsögn keisarans sem betur fór.
Ef Hitler hefði verið drepinn þennan dag fyrir 70 árum, hefði hins vegar verið rutt stórri hindrun úr vegi, vegna þess að hver einasti hermaður Þjóðverja hafði svarið honum persónulegan hollustueið og dauði hans hefði því losað þá undan þeim eiði.
Göring og Himmler reyndu í blálok stríðsins vorið 1945 að leita sérsamninga við Vesturveldin.
Það var að sjálfsögðu borin von þá en veltir upp spurningunni um það, að hugsanlega hefðu þeir tekið svipaða afstöðu síðsumars 1944 að Hitler látnum. En Bandamenn voru einhuga um að enginn sérfriður yrði saminn.
Erfitt er að átta sig á því hvort dráp Hitlers hefði getað stytt styrjöldina og bjargað lífi milljóna manna. Hugsanlega hefði verið hægt að ljúka styrjöldinni í lok janúar 1945, og enginn veit um viðbrögð Görings og Himmlers, - hvort uppreisnarmenn hefðu getað knésett þá nógu snemma.
Niðurstaðan er sú að miðað við hina óheyrilegu stríðsglæpi nasista hefði aldrei komið neitt annað til greina af hálfu Bandamanna en skilyrðislaus uppgjöf hers Þriðja ríkisins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.7.2014 | 15:09
Nýtt afrek bandarískra lögfræðinga.
Það er ekki á þá logið, bandarísku lögfræðingana, hvernig þeir geta unnið skaðabótamál með svimandi háum upphæðum þegar um ríkt fólk er að ræða og mannslífið metið á allt að 2400 milljarða króna eða 50% hærri upphæð en árleg þjóðarframleiðsla Íslendinga.
Fyrir 30 árum tókst bandarískum lögfræðingum að rústa einkaflugvélaiðnaðinum þar í landi með slíkum skaðabótamálum.
Eitt af mörgum dæmum var það þegar auðkýfingur einn hafði ekki fest framsætið, sem hann sat í, nógu vel á sleðanum, og greip í fáti í stýri flugvélarinnar þegar sætið rann aftur á bak með þeim afleiðingum að vélin ofreis og spann í jörðina. Talið var að um vanrækslu framleiðandans hefði verið að ræða með því að vara ekki sérstaklega við því að sætið gæti runnið aftur á bak ef það væri ekki nógu tryggilega fest.
Skaðabótabylgjan gekk svo langt, að ekki var hægt að halda einföld sundlaugarpartí eða garðpartí í Bandaríkjunum nema hver gestur undirritaði heilmikla yfirlýsingu um það að hann kæmi inn á sundlaugarbakkann á eigin ábyrgð og hefði kynnt sér út í hörgul allar aðstæður og hættur á partísvæðinu.
Framleiðendur litlu flugvélanna urðu gjaldþrota vegna svona skaðabótamála og iðnaðurinn hrundi.
Skaðabótamálið gegn tóbaksframleiðandanum lyktar af þessu.
Ég hef út af fyrir sig svosem enga samúð með tóbaksframleiðendum.
Um þá ættu auðvitað að gilda lög til að tryggja að þeir setji aðvörunarmerkingar á sígarettupakkana sem standist þær kröfur sem nánar er tilgreint um í lögum og reglugerðum.
Þau lög ættu að fela það í sér að ef þeir fari ekki eftir þeim, sé þeim refsað þeim fyrir það og jafnvel sviptir leyfi til tóbaksframleiðslu.
Reykingamaðurinn, sem var svona mikils virði, hlýtur að hafa vitað af skaðsemi tóbaksreykinga eftir að þær hafa verið ræddar og kynntar í hálfa öld.
Ég efast um að aðvörunarmerki á pakkanum hefði getað fengið hann til að hætta að reykja, - þekki nógu marga sem geta alls ekki hætt, sama á hverju gengur, svo óviðráðanleg getur nikótínfíknin verið, enda er ekkert fíkniefni talið líkt því eins ávanabindandi og nikótín, ekki einu sinni heróín.
Þetta mál minnir mig á annað mál.
Nú hefur verið gefinn út alveg nýr og ótrúlega umfangsmikill listi um svo yfirgripsmiklar athuganir á litlum vélum af Cessna gerð, að það gæti endanlega orðið til þess að engin leið sé fyrir einstaklinga að halda slíkum flugvélum úti. Og þar með verði þær líka óseljanlegar.
"Það er ekki að spyrja að ESB" hefur verið venjulega viðkvæðið hjá þeim sem ég hef sagt frá skrifræðinu hjá EASA, sem er reyndar Flugöryggisstofnun Evrópu allrar en ekki bara ESB.
En listinn yfir hinar nýju og stórkostlegu skoðanir á Cessna flugvélum kemur ekki frá EASA, heldur beint frá hinum bandaríska framleiðanda vélanna.
Að manni læðist sá grunur að ekki sé útilokað, að öðru sinni séu bandarískir lögfræðingar að gera aðför að framleiðendum litlu flugvélanna með sínum mögnuðu skaðabótamálaferlum og að það sé undirrót þess sem er gerast.
![]() |
Ekkja reykingamanns fær háar bætur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
20.7.2014 | 14:33
Ruglkennd fyrirsögn: "Varað við viðskiptaþvingunum."
Fyrirsagnir frétta, eins og til dæmis þeirri, sem þessi pistill er tengdur við, getur gefið alranga mynd af efni fréttarinnar.
Þegar ég sá fyrirsögnina án þess að hafa lesið fréttina, hélt ég að einhver sérfræðingur eða áhrifamaður væri að vara Vesturveldin við að beita Rússa viðskiptaþvingunum.
Nei, það er þveröfugt, Vesturveldin eru að vara Rússa við því, að þau muni beita þá viðskiptaþvingunum.
Í fyrirsögn, þar sem sagt er að varað sé við einhverju, felst ósk um að það sem varað er við, sé ekki framkvæmt.
Ef sagt er: Varað er við að fara nálægt einhverju, til dæmis Sólheimajökli, er merkingin ljós, sú ósk að fólk fari ekki nálægt jöklinum.
Ef við setjum viðskiptaþvinganir inn í staðinn fyrir Sólheimajökul, er varað við því að beita slíkum þvingunum.
Ef hins vegar er sagt: "Rússum hótað viðskiptaþvingunum" er merkingin augljós. Af hverju var fyrirsögnin ekki orðuð þannig?
![]() |
Vara við viðskiptaþvingunum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.7.2014 | 01:12
Það er ekki nóg að vona, - það verður að gera eitthvað strax.
Nú er sagt að síðasta haldreipið varðandi einstakt lífríki Mývatns sé að vona að kúluskíturinn og hið einstaka lífríki Mývatns komi aftur.
En það er ekki nóg að vona þegar fyrir liggur að eftir að djöflast var í vatninu við kísilgúrnám í meira en þrjá áratgui eigi að halda áfram á sömu braut við hvers kyns umsvif við vatnið, auka byggðina við vatnið, fjölga ferðamönnum, auka umferðina og reisa 90 megavatta jarðvarmavirkjun á austurbakka vatnsins.
Það verður að gera eitthvað og það strax. Það þarf að reisa hreinsistöðvar til að hreinsa skólp frá vaxandi byggð og vaxandi umferð fólks og farartækja og það á að slá þegar í stað af allar hugmyndir um að hlamma stórri jarðvarmavirkjun niður á austurbakkann með tilheyrandi brennisteinsvetnsmengun.
En það er eins og menn yppti bara öxlum og segi: Það eru ekki til neinir peningar og við verðum jú að lifa af landinu og virkja hvar sem því verður við komið.
![]() |
Kúluskíturinn í Mývatni er horfinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)