Færsluflokkur: Bloggar

Verðskulduð viðurkenning fyrir þarft og vel heppnað framtak.

Sjónvarpsþáttaröðin "Orðbragð" er eitt þarfasta og best heppnaða framtak í sjónvarpsþáttagerð og menningu okkar í langan tíma.

Þessa þáttaröð mætti vel endursýna með jöfnu millibili á næstu áratugum.

Íslensk tunga er einn af þremur hornsteinum tilveru okkar hér á þessari eldfjallaeyju við ysta haf.

Þessir hornsteinar eru nefndir í upphafi ljóðs Snorra Hjartarsonar: 

"Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein."  


mbl.is Móðurmálskennarar lofa Orðbragð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég hef aldrei áður flutt flugvöll."

Jón Gnarr borgarstjóri varð þjóðþekktur fyrir það að vera orðheppinn maður með frumlega sýn á hlutina sem oft var þó svo einstaklega einföld.

Þegar hann tók við borgarstjórastöðunni voru fyrstu viðbrögð hans við hugmyndinni um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og flytja starfsemi hans annað fólgin í ummælum um það að hann skorti reynslu í að flytja flugvelli.

"Skrifaðu flugvöll" var fleyg setning frambjóðanda eins fyrir um 70 árum á framboðsfundi, sem hann sagði við fylgdarsvein sinn þegar talið barast að skorti á flugsamgöngum í héraðinu.

Sú setning lýsti þó mun einfaldari gerningi en þeim, sem Jón Gnarr taldi sig standa frammi fyrir í upphafi borgarstjóratíðar sinnar.

Því að hugmyndirnar um að leggja Reykjavíkurflugvöll niður og reisa annan eru þrefalt flóknari en að reisa nýja íbúðabyggð, sem sé þær að rífa í fyrsta lagi heilan flugvöll með allri þeirri flugtengdu starfsemi sem þar er, byggja í öðru lagi annan flugvöll á einhverjum öðrum stað sem enginn veit, hvort er til, og reisa síðan í þriðja lagi heila íbúðabyggð þar sem hinn rifni flugvöllur stóð.

Má merkilegt heita að hjá borg, sem ræður yfir óbyggðum svæðum nær þungamiðju byggðarinnar, skuli það ekki blasa við, að þrefalt einfaldara og hagkvæmara er að reisa íbúðabyggðir á þeim svæðum, heldur en að bæta því við að rífa flugvöll og byggja annan í ofanálag.

Ég fór að gamni mínum um Hólmsheiði í fyrradag og undraðist enn meira en fyrr hvernig mönnum dettur í hug að veifa því að reisa flugvöll þar, miðað við það hóla- og hæða-landslag sem er á svæðinu.

Um svæðið liggja hitavatnsleiðsla til borgarinnar og raflína, auk þess sem þar er stærsta spennistöð Reykjavíkursvæðisins og reisa á risafangelsi, sem er bráðnauðsynlegt, þar sem nú þegar ríkiri mismunun á milli þeirra sem hafa fengið fangelsisdóma, sem er fólgin í því að tugir þeirra þurfa ekki að afplána dómana vegna þess að þeir fyrnast.

Aðal aðflugflugið að Hólmsheiðarflugvelli yrði yfir þrjú stór íbúðahverfi í Reykjavík og í öllum áætlunum um þennan óra flugvöll er ekkert hugsað um þann tugmilljarða kostnað sem fylgir því að reisa allar þær byggingar og vegatengingar sem svona flugvöllur kallar á.

Síðan kóróna óhagstætt veðurfar og flugskilyrði vitleysuna.

Nýtt mat á afkastagetu dreifikerfis Orkuveitunnar, sem nú er upplýst um að fylgi nýrri íbúðabyggð, er aðeins eitt af mörgum framkvæmdaatriðum, sem hrúgast munu upp með því að rífa núverandi flugvöll og demba þar niður íbúðahverfum, sem kalla á aukna umferð og vaxandi umferðarteppur á sama tíma og búið er að samþykkja að engar nýjar vegaframkvæmdir verði í Reykjavik næstu tíu ár vegna fjárskorts.

Í áætlunum um þessi íbúðahverfi gefa menn sér þá gölnu forsendu að enginn íbúi þeirra muni nota bíl, heldur allir hjóla eða ganga og að það muni draga úr umferð og fækka umferðaróhöppum á höfuðborgarsvæðinu um 40% !! 

Meira að segja í kommúnistaríkjum Austur-Evrópu gengu svona formúlur og ímynduð miðstýring ekki upp.

    


mbl.is Ný byggð kallar á mat á afköstum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lágmenning og lágtækni ?

Fyrsta vélknúna flugið, flug Wright-bræðra í desember 1903, var nú ekki langt né hátt, 37 metra vegalengd á 12 sekúndum á þrefalt minni hraða en góður spretthlaupari. Þennan dag náði vélfluga þeirra aðeins þriggja metra hæð og má með sanni segja að það hafi verið sannkallað grasrótarflug.

Næstu árin máttu þeir þola lítilsvirðingu hjá mörgum og sex árum síðar hafnaði Bandaríkjaher þeim.

Engan hefði órað fyrir þeim ævintýralegu framförum í flugi sem síðan hafa orðið sem beint rökrétt framhald af verki og hugsun fyrstu flugmannanna.  

Flug "niður til helvítis" á reikistjörnunni mars er nýjasta dæmið um það hve langt grasrótarstarf frumherjanna hefur leitt okkur á þessu sviði.   

Mér varð hugsað til þessa í dag í Fluggörðum, sem margir líta hornauga, vegna þess að það þurfi að ryðja þessu flugskýlahverfi burtu, sem tákni um lágmenningu og lágtækni og innleiða í staðinn sanna hámenningu, æðri vísindi og hátækni.

Á yfirborðinu gat grasrótarflug Wright-bræðra sýnst vera lítilfjörlegt fikt manna sem voru að klambra saman einhverju hrófatildri út í bláinn. Þó lá að baki starf og hugvit sem var í raun afrakstur vísindalegrar hugsunar á sviði eðlisfræði og efnafræði.

Þeir voru hvort tveggja í senn í vísindalegu námi, vísindalegum tilraunum og úrvinnslu á niðurstöðum þeirra.

Þegar borgarfulltrúar komu fyrr í vor á fund þeirra, sem starfa í Fluggörðum, höfðu þeir ekki hugmynd um að þar væri starfandi flugskóli með tugum nemenda og að þar væri unnið við flugvélasmíði, flugvélahönnun, viðhaldi og viðgerðum, endursmíði og frumsmíði á alls meira en 80 flugvélum.

Ég nefni aðeins eina flugvél í Fluggörðum af þeim rúmlega 80, sem þar eru, sem dæmi um vísindalega hugsun og hugvit, af því að eftir mikla og áratuga langa leit að hliðstæðri flugvél í veröldinni, hef ég ekki fundið hana.

Þetta er flugvél Kristjáns Árnasonar, sem er algerlega hans hugarfóstur, hönnun og smíði, minnsta, og léttasta tveggja hreyfla tveggja manna flugvél, sem mér er kunnugt um að sé til.

Sjá myndir sem ég mun birta á facebook-síðu minni.

Með því að velja tvo af léttustu flugvélahreyflum samtímans, 85 hestafla Jabiru, sem vega aðeins um 85 kíló hvor með öllum búnaði, tekst Kristjáni að hanna flugvél sem er aðeins rúmlega 500 kíló tóm, en vegur aðeins 800 kíló fullhlaðin, nær rúmlega 200 kílómetra farfllugshraða og getur haldið flugi á öðrum hreyflinum ef hinn bilar.    

Til samanburðar má geta þess að minnstu bílarnir, sem nú eru á markaði, vega um 1000 kíló.

Að baki þessari einu litlu flugvél býr hátæknihugsun, sem er langt fyrir ofan þá hugmynd, sem margir virðast hafa um flugið, að tákn þess séu skítugar hendur inni í skúr eða skýli, fullu af drasli.

Á flugvellinum og við hann er starfsemi sem menntar hundruð manna sem starfa við hátæknistörf og veitir þúsundum þjónustu og atvinnu.   

 


mbl.is Undirbúa flug niður til helvítis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýr bera oft nöfn með reisn.

Nöfn dýra geta oft verið stór hluti af sambandi þeirra við umhverfi sitt eins og nafn verðlaunahanans Ólafs Ragnars ber vitni um.

Þegar ég var í sveit hétu kettirnir nöfnunum Eisenhower og Stevenson og báru þessi nöfn með sóma.

Var sá fyrrnefndi ötull við það hlutverk sitt að herja á rottur og mýs.

Heimilisköttur á heimili okkar Helgu um árabil hét Carl Möller og gaf hinum mennska nafna sínum lítið eftir hvað snerti persónuleika og góð áhrif á alla, sem kynntust þessu magnaða dýri.

Í Hvammi voru landnámshænsn og vel man ég eftir því hvað hænan Tuðra var sérlega glæsileg.

Ég og Dinni (Birnir Bjarnason), sem vorum 13 ára síðasta sumarið sem við vorum báðir á bænum, bjuggum til í miklum hugarspuna heilmikið félags- og stjórnmálalíf dýranna á bænum.

Þetta var sumarið 1953 þegar kosið var til Alþingis og við spunnum upp kosningar til Hvammþings dýranna. Tuðra var formaður hæsnafélagsins en afburðakýrin Branda var forseti bandalags dýrafélaganna.

Hún var stærsta kýrin, mjólkaði mest og þeirra langvitrust. Hún var á fremsta básnum og gekk fyrst út á morgnana og inn á kvöldin. Í haganum var hún mögnuð forystukýr, gekk ævinlega fremst upp í fjall og til baka og réði þvi hvar þær bitu gras.

Sumir segja að nautgripir séu heimskir og notað er orðið nautheimskur um vitgranna menn. Samt höfðu þessir gripir í Hvammi vit á því að láta heildina nýta sér hæfileika afburðakýrinnar Bröndu.   


mbl.is Sýna Ólafi Ragnari litla virðingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Haustin og vorin henta vel.

Það hefur tekið okkur Íslendinga marga áratugi að átta okkur á því að erlendir ferðamenn koma ekki til Íslands til þess að leita eftir miklum og varanlegum sólarhita í logni og heiðríkju eins og við gerum þegar við förum til sólarlanda.

Einkum koma sólarlandabúar ekki til Íslands í þessu skyni, því að þeir hafa nóg af sólarsterkju, logni og molluhita heima hjá sér og eru að leita að nýrri upplifun.

Á sama hátt er það eðlilegt að við leitum suður á bóginn til að upplifa eitthvað nýtt. En að sumu leyti er hásumarið ekki heppilegasti tíminn til þess.

Hvort tveggja er, að þá eru veðrið og birtan best hér heima og hitasvækjan mest í suðurlöndum. Með vaxandi ferðamannastraumi er einnig mest þörf fyrir vinnandi hendur hér heima á helsta álagstíma ferðamannatímans hér heima.  

Vorin og haustin henta okkur betur til utanferða, enda vinnum við betur upp svalann hér heima á þeim tíma ársins en um hásumarið.

Þess vegna er æskilegt að skapa sveigjanleika í atvinnulífinu til þess að þeir árstímar verði meira notaðir til utanferða en verið hefur.  

 


mbl.is Sólarlandaferðir seljast betur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...Hagráð var skínandi bjart..."

"Fjármálastöðugleikaráð" er langt orð. Ekki er ég viss um að mikilvægi nefnda og ráða fari eftir því hvað nafn þeirra er langt. Vafalaut eru miklar vonir bundnar við þetta nýja ráð með langa nafninu og víst er að verkefnin ætla að vera erfiðari en búast hefði mátt við.

Vinnudeilufréttirnar, sem nú eru farnar að dynja í fjölmiðlum daglega, vekja vondar minningar um fyrri tíð þegar Ísland var með einhverja mestu verkfallatíðni á byggðu bóli og tilheyrandi verðbólgu vegna víxlverkana kaupgjalds og verðlags, að ekki sé minnst á það, að tjónið af þessum verkföllum var oft meira en ávinningurinn.

Einstaka verkfall skapaði þó félagslegar umbætur, styttri vinnutíma, lengra orlof, almannatryggingar og félagslega bústaði.

Á sjöunda áratug síðustu aldar höfðu verkföll áratugsins á undan orðið til þess að menn þráðu að bæta ráð sitt.

Þegar Viðreisnarstjórnin skar hagkerfið upp og minnkaði stórlega höft, var deildin, sem verið hafði í Landsbankanum og séð um prentun peningaseðla og gengismál, tekin út úr bankanum og stofnaður sérstakur Seðlabanki Íslands.

Jafnframt var stofnað svonefnt Hagráð, sem mig minnir að hafi átt að sýsla við svipuð verkefni og Fjármálastöðugleikaráð á að sinna nú, en ekki minnist ég þess að Hagráð hafi komið nokkru  nýtilegu í verk.

Heitið Hagráð er tvö atkvæði en nýja nafnið er átta atkvæði, fjórum sinnum lengra. Það eru 6 stafir í orðinu "Hagráð" en 22 stafir í nýja heitinu, sem ég nenni ekki einu sinni að skrifa.

Þegar kreppa dundi yfir í íslensku efnahagslífi 1968 gerði ég það mér til dundurs á skemmtunum að herma eftir Gylfa Þ. Gíslasyni og fara með skopstælingu á ljóðinu "Ísland, farsælda frón".

Í fyrri hluta þess voru meðal annars þessar hendingar:

"Landið var ferlega flott 

og fannhvítar þingmanna tennur, -

Hermann var heiður og blár, -

Hagráð var skínandi bjart. "   

 

Þetta hefði verið útilokað að gera ef ráðið hefði heitið "Fjármálastöðugleikaráð"

Árið 1968 var mjög kalt og gríðarlegar kalskemmdir í norðlenskum túnum.

Í síðari hluta ljóðsins voru meðal annars þessar hendingar:

 

"Landið er ferlega fryst

og fannhvítar kalskemmdasveitir, -

Hermann ei heiður og blár, -

Hagráð er skínandi svart."

 

Setningin um Hagráð reyndist innihalda áhrínsorð. Einhvern tíma á næsta áratug minnir mig að það hafi safnast til feðra sinna á mesta verðbólgutíma, sem komið hefur í sögu landsins, svo að heitið Hagráð hefði frekar átt að vera Hag-óráð.

Vegna þess hvað heiti hins nýja Hagráðs er langt, er ekki hægt að koma fyrir neinum áhrínsorðum um það í stuttum ljóðlínum. En það mun samt engu ráða um það hvort það lifir lengur eða skemur enda auðvelt að setja saman ný áhrínsorð undir öðrum bragarhætti.

 

Hagráð dróst upp, varð eymd´að bráð.

því uppskorið var sem til var sáð.    

Mun farlmama róa fram í gráð

Fjármálastöðugleikaráð ?

 

 

 

 

 


mbl.is Fjármálastöðugleikaráði komið á fót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað gerðist hjá Suður-Kóreska flugfélaginu hér um árið.

Fyrir allmörgum árum tapaði Suður-Kóreska flugfélagið miklu á því að slysatíðni á vélum félagsins var mun hærri en hjá öðrum flugfélögum. Einstaka slys gat að vísu hafa gerst hjá einhverju öðru félagi, en loks kom að því að þau voru orðin of mörg.

Eftir að eitt stórslysið varð og upptökur úr stjórnklefanum sýndu að flugstjórinn naut óeðlilegrar og nánast tilbeiðslukenndrar virðingar sem hamlaði því að aðstoðarmenn hans þyrðu að koma með athugasemdir um gerðir hans, hrundi traustið á félaginu og það stórtapaði, rétt eins og malasíska flugfélagið gerir nú.

Forráðamenn Suður-Kóreska félagsins tóku sig til og létu fara fram gagngera könnun á  samskiptavenjum starfsmanna félagsins þar sem gamlar foreskjulegar hefðir reyndust gera mikið ógagn.

Voru tekin upp gerbreytt vinnubrögð byggð á nauðsynlegum og nútímalegum samskiptum starfsmanna og í kjölfarið komst flugfélagið í hóp öryggustu flugfélaga heims.

Slysa- og óhappatíðni hefur verið í hærri kantinum hjá Malasyan Airlines síðustu ár og við rannsókn á hvarfi Boeing 777 þotunnar í vor kom í ljós að félagið hafði sparað sér að taka í notkun tækni sem hefði hugsanlega getað breytt miklu um það hve gersamlega vélin hvarf.

Þar að auki er það jafnvel enn verra að vélin hafi horfið með öllu en þótt hægt hefði verið að komast að orsökum slyssins. Það er óvissan sem er verst, því að hún býður upp á það að leita að verstu hugsanlegum skýringum.

Það er erfiðara fyrir flugfélög frá litlum eða vanþróuðum þjóðum að ávinna sér traust í flugi en hjá stórum og velmegandi þjóðum.

Fyrir sum löndin, eins og Eþíópíu, er virt flugfélag sem keppir á alþjóðamarkaði gríðarlega mikilvægt.

Það var Loftleiðaævintýrið líka fyrir okkur Íslendinga þegar við vorum að reyna að öðlast traust og virðingu meðal sjálfstæðra þjóða eftir að við stofnuðum lýðveldi 1944.   


mbl.is Afbóka flug með Malasyan Airlines
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Æ fjölbreyttari hjól.

Æ fjölbreyttari reiðhjól eru nú á markaði, allt frá þessum gömlu, einföldu og venjulegu og upp í hrein vélhjól.

Fyrir tilviljun verð ég næstu daga að kynna mér reiðhjól, sem er rafknúið en þó með þeim möguleika að hjóla með gamla laginu. Það kom þanni til að í fyrra keypti ég gamlan ódýran jeppa til að nota á Sauðárflugvelli en hafði síðan ekki not fyrir hann í fyrrahaust og þurfti peningana til baka.

Þannig vildi til að hann var til sölu á Akureyri í vetur, en þar var eindæma slæm tíð og hann gekk ekki út fyrr en nú á dögunum, og þá á þann hátt að ég skipti á honum og alveg splunkunýju, ónotuðu rafknúnu reiðhjóli.

Ódýrustu hjólin af þessu tagi eru boðin á um 150 þúsund krónur ný, en þetta hjól er aðeins öflugra og hefur meiri möguleika að því leyti að hægt er að hjóla á því með gamla laginu og ná á þann hátt meiri hraða en þeim 25 kílómetra hámarkshraða, sem það hefur rafknúið.

Nýtt kostar þetta hjól 250 þúsund krónur og ég sé fram á að bjóða það til sölu á næstunni.

Ef ég hefði búið á Háaleitisbrautinni þar sem ég bjó í 13 ár fram til síðasta hausts, hefði verið gráupplagt að prófa að nota hjólið og spara með því akstursútgjöld, en á styttri leiðum er maður alveg jafn fljótur á svona hjóli og á bíl.

Ég sló á að hægt væri að spara 10 þúsund kall á mánuði eða 120 þúsund kall á ári.

En nú á ég heima í næsta húsi við Borgarholtsskóla og það eru 11 kílómetrar héðan niður að Umferðarmiðstöð. Það þýðir að borgarskreppur vestur í Skeifu fram og til baka tekur 20-30 mínútum lengri tíma en ella og fyrir kannski er það óraunhæft fyrir mann, sem hefur nóg við tímanna ð gera, að reikna með mörgum slíkum ferðum.

Ég hef meira að segja enn ekki haft tíma til að skoða hjólið almennilega og kynna mér hvernig það virkar. Er hins vegar sagt af þeim, sem eiga svona hjól, að það sé feyki kraftmikið og skemmtilegt.  


mbl.is Reiðhjólin runnu út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað eru þetta mörg "hjörl"?

Mælieiningin "hjörl" varð til þegar Hjörleifur Guttormsson var upp á sitt besta sem "ræðukóngur" Alþingis, þ. e. sá, sem átti lengstan ræðutíma að baki á hverju þingi.

Því miður er ég búinn að gleyma hvað "hjörlið" er langt en kannski getur einhver upplýst mig um það.

Steingrímur J. sér um það að halda þessum titli innan raða VG, eftir að Hjörleifur er ekki aðeins farinn af þingi heldur líka búinn að segja sig úr flokknum.

Þess má geta að Hjörleifur var ekki einhamur eingöngu að þessu leyti heldur á ýmsum fleiri sviðum.

Ég hef fyrir því heimildir, að fyrir nokkrum misserum hafi þurft að taka til hjá prentsmiðju hér í borg, þar sem söfnuðust fyrir hundruð, ef ekki þúsundir tilskipana, sem komu til þingsins frá ESB eftir að við gengum í EES og höfðu verið ætluð þingmönnum til lestrar og varðveislu.

Var ákveðið að henda öllu gumsinu, enda nokkuð ljóst að þingmennirnir myndu ekki sækja þessi gögn.

En það fylgdi sögunni að einn þingmaður hefðu skorið sig úr, sem ævinlega hefði tekið öll þessi gögn til sín svo að ekkert varð eftir.

Þetta var auðvitað Hjörleifur Guttormsson, og má kannski yfirfæra mælieininguna "hjörl" yfir á lengd opinberra gagna.

Ég sting upp á að eitt hjörl af skýrslum sé 100 blaðsíður, enda vafasamt að nokkur ESB tilskipun sé styttri en það, að minnsta kosti varla styttri ef greinargerðir og fylgigögn eru talin með.

Gögnin sem lágu eftir stjórnarskrárnefnd Guðrúnar Pétursdóttur var þá 8 hjörl og skýrslur rannsóknarnefna Alþingis gott betur.

Gaman væri að vita hvað öll gögn Sérstaks saksóknara eru mörg hjörl. En ég efast ekki um að Hjörleifur Guttormsson myndi fara létt með að hakka þau öll í sig.   


mbl.is Steingrímur J. er ræðukóngur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nokkuð líflegt á ásnum Hamarinn-Herðubreið.

Undir vestanverðum Vatnajökli, nánar tiltekið á ásnum Grímsvötn-Bárðarbunga, er miðja annars af tveimur svonefndum möttulstrókum jarðar. Hinn er undir Hawai á Kyrrahafi.

Afleiðingin er sú, að Grímsvötn eru virkasta eldstöð Íslands, þótt eldvirknin sé í nokkurra áratuga hrinum með rólegri tímabilum á milli.

Þannig var mjög rólegt tímabil frá 1937-1986, en þó byrjaði hægt og bítandi gostímabil, sem hefur skilað eldgosum 1986, 1996, 1998, 2004 og 2010.

Síðsumars 1996 varð snarpur jarðskjálfti í Hamrinum fyrir suðvestan Bárðarbungu. Síðar var talið hugsanlegt að þar hefðu orðið smávægileg eldsumbrot, og undanfari Gjálpargossins 1. október 1996 var snarpur skjálfti í Bárðarbungu. Skjálftar þar fylgja oft eldsumbrotum fyrir sunnan bunguna en auðvitað er Bárðarbunga ekki næst hæsta eldfjall landsins fyrir ekki neitt, - alveg er hugsanlegt að gjósi þar.

2007 hófst skjálftahrina suður af Öskju, rétt sunnan við fjallið Upptyppinga, sem færðist rólega norðaustur í Álftadalsbungu, en síðan til vesturs um Krepputungu og vestur í línuna frá Öskju norður til Herðubreiðar.

Að undanförnu hefur verið nokkuð líflegt við Herðubreiðartögl, sem eru rétt sunnan við Herðubreið og þar skelfur enn.

Þegar litið er á jarðskjálftakortið á vedur.is sést hvernig skjálftarnir raðast um þessar mundir á línu frá Hamrinum um Bárðarbungu og Kistufell og allt norður í Herðubreið.

Nú er jöklarnir að lækka, þynnast og léttast, og jarðfræðingar búast við vaxandi eldvirkni á næstu áratutugum ef hlýnunin heldur áfram, svipað því sem gerðist fyrir 1100 árum þegar jökullinn, myndast hafði yfir landinu á síðustu ísöld, hvarf. 


mbl.is Merkja ekki gosóróa á svæðinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband