Færsluflokkur: Bloggar

Að draga réttar ályktanir af vöntun á leiguíbúðum.

Enda þótt það hafi verið vinsæl stefna í 60 ár að gefa fólki kost á að eiga eigin íbúð standa menn frammi fyrir breyttum tímum í því efni.

Sérstaklega er það athyglisvert að leigjendur á aldrinum 25-34 ára eru þrefalt fleiri en 2007, og að vaxandi ójöfnuður í þjóðfélaginu birtist í því að hjá tekjulægsta hópnum eru leigjendur líka þrefalt fleiri en 2007.

Fólk stofnar yfirleitt seinna til fjölskyldu en áður var og það hefur áhrif á þessa þróun.

Upp úr miðri síðustu öld var talsvert gert til að hjálpa fólki til að eignast eigin íbúður, ekki aðeins í félagslega kerfinu og verkamannabústöðunum, heldur líka með skipulagningu sérstaks hverfis í Reykjavík sem fékk heitið Smáíbúðahverfið þar sem einkaframtakinu voru skapaðar hagstæðar aðstæður.

Það þarf að draga réttar ályktanir af þeim miklu breytingum sem hafa orðið á skömmum tíma.

Með því að einblína á byggingu íbúðabyggðar í Vatnsmýri og í gömlu miðborginni verður þetta viðfangsefni ekki leyst því að stórum hluta best efnaða fólksins þykir fínt að búa á þeim slóðum og sprengir það svo upp íbúðaverðið, að það er komið upp í allt að milljón á fermetrann í Skuggahverfinu.

Lóðirnar í Vatnsmýrinni verða einhverjar þær dýrustu sem um getur, enda sums staðar 5-6 metrar niður á fast. Leiguverð þar verður augljóslega svo gríðarlega hátt að það vandi ungs fólks með litlar tekjur og vandi ungra fjölskyldna verða ekki leystur þar.

Með þessum orðum er alls ekki verið að amast við því að vel efnað fólk fái að kjósa sér búsetu á þeim svæðum sem því hugnast best og hefur efni á að veita sér.

En það leysir ekki hinn brýna vanda þeirra sem mest þarf að sinna. Verði það ekki gert flytur þetta fólk einfaldlega af landi brott. "Víglínan" vegna byggðar í landinu liggur nefnilega í Leifstöð frekar en við Elliðaár eða Hvalfjörð og Þjórsá.  

Í engum þeim tilfellum á síðustu öld, þar sem reynt var að hjálpa til við að ungt fólk og fjölskyldufólk gæti komist í húsnæði, var vaðið niður í gömlu miðborgina til þess.

Verkamannabústaðirnir á Rauðarárholti risu í jaðri borgarinnar og voru í úthverfi á þeirri tíð.

Sama átti við um Smáíbúðahverfið og Breiðholtið.

Af hverju? Af því að við búum um fjrálsu markaðsþjóðfélagi þar sem takmörk eru fyrir því hve langt er hægt að ganga í sovéskri miðstýringu í þessum efnum.

Auk þess búa næstum 80 þúsund manns í nágrannabæjum Reykjavíkur, Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði og bjóða upp á lægra fasteignaverð og þar með lægra leiguverð en er eða verður í Reyjavík vestan Elliðaáa. Enda fjölgar fólki í þessum bæjarfélögum jafnt og þétt.

Það er sífellt nefnt sem forsenda fyrir því að leggja flugvöllinn niður og troða sem flestum þar niður, að Reykjavík sé einstætt viðundur meðal sambærilegra borga hvað snertir það hve dreifbýl hún.

Þetta er röng forsenda, því að valdar eru ósambærilegar borgir til samanburðarins, gamlar og grónar milljónaborgir í þéttbýlum löndu.

Rétt forsenda er að bara Reykjavík saman við borgir af sambærilegri stærð á Norðurlöndum.

Þá kemur í ljós að þær eru allar álíka dreifbýlar, sumar jafnvel dreifbýlli.

Eina undantekningin er Stavanger í Noregi, en það stafar af náttúrulegum orsökum, því að sjór umlykur borgarstæðið að mestu og takmarkar stærð þess.

Samtök borga á Norðurlöndum lét gera vandaða skýrslu um þetta fyrir rúmum 15 árum, þar sem þetta kemur fram. Þeirri skýrslu stungu þáverandi borgaryfirvöld níður í skúffu.

Það skyldi þó ekki hafa stafað af því að staðreyndir hennar pössuðu ekki í kramið ?

Að ofangreindu sögðu er samt að sjálfsögðu hægt að taka undir það að þétting byggðar eykur hagkvæmni í borgarsamfélaginu og að það sé sjálfsagt mál að leitast við að þétta byggð.

Þá þarf að huga að réttri forsendu, þeirri hvar þyngdarpunktur íbúðabyggðar liggur á höfuðborgarsvæðinu, en það er austast í Fossvogi. Í nágrenni við hann og stærstu krossgötur landsins eru svæði, sem ætti að skoða fyrst þegar þétting byggðar er áformuð. 

Það er gagnslaust að þétta byggð nema það sé gert á grundvelli réttra ályktana sem byggja á réttum forsendum.

Húsnæðisvandinn er brýnn og það verður að taka á honum á þann hátt, sem gefur von um að leysa hann.  


mbl.is Fjórðungur heimila á leigumarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sívaxandi og umfangsmikil geðþóttalögbrot ?

Vaxandi persónunjósnir og hnýsni "stóra bróður" í hagi allra í ætt við það sem lýst var í bókinni "1984" eru áhyggjuefni eins og Brynjar Níelsson alþingismaður og lögfræðingur ræddi um á umræðufundi í fyrradag.

Ég hef fyrr rætt um símahleranir en nú er fleira að koma upp á yfirborðið.  

Þegar ég sagði frá því að ósköp venjulegt sendibréf til mín frá útlöndum hefði verið opnað hélt ég að hér væri um einsdæmi að ræða og jafnvel einhver mistök.

En fljótlega helltust inn athugasemdir, sem bæði sýndu að þetta er ólöglegt athæfi og miklu útbreiddara en mig hafði órað fyrir.

Þær má sjá í framhaldi bloggpistils mín í gær um þetta.  

Í athugasemdunum eru nefnd dæmi um að bréf ósköp venjulegs og löghlýðins fólks hafi verið opnuð jafnvel árum og áratugum saman.

Varðandi aldraða konu, sem hefur verið pennavinkona við erlenda jafnöldru sína í 60 ár, kemur í ljós að ekki einasta hafa velflest bréf til hennar frá vinkonu hennar verið opnuð, og það án nokkurra skýringa né tilgreindra ástæðna í eitt einasta skipti, heldur hefur þessu verið haldið áfram þótt þessar aðgerðir hafi ekki borið hinn minnsta árangur.

Enda hefur konan aldrei komist í kast við lög og aldrei neytt áfengis eða annarra vímuefna.

Einn þeirra mótmælenda, sem var við Kárahnjúka um hríð hér um árið, hafði símasamband við mig í morgun og greindi mér frá því að þegar erlendur höfundur bókar um enska njósnarann, sem kom sér á vegum lögreglunnar undir fölsku flaggi í hóp mótmælenda, ætlaði að senda þessum mótmælanda bókina hefði verið búið að opna umslagið og taka bókina úr því, svo að umslagið var tómt.

Eftir að þetta hafði gerst tvisvar sagðist mótmælandinn hafa brugðið á það ráð að fá virta innlenda stofnun til að gerast viðtakandi bókarinnar og þá fyrst hefði hún komist til landsins.

Reglugerðarákvæðin um heimild tollara til að opna póstböggla eiga eðli málsins samkvæmt ekki við opnun einkabréfa fólks. Póstbögglar og vörusendingar innihalda yfirleitt ekki persónuleg trúnaðarmál heldur varning.

Öðru máli gegnir um venjuleg sendibréf. Það getur oft verið um einkamál að ræða.  

Það hlýtur að vera ástæða þess að engin heimild er í reglugerð eða lögum um að opna þau.  

Engu er líkara en að ekki sé einasta í gangi sé furðu víðtækar njósnir um einkabréf fólks, heldur einnig samvinna tollayfirvalda og lögregluyfirvalda sem ber með sér geðþóttablæ oft á tíðum, enda virðist enginn þurfa að svara fyrir eitt eða neitt.

Ef reglugerð um tollaeftirlit er skoðuð kemur í ljós að hvergi er veitt heimild til þessa, heldur fer þetta fram án þess að viðtakendur bréfanna fái nokkra skýringu eða uppgefna nokkra ástæðu.

Ekkert utanaðkomandi aðhald virðist í gangi heldur er allt eins viðbúið að þetta geti þróast og vaxið stjórnlaust, og því eru aðvörunarorð Brynjars Níelssonar orð í tíma töluð.

Meðan alger þðgn ríkir um það hvernig þessum málum er varið er full ástæða til að velta vöngum yfir því af hverju þetta sé í gangi.  

Ef tollayfirvöld telja, að rökstuddur grunur sé á að einkabréf séu misnotuð, eiga þau að fara fram á það með rökstuðningi að nauðsynlegt sé að taka upp heimild til að hnýsast í þessi bréf.

En á meðan það er ekki gert er það einkennilegt að tollayfirvöld geti einfaldlega tekið lögin í sínar hendur eins og ekkert sé.   

   


mbl.is Hver eru réttindi mín við handtöku?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hliðstæður frá síðustu áratugum.

Það þarf ekki að fara öld aftur í tímann til að sjá hið gamalkunna dæmi um leiðtoga þjóða, sem bregðast þannig við innanlandsvanda að efna til átaka við önnur lönd til að þjappa þjóð sinni að baki sér. Nefna má tvö dæmi um þetta.

Þegar Argentínumenn réðust á Falklandseyjar vorið 1982 og tóku þær af Bretum, snerist argentínska þjóðin þannig á punktinum, að í stað óvinsælda Leopolds Galtieris og stjórnar hans innanlands, var hann hylltur af múg og margmenni á götum höfuðborgarinnar þegar hernám Falklandseyja hafði heppnast og sjálft breska ljónið niðurlægt.

Honum og Argentínumönnum tókst að afla sér ákveðinnar samúðar umheimsins, þegar fólk um allan heim leit á landakortið og sá, að Falklandseyjar voru skammt undan ströndum Argentínu næstum 10 þúsund kílómetra frá Bretlandi.

Galtieri hafði aðeins verið við völd í fjóra mánuði, þegar hann ákvað að efla vinsældir sínar með innrásinni í Falklandseyjar.

Hann taldi sig njóta mikillar velvildar Ronalds Reagans, sem hafði hælt honum á hvert reipi sem afburða hershöfðingja og útvarðar hins "frjálsa heims" í suðri.  

Í umfjöllun umheimsins um stríðið gleymdist í bili, að íbúar eyjanna voru breskir, töluðu ensku og vildu vera breskir þegnar áfram.

En eftir að Bretar höfðu farið í stríð við Argentínu snerist dæmið hratt við. Nú blasti við að Galtieri hafði misreiknað sig herfilega á margan hátt.

Margareth Thatcher naut nefnilega enn frekari hylli hjá Reagan en Galtieri, ef eitthvað var, og hún sá tækifæri til að stimpla sig inn sem sterkasti þjóðarleiðtogi Breta síðan Winston Churchill leið.  

Argentínski herinn átti enga möguleika til að standast breska hernum snúning þegar Thatcher fyrirskipaði honum að fara í stríð við Argentínu og taka 'Falklandseyjar af þeim.

Fyrir þetta reis "járnfrúin" Margareth Thatcer til mikilla vinsælda í Bretlandi fyrir staðfestu sína, enda var hún lagin við að vekja upp gamlar minningar um hina staðföstu stríðshetju og raunar þjóðhetju Winston Churchill, sem einnig hafði verið formaður Íhaldsflokksins.

Ekki var það síður sætt fyrir hana að góður árangur Breta í stríðinu minnti á forna frægð hins breska heimsveldis og hers Breta.  

Thatcher tókst að þjappa þjóðinni að baki sér með því að nýta sér það að vera fært upp í hendurnar gamalkunnri aðferð við að finna sameiginlegan utanaðkomandi óvin.

Galtieri varð hins vegar að gjalda grimmilega fyrir dýpkeyptar afleiðingar af misheppnuðu áhættuspili og hrökklaðist frá völdum eftir aðeins hálft ár í starfi.  

Georg W. Bush lék svipaðan leik í kjölfar árasarinnar á Bandaríkin 11. september 2001, og það fleytti honum áfram um hríð að geta þjappað bandarísku þjóðinni að baki sér í "styrjöldinni við hryðjuverkamenn. 

En  2008 var svo komið að stefna hans varðandi það að gefa gróðaöflum í þjóðfélaginu sem lausastan taum og minnka eftirlit með þeim sem mest leiddi til þess að flokkur hans tapaði forsetakosningunum það ár.

Enda ekki hægt fyrir flokkinn að finna lengur neinn utanaðkomandi óvin, sem hægt væri að efna til átaka við og þjappa þannig þjóðinni að baki sér.    


mbl.is Á baki þjóðrembudýrinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Jibbíi jei! Það er kominn tuttugasti og fyrsti júní!" ?

Enn blossar upp umræðan um að færa nokkra árlega frídaga til svo að þeir liggi við helgar og lengi þær á hagkvæman hátt, til dæmis með því að færast á mánudaga eða föstudaga. 

Það má svo sem vel athuga það að færa nokkra helgidaga í átt að vikulokum eða vikubyrjun. En dagar eins og 1. maí og 17. júní hljóta að hafa nokkra sérstöðu, því að þeir hlaupa ekki á milli mánaðardaga á milli ára eins og hinir dagarnir.

Einkum væri það skrýtið ef við, einir þjóða, tækjum upp á því að halda upp ekki upp á 1. maí 1. maí, heldur 2., 3., 4. eða 5. maí.  

Einu sinni sagði ræðumaður í ræðu þann dag: "Í dag er 1. maí haldinn hátíðlegur um allt land."

Þá kallaði einhver úr áheyrendahópnum:

"Nei, ekki á Hornafirði!"

En ræðumaður svaraði jafnharðan:

"Jú, líka á Hornafirði".

Ef Ísland skæri sig úr meðal þjóða og færði frídaginn til, gæti komið til þess að ræðumaður í einhverju nágrannalandi okkar 1. maí segði:

"Í dag er 1. maí haldinn hátíðlegur um allan heim".

En einn áheyrenda myndi leiðrétta hann og kalla:

"Nei, ekki á Íslandi!"

Og ræðumaður ætti þá ekki annars kost en að svara:

"Það er rétt hjá þér. Ekki á Íslandi!"

Ef þjóðhátíðardagurinn ætti líka að færast til myndi þurfa að endurskoða ýmislegt, til dæmis lagið um þann dag og syngja, eftir atvikum:

"Hæ, hó, jibbí jei og jibbíi jei!  Það er kominn 18. júní !"

Eða:

"...Það er kominn 19. júní !"

Eða:

"...Það er kominn 20. júní !"

Eða:

"Hæ, hó, jibbí jei og jibbíi jei! Það er kominn tuttugasti og fyrsti júní!"  


mbl.is Er fært að færa fríið?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mætti kannski athuga möguleikann á "öfugum potti" ?

Mér hefur stundum dottið það í hug þegar lottótölur eru lesnar og enginn er með allar tölu réttar viku eftir viku, hvort hafa megi í gangi "öfugan" pott, jafnframt þessum venjulega.

Það yrði fólgið í því að sá eða þeir, sem eiga miða með lágmarki 5 röðum, eða segjum 10 röðum, og lendir í því að ekki ein einasta tala komi upp,sem kemur upp við útdráttinn, fá einhver smá verðlaun, kannski 500 þúsund eða eitthvað í þá áttina.

Þegar potturinn er kominn yfir 70 milljónir myndi ekki muna svon mikið um þetta en gleðja þátttakendur eitthvað að vita af þessum möguleika til að gera leikinn ögn fjölbreyttari.  


mbl.is Sjöfaldur lottópottur næst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég hugsa, þess vegna er ég, - enn og aftur."

Gott er að hafa ofangreinda speki í huga þegar gert er lítið úr því sem ekki er hægt að vigta á vog eða þreifa á með berum höndum eða þegar skoðuð er útskriftarsýning nemenda í Listaháskólanum í Hafnarhúsinu.

Dæmin um það hvernig hugmyndaflugið getur skapað áþreifanleg verðmæti sem jafnvel eru mikilla fjármuna virði er sú staðreynd, að eftir að sagan "Mýrin" eftir Arnald Indriðason varð vinsæl og mikið lesin erlendis, fóru að flykkjast hingað til lands erlendir ferðamenn, sem vildu fá að ganga um söguslóðir bókarinnar í og við Norðurmýri.

Sögur af landvættum, álfum, tröllum og kynjaverum og persónur, atburðir og staðir í skálfsögum og þjóðsögum geta orðið svo lifandi og skapað svo mikil listaverk, að þau verða jafngild raunverulegum fyrirbærum.

Eitt stærsta útflutningsfyrirtæki landsins, CCP, snýst um tölvuleiki, ekki satt? Og útrás íslenskrar tónlistar verður seint mældur í tonnum.  

"Orð eru til alls fyrst" segir máltækið, en engin orð verða til án hugsunar, þótt mönnum sýnist stundum annað hjá fljótfæru fólki, en meina þá að ekki hafi verið íhugað nægilega vel, hvað segja skyldi frekar en að engin hugsun hafi kveikt orðin.  


mbl.is Þjóðsagnaverur lifna við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

60 ára pennavinátta grunsamlegt mál ?

Tengd frétt um sendibréf frá því fyrir 102 árum leiðir huga minn að bréfi, sem ég fékk frá Íslendingi í Bandaríkjunum í gær. Ég vil benda á að í lok þessa pistils eru nýjar upplýsingar sem ég tel að séu merkilegri en þetta mál mitt.

En áfram með bréfið sem ég fékk. Það er einkabréf þar sem bréfritari segir mér frá bílaáhuga sínum og bílum sem hann á. Erfitt er að sjá hvað geti verið hættulegt við það, en þegar ég fór að handleika bréfið sá ég, að á vegum Tollstjóra hafði það verið rifið upp og innihald þess kannað.

Ekki veit ég heldur hvort sá sem var að hnýsast í bréfið var hrifinn af fyrrgreindu yfirliti þess.  

Límdur hafðii yfir hinn opna enda bréfsins með svohljóðandi áletrun:

OPNAРVEGNA TOLLEFTIRLITS.

Opened for Customs Inpection.

Tollvörður/Customs Officer nr......................

Ég áttaði mig ekki alveg strax á eðli málsins, og eins og sést á meðfylgjandi myndum af umslaginu á facebook-síðu minni, rifnaði límdi miðinn í sundur við það að ég reif hann af umslaginu.

Í bókinni "Manga með svartan vanga - sagan öll" greinir frá sendibréfi sem mér áskotnaðist við ritun bókarinnar í fyrra. Bréfið sendir Ásdís Jónsdóttir, skáldkona frá Rugludal fyrir nærri öld til vinkonu sinnar í nokkurra bæja fjarlægð. Ásdís harmar að hafa ekki getað farið til hennar lengi því að hún vildi gjarna tala við hana um ýmislegt í trúnaði, sem hún þori ekki að segja frá í bréfinu, "því að það gæti verið hnýst í það", eins og hún orðar það.

Ég varð hugsi við að sjá þessi orð í bréfinu sem dæmi um það hvernig lítilmagnar þessa tíma óttuðust mannréttindabrot gegn sér. En jafnframt feginn yfir því að þetta væri löngu liðin tíð.

En nú sé ég að ég get sett annað og alveg nýtt bréf niður við hliðina á bréfi Ásdísar. Kannski geta fleiri gert það á okkar tímum.

Á límmiða Tollstjóra er ekkert getið um tilefni þess að rjúfa persónuleynd á mér né heldur þess getið númer hvað tilgreindur tollvörður er.

Mér er ekki kunnugt um nokkuð minnsta tilefni til þess að þetta sé gert.

Mér var heldur ekki kunnugt um nokkurt minnsta tilefni til þess að allt benti til þess síðsumars árið 2005 að sími minn væri hleraður.

Og heldur ekki nokkrum árum fyrr hvers vegna æfa þyrfti beitingu stórtækustu vígtóla mesta herveldis heims á hálendi landsins til að takast á við mestu hryðjuverkaógn, sem steðjaði að Íslandi: Umhverfis- og náttúruverndarfólki á hálendi Íslands.

Nú sýnist mér að hægt sé bæta persónulegum sendibréfum við, að minnsta kosti ef þau fara yfir landamæri Íslands.

Veit að vísu ekki um einka tölvupóst eða póst á facebook, en get svo sem vel ímyndað mér að verið sé að hnýsast í hann.

Og úr því að komið hefur í ljós að Angela Merkel og aðrir leiðtogar ríkja hafa verið hleraðir sundur og saman getur maður kannski verið ánægður með að vera í góðum félagsskap.   

Vil bara upplýsa þetta nú svo að þeir, sem senda mér sendibréf frá útlöndum eða eru í póst- eða fjarskiptasambandi við mig, viti um það.

Meðan engar upplýsingar eru gefnar um ástæður eða eðli opnunar bréfsins er allt galopið um það.

Aðalatriðið er það að þetta vekur spurningar um það, hvernig sé almennt farið, sem ég tel að upplýsingalög leyfi að séu settar fram og að þeim verði svarað:

Hvers vegna er þetta gert?

Hve oft er þetta gert, sjaldan eða afar oft?

Er það gert af handahófi eða er eitthvert úrval?

Er þetta frekar gert við bréf frá sumum ríkjum en öðrum?

Er þetta gert við bréf milli staða innanlands?  

Talin hefur verið ástæða til að upplýsa um símhleranir, sem dómarar leyfa. Er engin ástæða til að upplýsa um umfang þessa líka?

Er ekki eðlilegt að númer viðkomandi tollþjóns sé gefið upp, svo að viðtakandinn eða sendandinn geti snúið sér beint til hans og beðið um skýringar?

Í Leifsstöð er farangur opnaður að eigandanum viðstöddum. Af hverju er það ekki gert um póst?  

Hvaða álit hefur persónuvernd á þessu? Hefur hún vitað um þetta eða hefur hún áhuga á þessu?    

P. S.  Nú hefur verið upplýst á visir.is að reglur um tollaeftirlit gefi tollþjónustunni heimild til að opna póstböggla. Ekkert er þar minnst á venjuleg sendibréf.  

P.S. númer 2.  Í athugasemd við þennan pistil upplýsir Geir Guðmundsson að öldruð móðir hans hafi verið í bréfaskiptum við konu erlendis í 60 ár og að bréfin til hennar séu reglulega opnuð án þess að nokkur skýring sé gefin á því. Hún sé þó látin vita um númer tollþjónsins en það er allt og sumt. Mér sýnist mál gömlu konunnar vera orðið mun merkilegra en þetta eina tilfelli hjá mér.    

 


mbl.is Síðasta bréfið frá Titanic selt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt skal vera rétt, - en hvað er svo rétt ?

Þegar tveir eða fleiri segja frá sameiginlegri upplifun getur hún orðið býsna ólík. Það virðist eiga við um frásagnirnar af framboði Framsóknarmanna sem nú hefur rekið upp á sker að því er virðist.

Ef af blönduðu framboði hefði orðið, er líklegt að einhver óflokksbundinn "flugvallarsinni" hefði verið settur í annað sæti listans, því að  út af fyrir sig er ekkert óvenjulegt né óeðlilegt við það að flokkar landsins fari í samvinnu hver annan eða við öfl utan flokka í byggðakosningum á Íslandi og Framsóknarmenn hafa gert það alveg eins og aðrir.

Þá hefur verið raðað á listanna samkomulagi aflanna, sem í hlut áttu.  

Sem dæmi má nefna að 1938 buðu kratar og kommar fram sameiginlegan lista í Reykjavík, og í 12 ár, frá 1994 til 2006, var R-listinn við völd, en framsóknarmenn voru meðal fjögurra aðila að því sameiginlega framboði.

Menn spyrja eðilega hvers vegna flokknum hafi gengið jafn vel og raun bar vitni í alþingiskosningunum 2013 en gangi svona herfilega nú.

Ástæðan liggur í augum uppi: 2013 var lofað lausn á skuldavanda heimilanna upp á hundruð milljarða króna en engin slík loforð er hægt að gefa í borgarstjórnarkosningum.

Framsóknarmönnum hefur alltaf reynst það erfitt að mynda bakland í Reykjavík. Það þótti fáheyrt þegar Rannveig Þorsteinsdóttir komst á þing fyrir Framóknarflokkinn í Reykjavík 1949, en það var vegna þess að hún gaf stórt kosningaloforð um það að "segja fjárplógsstarfseminni stríð á hendur", þ. e. að útrýma skíkri starfsemi.

Þótti hún koma skörulega fram og vera til alls vís.  

Auðvitað varð ekkert úr efndum og Framsókn varð að sætta sig við það að þessi ár, 1949-1953, urðu einu árin fyrstu hálfa öldina eftir stofnun flokksins, að fá engan þingmann í Reykjavík.

Flokkurinn er ekki enn búinn að bíta úr nálinni varðandi REI-klúðrið 2007 og vandræðasögu og bruðliö í Orkuveitu Reykjavíkur, en einn angi hennar birtist í blaðafrétt í dag um að Hellisheiðarvirkjun sé stærsti mengunarvaldur á Íslandi á sama tíma og keppst er við að dásama hana sem framleiðanda "endurnýjanlegrar og hreinnar orku" þegar ljóst er að hún er hvorugt.  

  


mbl.is Höfnuðu ekki hugmynd Guðna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tók mánuð fyrir 100 árum. Hvað nú?

28. júní 1914 skaut serbeskur þjóðernissinni austurríska ríkiserfingjann og konu hans í Sarajevo.

Réttum mánuði síðar voru Serbía og Austurríki-Ungverjaland komin í stríð og innan viku eftir það var heimsstyrjöld skollin á.

Á þessum mánuði sem leið tók ein aðgerð ráðamanna þjóðanna við af öðrum í áttina að ófriði, fór hægt af stað í byrjun en óx hröðum skrefum.  

Atburðarásin í Úkraínu núna minnir óþyrmilega á hliðstæða atburðarás fyrir einni öld.

1914 voru stríðsþjóðirnar búnar að skuldbinda sig á ýmsa vegu gagnvart hver annarri, og það leiddi til allsherjar stríðs. Svipuð atburðarás var í september 1938, en þá tókst að afstýra stríði með naumindum, og reyndar til lítils, því að friðurinn stóð aðeins í nokkra mánuði og innan árs var skollin á heimsstyrjöld.

Gagnvart atburðarásinni núna standa menn og virða hana fyrir sér. Og stóra spurningin er: Hvað nú ?

Hafa menn ekkert lært af óförunum 1914 ?  


mbl.is Rússar hafa rofið lofthelgi Úkraínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna var hann kallaður Jói dús ?

Í gegnum tíðina hefur maður heyrt og séð margt á endalausum þvælingi um landið. Eitt af þvi var það, að um miðja síðustu öld hlaut ungur maður að nafni Jóhannes viðurnefnið "dús" vegna þess, að sem barn gekk hann óvenju lengi með snuð í munninum og var ákaflega erfitt að venja hann af því.

Snuð var ein af þessum uppfinningum manna til að búa til eftirlíkingu af náttúrulegum hlutum, en á öld tækniframfara var allt slíkt talið af hinu góða.

Því fyrr sem barnið var tekið af brjósti, gat farið að drekka gerilsneydda kúamjólk og fengið sér snuð, því betra. Og því fyrr sem hægt var að taka snuðið af barninu, því betra, þótt beita yrði það hörku.  

Nú kemur í ljós í þessu eins og mörgu öðru að gamla lagið í takt við náttúruna best, ekki hið nýja og tæknilega. 

Og athyglisvert er hve margar af vísindalegum uppgötvunum okkar tíma fela það í sér, að manninum líði þrátt fyrir allt best þegar hann er í sem svipuðustu umhverfi og þróaði hæfileika og hraustleika formæðra okkar og forfeðra langt aftur í aldir, en ekki í veröld tilbúnings og eftirlíkinga.  

Þegar lesið er um þá uppgötvun að best sé að börn séu sem lengst á brjósti, jafnvel allt að fjögurra ára aldri, leitar hugurinn til Jóa dús. 

Kannski var það eðlisávísun hans sem barns sem knúði hann til þess eftir að hafa verið sviptur móðurmjólkinni að leita eins lengi og hann gat til þess sem best hafði reynst um aldir í stað hinnar stöðluðu og geldu aðferðar sem þá var lenska.

Hann gat hins vegar ekki sótt til hins upprunalega heldur varð að láta sér snuðið nægja eins lengi og hann fékk að komast upp með það.  

Eðlisávísun Jóa dús hafði sennilega rétt fyrir sér en ekki tæknifíkn hinna fullorðnu.    


mbl.is Hrósa ætti konum fyrir brjóstagjöf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband