Færsluflokkur: Bloggar
10.2.2014 | 02:13
Ekki ónýtt fyrir verðandi útvarpsstjóra að hætta með "ticker tape".
Það er ekki ónýtt fyrir verðandi útvarpsstjóra að hætta á toppnum í Borgarleikhúsinu þegar metsölustykkið Mary Poppins hefur runnið sitt skeið.
Eins og sjá má á mynd á frétt um síðustu sýninguna hefur pappírsmiðum rignt yfir leikhúsgesti í lok 138. og síðustu sýningarinnar.
í Ameríku er slíkt kallað "ticker tape" og er notað um skrúðgöngur, sem eru farnar í stórborgum á borð við New Yourk til að fagna er merkisatburðum og og stórsigrum á borð við lok Heimssstyrjaldarinnar, flug Lindbergs yfir Atlantshafið og komu tunglfaranna Appolo 11 frá tunglingu til jarðar, en meðfylgjandi mynd er af þeirri miklu skrúðgöngu í New York.
Í mars hættir Magnús Geir Þórðarson sem leikhússtjóri og tekur við stöðu útvarpsstjóra á erfiðari tíma fyrir ríkisútvarpið en dæmi eru um í áratugi.
Það bíður hans því sérlega erfitt, krefjandi og ögrandi verkefni.
Raunar getur starf leikhússtjóra verið það líka eins og dæmin hafa margsannað í leikhúsunum okkar sem hafa stundum glímt við mikla fjárhagsörðugleika.
Sveiflur í leikhúsrekstri eru hins vegar stundum mun meiri og ófyrirsjáanlegri, bæði upp og niður en í rekstri ríkisútvarpsins og því rétt að vera hóflega bjartsýnn með það að það verði einhvern tíma "ticker tape" hátíð á Markúsartorginu í Efstaleiti.
En ef hægt er að sjá einhvern sem á von til þess er það eflaust hinn sigursæli leikhússtjóri sem snýr eins og Sesar forðum úr miklu leiðangri bæði fyrir norðan og sunnan til þess að grípa til varna gegn afleiðingumm samfellds niðurskurðar á RUV síðustu árin.
![]() |
Áhorfendur risu úr sætum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2014 | 17:42
Sex atriði sem þurfa að ganga upp.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra nefnir sex atriði sem öllu þurfa að ganga upp til þess að hægt verði að aflétta gjaldeyrishöftunuml og halda gengi krónunnar samt stöðugu.
Til þess þarf næstum því kraftaverk og án þess að það sé verið að draga úr því að menn stefni að þessu og að þetta sé mögulegt er hitt jafn ljóst, að það er ekki vænlegt að tala um það að þetta sé ekkert mál, geti gengið í gegn eins og ekkert sé, næstum því með einu pennastriki.
Það þarf meira en kosningaloforð til þess.
![]() |
Höftin fara ekki í einu vetfangi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
9.2.2014 | 14:40
Hver ákvað að þetta þyrfti gegn umhverfisverndarfólki ?
NATO er lang öflugasta hernaðarbandalag heims, raunar það eina sem hægt er að nefna því nafni, og Bandaríkín eru eina risaherveldið.
Ég hef frá upphafi stutt aðild okkar að bandalaginu en það reyndi þó á þolrifin þegar tveir menn ákváðu dag einn að við skyldum verða viljugir aðilar innrásinni í Írak.
Enn meira reyndi þetta á þolrifin þegar ákveðið var, að vegna hryðjuverkaógnunar, sem steðjaði að heiminum og öryggis Íslands, skyldi æfingin Norðurvíkingur með notkun fullkomnustu vígvéla heims beinast gegn mestu hryðjuverkavá og hervá, sem taldist steðja að Íslandi: Umhverfisverndarfólki.
Æfingin var haldin á hálendi Íslands og umhverfisverndarfólk var álitið vera eina hryðjuverkaógnin eða stríðsógnin sem steðjaði á Íslandi.
Ég þurfti að fljúga talsvert yfir hálendið á þessum tíma og varð því að gæta vel að því að fljúga ekki inn á loftrhýmisbannsvæði, sem búið var að setja til þess að hægt væri að beita öflugustu herþotum heims ótruflað gegn þessari mestu hættu sem talin var ógna landi okkar og þjóð.
Í ensku er orðið "overkill" notað um svona lagað og miðað við umfang æfingarinnar og herbúnaðinn sem notaður var. er þetta eitthvert ótrúlegasta og stærsta "overkill" sem maður getur ímyndað sér.
Sama orð kom í hugann í Gálgahrauni 21. október sl. haust þegar 60 lögregluþjónar í skotheldum vestum með handjárn, gasbrúsa og kylfur þóttu lágmark til að bera hreyfingarlaust fólk, sumt konur og jafnvel ellilífeyrisþega, út úr fyrirhugaðri braut stærsta skriðbeltatækis á Íslandi sem kom í kjölfarið í fylgd fótgönguliðs lögregluþjóna.
Fólkið, sem fjarlægt var, þótti svo hættulegt, að það þótti ekki hættandi á að leggja það niður fyrir utan svonefnt vinnusvæði, sem lögreglan merkti fyrir verktakana, þegar búið var að bera það burtu, heldur var það umsvifalaust fangelsað í framhaldinu, sumt langt fram eftir degi.
Á meðan þessu fór fram var veginum út á Álftanes lokað með lögregluvaldi, rétt eins og að íbúar þess byggðarlags væru liklegir til að gerast aðilar að mestu hryðjuverkaógn, sem steðjaði að landinu.
Ég er fjölmiðlamaður og fjölmiðlamenn eiga að spyrja nokkurra grundvallarspurninga: Hver/hverjir? - Hvar? - Hvernig? - Hvenær? - Hvers vegna? - Og hvað svo?
Ég fæ ekki séð að spurt hafi verið fyrstu spurningarinnar nema að hluta til í Norðurvíkingmálinu og í Gálgahraunsmálinu.
En það vantar einn aðilann: Hver eða hverjir tóku þá ákvörðun í æfingunni Norðurvíkingi að mesta herveldi heims skyldi fengið til að æfa sig í því að ráðast á íslenskst umhverfisverndarfólk?
Við vitum að Gordon Brown ákvað það "overkill" í október 2008 að beita hryðjuverkalögum gegn okkur Íslendingum, sem við fordæmum einróma og réttilega. En enginn spyr eftirfarandi spurninga:
Hver ákvað það að beita NATO-hernum gegn ímynduðum umhverfishryðjuverkamönnum í Norðurvíkingsæfingunni?
Og hver eða hverjir ákváðu það ótrúlega "overkill" sem birtist í Gálgahrauni 21. október 2013 ?
![]() |
Má sín lítils gegn orrustuþotunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.2.2014 | 00:31
Enginn hefði tekið eftir neinu nema af því að hann fór.
Illugi Gunnarsson fékk orð í eyra hjá mörgum fyrir að þiggja boð íþróttahreyfingarinnar um að koma á Ólympíuleikana í Sotsji.
En nú skulum verið bera saman tvo kosti:
1. Illugi afþakkar boðið og fer ekki til Sotsjí. Enginn tekur eftir því.
2. Illugi fer til Sotsjí, flaggar tákni hinsegin fólks og lætur með því skoðun sína í ljós og er sýnilegur á leikunum eftir því sem unnt er. Erfitt er að sjá annað en að hann hafi tekið rétta ákvörðun. Gott hjá honum.
![]() |
Með regnbogatrefil í Sotsjí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
8.2.2014 | 17:02
Hvað um salernisaðstöðuna á Íslandi ?
Talsvert veður er nú gert út af salernisaðstöðunni í Sotsjí sem þykir frumstæð og ófullnægjandi.
Hún verður nú samt að teljast hátíð miðað við það sem gerist á tugum og jafnvel hundruðum ferðamannasvæða á Íslandi.
Það eru þó salerni í Sotsjí en á víða á ferðamannasvæðum hér á landi eru þau bara alls ekki og ferðamenn í neyð verða að skilja eftir sig bæði saur og pappír á víðavangi.
Hamast er við að græða sem mest á því að fjölga ferðamönnum en ekki tímt að gera það sem þarf til þess að það sé sómasamlega gert og í skammgróðafíkninni er jafnvel verið að bíta í skottið á sér því að líklegt er að margur ferðamaðurinn beri Íslandi ekki vel söguna eftir að hafa kynnst ástandinu sem víð aer hér.
Þar, sem salerni eru, vantar iðulega salernispappír af því að ekki tímt að setja mannskap í það þrífa og endurnýja á náðhúsunum.
Á sama tíma og ferðamannafjöldinn hraðvex er það nöturleg staðreynd að landvörðum er fækkað stórlega, lagt niður starf í umhverfisráðuneytinu varðandi friðanir og fólkinu, sem sem starfaði við það sagt upp störfum.
Ef sumir af gestum okkar, sem kynnast þessu ástandi, væri boðið að nota viðeigandi íslenskt orð til að lýsa reynslu sinni á þessum ferðamanna svæðum myndu þeir eflaust velja orðið: "Skítapleis".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
8.2.2014 | 16:40
Hef aldrei keypt sjálfur á mig föt sem betur fer.
David Beckham er skynsamur maður, játar að hafa lítið vit á fatnaði og lætur Vicotoríu ráða sem mestu í þeim efnum.
Það eru einfaldlega til fyrirbæri, sem mann skortir bæði smekk og vit til að höndla, og þá er best að játa það í stað þess að þrjóskast við að gera það sem maður getur ekki, - nógu margt er það nú samt sem mistekst hjá manni.
Foreldrar mínir voru bæði áhugasöm um fatnað og höfðu yndi af því að klæða sig sem best alla tíð.
Fljótlega kom í ljós að því fór víðs fjarri að ég hefði erft þessa hæfileika þeirra og smekk og til þess að bjarga málum tók móðir mín það að sér að koma í veg fyrir vandræði sem hlytust af lélegum klæðaburði mínum og "fór með mig" í búðir til að leysa vandann.
Þegar ég gifti mig tók eiginkonan við þessu hefur séð um það fram til þessa dags. Hún þarf að vísu ekki "að fara með mig í búðir" því að hún veit upp á sentimetra allar stærðir sem skipta máli.
Ég hef því aldrei á ævinni keypt mér föt.
Í hitteðfyrra fór ég að vísu í búð og keypti föt handa Gáttaþef en hann telst ekki með.
Og kaup á íþróttafatnaði eða útivistarfötum teljast ekki með, en þau kaup hafa nánast horfið hvort eð er síðustu árin og hin gömlu látin nægja.
![]() |
Finnst hann stundum púkalegur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.2.2014 | 00:36
Áhugaverð bók dugnaðarmanns og athyglisverð lögmannaþjónusta.
Síðdegin á fimmtudagum og föstudögum geta verið skemmtileg þegar menn nota tækifærið til fagna ýmsum hlutum eða kynna þá. Fimmtudagssíðdegið var ánægjulegt í útgáfu- og afmælisteiti Eiríks Bergmanns Einarssonar og bók hans um Hrunið, þar sem hann horfir á aðdraganda þess af heldur víðari sjónarhóli en venja er, er afar áhugaverð, til dæmis um viðhorf mismunandi þjóða til sjálfra sín og það, hvaða þátt slíkt getur átt í því sem þær lenda í.
Þarna var hægt að spjalla við ýmsa hressandi menn og Egill Ólafsson orðaði það við mig eftir kynninguna að kannski værum við Íslendingar ennþá ekki komnir lengra en á landnámsöld í ýmis konar hugsanagangi.
Í gær buðu Eyjólfur Ármannsson og Gísli Tryggvason fólki að samfagna með sér vegna stofnunar lögmannsstofunnar VestNord lögmenn og þar var saman komið fólk úr skemmtilega mörgum áttum.
Nafn lögmannsstofunnar vísar til þess að eitt af verkefnum þeirra félaga verði að hasla sér völl í vesturhluta yfirráðasvæðis Norðulanda þar sem danskir og norskir lögmenn hafa verið áberandi en kannski ágætt að fá inn íslenska lögfræðinga sem eru hagvanir á dönsku og norsku málsvæði og geta breikkað úrval í vaxandi lögmannaþjónustu og umsvifum á þessu svæði.
Eiríkur Bergmann og Gísli Tryggvason voru báðir með mér í stjórnlagaráði og var mikill fengur að kynnast þeim þar í alveg einstaklega gefandi starfi, svo að það var ánægjan ein að hitta þá í vinafagnaði í gær og fyrradag.
![]() |
Útgáfuboð sem endaði með stórafmæli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2014 | 18:40
Nauðsynlegt að hægt sé að sjá númerin eftir á.
Ef ævinlega væri hægt að sjá eftir á úr hvaða númeri hefur verið hringt í farsíma er afsökunin fyrir því að svara undir stýri engin. Hægt er að stöðva bílinn við fyrsta tækifæri og skoða, hvaðan var hringt eða í versta falli og algerum undantekningartilfellum að ýta á svartakkann og afgreiða málið með því að kalla upp að maður sé í akstri og hringi til baka við fyrsta tækifæri.
Rannsóknir hafa sýnt að meira að segja símtöl í gegnum handfrjálsan búnað draga úr athygli og auka slysahættu, þannig að staðlað svar í einni setningu, sem búið er að læra áður utanað, er þó skömminni skárra.
Stærsti gallinn í hegðun okkar varðandi símanotkun er sá, hve margir hringja úr leyninúmerum eða í gegnum skiptiborð fyrirtækja þar sem ómögulegt er að finna út eftir á hver hringdi.
Ég held því að nauðsynleg sé herferð í þeim efnum að fólk hringi þannig að símanúmer hringjandans sjáist eftir á.
![]() |
90% telja símanotkun við akstur hættulega |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.2.2014 | 10:51
Dansað á línunni í andófi.
Rússneski brettakappinn Alexey Sobolev virðist dansa á línunni á myndskreyttu bretti sínu á Ólympiuleikunum í Sotsjí ef marka má ummæli hans eftir að mynd á bretti hans hefur vakið umtal.
Hann forðast að segja neitt um málið, greinilega til þess að rússnesk yfirvöld eða ábyrgðarmenn rússnesku keppendanna og stjórnarmenn leikanna eigi erfiðara með að negla hann fyrir tiltækið.
Þetta leiðir hugann að fyrsta sambærilega tiltækinu á Ólympíuleikum, sem gerðist í Mexíkó 1968, þegar tveir fljótustu mennirnir í 200 metra hlaupinu, Tommy Smith og John Carlos, lyftu krepptum hnefnum með svörtum hoskum á verðlaunapallinum, en þetta var merki réttindabaráttu blökkumanna.
Þeir voru reknir úr bandaríska liðinu og refsað fyrir tiltækið. og Avery Brundage, formaður alþjóðlegu Ólympíunefndarinnar, fordæmdi gjörð þeirra.
Atvikið lifir hins vegar sem einn af markverðum atburðum 20. aldarinnar og ekki síður sem áhrifaríkur atburður í mannréttindabaráttu almennt, enda voru mannréttindamál víða í hörmulegu ástandi í heiminum, ekki bara í Suðurríkjum Bandaríkjanna, heldur líka í Suður-Afríku og einræðisríkjum heimsins og einnig voru þeir Smith og Carlos að mótmæla því að Muhammad Ali skildi vera sviptur heimsmeistaratitli sínum í hnefaleikum og keppnisrétti í íþrótt sinni.
Eftir 1968 hafa viðlíka atburðir ekki gerst á Ólympíuleikum, enda hafa stjórnendur íþróttamála sett keppendum sinna landa reglur í því efni.
1968, eins og nú, gera mótsagnir það að verkum, að svona atburðir eru og verða umdeilanlegir.
Þannig var ekki amast við því að heilsað væri með nasistakveðju á Ólympíuleikunum í Berlín 1936 og var það réttlætt með því að þar væri um þjóðarkveðju að ræða hliðstæða við þjóðsöngvana.
Og auglýsingaiðnaðurinn tröllríður íþróttamótum í formi beinna og óbeinna auglýsinga á búningum og búnaði.
Það takast á tvenn sjónarmið: Annars vegar tjáningarfrelsi fólks og réttur til að láta skoðanir sínar í ljós og hins vegar viðleitni til þess að halda Ólympíuleikunum utan við stjórnmál og láta ekki allt fara úr böndunum í því efni.
Það hefur reynst erfitt eins og sást þegar margar vestrænar þjóðir sniðgengu leikana í Moskvu 1980 og kommúnistaríkin svöruðu með því að sniðganga leikana í Los Angeles 1984.
Og síðan er alltaf erfitt að dæma um hvort þessir leikar eða hinir eigi það skilið að verða brennimerktir. Þannig gengu leikarnir í Peking fyrir sig án nokkurra svona mála og spyrja má hvort tilefni til alls kyns mótmæla hafi ekki verið meira þá.
![]() |
Á Pussy Riot bretti í Sotsjí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
7.2.2014 | 01:40
Þetta gerist því miður oft í sambandi við stórmót.
Miklar framkvæmdir vegna Ólympíuleika hafa oft valdið mikilli röskun á stöðu og högum fólks, sem býr í nágrenni vettvangsins og þetta virðist vera á leið með að verða frekar að reglu en undantekningu.
Einkum hefur þetta átt við þegar leikarnir hafa verið haldnir á nýjum stöðum eða stöðum, þar sem hefur þurft að reisa mikil íþróttamannvirki, þjónustufyrirtæki og samgöngumannvirki.
Stundum hafa skaðabætur vegna flutninga fólks og upptöku eigna verið skammarlega lágar og skapast mikill ágreiningur á milli mótshaldaranna og þeirra sem verða fyrir barðinu á öllum fyrirganginum og umsvifunum, sem fylgja þeim fyrirferðarmiklu fyrirbærum sem stærstu íþróttamót heims á borð við Ólympíuleika.
![]() |
Framkvæmdirnar röskuðu lífi þeirra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)