Færsluflokkur: Bloggar
Hvað klukkuna okkar snertir stöndum við frammi fyrir þremur kostum:
1. Hafa hana áfram eins og hún er núna. En færa skólastarf og ýmsa þjónustu aftur um eina klukkusund.
2. Færa klukkuna aftur um klukkustund.
3. Taka upp sérstakan vetrartíma og sérstakan sumartíma.
Af þessum þremur kostum veldur sá síðasti mestum ruglningi og var reyndar tekinn af vegna vandræðanna af völdum "hringlsins með klukkuna."
Við búum á norðlægu landi með lágan sólargang og þráum því að geta notið sólarljóssins sem best þann tíma ársins, sem það er hægt.
Ef klukkan er höfð eins og hún er nú, gagnast það best fyrir þetta.
Dimman á morgnana er ekki svo lengi á veturna. Hún fer að verða óþægileg í nóvember og morgunbirtan kemur ekki til baka fyrr en í febrúar.
Það eru aðeins þrír mánuðir þar sem morgundimman er bagaleg, og einfaldast væri að gera bregðast við því að með því að byrja skólastarf, barnastarf og ýmis konar þjónustustarf klukkustund síðar þessa mánuði til þess að draga úr leiðinlegum áhrifum dimmra morgna.
Að vísu dimmir þá klukkustund fyrr síðdegis, en sólargangurinn er hvort eð er slíkur ræfill þessa þrjá mánuði að það kemur ekki svo mjög að sök.
![]() |
Íslendingar rangt stilltir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.1.2014 | 09:40
Styrk til að gera þetta strax ?
Sú var tíðin að það þótti árlegt "vesen", jafnvel böl hér á landi að börnin í Evrópu skrifuðu bréf til Íslands með utanáskriftinni "Jólasveinninn á Íslandi."
Bjarni Guðmundsson, hinn víðsýni blaðafulltrúi ríkisstjórnarinnar reyndi að anna þessu eftir því sem hægt var en þeim stórkostlegu möguleikum, sem íbúar í Rovaniemi í finnska Lapplandi sáu í ferðaþjónustu í kringum jólasveininn, "stálu" Finnar frá Íslendingum, - eða réttara sagt, Íslendingar réttu þeim jólasveininn á silfurfati.
Jólin og áramótin, á Íslandi, jólasveinninn, já allir jólasveinarnir, Grýla, Leppalúði, álfarnir, tröllin og jólakötturinn hafa hingað til flokkast í "eitthvað annað" en stóriðja og verið töluð niður undir hæðnisorðunum "fjallagrös og lopi".
Þeir sem hafa mælt með "einhverju öðru" en stóriðju hafa verið sagðir vera og eru enn sagðir vera "á móti atvinnuuppbyggingu" og "lattelepjandi kaffihúsaónytjungar í 101 Reykjavík."
Nú er komið enn eitt vesenið og vandamálið. Það eru ekki til peningar til að nýta sér þá möguleika sem áramótin gefa á Skólavörðustíg og Skólavörðuholti. Enda er þetta "eitthvað annað" en ekki "atvinnuuppbygging."
Mér finnst að þetta ætti að sjálfsögðu ekki að vera mál sóknarnefndar Hallgrímskirkju eingöngu heldur kostað af almannafé. En þjóðin tímir líklega ekki að leggja í þetta tiltölulega lítið fé miðað við ávinninginn.
Þetta er að verða ákveðið vesen og tóm vandræði eins og bréf erlendu barnanna til Jólasveinsins á Íslandi voru forðum daga.
![]() |
Mætti ramma áramótin betur inn? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.1.2014 | 00:45
"Skipulögð vitfirring" 1914, - "GAGA" 2014.
Lloyd George þáverandi fjármálaráðherra Breta sagði í áramótaræðu 1. janúar 1914 að vígbúnaðarkapphlaupið, sem hafði árin á undan verið í algleymingi í Vestur-Evrópu, væri "skipulögð vitfirring".
Hann hefði ekki getað hitt á betri lýsingu og magnaðri forspá um það sem átti eftir að gerast árinu, sem var að ganga i garð.
Lloyd George hafði allt fram til 1911 verið mjög andvígur öllu því sem gæti orðið til þess að magna stríðshættuna, en eftir átök á milli Frakka og Þjóðverja í Agadir í Marokkó það ár lagðist hann á sveif með eindregnum andsvörum við stigmögnun hernaðaruppbyggingar Þjóðverja.
1914 hafði í fyrsta sinn í margar aldir ekki verið háð neitt meiri háttar stríð í 43 ár. Að vísu höfðu verið háð smærri stríð á Balkanskaga árin á undan og Balkanskaginn var kallaður "órólega hornið á Evrópu, en almennt ríkti sú trú að framundan væri áframhaldandi tíð stórkostlegra framfara og vaxandi velmegunar.
En í ljós kom að neistaflugið á "órólega horninu á Evrópu" gat orðið að ígildi neistans, sem sprengir púðutunnuna í loft upp.
Morðið á austurrísku ríkiserfingjahjónunum í Sarajevo 28. júní gat ekki komið á verri tíma. Næsta mánuð þar á eftir hamlaði það mjög yfirveguðum og markvissum viðbrögðum við atburðarásinni, sem fór í gang, að ráðamenn álfunnar voru meira og minna í sumarleyfum eða á faraldsfæti og fjarskipti á okkar tíma mælikvarða frumstæð og hæg.
En óveðursskýin höfðu hrannast upp og það sem Lloyd George var að tala um speglaðist meðal annars í því að Winston Churchill sagði, að fyrir hverja viðbót við þýska flotann þyrftu Bretar að bæta tvisvar sinnum meira við þannig að stærðarmunurinn yrði aldrei minni en 8 á móti 5.
Fyrri heimsstyrjöldin var í raun aðeins fyrsti hlutinn af þriggja kafla stríði, 1914-1918, 1937/39/41-1945 og síðan Kalda stríðsins 1945-1991. Aldrei hafa jafnmörg stórveldi hrunið og á árunum 1914-1991.
Afleiðingarnar blasa enn við. Eitt besta dæmið er hið furðulega hérað í Rússlandi, Kaliningrad, rúmlega tvisvar sinnum stærra en Ísland og með álíka marga íbúa, sem liggur afskorið 300 kílómetra frá móðurríkinu við suðausturhorn Eystrasalts.
Þetta var áður Austur-Prússland en í sviptingum Seinni heimsstyrjaldarinnar var Þýskalandi þrýst vestur fyrir Oder, þannig að austurlandamæri Þýskalands liggja nú 400 kílómetrum fyrir vestan þennan fyrrum austasta hluta Prússlands, sem margir kölluðu "vöggu þýskrar hernaðarhyggju".
14 milljónir manna alls voru fluttar með valdi frá heimkynnum sínum í stríðslok til þess að fullnægja uppgjafarskilmálum sigurvegaranna, sem krafist höfðu skilyrðislausrar uppgjafar af Þjóðverjum allan stríðstímann.
Á þessu ári eru liðin 68 ár frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar og það ætti að vera orðinn nógu langur tímakafli til þess að ekki verði framað hróflað við landamærum í Evrópu.
En skefjalaus vígbúnaður er og verður áfram sama "skipulagða vitfirring" og Lloyd Georg kallað hann fyrir réttri öld.
Þrátt fyrir nokkurn samdrátt kjarnorkuvopnabúra heims eru þau jafn mikil ógn við allt líf á jörðinni og áður og tilvist þeirra ekkert annað en "skipulögð vitfirring" eins og nafn hugmyndafræðinnar að baki þeirra ber með sér: "Mutual Assured Destruction", skammstafað MAD.
Á íslensku: Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra, skammstafað GAGA.
![]() |
Gefur myndir frá fyrri heimsstyrjöldinni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
8.1.2014 | 17:07
Hvað um verðbólguna ?
"Víxlhækkanir kaupgjalds og verðlags". Þannig var ástæðum verðbólgunnar lýst áratugum saman án þess að nokkur leið væri að koma böndum á hana. Segja má að setningin ein sé gildishlaðin hvað það snertir í augum þeirra sem berjast fyrir kjörum launþega, því að með því er kaupgjaldið nefnt fyrst og í huganum verður það þá að orsökinni og verðlagið að afleiðingu.
Þess vegna mætti alveg eins orða þetta "víxlhækkanir verðlags og kaupgjalds."
Hvað um það, nú dynja yfir fréttir af hækkun verðlags hver af annarri og virka náttúrulega eins og olía á eld óánægju launþega, sem einmitt um þessar mundir eiga að taka afstöðu til mjög hóflegra launahækkana.
Ekki er hægt að kenna genginu um, krónan hefur hækkað að undanförnu.
Nöturlegt var að sjá hvernig meira að segja ráðherrarnir geta ekki verið samstíga samanber það þegar fjármálaráðherra hvetur til þess að hafa hemil á þeim en heilbrigðisráðherra stendur fyrir hækkunum á sama tíma.
Og borgaryfirvöld, sem áður höfðu fallið frá hækkunum á nokkrum gjöldum, fara nú út í hækkun á bílastæðisgjöldum, sem er misráðin í tvennum skilningi.
Ef samningar verða felldir nú er allt komið í uppnám. Hækkun bílastæðagjalda er ekki aðeins skellt á á versta tíma heldur auk þess afar tvíbent aðgerð.
Í Santa Barbara í Bandaríkjunum var miðborgin að deyja en verslunin að færast í stórar verslanamiðstöðvar í útjaðrinum. Betri almenningssamgöngur dugðu ekki til að breyta þessu.
Menn settust niður og sögðu sem svo: Horfumst í augu við það að fólk vill nota einkabílinn og með óbreyttu ástandi á landsvísu og heimsvísu er ekki hægt að breyta því.
Niðurstaða: Reist voru tólf bílastæðahús í miðborginni og gerð næg bílastæði. Frítt í stæði í klukkustund fyrir hvern bíl.
Þetta var gert og viti menn: Miðborgin lifnaði við á ný og almenningssamgöngur misstu samt engan spón úr aski sínum. Þetta hafði nefnilega að stórum hluta snúist um það hvort fólk færi á bíl í verslunarmiðstöðvarnar í útjaðrinum eða færu á honum niður í miðborg til að versla eða annarra erinda.
![]() |
16 þús. í viðbót í bílastæðagjöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 9.1.2014 kl. 00:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.1.2014 | 12:43
Verða menn enn reiðir og sárir ?
Við Íslendingar erum svolítið klofnir varðandi samskipti okkar við umheiminn. Annars vegar ríkir hér mikil þrá eftir því að fá viðurkenningu erlendis, hin svokallaða útrás. Hins vegar ríkir tortryggni í garð útlendinga sem byggist á því að þeir séu upp til hópa vondir menn sem reyni allt sem þeir geti til að plata okkur og drottna yfir okkur.
Þegar Svíi einn lýsti næturlífinu í Reykjavík fyrir aldarfjórðungi voru viðbrögðin hér heima mikil sárindi og formælingar gegn þessum Svía sem væri að ljúga upp á okkur.
Fimmtán árum síðar vorum við reyndar búin að gleyma þessu þegar sjálft flugfélagið okkar reyndi að lokka útlendinga til skyndiferða hingað með upphrópuninni "one night stand" eða "einnar nætur gaman."
Svipað verður líklegast um viðbrögðin við grein Roosh V.
Viðbrögð okkar gagnvart útlendingum minna mig svolítið á viðbrögð Rússa þegar við hjónin fórum í hópferð bílablaðamanna frá Norður-Finnlandi til Murmansk til að prófa nýja gerð af Volvo.
Alls staðar sem við fórum voru Rússarnir afar forvitnir um það hvernig okkur litist á þetta og hitt hjá þeim.
Þegar við sögðum sannleikann um frábærlega vel gerð söfn fyrir almenning og skóla ljómuðu þeir af stolti.
En þegar við létum þá líka heyra skoðun okkar á ömurlega illa gerð húsum og mannvirkj, frumstæðum tækjum og bílum og malargötum, urðu þeir óskaplega sárir í garð okkar, líkt og við værum illviljaðir rógberar.
Okkur var sýnt stór verksmiðjutogari og ég og Norðmaðurinn gátum ekki orða bundist yfir slæmum aðbúnaði skipverja og gríðarlegri stéttaskiptingu. Yfirmennirnir voru í þessum fínu íbúðum en hásetarnir kúldruðust margir saman í þröngum káetum allar vikurnar sem þeir voru úti á hafinu.
Við sögðum, sem satt var, að enginn norskur eða íslenskur sjómaður myndi fást á svona skip, og viðbrögð þeirra voru þau, að við hlytum að vera að ljúga.
"Þetta getur ekki verið, sögðu þeir, - það er þrjú þúsund manna biðlisti manna sem bíða eftir því að fá skipsrúm á þessu skipi."
Sem sannaði fyrir okkur að ófrelsið í landi þeirra væri slíkt, að menn væru tilbúnir til að fórna miklu fyrir það eitt að fá að sleppa hálfa leið út úr fangelsinu og dvelja vikum saman við illan aðbúnað á reginhafi til þess að fá að fá örlítinn smjörþef af veröldinni.
En um það þýddi ekki að ræða við Rússana, þar hefðum við verið kom út á bannsvæði í umræðuefnum og sýnt gestgjöfunum ósvífni.
Verða menn einn jafn reiðir og sárir út í Roosh V og Svíann hér um árið? Það verður forvitnilegt að sjá.
![]() |
Ísland er þorp stofnað af nauðgurum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.1.2014 | 23:28
Æfingasvæði marsfara endilega gert að iðnaðarsvæði !
Eitt af þeim svæðum sem sett voru í verndarfnýtingarflokk í 2. áfanga rammaáætlunar er Gjástykki. Nú er það meðal fjölda svæða sem orkufyrirtæki vilja láta færa yfir í orkunýtingarflokk.
Árið 2000 kom Bob Zubrin, helsti forsprakki alþjóðlegra samtaka um marsferðir, til Íslands til að finna æfingasvæði fyrir marsfara framtíðarinnar.
Sendinefnd frá samtökunum valdi ákveðið svæði í miðju Gjástykki tveimur árum síðar.
Tunglferðir innan tíu ára voru ekki einu sinni nefndar árið 1959, svo fjarlægar þótt þær. Marsferðir eftir tíu ár eru mun líklegri nú eins og sést á tengdri frétt á mbl.is.
Askja varð fræg sem æfingasvæði tunglfara 1967 sem vildu komast í umhverfi sem líktust tunglinu.
Þeir hefðu ekki farið að æfa sig þar ef þar hefði þá verið virkjun/iðnaðarsvæði.
Hins vegar hefur nefnd um skipulag miðhálendisins þegar ákveðið að Gjástykki verði iðnaðarsvæði og nú sækist Landsvirkjun eftir að því verði fylgt eftir með virkjun þar.
Þar að auki er í Gjástykki eini staðurinn í heiminum, þar sem hægt er að sjá ummerki "sköpun jarðarinnar" eða nýs lands, Íslands, eins og hún blasti við í Kröflueldum 1984, þegar landið klofnaði, meginlandsfleki Ameríka kipptist til vesturs en Evrópuflekinn til austurs, en úr djúpum sprungum á milli flekanna vall upp nýtt hraun, Ísland í sköpun!
Hvergi annars staðar eru bæði ummerki um slíkt og samtímafrásagnir og myndir til af þessari "sköpun jarðarinnar".
Í stað þess að menn átti sig á mikilvægi þess að varðveita þetta svæði ósnortið og nýta sér hið einstæða gildi þess í gegnum hæfilega og vel stjórnaða ferðamennsku, ef peningahliðin þarf endilega að ráða, er nú sótt hart að þessu svæði og víðast annars staðar líka, þar sem vernd átti að gilda.
Meira að segja á að keyra ofan í kok á Hvergerðingum virkjun í Grændal, sem er rétt fyrir ofan byggðina, á sama tíma og þeir kvarta yfir brennisteinsmengun og jarðskjálftum frá Hellisheiðarvirkjun, sem er sjö sinnum fjær.
Í Yellowstone í Bandaríkjunum er mesta samanlögð vatns- og jarðvarmaorka í Norður-Ameríku.
Engum myndi líðast að setja fram áætlun eða ósk um virkjun eins einasta af 10 þúsund hverum svæðisins eða rúmmetra vatns úr fossum þess.
Engum myndi einu sinni detta það í hug.
"Yellowstone er heilög jörð" sagði einn helsti jarðvarmanýtingarsérfræðingur Bandaríkjanna á afmælisráðstefnu Ísor í sumar.
En hér á landi á mun merkilegra svæði, þykir sjálfsagt að taka hvað sem er í nefið í náttúru landsins til að seðja orkuhungur stóriðjunnar fyrir orku á gjafverði.
![]() |
Hefja þjálfun fyrir landnám Mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 8.1.2014 kl. 00:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
7.1.2014 | 11:35
Illskiljanleg stjórnarskrá á Íslandi.
Norðmönnum finnst slæmt hve orðalag stjórnarskrár landsins er torskilið. Það er ekki eina stjórnarskráin sem er torskilin fyrir almenning. Norðmönnum finnst að það sé nauðsynlegt að grundvallarlög landsins séu skiljanleg fyrir almenning sem á að fara eftir þeim vegna þess að það sé ekki æskilegt að aðeins lítill hópur manna sé þess umkominn að skilja og skýra þau.
Íslenska stjórnarskráin er því miður svipuðu marki brennd og sú norska.
Uppsetning stjórnarskrár okkar, einkum fyrstu 30 greinarnar, bera þess merki, að hún er að stofni til frá 1849 þegar Danakonungur afsalaði sér einveldi sínu, en til þess að mýkja konunginn og milda þá staðreynd fyrir konungssinnum og konungsættinni, að hann væri ekki lengur einvaldur, voru flestar þessara greina um það að konungurinn geri hitt og konungurinn geri þetta þótt hann réði litlu sem engu um það, því að valdið er tekið af honum með því að segja að hann sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og láti ráðherra framkvæma vald sitt.
Þegar Ísland varð lýðveldi 1944 voru gerðar algerar lágmarksbreytingar á stjórnarskránni og orðið "forseti" sett inn í stað orðsins "konungur" þar sem fjallað var um þjóðhöfðingjann og því eru flestar af fyrstu 30 greinunum um það að forsetinn geri þetta og forsetinn geri hitt, þótt hann geri það í raun alls ekki eða hafi um það ákvörðunarvald annað en það sem felst í 26. greininni um málskotsrétt hans, sem var sett inn í stjórnarskrána 1944.
Og þrátt fyrir þá nýju grein deildu fræðimenn og stjórnmálamenn um það allt fram til 2004 hvort hún væri lengur í gildi í raun og í synjun forsetans á því að staðfesta fjölmiðlalög 2004 var deilt um það hvort löglega hefði verið staðið að málum þegar engin þjóðaratkvæðagreiðsla fór fram.
Í stjórnarskrárfrumvarpi stjórnlagaráðs er þetta hvort tveggja gert algerlega skýrt.
Útilokað er fyrir almennan borgara á Íslandi að fá almennilegan botn í stjórnarskrána nema með því að fara á námskeið hjá fræðimanni í stjórnskipunarrétti.
Nokkrir rithöfundar eða menn, sem höfðu stundað ritstörf voru í stjórnlagaráði, og reynt var í starfi ráðsins að stilla nýrri stjórnsrkrá rökréttar upp en þeirri gömlu og hafa hana á ljósu og skýru máli sem almenningur gæti skilið.
Mjög mikið af starfi ráðsins fór í það að reyna þetta og aðal hindrunin var sú, að "elítan", sem einn háskólaprófessor taldi að ætti að semja stjórnarskrána, taldi að það yrði að vera ákveðið "lagatæknilegt" orðalag á stjórnarskránni til að viðhalda samræmi við "júridískan þankagang" og oft á tíðum afsprengi af því tyrfna stofnanamáli, sem er svo algengt hér á landi, líka varðandi lög og rétt.
Í sumu tilliti er núgildandi stjórnarskrá meira að segja illskiljanleg fyrir elítuna sjálfa eins og ótal lagadeilur og þras bera vitni um.
![]() |
Deilt um stjórnarskrárbreytingar í Noregi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (62)
7.1.2014 | 09:52
Tveir og hálfur Gullfoss = "lítil umhverfisáhrif".
Forstjóri Landsvirkjunar segir að umhverfisáhrif Norðlingaölduveitu verði lítil. Af því er auðvelt að draga þá ályktun að umhverfisáhrif af því að virkja Gullfoss verði nær engin, því að þar er aðeins um að ræða einn stórfoss, en hins vegar þrjá fossa í Efri-Þjórsá.
Með Norðlingaölduveitu er nefnilega þurrkuð upp fossaröð efst í Þjórsá, þar sem allir fossarnir eru stórir, en tveir þeirra, Gljúfurleitarfoss og Dynkur, eru hvor um sig á stærð við Gullfoss og báðir eru ólíkir Gullfossi, einkum Dynkur sem líkist ekki neinum fossi, sem mér er kunnugt um, í nokkru landi.
Ein röksemdin fyrir því að umhverfisáhrifin séu lítil eru þau að það séu svo fáir, sem hafi komið að þessum fossum í Þjórsá.
Sömu rök hefði verið hægt að færa fyrir því að sökkva Landmannalaugum fyrir 70 árum eða virkja Gullfoss fyrir einni öld.
Uppleggið er líka rangt, því að ef það eiga að vera rök, að fyrirbærið hafi ekki verið nýtt til ferðamennsku, ættu það að vera enn sterkari rök fyrir að virkja ekki, að virkjun hafi ekki verið gerð.
Svona rökfærsla er gott dæmi um það þegar forsendunum er hagað þannig að komi sem best út fyrir virkjun en sem verst út fyrir verndarnýtingu.
Með litlum tilkostnaði og góðri kynningu mætti búa til skemmtilega ferðaleið í svipuðum anda og "Gullna hringinn" þar sem farið væri upp með Þjórsá meðfram fossunum og síðan til suðurs til Landmannalauga og þaðan um Dómadalsleið eða Hrauneyjafoss til baka.
Með stórauknum ferðamannastraumi er nú hrópað á möguleika til að dreifa ferðamönnunum betur.
Auk þess er vaxandi fjöldi erlendra ferðamanna sem kemur til landsins í annað, þriðja eða fjórða sinn.
Þeir myndu þiggja það að skoða eitthvað fleira en Gulllna hringinn í hverri ferð.
![]() |
Veitan áfram hagkvæm |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
6.1.2014 | 22:34
Sumu er erfitt að breyta.
Drottinn aldrei fer í frí.
Fjallkonan er enn með skúf.
Geysi enginn grefur í.
Guðni Már er enn á RÚV.
![]() |
Guðni Már er ennþá á RÚV |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
6.1.2014 | 18:21
Aðeins 154 sjómílur frá Vestfjörðum.
Milli Hornstranda og Blossevillestrandarinnar á Grænlandi handan Grænlandssunds eru aðein 154 sjómílur í loftlínu. Það þýðir, að ef dregin yrði lína fyrir 200 mílna "ferðamannalögsögu# Íslands myndi hún ná 46 sjómílur inn á Grænlandsjökul, en upp af ströndinni Grænlandsmegin eru hæstu fjöll Grænlands, Watkinsfjall og Gunnbjörnsfjall, sem eru um 3700 metrar yfir sjávarmáli.
Hin stórkostlega fjalla- og fjarðaströnd frá Kangerlussuaqfirði norður til flóans Scoresbysunds, fellur innan þessarar 200 mílna línu.
Næsta byggð á Grænlandi er þorpið við Scoresbysund, en hluti strandarinnar umræddu er lengra frá því en Ísafirði.
Að öðru leyti liggur engin grænlensk byggð nálægt þessu stórkostlega strandsvæði, og sé þorpið við Scoresbysund ekki tekið með í reikninginn, liggur öll byggð á Íslandi mun nær Blossevilleströndinni en grænlenskar byggðir.
Ég hef farið þrisvar fljúgandi yfir Grænlandssund og fallið í stafi yfir hrikalegri fegurð fjarðanna og fjallanna grænlensku.
Eftir að komið er fljúgandi til baka til Íslands í brott frá hinum 3700 metra háu fjöllum segir maður við sjálfan sig: "Hornbjarg úr djúpinu rís" hvað?, þegar Kálfatindur, hæsti tindur bjargsins megnar ekki að teygja sig meira en 534 metra upp frá haffletinum, eða í innan við 1/7 af hæð Gunnbjörnsfjalls.
Í Sördalen sunnarlega á ströndinni var leitað að gulli fyrir tveimur áratugum og lentu Twin Otter vélar frá Akureyri á flugbraut þar.
Helstu hindranir í veginum fyrir samgöngum þangað eru þrálátar þokur, sem kaldur sjórinn með íshröngli sínu mynda.
Engu að síður tel ég að markhópurinn fyrir ferðalög þangað sé það vel efnaður, að vel sé hægt að stunda þangað flugferðir, þótt stopular kunni að verða og farið þurfi að kosta skilding.
Ein ferða minna var með skíðaflugvél frá Akureyri, þar sem lent var við rætur Gunnbjörnsfjalls, og líklega er oftar fært þangað vegna veðurs en til hinna þokusæla fjarða á ströndinni.
Ein ferðin var á TF-FRÚ í miðjum nóvember og það er ævintýri út af fyrir sig að fara í útsýnisflug að þessari stórbrotnu strönd, þótt ekki sé lent á henni.
![]() |
Umsvifin aukast á Íslandi og Grænlandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)