Aðeins 154 sjómílur frá Vestfjörðum.

Milli Hornstranda og Blossevillestrandarinnar á Grænlandi handan Grænlandssunds eru aðein 154 sjómílur í loftlínu. Það þýðir, að ef dregin yrði lína fyrir 200 mílna "ferðamannalögsögu# Íslands myndi hún ná 46 sjómílur inn á Grænlandsjökul, en upp af ströndinni Grænlandsmegin eru hæstu fjöll Grænlands, Watkinsfjall og Gunnbjörnsfjall, sem eru um 3700 metrar yfir sjávarmáli.

Hin stórkostlega fjalla- og fjarðaströnd frá Kangerlussuaqfirði norður til flóans Scoresbysunds, fellur innan þessarar 200 mílna línu.

Næsta byggð á Grænlandi er þorpið við Scoresbysund, en hluti strandarinnar umræddu er lengra frá því en Ísafirði.

Að öðru leyti liggur engin grænlensk byggð nálægt þessu stórkostlega strandsvæði, og sé þorpið við Scoresbysund ekki tekið með í reikninginn, liggur öll byggð á Íslandi mun nær Blossevilleströndinni en grænlenskar byggðir.

Ég hef farið þrisvar fljúgandi yfir Grænlandssund og fallið í stafi yfir hrikalegri fegurð fjarðanna og fjallanna grænlensku.

Eftir að komið er fljúgandi til baka til Íslands í brott frá hinum 3700 metra háu fjöllum segir maður við sjálfan sig: "Hornbjarg úr djúpinu rís" hvað?, þegar Kálfatindur, hæsti tindur bjargsins megnar ekki að teygja sig meira en 534 metra upp frá haffletinum, eða í innan við 1/7 af hæð Gunnbjörnsfjalls.

Í Sördalen sunnarlega á ströndinni var leitað að gulli fyrir tveimur áratugum og lentu Twin Otter vélar frá Akureyri á flugbraut þar.

Helstu hindranir í veginum fyrir samgöngum þangað eru þrálátar þokur, sem kaldur sjórinn með íshröngli sínu mynda.

Engu að síður tel ég að markhópurinn fyrir ferðalög þangað sé það vel efnaður, að vel sé hægt að stunda þangað flugferðir, þótt stopular kunni að verða og farið þurfi að kosta skilding.

Ein ferða minna var með skíðaflugvél frá Akureyri, þar sem lent var við rætur Gunnbjörnsfjalls, og líklega er oftar fært þangað vegna veðurs en til hinna þokusæla fjarða á ströndinni.

Ein ferðin var á TF-FRÚ í miðjum nóvember og það er ævintýri út af fyrir sig að fara í útsýnisflug að þessari stórbrotnu strönd, þótt ekki sé lent á henni.  


mbl.is Umsvifin aukast á Íslandi og Grænlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband