Færsluflokkur: Bloggar

Skiptimynt í kjarasamningum ? Burt með stuðning sem gerir fólk háð honum?

Allt frá kjarasamningum 1955 og síðar 1964 og 65 hefur sitjandi ríkisstjórn orðið að taka þátt í að liðka fyrir kjarasamningum.

Þetta hefur kostað peninga úr ríkissjóði á einn eða annan hátt. Varla er hægt að ímynda sér annað en að það stefni í eitthvað svipað nú.

Þá getur verið að það freisti ríkisstjórnarinnar að búa sig undir það fyrirfram að eiga eitthvað útspil uppi í erminni til þess að leggja fram frekar en að standa uppi með ill leysanlega stöðu.

Varla er hægt að komast hjá því að hugleiða, hvort skerðing barnabóta nú, sem komst á minnisblað hjá ríkisstjórninni, hafi verið hugsuð sem undirbúningur fyrir það hjá ríkissstjórninni að eiga það uppi í erminni við lausn kjarasamninga, að bjóða upp á hækkun barnabótanna, sem í raun þýðir að hætta við skerðingu þeirra.  

Talsverð firring sýnist vera fólgin í þeim ummælum Vigdísar Hauksdóttur að ekki megi styðja barnafólk jafn mikið og verið hefur, af því að það verði háð stuðningnum!  

Sem þýðir með öðrum orðum að þessi hluti heimilanna, heimila barnafjölskyldna, sem þyngstur er í rekstri fyrir fólk sem á erfitt með að ná endum saman, er í huga Vigdísar síður verðugur þess að njóta efnda kosningaloforðs Framsóknarflokksins um stuðning við heimilin heldur en heimili hinna ríkari, sem hafa færri á framfæri og verði síður háð stuðningnum!

Stuðningi, sem forsætisráðherra segir heimsmet að umfangi og stærð og boði upprisu millistéttarinnar!

Með rökum Vigdísar gæti orðið brýnt að minnka stuðning við aldraða, öryrkja og sjúka með þeim rökum að þetta fólk verði háð stuðningnum. Mikið er nú gaman að geta dregið ríkisútgjöldin saman á þessum forsendum.

Hætta til dæmis við tækjakaup til Landsspítalans af því að sjúklingarnir verði háðir tækjunum ! 


Stærsti jólasveinn heim er í Norður-Noregi, allt árið !

Það má keppa um margt og komast í Heimsmetabók Guinnes fyrir bragðið.

Það að kveikja á "stærsta jólatré heimsins" í Gubbio á Ítalíu er dæmi um það.

Eitt skemmtilegasta fyrirbrigðið af því tagi sem ég hef kynnst er að koma í land í júlí úr ferju í Troms í Norður-Noregi á leið frá Tromsö til Alta og standa þar frammi fyrir "stærsta jólasveini heims", en þetta er næstum 10 metra há stytta af jólasveini í fullum skrúða.

Þarna stendur hann allt árið og má eiginlega segja að hann sé frekar "júlísveinn" en "jólasveinn" um hásumarið.

Ég geta varla ímyndað mér að öðrum en Norðmönnum og Íslendingu geti dottið svona í hug, því margt getur verið líkt með skyldum.


mbl.is Kveikt á stærsta jólatré heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Einu sinni á ævinni".

Upp kom sú staða hjá Helle Thorning-Schmidt forsætisráðherra Dana að sitja á milli Barack Obama Bandaríkjaforseta og David Camerons forsætisráðherra Breta.

Slíkt gerist líklega einu sinni á ævi hennar eða hvers þess, sem í slíku lendir og Helle tók mynd af sér og sessunautum sínum til að eiga fyrir sjálfa sig.

Þetta heitir að taka "selfie", athæfi, sem gerist líkast til milljón sinnum í heiminum í hverri viku.

Úr þessu verður stórfrétt og sú mest lesna hér á mbl.is og víðar um heiminn. Já, ekki má nú mikið til að úr verði stærsta fréttin þær stundirnar!

Hæst hafa þeir sem myndu sjálfsagt hafa gert það sama í sporum Helle eða eru búnir að gera það sama í svipuðum sporum.   


mbl.is Tók „selfie“ með Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ólöglegt að klappa einhverjum á kinnina ?

Er ólögleg sú "aðferð" að klappa einhverjum á kinnina. Nei, það er ekki ólöglegt ef það er gert þannig að það sé tákn um vináttu eða blíðuhót.  

En það er ekki sama hvernig það er gert eða við hvaða aðstæður. Ef klappað er fast eða slegið með lófanum er það árás.

Sú "aðferð", sem byggist í þeirri hreyfingu handar að færa flatan lófann að kinn annarrar manneskju og taka hann frá aftur, er ekki og verður ekki ólögleg svo framarlega sem þetta er gert laust en ekki fast.


mbl.is Vilja handtökumálið fyrir Hæstarétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyndnastir eru "jeppar" með aðeins framhjóladrif.

Eitthvert best heppnaða markaðsátak síðustu áratuga er "jeppabylgjan" sem segja má að hafi byrjað af alvöru með tilkomu Toyota RAV 4 fyrir tæpum 20 árum.

Hann var að vísu af svipaðri stærð og gerð og hinn fjórhjóladrifni Lada Niva ("sport" á Íslandi) hafði verið 15 árum fyrr og Suzuki Vitara og Daihatsu Terios fimm árum fyrr, en RAV 4 var sá fyrsti sem var með sjálfstæðri gormafjöðrun á öllum hjólum og grindarlaus, byggingarlag, sem síðar fékk heitið "crossover"  eða umskiptingar.

Brátt fylgdu í kjölfarið jepplingar eins og Honda CRV, Mitsubishi Outlander og Landrover Freelander og segja má að þarna hafi bílaframleiðendur fundið það sama og Framsóknarflokkurinn hér heima, þ. e. hina rómuðu millistétt, sem til dæmis Barack Obama telur undirstöðu grósku í hagkerfinu ef hún sé nærð sem best.

Markaðsátakið varðandi jeppa og jepplinga á enn mikið inni og nú er enginn maður með mönnum nema hann sé á "jeppa". 

Hið fyndna er að hjá meira en 95% kaupendanna það er aðeins útlitið sem skiptir í raun máli, ekki eiginleikarnir því að í 95% tilfella erlendis fer bíllinn aldrei út af malbiki.

Sumir "jepplingarnir" eru aðeins með aðeins um  17 sentimetra hæð frá jörðu og síga niður í 12 sentimetra við hleðslu, en í því ástandi komast þeir engar torfærur og það er lægra undir þá en óhlaðna venjulega fólksbíla.

Og hin síðari ár seljast framhjóladrifnir "jepplingar" miklu betur en fjórhjóladrifnir og sumir þeir nýjustu eru ekki einu sinni framleiddir með fjórhjóladrifi eins og Opel Mokka og Chevrolet Trax !

Aðeins lítill hluti Nissan Juke er seldur með fjórhjóladrifi því að það að vera á "jeppa" er stöðutákn.

Og framendarnir á flestum "jeppunum" skaga langt og lágt fram og eru þannig, að þeir hafa þessa fínu eiginleika sem jarðýtutannir eða snjómoksturstannir    


mbl.is Jeppinn tekur við af fjölnotabílnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannur skólameistari.

Ég hef átt þess kost að fylgjast með barnamenningarstarfinu, sem unnið hefur verið í Rimaskóla um langt árabil vegna þess að þar hafa fjögur barnabörn mín verið nemendur og dóttir mín kennari.

Það hefur verið gefandi að fylgjst með því hvernig stjórnendur skólans og kennarar hafa lagt sig fram í starfinu og náð áþreifanlegum árangri og raunar einstöku hvað varðar iðkun skáklistarinnar í skólanum.

Á sínum tíma kynntist ég vel hinu merka uppeldisstarfi Árna Helgasonar í Stykkishólmi, föður Helga Árnasonar og sjaldan fellur eplið langt frá eikinni.   

Til hamingju með verðskuldaða viðurkenningu, Helgi Árnason, og til hamingju Rimaskóli, bæði kennarar og nemendur !


mbl.is Skólastjóri Rimaskóla fær Barnamenningarverðlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vekur minningar um dauða James Dean.

Dauða Paul Walkers í bílslysi ber þannig að, að upp vakna minningar um dauða leikarans James Dean fyrir 56 árum, vegna þess hve margt er líkt með þessum slysum.

Í báðum tilfellum voru leikararnir í hraðskreiðum og snörpum Porsche sportbílum og bara sú staðreynd ein vekur grun um hraðakstur.

Engar beinar sannanir eru raunar fyrir því að James Dean hafi verið á einhverjum ofsahraða, en hann var á gráleitum afar lágum bíl, og bílstjóri, sem ók þvert í veg fyrir hann á gatnamótum, sá hann ekki fyrr en allt of seint.

Þeir Roger Rodas og Paul Walker voru hins vegar á gríðarlegum hraða, - talað um 160 km/klst.

Víst er Porsche Carrera GT tæknilegt snilldarverk hvað það snertir, að þetta er eini fjöldaframleiddi fólksbíllinn í heiminum sem er með stóra vél fyrir aftan afturhjólin, en samt hefur tæknimönnum Porsche tekist að ná undraverðum árangri við að minnka áhrif þessarar slæmu þungadreifingar alveg ótrúlega mikið þannig að yfirleitt verða ökumenn bílanna hennar ekki varir.

Það stóð til að hætta framleiðslu 911 bílsins fyrir meira en 30 árum vegna þess að þessi tilhögun var talin úrelt, en kaupendur Porsche bíla voru á öðru máli.  

Þyngst vegur varðandi lúmska hættu við akstur þessara bíla, að þyngdarpunktur hinnar stóru vélar er vel fyrir aftan afturhjólin og við ákveðnar aðstæður verður sú staðreynd ekki umflúin.

Útilokað að koma í veg fyrir, að þegar miðflóttaafl hins þunga afturenda nær sér snögglega á strik í hliðarsveiflu afturendans, þarf hnífskörp og æfð viðbrögð, nánast kappakstursmannaviðbragðshraða, til þess að halda stjórn á bílnum.

Í heimsmeistarakeppninn í vetrarrallinu í Svíþjóð 1981 sigraði Hannu Mikkola á fjórhjóladrifnum Audi Quattro en hins vegar voru það Finninn Ari Vatanen og Svíinn Per Eklund sem vöktu mesta hrifningu mína því að hvorugur var á fjórhjóladrifnum bíl.

Eklund ók Porsche 911 af tærri snilld, ekki bara í þessu ralli, heldur mörgum öðrum, og var langbesti ökumaður heims á Porsche 911 á þeim tíma.     


mbl.is Paul Walker: Myndir af slysstað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nauðsynlegar tímaskekkjur ?

Þótt hægt sé að rökstyðja það sem öryggislega nauðsyn að María hafi hjálm í leikriti byggðu á jólaguðspjallinu þar sem hún situr á asna, er í þessu fólgin mótsögn sem æpir orðið "tímaskekkja."

Tímaskekkjurnar eru fleiri þessar vikurnar fyrir jól. Í jólalagi um hin fyrstu jól segir í lok ljóðsins um einn hjarðmanninn, sem kemur til Jesúbarnsins: "Svo gerir hann krossmark, krýpur fram  /  og kyssir barnið vangann."

Þetta gerir hann sem sé, þótt minnst 30 ár séu þangað til Jesús verður krossfestur, meira en öld þar til krossinn verður smám saman að tákni kristninnar og enn lengra þar til það að gera krossmark verður að blessun eða helgun..

Ljóst er að enginn gerði krossmark á þessum tíma, einfaldlega vegna þess að sá tími var ekki kominn sem það var gert, enda var krossinn þá hryllilegt aftökutæki og ekkert annað.

En það má leita að skýringu byggða á því að hjarðmaðurinn hafi verið skyggn og forspár og séð fyrir að krossinn og krossmarkið yrðu löngu síðar að merki um blessun og helgi.

Sem reyndar rímar ekki við það að það hefði frekar átt að vera einn af vitringunum sem hefði slíka spádómsgáfu. 

Þrátt fyrir fegurð þessara síðustu ljóðlína hefur mér alltaf fundist þessi setning örlítið truflandi í þessum annars afar fallega og hugljúfa jólasálmi, jafnvel þótt höfundinum hafi fundist þessi tímaskekkja vera nauðsynleg.  


mbl.is María mey þarf að vera með hjálm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sá, sem gerir færri mistök, vinnur.

Í íþróttum er það eitt hinna algildu lögmála, að sá keppenda sem gerir færri mistök, vinnur, einkum þegar viðkomandi sigurvegari er það góður, að ef andstæðingur hans gerir mistök, er honum refsað miskunnarlaust.

Í fyrri leik Íslendinga og Króata á dögunum gerði íslenska liðið engin afgerandi mistök á þeim tíma sem leikmenn Íslands voru einum færri en leikmenn Króata, - að minnsta kosti ekki nógu stór mistök til þess að Króatar gætu nýtt sér það.

Króötum mistókst einnig að nýta sér hin örfáu skotfæri sín, sem voru þar að auki ekki góð.

Þegar góðum íþróttamanni mistekst að refsa andstæðingnum fyrir mistök hans, hefnir það sín.

Joe Louis er af flestum talinn einn af 2-3 bestu þungavigtarboxurum sögunnar og þegar hann var á hátindi getu sinnar refsaði hann andstæðingum sínum miskunnarlaust, ef þeir gáfu færi á sér, þótt ekki væri nema eitt augnablik.

Í síðasta bardaga sínum átti Louis í höggi við rísandi stjörnu, Rocky Marciano, sem þá hafði ekki skólast fullkomlega þótt gríðar öflugur væri.

Marciano sló Louis út úr hringnum í tvöföldum skilningi í 8. lotu og Louis lýsti því yfir að nú myndi hann leggja hanskana endanlega á hilluna.

Þegar hann var spurður, hvað hefði valdið úrslitunum svaraði hann: "Aldurinn. Ég boxaði að mörgu leyti alveg jafn vel og ég gerði þegar ég var yngri, en hraði og viðbragðsflýtir minn hafa dalað, þótt þar sé aðeins um að ræða hundruðustu hluta úr sekúndu.

Hvað eftir annað sá ég "opnanir" hjá Rocky, sem ég hefði getað nýtt mér þegar ég var yngri, en var of seinn að gera það nú. Því fór sem fór."  


mbl.is Fimm sjálfsmörk engin tilviljun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósætti í vinstri stjórn um NATO er 57 ára gamalt fyrirbæri.

Það er orðin afar löng hefð, raunar 57 ára gömul hefð, fyrir ósætti um utanríkismál í þeim ríkisstjórnum hér á landi, þar sem Sósíalistaflokkurinn, Alþýðubandalagið og loks Vinstri grænir hafa átt ráðherra.

1956 sprakk þáverandi ríkisstjórn Sjalla og Framsóknar á því að Framsókn stóð að þingsályktun á útmánuðum þess efnis að senda skyldi varnarliðið úr landi vegna þíðu, sem væri komin í samskiptum risaveldanna.

Mynduð var vinstri stjórn eftir kosningar um sumarið 1956 þar sem krati (Guðmundur Í. Guðmundsson) varð utanríkisráðherra, sem var að miklu leyti sambærilegt við það að Össur varð utanríkisráðherra í síðustu vinstri stjórn.

Lúðvík Jósepsson var hins vegar sjávarútvegsráðherra og þar með var kominn núningsflötur í stjórninni varðandi utanríkismál, einkum vegna útfærslu landhelginnar 1. sept 1958, sem var á borði Lúðvíks.

Kratar og Framsókn drógu hins vegar lappirnar varðandi brottför hersins strax eftir átökin í Ungverjalandi og Súezdeiluna haustið 1956 og notuðu aukna spennu í heimsmálum sem ástæðu fyrir því að herinn yrði kyrr.

Í vinstri stjórninni 1971-74 var aftur á stefnuskrá stjórnarinnar að reka herinn í áföngum, en Framsókn með utanríkisráðherrann Einar Ágústsson og Allaballar með Lúðvík sem sjávarútvegsráðherra endurtóku leikinn frá því 1956-58, landhelgin var færð út en herinn varð kyrr.

Í vinstri stjórninni 1978-79 datt málið upp fyrir þótt bullandi ágreiningur væri sem fyrr á milli ráðherra Allaballa og ráðherra hinna flokkanna.

Enn var vinstri stjórn 1988-91 og nú var ekki minnst á herinn, enda Jón Baldvin utanríkisráðherra og Ólafur Ragnar var heldur ekkert á því herinn færi, - lagði meira að segja til fyrir réttum 20 árum að Íslendingar tækju þátt í þeim aðgerðum á vegum NATO, sem NATO væri falið á vegum Sameinuðu þjóðanna til að stilla til friðar eða skakka leik þar sem alþjóðlegt hervald þyrfti til.

Harðir hernámsandstæðingar í flokknum voru þá, eins og nú, í andstöðu við NATO aðild en fengu engu um ráðið.

Svona breytast stjórnmálin stundum lítið, jafnvel á löngum tíma.


mbl.is Tillagan flutt af „pólitískri skemmdarfýsn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband