Færsluflokkur: Bloggar
15.12.2013 | 21:41
Dýrlegt að heyra þetta! Ragnar Reykás hvað?
Hún fór ekki hljótt, andúð ýmissa þingmanna svosem Gunnars Braga Sveinssonar á IPA-styrkjunum sem þeir töldu vera til skammar fyrir bæði Ísland og ESB.
Síðan, eftir að Íslendingar eru búnir að stöðva ferlið, sem styrkirnir eru tengdir, og ESB stöðvar þá, rjúka sömu menn upp með látum og úthúða ESB fyrir að taka burtu styrkinga sem þeir höfðu áður hamast gegn! Vilja nú fara í málaferli við ESB út af þessu!
Dýrlegt að heyra þetta! Ragnar Reykás hvað?
![]() |
Skoða réttarstöðu vegna IPA-styrkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
15.12.2013 | 13:12
"Heilög vé".
Hér á Íslandi myndu menn vafalaust margir fagna því að nú værir hægt að reisa stærri og öflugar virkjanir ef það kæmi í ljós að einhver eldstöð og þar með jarðvarmakerfi væri miklu öflugra en áður hefði verið talið.
Í tengdri frétt á mbl.is má sjá, að Yellowstone sé mun öflugri eldstöð en áður var talið, en í Bandaríkjunum nefnir ekki nokkur maður slíkt á nafn. Ekki aðeins er ekki hróflað við einum einasta hver af 10 þúsund hverum í Yellowstone, heldur er 100 þúsund ferkílómetra svæði á stærð við Ísland umhverfis garðinn (Greater-Yellowstone) friðað fyrir slíku.
"Yellowstone er heilög vé" ("sacred earth) sagði bandarískur sérfræðingur í jarðvarmavirkjunum í fyrirlestri hér í sumar þegar hann sýndi hvernig farið yrði um öll Bandaríkin við nýtingu jarðvarma en langöflugasta svæðið, Yellowstone, látið óstortið.
Þótt merkilegt sé kemst Yellowstone ekki á blað yfir 40 helstu náttúruundur jarðar í vandaðri umfjöllun sérfræðinga um það efni í stórri bók, sem ég á.
Hinn eldvirki hluti Íslands er hins vegar á þeim lista og á sama tíma og Yellowstone er heilög jörð í Bandaríkjunum ætlum við ekki aðeins að sækja fast í að umturna sem flestum náttúruverðmætum hér á landi heldur endilega að hjálpa Bandaríkjamönnum við að vernda sín svæði, sem þó eru ekki eins merkileg á heimsvísu.
![]() |
Yellowstone-ofureldstöðin geysistór |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
15.12.2013 | 02:43
Ástæður þess að Píratar hafa líklega traust fylgi.
Kjósendur sem eru stuðningsfólk Pírata mun vera að mestu leyti á aldrinum 18-28 ára.
Ég átti þess kost að komast svolítið inn í hugarheim þessa ágæta fólks á viku ráðstefnu í Brussel í vor um beint lýðræði netlýðræði og þátttöku almennings í stjórnmálum.
Ljóslega kom fram á ráðstefnunni hve miklir möguleikar eru á þessu sviði og hve nauðsynlegar tillögur stjórnlagaráðs um beint lýðræði eru.
Netið býður bæði upp á framfarir og hættur, kosti og galla. Það opnar alveg nýja möguleika, sem brýn nauðsyn er að aðrir stjórnmálaflokkar en Píratar kynni sér.
Gallarnir geta verið fólgnir í þeirri mótsögn, að auknu víðsýni og aukinni þekkingu geti fylgt ákveðin þröngsýni hjá þeim, sem hverfa alveg inn í netheima og eiga hættu á firringu frá raunverulegu lífi utan netheimanna.
Það er hægt að hafa gríðarlega gefandi samskipti á netinu en ekkert getur samt komið alveg í stað fyrir venjuleg mannleg samskipti, ekki einu sinni Skype eða réttnefndur "sýndarveruleiki."
Hópur þess fólks sem lifir og hrærist á netinu er ekki aðeins nokkuð stöðugur heldur fer stækkandi.
Ég spáði því í vor að Píratar myndu fá nokkuð stöðugt fylgi í kringum 7% en það eina sem gæti komið í veg fyrir að það fylgi skilaði sér væri að fylgjendurnir nenntu ekki að nota gamla lagið til að fara á kjörstað.
Enginn vafi er á því að dæmið myndi snúast við ef kosningarnar væru komnar úr kjörklefunum inn á netið. Þá myndi stór hópur fólks, sem er seint til að tileinka sér nýja tækni, detta út.
Enginn skyldi vanmeta möguleika Pírata í sveitarstjórnarkosningunum frekar en í alþingiskosningum.
Miklu mun þó ráða málafylgja þeirra og mannskapur, sem boðinn er fram.
![]() |
Píratar bjóða fram í Reykjavík |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2013 | 18:59
El-Kere, Gurra, Negele, Omo Rade, Hindane og Maputo.
Nafnarunan sú arna eru fimm staðir af miklu fleiri sem ég hef átt kost á að heimsækja í þremur Afríkuferðum til Eþíópíu og Mósambík til að sjá hverju aðstoð Íslendinga við fátækar þjóðir hefur orkað.
Á öllum stöðunum ríkir neyð meðal fólksins, sem er svo langt umfram það sem við þekkjum hér á landi að leita þarf aftur til Móðuharðindanna til að finna hliðstæðu og á öllum stöðunum mátt sjá ómetanlegan árangur íslenskrar hjálpar.
Svo heyrir maður Vigdísi Hauksdóttur, formann fjárlaganefndar nefna þetta meðal "gæluverkefna" og verja þá nöturlegu staðreynd að Íslendingar, ein af ríkustu þjóðum heims, ver minna í þróunarhjálp á hvern íbúa en nokkurt annað vestrænt ríki.
Og greiddi ein allra þingmanna atkvæði gegn því á sínum tíma að reynt yrði að berja í brestina varðandi þessa þjóðarskömm.
Það má þó Halldór Ásgrímsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins þó eiga, að hann reyndi að minnka þessa skömm á þeim tíma sem hann var utanríkisráðherra.
![]() |
Skammaðist þingmaðurinn sín þá? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.12.2013 | 13:18
Konan, sem svo margir formæltu.
Tveiumur aðilum, sem komu að málum eftir Hrunið, var formælt af mörgum hér á landi.
Þetta voru AGS og Eva Joly. Ummæli Evu þess efnis að málaferli vegna Hrunsins gætu tekið nokkur ár voru notuð sem rök fyrir því að ekkert ætti að gera í þessum málum og henni valin alls kyns ónefni eins og kvensnift, kommakerling og hvað eina.
Aðalatriðið í þessum málflutning andmælenda þess, sem gert var, var að fráleitt væri að kafa neitt ofan í Hrunið og enn fráleitara að láta einhverja vonda útlendinga í AGS koma nálægt björgunarstarfinu.
Hæst höfðu þeir sem sjálfir áttu mestan þátt í að beisla græðgi og auðtrú þjóðarinnar til að kynda upp allt það bál, sem að lokum brenndi íslenska fjármálakerfið til grunna svo að engin dæmi eru til eins hjá nokkurri þjóð.
Gaman væri að vita hve margir þeirra, sem máttu alls ekki heyra það nefnt að AGS legði til nauðsynlegt lánsfé og aðstoð til rústabjörgunarinar telji nú að hjálp AGS hafi verið til ills eins.
Dómarnir, sem nú hafa fallið, eiga eftir að fara fyrir Hæstarétt. Dómurum og dómskerfi getur auðvitað skjátlast eins og öðrum mannlegum stofnunum.
Enn hafa íslenska dómskerfið og þjóðin til dæmis ekki gert upp Guðmundar- og Geirfinnsmálin eins og vera ber.
En það breytir ekki því að fjöldi áhrifamikilla Íslendinga óskaði einskis heitara en að ekki yrði hreyft við neinu varðandi Hrunið og taldi fráleitt að utanaðkomandi aðilar, sem ekki tengdust því, fengju að leggja lið sitt. Það er íhugunarvert.
![]() |
Eva Joly: Réttlætinu fullnægt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
13.12.2013 | 23:52
Stórbrotið lífsstarf.
Sjaldgæft er ef ekki einsdæmi að ritröð sópi eins að sér bókmenntaverðlaunum og viðurkenningum og bækur Guðmundar Páls Ólafssonar hafa gert.
Guðmundur Páll ól þá von í brjósti að með því að leggja sitt af mörkum til að opna dýrð íslenskrar náttúru fyrir þjóðinni myndi hún taka sönsum varðandi ágengni sína, mætti jafnvel kalla það aðsúg, gagnvart þessu heimsverðmæti sem okkur hefur verið falið að varðveita fyrir afkomendur okkar og mannkyn allt.
Með aðförinni að Fögruhverum við Hágöngur varð mælirinn fullur í augum Guðmundar Páls.
Ég man vel þegar verið var að djöflast þar við að gera stíflu til að sökkva hverunum og ég fór nokkrar fréttaferðir þangað til að fjalla um þetta hervirki í fréttum og Dagsljósi.
Tveimur árum fyrr hafði kynnst hverunum fyrst, þá í vetrarferð, þegar Fjalli vinur minn, (Birgir Brynjólfsson, sem snemma fékk viðurnefnið Fjalla-Eyvindur og síðar Fjalli) jöklabílstjóri, sagði, að drekking þessara hvera myndi jaðra við geðveiki.
Enda var þetta eina hverasvæðið á landinu, sem var á áreyrum, og umhverfið magnað, Hágöngurnar, Vatnajökull, kvíslanet og þunnar gróðurþekjur í auðninni.
Þessar myndatökuferðir voru eitthvað svo vonlausar, - engir aðrir að fjalla um þetta eða skipta sér að því.
Í síðustu myndatökuferðinni var ætlunin að kvikmynda drekkinguna sjálfa og láta vatnið "taka sig" upp undir olboga.
Ljóst var að þar með yrði málinu lokið og "jarðaförin hefði farið fram í kyrrþey" en að vísu verið sýnd eftirá í sjónvarpi.
Mikil varð því undrun mín þegar á svæðið komu Guðmundur Páll Ólafsson og hópur skoðaansystkina hans og bjuggu til mótmælaathöfn sem varð að tímamótaviðburði í íslenskri náttúruverndarbaráttu.
Það þýddi, að nokkrum fréttapistlum var hægt að bæta við, og á svæðið komu Ragnar Axelsson ljósmyndari og fleiri.
Þegar Guðmundur Páll hafði lokið við stórvirkið Hálendið í náttúru Íslands, reif hann í viðtali í Sjónvarpinu þær blaðsíður úr bókinni sem sýndu þau svæði, sem verið var eða ætlunin var að eyðileggja. Það var magnaður og einstæður gerningur.
Eftir þetta var Guðmundur Páll ómetanlegur liðsmaður í náttúruverndarbaráttunni. Því miður lést hannum aldur fram en þó tókst að ljúka við stórvirkið um Vatnið í náttúru Ísland.
Það er stórbrotið lífsstarf sem sú bók er kórónan í.
![]() |
Vertu óhrædd og djörf! |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2013 | 13:53
"Og þegar Íslendingar arka´á suðurpólinn..."
Það þótti tíðindum sæta fyrir hálfum öðrum áratug þegar fyrstu Íslendingarnir gengu á suðurpólinn.
Í langri upptalningu yfir það hvað einkenndi jólin, varð að setja þetta inn í þulu, sem ég syng á skemmtunum á aðventunni varð þetta að vera með í upphafi fjórða erindisins, svona:
"...Og þegar Íslendingar arka´á suðurpólinn
þá er það óhugsandi nema fyrir jólin
og þegar lokaður er loksins barnaskólinn
og lausir kennararnir, eru´að koma jólin.
Og er af rónunum þeir rýma Arnarhólin
má reikna með því að þá séu´að koma jólin..." o.s.frv.
Þegar feðgarnir Ólafur Örn Haraldsson og Haraldur Ólafsson gengu á suðurpólinn markaði það upphaf þess að Íslendingar létu þar til sín taka því að síðar mörkuðu Íslendingar tímamót í farartækni þar með því að innleiða notkun jöklajeppa, sem íslensk tæknikunnátta og reynsla í akstri í íslenskum jöklum hafði skapað.
![]() |
Prinsinn á pólinn í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2013 | 04:33
Fárviðrishviður víða, líka á hinum boðaða "öryggisvegi!"
Þegar þetta blogg er slegið inn, klukkan 4 að nóttu má sjá á vef Veðurstofu Íslands fárviðrishviður víða á landinu. Meðalvindur á Stórhöfða er fárviðri eða um 70 hnútar en vindurinn kemst upp í 100 hnúta í hviðum.
Á Kjalarnesi koma líka fárviðrishviður og á Reykjavíkur fer vindur í 50 hnúta. Eins gott að FRÚin sé vel og rétt bundin niður.
Það eru líka fárviðrishviður á þeirri leið, sem mannvirkjafíklar vilja gera að heilsársvegi og þjóðleið sem stystu leið yfir hálendið upp í 900 metra hæð yfir sjó til þess að setja undir þá hættu sem þeir þykjast sjá fólgna í því að leiðin milli Egilsstaða og Reykjavíkur um sunnanvert landið lokist.
Í veðurathugunarstöðinni á Sandbúðum á miðri Sprengisandsleið er meira 20 metra vindur í ríflega 100 daga á ári enda er myndi leiðin þarna liggja í allt að 900 metra hæð yfir sjó.
Eftir flug um hálendið í bráðum hálfa öld þekki ég veðravítin, sem geta verið við norðurenda Langjökuls í um 800 metra hæð yfir sjó og norðvestanveðan Vatnajökul í enn meiri hæð. Björn Pálsson fórst í öðru þeirra.
Úrkoma, mest snjór, er mun meiri á báðum þessum svæðum en á öðrum svæðum nálægt miðju landsins og þetta hefur blasað við mér í öll þessi ár.
En síðan er komið og talað um hraðbrautalagningar um þessar slóðir eins og ekkert sé sjálfsagðara á meðan ekki er einu sinni hægt að fá í gegn endurbætur og styttingar í byggð, sem eru lang hagkvæmustu vegaframkvæmdir að öllu leyti og hægt er að leggja í á Íslandi.
Og enginn virðist hafa kynnt sér veðurskilyrðin né rætt við þá sem eru kunnugir á þessum slóðum.
Á sama tíma er sumt í heilbrigðiskerfinu við hrunmörk.
Þessir menn ekki hafa hugmynd um að helmingur hringvegarins liggur um Norðurland þegar þeir tala um hálendisveginn sem nauðsynlegan öryggisveg vegna þess að suðurhluti hans geti orðið ófær. Nema að gamla góða þöggunin sé þarna á ferðinni, að treysta því að fólk viti ekki betur.
Vísa að öðru leyti í góða grein Hjörleifs Guttormssonar í Fréttablaðinu um það mannvirkjaæði, sem lýsir sér í þessum hugmyndum og myndu rústa ímynd hálendisins sem einstæðs ósnortins víðernis.
Í Gálgahrauni hafa yfirvöld sett þá stefnu að þegar í stað verði lögð hraðbraut til að þjóna 20 þúsund manna nýrri byggð, rétt eins og hún sé í smíðum núna. Á sama tíma standa spánný hús auð við núverandi veg.
Ef öll hin sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu krefðust hins sama og Garðabær og heimtuðu að ríkja skyldi það jafnræði að leggja þegar í stað hraðbrautir út í ímynduð 20 þúsund manna nýbyggðir í hverju þeirra, jafngildir það því því að það sé sjálfsagt mál að dynji yfir okkur lagning fimm hraðbrauta vegna byggingar samtals 100 þúsund manna nýbyggðar á höfuðborgarsvæðinu!
![]() |
Vara við hvössum vindhviðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.12.2013 | 16:40
Draumurinn um örbílasafnið, "Naumhyggjubílasafn Íslands".
Bílasafn leikarains Paul Walkers er dæmi um ákveðna ástríðu, sem sumir kynnu að tengja við dauða hluti en byggist þó á gildi þeirra lifandi hughrifa og minninga sem tengjast þessum dauðu hlutum.
Sjónvarpsmaðurinn Jay Leno er gott dæmi um þetta, en ég verð að gefa honum sérstakt prik fyrir það hve víðfeðmur bílasmekkur hans er eins og sjá má á efstu myndinni hér af einhverjum minnsta bíl, sem fjöldaframleiddur hefur verið í heiminum og er að finna á bílasafni hans.
Þetta er Fiat 500 "Topolino", sem var tímamótabíll í heiminum 1936, því að næstum tuttugu ár liðu þar til svo smár nýtískulegur bíll yrði framleiddur á ný.
Árið 1956 kom Fiat 600, hannaður af sama snillingnum, Dante Giacosa, á markað.
Fyrir átta árum kom ég einum slíkum bíl, sem meðfylgjandi mynd er af, í varðveislu og var hann jólabíll í Tekk Companíinu um tvenn jól og hefur verið þar innanhúss síðustu árin.
Á árunum 1956-1959 var Fiat 600 minnsti bíllinn á markaði á Íslandi.
Þessi, R-301, var framleiddur í Júgóslavíu undir heitinu Zastava 750 og er árgerð 1972.
Paul Walker hefur einbeitt sér að sportlegum bílum en Jay Leno er með allar stærðir og gerðir, allt frá dýrustu lúxusbílum niður í hinn örsmáa Fiat 500 "Topolino."
Minn draumur er um örbílasafnið "Naumhyggjubílasafn Íslands".
Ekki er mér kunnugt um nema fjögur "micro car museums" í heiminum.
Það flottasta mun vera í Georgíuríki í Bandaríkjunum, annað í Austurríki, það þriðja í Svíþjóð, og í Neckarsulm í Þýskalandi.
Ég hef komið á NSU-safnið og þar er stór hluti bílanna örbílar, sem framleiddir voru undir merkjum NSU, Messerschmitt og fleiri framleiðenda naumhyggjubíla.
Kosturinn við örbílasafn liggur í heitinu sjálfu, - svona bílar taka auðvitað lágmarks pláss.
Skilgreining mín er hins vegar aðeins víðari en hvað snertir stærðina sjálfa, því að það nægir að viðkomandi bíll hafi verið sá ódýrasti eða einfaldasti af sínu tagi.
Ég held að skemmtilegt naumhyggjubílasafn á hentugum stað á höfuðborgarsvæðinu, fullt af myndum og frásögnum af viðkomandi bílum, geti dregið af sér gesti.
Nú þegar hef ég yfirráð yfir nægum fjölda til að geta komið svona safni af stað ef fé og aðstaða, húsnæði, fæst til þess.
Ætla síðar í dag eða kvöld að kasta inn nokkrum myndum af örbílum mínum.
Einn þeirra, svartur NSU Prinz, árgerð 1958, lék hlutverk málfarslögreglubíls í sjónvarpsþættinum Orðbragði síðasta sunnudag.
Var minnsti bíll landsins 1959-1962.
Annar, Gulur Fiat 500 1972, hefur komið fram í sjónvarpsþáttum og verið í Gleðigöngum.
Minnsti bíll landsins 2006-2008.
Minnsti Mini í heimi, tveggja manna opinn Mini Mayfair 1986, lék hlutverk bíls sérstaks saksóknara í tvígang í Áramótaskaupum og er viðeigandi nú, þegar það embætti hefur skilað af sér máli fyrir Héraðsdómi, að hann sé með hér á síðunni.
Minnsti bíll landsins frá 2008.
Sá þriðji, Fiat 126 "Maluch" cabrio, minnsti blæjubíll og brúðarbíll landsins, hefur líka verið opinberlega á ferðinni, á þessari mynd rétt við Gálgahraun.
Allir þessir þrír síðastnefnu bílar hafa verið í Gleðigöngunni undanfarin sjö ár.
Neðsta myndin er af rauðum Fiat 126 Maluch með einkanúmerið EDRÚ á Álftadalsleið með Fagradal og Herðubreið í baksýn. Hann var minnsti bíll landsins 2004-2006 og er örugglega minnsti bíllinn, sem farið hefur um þær hálendisslóðir, sem honum hefur verið att á.
Og úr því að hálendið ber á góma skelli ég hér inn mynd af minnsta jöklabíl landsins, rauðum Suzuki Fox ´86, sem vegna smæðar (aðeins rúm 900 kíló) hefur ekki þurft nema 32ja tommu dekk til að fara í tvær margra daga Vatnajökulsferðir með mun stærri bílum, eins og neðri myndina af honum gefur til kynna.
![]() |
Sjáðu bílasafn Pauls Walker |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.12.2013 | 12:52
"Forpokun og fáfræði..."
Gestur og viðmælandi í útvarpsþætti, sem ég hitti fyrir tilviljun um daginn, notaði þessi tvö orð, "forpokun og fáfræði" þegar talið barst að því sem helst stæði íslensku þjóðinni og landi okkar og einstæðri náttúru þess fyrir þrifum. Hann bætti því við að forpokun og fáfræði væri undirstaða kúgunar.
Dæmin um þetta eru óteljandi. Ég hef áður minnst á mann við aldur, sem strunsaði út af ráðstefnu um varðveislu og verndarnýtingu norðausturhálendisins með þeim orðum, að fráleitt væri að laða ferðamenn til landsins á þeim forsendum, því að sjálfur vissi hann af 50 ára reynslu að það eina sem gæti laðað ferðamenn til austurhluta landsins væri Hallormsstaðaskógur!
Þáverandi forsætisráðherra Íslands taldi í sjónvarpsumræðum fyrir 15 árum ólíklegt að Eyjabakkar hefðu hið minnsta gildi því að enginn þekkti þá. Bætti því við að hann og fleiri hefðu fram að þessu haldið að Eyjabakkar væru gata í Breiðholtinu !
Á þessum tíma var hafin herferð til þess að koma í veg fyrir að ég sýndi myndir af því sem til stóð að gera á austurhálendinu og þess krafist að ég yrði rekinn frá Sjónvarpinu fyrir það, af því að ég hefði sýnt vítaverða misnotkun á aðstöðu og hlutdrægni í umfjölluninni, einokað hana og hyglað viðmælendum, sem höfðu önnur sjónarmið en sjónarmið ríkjandi valdaafla.
Nákvæm rannsókn leiddi í ljós að fyrir þessum ásökunum var ekki neinn fótur, en áfram var allt gert sem hagsmunaaðilar þröngrar skammtímagræðgi gátu fundið upp á til þess að kúga mig til hlýðni.
Ráðandi hagsmunahópar stjórnuðu þá og stjórna enn umræðu um mikilsverð málefni með því að stuðla að fáfræði og forpokun.
Til dæmis er nánast aldrei er minnst á stórfossana þrjá í Efri-Þjórsá sem Norðlingaölduveita mun þurrka upp því að það hentar virkjanafíklunum að fólk viti ekkert um þá og það gildi sem þeir hafa ósnortnir þar sem þeir gætu jafnvel malað gull á sama hátt og Gullfoss ósnortinn.
Síbyljan mikla um hina "hreinu og endurnýjanlegu orku" jarðvarmavirkjana á borð við Hellisheiðarvirkjun og það fagra fordæmi sem Íslendingar sýni heimsbyggðinni með slíkri orkunýtingu er svo yfirþyrmandi að ekkert annað kemst að.
Hið rétta, að þetta er hrein rányrkja, sem örsjaldan kemur fram, drukknar jafnharðan í umræðunni ráðandi öflum til mikillar gleði.
Síbylja er í gangi um það að svo gríðarlega orku getum við Íslendingar látið Evrópu í té, að íslenska orkan gæti gert Ísland að "Bahrain norðurins."
Hið rétta er að öll virkjanleg orka Íslands annar ekki nema langt innan við 1% af orkuþörf Evrópu.
Kvikmyndagerð og hvers kyns listastarfsemi er talin baggi á þjóðinni og þeir sem hana stunda "Lattelepjandi afætur í 101 Reykjavík". Þess vegna liggi beinast við að þrengja að henni, en í staðinn að ítreka einróma stuðning ríkisstjórnarinnar við álver í Helguvík.
Því má búast við að áskorun þekktra erlendra kvikmyndagerðarmanna muni verða eins og að stökkva vatni á gæs og talin merki um óæskilega íhlutun útlendinga um íslensk málefni.
Á þeim tíma sem allir Danir voru stimplaðir óvinir Íslands var það danskur maður sem var brautryðjandi um það að bjarga íslenskri tungu. Og það var breskur maður sem stóð fyrir björgun íslenska hundsins.
En alhæfingin um að allt vont komi frá útlöndum hentar því best að viðhalda þeirri forpokun og fáfræði, sem eru einhver bestu vopn sem skammgróðapungar sérhagsmuna hafa í hendi.
![]() |
Skora á ríkisstjórn Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)