Færsluflokkur: Bloggar

"Eitthvað annað" færir sig til.

Það eru ekki mörg ár síðan þeir, sem telja stóriðju og sjávarútveg einu gildandi atvinnugreinarnar hér á landi töluðu í háðstóni um "eitthvað annað" út í loftið sem ég og skoðanasystkin mín værum að tala um.

Eitt af því sem ég reyndi að sýna fram á var það að í ferðaþjónustunni væru ótal ónotaðir og viðráðanlegir möguleikar á öllum árstímum til þess að íslensk náttúra gæti gefið af sér stórauknar tekjur í stað þess að rústa stórum svæðum óafturkræft vegna stóriðjunnar.

Nú ber svo við að þetta, sem var í spotti kallað "eitthvað annað" er að verða að helsti burðarás atvinnulífsins svo að stóriðjan og sjávarútvegurinn eru í staðinn að verða "eitthvað annað" ef menn halda sig við hið gamla mat á gildi atvinnugreina.

Það eru stóriðjan og sjávarútvegurinn auðvitað ekki, ekki frekar en "eitthvað annað" var á sínum tíma.

 


mbl.is „Stórtíðindi fyrir efnahagslífið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Nýjar og ferskar hugmyndir".

Upplýst hefur verið að stærstu útgerðarfyrirtæki landsins borgi örfáa milljarða í auðlindagjald en hafi grætt 28 milljarða. "Nýjar  og ferskar hugmyndir" sem lofað var fyrir kosningar, birtust strax í framkvæmd þegar 10 milljarðar voru teknar af ríkissjóði til að þessi gróði yrði sem minnst snertanlegur.

Fyrir liggur að auðlegðarskattur upp á 9 milljarða verði lagður niður í þágu innan við 1% af heimilum landsins.  

Fyrsta verkið á fyrsta vinnudegi iðnaðarráðherra var að slá álveri í Helguvík föstu, þótt orku og fé vanti, orkan verði fengin með rányrkju að stórum hluta og selja verði hana á gjafverði.

Eitthvað rámar mig í að svipaðar hugmyndir hafi verið hér á kreiki áratugum saman en samt skulu þær heita nýjar og ferskar.

Nú er farið að síast út hvar taka á peninga til að byrja að fylla upp í þetta tæplega 20 milljarða gat sem myndast vegna hinna nýju og fersku hugmynda.

Fyrstu fersku og nýju hugmyndirnar virðast eiga að vera þær að höggva næstum helminginn af framlagi til kvikmyndagerðar, en sá iðnaður hefur blómstrað undanfarin ár með innstreymi milljarða af erlendum gjaldeyri vegna gerðar erlendra kvikmynda hér á landi með þekktustu leikurum heims þar sem Íslendingar hafa lagt mikið til í formi þjónustu af öllu tagi. Reiknað hefur verið út að ábatinn af þessu sé miklu meiri en framlagið.  

Þá er ótalinn óbeinn ábati, því að frægð Íslands og íslenskarar náttúru í gegnum þetta skilar líka fjölgandi ferðamönnum til landsins, en ímynd þess og hróður hefur skilað sér í gegnum þá athygli sem kvikmyndagerðin hefur skapað.

Á sínum tíma var áratugatregða gegn því að þessi leið til atvinnusköpunar yrði farin en í þess stað öll áherslan lögð á stóriðju og hráefnisöflun með tilheyrandi gróðasöfnun á fárra hendur.

Nú heita þetta  "nýjar og ferskar hugmyndir" og við því er gleypt.  

 


mbl.is Skorið niður til kvikmynda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öskubakki í boði Himmlers.

Rúbínhringur með merki hakakross, sem áður var í eigu Adolfs Hitlers, er hugsanlega 16 milljón króna virði ef marka má frétt af væntanlegu uppboði á honum.  IMG_0533 En í eigu minni er þó gripur sem vekur ekki minni hrylling en þessi hringur Hitlers.

Það er stór, forláta öskubakki með hauskúpu og krosslögðum leggjum, sem gerður var af Íslendingi sem fór í boði Heinrichs Himmlers, foringja hinna illræmdu SS-sveita, til Dachau í Þýskalandi 1938 til að nema þar þau fræði, sem tengjast höggmyndasmíði og leirkeragerð, en Himmler var ástríðufullur áhugamaður um þessa list og tengingu hennar við germanska hámenningu.

Hauskúpan og krosslögðu leggirnir voru merki SS-sveitanna inni í áletruðum borða, sem ekki er á öskubakkanum, enda var hann gerður 1948 og því glannalegt að ganga alla leið þá að stríði nýloknu.  

Íslendingarnir voru tveir, sem dvöldu í boði Himmlers í Dachau, en þar voru þá illræmdustu fangabúðir í Þýskalandi og raunar í heiminum öllum og þurfti ekki mikið ímyndunarafl til að sjá þessa landa sína fyrir sér við iðn sína en handan við múrinn gyðingar í hlekkjum við að höggva handa þeim grjót.

Annar Íslendinganna var Baldur Ásgeirsson, sem var besti heimilisvinur foreldra mínna og sat oft á kvöldin að tafli með föður mínum. Þeir reyktu pípur og vindla við jasstónlist af hljómplötum, sem ég spilaði fyrir þá sem sjö ára plötusnúður þegar Baldur gaf pabba bakkann í afmælisgjöf.

Baldur var sérstakt ljúfmenni og heiðursmaður á alla lund og ákaflega gaman að taka þátt í gamninu með þeim á kvöldin.

Öskubakkinn var gerður í þeim sérkennilega hálfkæringi og gálgahúmor sem stundum blossaði upp á þessum fjörlegu kvöldum. Mér finnst hann samt nógu hryllilegur til þess að taka hann niður um hver jól í stað þess að láta hann standa beint fyrir framan augun á jólagestunum.

Heinrich Himmler var líkast til enn meira skrímsli í mannsmynd en sjálfur Hitler.

Ég reikna með því að hafa hann með mér í Landnámssetrið í Borgarnesi í lok mánaðarins þegar ég hef frásögn mína þar af fólki og fyrirbærum á lífsleið minni þegar ég byrja á að segja frá því helsta sem fyrir mig hefur borið í stað þess að skrifa um það.

 

 


mbl.is Hringur í eigu Hitlers á uppboð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig beygist orðið "grátur"?

Nafnorðið grátur beygist svona: Grátur - grát - gráti - gráts. Nú ber svo við að í fyrirsögn á frétt á mbl.is er eignarfallið sagt vera "gráturs." Samkvæmt því er ekki grátlegt heldur gráturslegt að sjá þetta.  
mbl.is „Þið þurfið að greiða aukagjald“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frændþjóðir fylgjast að.

Margt er líkt með skyldum segir máltækið og það virðist eiga við á þessu ári hjá frændþjóðunum Norðmönnum og Íslendingum. Báðar ganga til kosninga og í báðum löndum er þrá eftir "nýjum hugmyndum" og "nýjum vinnubrögðum" gagnvart afleiðingum efnahagskreppu undanfarinna ára virðist ráða miklu hjá báðum þjóðum.

Sumar "fersku" hugmyndirnar sýnast svipaðar í báðum löndum. Í Noregi hefur það borið á góma að draga í land með þá viðleitni til jafnréttis kynslóðanna sem felst í oliusjóðnum, þ. e. að ganga í þann sjóð til að fjármagna verkefni núverandi kynslóðar.  Að vísu hefur verið dregið nokkuð í land með þetta en þessi "ferska" hugmynd hefur þó komið upp á yfirborðið.

Hér á landi er hugmyndin um að stunda rányrkju hins vegar alls ráðandi varðandi botnnýtingu jarðvarmans sem meðal annars sést í pressu á Eldvarpavirkjun, sem flýtir tæmingu jarðvarmahólfsins undir Svartsengi og Eldvörpum úr 50 árum niður fyrir 40.

Fyrsta verk iðnaðarráðherra á fyrsta starfsdegi sínum var að slá álveri í Helguvík föstu, og því er fylgt eftir með reglulegu millibili síðan. Gildir þá einu þótt ekki finnist orka í það og ekki fáist viðunandi verð fyrir hana. Af því að smá hlé varð á stóriðjustefnunni þykir hún nú vera "fersk og ný" hugmynd.

"Engar nefndir, bara efndir" var líka fersk og ný hugmynd varðandi skuldavanda heimilanna. Ekki þurfti nema nokkrar vikur til þess að það gufaði upp og snerist við. Í vor var talað um 100 fyrstu daga ríkisstjórnarinnar en nú er talað um næstu 100 daga hennar. Sjáum til. Kannski Eyjólfur hressist.

Ekki hef ég séð neitt um það að Norðmenn telji auðlegðarskatt sinn hafa verið ómögulegan en hjá okkur á að leggja hann af og taka með því 9 milljarða skatttekjur af ríkissjóði. Þennan skatt áttu þúsund ríkustu fjölskyldur landins að borga en með einfaldri deilingu má sjá að meðaleign hverrar er um 900 milljónir.

Og nú sjást þær tölur að af 28 milljarða hagnaði stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna borgi þau 5 milljarða. Það er nú öll skattpiningin hjá þeim.

Vandinn er hins vegar sá að minni fyrirtækiin eiga erfitt með að borga og til þess að dæmið gangi upp í heild þyrfti að vera þrepaskiptur skattur sem tryggði afkomu þeirra.

Það er þekkt fyrirbæri hjá lýðræðisþjóðum að kjósendum finnist grasið grænna hinum megin við girðinguna hvað varðar ríkisstjórnir.

Sveiflur verða oft á svipuðum fresti og hjá Norðmönnum í þetta sinn, 8 árum. Þannig er það oft í Bandaríkjunum.

Meginástæðan er sú að "stjórnmál eru list hins mögulega" en jafnframt er geta stjórnmálamanna til hins mögulega afar takmörkuð. Þess vegna verða kjósendur óánægðir með reglulegu millibili.

Síðasta ríkisstjórn hér á landi stóð ígildi  sótugrar rústabjörgunar eða skítamoksturs. Það eru ekki spennandi störf og varð að einbeita sér að þeim og vegna sífellra leiðinda af þessu streði mistókst síðustu ríkisstjórn að yfirvinna leiðinding síðastliðið vor með "ferskum og nýjum hugmyndum" í formi loforða um gull og græna skóga.

Nógu langur tími rústabjörgunar og skítamoksturs var liðinn til þess að stefna þeirra flokka sem stóðu að aðdraganda Hrunsins (sem síðar hefur komið í ljós að var orðið óhjákvæmilegt þegar haustið 2006) til þess að hægt var að tromma upp með svipaða stefnu á ný. Í vor voru ártölin 2003 og 2007 allt í einu komin upp á ný.  

 

 


mbl.is Mið- og hægriflokkarnir með 54,3%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulagsvöld í ógöngum.

Skipulagsvald á Íslandi er í ógöngum ef einstök sveitarfélög eru alltaf og algerlega einráð um skipulagsatriði sem skipta landsmenn eða jafnvel heimsbyggðina máli.

Þessu er ekki skipað svona skilyrðislaust í stjórnarskrá og því eru takmörk fyrir því hve stórfelldir hagsmunir geti beygt sig fyrir ofríki "heimamanna."

Dæmi um þetta er það að vegna hins algera skipulagsvalds Blönduósbæjar verði allir, sem eiga leið í gegnum sveitarfélagið að aka 14 kílómetrum lengri leið en ella og borga aukakostnað sem nemur um 1500 krónum báðar leiðir, ef miðað er við hlaupandi aksturskostnað, en 3000 krónur ef miðað er við útreikninga FÍB og taxta fyrir akstur opinberra starfsmanna.

Og sams konar er í gildi varðandi það ef þeir, sem vilja fara flugleiðis fram og til baka milli Reykjavíkur og landsbyggðarinnar, verða neyddir til að fara 170 kílómetrum lengri ferðaleið samanlagt en ella.

Þess vegna er það sjálfsagt mál að heildarhagsmunir verði látnir ráða þegar gengið er svona langt af völdum staðbundinna hagsmuna.  Og það er hægt að gera með lagasetningu, sem er fyllilega í samræmi við stjórnarskrána.


mbl.is Ríkið fái skipulagsvaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staða Pútíns vænkast.

Pútín Rússlandsforseti hefur að vanda tekið afstöðu með Assad Sýrlandsforseta á alþjóðavettvangi.

Mörgum hefur fundist þessi afstaða Rússa einstrengingsleg og of ósveigjanleg, en Pútín brá þó út af nú á dögunum og kvaðst geta stutt aðgerðir gegn Sýrlandsher, ef óyggjandi sannanir fengjust um að hann hefði beitt eiturefnavopnum.

Pútín tók svo sem ekki mikla áhættu um það að þurfa að lúffa fyrir Bandaríkjamönnum því að það hlýtur að teljast ósennilegt að "óyggjandi sannanir" fáist fyrir því hver beitt efnavopnunum, jafnvel þótt sannist að efnavopnum hafi verið beitt.

Komið hefur fram að uppreisnarmenn hefðu haft tæknilega möguleika á því að gera það sem örþrifaráð í erfiðri stöðu og koma með því Bandaríkjamönnum til að skerast í leikinn.

Bent er á að staða Sýrlandshers hafi verið að batna að undanförnu og þess vegna ólíklegt að hann færi að hætta á árás Kananna með beitingu efnavopna einmitt núna.

Á hinn bóginn drógu ráðamenn hersins það í nokkra daga að veita eftirlitsmönnum leyfi til að fara á svæðið, þar sem efnavopnunum á að hafa verið beitt og það lítur ekki vel út.

En síðan verður að líta á það að það er kannski ekkert áhlaupaverk að tryggja öryggi eftirlitsmannanna á stríðsátakasvæði, enda skaut leyniskytta á þá.

Nú kemur í ljós að tæpt er að Obama fái bandaríska þingið með sér í árásarleiðangurinn, breskir þingmenn eru á móti því og 2/3 Frakka, auk þess sem Þjóðverjar og fleiri þjóðir vilja ekkert gera ef Öryggisráðið gerir ekki neitt, en þar er Pútín með neitunarvald.

Pútín hefur greinilega haldið vel á sínu spilum og ráðið rétt í stöðuna.

Nýjar upplýsingar um það hvernig Bandaríkjamenn vissu á sínum tíma árum saman um það þegar Írakar notuðu efnavopn gegn Írönum og Kúrdum og lét sér það vel líka, - studdu meira að segja Íraka, sýna tvöfeldni og hræsni stórveldis þegar hagsmunir þess eru í húfi.

Það á svo sem ekki að skipta máli nú heldur einbeita sér að ástandinu eins og það er.


mbl.is 2/3 Frakka á móti árás á Sýrland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ævintýri enn gerast."

Mér dettur ekkert annað í hug en þessi orð úr einhverjum annars lélegasta texta sem ég hef gert. Á móti liði eins og því svissneska sem er nýbúið að leggja sjálfa Brasilíumenn og hefur ekki fengið nema eitt mark á sig í undanförnum leikjum, á það ekki að vera mögulegt að snúa stöðunni 4:1 í 4:4.

En það gerðist samt !


mbl.is Svisslendingar í sárum: Vandræðalegt!
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þúsund manna lífvörður.

Líklega hafa aldrei verið gerð eins mörg áform um að drepa einn mann og Hitler nema ef vera skyldi Fidel Castro. Hitler slapp þó alltaf þótt hann neyddist til að taka sitt eigið líf að lokum og Kastró er enn á lífi, þótt hann sé orðinn það aldraður og farinn að kröftum að líklega eru ekki lengur nein áform um að drepa hann.

Í lífverði Hitlers voru um þúsund manns, enda var stjórnskipulagið þannig, að það var tvískipt: Annars vegar Foringinn og hins vegar afgangurinn, ríkið eða þjóðin. Af þessum lífverði og valdabaráttunni í kringum hann er mikil saga sem tæki langan tíma að segja.

Hitler sýndi mikla kænsku varðandi það hvernig hann atti þeim saman, sem annars hefðu getað sameinast um að rísa gegn honum undir gömlu spekinni um að deila og drottna.

Fjölmargar samsærissögur voru um endalok Hitlers, hvort hann hefði raunverulega skotið sig og verið brenndur eða hvort hann hefði komist undan og lengur eða skemur lengi eftir það.

En of margir sem voru þá innsta hring ber saman um þá atburðarás sem nú er viðtekin sem hið rétta.

Öllum vitnisburðum um Hitler í daglegu starfi ber saman um mikla kurteisi hans og persónutöfra, svona alla jafna, svo ótrúlega sem það kann að hljóma.

Einn þessara vitna, Gunter Rall, kom til Íslands, en hann hitti Hitler tvívegis á löngum fundum, og greindi frá þessu hér.

Hitler var lævís og beitti þessum töfrum sínum óspart á Neville Chamberlain og Daladier forsætisráðherra Breta og Frakka á fundinum illræmda í Munchen 1938 þar sem í raun var endanlega gengið frá forsendum fyrir heimsstyrjöld í stað þess að tryggja "frið um okkar daga" eins og Chamberlain sagði við heimkomuna til Bretlands.

Fræg "æðisköst" Hitlers eru að vísu staðreynd, staðfest með vitnisburðum. En þau voru það fá og í svo lokuðum hópum að kurteisin, ljúfmennisviðmótið og sjarminn eru þau atriði sem flestir muna, sem hittu Hitler eða unnu með honum.

Þessi atriði eru hins vegar ytra borð og skipta auðvitað engu máli. Útrýmingar og kúgunarhugmyndir Hitlers voru hryllilegar og hugarfarið að baki þeim bar hinu innra skrímsli hans vitni.

 


mbl.is Síðasti lífvörður Hitlers látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á hliðstæðar fréttir fyrir 110 árum.

Í byrjun síðustu aldar þegar bílar voru að ryðja sér til rúms þóttu það fréttir ef margir slíkir sæust í akstri saman. Á þeim árum urðu smám saman til ýmsar uppákomur í þessum dúr svo sem hópakstrar á milli staða og keppni tengd þeim.

Þetta var undanfari þeirrar bílaaldar sem hófst fyrir alvöru fyrir einni öld þegar Ford T kom Bandaríkjamönnum á hjólin.

Nú er spurningin hvort hópakstur rafbíla í Noregi marki svipað upphaf, og hvort sú þróun muni gerast hraðar eða hægar en þróunin fyrir öld, sem í sumum heimshlutum tók heila öld.


mbl.is 260½ rafbíll í hópakstri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband