Færsluflokkur: Bloggar

Mesti "skítabísness" í sögu þjóðarinnar?

Græðgisbólan fram að verðskulduðu Hruni 2008 ætti að vera öllum kunn og víti til varnaðar. En nú virðist önnur ekki minni vera að blása upp í sambandi við fjölgun erlendrar ferðamanna, sem er reyndar alltof hröð. Sígandi lukka er best.

Ég hef aldrei heyrt eins margar magnaðar sögur af græðgi og á ferðum mínum um landið í  sumar, og í þetta sinn virðast viðkomandi Íslendingar ætla að græða sem allra, allra mest og helst í gær.

Það á að sópa inn tekjum af ferðafólkinu en helst ekki að láta neitt á móti. Þetta er í hrópandi mótsögn við allt sem ég hef séð á ferðum mínum um 28 þjóðgarða erlendis.

Einkum eru svakalegar sögurnar af kamar- og klósettlausum stöðum, þar sem fólkinu er mokað inn og lendir síðan í aðstæðum, sem gefa heitinu "saurlifnaður" nýja vídd.

Það stefnir hraðbyri í að óbreyttu, að hér sé að verða til mesti "skítabísness" í sögu þjóðarinnar, bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.

Og afleiðingin kannski sú sama og í Hruninu, að skíttapa á öllu saman á endanum?  


Mér fannst "töff" að hjóla.

Ég hjólaði eins og vitleysingur þangað til ég varð 19 ára og hljóp yfir skellinöðruæviskeiðið. Mér fannst sjálfum "töff" að hjóla og kærði mig kollóttan um það þótt öðrum fyndist það ekki.

Mamma var hrædd um að ég gæti brotið framhjólsgaffalinn þegar ég fór í allt að 150 kílómetra ferðir á hjólinu á holóttum malarvegum þess tíma, enda hjólaði ég eins og ég væri í Tour de France, og fór til dæmis á sjö klukkustundum frá Reykjavík upp í Norðurárdal.

En ég keypti mér þá sérstakan styrktan gaffal sem fjöðruðu, höfðu höggdeyfa. Að sjálsögðu keypti ég mér þrjá gíra, en á þeim tíma voru hjól ekki með gíra.

Hjólið bauð upp á endalausa möguleika á því að fara í hjólaþrautir, standa kyrr og láta það hoppa, "teika" vörubíla með annarri hendinni og sleppa jafnvel hinni af stýrinu (vona að barnabörnin lesi þetta ekki) og ég meira að segja æfði mig á því að stökkva af hjólinu á ferð, svo að hægt yrði að grípa til þess ráðs ef keðjan slitnaði eða hjólið yrði bremsulaust.

Ég stökk þá af hjólinu og æfði þetta stökk þanni, að ég sleppti vinstri hendinni sekúndubroti síðar en þeirri hægri af stýrinu, þannig að ég kippti í hjólið svo það kollsteypist í stað þess að halda áfram!

1. apríl í 6. bekk þorði ég ekki að koma á NSU-Prinz örbílnum mínum í skólann af ótta við hrekkjabrögð skólafélaganna, heldur kom á hjólinu.

Var ég þá manaður til að sýna hvernig ég stykki af hjólinu. Í löngu frímínútunum stilltu áhorfendur sér upp fyrir framan skólann en ég brunaði niður túnið og stökk af hjólinu.

En því miður klikkaði trikkið með að kollsteypa því svo það hélt áfram niður túnið og fór fram af brúninni, en fyrir neðan hana sat kona á bekk að bíða eftir strætó og hjólið stefndi beint á hausinn á henni !

Eitt skelfilegt augnablik hélt ég að ég myndi valda hræðilegu slysi, en þá vildi svo vel til að strætó var að koma og konan beygði sig fram til að taka upp skjóðu sína áður en hún færi inn í vagninn.

Hjólið lenti á baki bekksins, sem hún hafði setið á, og framgjörðin fór í keng, en konan slapp.

Varð að vísu hverft við hávaðann og leit við, steinhissa á því að sjá ónýtt reiðhjól liggja aftan við bekkinn, þar sem það hafði fallið niður.

Hjólið gerði margfalt gagn, hélt manni í formi enda notaði ég allar ferðir á því eins og ég væri í keppni.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Þykir ekki nógu „töff“ að hjóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt ber að sama brunni.

Um daginn var sú mótbára borin fram gegn því að loftslag sé að hlýna, að enda þótt stór vök hafi sést í hafísnum á Norðurpólnum, sé hún ekki tákn um hlýnun og minnkun íss, vegna þess að íslenskur pólfari hafi dottið niður í vök á þeim slóðum fyrir aldamót! 

Á flugleið minni frá Skaftafelli yfir á Sauðárflugvöll á Brúaröræfum í gær brá mér í brún að sjá Skeiðarárjökul. Þar er að myndast lón við jökulröndina, sem ég tók mynd af, en vafasamt er að ég komi henni núna á bloggsíðuna, þótt ég sé að blogga þetta hér á öræfunum, af því að allar netathafnir hér virðst ganga miklu hægar en í borginni.

Oddur Sigurðsson upplýsti nýlega um það í útvarpsviðtali að minnkun jöklanna gegni miklu hraðar en menn hefðu átt von á.

Á skilti hér fyrir sunnan Sauðárflugvöll sendur að 8 kílómetrar séu þaðan að Brúarjökli. Ætli það sé ekki komið upp í minnst 16 kílómetra.

Það liggur við þegar maður er á vappi í kringum jöklana að maður sjái þá minnka, svo hratt gerist þetta.

Ef þeir verða horfnir innan 200 ára þarf likllega útskýringar til þess að fólk þess tíma skilji hvað Laxness var að tala um með hinum fræga texta sínum um fegurðina, sem ríkir ein ofar hverri kröfu í nálægð þessara voldugu náttúrufyrirbæra.

Og einnig að reyna að láta nemendur í skólum skilja nafnið Ísland með miklum útskýringum.  


mbl.is Rekísinn heldur áfram að þynnast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...ógna þau vindaský..."

Í ljóðinu um hinstu för Eggerts Ólafssonar talar "gamall þulur" um vindaský, sem ógni. Það má búast við að á norðaustanverðu landinu muni slík ský sjást í fyrramálið, og ég ætlaði að láta fylgja með mynd af einu slíku, sem ég tók á Sauðárflugvelli í dag, en skilyrðin til myndasendinga inn á bloggið virðast vera léleg hér fyrir austan.

Þegar svipað óveður og nú gekk yfir landið sumarið 2005 eða 2006 myndaðist stærsta "rotor"ský sem ég hef séð yfir Kverkfjöllum. Fjöllin eru 1920 metra há, en skýið var að minnsta kosti tvisvar til þrisvar sinnum hærra.

Það leit þannig út, að engu var líkara en að staflað hefði verið upp risavöxnum kringlóttum pönnukökum, eða hvítum bíldekkjum.

Ég vakti þá um nótt yfir flugvél á Sauðárflugvelli, sem ég hafði bundið niður eins vel og ég gat og líka grafið hjólin niður, nefhjólið þó mest. Skýjastaflinn kringlótti og ógurlegi fór þá af stað og stefndi hraðbyri í áttina að flugvellinum, en vegalengdin er um 35 kílómetrar.

Ég sá í hendi mér að ef hann færi yfir völlinn myndu ógnarsterkir vindar blása úr öllum áttum og að þá gæti orðið úti um flugvélina.

En um 7-8 kílómetrum fyrir suðvestan völlinn var eins og hann stöðvaðist og leystist upp.

Búast má við svipuðu fyrirbæri í fyrramálið og að þá muni reyna á hvort FRÚin er nógu vel bundin niður. Vonandi nær hvirfilhringiðan, sem myndast yfir Kverkfjöllum ekki að komast lengra en síðast.  


Nú tek ég undir með Jóni Gunnarssyni.

Við Jón Gunnarsson erum ekki sammála um alla hluti en ég er 100% sammála því, sem hann segir um Reykjavíkurflugvöll. Völlurinn hefur þá sérstöðu að hann er jafn mikilvægur og allir hinir innanlandsflugvellirnir til samans, af því að hann er önnur endastöð alls innanlandsflugs.

Ísland er að vetrarlagi einhver mesti rokrass í heimi og því er fráleitt að gera völlinn að einnar brautar flugvelli 2016. Ef talan 92% nýting er rétt, sem varpað hefur verið fram um nýtingarhlutfall vallarins með einni braut, jafngildir það því að ófært sé til flugs á völlinn  sem samsvarar 30 dögum á ári.

Það er ótrúlegt ábyrgðarleysi að ætla sér að fara svona með völlinn, eins og til stendur 2016 þegar það liggur ljóst fyrir að enginn annar flugvöllur er í sjónmáli í staðinn nema Keflavíkurflugvöllur.

Allt fram til þessa dags hafa framfarir í samgöngum á Íslandi byggst á því að gera þær hraðari, öruggari og ódýrari.

Þannig styttu Hvalfjarðargöng leiðina fram og til baka til höfuðborgarinnar að vestan og norðan um alls 82 kílómetra. Það hafa verið kallaðar framfarir til þess.

Í Svíþjóð fékkst sátt í áratuga deilu um Brommaflugvöll, sem er inni í borginni. Hún fólst í því að fastsetja flugvöllinn í 30 ár og skoða stöðuna að nýju þá. 30 ár eru lágmark til þess að hægt sé að nota völlinn og byggja upp á honum og við hann.

Ég hef bent á möguleika á að lengja a-v-brautina og gera hana að aðalbraut vallarins og gera stutta, nýja n-s-braut svo að völlurinn verði úr lofti líkur stafnum T í stað stafsins X eins og nú er.

Það eru engir peningar til að gera þetta eins og er, og þess vegna er eina leiðin að "frysta" völlinn í 30 ár til 2044, því að íbúðabyggð, sem nú á að setja niður þar sem na-sv brautin stutta er, myndi eyðileggja möguleikanna á T-laga flugvelli.

1940 var ákveðið að gera tveggja brauta innanlangsflugvöll þar sem núverandi völlur er.

2001 var naumur meirihluti með því í kosningum, sem ekki voru bindandi, að leggja völlinn niður.

Síðan eru liðin 12 ár. Eina lausnin er "frysting" í 30 ár, eða til ársins 2044. Þá setjast menn niður að nýju og skoða stöðuna.

Niðurlagning Reykjavíkurflugvallar er tvöfalt stærra risaskref aftur á bak en Hvalfjarðargöng voru áfram 1998. Ferðaleið þeirra sem ætla að fljúga fram og til baka myndi lengjast um 170 kílómetra.

Það er glæsilegt heimsmet í afturför, því að Keflavíkurflugvöllur yrði eini innanlandsflugvöllur heims, sem staðsettur yrði úti í horni landsins, eins langt frá öllum byggðum landsins og mögulegt er.


mbl.is Lokaorrustan um flugvöllinn hafin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki gleyma stórfossunum !

Hjá Landsvirkjun flagga menn því að hægt verði að ná "sátt" um það að stórfossarnir, sem til stendur að taka afl af fyrir Norðlingaölduveitu, verði látnir renna á einhverjum tímum hvern dag einhverjar vikur síðsumars. Vitnað er í aldar gamla virkjun á tæpum helmingi Niagarafossanna sem var gerð á allt öðrum tímum en nú.

Rétt er að geta þess að nú þegar er búið að taka 40% af vatni fossanna í Efri-Þjórsá og allt fram yfir það er fram yfir Niagara-módelið.  

Um 1950 eða fyrir 63 árum varð sú niðurstaða vestra að vatnsmagnið í fossunum yrði aldrei minna en 1400 rúmmetrar á sekúndu sem er um 10 sinnum meira rennsli er er í fossum Efri-Þjórsár eins og er.

Það er alveg ljóst að allar hugmyndir vestra um að láta Niagarafossana vera þurra mestallt árið yrðu hlegnar út af borðinu og á sama tíma sem rætt er um nauðsyn þess að dreifa erlendum ferðamönnum betur um landið og dreifa þeim líka yfir allt árið, er uppþurrkun þriggja stórra fossa í Efrí-Þjórsá fráleit.


mbl.is Vilja friðlýsingu Þjórsárvera strax
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Karlmannatíska í stáli.

Felgutískan er eitt af dæmunum um þá milljarða dollara sóun í bílaiðnaðinum sem fylgir því að búa til fráleita útlitstísku.

Allt fram undir 1930 voru bílar á stórum felgum og mjóum dekkjum og þótti flott að geta státað af 30 tommum. Síðan fóru hjólin minnkandi jafnt og þétt, í býrjun til þess að setja belgmeiri dekk undir til aukinna þæginda og mýktar og til að spara rýmið sem hjólin tóku, en smám saman einnig til þess elta felguminnkunartísku sem smám saman varð fáránleg.

Stæðrin á felgunum náðu lágmarki 1958 þegar stóru amerískku kaggarnir voru komnir á 14 tommu felgur og þótti alveg sérstaklega flott. Því var logið að með minni felgum væri hægt að gera bílana lægri svo að þeir lægju betur á veginum og yrðu öruggari í akstri, og fólk keypti þessa vitleysu.

Litlu bílarnir fóru niður í 12-13 tommu felgur og hámarki náði dellan með Mini 59 á sínum 10 tommu felgum, sem var alger óþarfi til rýmissparnaðar, því að síðar voru felgunar stækkaðar í 12 tommur en dekkin um leið gerð flatari þannig að heildar ummál hjólanna hélst óbreytt !  

Upp úr 1990 fóru felgurnar að stækka á nýjan leik og í fyrstu var það alveg réttlætanlegt en smám saman hefur þessi tíska endalausrar stækkunar orðið að hreinum fíflagangi.

Nú er enginn maður með mönnum nema á minnst 22ja tommu felgum og helst að hjólin líti svipað út eins og þau voru fyrir 100 árum, eða jafnvel frá öld hestvagnanna fyrir 130 árum !

Hlálegast er að sjá rándýra, stóra torfærubíla á borð við Hummer, Porsche og Benz með öllum hugsanlegum torfærugræjum eins og sjálfvirkum læsingum á drifum, háu og lágu drifi o. s. frv. en á svo stórum felgum, að dekkin eru næfurþunnar ræmur á þeim og bílarnir komast ekki út af malbikinu nema að lenda í vandræðum!

Í ofanálag er oft troðið undir sílsana stigbrettum sem liggja alveg niðri við jörð og rekast niður ef ekið er um ójafnt land.

Ég ætlaði að stíga á slikt stigbretti á jepplingnum sem Lára ekur í þáttum "Ferðastiklur" en þá glumdu við varnaraðrhróp þess efnis að það mætti alls ekki stíga á stigbrettið, það væri bara til skrauts og til að gera jepplinginn "töff og kúl !"

Of seint hrópað, það kom beygla í stigbrettið ! Áður hafði það reyndar rekist niður í ójöfnu þegar ekið var að Uppsölum í Selárdal og beyglast !

 


mbl.is Meira „donk“, stærri felgur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bylting í myndatökum.

Þróunin í notkun lítilla kvikmyndatökuvéla og fjarstýrðra flugvéla og þyrlna hefur verið ævintýraleg undanfarin þrjú ár.

Ég kynntist þessu fyrst í Eyjafjallajökulsgosinu 2010 þegar Dani einn notaði örlitla fjarstýrða þyrlu með enn minni tökuvél til að taka magnaða myndir sem hann sýndi mér.

Síðan þá hef ég flogið með erlendum kvikmyndagerðarmönnum og tekið þátt í myndatökum á jörðu niðrir þar sem pínumyndavélarnar, sem oftast eru kallaðar eftir tegundarnafninu GoPro, eru notaðar óspart.

Stóraukin upplausn/myndgæði gera það kleift að ná aldeildis mögnuðum myndum úr myndavélum, sem eru með litlum linsum, linsum sem að vísu draga úr gæðunum en þó ekki svo mikið að það komi umtalsvert að sök.

Nú þegar hefur frést af slysum af völdum fjarstýrðra flygilda erlendis og af myndatökuflugi yfir grandalaust fólk og ljóst að álitamál geta komið upp varðandi notkun þessarar nýju tækni.

Í okkar dreifbýla landi er sennilega best að taka öllu með ró og yfirvegun, fylgjast með því sem er að gerast í þessum málum erlendis og draga ályktanir af því í samræmi við íslenskar aðstæður.


mbl.is Fyrirspurnir um myndavélar á flugi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðvitað er orðið "ligeglad" danskt.

Þegar ég vann með Dönum í danska sjónvarpinu vegna Ólympíuleikanna 1972 fannst mér áberandi hvað þeir tóku yfirleitt lífinu af meira jafnaðargeði og rólyndi en við Íslendingar erum vanir.

Þeir unnu fyrir okkur af dugnaði og voru ánægðir ef þeir fengu sinn "öllara". Voru ekkert að sækjast eftir aukavinnu heldur virtist aðalatriðið að vera "ligeglad" og afslappaður og fara heim í faðm fjölskyldunnar í vinnulok og njóta þess með sínu fólki að vera til.

Ekkert að æsa sig yfir hlutunum, heldur viðhalda sínum þægilega danska húmor og hamingju.

Danir eiga engar orkuindir eða auðlindir almennt heldur eru allir að vinna við "eitthvað annað" og komast samt vel af. Það eina sem þeir eiga er mannauðurinn og þeir nota hann vel.

Auðvitað er orðið "ligeglad" danskt orð og þjóðin sú hamingjusamasta í heimi.   


mbl.is Ísland í níunda sæti hamingjulista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipuð jafnvægislist og hjá Bretum gagnvart Evrópu?

Það er kunn sagnfræðileg staðreynd að öldum saman byggðist utanríkisstefna Breta á því að viðhalda jafnvægi á meginlandi Evrópu. Altént lögðust þeir yfirleitt á sveif með því meginlandsstórveldi sem var minni máttar og risu gegn stórveldi sem var líklegt til að ná allsherjar yfirráðum.

Þeir voru gegn Frökkum allt þangað til Þjóðverjar urðu Frökkum yfirsterkari. Þá fóru þeir að gera bandalag við Frakka gegn Þjóðverjum og síðar við alla tiltæka gegn Sovétríkjunum.

Hugsanlega er skásta ástandið, sem Bandaríkjamenn geta hugsað sér í Miðausturlöndum, að ekkert eitt ríki verði þar of voldugt. Það heitir á fínu máli að viðhalda "friði og jafnvægi."

Þegar Írakar fóru í stríð við Írana og Íranir virtust líklegir til að hafa betur, studdu Kanarnir Saddam Hussein með öllum tiltækum ráðum. Þá var ekki allt upp í loft vegna þess að hann beitti efnavopnum, bæði gegn Írönum og Kúrdum.

Fyrir Bandaríkjamenn er hvorugur kosturinn góður, að Assad sigri í borgarastyrjöldinni eða stjórnarandstæðingar með öfga- og ofstopamenn innanborðs.

Skásti kosturinn eftir ísköldu mati er líklega sá að hvorugur hafi betur. Sagt er að stjórnarherinn hafi verið að sækja á að undanförnu og ef koma á í veg fyrir að hann gangi milli bols og höfuðs á stjórnarandstæðingum er upplagt að dæla hæfilega miklu af flugskeytum á stjórnarherinn til að jafna stöðuna.

Þetta er nefnilega hægt að lesa út úr þeim orðum John Kerrys utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að því fylgi meiri áhætta að gera ekkert en að gera eitthvað.

Með "hóflegum" loftárásum á sýrlenska stjórnarherinn geta Bandaríkin ráðið því hve mikið þeir breyta vígstöðunni til þess að "viðhalda stöðugleika" á svæðinu.


mbl.is Kerry: Meiri áhætta að gera ekkert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband