Færsluflokkur: Bloggar
5.9.2013 | 18:55
Frábært framtak Landverndar.
Því miður átti ég þess ekki kost vegna mikilla anna að vera viðstaddur upphaf verkefnisins "Hálendið - hjarta landsins", sem Landvernd hleypti af stokkunum í dag. En hugur minn og hjarta voru þar.
Í gær var fjallað í sjónvarpsfréttum um þann einlæga "brotavilja" gegn hálendinu að gera svonefnt "mannvirkjabelti" norður yfir Sprengisand með virkjunum vegum og háspennulínum.
Án þess að depla auga var dásamað að geta njörvað hálendið niður í svona belti og verða þremur árum fljótari að því að fara með risaháspennulínu norður um Sprengisand heldur en að fara í gegnum byggð.
Í byggð hefur myndast andstaða við línurnar því að þar á að vaða yfir fólk og byggðir. Því meiri þörf er á andófi á hálendinu þar sem mannvirkjafíklarnir ætla að nýta sér það að aðeins búi þar álfar, tröll og landvættir.
Landsnet sýnir fádæma yfirgang alls staðar og dæmi um það er í fréttum dagsins um ofríki þess gegn Hafnfirðingum.
Um vernd fyrir umturnun hálendisins gildir hróp Bubba: "Þetta er að bresta á!" Og nú verður að taka myndarlega á í andófinu sem aldrei fyrr.
![]() |
Berjast fyrir vernd Þjórsárvera |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
5.9.2013 | 18:44
Varpandi háhýsi þar og hér.
Háhýsi eru heillandi mannvirki og til dæmis afar skemmtilegt að búa ofarlega í háhýsi. Ég sakna til dæmis þess tíma þegar við Helga bjuggum í smáíbúð á 12. hæð í Austurbrún 2. Þegar eigendur íbúðanna drógu um íbúðirnar dró ég íbúð númer 2 á 5. hæð, en maður sem dró íbúð á 12. hæð nr. 5 var lofthræddur og vildi fá íbúð neðar.
Við skiptum því á íbúðum og ég taldi mig mjög heppinn.
Síðar bjuggum við i nokkur ár ofarlega í blokkinni að Sólheimum 23 og nutum útsýnisins þaðan.
En háhýsin hafa ákveðna galla og tengjast þeir flestir því að þeir "varpa" skuggum, geislum, hávaða og jafnvel vindhviðum af sér.
Ekki hefur frést af háhýsi hér á landi sem endurvarpi svo sterklega af sér sól að það geti brætt bíla fyrir neðan eins og gerst hefur í London.
En "Hálfvitinn" við Höfðatorg (þetta nafn af því að hann eyðilagði vitann í Sjómannaskólanum) hefur verið staðinn af því að varpa snörpum vindhviðum af sér og einnig hávaða þegar rok blæs um hann, íbúum í Höfðahverfi til ama.
Ótalinn er stærsti ókostur hárra húsa á Íslandi en það er skuggavarpið. Sól er 15 gráðum lægra á lofti í Reykjavík en í norðanverðri Evrópu og það munar um þennan halla.
Þetta er jafn mikill hallamunur og er á sólarhæð í Reykjavik, annars vegar í september og hins vegar í janúarlok.
Þetta sést vel við götur í Reykjavík, sem liggja frá austri til vesturs, til dæmis við Laugaveg.
Það vekur athygli, að neðarlega við Laugaveg, þar sem nokkur gömul hús voru friðuð endanlega í borgarstjóratíð Ólafs F. Magnússonar, skín sólskin á gangstéttinni á móti, en ekki austan við þau.
Þetta skapar líf og útivist á þessum köflum götunnar. Það er ekki tilviljun að norðurhluti Austurvallar við Vallarstræti er vinsæll staður til að njóta veitinga utanhúss. Það er vegna þess að hinn opni Austurvöllur tryggir að sólskin nái þangað yfir daginn.
Þegar háhýsi eru staðsett þannig að skuggavarpið verður mikið má telja það stærsta ókost þeirra.
Og ef gatan er mjó munar þar um hverja hæð.
![]() |
Bygging sem bræðir bíla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2013 | 12:04
Hálfum metra hærri og 100 kílóum þyngri?
"Stóra strigaskómálið" vekur að vísu ekki athygli mína þegar ég sé myndina af Obama með leiðtogum Norðurlanda heldur það hvernig myndin er tekin.
Það er nefnilega ekki sama hvernig myndir eru teknar. Þegar um er að ræða jafningja getur ljósmyndarinn breytt því með því hvernig hann tekur myndina. Hann getur stækkað einn og minnkað annan að vild eftir því hvernig uppstillingin og fjarlægðin er.
Ef einhverjir halda að þetta sé smáatriði þá er það rangt. Sem dæmi má nefna að þegar tekin eru sjónvarpsviðtöl við fólk hefur það óviðráðanleg sálræn áhrif á áhorfandann hvort sá, sem talað er við, þarf að horfa upp á við þegar hann talar eða horfa niður á við.
Sama hvað fólk heldur, dregur það sálrænt úr trúverðugleika viðmælandans ef hann þarf að horfa upp í myndavélina en eykur trúverðugleika hans að tala "ofan frá" og niður á við.
Þetta lögmál er því miður allt of oft brotið eða ekki haft í huga í sjónvarpsviðtölum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, okkar ungi og vörpulegi forsætisráðherra, er að visu myndarlegur og fríður, en þegar ljósmyndarinn setur hann nær myndavélinni en aðra, verður hann næstum því afkáralega stór á ljósmyndinni, sýnist vera hálfum metra hærri en lægsti ráðherrann og allt að 100 kílóum þyngri ! Prófið bara sjálf að mæla þetta með milimetramáli.
Ljósmyndarinn hefði átt að hafa konuna og tvo lágvöxnustu karlmennina nær á myndinni en þá hávaxnari og Sigmund Davíð fjærst.
Þannig gat hann jafnað út stærðarmuninn svo allir fengju að njóta sín.
Mér finnst með ólíkindum ef það hefur verið atvinnuljósmyndari sem tók þessa mynd.
![]() |
Ósamstæðir skór vegna sýkingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.9.2013 | 21:16
Meðferð olíuauðsins er prófmál.
Svonefndir "frumstæðir" indíánaþjóðflokkar í Ameríku fóru eftir því lögmáli við nýtingu landsins, að hún skerti í engu möguleika sjö næstu kynslóða á eftir varðandi þeirra nýting á landgæðum.
Þetta jafngilti kröfu um sjálfbæra þróun til eilífðar, því að um leið og hver kynslóð saftnaðis til feðra sinna, bættist ný við og þannig hélt krafan um sjö kynslóðir áfram til allrar framtíðar.
Meðferð Norðmanna á olíuauði sínum hefur borið vitni um viðleitni til þess að stuðla að jafnrétti kynslóðanna gagnvart afrakstri af þessari auðlind, en þó verið langt frá þeim kröfum sem indíánaþjóðflokkarnir gerðu.
Nú eru uppi raddir um það í kosningabaráttunni í Noregi að ganga enn skemur í því að hugsa til framtíðar og nýta meira og þar með mestallt í þágu núlifandi fólks.
Krafan um sjálfbæra þróun og endurnýjanlegar auðlindir er prófmál á það hvort mannkyninu tekst að komast án stórfelldra áfalla í gegnum okkar nýbyrjuðu öld.
Meðferð olíuauðsins er prófmál í því efni og gæti orðið svipað prófmál hér ef slíkan auð rekur á okkar fjörur.
Og meðferð jarðvarmans er enn meira prófmál, því að hægt væri að breyta rányrkjunni, sem nú er stundið í taumlausri græðgi, í sjálfbæra þróun ef siðferðiskennd okkar tæki framförum.
En lítil von virðist um það.
![]() |
Breytingar en engin bylting |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.9.2013 | 14:49
"Eg hef selt hann Yngri-Rauð.."
Þannig orti Páll Ólafsson og bætti við: "...er því sjaldan glaður. / Svona´er að vanta veraldarauð / og vera drykkjumaður.
Það er eitthvað meira en lítið bogið við það hjá Real Madrid að láta Mesut Özil frá sér. Hjá Páli Ólafssyni var það drykkjuskapur og fjártjón af hans völdum sem olli illskiljanlegri sölu á gæðingi, en hjá Real Madrid er erfitt að sjá ástæðuna.
Kannski er hún ekki uppi á yfirborðinu. Innan liðs og hjá þjálfara þess og helstu mönnum í innsta hring snýst árangur oft um það að mannleg samskipti gangi upp og að liðsheildin sé sem sterkust, burtséð frá einstökum leikmönnum. Özil er hinsvegar sú tegund af leikmönnum, sem síst má vanta, maður sem leggur upp tækifæri fyrir aðra. Þess vegna klórar maður sér í skallanum yfir þessari sölu.
![]() |
Löw: Óskiljanleg ákvörðun hjá Real Madrid |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.9.2013 | 00:06
Virkjunin sem ekkert hefur verið deilt um.
Það er ein síbyljan að svokallaðir "umhverfisfasistar" eða "umhverfisöfgamenn" séu á móti öllu, á móti öllum virkjunum, á móti atvinnuuppbyggingu, á móti rafmagni og á móti framförum.
Ekki ber nú Búðarhálsvirkjun vitni um það, þar sem síðasta sprengingin var sprengd í dag.
Og ekki heldur þær ca 25 af 30 stórum virkjunum, sem hafa verið reistar vítt og breitt um landið án andstöðu "umhverfisöfgamanna" þannig að nú framleiðum við Íslendingar 4-5 sinnum meira rafmagn en við þurfum til okkar eigin nota.
![]() |
Síðasta sprengingin við virkjunina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
3.9.2013 | 09:32
Umbun og refsing.
Í fyrra voru þær ekki mjög uppörvandi þær fréttir, sem bárust af hag finnska tæknifyrirtækisins Nokia. Fyrirtækið virtist ætla að fara hallloka fyrir erlendum keppinautum sínum, til dæmis Samsung.
Þetta var ekki gott fyrir Finnland, vegna þess að þetta fyrirtæki var nokkurs konar flaggskip þjóðarinnar og þjóðarstolt, sem skapaði landinu jákvæða ímynd og þarmeð verðmæti.
Allt frá upphafin, fyrsta farsímahlunknum sem ég fékk mér, hef ég skipt við Nokia samfellt. Engin undantekning var þar á þegar ég fékk mér fyrsta snjallsímann, en hins vegar undantekning að því leyti, að í fyrsta skiptið varð ég fyrir miklum vonbrigðum.
Í ljós kom að ekki var útskiptanleg rafhlaða í símanum, þannig, að þegar hún fór að gefa sig eftir tæplega tveggja ára eign, kom í ljós að ekki var hægt að skipta henni út, heldur varð allur síminn að fylgja með.
Þetta var fyrsti síminn í næstum aldarfjórðung, sem var hannaður á þennan slæma og að mér fannst ósvífna hátt og ég dauðsá að hafa ekki lesið allt smáa letrið um hann varðandi þetta. Ef þetta var þá á annað borð nefnt.
Hafði þó þá afsökun að manni dettur ekki í hug að hlutir séu hannaðir á þennan hátt. Síðan sá ég fréttir um að Nokia væri í hópi þeirra fyrirtækja sem hannaði ákveðna hluta í tækjum þannig, að þeir entust aðeins rétt fram yfir ábyrgðartímann, þannig að kaupendur neyddust til að endurnýja allt tækið þótt aðeins einn lítill hluti þess bilaði.
Í ljós kom að rafhlaðan í símanum mínum bilaði rétt áður en tveggja ára ábyrgðartíminn rann út, þannig að fyrirtækið virtist hafa verið óheppið ef það var rétt, að rafhlaðan væri þannig hönnuð, að hún entist aðeins stutt út fyrir ábyrgðartímann.
Nú hélt ég að ég stæði með pálmann í höndunum en það var öðru nær því að mér var sagt að ekki væri hægt að gera við símann hér á landi og það yrði að senda hann til Svíþjóðar.
Nú fóru í hönd tveir símalausir mánuðir og ekkert bólaði á símanum. Fór svo að ég kreisti peninga undan nöglunum og fékk mér Samsung Galaxy.
Í þann mund kom Nokia síminn frá Svíþjóð og 15 þúsund króna reikningur, sem mér var gert að borga þótt síminn hefði átt að vera í ábyrgð! Einhver hefði lagt í málaferli út af þessu en það kostar líka peninga þannig að það varð að láta nægja að bölva og borga.
Þegar ég seinna fór að nota Samsung símann kom í ljós, að öll hönun hans og notkun var margfalt auðveldari en á Nokia símanum, og það svo mjög, að maður undraðist hvernig þúsunda milljarða fyrirtæki eins og Nokia gæti látið annað eins frá sér. En um leið kom skýring á því hvernig Samsung brunaði upp í vinsældum og áliti á meðan Nokia féll.
Þetta er svo sem ekkert nýtt. Risafyrirtækið Sony sendi einu sinni frá sér ferðaútvarp sem útlitsins vegna var látið vera með on-off takkann á bláhorni tækisins! Sem olli þvi að tækið mátti ekki rekast utan í neitt á ferðalögunum nema að það kveikti á sér sjálft og eyddi öllu rafmagninu.
Eða ný árgerð af BMW 5 línunni, sem kom fram fyrir nokkrum árunm og var með nýtt og svo flókið kerfi af rafeindabúnaði fyrir hvaðeina í bílnum, að nýir eigendur þurftu að taka sér margra klukkustunda lesningu eða nánast að fara á námskeið til þess að geta stjórnað miðstöðinni!
Erlendir bílablaðamenn stóðu undir skyldum sínum og tóku tvær stjörnur af fimm í álitsgjöf sinni út af þessu atriði. Sðgðu að engu máli skipti hve góður þessi frægi gæðabíll væri ef nýir eigendur gætu ekki ekið honum vegna þess að einhverjum tölvunörd hefði tekist að gera hann ónothæfan með fáránlega flóknum tölvubúnaði.
Nú er mér sagt að Nokia hafi tekið sig hressilega á í samkeppninni við Samsung og aðra keppinauta og sé að rétta úr kútnum eftir verðskuldað álitsfall.
Er það vel, öllum til góðs, ekki síst Finnum, sem þurfa á sem bestri ímynd að halda fyrir framleiðsluvörur sínar. Ekki veitir af.
![]() |
Nokia hækkar um 45% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.9.2013 | 02:01
Sofnaði í 200 metra hlaupi.
Það er gaman að lesa skemmtilega frásögn Helgu Þóru Jónasdóttur af 168 km langt afrekshlaup þar sem hún "sofnaði í miðju hlaupi."
En það er víst hægt að "sofna" í styttra hlaupi.
Nóttina fyrir 200 metra úrslitahlaupið á EM í Brussel 1950 varð Ásmundi Bjarnasyni ekki svefnsamt vegna mikilla láta herbergisfélaga síns á hótelinu.
Ásmundur sagði sjálfur svo frá, að hann hefði að sjálfsögðu komið herfilega illa fyrirkallaður í úrslit 200 metra hlaupsins, og upplifði það svo, að það hefði ekki verið neinu líkara en að hann hefði "sofnað síðast í beygjunni."
Frá þessu er nánar sagt í bókinni "Mannlífsstiklur" þar sem greint er frá svonefndum "gulldrengjum", fjálsíþróttamönnunum, sem fóru einstæða frægðarför á þetta Evrópumestaramót.
![]() |
Sofnaði í miðju hlaupi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.9.2013 | 19:12
"Lygar og rangfærslur umhverfisfasista?"
Undanfarna daga hafa næstum daglega verið fréttir í fjölmiðlum um ýmis atriði sem vísindamenn túlka sem merki um hlýnandi veðurfar á jörðinni. Það vekur athygli mína að þeir sem hafa stanslaust síðustu árin talið slíkar fréttir vera "lygar og rangfærslur umhverfisfasista" hafa verið óvenju þöglir um þessar fréttir.
Hefur þeim þó ekki hingað til verið skotaskuld úr því að flytja þann boðskap að veður fari ekki hlýnandi á jörðinni, heldur jafnvel kólnandi eftir aldamót ef eitthvað er.
Fyrir nokkrum dögum var áhugavert viðtal við Odd Sigurðsson jarðfræðing, sem hefur fylgst með íslenskum jöklum alveg sérstaklega í marga áratugi.
Oddur upplýsti að bráðnun jöklanna nú væri miklu örari en spáð hefði verið og jafn ör og spáð hefði verið að hún yrði 2050. Hann sagði að land risi nú furðu hratt umhverfis Vatnajökul og að sennilega yrði jökullinn alveg horfinn eftir tvær aldir.
Oddur, eins og aðrir vísindamenn, draga þá ályktun af þessu að því valdi hlýnun loftslags.
Í gær var frétt um hraðar breytingar á lífríki á mörkum heimsskautasvæða vegna hlýnunar.
Afneitunarmenn hafa sagt árum saman að ekkert sé að marka svona upplýingar, þær séu "lygar og rangfærslur umhverfisfasista".
"Umhverfisfasistarnir" séu siðlausir gróðapungar sem hafi af því starf og græði á því að fjalla um þessi mál eða rannsaka þau og breiða út rangar upplýsingar.
Nú er liðinn svolítill tími frá því að heyrst hefur frá þessum mönnum, og hefði maður þó haldið að það væri því kærkomnara fyrir þá að fletta ofan af lygunum og rangfærslunum eftir því sem þær verða tíðari og stærri.
![]() |
Miklagljúfur undir Grænlandsjökli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (76)
2.9.2013 | 11:35
Nöturleg sjón.
Á síðustu árum er ein af þeim leiðum, sem ég ek nokkrum sinnum á ári, leiðin frá Möðrudal í átt til Hvannalinda og Kverkfjalla og svonefnd Áltadalsleið, sem liggur til sauðaustur fra henni í átt til Brúaröræfa.
Á þessari leið má sjá vaxandi merki um akstur utan merktra vega og slóða ár frá ári.
Á Álftadalsleið kann skýringin að hluta að vera sú að leiðin er afar illa merkt.
En á Kverkfjallavegi er engin leið að réttlæta vaxandi spjöll meðfram leið, sem er ein hin greiðfærasta á hálendinu.
Hú er sléttari breiðari og beinni en jafnvel góðir héraðsvegir.
Nú er svo komið að báðum megin við leiðina eru spólför svo tugum kílómetra skiptir.
Myndirnar, sem hér birtast, voru teknar í gærkvöldi á leið norður til Möðrudals. Þeir, sem þarna hafa verið að verki, láta hvorki viðkvæman gróður né sanda hefta för sína.
Förin gera margþætt ógagn.
Í fyrsta lagi skemma þau fyrir upplifun þeirra af óspilltu landi, sem ganga þarf um af virðingu og varúð.
Í öðru lagi sýna þau, að viðkomandi telur sér gefið skotleyfi á að sýna landinu og þeim sem vilja njóta þess lítilsvirðingu og spæna það upp
Í þriðja lagi sýna þau vafasamt fordæmi fyrir aðra, sem annað hvort hafa séð myndir eða auglýsingar um íslenska hálendið sem eitt allshverjar æfingasvæði fyrir torfærutæki.
Í fjórða lagi sýna þau lítið eftirlit og víða afar lélegar merkingar á leiðum sem eiga að falla undir skilgreininguna "merktar leiðir og slóðar."
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)