16.11.2007 | 21:00
DAPURLEG AFBÖKUN Á DEGI TUNGUNNAR.
Dagur íslenskrar tungu er aðeins einu sinni á ári. Þess vegna verða pistlar mínir fimm af því tilefni og ef einhverjum finnst þessi pistill þunglyndislegur ættu hinir pistlarnir að bæta það upp.
Heyrði að sagt var í auglýsingu í sjónvarpi: "Bjart er yfir Garðheimum / blikar jólastjarna" og hnykkti við. Þarna er tekið upphaf þekktasta ljóðs frænda míns sáluga, Ingólfs Jónssonar frá Prestbakka, og vegið að sæmdarrétti höfundar auk þess sem hin einstæða og sérstaka hrynjandi íslenskrar tungu er fótum troðin og það á sjálfum degi íslenskrar tungu.
Þetta er þar á ofan jólasálmur en ekki hversdagsleg tækifærisvísa og afbakaða útgáfan af jólasálminum á að auka gróða verslunareigandans.
Lítum nánar á þetta alþekkta ljóð, - sálm sem sunginn er fyrir hver jól, og ljóðstafina sem ég auðkenni með hallandi, feitletruðum stöfum:
Bjart er yfir Betlehem.
Blikar jólastjarna,
stjarnan mín og stjarnan þín,
stjarnan allra barna.
Var hún áður vitringum
vegaljósið skæra.
Barn í jötu borið var,
barnið ljúfa, kæra.
Ég þarf ekki að halda lengra áfram, allt ljóðið er ort í þessu erfiða, knappa formi, af smekkvísi og nákvæmni listamanns sem veit hvað hann er að gera og hvað hann vill. Á bak við þetta ljóð sem virðist við fyrstu sín svo einfalt og blátt áfram liggur mikil vinna og hagleikur höfundar því að hendingarnar eru svo ofurstuttar að það þarf sérstaka færni og skipulega hugsun til þess að viðhalda þessu órofa samræmi og samtengingu takts og ljóðstafaforms og skapa um leið einfalt, sterkt, hugljúft og fagurt verk.
Að eyðileggja einn af þremur ljóðstöfum í fyrstu tveimur hendingunum samsvarar því að breyta tónum, laglínu og takti í lagi tónskálds.
Það er ekki að ástæðulaus að Megasi voru veitt verðskulduð verðlaun á degi íslenskunnar því hann á ómetanlegan þátt í því að koma í veg fyrir að hið sérstæða íslenska ljóðaform, sem er hliðstætt takti í tónlist, fari í glatkistuna.
Þetta verk Megasar er svona álíka og að tóhskáld hefði bjargað bossanova-taktinum sem er svo tengdur Suður-Ameríku, frá glötun.
Í kvöld prófaði Benedikt Erlingsson að fara með Gunnarshólma í rapptakti og einhver kann að spyrja hvort það hafi verið brot á sæmdarrétti Jónasar. Að mínum dómi var það ekki. Ég heyrði ekki betur en Benedikt héldi vel til haga ljóðstafaáherslum Jónasar og færi rétt með ljóðið.
Ingólfur Jónsson er ekki lengur á meðal lifenda til að bera hönd fyrir höfuð sér, en augljóst er að hann hefði aldrei leyft þetta skemmdarverk á þekktasta ljóði sínu og látið viðgangasta tvöföld aðför að höfundarrétti, annars vegar því að gera þetta að afkomendum hans forspurðum og án þess að reyna einu sinni að semja um málið, og hins vegar með því að vega að sæmdarrétti höfundar.
Ingólfur Jónsson hefði aldrei látið vanta einn ljóðstaf í þessu ljóði eða öðrum.
Eitt getur þó hlotist gott af þessu slysi. Það myndi felast í því að eigendur fyrirtækisins og /eða auglýsingastofunnar drægju þessa auglýsingu til baka og bæðust afsökunar.
Með því myndu þeir vinna miklu meira þarfaverk en það eitt að bæta fyrir mistök sín, heldur einnig vekja athygli á því hve miklu varðar að viðhalda hinu sérstæða íslenska ljóðaformi sem er ígildi hljóðfalls eða takts í tónlist.
Ég tel ekki meiri rök fyrir því að hafna þessari hefð á þeim forsendum að hún sé erfið og bindi ljóðskáld í fjötra heldur en því að hafna takti tónlistar af sömu ástæðum.
Þess vegna er svo mikilvægt að þetta mál, sem sýnist ekki stórt, verði ekki látið liggja í þagnargildi né látið undan síga hvað varðar frekari málarekstur, þurfi til hans að koma.
Vonandi þarf þess ekki. Það varðar miklu fyrir aðra ljóðahöfunda að ekki sé hægt að leika verk þeirra svona grátt á sjálfum jólunum, - ég tala nú ekki um þegar um jólasálm er að ræða.
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 01:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
16.11.2007 | 20:48
UPPSKERA METNAÐAR OG VANDVIRKNI.
Ég samgleðst þeim sem fengu viðurkenningar í kvöld á degi íslenskrar tungu. Viðurkenningin til útvarpsins ætti að vera fjölmiðlamönnum hvatning til að brýna stílvopn sín og nota þau af listfengi við að skila mikilvægum skilaboðum til almennings.
![]() |
Sigurbjörn Einarsson hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 19.11.2007 kl. 18:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
16.11.2007 | 20:40
JÓNAS STÓÐ AF SÉR RAPPIÐ!
Var að horfa á Benedikt Erlingsson fara mikinn í því að flytja Gunnarshólma í hröðum rapptakti og hreifst af fjörinu og kraftinum hjá þessum snillingi. Einhverjir kunna að hafa hneykslast og mér hefði aldrei dottið í hug að nota þessa aðferð við flutning þessa stærsta málverks sem málað hefur verið í ljóði á Íslandi. En skiptir ekki öllu máli.
Það sem máli skipti að mínum dómi er að þarna sást skýrt dæmi um það hvernig Jónas getur höfðað til hvaða kynslóðar sem vera skal og staðið af sér flest, meira að segja hraðan rapptakt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.11.2007 | 15:20
INNSKOT Í TILEFNI DAGSINS.
Á hátíðisdegi eins og þessum er mikilvægt að hugsa um þrenninguna landið, þjóðina og tunguna. Mig langar til að fara í þessum pistli í stutt ferðalag, fyrst fljúgandi upp eftir jökulám sem falla norður úr Vatnajökli um eldvirkt svæði sem á engan sinn líka í heiminum þar sem er einstakt dyngjuval.
Þar gnæfir drottning íslenskra fjalla, þjóðarfjallið Herðubreið, - móbergsstapi sem varð til undir ísaldarjöklinum og spjó eldi ofan jökuls úr tindgíg sínum. Við fætur fjallsins er gróðurvinin Herðubreiðarlindir.
Í Öskju telja menn sig finna fyrir reimleikum af völdum þeirra Rudloffs og Knebels sem þar týndust sporlaust 1907 og tunglfarar æfðu sig þar 1967. Þar þykir mörgum sem þeir horfi á jörðina í árdaga sköpunar hennar.
Sigurður Þórarinsson taldi Kverkfjöll merkasta fyrirbæri Íslands, - þar er hægt að baða sig í volgri á inni í íshelli og síga niður 37 stiga heitan foss. Efst í fjöllunum eru tvö lón með fljótandi ísi og sjóðandi vatni.
Vatnajökull er kóróna landsins og Kverkfjöll helsta djásn hans og þess vegna ber pistill minn heitið "Kóróna landsins."
KÓRÓNA LANDSINS.
Svíf ég af sæ
mót suðrænum blæ
um gljúfranna göng
gegn flúðanna söng.
Þar færir hver foss
fegurðarhnoss
og ljúfasta ljóð
um land mitt og þjóð.
Allvíða leynast á Fróni þau firn
sem finnast ekki í öðrum löndum:
Einstæðar dyngjur og gígar og gjár
með glampandi eldanna bröndum.
Við vitum ekki enn að við eigum í raun
auðlind í hraunum og söndum,
sléttum og vinjum og auðnum og ám
og afskekktum sæbröttum ströndum.
Því Guð okkur gaf
gnægð sinni af
í sérhverri sveit
sælunnar reit.
Í ísaldarfrosti var fjallanna dís
fjötruð í jökulsins skalla
uns Herðubreið þrýsti sér upp gegnum ís,
öskunni spjó og lét falla.
Er frerinn var horfinn var frægð hennar vís,
svo frábær er sköpunin snjalla.
Dýrleg á sléttunni draumfögur rís
drottning íslenska fjalla.
Að sjá slíka mynd
speglast í lind
og blómskrúðið bjart
við brunahraun svart !
Beygðir í duftið dauðlegir menn
dómsorði skaparans hlíta.
Framliðnar sálir við Öskuvatn enn
sig ekki frá gröf sinni slíta.
Tunglfarar upplifa ósköpin tvenn:
Eldstöð og skaflana hvíta.
Alvaldsins sköpun og eyðingu í senn
í Öskju þeir gerst mega líta.
Höll íss og eims.
Upphaf vors heims.
Djúp dularmögn.
Dauði og þögn.
Endalaus teygir sig auðnin svo víð -
ögrun við tækniheim mannsins.
Kaga við jökul með kraumandi hlíð
Kverkfjöll í hillingum sandsins.
Dæmalaus gnæfa þau, drottnandi smíð,
djásnið í kórónu landsins.
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firð,
friður og kyrrð.
Á Þingvöllum aðskiljast álfurnar tvær.
Við Heklu´er sem himinninn bláni.
Í Kverkfjöllum glóðvolg á íshellinn þvær.
Í Öskju er jarðneskur máni.
Ísland er dýrgripur alls mannkynsins
sem okkur er fenginn að láni.
Við eigum að vernda og elska það land
svo enginn það níði né smáni.
Seytlar í sál
seiðandi mál:
Fjallanna firrð,
friður og kyrrð,
íshvelið hátt, -
heiðloftið blátt, -
fegurðin ein,
eilíf og hrein.
Bloggar | Breytt 17.11.2007 kl. 18:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)