6.11.2007 | 00:49
DER ER HUL Í SPANDEN.
Ógleymanleg var túlkun Dirch Passer á danska laginu um fötuna sem lak og atburðarásina sem fór í heilhring ef átti að stöðva lekann. Kannski er svipað að gerast við Kárahnjúka þar sem jökulvatn lekur úr Hálslóni á sex stöðum niður í Laugavalladal, Hafrahvammagljúfur, Desjarárdal og Hrafnkelu. Meðan lekinn er ekki meiri en hann er nú skiptir hann ekki máli fyrir rennslið niður í Fljótsdal og orku tll álversins. En fleira gæti hangið á þessari spýtu.
Fjölmiðlafulltrúi virkjunarinnar afgreiddi málið eins og að auðvelt væri að þétta göngin betur þar sem þau leka vatni út í Hrafnkelu.
En til þess þarf að tæma göngin af vatni til að komast að gatinu og þá rennur ekkert vatn til stöðvarhússins á meðan því að ekkert vatn kemur enn úr Hraunavirkjun og ekkert viðbótarrafmagn er að fá af landskerfinu. Der er hul i spanden.
Fjölmiðlafulltrúinn var ekki inntur nánar eftir því í útvarpsfréttum hvort menn hefðu hugleitt þetta nánar með tilliti til mismunandi atburðarásar.
Mér sýnist hún geta orðið þessi og kostirnir vera þrír:
1.Leyfa göngunum að leka og treysta því að lekinn verði ekki of mikill. Ef hann verður of mikill yrði að skrúfa fyrir vatnið til stöðvarhússins með þeim afleiðingum að kerin í álverinu myndu skemmast.
2. Bíða þar til hægt verður að fá vatn frá Hraunaveitu á þeim tíma þegar vatnsmagn í Jökulsá í Fljótsdal er nógu mikið til að anna orkuþörf álversins. Það verður ekki fyrr en um mánaðamótin maí-júní 2009 og viðgerðin má ekki standa lengur en fram á haustið því að Hálslón er eina fullnægjandi vatnsmiðlunin.
3. Tæma göngin núna og hætta við að setja rafmagn nema á hluta af kerjum álversins þangað til búið er að finna lekastaðinn og þétta göngin betur.
Að sjálfsögðu verður fyrsti kosturinn valinn og áhættan tekin eins og ævinlega hefur verið gert í þessari framkvæmd.
Ég vil ljúka þessari bloggfærslu með því að óska verkfræðingum, tæknimönnum og öllum starfsmönnum til hamingju með eins vel unnið verk hvað snertir Kárahnjúkavirkjun og hægt var að ætlast til.
Þetta er óhemju flókin og viðamikil framkvæmd og frammistaða þeirra sem að henni hafa unnið hafa verið eins og best gerist í heiminum.
Það er ekki við þá að sakast að stjórnmálamennirnir sem keyrðu þessa framkvæmd í gegn undir hugsunarhættinum "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var..." svo að vitnað sé í fleyg ummæli fjölmiðlafulltrúans um vandræðin við gangagerðina, - tóku með því áhættu sem enn sér ekki fyrir endann á, samanber hættu á eldgosi af mannavöldum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
6.11.2007 | 00:09
GOTT FRAMTAK FORSETA VORS, EN...
Núverandi forseti Íslands hefur að mínum dómi rækt skyldur sínar einstaklega glæsilega á erlendum vettvangi fyrir þjóð okkar því að það er ekkert sjálfgefið að einstaklingur eins og hann eigi eins víða innangengt og njóti jafn mikillar virðingar eins og Ólafur Ragnar gerir að ekki sé nú minnst á dugnaðinn hjá honum.
Þegar rétt er á haldið getur virkjun jarðvarma verið endurnýjanleg og hrein orkulind án orkutaps eða sóunar þegar um hitaveitu er að ræða. Mannkynið hefur mikla þörf fyrir slíkan orkugjafa, meðal annars til upphitunar hýbýla.
Framtak forsetans hefur margvíslega þýðingu fyrir orðspor og viðskiptavild Íslendinga og er mikilsvert framlag til umræðu og viðleitni þjóða heims til að koma í veg fyrir allt of hraða og mikla hlýnun lofthjúpsins.
En við verðum að gæta okkar að það sem við fullyrðum um hina hreinu, endurnýjanlegu og fullkomnu nýtingu rísi undir nafni, því að annars erum við að markaðssetja vöru þar sem mikilvægum upplýsingum er leynt.
Þar sem nú er verið að virkja á Hellisheiðarsvæðinu er engu þessara skilyrða fullnægt. Virkjunin er ekki endurnýjanleg því að kreist eru 600 megvött út úr svæði sem aðeins afkastar 300 megavöttum til langframa og afleiðingin verður sú að svæðið verður allt orðið kalt eftir ca 40 ár og þá þarf að virkja annars staðar til þess að viðhalda orkuöflun.
Virkjunin er rányrkja að því leyti að aðeins 12 prósent orkunnar nýtist með núverandi tækni.
Og virkjunin er ekki alveg hrein því að frá henni mun streyma sjöfalt meira brennisteinsvetni en frá öllum álverum landsins og lyktarmengun í Reykjavík er þegar orðin yfir Kaliforníumörkum 40 daga á ári.
Það getur hefnt sín að breiða yfir þetta og ekki boðlegt að ávísa á einhverja tækni, sem hugsanlega verði hægt að grípa til síðar til að auka nýtni og minnka mengun. Þetta verður að vera á hreinu frá byrjun, - rétt skal vera rétt.
![]() |
Forseti Íslands ræddi áhrif loftlagsbreytinga á orkubúskap heimsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)