DER ER HUL Í SPANDEN.

Ógleymanleg var túlkun Dirch Passer á danska laginu um fötuna sem lak og atburðarásina sem fór í heilhring ef átti að stöðva lekann. Kannski er svipað að gerast við Kárahnjúka þar sem jökulvatn lekur úr Hálslóni á sex stöðum niður í Laugavalladal, Hafrahvammagljúfur, Desjarárdal og Hrafnkelu. Meðan lekinn er ekki meiri en hann er nú skiptir hann ekki máli fyrir rennslið niður í Fljótsdal og orku tll álversins. En fleira gæti hangið á þessari spýtu.

Fjölmiðlafulltrúi virkjunarinnar afgreiddi málið eins og að auðvelt væri að þétta göngin betur þar sem þau leka vatni út í Hrafnkelu. 

En til þess þarf að tæma göngin af vatni til að komast að gatinu og þá rennur ekkert vatn til stöðvarhússins á meðan því að ekkert vatn kemur enn úr Hraunavirkjun og ekkert viðbótarrafmagn er að fá af landskerfinu. Der er hul i spanden.

Fjölmiðlafulltrúinn var ekki inntur nánar eftir því í útvarpsfréttum hvort menn hefðu hugleitt þetta nánar með tilliti til mismunandi atburðarásar.

Mér sýnist hún geta orðið þessi og kostirnir vera þrír:  

1.Leyfa göngunum að leka og treysta því að lekinn verði ekki of mikill. Ef hann verður of mikill yrði að skrúfa fyrir vatnið til stöðvarhússins með þeim afleiðingum að kerin í álverinu myndu skemmast. 

2. Bíða þar til hægt verður að fá vatn frá Hraunaveitu á þeim tíma þegar vatnsmagn í Jökulsá í Fljótsdal   er nógu mikið til að anna orkuþörf álversins. Það verður ekki fyrr en um mánaðamótin maí-júní 2009 og viðgerðin má ekki standa lengur en fram á haustið því að Hálslón er eina fullnægjandi vatnsmiðlunin.

3. Tæma göngin núna og hætta við að setja rafmagn nema á hluta af kerjum álversins þangað til búið er að finna lekastaðinn og þétta göngin betur. 

Að sjálfsögðu verður fyrsti kosturinn valinn og áhættan tekin eins og ævinlega hefur verið gert í þessari framkvæmd.

Ég vil ljúka þessari bloggfærslu með því að óska verkfræðingum, tæknimönnum og öllum starfsmönnum til hamingju með eins vel unnið verk hvað snertir Kárahnjúkavirkjun og hægt var að ætlast til.

Þetta er óhemju flókin og viðamikil framkvæmd og frammistaða þeirra sem að henni hafa unnið hafa verið eins og best gerist í heiminum.

Það er ekki við þá að sakast að stjórnmálamennirnir sem keyrðu þessa framkvæmd í gegn undir hugsunarhættinum "Við ætluðum þarna í gegn hvort eð var..." svo að vitnað sé í fleyg ummæli fjölmiðlafulltrúans um vandræðin við gangagerðina, -  tóku með því áhættu sem enn sér ekki fyrir endann á, samanber hættu á eldgosi af mannavöldum.

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Maður veltir því fyrir sér, hvað þú finnur næst Ómar.

"Að sjálfsögðu verður fyrsti kosturinn valinn og áhættan tekin eins og ævinlega hefur verið gert í þessari framkvæmd".

Getgátustíllinn er hann í hávegum hafður hjá þér.

"...skrúfa fyrir vatnið til stöðvarhússins með þeim afleiðingum að kerin í álverinu myndu skemmast". 

Skemmast kerin ef það er undirbúið að tæma þau fyrst og kæld svo niður?

Spyr sem ekki veit.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.11.2007 kl. 12:02

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Gunnar veltir því fyrir sér hvað ég finni næst. Eins og ég segi í pistlinum hef ég fylgst með lekanum og tekið myndir af honum í tvo mánuði án þess að það hafi nokkurs staðar komið fram. Hvers vegna? Vegna þess að ef ég kem fram með slíka vitneskju mína er ég ásakaður fyrir smásmygli og hlutdrægni.

Þegar útvarpið loksins uppgötvar málið og segir frá því í fréttum er ég samt blammeraður fyrir að "finna" þetta atriði. Það eina sem ég geri er að reyna eftir því sem ég get að útskýra það sem aðrir fundu þremur mánuðum á eftir mér. Það er vandlifað.

Ómar Ragnarsson, 6.11.2007 kl. 12:24

3 Smámynd: Villi Asgeirsson

Hafðu engar áhyggjur, Ómar. Sagan mun dæma hver var að bulla. Það er ómetanlegt að hafa einhvern sem hefur tök á að fylgjast með svæðinu án þess að vera á mála hjá Landsvirkjun.

Villi Asgeirsson, 6.11.2007 kl. 12:58

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er lekinn vandamál? Var gert ráð fyrir honum?

Hefurðu spurt Landsvirkjunarmenn þessara spurninga?

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.11.2007 kl. 13:02

5 Smámynd: Ari Guðmar Hallgrímsson

Heldur Gunnar að Landsvirkjunarmenn myndu svara þessu öðruvísi en þeim í hag??

Ari Guðmar Hallgrímsson, 6.11.2007 kl. 18:02

6 Smámynd: Sævar Helgason

Rafmagnsleysi hjá álveri í fullum rekstri er alltaf grafalvarlegt mál.

Það minnkar skaðann verulega sé hægt að fjarlægja álið úr kerunum fyrir stöðvun þeirra - en til að það sé hægt verður rafmagnsleysinu að vera stjórnað.

Það verður allaf mikið tjón í álverum sem þurfa að stöðva rekstur kera vegna orkuskorts

Við skulum vona að Kárahnjúkavirkjun sé að komast í farsælan rekstur-þjóðin á mikið undir í þeim efnum. 

Sævar Helgason, 6.11.2007 kl. 21:07

7 identicon

Sumir láta eins og þessi leki sé álíka alvarlegur og meiriháttar olíumengun.  

Ég segi nú bara eins og Guðni "Obbobbobb"

Er þetta ekki samskonar vatn og sumir hafa grátið, vegna þess að það  flæðir ekki lengur óbeislað niður Jökuldal???   Nú þegar smá "piss" kemur út úr fjallinu, jaðrar þetta við meiriháttar mengunarslys.

Eigum við ekki bara að anda með nefinu, láta hlutina komast í jafnvægi og bíða þess að verkfræðingarnir komist að niðurstöðu og sjá hvort eitthvað þarf yfir höfðu að aðhafast.

Ef til vill má búa þarna til smá virkjun fyrir Sigga á Aðalbóli, svona rétt til heimabrúks.

Káranjúkavirkjun, sem farið er að virka og rúmlega það, er því líkt afrek að ég held að þessi meinta "leka uppgötvun" Ómars ein og sér, muni ekki setja nafn hans á spjöld sögunar.

En.......bíðum og sjáum til.

Benedikt V Warén (IP-tala skráð) 7.11.2007 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband