GOTT FRAMTAK FORSETA VORS, EN...

Núverandi forseti Íslands hefur að mínum dómi rækt skyldur sínar einstaklega glæsilega á erlendum vettvangi fyrir þjóð okkar því að það er ekkert sjálfgefið að einstaklingur eins og hann eigi eins víða innangengt og njóti jafn mikillar virðingar eins og Ólafur Ragnar gerir að ekki sé nú minnst á dugnaðinn hjá honum.

Þegar rétt er á haldið getur virkjun jarðvarma verið endurnýjanleg og hrein orkulind án orkutaps eða sóunar þegar um hitaveitu er að ræða. Mannkynið hefur mikla þörf fyrir slíkan orkugjafa, meðal annars til upphitunar hýbýla. 

Framtak forsetans hefur margvíslega þýðingu fyrir orðspor og viðskiptavild Íslendinga og er mikilsvert framlag til umræðu og viðleitni þjóða heims til að koma í veg fyrir allt of hraða og mikla hlýnun lofthjúpsins.   

En við verðum að gæta okkar að það sem við fullyrðum um hina hreinu, endurnýjanlegu og fullkomnu nýtingu rísi undir nafni, því að annars erum við að markaðssetja vöru þar sem mikilvægum upplýsingum er leynt.

Þar sem nú er verið að virkja á Hellisheiðarsvæðinu er engu þessara skilyrða fullnægt. Virkjunin er ekki endurnýjanleg því að kreist eru 600 megvött út úr svæði sem aðeins afkastar 300 megavöttum til langframa og afleiðingin verður sú að svæðið verður allt orðið kalt eftir ca 40 ár og þá þarf að virkja annars staðar til þess að viðhalda orkuöflun. 

Virkjunin er rányrkja að því leyti að aðeins 12 prósent orkunnar nýtist með núverandi tækni.

Og virkjunin er ekki alveg hrein því að frá henni mun streyma sjöfalt meira brennisteinsvetni en frá öllum álverum landsins og lyktarmengun í Reykjavík er þegar orðin yfir Kaliforníumörkum 40 daga á ári.

Það getur hefnt sín að breiða yfir þetta og ekki boðlegt að ávísa á einhverja tækni, sem hugsanlega verði hægt að grípa til síðar til að auka nýtni og minnka mengun. Þetta verður að vera á hreinu frá byrjun, - rétt skal vera rétt.    

 


mbl.is Forseti Íslands ræddi áhrif loftlagsbreytinga á orkubúskap heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Er það á hreinu að Hellisheiðarvirkjun verði orðin "köld" eftir ca. 40 ár? Eða eru þetta ágiskanir andstæðinga virkjunarinnar? Spyr sem ekki veit.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.11.2007 kl. 11:52

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Þetta hefur verið vitað lengi og ég hef fengið það staðfest bæði hjá Sveinbirni Björnssyni og Grími Björnssyni. Þetta er meðvituð rányrkja, tillitslaus við afkomendur okkar og ekkert annað.

Ómar Ragnarsson, 9.11.2007 kl. 00:02

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Elsta jarðvarmavirkjun heims er á Ítalíu. Hún er 100 ára gömul og enn í fullu fjöri.

Í bandaríkjunum er elsta jarðvarmavirkjunin í Kaliforníu, hún er 45 ára gömul og er enn stærsta sinnar tegundar í landinu.

Gunnar Th. Gunnarsson, 12.11.2007 kl. 04:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband