9.12.2007 | 22:03
HVENÆR HEFUR MAÐUR DREPIÐ MANN?
Spurning Jóns Hreggviðssonar kemur upp í hugann við útkomu bókar um morðið á Gunnari Tryggvasyni vegna þess gríðarlega ósamræmis sem gætti í sýknudómi í því máli og sektardómi í Geirfinnsmálinu. Davíð Oddsson nefndi orðið dómsmorð um það mál og ég tek undir það. Berum þessi tvö mál saman, Gunnarsmálið og Geirfinnsmálið. Í Gunnarsmálinu var: 1. Lík fyrir hendi. 2. Morðvopn fannst í vörslu hins grunaða. 3. Leiða mátti líkur að ástæðu fyrir morðinu. 4. Framburður hins grunaða var ekki sannfærandi þótt hann neitaði allan tímann sök.
Skoðum síðan sömu atriði í Geirfinns- og Guðmundarmálinu. 1. Ekkert lík fannst. 2. Ekkert morðvopn fannst. 3. Aldrei var borin fram nein rökstudd ástæða fyrir morðunum. 4. Margbreyttur og misvísandi framburður fékkst fram með þvingunum sem ekki stóðust kröfur og færir réttarsálfræðingar á borð við Gísla Guðjónsson hafa sýnt fram á að ótækt er að byggja á slíkum framburði.
Einar Bollason var meðhöndlaður þannig í fangelsi að á tímabili var hann farinn að halda að hann hlyti að hafa staðið að morðunum þótt hann gæti ekki munað það. Þegar hægt er að leika alsaklausan heiðursmann svona grátt ætti það að liggja fyrir að mun verri þvingunarmeðferð og miklu lengra gæsluvarðhald gagnvart öðrum sakborningum gat náð fram hvaða játningu sem var.
Í Gunnarsmálinu var höfð í heiðri ein höfuðregla réttarfars: In dubio pro reo, þ. e. allur vafi skal túlkaður hinum ákærða í hag. Á þeim forsendum var kveðinn upp réttur sýknudómur í Gunnarsmálinu.
Aldrei var sannað að Geirfinnur og Guðmundur hefðu verið myrtir. Þeir gætu þess vegna báðir dúkkað upp einn góðan veðurdag og tekið til þar sem frá var horfið.
Þáverandi dómsmálaráðherra sagði að þungu fargi væri létt af þjóðinni með þungum refsidómum í Geirfinnsmálinu.
Ég held því hins vegar fram að það verði ekki þungu fargi létt af þessari þjóð fyrr en sama reglan, in dubio pro reo, verði látin gilda í Geirfinns- og Guðmundarmálinu og í Gunnarsmálinu.
Um þetta mál gildir nefnilega það sama og felst í heiti leikverks í Borgarleikhúsinu í haust: Lík í óskilum. Það vantar lík, morðvopn og ástæðu. Við erum aftur komin að upphafsspurningunni: Hvenær hefur maður drepið mann? Mitt svar er: Það hefur enginn drepið mann ef enginn er dauður.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
9.12.2007 | 18:50
KANNSKI EFTIR KOSNINGAR.
Ráðstefnan á Bali er haldin á óheppilegum tíma fyrir Bandaríkjamenn því að forsetakosningar á næsta ári gera það að verkum að forsetinn, hver sem hann er, er ekki í nógu sterkri aðstöðu til að taka jafn erfiðar og afdrifaríkar ákvarðanir og þarf að gera í þessum málum. Löngum hefur verið talað um forseta Bandaríkjanna á síðasta valdaári sínu sem "lame duck", lamaða önd, hvað það snertir að hann á mjög erfitt með að taka stórar og afdrifaríkar ákvarðanir fyrir framtíðina og eftirmenn sína.
Frambjóðendur reyna að taka sem minnsta áhættu og telja öruggara að fara með löndum. Því er ekki öll nótt úti hvað snertir alþjóðlegt samkomulag sem takið við af Kyotosamkomulaginu og öll helstu stórveldi heimsins eigi aðild að. Vonandi að maður þurfi ekki að blogga aftur undir upphrópuninni "hjálpum þeim !" eins og ég gerði í fyrradag.
![]() |
Samkomulags ekki vænst á Balí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2007 | 01:24
AFTUR ALI-FRAZIER, ALI-BONAVENA,-ALI-LISTON ? JÁ.
Áður en ég fer út úr dyrunum að hitta Bubba og lýsa boxi í nótt má ég til með að benda á að bardaginn Mayweather-Hatton getur orðið jafnvel enn betri formúla að hinum fullkomna bardaga en Ali-Frazier á sínum tíma. Þegar ég kem heim eftir bardagann ætla ég að bæta við þennan pistiil hér fyrir neðan.
Berum þetta tvennt saman.
Ali-Frazier var:
1. Tveir ósigraðir þungavigtarheimsmeistarar. Engin hliðstæða.
2. Gerólíkir hnefaleikarar, Ali tæknilegt undur, Frazier höggamaskína sem gekk stanslaust áfram og sló. "Besti einhenti boxari sögunnar" því að eina höggið sem hann treysti á (og sló Ali niður með því) var ótrúlegur vinstri krókur, sem var ólíkur öllum öðrum vegna meiðsla sem hann hlaut í æsku.
3. Pólitík. Ali uppreisnarmaðurinn, Frazier í náðinni hjá valdastéttinni.
Báðir voru svartir en Ali tókst alltaf að koma sér í hlutverk blökkumannsins gegn fulltrúa hvíta kynstofnsins.
Mayweather-Hatton:
1. Tveir ósigraðir meistarar. Þó ekki í þungvigt, því miður.
2. Gerólíkir hnefaleikarar á mjög svipaðan hátt og Ali-Frazier, tæknileg unun á móti hráum krafti og stanslausri sókn.
3. Hvítur á mótu svörtum. Raunverulega. Eins ólíkir og hægt er að hugsa sér.
4. Breti á móti Bandaríkjamanni. Enn stærra atriði, hugsalega það stærsta. Frá upphafi hnefaleikanna hafa Bandaríkjamenn aldrei þolað Breta í þessari íþróttagrein. Við vigtunina var salurinn fullur af Bretum og það var púað á gullbarkann Michel Buffer þegar hann sagði að þetta væri stærsta innrás Breta í vesturheimi síðan 1812.
Ég segi að lokum eins og Bubbi: Það er að bresta á ! Góða skemmtun.
Nú er klukkan 6:10 að íslenskum tíma og mér finnst rétt að vera með sögulokin í sama pistlinum. Þetta varð annað Ali-Frazier. Það gerðist það sama og frelsisbaráttu Bandaríkjamanna að breska innrásin mistókst. Þetta stóð undir öllum væntingum, breska tígrisdýrið réðist af þvílíkum hraða og ákafa á hinn mikla hnefaleikasnilling að hann hafði aldrei lent í eins kröppum dansi.
Þetta bauð upp á allt, dramatík, annar næstum dottinn út úr hringnum, dómaraskandall besta hnefaleikadómara heims á kafla í bardaganum, svipaða stemningu og á breskum knattspyrnuleik í höll þar sem ALLT frægasta fólkið var og sjálfur Tom Jones söng breska þjóðsönginn.
Strax í upphafi bardagans fékk Mayweather að vita að hér var ekki við neinn venjulegan andstæðing að ræða þegar hann riðaði og var næstum dottinn afturábak í gólfið undan harðri höggahríð Bretans. Honum tókst með mikilli kænsku að koma sér út úr vandræðunum og plataði besta dómara heims í leiðinni svo að dómarinn fór á taugum og fór að skipta sér á fráleitan hátt af hæstu návígum.
Eftir fimm lotur var Mayweather búinn að læra á hið illskeytta og óstöðvandi breska tígrisdýr sem aldrei hefur tapað og aldrei verið slegið niður enda þolað hvað sem er og étið högg eins og konfekt á sigurbraut sinni.
Mayweather þurfti að taka á allri kænsku sinni og útsjónarsemi, nota alla klæki í návígi og hvílast sig þar til þess að geta tekið stuttar skorpur þar sem hann kom eldsnörpum og nákvæmum höggum og gagnhöggum á andstæðinginn, sem hins vegar sló óteljandi högg sem annað hvort voru stöðvuð eða hittu ekki eins og til var ætlast.
Þannig skipulagði Mayweather orkunotkun sína af mikilli snilld og aðlagaði sig smám saman að bardagaaðferð andstæðingsins uns tækifærið kom: Í leiftursókn Hattons þar sem hann stökk fram og sló hraðan vinstri krók, vék Mayweather sér eins og eldiing til hliðar og sló um leið hægri handar högg á sem var enn hraðara en högg Hattons og hitti nákvæmlega þar sem því var ætlað á kjálka Hattons sem hljóp á höggið og sá það aldrei.
Þá hafði hann af og til í bardaganum fengið á sig nákvæm högg Mayweathers án þess að riða og sagði eftir bardagann að hann hefði oft fengist við þunghöggari andstæðinga sem þó hefðu aldrei komið sér úr jafnvægi. Munurinn var hins vegar sá að hann hafði aldrei áður fengið á sig svo mörg nákvæm, hröð og vel tímasett högg.
Hann fór í gólfið í fyrsta skiptið á ferlinum og eftirleikurinn var gargandi snilld.
Í þessum bardaga sýndi Mayweather allt sem besti hnefaleikari heims getur haft upp á að bjóða, - aðlögunarhæfni, bardagavilja, skipulagningu á notum úthalds síns, seiglu, hraða, ofurtækni í sókn og vörn, nákvæmni og tímasetningar.
Þetta var eitthvert besta skólabókardæmi um hágæðaframmistöðu sem aðeins bestu meistarar geta gefið.
Í þeim ham sem hann er nú er hann að mínum dómi besti hnefaleikari sem ég hef séð síðan ég fór að horfa á hnefaleika að staðaldri fyrir tuttugu árum. (Pund fyrir pund eins og það er kallað).
Þetta var sigur mannshugans, skynseminnar og tækninnar yfir hráu afli, - sigur nautabanans yfir nautinu.
Með því er ég ekki að kasta neinni rýrð á Hatton, getu hans, dugnaðar og hugrekkis, frekar en dýrð Alis kasti rýrð á Joe Frazier.
Þetta var að mínum dómi eins magnað og hægt er að ætlast til af nokkrum íþróttaviðburði. Og þá er gaman.
Fjórar hliðstæður úr hnefaleikasögunni koma upp í hugann.
Ali-Bonavena. Samskonar atvik í 15. lotu. Bonavena hafði aldrei áður verið sleginn niður.
Ali-Liston: "Draugahöggið" fræga, sem nýjar myndir sanna að var raunverulegt rothögg.
Sugar Ray Robinson-Gen Fullmer: Sams konar atvik, oft kallað "draumahöggið". Fullmer hafði aldrei áður verið sleginn niður.
Rocky Marciano-Jersey Joe Walcott: Svipað atvik, stundum kallað svakalegasta rothögg sögunnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 07:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)