AFTUR ALI-FRAZIER, ALI-BONAVENA,-ALI-LISTON ? JÁ.

Áður en ég fer út úr dyrunum að hitta Bubba og lýsa boxi í nótt má ég til með að benda á að bardaginn Mayweather-Hatton getur orðið jafnvel enn betri formúla að hinum fullkomna bardaga en Ali-Frazier á sínum tíma. Þegar ég kem heim eftir bardagann ætla ég að bæta við þennan pistiil hér fyrir neðan.

Berum þetta tvennt saman.

Ali-Frazier var:

1. Tveir ósigraðir þungavigtarheimsmeistarar. Engin hliðstæða.

2. Gerólíkir hnefaleikarar, Ali tæknilegt undur, Frazier höggamaskína sem gekk stanslaust áfram og sló. "Besti einhenti boxari sögunnar" því að eina höggið sem hann treysti á (og sló Ali niður með því) var ótrúlegur vinstri krókur, sem var ólíkur öllum öðrum vegna meiðsla sem hann hlaut í æsku.

3. Pólitík. Ali uppreisnarmaðurinn, Frazier í náðinni hjá valdastéttinni.

Báðir voru svartir en Ali tókst alltaf að koma sér í hlutverk blökkumannsins gegn fulltrúa hvíta kynstofnsins.

Mayweather-Hatton:

1. Tveir ósigraðir meistarar. Þó ekki í þungvigt, því miður.

2. Gerólíkir hnefaleikarar á mjög svipaðan hátt og Ali-Frazier, tæknileg unun á móti hráum krafti og stanslausri sókn.

3. Hvítur á mótu svörtum. Raunverulega. Eins ólíkir og hægt er að hugsa sér.

4. Breti á móti Bandaríkjamanni. Enn stærra atriði, hugsalega það stærsta. Frá upphafi hnefaleikanna hafa Bandaríkjamenn aldrei þolað Breta í þessari íþróttagrein. Við vigtunina var salurinn fullur af Bretum og það var púað á gullbarkann Michel Buffer þegar hann sagði að þetta væri stærsta innrás Breta í vesturheimi síðan 1812.

Ég segi að lokum eins og Bubbi: Það er að bresta á !  Góða skemmtun.  

 

Nú er klukkan 6:10 að íslenskum tíma og mér finnst rétt að vera með sögulokin í sama pistlinum. Þetta varð annað Ali-Frazier. Það gerðist það sama og frelsisbaráttu Bandaríkjamanna að breska innrásin mistókst. Þetta stóð undir öllum væntingum, breska tígrisdýrið réðist af þvílíkum hraða og ákafa á hinn mikla hnefaleikasnilling að hann hafði aldrei lent í eins kröppum dansi.

Þetta bauð upp á allt, dramatík, annar næstum dottinn út úr hringnum, dómaraskandall besta hnefaleikadómara heims á kafla í bardaganum, svipaða stemningu og á breskum knattspyrnuleik í höll þar sem ALLT frægasta fólkið var og sjálfur Tom Jones söng breska þjóðsönginn.

Strax í upphafi bardagans fékk Mayweather að vita að hér var ekki við neinn venjulegan andstæðing að ræða þegar hann riðaði og var næstum dottinn afturábak í gólfið undan harðri höggahríð Bretans. Honum tókst með mikilli kænsku að koma sér út úr vandræðunum og plataði besta dómara heims í leiðinni svo að dómarinn fór á taugum og fór að skipta sér á fráleitan hátt af hæstu návígum. 

Eftir fimm lotur var Mayweather búinn að læra á hið illskeytta og óstöðvandi breska tígrisdýr sem aldrei hefur tapað og aldrei verið slegið niður enda þolað hvað sem er og étið högg eins og konfekt á sigurbraut sinni.

Mayweather þurfti að taka á allri kænsku sinni og útsjónarsemi, nota alla klæki í návígi og hvílast sig þar til þess að geta tekið stuttar skorpur þar sem hann kom eldsnörpum og nákvæmum höggum og gagnhöggum á andstæðinginn, sem hins vegar sló óteljandi högg sem annað hvort voru stöðvuð eða hittu ekki eins og til var ætlast. 

Þannig skipulagði Mayweather orkunotkun sína af mikilli snilld og aðlagaði sig smám saman að bardagaaðferð andstæðingsins uns tækifærið kom: Í leiftursókn Hattons þar sem hann stökk fram og sló hraðan vinstri krók, vék Mayweather sér eins og eldiing til hliðar og sló um leið hægri handar högg á sem var enn hraðara en högg Hattons og hitti nákvæmlega þar sem því var ætlað á kjálka Hattons sem hljóp á höggið og sá það aldrei.

Þá hafði hann af og til í bardaganum fengið á sig nákvæm högg Mayweathers án þess að riða og sagði eftir bardagann að hann hefði oft fengist við þunghöggari andstæðinga sem þó hefðu aldrei komið sér úr jafnvægi. Munurinn var hins vegar sá að hann hafði aldrei áður fengið á sig svo mörg nákvæm, hröð og vel tímasett högg.  

Hann fór í gólfið í fyrsta skiptið á ferlinum og eftirleikurinn var gargandi snilld.

Í þessum bardaga sýndi Mayweather allt sem besti hnefaleikari heims getur haft upp á að bjóða, - aðlögunarhæfni, bardagavilja, skipulagningu á notum úthalds síns, seiglu, hraða, ofurtækni í sókn og vörn, nákvæmni og tímasetningar. 

Þetta var eitthvert besta skólabókardæmi um hágæðaframmistöðu sem aðeins bestu meistarar geta gefið.  

Í þeim ham sem hann er nú er hann að mínum dómi besti hnefaleikari sem ég hef séð síðan ég fór að horfa á hnefaleika að staðaldri fyrir tuttugu árum. (Pund fyrir pund eins og það er kallað).

Þetta var sigur mannshugans, skynseminnar og tækninnar yfir hráu afli, - sigur nautabanans yfir nautinu.

Með því er ég ekki að kasta neinni rýrð á Hatton, getu hans, dugnaðar og hugrekkis, frekar en dýrð Alis kasti rýrð á Joe Frazier.

Þetta var að mínum dómi eins magnað og hægt er að ætlast til af nokkrum íþróttaviðburði. Og þá er gaman.

Fjórar hliðstæður úr hnefaleikasögunni koma upp í hugann.

Ali-Bonavena. Samskonar atvik í 15. lotu. Bonavena hafði aldrei áður verið sleginn niður.

Ali-Liston: "Draugahöggið" fræga, sem nýjar myndir sanna að var raunverulegt rothögg.

Sugar Ray Robinson-Gen Fullmer: Sams konar atvik, oft kallað "draumahöggið". Fullmer hafði aldrei áður verið sleginn niður.

Rocky Marciano-Jersey Joe Walcott: Svipað atvik, stundum kallað svakalegasta rothögg sögunnar. 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðríður Haraldsdóttir

Í svona tilfellum get ég gargað yfir því að vera ekki með Sýn. Sagði henni upp, þrælmóðguð þegar Sýn 2 var sett á laggirnar, hét því að styrkja hvoruga stöðina fyrst Enska boltanum var troðið á aðra stöð ... fannst ég borga alveg nóg fyrir. Vona að ég eigi eftir að sjá þennan bardaga síðar.

Guðríður Haraldsdóttir, 9.12.2007 kl. 13:33

2 Smámynd: Haukur Nikulásson

Takk fyrir lýsinguna Ómar. Var einmitt í gær að skoða á Youtube Clay(Ali)/Liston draugahöggið. Höggið var nefnilega raunverulegt en staðsetning myndavélarinnar óheppileg til að ná því vel.

Mér fannst Hatton svo kjaftfor fyrir leikinn að hann hefði fyrr drepist en að tapa. En þessir kallar haga sér um líkt eins og fjölbragðaglímumenn, setja upp kjafthátt og jafnvel smá pústra sem sýninginu til að espa upp áhugann á leiknum. Þeir kunna þetta. 

Haukur Nikulásson, 9.12.2007 kl. 14:02

3 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Mér fannst reyndar ekkert að dómgæslunni hjá Cortes, nema etv í tveimur fyrstu lotunum. Þið Bubbi misstuð ykkur alveg í hneikslun fram eftir öllum bardaganum. Sigurinn var sanngjarn.

Gunnar Th. Gunnarsson, 9.12.2007 kl. 16:16

4 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ómar mér finnst þú rýra mjög trúverðugleika þinn með þessari boxdellu þinni. Þú þykist vera á móti umhverfisspjöllum, en styður þá íþrótt (sennilega er það rangnefni yfir hnefaleika) sem gengur út á að vinna umhverfisspjöll á kórónu sköpunarverksins, mannslíkamanum.

Það er löngu vitað að hægt er að drepa mann með einu höggi, eða gera hann að grænmeti, eins og gerðist með sennilega leiknasta boxara allra tíma, Muhammed Ali. Mér finnst þú vera á rangri hillu með því að vera þátttakandi í þessari féflettingarvél sem gengur út á ofbeldi, sem nútíma hnefaleikar eru. 

Theódór Norðkvist, 9.12.2007 kl. 17:39

5 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er ekki fylgjandi því að lögleiða atvinnuhnefaleika á Íslandi og styð því ekki það að vinna umhverfisspjöll á mannslíkanum. Ég er hins vegar fylgjandi ólympískum hnefaleikum vegna þess að þar gengur íþróttin út á það eitt að vinna á stigum og höfuðhlífar eru notaðar, loturnar styttri og miklu færri og ströng læknisgæsla viðhöfð. Enda er slysatíðni meiri í mörgum öðrum íþróttagreinum en ólympískum hnefaleikum.

Sennilega rotast fleiri á Íslandi í handbolta og knattspyrnu en í hnefaleikum. Sjálfur hef ég rotast einu sinni og það var í knattspyrnu innanhúss.

Samkvæmt áliti Theódórs mætti ég ekki lýsa skylmingum, skotfimi, karate eða glímu vegna þess þær snúast um það að stinga menn á holi, skjóta þá í tætlur, limlesta þá eða níða þá með ofbeldi ofan í gólfið í ljótum byltum.

Ekki væri heldur við hæfi að ég reyndi að fjalla um styrjaldir eða hergögn vegna þess að stríð snýst um að drepa fólk.

Sakamálasögu mætti ég heldur ekki skrifa og velta mér upp úr morðum og afbrotum sem eru ólögleg og siðlaus.

Það var hrein tilviljun að ég fékk ungur minn fróðleik um hnefaleika. Bók um sögu hnefaleikanna var á bænum þar sem ég var í sveit og ég las hana og lærði upp til agna á sama hátt og Bererly Gray og Bennabækurnar, markaskrána og handbók bænda.

Það var aðeins þessi þekking sem varð til þess að Bubbi leitaði til mín sem nokkurs konar sagnfræðings á sviði hnefaleika.

Ómar Ragnarsson, 9.12.2007 kl. 19:07

6 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Hvað snertir dómgæsluna vorum við Bubbi ekki einir um að vera gagnrýnir á hana, bæði á meðan á þessu stóð heldur einnig eftir bardagann. Allir sem hlustuðu á okkur hafa þó væntanlega heyrt að Bubbi gekk lengra í þessari gagnrýni og hélt henni lengur til streitu en ég.

Á tímabili græddi sá sem braut á brotinu, þ. e. Mayweather læsti Hatton fastan með handleggnum og beygði sig of langt og sneri jafnvel í hann bakinu.

Hatton kvartaði aldrei yfir lásnum og Cortes losaði þess vegna ekki hnefaleikarana í sundur fyrir Hatton heldur græddi Mayweather á því.

Ég tek það ekki til mín að kenna dómaranum um úrslit leiksins. Allir sem hlustuðu á okkur Bubba ættu að hafa heyrt það sem ég sagði og hann samsinnti, að sem betur fer hafði dómgæslan engin afgerandi áhrif á úrslit bardagans.

Þegar ég lýsi hér að ofan því að frammistaða Mayweathers jafnist á við það besta í sögu hnefaleikanna get ég ekki séð annað en ósvikna hrifningu mína yfir henni.

Ómar Ragnarsson, 9.12.2007 kl. 19:20

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Þú getur ekki lagt að jöfnu annars vegar skylmingar, þar sem menn eru í hlífðarbúningi, skotfimi, karate og glímu og hinsvegar atvinnuhnefaleika eins og sýnt er á Sýn.

Ólympískir hnefaleikar eru annars eðlis en sú ofbeldisíþrótt sem atvinnuhnefaleikar eru. Sjónvarp hefur mikil áhrif á hugsanagang fólks, sérstaklega ungu kynslóðarinnar, sem elst þá upp við þau skilaboð að það sé bara í góðu lagi að berja annað fólk í köku.

Á tímum vaxandi ofbeldis eigum við ekki að vera að koma svoleiðis skilaboðum til barna og unglinga. Sem betur fer eru hnefaleikar, ólympískir og atvinnuhnefaleikar bannaðir hér á landi. Það er hinsvegar ekki bannað að sýna þá, sem mér finnst óeðlilegt, en það er önnur saga.

Þú mátt að sjálfsögðu lýsa hverju sem þú vilt, Ómar. Ég er einungis að benda á að hnefaleikar eru "iðnaður" sem gerir út á blóðþorsta og ofbeldishneigð og ég myndi halda að þeim sem þykir vænt um orðspor sitt, myndu ekki vilja leggja nafn sitt við svoleiðis lagað.

Theódór Norðkvist, 9.12.2007 kl. 19:45

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ólympíuhreyfingin taldi það ekki sverta orðspor sitt að velja Muhammad Ali til að fara síðasta spölinn með ólympíukyndilinn og kveikja eldinn á leikunum. Ekki heldur allir þeir þjóðhöfðingjar sem tóku á móti honum og veittu honum margs konar heiður.

Ekki heldur virtir sérfræðingar tímaritsins Time sem völdu Ali, einn íþróttamanna, sem einn af hundrað mestu snillingum (genius) 20. aldarinnar.

Ekki töldu þeir kvikmyndagerðarmenn sem gerðu Óskarsverðlaunamyndina "When we were kings" sig sverta orðspor sitt að gera mynd um bardagann "rumble in the jungle" milli Ali og Foreman í Zaír 1974 og ekki virtist kvikmyndagerðarakademían heldur telja það sverta orðspor sitt að veita henni Óskarsverðlaunin.

Frægir rithöfundar á borð við hinn nýlátna Norman Mailer voru ósmeykir við að kynna sér dramatíkina í hnefaleikunum og tjá sig um hana.

Roosevelt Bandaríkjaforseti óttaðist ekki um orðspor sitt þegar hann bauð Joe Louis í Hvíta húsið fyrir bardagann við Max Schmeling, þreifaði á upphandleggsvöðvum Louis og mælti eitthvað á þá leið að á þessum vöðvum ylti heiður lýðræðisþjóða heimsins.

Höfuðhlífarnar og allar reglurnar í kringum þá hnefaleika, sem leyfðir eru hér á landi, ættu að flytja þau skilaboð til ungs fólks að þessi varúð sé ekki höfð að ástæðulausu.

Ég held að allar kvikmyndirnar þar sem hetjurnar eru lúbarðar og þeim misþyrmt og birtast síðan aftur örskömmu síðar sléttgreiddir geti borið með sér varasöm skilaboð.

Björn Bjarnason kirkjumálaráðherra ætti samkvæmt röksemdafærslu þinni, Theódór, alls ekki að láta það vitnast að hann sé hrifinn af myndum með Bruce Willis og ekki væri ég í góðum málum ef ég væri kvikmyndasérfræðingur og álpaðist til að gefa myndum sem sýna átök góða umsögn.

Ómar Ragnarsson, 9.12.2007 kl. 21:37

9 identicon

"Þú mátt að sjálfsögðu lýsa hverju sem þú vilt, Ómar. Ég er einungis að benda á að hnefaleikar eru "iðnaður" sem gerir út á blóðþorsta og ofbeldishneigð og ég myndi halda að þeim sem þykir vænt um orðspor sitt, myndu ekki vilja leggja nafn sitt við svoleiðis lagað."

Þetta er bara alls ekki rétt. Slagsmál gera út á blóðþorsta og ofbeldishneigð, ekki box. Box er einfaldlega íþrótt og þar læra menn bæði og virðingu fyrir andstæðingum. Box er ekki sama og slagsmál. Ég held því miður að ásakanir þínar séu byggðar á fordómum. Það væri mjög ósanngjarnt og óeðlilegt að Ómar hætti að fjalla um box bara vegna þess að hann er formaður umhverfisverndarflokks. Sé ekki hvernig það ætti að hafa eitthver áhrif. Og það var skömm ef hann myndi gera það þar sem þekking hans og vitneskja um box er ómetanleg.

"Á tímum vaxandi ofbeldis eigum við ekki að vera að koma svoleiðis skilaboðum til barna og unglinga. Sem betur fer eru hnefaleikar, ólympískir og atvinnuhnefaleikar bannaðir hér á landi. Það er hinsvegar ekki bannað að sýna þá, sem mér finnst óeðlilegt, en það er önnur saga."

Það eru engin skilaboð verið að koma til barna og unglinga með því að sýna box. Þau gera sér grein fyrir hvað er á ferðinni og það er íþrótt. Tveir menn að keppa. Ekki ólíkt skák eða tennis. Börn og unglingar apa ekki hugsanarlaust eftir öllu sem þau sjá, sama hvað forræðishyggjufólk vill trúa.

Óeðlilegt að það skuli ekki vera bannað sýna hnefaleika? Þá spyr ég bara, hvað með kvikmyndir? Það er ofbeldi í þeim, jafnvel þeim íslensku. Ef þú telur að banna ætti sýningu á hnefaleikum (sem allir gera sér grein fyrir að er íþrótt, ekki blóðþyrst slagsmál) þá hlýtur það sama að ganga yfir annað afþreyingarefni sem hefur að geyma slagsmál. Það væri nú ekki gaman ef einu kvikmyndirnar sem við mættum horfa á væru rómantískar gamanmyndir og barnamyndir.

Allt það fólk sem ég þekki sem hefur áhuga á boxi eða stundar box er langt frá þeim blóðþyrsta og ofbeldishneigða veruleika sem þú lýsir. Þetta eru einfaldlega fordómar og ekkert annað.

Persónulega finnst mér ótrúlegt að svona skoðanir megi enn finna á árinu 2007. Sem betur fer fer þeim skoðunum fækkandi.

Unnþór (IP-tala skráð) 10.12.2007 kl. 00:12

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Það er ljóst að ég hef komið við kvikuna í einhverjum. Fyrir það fyrsta þá virði ég menn eins og Muhammed Ali fyrir hugrekki, sem ég neita ekki að þarf til að mæta ofvöxnum durgum í þröngum hring sem vilja berja úr manni líftóruna.

Ég tók hann sem dæmi, þar sem hann er kominn með Parkinson, sem er afleiðing af þeim höggum sem hann fékk á sig og líka vegna þess að hann var öðrum fremri í því að víkja sér undan höggum og samt er hann svona illa farinn. Hvernig haldið þið að þeir sem búa ekki yfir eins miklum hæfileikum fari út úr þessari svokölluðu íþrótt eftir 10-20 ára feril?

Þið eruð báðir mjög blindir ef þið neitið því að hnefaleikaiðnaðurinn geri út á ofbeldisdýrkun og hasar. Hvað með alla blaðamannafundina, eða réttara sagt skrípaleikina, þar sem andstæðingarnir hóta að þeir ætli að slökkva hvor á öðrum og lendir jafnvel saman? Er það ekki vegna þess að forráðamenn hnefaleikanna vita að ofbeldi selur?

Hvað með brjálæðinginn Mike Tyson? Hvers vegna voru bardagar hans alltaf vinsælir? Ef ekki væri fyrir boxið þá hefði þessi maður verið í grjótinu eða á meðferðarhæli. Síðan fitna siðleysingjar eins og Don King og fleiri eins og púkinn á fjósbitanum á því að tveir kjötskrokkar berja líftóruna hvor úr öðrum.

Það er ástæða fyrir því að þessi ruddalega íþrótt sé bönnuð hér á landi, þá á ég við atvinnuhnefaleika, ólympískir hnefaleikar eru víst leyfilegir, því miður.

Það er læknisfræðilega viðurkennt að högg á höfuðuð getur valdið lífstíðarlömun, jafnvel dauða. Fyrir einhverjum árum síðan drap skoskur knattspyrnumaður mann með einu höggi. 

Theódór Norðkvist, 10.12.2007 kl. 01:27

11 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Ég held að þeir sem vilja banna öðrum að stunda hnefaleika ættu að einbeita sér að reka áróður fyrir því heima hjá sér og láta það duga.

Allir vita að íþróttir og félagslegt athæfi hverskonar er áhrifaríkasta vopnið gegn áfengis og vímuefnanotkunn. Mismunandi skapgerðir manna ráða því gjarnan hvaða íþróttagrein á best við hvern. Sumir rekast vel í hópíþróttum, en aðrir í einstaklingsíþróttum. Fjölbreytnin er bara af hinu góða.

Mér finnst alltaf hálf ömurlegt þegar fólk setur sig í siðferðislegar stellingar til að segja öðrum hvað því er fyrir bestu. Slíkir fyrirlestrar eru ágætir eins og áður segir, innan veggja heimilisins, hvað val á ástundun íþróttagreina áhrærir.

Annars er mér alltaf minnisstætt þegar ég var að horfa á hnefaleika í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum og dóttir mín, þá 10 ára gömul sagði upp úr eins manns hljóði: "Ekki vildi ég vera hnefaleikari". "Nú", sagði ég. "Nei, þá væri alltaf verið að berja mann", sagði hún þá og ekki hefur hvarflað að mér að hvetja hana til að stunda hnefaleika síðan.

Gunnar Th. Gunnarsson, 10.12.2007 kl. 02:22

12 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Það er mjög persónubundið hve vel fólk þolir álag og meiðsli í íþróttum. Engar tölur liggja fyrir um það að hnefaleikarar séu skammlífari en aðrir íþróttamenn. Margir af þekktustu hnefaleikurum sögunnar, sem létu sig hafa miklar barsmíðar, hafa orðið allra karla elstir.

Þannig komst Max Schmeling, sem Joe Louis barði hvað eftirminnilegast árið 1938, á tíræðisaldur og hafði þó staðið í barmíðunum frá æskuárum fram til fimmtugs.

Síðan eru aðrir sem verr þola, puttabrotnir markmenn, hlauparar með "hlauparaveiki" (tábergssig) og hnjámeiðsl og afleiðingar íþróttaslysa. Til er dæmi hér á landi um handboltamarkmann sem fékk of mörg þung höfuðhögg við það að boltanum var skotið í höfuð hans. Slíkt virtist ekki bíta á aðra.

Ef menn vilja útrýma íþróttum af þessum sökum er það gert á afar einhæfum forsendum því að ávinningurinn af því að stæla líkama sinn, kraft, snerpu, þrek og úthald skilar áreiðanlega miklu meira debetmegin en meiðslin gera kreditmegin, að ekki sé talað um þá ögun og þjálfun hugar og persónuleika sem íþróttirnar gefa.

Enn er þá ótalið hið félagslega gildi og nauðsyn þess að veita ungu fólki eitthvað til að hafa fyrir stafni.

Vill fólk frekar að unglingarnir séu að slæpast í misjöfnum félagsskap um kvöld og helgar?

Ekkert fæst ókeypis. Persónulega sé ég ekki eftir því að hafa reynt að halda mér í formi með iðkun íþrótta. En ég þarf nú að borga fyrir það að hluta til með því að kjást við slitin hné, tábergssig og samfall í neðstu hryggjarliðunum.

Eitthvað af þessu hefði þó líklega herjað á mig hvort eð var og líklega væri ég nú að sligast af offitu og þrekleysi ef íþróttirnar hefðu ekki komið til.

Torfi Bryngeirsson haltraði meirihluta ævi sinnar. "Íþróttameiðsli" sagði hann við mig. Hann vildi samt ekki skipta á þeim og Evrópumeistaratitli sínum.

Maður gerir auðvitað mistök og stundum vegna þekkingarleysis. Í nokkur ár spiluðum við hjá Sjónvarpinu innanhússfótbolta á steingólfi og hefðum ekki átt að gera það. Flestir sluppu við afleiðingar af því en ekki ég.

Ég hef stundum sagt í hálfkæringi að það góða við íþróttaiðkun væri að maður fengi betri skilning á kjörum fatlaðra við að vera í sporum þeirra af og til.

Ómar Ragnarsson, 10.12.2007 kl. 13:21

13 Smámynd: Ólafur Jónsson

Smá leiðrétting með Ali, bardagarnir móti Norton ( þrír talsins) og Frazier ( 3 talsins) og á móti einum höggþyngsta manni hnefaleikasögunar Georg Foreman þar sem Foreman hamaðist á honum í 8 lotur þar til hann sprakk, í þeim bardaga og í öllum hinum tók hann á sig endalaust mikið af höggum, fyrir utan það að eftir að hann var komið með einkenni parkinson og orðinn gammall, þá hélt hann áfram að berjast. Þannig ef það á að nefna hann sem dæmi um mann sem fékk fá högg en miklar afleiðiningar. Þá er ekki hægt að velja verra dæmi til að röskstuðnings.

Ólafur Jónsson, 10.12.2007 kl. 13:55

14 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ómar stillir málinu þannig upp að þeir sem eru á móti hnefaleikum vilji frekar að unglingar séu að slæpast á götunum. Því fer fjarri. það eru til fleiri tugir íþróttagreina sem hægt er að stunda, bæði hóp- og einstaklingsíþróttir. Hvort þeim myndi fækka um eina held ég að hafi engin úrslitaáhrif í þeirri viðleitni að draga úr fjölda þeirra sem ánetjast vímuefnanotkun.

Í umræðum á Alþingi lagðist Katrín Fjeldsted læknir og fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins mjög gegn því að leyfa áhugamannahnefaleika. Ég hygg að fáir hafi viðað að sér jafn mikilli þekkingu um skaðsemi hnefaleika en Katrín.

Meirihluti heilbrigðis- og trygginganefndar lagðist gegn frumvarpinu. Hægt er að lesa álit nefndarinnar með því að smella HÉR og feril málsins á Alþingi, en niðurstöður nefndarinnar eru þessar helstar (orðréttar tilvitnanir):

  • Upplýsingar um slysatíðni í íþróttum gefa iðulega skakka mynd þar sem ekki eru settar fram tölur sem taka tillit til fjölda iðkenda eða tímalengdar heldur er gjarnan miðað við þann fjölda sem kemur á slysadeild til skoðunar eða meðferðar eftir íþróttaiðkun
  • Það sem aðgreinir hnefaleika frá öðrum íþróttagreinum er að höggum er vísvitandi beint að líkama andstæðingsins, markmiðið er að koma höggi á andstæðinginn, fara inn fyrir varnir hans og þar með meiða hann.
  • Slysatíðni er vissulega há í nokkrum öðrum íþróttagreinum en þar gegnir yfirleitt öðru máli þegar ekki er um ásetning að ræða heldur slys eða brot á leikreglum. Í hnefaleikum er markvisst reynt að koma höggi á andstæðinginn og fær keppandi stig fyrir högg á höfuð jafnt sem aðra líkamshluta. Einnig eru veitt stig fyrir rothögg og þótt rothögg séu ekki verðlaunuð sérstaklega í áhugamannahnefaleikum fær keppandi stig fyrir höfuðhögg.

 

Theódór Norðkvist, 10.12.2007 kl. 19:29

15 Smámynd: Ólafur Jónsson

Það er allveg ótrúlegt að flest allar þjóðir heimsins virðast hafa hnefaleika leyfilega, þessar þjóðir kannast greinilega ekki við Katrínu Fjeldsted.

Ólafur Jónsson, 10.12.2007 kl. 20:41

16 Smámynd: Theódór Norðkvist

Í mörgum löndum er umræða um að banna hnefaleika. Í þessu nefndaráliti sem ég vísa í, sem að vísu er 6 ára gamalt, kemur fram að Norðmenn voru þá að íhuga þann möguleika að banna allar íþróttir þar sem höfuðhögg eru leyfð.

Alþjóðlegu læknasamtökin vilja banna hnefaleika með öllu, fastanefnd evrópskra lækna tekur undir það og bresku læknasamtökin vilja banna höfuðhögg í hnefaleikum. Þetta kemur fram í nefndarálitinu sem ég vísa til í síðustu athugasemd minni.

Það er engin tilviljun að samtök lækna leggjast almennt gegn hnefaleikum, enda þekkir sú starfsstétt sennilega allra best skaðleg áhrif höfuðhögga á heilann og augun. 

Theódór Norðkvist, 10.12.2007 kl. 21:14

17 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Kannanir hafa sýnt að þegar unglingar hætta íþróttaiðkunn eða annari uppbyggilegri félagslegri þáttöku, þá aukast líkur á miður heppilegri hegðun og atferli. Dæmi eru um unga menn sem finna sig einfaldlega ekki í neinni íþrótt nema hnefaleikum. Á að banna þeim að stunda þá íþrótt?

Gunnar Th. Gunnarsson, 11.12.2007 kl. 02:32

18 Smámynd: Theódór Norðkvist

Gunnar, það er frekar vont að svara einhverju svona, þar sem skellt er fram "kannanir hafa sýnt" og "dæmi eru um unga menn..." Hvaða kannanir og hvaða dæmi? Geturðu nefnt dæmi?

Iðkun áhugamannahnefaleika er leyfð hér á landi og ég hef svo sem ekki talað um að banna það aftur, þó ýmis rök mæli með þannig banni. Það er reyndar eitt að æfa ólympíska hnefaleika, en annað að keppa í þeim.

Fyrst þú nefnir unga menn með aðlögunarvandamál, sem myndu ekki finna sig í neinni annarri íþrótt, þá vil ég segja þetta: Það er nógu slæmt að þurfa að lenda í einhverjum vanstilltum ungum drukknum manni með vitið í vöðvunum, þó hann kunni ekki bardagalistir. Enn verra er að lenda í svoleiðis vitleysing, ef hann kann að "slökkva" á fólki með einu höggi!

Theódór Norðkvist, 11.12.2007 kl. 13:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband