15.6.2007 | 14:25
ÞAÐ ERU TAKMÖRK.
Undanfarin örfá ár hefur átt sér stað meira hestaflakapphlaup bílaframleiðanda en dæmi eru um síðan á árunum 1954 - 70. Líklega er kapphlaupið meira nú því að hestöflin fyrir 40 árum voru SAE-hestöfl og 425 SAE hestöfl jafngilda líklega ekki nema rúmlega 300 nú. Enginn af helstu bílaframleiðendum heims telur sig geta boðið upp á minna en 500 hestöfl í einhverjum bíla sinna og nokkrar bílategundir fást með 600 og allt upp í 1001 hestafl!
Bugatti Veyron kemst á 2,4 sekúndum úr kyrrstöðu upp í 100, rúmlega tíu sekúndum upp í 200 og rúmlega 20 sekúndum upp í 300 ef ég man rétt. Hámarkshraði: 406 kílómetrar á klukkustund.
Reynslan úr rallakstri á níunda áratugnum sýnir að það eru takmörk fyrir því hve mörg hestöfl eigi að bjóða í bílum. Þá voru keppnisbílar þeirra bestu komnir upp fyrir 400 hestöfl og mikil slysaalda skall á.
Niðurstaðan varð sú að minnka aflið og getuna með reglum og slysunum fækkaði. Við skulum athuga að í rallinu voru færustu ökumenn heims undir stýri og samt þurfti að takmarka afl og getu bíla þeirra.
Mikil geta snerpa bíls getur verið öryggisatriði við framúrakstur og í tilvikum þar sem það getur verið gott að vera fljótur að bregðast örugglega við aðstæðum.
En til þess þarf ekki 500 hefstöfl.
Hugmyndir um að takmarka hestaflafjölda bíla sem yngstu ökumennirnir aka er að mínum dómi ekki réttlát. Frekar ætti að miða við getu bílanna t. d. hvort þeir komist úr kyrrstöðu upp í 100 á ákveðnum tíma.
Upplýsingar um það liggja fyrir hjá bílaframleiðendum.
Bendi á blogg mitt hér að neðan um það hvort það að gera ökutæki upptæk standist jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.
![]() |
Missti stjórn á 500 hestafla ofursportbíl sem endaði á umferðarskilti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.6.2007 | 14:10
STENST ÞETTA JAFNRÆÐISREGLUNA?
Á Selfossi er röggsamur sýslumaður sem ætlar að sjálfsögðu að beita tiltækum ráðum gegn þeirri atlögu gegn öryggi almennings sem gerð var með háskaakstri vélhjóla á dögunum og stofnaði lífi og limum fjölda fólks í hættu. Sniglarnir ætla líka að grípa til harðra ráðstafana og ber brýna nauðsyn til svo að hægt sé að bæta ímynd bifhjólasamtakanna. Um þetta er ekkert nema gott að segja. Hins vegar má velta því fyrir sér hvort upptaka ökutækja í svona tilfellum standist jafnræðisreglu stjórnarskárinnar.
Fyrirmynd upptöku tækjanna, sem notuð eru, má sjá í viðurlögum við landhelgisbrotum, - heimild til að gera afla og veiðarfæri upptæk.
En þetta er ekki alveg sambærilegt. Í landhelgisbrotunum er refsað með aflaupptöku af því að því meira sem hefur aflast, þeim mun meira hefði lögbrjóturinn grætt ef hann hefði komist upp með brotið.
Því stærri og dýrari veiðarfæri sem hann notaði, þeim mun meira hefði hann getað veitt sér til hagnaðar á ólöglegan hátt.
Niðurstaða: Eðli brotsins og ávinningur af því, ef ekki komst upp um það, er því meiri sem aflinn er meiri og veiðarfærin afkastameiri.
Þessu er ekki alveg svona farið um ökutæki. Allir sem hafa kynnt sér vélhjól vita að það þarf ekki að eiga dýrt vélhjól til að skapa alveg ótrúlega mikla hættu. Vegna léttleika síns hafa vélhjól yfirburði yfir bíla í "spyrnu" miðað við verð, stærð og vélarafl.
Það er líka vitað að hægt er fyrir tiltölulega lítinn pening að kaupa sér mjög öflugan, snarpan og hraðskreiðan bíl, ef hann er kominn til ára sinna.
Það er hægt að kaupa sér nýjan lítinn GTI-bíl sem nær 200 kílómetra hraða fyrir brot af verði stærri bíls sem er hvorki hraðskreiðari né fljótari í spyrnu.
Það er hægt að valda jafn mikilli hættu með háskaakstri á þröngri götu í Reykjavík og á auðum og beinum vegi úti á landsbyggðinni.
Setjum sem svo að maður valdi slysum og stórfelldri hættu inni í borginni á tiltölulega ódýru ökutæki og annar ökumaður samsvarandi hættu á rándýru ökutæki úti á þjóðvegi? Stenst það jafnræðisreglu að í báðum tilfellum skuli ökutækin vera gerð upptæk?
Tilbúið dæmi: Þrír menn fara í fáránlega hættulegan kappakstur á ólíkum bílum.
Einn er á Suzuki Swift árgerð 1990 sem hann keypti á 200 þúsund krónur.
Annar er á Cadillac Eldorado fornbíl árgerð 1981,toppeintaki með öllum hugsanlegum þægindum, metinn á margar milljónir króna.
Hinn þriðji er á splunkunýjum Hummer H3 með öllum græjum sem meta má á annan tug milljóna króna.
Swift eigandinn á upptökin, kemur upp að hinum bílunum tveimur sem aka samhliða úr austurátt að Höfðabakkabrúnni á leið til borgarinnar, og egnir þá í spyrnu.
Swift eigandinn veit að ódýri litli bíllinn hans er bæði fljótari í spyrnunni og nær meiri hraða en hinir bílarnir og þegar honum gengur síðan best í spyrnunni, verður það til þess að þetta verður að einvígi hans við Cadillakkinn sem setur alla umferðina í uppnám þegar komið er niður Ártúnsbrekkuna.
Hummerinn dregst strax aðeins aftur, ökumaðurinn missir stjórn á bílnum við akreinaskipti í framúrakstri og klessukeyrir bílinn strax án þess að ná sama hraða og hinir.
Hinir tveir eru mældir á 180 kílómetra hraða fyrir neðan Ártúnsbrekkuna og hlekkist báðum á, en bílarnir eru þó báðir nær óskemmdir.
Ofsaksturinn olli hins vegar árekstri tveggja annarra bíla þar sem bílstjórarnir fipuðust og afleiðingarnar meiðsl á mönnum og skemmdir á ökutækjum.
Dómsniðurstaða: Swiftinn og Cadillakkinn gerðir upptækir en Hummereigandinn tapar mestu því að hann gjöreyðilagði bíl sinn.
Sanngjörn niðurstaða sem stenst jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar?
Ég er ekki að mæla með vægari refsingum heldur hlýtur að vera hægt að þyngja refsingar fyrir slíka árás á almennt öryggi, sem um rætt, á réttlátari hátt þannig að alvarleiki brotsins ráði en ekki tilviljunarkennd eignarhald.
Menn segja kannski að þeir sem eigi dýrari ökutækin hafi augljóslega frekar efni á að láta þau af hendi en eigendur ódýrari ökutækja en það er ekki einhlítt.
Þannig er alveg til í dæminu að eigandi rándýrs fornbíls sé ekki ríkur af neinu öðru en þessu þurftarfreka áhugamáli sínu en eigandi léttari og ódýrari bíls sé vel stæður.
Gaman væri að heyra álit fólks á þessu.
![]() |
Vill að mótorhjólin verði gerð upptæk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (22)
15.6.2007 | 00:30
ÁFANGASIGUR Í FLÓANUM.
Hver hefði trúað því fyrir fimm mánuðum að hreppsnefnd eins hreppsins sem á land á virkjunarsvæði Neðri-Þjórsár myndi leggjast gegn stærstu virkjuninni?
Í janúar var ekki annað að heyra hjá Landsvirkjun en að allt væri að verða klappað og klárt fyrir virkjanirnar, og nánast formsatriði að ganga frá málum í framhaldi af tilraunaborunum og rannsóknum þar sem starfsmenn fóru um lönd manna að vild.
Landsvirkjun benti á að í mati rammanefndar um virkjun vatnsafls og jarðvarma hefðu þessar virkjanir fengið einkunnina a, sem þýddi að umhverfisáhrif voru talin með minnsta móti. Og í andófi gegn Norðlingaölduveitu neyddust umhverfisverndarsamtök til þess að forgangsraða og einbeita sér að efri hluta árinnar.
Það var síðan í kringum síðustu áramót að ég átti ég þess kost að vera í sambandi við andófsfólk eystra og sitja undirbúnigsfund fámenns hóps sem vildi ekki láta hugfallast þótt segja mætti um þá, sem sýndist við ofurefli að etja, að orð skáldsins "hnípin þjóð í vanda", lýsti best ástandinu.
Skemmst er frá því að segja að upp úr þessu spratt hreyfing sem ekki blómstraði aðeins með eftirminnilegum hætti á fjölmennum fundi í Árnesi, heldur er það alveg víst, að bréf, sem bændur eystra sendu Hafnfirðingum rétt fyrir kosningarnar um álverið, reið baggamuninn um þann sigur sem þar vannst.
Ályktun hreppsnefnar Flóahrepps er gleðilegur vottur um vitundarvakningu sem kemur Landsvirkjunarmönnum sem betur fer óþægilega á óvart.
En munum að þetta er aðeins áfangasigur. Framundan er löng og ströng barátta því einskis verður svifist af hálfu þeirra sem sætta sig ekki við annað en allar þrjár virkjanirnar til þess að knýja þær fram með öllum tiltækum ráðum.
Í þeirri viðureign ríður á miklu á láta ekki gylliboð og loforð um peninga hafa sitt fram, heldur hafa í huga fordæmi Sigríðar í Brattholti sem aldrei sagðist selja vin sinn og frekar láta fallast í fossinn en horfa á þegar hann yrði þurrkaður upp og færður í fjötra í dimmu fangelsi fallganganna.
Ég sendi hreppsnefnd Flóahrepps árnaðaróskir og samfagna Ólafi Sigurjónssyni og fleiri vinum mínum í sveitinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)