22.9.2007 | 20:44
DANSKUR PRÓFESSOR RANNSAKAÐI ÞETTA BEST
Grímseyjarferjan og Kárahnjúkavirkjun, sem næstu blogg á undan þessu fjalla um, eru ekki fyrstu verkefnin á vegum hins opinbera sem fara fram úr áætlun. Rannsóknir Bent Flyvbjergs, prófessors í Árósum hafa varpað skýru ljósi á þetta í bókum hans og ritgerðum. Þær lágu fyrir við upphaf Kárahnjúkaframkvæmdanna og hefðu átt að vera mönnum vegvísir.
Í stuttu máli var meginniðurstaða Flyvbjergs sú að stærstu og flóknustu opinberu verkefnin færi oftast mest fram úr áætlun og skekkjurnar væru skuggalega háar, að meðaltali tugir prósenta og ævintýrlegar fjárhæðir.
Oft var um svokallaða "minnismerkisáráttu" stjórnmálamanna að ræða, - manna sem gátu ráðskast með opinbert fé í trausti þess að almenningur borgaði brúsann seinna.
Ég hafði samband við Flybjerg á sínum tíma og kynnti mér rit hans lauslega, - fór meira að segja sérstaka ferð til Árósa til að ná hafa við hann viðtal sem ég gæti haft í heimildarmynd minni um Kárahnjúka.
Því miður fórum við á mis í Álaborg og ég hafði aðeins upp úr þeirri ferð myndir af háskólanum og brú og göngum undir Limafjörð sem ég á enn án þess að hafa fengið tækifæri til að nota þær.
Nú er verið að pæla í því hvernig Sundabraut skuli vera og því kannski einhver lærdómur af því hvernig þessar tvær lausnir hafa gefist í Árósum.
![]() |
Flest verkefni fram úr áætlun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.9.2007 | 15:49
GOTT HJÁ ÞÉR, KRISTJÁN MÖLLER!
Hve oft hafa þeir sem ábyrgð bera ekki færst undan því að kannast við að þeim hafi orðið á? Þetta hefur verið íslenskur plagsiður og nánast hefð sem Kristján Möller hefur rofið og á skilda þökk og virðing fyrir að biðja Einar Hermansson afsökunar. Í bloggi mínu hér á undan er fjallað um það gagnstæða, hvernig stöðugt hefur verið reynt að breiða yfir það að fyrirsjáanlegt var að ekki yrði hægt að klára Kárahnjúkavirkjun á réttum tíma.
Enginn er fullkominn og öllum verður á. Kristján Möller hefur vonandi sett nýtt viðmið með afsökunarbeiðni sinni.
![]() |
Kristján biðst afsökunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2007 | 00:30
TVEGGJA ÁRA BLEKKING OG AFNEITUN.
Fyrir tveimur árum var ljóst að það myndi dragast allt að ári að hægt yrði að hleypa vatni frá Hálslóni til stöðvarhúss Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdal. Allan þennan tíma hafa talsmenn virkjunarinnar verið í afneitun og yfirhilmingu í líkingu við það sem gerist hjá áfengissjúklingum og komið með nýjar og nýjar dagsetningar og spuna um það hvernig hægt yrði a gera hið ómögulega, þ. e. að láta dæmið ganga upp á tilsettum tíma.
Upphaflega var gert ráð fyrir að heilt ár liði frá því að lokið yrði að bora göngin frá Hálslóni austur um og þar til að þau yrðu fullgerð. En Landsvirkjunarmenn fundu ráð við því: Það átti bara að klára frágang ganganna si svona á helmingi styttri tíma, meðal annars með því að ganga frá ýmsu í göngunum nokkurn veginn samtímis því sem verið var að bora.
Nú kemur auðvitað í ljós að þetta gengur ekki upp en til að reyna að friða menn og róa er notuð sama aðferðin og notuð var þegar verið var að bora. Með því að fylgjast með hraða borananna mátti snemma á ferlinum að það verk myndi tefjast stórlega.
Það var ekki fyrr en ég birti útreikning minn í sjónvarpsfrétt sem ekki var hægt að hrekja að loksins var viðurkennt hve seint verkið gekk raunverulega. Sú sjónvarpsfrétt fór í loftið í febrúarbyrjun 2006 en í maí áttaði minn ágæti kollega, Kristján Már Unnarsson á Stöð tvö á því, að upplýsingar Landsvirkjunar höfðu afvegaleitt hann og þá loks kom hjá honum frétt um það hvernig mál voru raunverulega vaxin.
Þessa þrjá mánuði fjölluðu fréttirnar, sem fjölmiðlamenn voru mataðir á, um "hraðamet" hjá borum og þeim jákvæðu molum, sem hægt var að finna til að fóðra fjölmiðlana á.
Það sem ég setti fram strax í júlí 2004 í bókinni "Kárahnjúkar - með og á móti" um seinkun á virkjuninni hefur smám saman verið að koma fram og fleira á eftir að koma fram þótt síðar verði.
Það hefur stundum verið sagt um alkóhólista að sjúkleiki þeirra segi ekkert um gáfur eða góðsemi þeirra, - hinnir skörpustu og mætustu menn geti lent í þeirri afneitun og sjálfsblekkingu sem þessi sjúkdómur hefur í för með sér.
Svipað má segja um þá góðu góðu og gegnu menn sem hafa verið í forsvari fyrir þeim undanslætti og yfirhilmingu sem hefur falist í því að breiða yfir hina raunverulegu stöðu mála við virkjanaframkvæmdirnar eystra, - því miður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)