21.1.2008 | 17:58
SPURNINGIN UM ÞJÓÐARGRAFREITINN.
Nú er þessu máli greftrunar Fishers lokið og eftir situr spurningin um Þjóðargrafreitinn þar sem aðeins tveir menn hvíla. Á sínum tíma velti ég upp spurningunni um það hvort til greina kæmi að stækka kirkjugarðinn við Suðurgötu til suðurs, þar sem nú er allstórt autt svæði og að með því yrði þessi kirkjugarður eins konar þjóðargrafreitur þar sem þegar hvíla ýmis stórmenni eins og Jón Sigurðsson og Hannes Hafstein.
Hugmyndin um þjóðargrafreitinn hér á landi er vafalaust í upphafi sprottin af erlendum fyrirmyndum því að fæstum þjóðum er sama um hvar merkustu synir og dætur þeirra hvíla. Í eins litlu þjóðfélagi og því íslenska verður hins vegar ævinlega vandi að velja þá úr sem eiga að hvíla í slíkum grafreitum.
Það er hins vegar allt í lagi að velta upp spurningunni með þjóðargrafreitinn með vissu millibili. Grafreiturinn á Þingvöllum er alltaf álitamál á meðan hann er því horfi sem hann er núna.
Ef Jónas Hallgrímsson hefði hvílt í þjóðargrafreitshluta kirkjugarðsins við Suðurgötu hefði verið lagður blómsveigur að leiði hans á 200 ára afmælisdegi hans, en á meðan hann hvílir á Þingvöllum gerist slíkt ekki.
Greftrun Fishers var snjall lokaleikur í lífstafli hans og í hans stíl. Hann átti síðasta orðið, leik, sem enginn sá fyrir annar en hann, Fisherklukkan stöðvuð, skák og mát.
![]() |
Fischer jarðsettur í kyrrþey |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
21.1.2008 | 10:05
CHILI CON CARNE !
Ofangreind þrjú orð voru áreiðanlega nærri því að koma fram á varir hljómleikagesta í Landholtskirkju í gærkvöldi þegar Kammerkór kirkjunnar þurfti að svara uppklappi í lok vel heppnaðrar tónleika. Ég leyfði mér að segja við Jón Stefánsson kórstjóra eftir tónleikana að flutningur þessa lags hefði í mínum eyrum markað þau tímamót hér á landi að í fyrsta sinn hefði íslenskur kór í efsta gæðaflokki flutt suðræna danstónlist á frábæran hátt.
Latin-tónlist býður upp á fleira en góð tækifæri fyrir hljómsveitir og einsöngvara og það sýndi sig svo sannarlega í flutningi Kammerkórsins á ofangreindu lagi þar sem einstakar raddir kórfélaga koma að hluta til í stað hljóðfæra til að skapa hárnákvæman og þýðan hryn svo að hljómleikagestir fari ósjálfrátt að dilla sér í sætum kirkjunnar.
Þessir tónleikar voru með jassívafi og kvartett skipaður þeim Sigurði Flosasyni, Einari Scheving, Davíð Þór Jónssyni og Valdimari Kolbeini Sigurjónssyni ýmist lék sérstaklega eða með kórnum og gaf þessum tónleikum einstaklega líflegan og skemmtilegan blæ.
Á efnisskránni voru mjög fjölbreytt lög úr ólíkum áttum, bæði ljúf, ómstríð, þung og létt svo að reyndi vel á fjölhæfni kórsins í blæbrigðaríkum og ákaflega þéttum söng.
Það var boðið upp á sannkallað eyrnakonfekt í Langholtskirkju í gærkvöldi og gaman til þess að vita að bæði gaman og alvara, þungi og léttleiki fái að njóta sín í húsi Drottins og sonar hans, þess er boðaði fagnaðarerindi lífsgleðinnar.
Ég sagði við sonarsyni mína, sem sátu næst mér og hafa báðir gaman af tónlist, að þeir gætu farið margar pílagrímsferðir síðar meir til hinna ýmsu landa til að upplifa tónlistina sem fjarlægar þjóðir hafa skapað, þar á meðal þá tónlist sem ræður ríkjum á karnivali í Ríó.
Hvað Kammerkórinn og aðra kóra snertir gæti til dæmis verið spennandi að leita fanga í sérstæðri tónlist þjóðanna syðst í Afríku, sem er afar heillandi og lék til að mynda mjög stórt hlutverk í eftirminnilegri kvikmynd um baráttumanninn Biko.
Á ferð okkar hjóna um Mósambík kynntumst við þessari tónlist vel í grasrótinni meðal fólksins í Hindane þar sem það kom saman á útihátíð til að fagna Íslendingum og þakka fyrir aðstoð við að reisa læknaingamiðstöð. Þarna söng fólkið og lék á frumstæð hljóðfæri.
Minnisstætt var þegar unglingur einn sem snæddi nesti sitt með fjölskyldu sinni tók fram heimasmíðaðan gítar og lék á hann af snilld. Gítarinn var gerður úr bensínbrúsa, sem sagað hafði verið gat á, og negld á hann spýta og sett á hana vírastrengir.
Með ólíkindum var hvað þessi unglingur gat spilað á þennan núll krónu gítar sinn og einnig hvernig fólkið söng í kórum með heimagerðum raddsetningum sem hafa lifað kynslóð fram af kynslóð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)