FAÐERNI, - GRUNDVALLAR MANNRÉTTINDI.

Það kunna að vera skiptar skoðanir um þetta mál en mér finnst það vera grundvallarmannréttindi að hver maður geti fengið að vita um kynföður sinn ef þess er óskað. Þetta er auðvitað ekki einfalt mál og gagnvart kynfeðrunum þurfa að vera ákvæði sem koma í veg fyrir að þeir beri af því skaða þegar og ef að því kemur að börn þeirra vilja fá að vita hverjir þeir eru. Þótt þessir kynfeður kæri sig kannski ekki um að vita um afkomendur sína þegar gjöfin á sér stað er aldrei að vita nema að þeim snúist hugur síðar.

Hins vegar verða þeir að gera sér grein fyrir því að þeir geti ekki ruðst inn í líf óviðkomandi fólks hvenær sem er. Barninu verður að vera tryggt öruggt, friðsælt og gott uppeldi hjá fósturföður, einstæðri móður eða fósturmóður ef um lesbíska sambúð er að ræða.

Annars hef ég ekki pælt eins mikið í þessu flókna máli og ef til vill þarf til að komast að óyggjandi niðurstöðu. Set þetta því fram með þeim fyrirvara að áskilja mér rétt til að skipta um skoðun í þessu máli ef ný sjónahorn eða upplýsingar koma fram.


mbl.is Eftirspurn eftir dönsku sæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÓÐINN, LIFANDI SAFNGRIPUR.

Allar þjóðir, sem hafa staðið í hernaðarátökum, geyma skip, flugvélar, landfarartæki, hús og aðrar minjar til að minnast þeirra. Þrjú þorskastríð Íslendinga voru ekkert annað en hernaðarátök, því að varðskipin voru vopnuð og ekki þarf að spyrja um eðli herskipa Breta. Þótt Týr lenti í mestu og frægustu átökunum og hefði kannski þess vegna átt að varðveita hann lentu hin varðskipin líka í árekstrum og átökum. Óðin hefur sérstöðu að einu leyti.

Það er sú staðreynd að eini heimildarmyndarþátturinn af lífinu um borð í herskipunum í leiðangri út á vígstöðvarnar fjallar um Óðin og var tekin um borð í skipinu í nokkurra daga leiðangri ca 15-20 desember 1975. Skipið lenti í návígi gagnvart breskum herskipum og rætt var við skipverja og fylgst með þeim við skylduströrfin.

Leiðangurinn endaði á óvæntan hátt, því að vegna eldgoss við Leirhnjúk var því snúið til Húsavíkur til að vera þar til taks.

Þátturinn hét "Heimsókn. Á vígstöðvum þorskastríðsins." Ég held að upplagt væri að láta þessa mynd malla í borðsalnum um borð eða á öðrum heppilegum stað í skipinu sem partur af stemingunni og einnig er spurng hvort aðrar heimildarmyndir um þorskastríðin gætu verið þar á boðstólum. Að sjálfsögðu þarf að safna saman eins mörgum ljósmyndum og öðrum gögnum um þorskastríðin og unnt er. Einnig að spila þau tvö lög sem þrjú lög sem gefin voru út á plötum um þau.

Eitt óvenjulegt atriði í myndinni af ferð skipsins er fólgið í því að vélin í vélarsalnum spilar með takti sínum lagið "La danza". Litlu munaði að klipping þessa atriðis klúðraðist því að nóttina fyrir útsendingu þegar verið var að klippa það til að skila því í hljóðsetningu morgunin eftir kom í ljós að skipsvélarnar gengu ekki á jöfnum hraða heldur á misjöfnum hraða eftir því hvort skipið var á leið nður í öldudal eða upp úr honum.

Ég sendi klipparann heim um miðja nótt og hélt einn áfram að reyna að leysa málið alveg fram á morgun. Vandamálið fólst í því að takmörk voru fyrir því hve mikið og oft var hægt að klippa filmuna niður. Loksins tókst það þó.

Þorskastríðin eru einu hernaðarátökin sem Íslendingar hafa lent í. Sem betur fór varð ekki mannfall eins og í öðrum hernaðarátökum og ber að þakka forsjóninni og ábyrgum skipherrum fyrir það.


HVAÐ ER OG HVAÐ ER EKKI?

Ef Helgi Pjeturs hefði haldið því fram fyrir 60 árum að til væri svarthol og að hugsanlegt væri að hægt sé að fara í gegnum feril á þann hátt að maður drepi langömmu sína hefði hann verið talinn geggjaður. Hann hélt hins vegar fram fjarhrifakenningu sem fékk menn til að efast um að hann væri með öllum mjalla. Hvert okkar mun nokkurn tíma vita hvað er og hvað er ekki.
mbl.is Gríðarstórt svarthol fundið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

SIGRAR SYÐRA OG NYRÐRA.

Það blés ekki byrlega síðla sumars í fyrra fyrir gömlum húsum við Hafnarstræti á Akureyri og Laugaveg í Reykjavík. Allt stefndi í niðurrif. Nú er það þannig að flestir hlutir þurfa endurnýjun og borgin okkar er í sífelldri umsköpun. En hið óstöðvandi niðurrifsstarf hefur hins vegar verið með þeim hætti, að sagt var og vísað í það ástand sem orðið var:  Nú er hvort eð er búið að rífa svo mikið að það tekur því ekki að vera að varðveita  hús sem hvort eð er eru ónýtt kofadrasl.

Svipuð rök eru óspart notuð víðar. Það er hvort eð er búið að virkja svo sundur og saman á Hengils- og Hellisheiðarsvæðinu að það tekur því ekki að friða þar neitt. Það er hvort eð er búið að virkja svo mikið af Þjórsá að það tekur því ekki að þyrma neinu af henni. 

Úr því að Kárahnjúkavirkjun fékkst í gegn með mestu mögulegu óafturkræfu umhverfisspjöllum sem hægt var að framkvæma á Íslandi er fánýtt að berjast gegn virkjunum, sem valda mun minni spjöllum.

Ég hældi Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir það að bjarga Hótel Akureyri og er ánægja að endurtaka þakkir til hennar fyrir að upplýsa að úrslitin við Laugaveg væru henni að skapi.

Það kom þó ekki til hennar kasta í því tilfelli heldur borgaryfirvalda og sá sigur er einkum að þakka þrotlausri baráttu Ólafs F. Magnússonar, Margrétar Sverrisdóttur og samherja þeirra í þessu máli. Fyrir góða baráttu Torfusamtakanna og fleiri s. s. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fjölgaði húsverndarfólki á síðustu stigum þessa máls.  

Ég hef áður rökstutt það hvers vegna ég taldi rétt að falla frá því sem ætlunin var að framkvæma á lóðum Laugavegar 4 og 6.

Ég skokka og hraðgeng með reglulegu millibili upp og niður Laugaveg mér til heilsubótar og ánægju og hugnaðist það ekki þegar ég tók eftir því, einkum á austurleið, að skyndilega var ég kominn á kafla götunnar sem ég kannaðist ekki lengur við. 

Ekki það að úr því sem komið er sé í lagi að hafa þessa kafla svona áfram, heldur hitt, að það blasti við að með sama áframhaldi myndi þessi einstæða gata á Íslandi glata algerlega sjarma sínum og hlýlegu og vinalegu yfirbragði.

Þeir sem vilja ryðja öllu gömlu miskunnarlaust burt átta sig ekki á því hvers virði það er fyrir tengsl og menningu kynslóðanna að til séu svæði og griðareitir sem gerbreytast ekki með hverri kynslóð.

Mér er það mikils virði að ganga og upplifa sama Laugaveg og foreldrar mínir og afar og ömmur gerðu og vita að börn mín, barnabörn og afkomendur þeirra muni upplifa þennan sameiginlega menningararf og söguslóðir á sama hátt og lifa sig inn í kjör og þann rarf sem þarf að ganga kynslóð fram af kynslóð til þess að auðga líf og tilfinningar þeirra allra og ímynd og sjálfsvitund borgarbúa og landsmanna allra.

Menn eru að býsnast yfir kostnaði við að koma húsaröðinni frá horni Laugavegar og Skólavörðustígs í skikkanlegt horf. Þessi kostnaður getur orðið á við verð nokkurra einbýlishúsa í Fossvogsdal.

Meðal nágrannaþjóða okkar horfa menn ekki í slíkan kostnað. Með skynsamlegri endurgerð húsanna neðst við Laugaveg verður ekki tjaldað til einnar nætur heldur til allrar framtíðar og hægt að nota þau til nytsamlegra hluta. 

Má þar benda á tillögu Björns Björnssonar um að í öðru húsinu verði leikmunasafn, steinsnar frá Þjóðleikhúsinu.  

Í þessum málum þarf að horfa langt en ekki skammt. Á sínum tíma voru byggingarnar í Viðey að grotna niður. Margir býsnuðust yfir kostnaðinum við það að koma þeim í skaplegt horf og held ekki að neinn geti verið annað en stoltur yfir því í dag hvernig þar var staðið að verki.  

 


mbl.is Borgin kaupir Laugaveg 4 og 6
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. janúar 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband