15.10.2008 | 20:12
Snýst um traust, en hvar finnst það?
"Stjórnmál snúast um traust" sagði Davíð Oddsson þegar hann var beðinn um að leggja mat á það hvort ákveðinn þingmaður ætti að segja af sér. Kannski ráðast kosningarnar á fulltrúum í Öryggisráðið að fleiri atriðum en trausti en þetta eru þó alþjóðastjórnmál.
Yfirlýsingin fræga um að við ætluðum ekki að borga og aðrir viðburðir sem hafa komið Íslandi á forsíður fjölmiðla í heiminum eru ekki traustvekjandi, heldur þvert á móti. Líklegast verður 5-600 milljónum sem varið hefur til kosningabaráttunnar sturtað niður í klósettið eins og svo mörgu öðru þessa dagana.
Ég lít ekki á slíkt sem stórt slys heldur nauðsynlega flengingu.
Og er það nokkuð slæmt? Kannski var það bara best að þetta og annað færi svona illa til þess að við eigum möguleika á að hreinsa til og koma endurnærð úr þeirri meðferð og endurhæfingu sem við þurftum greinilega hvort eð er meira á að halda en nokkru öðru.
![]() |
Hörð barátta um sæti í öryggisráðinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.10.2008 kl. 20:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
15.10.2008 | 19:37
Fyrirbærið í hnotskurn.
Þegar ég kom út úr Leifsstöð um helgina og horfði yfir bílastæðið fyrir norðan hana blasti við mér myndgert skipbrot lífsstíls okkar undanfarin ár. Á þessu eina bílastæði voru verðmæti upp á hundruð milljóna króna sem voru langt umfram þarfir eða jafnvel efnahag þeirra sem áttu meginhluta bílanna.
Svona hefur þetta verið á öllum sviðum þjóðlífsins, - einbýlishús um og yfir 100 milljónir hvert, 50 milljón króna sumarhús, lúxus og bruðl hvert sem litið var. Og fæst af þessu gagnast okkur nú. Það verður ekki hægt að flytja þessi hús til útlanda og kaupa önnur minni í staðinn.
Ég þarf að fara að drífa í setja hér á síðuna ljósmyndir sem ég hef tekið af Range Rover, Porche, löngum amerískum torfærupallbílum og öðrum ofurjeppum svokölluðum, um og yfir þriggja tonna hlunkar með læstum drifum, upphækkanlegum vagni, ofurlágum skriðgírum, allt að 500 hestafla vélum og hverju eina.
En þegar nánar er að gætt sést að undir bílunum eru dekk sem eru svo næfurþunn og lág, að aðeins 4-5 sentimetrarer eru frá malbikinu upp í felgu! Þessi svonefndu ofur-torfærutröllið komast sem sé ekki einu sinni út af malbikinu inn á venjulegan íslenskan malarveg og var greinilega aldrei ætlað að fara um malarvegi eða vegleysur heldur vera myndarlegt stöðutákn.
![]() |
Aumingja Range Rover |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.10.2008 | 12:48
Hvenær náum við botninum?
Kreppur eru mislangar og misdjúpar. 1907 stefndi í óefni í fjármálakerfi Bandaríkjanna en fyrir stórbrotin tilþrif eins mans, J.P. Morgans, tókst að afstýra því að mestu. 1929 var hið opinbera hins vegar aðeins 2% af hagkerfi Bandaríkjanna og því fór sem fór. Þá náði kreppan botni þremur árum síðar og stóð alls í áratug.
Á Íslandi náði hún botninum 1939 en stríðsgróðinn bjargaði okkur þá. Kreppan er enn á byrjunarstigi hér og erlendis. Við verðum að vera viðbúin hinu versta og vona það besta. Jafnvel þótt hin alþjóðlega kreppa verði hvorki langvinn né djúp munum við þurfa að steypa okkur í slíkar skuldir að það tekur mörg ár, jafnvel áratug að vinna okkur út úr því. Þá er bara að taka því.
Ef það fer þannig mun stóra "barnalánið" frá 1980 verða á gjalddaga á hugsanlega versta tíma, árið 2015 þegar það fellur allt í gjalddaga ásamt vöxtum í 35 ár. Þetta lán er einhver ömurlegasti minnisvarði sem nokkur kynslóð hefur reist um sjálfa sig og því miður virðist þjóðin lítið hafa lært síðan þá, - hugsar mest um lausnir sem bitna á afkomendunum.
1917 var dýpsta kreppa síðustu aldar hér á landi með tilheyrandi dýrtíð. Henni lauk nokkrum árum síðar og Íslendingar nutu ávaxtanna af "the roaring twenties" út næsta áratug.
Þá var þjóðin óendanlega verr undir kreppu búin efnalega en nú. Við eigum því að geta komist betur af nú en þá en á móti kemur að lífsgæðakröfurnar hafa kannski dregið úr okkur máttinn til að standa upprétt og taka á málum af hreysti og hugrekki.
![]() |
Spáir 75% verðbólgu á næstunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)