"Ísland hefur komist á kortið".

"Ísland hefur komist á kortið" sagði utanríkisráðherra um kjörið í Öryggisráðið sem fór eins og ég hafði spáð, að þar réði lögmálið að stjórnmál snúast um traust. Ég skildi aldrei óraunhæfa bjartsýni ráðherranna nú síðustu dagana um þetta kjör.

Því miður komst Ísland ekki á kortið fyrir mikla verðleika eins og til hafði staðið heldur vegna  hins  sama og  þegar frambjóðendur verða fyrir því að leitað er að veikleikum þeirra fyrir kosningar. Það þurfti raunar ekki að leita að þeim, - við sáum sjálf fyrir því að útvega fréttir af þeim. 

Kannski komst Ísland á jákvæðan hátt á kortið alveg fram undir síðustu vikur, en kjörið til Öryggisráðsins varð hins vegar til þess að leiða aukna athygli að veikleikum okkar og gera meira en eyðileggja þá jákvæðu ímynd okkar  sem reynt hafði verið að byggja upp með ærnum tilkostnaði. Var þó vart á illt umtal bætandi þessa ömurlegu daga þegar við höfum að endemum "komist á kortið" um víða veröld.  


mbl.is Ísland náði ekki kjöri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítið gleður ungan í anda á dögum válegra tíðinda.

Ég var svo lánsamur að læra að aka bíl erfiðustu leiðina fyrir rúmri hálfri öld. Fyrst var það Fordson-dráttarvélin í sveitinni, sem maður fékk að reyna sig við ellefu ára þegar fæturnir voru orðnir nógu langir og öflugir til að stíga kúplinguna niður.

Síðan kom vörubíllinn hans pabba sem þurfti að tvíkúpla í hverri gírskiptingu vegna þess að engin samhröðun var á milli gíranna. Þetta var gert þannig, að á meðan gírstöngin var í hlutlausum á milli gíra, var gefið inn hæfilega mikið og lengi til að bæði viðkomandi tannhjól snerust á sama hraða svo að skiptingin varð ljúf og hljóðlaus. Annars brakaði. 

Seinna fattaði ég það þegar ég var kúplingslaus á Prinzinum litla í nokkrar vikur að hægt var að skipta hljóðlaust á milli gíra án þess að nota kúplingu, ef gefið var "milligas" á hárréttu augnabliki og í hárréttan tíma. Til að koma bílnum af stað úr kyrrstöðu setti maður hann bara í annan gír, ýtti honum af stað og stökk niður í hann! (Bíllinn var aðeins 480 kíló)

Í ferð um Kárahnjúkasvæðið í gær og í dag uppgötvaði ég síðan og margprófaði aðferð til að skipta á milli háa og lága drifsins á jeppum á fullri ferð. Það er hægt að gera með því að gefa inn rétt á meðan gírkassinn er á milli háa og lága drifsins og skipta á hárréttum tíma.

Svo lærir lengi sem lifir og ég varð ungur í annað sinn við að uppgötva þetta, enda segir máltækið: Lítið er ungs manns gaman.  


Mátti kannski stela okkar Davíð í nokkra daga (eða lengur)

Kannski hefði maður sloppið hjá því að vera niðurlægður erlendis sem Íslendingur ef einhver Íslandsvinur hefði stolið okkar Davíð í nokkra daga meðan hann var að sturta áliti þjóðarinnar niður í klósettið í beinni útsendingu í sjónvarpi um víða veröld, hrópandi: Við borgum ekki! Við borgum ekki!
mbl.is Davíð konungi í Vorrar frúarkirkju stolið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sleppi því að lesa hana aftur.

Sú var tíðin að maður var ungur og fannst maður ekki vera viðræðuhæfur um stjórnmál nema að hafa kynnt sér helstu fræðibækur um kommúnismann og kaptíalismann. Auðmagnið var þeirra á meðal. Ég keypti því á fornbókasölu helstu rit um hvort tveggja og böðlaðist í gegnum torfið. Sérstaklega fannst mér stjórnarskrár Sovétríkjanna og Bandaríkjanna flottar lesningar, þótt erfitt væri að skilja hvers vegna einkum stjórnarskrá kommanna virkaði alls ekki.

Kommúnisminn féll 1989-91 og ég held að rit hans séu í einhverjum kössum í geymslunni minni ásamt ritum Adams Smith og fleiri.

Ég hef ekki áhuga á að fara niður í geymslu til að grafa þessi rit upp og reyna að sjá hvað fór úrskeiðis. Ég á eina meginskýringu fyrir sjálfan mig: Báðir aðilar gleymdu að taka mennlegt eðli, breyskleika og veikleika með í reikninginn.

Ég held að ný rit muni líta dagsins ljós um þá Útópíu sem menn finna kannski út úr hruni kommúnismans og strandi óhefts kaptílisma. Ef mér líst vel á þau gæti ég hugsað mér að kaupa þau, - ef ég hef þá efni á því í Íslandskreppu næstu ára.   


mbl.is Auðmagnið selst vel í kreppunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppboð í Vöku.

Þegar fíkillinn rankar úr rotinu eftir fallið mikla blasir kaldur veruleikinn við: Hann er búinn að missa allt og svo kaldhæðnislega sem það hljómar á hann meiri möguleika á að vinna sig upp frá botninum en þegar áföllin voru minni og hægt að "redda" sér tímabundið án þess að taka á vandanum til frambúðar. Þá tókst honum að bjarga bílnum undan hamrinum og þeim verðmætum sem hefðu farið í súginn á uppboði í Vöku.

Nú er verið að bjóða upp íslensk verðmæti víða um lönd og þeir sem kaupa á uppboðinu eru himinsælir með góð kaup en íslenski fíkillinn grætur tapið. 

Þá gleymist það kannski að sá sem keypti eigi kannski betur skilið að eiga hlutinn en sá sem kunni ekki með að fara og þannig muni verðmætið nýtast eins vel og hægt er, þótt í öðru landi sé.

 


mbl.is Glitnir í Svíþjóð seldur á útsölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 17. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband