Lítið gleður ungan í anda á dögum válegra tíðinda.

Ég var svo lánsamur að læra að aka bíl erfiðustu leiðina fyrir rúmri hálfri öld. Fyrst var það Fordson-dráttarvélin í sveitinni, sem maður fékk að reyna sig við ellefu ára þegar fæturnir voru orðnir nógu langir og öflugir til að stíga kúplinguna niður.

Síðan kom vörubíllinn hans pabba sem þurfti að tvíkúpla í hverri gírskiptingu vegna þess að engin samhröðun var á milli gíranna. Þetta var gert þannig, að á meðan gírstöngin var í hlutlausum á milli gíra, var gefið inn hæfilega mikið og lengi til að bæði viðkomandi tannhjól snerust á sama hraða svo að skiptingin varð ljúf og hljóðlaus. Annars brakaði. 

Seinna fattaði ég það þegar ég var kúplingslaus á Prinzinum litla í nokkrar vikur að hægt var að skipta hljóðlaust á milli gíra án þess að nota kúplingu, ef gefið var "milligas" á hárréttu augnabliki og í hárréttan tíma. Til að koma bílnum af stað úr kyrrstöðu setti maður hann bara í annan gír, ýtti honum af stað og stökk niður í hann! (Bíllinn var aðeins 480 kíló)

Í ferð um Kárahnjúkasvæðið í gær og í dag uppgötvaði ég síðan og margprófaði aðferð til að skipta á milli háa og lága drifsins á jeppum á fullri ferð. Það er hægt að gera með því að gefa inn rétt á meðan gírkassinn er á milli háa og lága drifsins og skipta á hárréttum tíma.

Svo lærir lengi sem lifir og ég varð ungur í annað sinn við að uppgötva þetta, enda segir máltækið: Lítið er ungs manns gaman.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fróðlegt, gamli vinur. Rifjast upp að þeir  bílar sem ég keyrði í gamla daga hjá  Vegagerðinni, og þurfti að tvíkúpla , þegar skipt var, GMC  tíu hjóla frá  hernum , GMC 1947 (fáir slíkir fluttir inn) Ford 1947 V8 (skemmtilegasta vél,sem ég upplifað) o.fl. voru þannig að  ekki  þurfti að gefa inn  á milli  , nema þegar skipt var  niður og  þá  fór inngjöfin  eftir  hraðanum. En eins og  þú segir  tímasetningin skipti öllu. Ekki mátti "bursta tennurnar"!  GMC 1947  var reyndar með  svo lágum  fyrsta  gír, að það  var útilokað annað  en  stoppa   til að koma honum í fyrsta. Þegar  tekið var af  stað með  fullt hlass í  fyrsta  gír  varð  að gera það mjög nett og varlega -  annars braut hann öxul. Þannig var nú það. Seinna keyrði ég Benz  1959 hjá  VR  líklega  tólf tonna. Hann  var með miklu  fullkomnari  gírkassa, sex  gíra og þurfti ekki að  tvíkúpla nema niður í lægstu  gírana. Hann var líka með mótorbremsu sem var þarfaþing.

Eiður (IP-tala skráð) 18.10.2008 kl. 10:57

2 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Takk fyrir skeytið, vinur kær. Ef V-8 flatheddarinn hefði bara fengið að eiga sitt undirþýða hljóð einn í stað þess að það drukknaði í hávaðinum í gírkassanum! Nema í fjórða gír, þegar hlutfallið var einn og á móti einum. Toppventlavélarnar voru alltaf hávaðasamari vegna þess hve mikill hávaði slapp í gegnum heddið.

Þessi ábending mín er sett fram vegna þess að ég hef verið í för með fjölmörgum jöklajeppamönnum þar sem það hefði getað skipt sköpum við vissar aðstærður að vera fljótur að skipta á milli háa og lága drifsins í stað þess að stoppa.  

Ómar Ragnarsson, 18.10.2008 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband