19.10.2008 | 20:40
Eins og talað út úr mínu hjarta.
Því miður þurfti hrun bruðls- og græðgisvæðingarinnar til að loksins fengist tækifæri til að líta á það sem allan tímann hefur verið eina færa leiðin út úr vanda landsmanna ef koma í veg fyrir að unga fólkið flýi land.
Kosturinn sem Björk og félagar bjóða upp á er svo miklu betri en felst í bænarskjali sveitarstjórnarmanna um álver með tilheyrandi spjöllum á mestu verðmætum landsins, nýrri skuldsetningu til framkvæmda um stundarsakir og nokkur hundruð störfum sem í auglýsingum Alcoa eru auglýst þannig að enga sérstakrar menntunar sé krafist.
Varnarlínan hefur alltaf legið í Leifsstöð og unga fólkinu verður því aðeins haldið á landinu að skapa því aðstæður til skapandi starfa sem byggja á hugviti og menntun. Á ótal alþjóðlegum ráðstefnum um vandamál jaðarbyggða hefur þetta verið niðurstaðan. Ungt vel menntað fólk verður að fá tækifæri, annars leitar það annað.
Það verður ekki um kyrrt í verksmiðjusamfélagi á útskeri við Norður-Íshafið þar sem kreppa hefur haldið innreið sína.
Ef unga fólkið fer vantar fólk á besta aldri til að leggja verðmæti í þjóðarbúið til að halda uppi lágmarks velferð fyrir unga, aldraða og sjúka. Nú eru stóru kynslóðirnar frá miðri síðustu öld að verða gamlar og skapa auknar byrðar fyrir heilbrigðis-og velferðarkerfið.
![]() |
Róttæk endurskoðun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
19.10.2008 | 14:56
Hin mikla afneitun.
Jón Baldvin Hannibalsson fór á kostum í Silfri Egils í dag rétt eins og hann gerði fyrir einu og hálfu ári. Þá flutti hann líka í Hafnarfirði bestu ræðu um íslensk virkjanamál sem ég hef heyrt. Jón Baldvin er eini Íslendingurinn sem hefur lært sérstaklega í háskóla til að verða forsætisráðherra á sama tíma og Seðlabankastjóri okkar er viðundur meðal Seðlabankastjóra heimsins.
Ég hef margsinnis bent á í bloggpistlum mínum að fyrstur til að axla ábyrgð á strandi íslensku þjóðarskútunnar ætti að vera Davíð Oddsson í stað þess að þvælast fyrir, skrökva að þjóðinni að hann hafi hvergi nálægt komið og halda áfram að vera hindrun í vegi fyrir óhjákvæmilegri björgun með hjálp aðvífandi björgunarmanna.
Trúi ég þá svo ótrúlegum hlut að seðlabankastjórinn þvælist fyrir? Því miður verð ég frekar að trúa því heldur en hinu alveg eins og ég neyddist til að trúa því sem ég sá með eigin augum í beinni útsendingu erlendis þegar hann rúði þjóðina endanlega öllu trausti á nokkrum mínútum.
Það er langt síðan að honum hætti að vera sjálfrátt, því miður. Það hefur gerst áður að gáfuðustu menn hafa neitað að horfast í augu við skipbrot sitt og afneitunin verið alger og yfirþyrmandi. Verst er þegar slíkt dregur hundruð þúsunda annarra með sér.
![]() |
Jón Baldvin: Seðlabankastjóri þvælist fyrir á strandstaðnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
19.10.2008 | 12:32
Einhverjir aðrir en fíkillinn.
Flóttinn er hafinn frá þeirri staðreynd að íslensk áhættu- og bruðlfíkn var fyrst og fremst það sem lagði íslenskan þjóðarauð í rúst. Notkun Breta á hryðjuverkalögum er að sjálfsögðu fordæmanleg en það er mikil einföldun að samantekin ráð seðlabanka nágrannalandanna hafi ein fellt hina íslensku spilaborg.
Þeim hefur að sjálfsögðu verið ljós sú staðreynd að íslenski seðlabankastjórinn var vanhæfur og viðundur meðal þróaðra þjóða, ráðinn á svipaðan hátt og gerist í hjá vanþróuðum þjóðum með landlæga spilingu.
Hann gerði hver mistökin af öðrum og með endemum var framganga þeirra Íslendinga sem lengst gengu í fylleríispartíinu og hrifu marga grandalausa með því að leyna staðreyndum. Nú stendur fyrir dyrjum að borga tjónið eftir því sem það er hægt og þrífa til.
Lítið er minnst á það að það eru einkum tveir aðilar sem eiga sök á því hvernig komið er fyrir okkur. Það eru annars vegar við sjálf og hins vegar kerfi undirmálslána, vogunarsjóða og spillingar í fjármálakerfi Bandaríkjanna.
Þegar fíkillinn ekur ofurölvi á ofsahraða í hálku og stórskemmir bíla á bílastæði og höfuðkúpbrotnar kennir hann hálkunni um og tínir sem flest annað til en þá staðreynd að hann þurfi að fara í meðferð og endurhæfingu.
Þegar reiður eigandi bíls á stæðinu ræðst á fyllibyttuna og lemur hana verður þessi óafsakanlega árás að aðalatriðinu í huga fíkilsins að ekki sé nú talað um þá vanrækslu á því að eyða hálkunni við stæðið.
![]() |
Þeir felldu bankana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)