Eins og talað út úr mínu hjarta.

Því miður þurfti hrun bruðls- og græðgisvæðingarinnar til að loksins fengist tækifæri til að líta á það sem allan tímann hefur verið eina færa leiðin út úr vanda landsmanna ef koma í veg fyrir að unga fólkið flýi land.

Kosturinn sem Björk og félagar bjóða upp á er svo miklu betri en felst í bænarskjali sveitarstjórnarmanna um álver með tilheyrandi spjöllum á mestu verðmætum landsins, nýrri skuldsetningu til framkvæmda um stundarsakir og nokkur hundruð störfum sem í auglýsingum Alcoa eru auglýst þannig að enga sérstakrar menntunar sé krafist.

Varnarlínan hefur alltaf legið í Leifsstöð og unga fólkinu verður því aðeins haldið á landinu að skapa því aðstæður til skapandi starfa sem byggja á hugviti og menntun. Á ótal alþjóðlegum ráðstefnum um vandamál jaðarbyggða hefur þetta verið niðurstaðan. Ungt vel menntað fólk verður að fá tækifæri, annars leitar það annað.

Það verður ekki um kyrrt í verksmiðjusamfélagi á útskeri við Norður-Íshafið þar sem kreppa hefur haldið innreið sína.

Ef unga fólkið fer vantar fólk á besta aldri til að leggja verðmæti í þjóðarbúið til að halda uppi lágmarks velferð fyrir unga, aldraða og sjúka. Nú eru stóru kynslóðirnar frá miðri síðustu öld að verða gamlar og skapa auknar byrðar fyrir heilbrigðis-og velferðarkerfið.


mbl.is Róttæk endurskoðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Efnahagsástandið er allt mér að kenna.

Ég sem þjóðfélagsþegn í þessu landi hef verið sofandi á verðinum gegn spillingu og sjálftöku úr ríkiskassa mínum.

En nú er komið nóg.

Ég hvet alla að hafa samband við alla til þess að sýna ráðamönnum þessarar þjóðar fyrir hverja þeir vinna.

Við getum ekki sofið lengur og hugsað þetta reddast, aðgerða er þörf núna.

Við öll erum þjóðin ,við öll berum ábyrgð á íslandi sínum ábyrgð og mætum öll á Austurvöll

Laugardaginn 25 Oktober KL15:00

Sýnum styrk okkar og samstöðu, komum út úr holunum og mótmælum öll

Æsir (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 20:51

2 identicon

Tek undir með þér Ómar!

Þetta er það sem þarf. Að tala, þora og gera. Við eigum fullt af fólki sem getur tengt þjóðina saman í eitt stórt björgunarnet, með fullt af frábærum hugmyndum.

En það þarf að stýra fóki sem er svífandi í lausu lofti og veit ekki hvað það á að gera, eða veit ekki hvernig það getur gefið reiðinni uppbyggilegan farveg.

Myllfríður Högnadóttir (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 21:00

3 identicon

Kæri Ómar.

Störfin sem Alcoa auglýsir og þarfnast engrar menntunar eru störf við framleiðslu, þessi störf hafa alltaf verið til á Íslandi. Störf við Landbúnað, störf við Fiskvinnslu, störf við Veiðar, störf við Verslun... Án þessara starfa og fólksins sem vinnur þau geta ekki verið til störf fyrir Hámenntað fólk, menntun er lúxus.

Mér finnst starf þitt við að vekja athygli á náttúru Íslands vera mjög mikilvægt, en ég er ósammála þér um að Ísland sé eingöngu Náttúruundur.

Með kveðju, Káta

Káta (IP-tala skráð) 19.10.2008 kl. 21:07

4 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Rétt er það að enginn getur verið án þessara starfa og sjálfur hef ég unnið flest þau störf sem eru af þessum toga og vinnan göfgar manninn. En það er í hrópandi ósamræmi við kröfur 21. aldar að endilega þurfi meirihluti nýrra starfa að vera af þessum toga, ekki hvað síst þegar til þess er litið að hér er um að ræða alltof fá störf til að bjarga atvinnuástandi þjóðarinnar.

Enn og aftur eru tölurnar hér: Störfin í sex risaálverum og tveimur olíuhreinsistöðvum munu aðeins gefa 3% starfa á Íslandi. Að ætla að skpa þessi fáu störf fyrir nýjar hundruð milljarðar króna skuldabyrðar ofan á allt annað er engin lausn heldur áframhald á dellunni sem hefur ráðið ríkjum hingað til.

Ómar Ragnarsson, 19.10.2008 kl. 21:33

5 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Gallinn við viðtalið við Björk í RUV í kvöld er að því lauk með því að hún hélt því fram að skattgreiðendur væru nú að greiða 150 milljarða fjárglæfra skuldir vegna Kárahnjúka. 

Annað sem ég tók eftir að þessar nýsköpunarhugmyndir eiga að mynda mótvægi við stóriðju.  Að stilla málunum svona upp er svipar til stríðs gegn hryðjuverkum sem er eitthvað sem leiðir til enn meiri sundrungar.

Eins finnst mér tónninn vera kaldranglegur hjá þér þegar þú talar um að varnarlínan liggja um Leifsstöð og stillir því upp þannig að hinn kosturinn sé verksmiðjulíf á útskeri við norður íshafið.  

Geta þessar nýsköpunarhugmyndir ekki átt fullan rétt á sér án þess að vera settar fram á þennan hátt? 

Magnús Sigurðsson, 19.10.2008 kl. 22:07

6 Smámynd: Máni Ragnar Svansson

Fólk með Gullhjarta er það sem við þörfnumst mest þessa dagana.  Hjörtu úr hreinu og skíru gulli, ekkert glópagull eða ál með yfirborðskenndri gyllingu í efsta laginu.  Ómar Ragnarsson og Björk Guðmundsdóttir meðal annarra virðast hafa þannig hjarta.  Heill sé þeim.  Ég bið landsmenn að virkja nú heilbrigða skynsemi sína, frekar heldur en fallvötnin.  Reisa nú hús sem byggð eru á bjargi, en ekki sandkastala í fjörunni, sem næsta flóð tekur.  Ísland er náttúruundur, bæði landið og fólkið, en linnulaust er reynt að afskræma fólkið og gera að viðundrum, okkur sjálf sem erum svo mikil undur, rétt eins og fjöllin og fallvötnin.  Sýnum virðingu og þá mun okkur vera sýnd virðing.

Máni Ragnar Svansson, 19.10.2008 kl. 22:18

7 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

"Kosturinn sem Björk og félagar bjóða upp á er svo miklu betri "

Hvaða kostur? Það eina sem ég sé í þessari frétt er:

  • "...að halda landinu í byggð"
  • "Að halda vel menntuðu fólki hér á landi"
  • "...líta meira á Ísland sem eina heild“
  • "...  hvernig getum við hugsað hlutina upp á nýtt"
  • "...hvernig getur hátæknin hjálpað menntun, líftæknin heilsunni, menntunin heilsunni og svo framvegis,“
  • "...þykja vænlegar til arðsemi og aukningar á sjálfbærni og fjölbreytileika"

Einhvern veginn finnst mér ég eitthvað kannast viðþessa frasa. Jæja, við sjáum hvað setur.

.

Gunnar Th. Gunnarsson, 19.10.2008 kl. 22:29

8 Smámynd: Gísli Gíslason

Hvað er verið að segja um það vel menntaða og dugmikla fólk sem flutti austur til að starfa við álverið eða afleiddum störfum af þeirri starfsemi? Eða fólk án langskólamenntunar sem starfar við álverið eða afleiddum störfum?  Jú það er verið að segja að svona störf eru ekki nóg góð fyrir Íslendinga.  Alcoa er stærsti atvinnurekandi á Austurlandi í dag.  Það er erfitt að ímynda sér fjórðunginn ef ekki hefði komið til þessi myndarlega uppbygging. 

Það er frábært framtak að skoða vel alla möguleika með atvinnunýsköpun, og það er hægt að taka hattinn ofan fyrir Björg vegna framtaksins. En það er óþarfi að gera lítið úr og hafna frekar uppbyggingu álvera.  Ef aðrar betri hugmyndir koma fram í dagsljósið þá fara álver sjálfkrafa af borðinu.  En þangað til er eðlilegt að hafa álver og olíuhreinsistöð sem eitt af valkostunum.

Gísli Gíslason, 19.10.2008 kl. 22:43

9 Smámynd: Þorsteinn Briem

CCP á Grandagarði áskrift að tölvuleiknum (Netleiknum)  EVE Online fyrir um 15 evrur á mánuði og erlendir áskrifendur eru nú tæplega 300 þúsund talsins.

Gjaldeyristekjur CCP af EVE Online eru samkvæmt því um 600 milljónir króna á mánuði, um sjö milljarðar króna á ári, miðað við skráð núverandi gengi, og jukust  að sjálfsögðu gríðarlega með gengishruni krónunnar nú í haust. Gengi krónunnar mun hins vegar hækka frá því sem nú er en áskrifendunum fjölgar jafnt og þétt.

Um sjö milljarða króna gjaldeyristekjur á ári af þessum eina tölvuleik nægja til að greiða laun um tvö þúsund manna með 300 þúsund króna tekjur á mánuði, til dæmis í álveri.

Hjá Norðuráli á Grundartanga unnu hins vegar um 500 manns í lok síðastliðins árs, þar af um 400 félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness, og á vef félagsins er tekið sem dæmi að starfsmaður, sem hefur unnið í sjö ár hjá Norðuráli, fái þar nú 308.994 króna mánaðarlaun.

En Norðurál þarf að sjálfsögðu að flytja inn gríðarmikið hráefni til framleiðslu sinnar.

Þorsteinn Briem, 19.10.2008 kl. 23:22

10 Smámynd: Þorsteinn Briem

CCP á Grandagarði selur áskrift að tölvuleiknum EVE Online, átti þetta að sjálfsögðu að vera.

Dæmið hér að ofan er hins vegar einfaldað, því ekki er reiknað með launatengdum gjöldum.

Þorsteinn Briem, 19.10.2008 kl. 23:29

11 Smámynd: Árni Gunnarsson

Átti í dag tal við yngsta son okkar hjóna sem starfs síns vegna tengist ungu fólki og reyndar fólki á öllum aldri. Hann var bjartsýnn á að hugarfar fólks væri nú að breytast hratt í átt til nýrra og heilbrigðari gilda. Í hugum margra væri dansinum kringum gullkálfinn lokið og hans tími væri liðinn undir lok. Tímar fjölskyldusamfélagsins væru þeir tímar sem nú skiptu máli og að græðginni yrði nú sagt stríð á hendur.

Ég las í dag á vef Framtíðarlandsins viðtöl við tvo harða markaðsmenn, þá Óskar Magnússon og Ólaf Teit Guðnason. Þeir lýstu breyttum viðhorfum sínum til náttúruverndar og jafnframt þess ofurkapps sem lagt hefur verið á virkjanir og álver. Þessi viðtöl þóttu mér áhugaverðari en margt það sem ég hef lesið frá opinberum andstæðingum stórvirkjana.

Ég leyfi mér að vona. 

Árni Gunnarsson, 19.10.2008 kl. 23:52

12 Smámynd: Þorsteinn Briem

Launakostnaður atvinnurekenda samanstendur af beinum launagreiðslum, launatengdum opinberum gjöldum og öðrum óbeinum launakostnaði, og miðað við að þessi kostnaður sé 40% hjá Norðuráli eru laun og launatengd gjöld verkamanns hjá fyrirtækinu samtals um 433 þúsund krónur á mánuði.

Um 600 milljóna króna gjaldeyristekjur CCP af Eve Online á mánuði nægja því til að greiða laun og launatengd gjöld um 1.400 verkamanna hjá Norðuráli. Þeir eru hins vegar mun færri, eða um 400 talsins í Verkalýðsfélagi Akraness.

Þorsteinn Briem, 20.10.2008 kl. 00:02

13 Smámynd: Johann Trast Palmason

Ég heyri fleiri og fleiri tala um að fara erlendis og vinna því það virðist vera mun skynsamlegri kostur að borga skuldir í íslenskum bönkum erlendis frá.

Sjálfur missti ég vinnuna sem bein afleiðing af hruni bankana og hef verið atvinnulaus siðann og er alvarlega að huxa um að flytja til noregs. það skilur aldraða foreldra mína eina eftir a landinu þar sem við systkinin erum 2 og hun er farinn.

Hver á að sjá um ykkur þegar við verðum öll farinn ?

það er spurninginn.

Johann Trast Palmason, 20.10.2008 kl. 00:43

14 Smámynd: Kjartan Pétur Sigurðsson

Ég er fluttur...

Kjartan Pétur Sigurðsson, 20.10.2008 kl. 05:19

15 Smámynd: Fjarki

Það er ekkert óeðlilegt við það að fólk fari úr fyrir landsteinana að leita tekna.

Þeir Pólsku starfsmenn sem ég hef unnið með hafa alltaf talað um að senda pening til síns heima og fjárfest þar, nú hefur dæmið snúist við.

Einhverjir sjá þá möguleika að fá fleiri krónur fyrir launin sín erlendis og vonandi sjá sér hag í því að send pening heim til fjárfestingar, sem skapar líka að einhverju leiti gjaldeyrir. En ég á ekki vona á að fólk fari nema í neyð...... og því miður þá er stefnan að hallast í þá átt.

Þó að ég hafi ekkert á móti álverum sem slíkum þá finnst mér hálf kjánalegt að stökkva alltaf á það sem lausn allra vandamála.

Þeim háu upphæðum sem þar er varið, geta skapað fjölda starfa í öðrum geirum atvinnulífsins ef slíkir peningar væru settir í markaðssetningu og stuðning.

Þá til dæmis Tónlist og annarra listgreina til útflutnings, Ferðaþjónustu innanlands, Hugbúnaðar og nýsköpunar-geirans!

Það eru fleiri leiðir til að skapa gjaldeyri en Ál! Íslendingar eru hugvitssamir en hafa kannski ekkert sérstaklega mikinn stuðning til að koma hugviti sýnu á framfæri.

Hér ríkja ennþá þau sjónamið að vinna með höndunum en ekki höfðinu.

Held að flestir hljóti að vera sammála um að það þurfi bæði til.

Fjarki , 20.10.2008 kl. 09:13

16 Smámynd: Þór Gíslason

Ég tek ofan fyrir Björk og þeim sem að þessari mál / ráðstefnu stóðu. Þetta er það sem þarf til þess að finna þetta "annað" sem svo lengi hefur verið bent á að þurfi að leggja áherslu á varðandi uppbyggingu atvinnumöguleika á landinu. Og vissulega er þörf á að huga vel að því að fólk eigi möguleika á vinnu, hvort sem það er langskólagengið eða ekki. Það er engu minni hætta á að þeir sem litla menntun hafi flýi land en þeir sem "Há"menntun hafa.Menntun er af hinu góða en háskólamenntun er ekki forsenda góðs lífs. Við verðum líka að passa okkur á að "menntahroki" líkt og "efnahroki" skipti ekki þessari þjóð í andstæðar fylkingar. Við byggjum öll þetta land og öll ... flest ... viljum við gera það sem þarf til þess að ná okkur aftur á strik. Menntunin ein og sér gerir það ekki (voru ekki allir þeir sem að peningastefnu og útrás bannkanna há-menntaðir) heldur samstillt vinna allra sem getu hafa, háskólamenntaðra hugsuða sem sigggróna sjómanna og verkfræðinga sem verkamanna. Það er ekki spurningin um annaðhvort eða. Við þurfum á fjölbreytni að halda. En fjölbreytni finnst ekki nema í fjölmenni og fjölmenni finnst yfirleitt ekki nema þar sem fjölbreytni er. Þetta er nokkurskonar svikamilla.Ég er landsbyggðamaður. Hjarta mitt slær með heilsusamlegri takti landsbyggðarinnar. Danshúsa ritmi suð-vestur hornsins á ekki eins vel við mig. Mér til mikillar gleði heyrist mér fólk vera að tala fyrir því að hægt verði á taktinum hér. Það hefur hinsvegar verið einn mesti vandi landsbyggðarinnar að fjölbreytnin hefur ekki verið til staðar í litlu samfélögunum. Ungt fólk sem farið hefur burt til að ná sér í það sem háskólafólk hefur af sínu lítillæti kosið að kalla "æðri menntun"(og upphafið sjálft sig þar með) hefur ekki komið aftur. Ekki vegna þess að lífið væri betra annarsstaðar heldur vegna þess að það hafði ekki að neinu að hverfa eftir námið. Þessu hefur landsbyggðin lengi barist gegn. Að öll sú starfsemi sem krefst hærra menntunarstigs en stúdentsprófs er komið fyrir við fótskör háskólans. Háskólafólk hefur lengi barist gegn flutningi eða stofnun starfsemi af Reykjavíkursvæðinu út á land. Það er því að miklu leiti við háskólasamfélagið að sakast að "æðri" störf hafa ekki orðið til úti á landi.Nú vill svo til að í og við álver skapast störf. Mörg þeirra eru framleiðslustörf í kerskálum, rétt er það. En það eru vel launuð störf fyrir ófagmenntað fólk í geira sem hefur hvað minnsta starfsmannaveltu í íslensku altvinnulífi. Er það vegna þess að það sé ekki um aðra vinnu að ræða? Nei fyrirtækin sem mest reynsla er komin á hvað þetta varðar eru staðsett á suðvestur horni landsins, þar sem fram til nú hefur verið úr nógu að moða. Fyrir utan framleiðslustörfin skapast líka fjöldin allur af stjórnunar-, skrifstofu-, tækni- og iðnaðar störfum sem fjölbreytta menntun þarf til. Utan álversins skapast líka fjöldi starfa sem krefjast mismikillar menntunar. Og afleiddu störfin skapast fyrst og fremst vegna þess fasta grunns sem er skapaður með tilkomu álvers. Þau eru nefnilega reist til nokkurra áratuga og taka sveiflur efnahagslífs með samfélaginu en eru ekki horfin um leið og betur árar annarsstaðar eða hreinlega snúa tánum upp eins og fármálastofnanir hér syðra.Þetta snýst ekki um annað hvort eða. Það sem máli skiptir nú og á alltaf að skipta máli er að fjölbreytnin fái að blómstra, allstaðar. Og til þess að það náist þarf að skapa þær forsendur til þess að fjölbreytni þrífist. Það gerist ekki með því að ráðandi hópur skilgreini sjálfan sig, menntun sína og lífsmáta sem "æðri".Til þeirra sem tala um að fara af landi brott. Ég velti þessu fyrir mér á heimleið, eftir uppsögn úr vinnu, til Dúnu minnar sem þegar var búin að missa vinnuna. En fyrir mér lítur myndin svona út: Það sem nú skellur á fjölskyldu minni er engu minna í eðli sínu en náttúruhamfarir. Þessi atburðarás er utan míns áhrifasviðs og hefur ekkert með persónu mína eða hæfileika að gera. Og eftir þessar náttúruhamfarir stendur sviðin jörð, brostnar vonir, óvissa og... tækifæri. Ég mundi ekki flytja að heiman eftir að samfélagið mitt yrði fyrir jarðskjálfta, heldur taka þátt í að byggja upp. Það sama á við núna. Ég þekki sjálfan mig það vel að ég veit að hér á landi vil ég vera. Því vil ég taka þátt í og hafa áhrif á þá uppbyggingu sem framundan er. Ég vil geta staðið keikur, eins og Íslendingum einum er lagið, þegar þetta er að baki og geta glaðst innra með mér yfir því góða samfélagi sem við eigum.

Góðar stundir :-) 

Þór Gíslason, 20.10.2008 kl. 10:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband