Mismunun eftir þjóðernum.

Loksins var birt opinberlega í Kastljósi viðtal Árna Mathiesens við Darling, fjármálaráðherra Breta 7. október. Greinilega kom fram í viðtalinu að Darling skildi orð Árna sem svo að búið væri að tryggja allar inneignir sparifjár í Landsbanka Íslands og útibúum hans á Íslandi en ekki í Bretlandi. Með öðrum orðum: Sparifjáreigendum í útibúum bankans væri mismunað eftir löndum og þar með eftir þjóðerni.

Þessi gjörð sem mismunaði fólki, átti vafalaust að róa fólk hér heima, þ. e. kjósendur Árna, en hann var í símtalinu að tala við stjórnmálamann sem þurfti að svara spurningum sams konar hóps kjósenda sinna í Bretlandi. 

Auðheyrt var á viðtalinu hvernig Darling reiddist smám saman, talaði um fyrri blekkingar Íslendinga og greip frammí fyrir Árna.

Harkaleg, ofbeldisfull og fordæmanleg viðbrögð Breta við þessu voru því greinilega í reiðikasti yfir þessari mismunun og ekki bætti málstað Íslendinga yfirlýsing seðlabankastjórans í Kastljósi sama kvöld í svipuðum dúr, sem margspilað var í sjónvarpsfréttatímum um hálfan hnöttinn.  

Nú ríkir stríðsástand milli þjóðanna á þessum vettvangi, bankastríðið hefur bæst við þorskastríðin. Ég velti fyrir mér hvort þetta hefði farið á annan veg ef íslensk stjórnvöld hefðu látið það sama gilda um eigendur sparfjárins í útibúunum hér á landi eins og í útibúunum í Bretlandi. 

Þá hefði væntanlega allt orðið vitlaust hér heima en á móti hefði komið að Bretar hefðu ekki haft sömu mismununarástæðu til að stjórna gerðum sínum og raunin varð með stórkostlegum afleiðingum, sem enginn sér enn fyrir endann á.  

 


mbl.is Viðræðum við Breta lokið í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærdómurinn af Landsnefndinni 1771.

1771 sáu umbótasinnaðir Danir að eitthvað var meira en lítið að á Íslandi. Þar fækkaði fólki þótt fólki fjölgaði í Noregi og öðrum Norðulöndum. Konungur setti þá á stofn svonefnda Landsnefnd til að gera tillögur um úrbætur og voru nokkrir liðir tilgreindir sérstaklega, svo sem betri skipakostur og útgerðaraðstaða, sem hefði ýtt undir myndun þéttbýlis við sjávarsíðuna.

Formaður nefndarinnar var Norðmaður til að auka á líkur þess að hagsmunatengsl hefðu ekki áhrif. Landsmönnum var gefinn kostur á að senda inn ábendingar og bárust nefndinni á annað þúsund slíkar.

Þá áttu 10% bænda 90% jarða á Íslandi og þeir, ásamt embættismönnum íslenskum réðu öllu sem þeir vildu. Hvergi í ríki einveldis í Evrópu réði einvaldskonungurinn minna en hér á landi. Í Landsnefndinni voru fulltrúar þessara aðila í meirihluta og niðurstaðan var sú að nánast engar tillögur um úrbætur hlutu brautargengi.

Það átti sinn stóra þátt í að seinka framförum hér á landi í meira en heila öld. Það var ekki nóg að Norðmaður væri formaður nefndarinnar, - hún hefði að minnsta kosti að meirihluta til þuft að vera skipuð útlendingum.

Af þessu eigum við að læra nú.  


mbl.is Vill óháða erlenda úttekt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsið og eldsmaturinn.

Alþjóðlega fjármálakerfinum má líkja við mörg samliggjandi hús, mjög mismunandi stór, þar sem fer fram starfsemi sem getur verið góður eldsmatur, því að í þeim þarf að kynda miklar kamínur. Íslandi má líkja við lítið hús sambyggt við skýjakljúfa Bandaríkjanna og næstu stórþjóða.

Íslendingar ákváðu að hafa flugeldaverksmiðju og tengda starfsemi í sínu litla húsi og kynda þar mikinn eld í risastórri kamínu og fylla húsið hlutfallslega af miklu meiri eldsmat og eldsneyti en gert var í stóru húsunum, - kynda eldinn í kamínunni sem ákafast.

Forsenda fyrir því að allt gengi vel var að hvergi færi neitt úrskeiðis, eins og Murhphyslögmálið segir þó að sé óhjákvæmilegt fyrr eða síðar, ef það geti gerst.

Nokkrir kunnáttumenn bentu á að í litla Íslandshúsinu væri allt of mikill eldsmatur miðað við stærð hússins og fátækleg slökkvitækin, sem stæðiust engar eðlilegar kröfur.

Auk þess væri búið að efna til svallveislu í húsinu þar sem menn höguðu sér óskynsamlega og yllu hættu. Á þessi varnaðarorð var ekki hlustað því að allir voru svo uppteknir við að njóta gróðans og veislunnar og hrópa "Húrra! Húrra! Húrra!, meira að segja slökkviliðsstjórinn sem áður hafði verið byggingarmeistari og hannað húsið og starfsemina í því. 

En svo gerðist það sem ekki mátti gerast, að óvitar og ábyrgðarlausir gróðapungar misstu eldinn úr höndum sér í bandaríska skjýjakljúfnum og mikill flótti brast á þegar eldurinn læstist í nærliggjandi byggingar. Fljótastur var hann að læsast um minnsta húsið sem var þar að auki fyllst allra húsanna af eldsmat. 

Svo notuð sé önnur líking, þá tróðustu hinir minnstu fyrst undir á flóttanum undan eldinum í fjármálakerfi heims. Það vorum við Íslendingar.

Tvær staðreyndir blasa við:

1. Íslendingar stefndu einir og óstuddir í það ástand að allt myndi um síðir fuðra upp hjá þeim þótt áfallalítið gengi hjá öðrum. Þetta á eftir að skýrast betur. 

2. Það var þó eldurinn í bandaríska skýjakljúfnum sem olli því að allt fór í bál og brand.

Eftir situr spurningin um það hve viturlegt það var að treysta á endalausa velgengni og heppni í stóra skýjakljúfnum og litla sambyggða húsinu sem stóðst engar kröfur um brunavarnir. Og spurningin um ábyrgð beggja húseigendanna, hins bandaríska og hins íslenska.  

 

 


mbl.is Sendinefnd bandaríska fjármálaráðuneytisins væntanleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðvaranirnar áttu rétt á sér.

Þegar alda lagasetninga og ráðstafana gegn hryðjuverkum reis í vestrænum löndum eftir 11. september 2001 vöruðu margir við þeirri hættu að of langt yrði gengið í setningu slíkra laga því að það fæli í sér hættuna á mistbeitingu, kúgun, ófrelsi og ótta, sem væri einmitt tilgangur hryðjuverkamanna að innleiða í þessi lönd lýðræðis, öryggis og frelsis.

Ofbeldisaðgerðir Breta sýna að þessi varnaðarorð áttu rétt á sér. Á sínum tíma ákváðu tveir Íslendingar í óþökk mikils meirihluta þjóðar sinnar að standa fast að baki breskum og bandarískum stjórnvöldum í löglausri innrás í Írak í nafni aðgerða gegn miðstöð hryðjuverkamanna og gereyðingarvopnum þeirra.

Hvorugt fannst en það er kaldhæðni örlaganna að nú misnota þessi sömu bresku stjórnvöld aðgerðir gegn hryðjuverkamönnum gegn þjóðinni sem einstaklingarnir tveir gerðu Bretum þann greiða að skilgreina sem viljugan stríðsaðila í herför þeirra.  


mbl.is Gott dæmi um misnotkun laga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 23. október 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband