Mismunun eftir þjóðernum.

Loksins var birt opinberlega í Kastljósi viðtal Árna Mathiesens við Darling, fjármálaráðherra Breta 7. október. Greinilega kom fram í viðtalinu að Darling skildi orð Árna sem svo að búið væri að tryggja allar inneignir sparifjár í Landsbanka Íslands og útibúum hans á Íslandi en ekki í Bretlandi. Með öðrum orðum: Sparifjáreigendum í útibúum bankans væri mismunað eftir löndum og þar með eftir þjóðerni.

Þessi gjörð sem mismunaði fólki, átti vafalaust að róa fólk hér heima, þ. e. kjósendur Árna, en hann var í símtalinu að tala við stjórnmálamann sem þurfti að svara spurningum sams konar hóps kjósenda sinna í Bretlandi. 

Auðheyrt var á viðtalinu hvernig Darling reiddist smám saman, talaði um fyrri blekkingar Íslendinga og greip frammí fyrir Árna.

Harkaleg, ofbeldisfull og fordæmanleg viðbrögð Breta við þessu voru því greinilega í reiðikasti yfir þessari mismunun og ekki bætti málstað Íslendinga yfirlýsing seðlabankastjórans í Kastljósi sama kvöld í svipuðum dúr, sem margspilað var í sjónvarpsfréttatímum um hálfan hnöttinn.  

Nú ríkir stríðsástand milli þjóðanna á þessum vettvangi, bankastríðið hefur bæst við þorskastríðin. Ég velti fyrir mér hvort þetta hefði farið á annan veg ef íslensk stjórnvöld hefðu látið það sama gilda um eigendur sparfjárins í útibúunum hér á landi eins og í útibúunum í Bretlandi. 

Þá hefði væntanlega allt orðið vitlaust hér heima en á móti hefði komið að Bretar hefðu ekki haft sömu mismununarástæðu til að stjórna gerðum sínum og raunin varð með stórkostlegum afleiðingum, sem enginn sér enn fyrir endann á.  

 


mbl.is Viðræðum við Breta lokið í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég er búin að marglesa samtalið og get ekki séð neitt sem skýrt getur harkaleg viðbrögð Darling og Brown. Mig langar hreint ekkert til að taka hanskann upp fyrir íslenska fjármálaráðherrann, en ég fæ ekki betur séð en að hann hafi sagt að innstæður á breskum reikningum væru tryggðar eins og lýst er betur í bréfi sem sent hafði verið bresku stjórninni, 16.000 pund, þ.e. rúmar 2,5 milljón ef pundið er reiknað á 160 kr. Það er ekki nokkur leið að mínu viti að túlka samtalið þannig að Íslendingar myndu ekki standa við skuldbindingar sínar. Og enn síður þegar haft er í huga að Árni segir að fyrst muni stjórnin koma reglu á hlutina á Íslandi og síðan geti hún snúið sér að því sem snýr að henni í útlöndum.

Orðrétt úr samtalinu:

AD: Hvað með eigendur innistæðna hjá ykkur sem eiga innistæður í útibúunum í London?

ÁMM: Við höfum tryggingasjóð innlána samkvæmt Directivinu og hvernig hann starfar er útskýrt í bréfinu og sömuleiðis loforð stjórnvalda um stuðning við sjóðinn.

AD: Svo réttindi almennings í þessu efni eru að ég tel sextán þúsund pund; og er það upphæðin sem fólk fær?

ÁMM: Tja, ég vona að það verði tilfellið. Ég get ekki kveðið skýrt úr um það eða tryggt það núna en vissulega vinnum við að því að leysa úr þessu máli. Við viljum sannarlega ekki hafa þetta hangandi yfir höfði okkar.

Íslenska ríkisstjórnin gerði stór mistök með því að ráða ekki breskan almannatengslafulltrúa í Bretlandi vegna þess að samskipti manna í svo gömlu lýðræðisríki sem að auki er mjög lagskipt skipta miklu máli. Það eru a.m.k. tveir menn í ríkisstjórninni sem eru menntaðir í Bretlandi og þeir hljóta að vita að enska er ekki sama og enska í því ágæta landi Englandi (það búa þar fleiri en Darling og Brown og þess vegna eru landið og þjóðin ágæt).

Eins og þú segir þá er auðséð á samtalinu að það þykknar í Darling eftir því sem líður á samtalið. En að rjúka til daginn eftir og beita Íslendinga lögum gegn hryðjuverkamönnum er óafsakanlegt, jafnvel þótt Darling hefði ástæðu til að vera vonsvikinn.

Helga (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 22:48

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Árni átti ekki að svara þessu með tryggingasjóðinn í Bretlandi. Hann átti að segja að því yrði svarað síðar... fljótlega... á næstu dögum. Þó Árni hafi vitað það að íslenska þjóðin gæti ekki, þyrfti ekki og myndi ekki borga þessar fjárhæðir fyrir einkafyrirtæki í útlöndum, þá var það ekki diplómatískt klókt af honum að gefa í skin að trygingasjóðurinn ætti ekki fyrir öllum innlánunum. Hann átti að láta sérfræðinganefnd um að skýra þá stöðu sem við erum í, auk þess hefði hann getað keypt dýrmætan tíma með því.

Gunnar Th. Gunnarsson, 23.10.2008 kl. 23:13

3 Smámynd: Baldvin Jónsson

Helga, ef að Árni hefði svarað honum skýrt en ekki á íslenskan máta stjórnmálamanna hefði þetta einfaldlega væntanlega ekki farið svona.

Í stað þess að svara spurningu AD um tryggingar á þann máta að hverjum og einum yrði bætt allt að 16.000 pundum, þá sagði hann loðið: "í samræmi við það sem stendur í bréfinu sem við sendum."

Líklega vegna þess að Árni þekkti ekki nógu vel innihald bréfsins og var á máta atvinnupólitíkusa á Íslandi, að reyna að bjarga sér með málskrúði.

Baldvin Jónsson, 23.10.2008 kl. 23:22

4 Smámynd: Haukur Nikulásson

Sorglegi hlutinn er sá að næstum allt sem seðlabankinn og stjórnvöld hafa gert og sagt hefa verið mistök á mistök ofan. Eintómar vondar ákvarðanir á eftir öðrum slæmum. Ég er hræddur um að sagan eigi eftir að verða mörgum manninum mjög óvinsamleg svo mildilega sé til orða tekið.

Haukur Nikulásson, 23.10.2008 kl. 23:23

5 identicon

Sæll, Ómar

Ég vil að allir sem lesa athugasemdir við bloggfærslur þínar lesi það sem hér fer á eftir:

Ég skora á Ómar Ragnarsson að vera talsmann og tengilið þjóðarinnar í þeirri orrahríð sem nú geisar. Þjóðina vantar tilfinningalega rödd sem getur sagt okkur á skiljanlegu máli hvað er að gerast og hvers vegna. Við erum orðin þreytt á að horfa upp á fjölmiðlasirkus og blaðafundi þar sem ekkert er sagt. Mér líður eins og örvita eftir slíkan "fréttaflutning" og sjálfsagt er það um fleiri en mig.  Það er ömurlegt að skilaboð stjórnvalda til þjóðarinnar eru einfaldlega þau að okkur komi ekkert við hvað ráðherrar og alþingismenn eru að spá, fólk sem við kusum sem fulltrúa okkar" Að þetta og hitt málið er svo viðkvæmt og blablabla. Við erum viti borin og viljum að okkur sé sýnt traust og virðing. Það er grunnatriðið í að við upplifum okkur sem þjóð að við erum með vegna þess að það sem er að gerast skiptir okkur öll máli. Það er talað um ímynd þjóðar, byrjum á grasrótinni, traustinu. Stjórnvöld og fjölmiðlar sýnið okkur traust.  Ekki tala niður til okkar eins og við værum börn. Ekki halda blaðamannafundi þar sem ekkert er sagt. Þetta kemur okkur við.  Veljum Ómar Ragnarsson sem millilið sem segir okkur hvað er að gerast og gefur okkur virðingu okkar á ný. Kveðja. Nína. Auk þess legg ég til að Framsóknarflokkurinn verði lagður niður.

Nína S (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 23:41

6 identicon

Baldvin, ég skil hvað þú ert að hugsa og ég svo sem hef líka leitt hugann að því.

Ég sá á bloggsíðu dómsmálaráðherrans íslenska að Darling hringdi þegar ríkisstjórnarfundur stóð yfir. Árni tók símann, þrátt fyrir að hann sæti fund, og fór fram á gang til að tala við Darling. Þetta finnst mér skipta máli vegna þess að svo virðist sem Árni hafi ekki haft tök á því að fletta upp í gögnum sem hann hefði þurft að gera til að standa jafnvel að vígi í samtalinu og Darling gerði.

Eitt af því sem er gott hafa í huga þegar þetta samtal er metið er að við Íslendingar erum oftar en ekki sett í þá aðstöðu í samskiptum við erlenda menn að hugsa í þeirra gjaldmiðli. Af hverju spurði Darling ekki Árna hvað tryggingin væri í íslenskum krónum? Árni hugsar jú, á íslensku og verðskyn hans er væntanlega betra í íslenskum krónum en sterlingspundum. Nefni þetta vegna þess að sá sem talar á móðurmáli sínu, hringir þegar vel stendur á hjá honum og ræðir málið út frá sínum eigin gjaldmiðli hann stendur miklu betur að vígi en sá sem talar útlensku, hleypur út af fundi og reiknar í huganum pund yfir í íslenskar krónur eða íslenskar krónur yfir í evrur og þaðan yfir í pund.

En það má líka segja að Árni hafi ekki átt að taka símann, ekki átt að svara spurningum Darling (hvað hefði Darling þá sagt pressunni?!), vísað á að aðra til að svara o.s.frv. Eftir stendur að ofsafengin viðbrögð Darling og Brown sem birtast í að beita hryðjuverkalögum á Íslendinga eru óafsakanleg.

Helga (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 23:46

7 Smámynd: Eiríkur Sjóberg

Ég leyfir mér að birta endurtekningu af blogi mínu:

 Er ekki smátt og smátt að koma í ljós að Davíð hefur haft margt til síns máls?

 Nú sem fyrr er ég ekki "Davíðs-maður".  En ef ég skoða atburðina undanfarið finnst mér gjörðir og sagnir Davíðs vera hárréttar.  Burt séð svo frá ábyrgð hans sem seðlabankastjóra lengra aftur í tímann.

 Davíð sagði í Kastljósþættinum fræga að íslenska ríkið ætti ekki að borga skuldir óreiðumanna.  Hann tók einnig fram að ríkið yrði að standa við það sem því bæri að standa við.  Punktur.

 Þetta er hárrétt hjá Davíð!  Afar mikilvægt er fyrir okkur sem þjóð að átta okkur á stöðunni sem upp er komin.  Sem þjóð myndum við ekki hafa efni á því að borga upp allar þær innistæður sem fólk ytra hefur sett í íslensku bankanna.  Þetta er hinn kaldi og bitri veruleiki sem við blasir.  Það er alheimskreppa!

 Íslenska ríkinu ber, skv. ákvæðum er leiða af EES-samningnum, að tryggja sem nemur um hæst rúmum 20 þúsund Evrum fyrir hvern sparifjáreiganda.  Evrópusambandslöndin eru skuldbundin að tryggja innistæður allt að rúmum 50 þúsund Evrum - og hafa reyndar rætt að hækka þetta upp í allt að 100 þúsund Evrur.  Hér skrifast því ljósu letri hverjar skuldbindingar íslenks samfélags eru.  Ef krafa breskra yfirvalda er að Íslendingar borgi meira en þessu nemur er um alvarlega aðför að íslenskri þjóð að ræða.

 Það er alger skylda ráðamanna á Íslandi að fara nú ekki of geist í lánveitingum og loforðum!  Ríkið (samfélagið/við) verður þó að standa við sínar skuldbindingar.  En alls ekkert umfram það!

 Því ábyrgð ætti alls ekki að hvíla bara á okkur, íslenskum almenningi.  A.m.k. siðfræðileg ábyrgð hvílir náttúrulega þyngst á þeim "óreiðumönnum" sem skuldsettu Ísland til helvítis.  Og ábyrgð hvílir á ráðamönnum hér og eftirlitinu á Íslandi.  En það er líka bláköld staðreynd að ábyrgð hvílir einnig á herðum sparifjáreigenda í útlöndum - þeir voru meira að segja varaðir við en létu ginnast af gylliboðum útrásar-Pésanna og fyrirtækjum þeirra - græðgin spyllti um fyrir þeim rétt eins og útrásar-Pésunum.  Í ofanálaga bera svo bresk yfirvöld og eftirlitsstofnanir ytra mikla ábyrgð!

 Samantekt Kastljóss kvöldsins var afar vönduð og upplýsandi (er loksins komin fram alvöru blaðamennska hér á Íslandi?).  Mér fannst Árni Matt. vera kurteis og hreinskilinn við herra Darling.  Og ég gat ekki séð að hann segði að Ísland ætlaði ekki að standa við skuldbindingar sínar!  Hann sagði gerði hins vegar tilraun til að segja mjög hreinskilningslega frá bláköldum veruleikanum.  Herra Darling viðhafði í því ljósi enga háttprýði, heldur tók jafnvel frammi í fyrir Árna. Herra Darling sýndi þarna algera óþolinmæði og var greinilega ekki á þeim buxunum að reyna að setja sig í spor viðmælandans.  Herra Darling virtist vera með fyrirfram mótaða afstöðu gagnvart Íslandi - kannski mótaða eftir möguleikanum á að auka nauðsynlegar vinsældir sjálfs sín, flokks síns og forsætisráðherra!

 Svo sjónvarpar og útvarpar herra Darling því að Íslendingar ætli ekki að standa við sitt!!!  Öllum rétt hugsandi mönnum hlýtur að vera ljóst hversu grafalverg slík útvörpun er.  Framhaldið er svo þekkt, Bretar frysta íslensku bankanna með því að nota sérhönnuð hryðjuverkalög - og setja með því Íslendinga á sannan kaldan klaka.  Aðgerðir Breta eru algerlega óásættanlegar og út úr öllu korti!

 Þegar atburðir eru jafn ógnvænlegir og nú steðja að Íslendingum og óvissan er jafn mikil og raun ber vitni skiptir miklu að ráðamenn tali skýrt til þjóðarinnar og jafn mikilvægt er að lausnir komi fram.  Þó er ekki ráð að flana að neinu!

 Þótt Sjálfstæðisflokkurinn eigi í mínum huga að bera mikla og þunga ábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin í efnahagsmálum Íslands þá verð ég að segja að mér finnst Geir Haarde standa sig ágætlega og mér virkilega sýnist ráðamenn vera að reyna að spila eins skynsamlega og hratt og í mannlegu valdi stendur.  Mér sýnist þeir raunverulega bera hag almennings og komandi kynslóða fyrir brjósti.

 Ráðamenn mega alls ekki setja íslenska þjóð á slíkan skuldaklafa að við ráðum ekki við hlutina.  Ég treysti því að þeir ráðamenn sem nú ráða för séu einmitt að vinna með þetta ofarlega í huga.  Það er enda engin siðferðileg eða lagaleg skylda til þess.  En málin eru auðvitað erfið og snúin.  Hér er aldeilis ekki um neitt gamanmál að ræða.

 Mjög mikilvægt er að við veitum ráðamönnum traust okkar á meðan á þessu fárviðri stendur.  Framtíðarskipan mála á Íslandi og uppgjör við fortíð eiga svo auðvitað að fara fram þegar þar að kemur.

 En gáum að áður oss bræði glepur!

Eiríkur Sjóberg, 24.10.2008 kl. 00:25

8 Smámynd: Ómar Ragnarsson

Ég er búinn að vera nógu lengi í fjölmiðlamennsku til að vita, að í mörgum erlendum fjölmiðlum er aðeins spilaður stuttur bútur viðtala og þessi stutti bútur oft aftur og aftur. Innan 30 mínútna er íslensk þýðing á mikilvægum ummælum í útsendingu á netinu komin á borð ráðuneyta ráðuneyta, stofnana, fyrirtækja og fjölmiðla út um víða veröld.

Þannig var það með ummæli Davíðs í sjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum lungann úr heilum degi, vegna tímamismunarins.  

Þar sem ég var staddur var engin leið að leiðrétta neitt að neinu marki, - þegar maður sagðist vera frá Íslandi var sagt við mann: "Já, þar sem þrjótarnir ætla ekki borga neitt."

Þetta er grátlegt, einkum vegna þess hvernig Bretarnir hafa nýtt sér þetta og hagað sér svívirðilega í þessu máli.  

Ómar Ragnarsson, 24.10.2008 kl. 00:57

9 identicon

Sæll, aftur Ómar

Þarna kemur það. Reynsla þín af fjölmiðlum. Kynni þín af fólkinu í landinu.

Treysti engum betur en þér til að segja okkur þjóðinni hvað er að gerast.

Ekki bara á netinu, það eru svo margir sem hafa ekki aðgang að því.

Vona að fleiri verðí til að hvetja þig. Allavega upp á ensku: I' spres the word. Kveðja Nína.

Auk þess legg ég til að Framsóknarflokkurinn verði lagður niður 

Nína S (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 01:08

10 identicon

Prentvilla. Setningin átti að vera á ensku: I'll spread the word.

Gangi þé vel

Nina S (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 01:15

11 identicon

Hagfræðingurinn í Kastljósi í gær ráðlagði: Forsætisráðherrann okkar segi við breska: við munum standa við allar lagalegar skuldbindingar okkar og ekki krónu meir. Og láta reyna á það fyrir dómstólum ef þeir samþykkja ekki.

En  það skyldi þó ekki vera ein aðalástæða fyrir þessu gjörningaveðri, sem yfir okkur gengur, sé óskýrleiki í tali? Hin slæma lenska á Íslandi að tala í kringum hlutina, því þá þarftu ekki að taka ábyrgð á þeim (því þá er auðveldara að ljúga sig frá vitleysunni)!

http://okurvextir.blogspot.com

Rósa Halldórsdóttir (IP-tala skráð) 24.10.2008 kl. 08:44

12 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það er ljóst að Árni Mathiesen er fálmandi í þessu samtali, þá væntanlega vegna þess að hann er full upplýstur um ástand mála. Þó er ekkert sem túlka má sem hótun í orðum hans, þótt ákveðinnar uppgjafar gæti.

Hitt sem mér þykir ekki nægilega upplýst, en það eru ósannindin sem borin eru upp á viðskiptaráðherra.

Sigurður Ingi Jónsson, 24.10.2008 kl. 11:29

13 Smámynd: Ævar Rafn Kjartansson

Tími Íslandshreyfingarinnar er kominn! Með venjulegt heilvita fólk í forystu án aflóga eða valdsjúkra stjórnmálamanna. Þeir sem hafa verið við völd sl. áratug hafasýnt að þeim er ekki treystandi fyrir hagsmunum venjulegs vinnandi fólks.

Auk þess legg ég líka til að Framsóknarflokkurinn verði lagður niður

Ævar Rafn Kjartansson, 24.10.2008 kl. 12:29

14 Smámynd: Brynjólfur Þorvarðsson

Árni sagði í þessu viðtali það sama og Geir sagði á blaðamannafundi daginn eftir: Innistæðutryggingin vegna Icesave yrði borguð út úr sjóði sem var tómur. það vissu allir sem vildu. Innistæðutryggingarsjóður er með kannski 18 milljarði íslenskra króna, meðal annars vegna þess að íslensk yfirvöld brugðust eftirlitshlutverki sínu þarna eins og annars staðar. Bankarnir áttu að borga í sjóðinn en gerðu ekki.

Í Bretlandi og Hollandi voru samtals 420.000 innistæðueigendur. Hámarksábyrgð íslenska ríkisins hefði numið 420.000 * 20.500 * 150 = 1.291.500.000.000 krónum.

Þetta samsvarar þjóðarframleiðslu íslendinga. Um þetta snýst málið, íslenskir ráðamenn ákváðu að tryggja ekki þessar innistæður umfram innistæðutryggingasjóð og eignir erlendis (sem eru auðvitað nánast engar). En íslenska ríkið yrði stikkfrí.

Engin önnur þjóð hefur látið sér koma til hugar að fara þessa leið. Bretar tryggðu sjálfir allar innistæður í breskum bönkum sem fóru í þrot, sama hver átti innistæðuna.

Brynjólfur Þorvarðsson, 24.10.2008 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband